laugardagur, apríl 02, 2011
Upplifun: Skrautleg leiksýning í trjátoppi
Ég varð fyrir mjög framandi og sérkennilegri upplifun í hverfinu í dag. Ég fór út að skokka í svölu vorloftinu og heyrði undarlegt ýluhljóð, leiftrandi eins og loftárás, eins hvellt og leysigeislarnir úr gömlu góðu vísindaskálsögunum. Það var allt í kring og aðallega fyrir ofan mig. Þetta var virkilegur hávaði - mjög áberandi. Þá fór ég að skima um eftir fuglum og tók eftir óvenju bústnum fuglum í trénu rétt fyrir ofan mig. Ekki einum heldur fleiri, hátt í tuttugu talsins. Þeir voru ívið stærri en Skógarþrösturinn en þó ekki eins miklir um sig og dúfur, gráleitir með dúsk á höfði og fullt af litum hér og þar. Vængirnir voru mynstraðir á jaðrinum og andlitið svart og hvítmynstrað í stíl, með gráan búkinn þar á milli. Mér fannst ég horfa á fugl úr fjarlægum heimi, ekki móleitan, litlausan eins og flesta íslenska, heldur skrautfugl sem tilheyrði annarri veröld. Þetta var eins og að horfa á leiksýningu mitt í gráum hversdagsleikanum, leiksýningu frá Kína. Ég gapti og fólk fór að horfa á mig þar til ég tók mig saman í andlitinu og hélt minni för áfram. Tuttugu mínútum síðar átti ég leið fram hjá svæðinu aftur þar sem fuglahópurinn hélt sig og ég heyrði langt að skvaldrið í fuglunum. Þeir eru ekki vanir því að fela sig þessir. Svo fór ég beint í tölvuna og komst að því að þetta var hin fræga Silkitoppa. Ótrúlega glæsilegur fugl.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Sá einu sinni 15 silkitoppur í tréi að vetrarlagi. Ævintýraleg sjón.
Kv
Jón Már
Þetta virðist vera mynstrið - að þær haldi sig í svona hópum. Þær heita víst "Bohemian Waxwing" á ensku og vísar fyrri hluti orðsins í sígauna Bóhemíu og flökkueðli þeirra. Fuglarnir ferðast um í hópum í leit að fersku æti. Þeir líta helst bara við ferskum ávöxtum og þurfa því sífellt að vera á ferðinni. Og hópurinn er mjög áberandi. Bæði er það hópastærðin, litadýrðin og svo hljóðin sem þær gefa frá sér sem eru nokkuð hvell og áberandi. Mögnuð sjón.
Ótrúlegt...ekki skrítið að maður verði gáttaður, og tapi áttum í smástund....
Hefði verið frábært ef aðstæðurnar hefðu verið öðruvísi til dæmis í göngutúr með myndavélina eins og venjulega og náð mynd af ævintýrinu....
Skrifa ummæli