föstudagur, júlí 29, 2005
Daglegt líf: Sumarglufa
Eftir vætutíð er ekki laust við að við Vigdís nytum okkar vel í sólríku vikunni sem er að baki. Við fórum nánast daglega í sund og notuðum garðinn okkar til hins ítrasta (borðuðum meðal annars kvöldmatinn okkar utandyra í almestu heiðríkjunni). Ég hjólaði um hverfið í þægilegum gír eða skokkaði. Við hittum ekki marga þessa daga en mæltum okkur þó mót við Kristján og Stellu. Við höfum ekki hitt þau mánuðum saman enda hafa þau verið búsett erlendis allan síðasta vetur og verða hér á landi aðeins í nokkrar vikur í viðbót áður en þau fara út aftur. Það vill svo skemmtilega til að þau eru nánast samstíga okkur Vigdísi í meðgöngu og tilvonandi barneignum í vetur og höfðum við því margt að ræða og margar bækur saman að bera. Talandi um bækur, Stella er líka nýútskrifuð sem bókmenntafræðingur og fannst mér tilvalið að færa henni skemmtilega bók að gjöf, sem hún virtist hæstánægð með (sjá hér). Þetta var annars makindalegt stund þar sem við flatmöguðum og "flatbökuðum" til skiptis í aflíðandi Bakarabrekkunni rétt fyrir neðan Humarhúsið á meðan afslappaður fjöldinn flaut fram hjá. Vikan er búin að vera dýrðleg og vonandi eigum við fleiri inni áður en sumarið skellur í lás með skammdegi.
laugardagur, júlí 23, 2005
Upplifun: Rannsóknarleiðangur um bakland Bifrastar
Á meðan bíllinn var í viðgerð (sjá síðustu færslu) nýttum við Vigdís tækifærið og skutumst upp í Munaðarnes í sumarbústað sem systir hennar var með á leigu. Við fengum náttúrulega far þangað með öðrum fjölskyldumeðlimum. Veðrið lék við okkur mest allan tímann og við spiluðum krokket liðlangan daginn og skemmtum okkur vel. Eftirminnilegust fannst mér þó að skoðunarferð sem ég fór með Sverri bróður Vigdísar. Við kíktum á foss í grennd Bifrastar sem heitir Glanni, mjög flottur, breiður í anda Gullfoss með myndarlegan laxastiga. Allt var krökkt af laxi sem sýndi snilldartilþrif við að hoppa upp flúðirnar. Skyldu þeir aldrei rotast í barningnum? Eftir fossviðdvölina héldum við för okkar áfram og kíktum loksins á Hreðarvatn. Ég segi "loksins" vegna þess að þetta er einn af þessum stöðum sem maður hefur keyrt hundrað sinnum fram hjá á spani án þess að gefa neinn gaum. Við vorum báðir gáttaðir á fegurð Hreðarvatns og Jafnaskarðsskógs í kring (sjá kort).
Þegar við höfðum dvalist uppi á hæð alllanga stund og drukkið inn áhrifin af skógivaxinni paradísinni og spegilsléttu vatninu (það gáraðist bara þegar fiskurinn tók sér flugu af yfirborðinu og myndaði fallegar hringgárur hér og þar) héldum við enn lengra og kíktum á Selvatn handan við hæðina. Þvílíkt land! Þar tók við önnur álíka fegurð, enn afskekktari. Vatnið myndaði glæsilega umgjörð um stakt par af fugli sem mér sýndist í hálfrökkrinu vera lómur (eða hugsanlega himbrimi). Yfir honum sveimaði taugatrekktur smáfugl og virtist ögra honum lítillega áður en hann tók sig til og gól eins og úlfur í ríki sínu. Þetta fannst mér toppurinn. "Lómurinn" virtist eiga vatnið og undirstrikaði það með því að skera á kyrrðina með góli sínu.
Þegar við höfðum dvalist uppi á hæð alllanga stund og drukkið inn áhrifin af skógivaxinni paradísinni og spegilsléttu vatninu (það gáraðist bara þegar fiskurinn tók sér flugu af yfirborðinu og myndaði fallegar hringgárur hér og þar) héldum við enn lengra og kíktum á Selvatn handan við hæðina. Þvílíkt land! Þar tók við önnur álíka fegurð, enn afskekktari. Vatnið myndaði glæsilega umgjörð um stakt par af fugli sem mér sýndist í hálfrökkrinu vera lómur (eða hugsanlega himbrimi). Yfir honum sveimaði taugatrekktur smáfugl og virtist ögra honum lítillega áður en hann tók sig til og gól eins og úlfur í ríki sínu. Þetta fannst mér toppurinn. "Lómurinn" virtist eiga vatnið og undirstrikaði það með því að skera á kyrrðina með góli sínu.
Daglegt líf: Vatnskassavandi
Ég er búinn að eiga í stökustu vandræðum með bílinn eftir að Gljúfrasteins- og Þingvallaferðinni lauk. Hann kom á blístrinu heim, eins og teketill, og sauð upp úr á bílastæðinu. Það kom alveg aftan að mér enda hafði ég ekki lagt mig fram um að fylgjast með hitamælinu á vélinni. Eina sem ég gat gert, úr því sem komið var, var að leyfa honum að kólna, fylla vatnskassann á ný með vatni (til bráðabirgða - frostlögurinn var ekki við hendina) og prófa að keyra hann á ný, stuttar vegalengdir, og sjá hvernig honum vegnaði. Í stuttu máli komst hann með herkjum 5-10 km. vegalengdir áður en hitinn rauk upp aftur (og þá var það spurning um að finna fyrsta útskot í akstursleiðinni til að stoppa í skyndingu). Hann fór því í meðferð hjá fagaðila og í ljós kom að vatnskassinn var þrælstíflaður. Hann hitnaði bara tæplega hálfur og annaði því ekki álaginu við venjulegan akstur. Vatnskassaviðgerðir (þ.e. -skipti) kosta um það bil 30 þúsund krónur en ég taldi mig vel sloppinn því svokölluð "head"-pakkning (sem ég kann ekki almennilega skil á) hefði hæglega getað skemmst í hita leiksins :-) og það hefði verið heilmikil viðgerð, upp á 10-20 klst. vinnu og hundrað þúsund kall. Ég pungaði því fegins hendi út þrjátíu þúsundunum og vona bara að bíllinn taki ekki frekari hitasótt í bráð.
miðvikudagur, júlí 20, 2005
Upplifun: Dvöl á Gljúfrasteini
Ég fór síðasta sunnudag í léttan bíltúr með yngri frændsystkinum mínum (Birki og Theodóru) gegnum Mosfellsdal á Þingvöll og þaðan heim. Við stoppuðum á Gljúfrasteini nokkra stund enda er Þröstur (pabbi þeirra og fyrrv. mágur minn) að vinna þar svo ég gat labbað inn á neins tilkostnaðar. Ég varð fyrir talsverðum hughrifum þarna inni. Mæli eindregið með því að fólk komi við og upplifi andrúmsloftið á heimili nóbelskáldsins. Burt séð frá virðingu minni fyrir Halldóri og arfleifð hans þá fyllti staðurinn mig lotningu strax við innkomuna. Heimilið er svo gegnsýrt af virðingu fyrir listum. Á veggjum hanga myndir Kjarvals og Svavars Guðnasonar og flygill prýðir stofuhornið. Sjálf stofan er klædd viðarþiljum til að mýkja hljómburðinn, enda fékk Halldór helstu tónlistarmenn landsins á sínum tíma til að halda tónleika í stofunni honum og öðrum listamönnum til ánægju. Vínylspilarinn minnti mann á gamla og kyrrlátari tíð sem er óðum að hverfa.
fimmtudagur, júlí 14, 2005
Netið: Danskur matur
Um nokkurt skeið hef ég fyrir hönd Vísindavefsins verið að dunda mér við að stúdera danskar matarhefðir. Með þessu réðist ég á mjög yfirgripsmikið efni sem krafðist mikillar heimildavinnu. Ég nýtti mér líka óspart fjölmarga vini og félaga sem búið hafa í Danmörku og bar málamyndasvar undir þann breiða hóp og fékk að lokum til baka alls kyns uppbyggilegar athugasemdir. Fyrir þá sem kannast við að hafa verið mér innan handar á þeim tíma (því nú er liðið um hálft ár síðan) þó óx vinnan mér nokkuð í augum á þeim tímapunkti. Ég saltaði textann um sinn ákvað að leyfa efninu að gerjast í undirmeðvitundinni. Núna í sumarbyrjun tók ég þráðinn upp að nýju og hef fengið niðurstöður birtar á Vísindavefnum undir mannfræðiflokknum. Ég þakka þeim sem aðstoðuðu mig á sínum tíma og vona að þetta sé, þegar upp er staðið, fróðleg og skemmtileg lesning.
þriðjudagur, júlí 12, 2005
Tónlist: Tónleikar - Antony and the Johnsons
Ég fór í gær á töfrandi tónleika með listamanni sem er þessi misserin að láta verulega að sér kveða (sjá dæmi um það hér). Hann heitir Antony og kallar sveitina sína the Johnsons. Hljómsvetin samanstendur af bassaleikara, klassískum gítarleikara, harmónikkuleikara, fiðluleikara og sellói. Sjálfur spilar hann á píanó og syngur með mjög óvenjulegri klassískri sópransöngrödd sem víbrar af mikilli innlifun svo að það jaðrar við að hann bresti í grát í hverju lagi. Tónlistin er eiginlega engu lík. Og þó. Góðkunningi minn Hjörvar (úr Voxinu hér um árið) var þarna líka og tók svo hnyttilega til orða að þetta líktist helst Lou Reed, bara áttund ofar, eða Tori Amos - ef hún væri karlmaður. Tónlistin er óræð og flýtur losaralega um án þess að hengja sig of í taktinn. Það kom skýrast í ljós í uppklappslaginu sem var eftir engan annan en Lou Reed (Candy Says). Lagið sveif um eins og sjálfstæð vera innan um upprunalegan takt og tóna. Antony gæðir tónlistina svo miklu lífi að það er eins og tónlistin öðlist eigið líf og umbreytir í leiðinni líðan manns gjörsamlega án þess að maður geti við það ráðið. Salurinn var heillaður.
föstudagur, júlí 08, 2005
Upplifun: Kennitala misnotuð
Ég lenti í undarlegri stöðu í Bónusvídeó Spönginni. Tók þar spólu á leigu fyrir skjólstæðing minn á sambýlinu og gaf upp kennitöluna mína. Þá kom í ljós að ég skuldaði leigunni 10 þúsund krónur! Mér brá svolítið þó ég vissi ekki upp á mig neina sök. Í ljós kom að skuldin var út af tuttugu spólum sem ég kannaðist ekki einu sinni við að hafa séð! Augljóslega hefur einhver notað kennitöluna mína í sína þágu. Hugsa sér, hvað þetta er auðvelt, að gefa upp einhverja kennitölu (svo lengi sem hún passar við kynið) borga með peningum, kvitta út í loftið og labba svo burt. Ódýr lífstíðareign sú mynd. Svo er einhver allt annar bendlaður við þetta löngu seinna (síðasta færslan er meira en árs gömul). Ég er auðvitað ekki ábyrgur á neinn hátt. Kennitalan er opinber tala og hver sem er getur flíkað henni að vild. Mína kvittun er hvergi að finna. Það er fyrst og fremst lélegt hjá leigunni að það skuli vera svona einfalt að svindla á þeim og hreinlega vítavert að það skuli gerast margoft og ítrekað (tuttugu skipti, geri aðrir betur!). Ég á eftir að eiga orðastað við rekstraraðila út af þessu undarlega máli og fá þá til að hreinsa kennitöluna mína og benda þeim á það í leiðinni hvað kerfið sem þeir nota er fáránlega götótt. Hvað spóluna varðar sem ég ætlaði að taka þá fékk ég að hafa hana með mér í þetta skiptið. Vítavert?
miðvikudagur, júlí 06, 2005
Matur: Lasagna með túnfiski, sveppum og tómötum
Ég er rétt í þessu að klára leifarnar af frábærum mat sem ég bjó til í gær. Ekki er ég að stæra mig með þessum orðum heldur velti ég hrósinu yfir á uppskriftina sem kom úr Eftirlætisréttaseríunni góðu (undir titlinum "nýstárlegt lasagna"). Fyrir þá sem eru lunknir í að nálgast matargerð á eigin forsendum er grunnhugmyndin þessi:
Fyrst er sett þunnt lag af osta/rjómasósu. Síðan eitt lag af lasagnaplötum. Þá kemur aftur þunnt lag af sósunni og ofan á það þykkt lag af steiktum sveppum. Síðan kemur annað lag af plötum. Því næst túnfiskur í olíu og pipar sáldrað yfir. Aftur plötur. Ofan á allt þetta kemur síðasta lagið af ostasósunni ásamt öðrum osti og tómatskífum. Inn í ofn í um hálftíma.
Hér kemur "smáa letrið" (eða "forvinnan"):
Muna: Leggja plöturnar í nokkrar mínútur í bleyti áður en þær eru notaðar. Þetta tekur pláss. Steikarpanna með botnfylli af vatni nýttist mér vel í þessum tilgangi.
Passið að smjörsteikja sveppina (ca. 300 g.) og hellið matskeið af sítrónusafa yfir þá áður en þeir fara út í fatið.
Sósan er sæmilega frjálsleg og er fyrst og fremst peli af rjóma, hitaður við vægan hita, rifnum osti bætt úr í ásamt sósujafnara, salti og pipar (allt eftir smekk).
Túnfiskurinn er um það bil tvær dósir og megnið af olíunni látið fylgja með. Mér finnst persónulega best að hafa fiskinn sem heillegastan (í smástykkjum fremur en kurlaðan).
Gott er að strá parmesanosti yfir ostasósulögin. Fínt að taka til í ostabirgðunum og strá hverjum sem er yfir efsta lagið. Ég átti Mozzarella og notaði hann ásamt kurluðum brauðosti.
Tómatarnir eru ca. 2 stk. Þetta er auðvitað ekki krítískt.
Einu klikkaði ég á og það var meðlætið. Mælt var með hrásalati og hvítlauksbrauði. Ég sá í hendi mér hvað það væri tilvalið, eftir á að hyggja, en maturinn var samt fyrirtak án þess.
Fyrst er sett þunnt lag af osta/rjómasósu. Síðan eitt lag af lasagnaplötum. Þá kemur aftur þunnt lag af sósunni og ofan á það þykkt lag af steiktum sveppum. Síðan kemur annað lag af plötum. Því næst túnfiskur í olíu og pipar sáldrað yfir. Aftur plötur. Ofan á allt þetta kemur síðasta lagið af ostasósunni ásamt öðrum osti og tómatskífum. Inn í ofn í um hálftíma.
Hér kemur "smáa letrið" (eða "forvinnan"):
Muna: Leggja plöturnar í nokkrar mínútur í bleyti áður en þær eru notaðar. Þetta tekur pláss. Steikarpanna með botnfylli af vatni nýttist mér vel í þessum tilgangi.
Passið að smjörsteikja sveppina (ca. 300 g.) og hellið matskeið af sítrónusafa yfir þá áður en þeir fara út í fatið.
Sósan er sæmilega frjálsleg og er fyrst og fremst peli af rjóma, hitaður við vægan hita, rifnum osti bætt úr í ásamt sósujafnara, salti og pipar (allt eftir smekk).
Túnfiskurinn er um það bil tvær dósir og megnið af olíunni látið fylgja með. Mér finnst persónulega best að hafa fiskinn sem heillegastan (í smástykkjum fremur en kurlaðan).
Gott er að strá parmesanosti yfir ostasósulögin. Fínt að taka til í ostabirgðunum og strá hverjum sem er yfir efsta lagið. Ég átti Mozzarella og notaði hann ásamt kurluðum brauðosti.
Tómatarnir eru ca. 2 stk. Þetta er auðvitað ekki krítískt.
Einu klikkaði ég á og það var meðlætið. Mælt var með hrásalati og hvítlauksbrauði. Ég sá í hendi mér hvað það væri tilvalið, eftir á að hyggja, en maturinn var samt fyrirtak án þess.
Netið: Settu plötusafnið á netið
Ég er alveg heillaður af síðu sem ég var að uppgötva. Hún heitir Rate Your Music og gengur út á það að notandinn geti nálgast óhemju tæmandi lista yfir tónlist og merkt við það sem hann eða hún á (og taka fram hvort það er diskur eða plata eða eitthvert annað geymsluform). Þar með birtist listi á netinu yfir plötusafnið. Ekki nóg með það heldur býðst notandanum að gefa plötunum einkunn og bæta við umsögn að vild. Síðan er hægt að fletta upp í plötusafninu eins og í excel-skjali eftir því hvort maður vill raða plötunum í titlaröð, stafrófsröð listamanna, einkunnaröð, tímaröð eða eftir því hvort efnið tilheyrir diskasafni, plötusafni eða kassettusafni. En þetta er bara byrjunin. Næsta skref er að kíkja á umsagnir annarra notenda um tiltekinn listamann (gagnagrunnurinn nær yfir mörg hundruð þúsund listamenn) og sjá hvað aðrir segja um þá, velja þann sem þér finnst traustvekjandi og skoða safnið hans/hennar í leiðinni. Maður lærir ótrúlega mikið á slíkri skoðunarferð enda eiga flestir alvöru plötusafnarar helling af fágætu efni sem fáir vita af. En það er líka boðið upp á sjálfvirka leið frá síðunni sjálfri. Hægt er að smella á "meðmæli" og þá birtir síðan þær plötur sem notandinn er líklegur til að hafa gaman sé tekið útreiknað mið af einkunnum hans í ljósi samsvarandi einkunna annarra notenda. Þetta er með ólíkindum. Svo er inni í þessu öllu saman sérstakt pósthólf þar sem bíður manns athugasemdir frá öðrum notendum. Í kringum þetta myndast því heilmikið samfélag safnara og tónlistarunnenda. Sjón er sögu ríkari. Ég er nýbúinn að setja inn um tuttugu plötur úr safninu mínu á heimasvæðinu mitt og stefni að því að dunda mér við þetta í frístundum næstu daga og vikur.
laugardagur, júlí 02, 2005
Upplifun: Örlagavefur
Dagurinn í dag fór að miklu leyti í tiltekt. Eins og gengur safnast ryk auðveldlega saman í hornum og þar sem við búum á jarðhæð er ekki laust við að lítil kvikindi á borð við járnsmiði og köngulær láti á sér kræla í skúmaskotunum. Þetta finnst mér leiðinlegast við að ryksuga því ég fæ mig ekki til að ryksuga pöddurnar upp. Ég reyni eftir fremsta megni að flytja þær um set með glasi og pappír sem ég smeygi undir (klassísk aðferð) og varpa þeim mjúklega út um útidyrnar. Þær eru nú misjafnlega kátar með þetta. Ein þeirra æddi um "glerbúrið" svo ófriðlega að ég óttaðist að missa hana á niður á leiðinni út úr svefnherberginu (hver vill fá könguló í rúmið?). Fyrst hún lét svona illa ákvað ég að láta það eftir henni að sleppa henni og varpaði henni í nettri skyndingu út um opinn glugga rétt hjá - beint í köngulóarvef! Mér var nokkuð brugðið við að sjá þar þrisvar sinnum stærri könguló. Hún tók kipp undireins og fór að kanna málið. Í nokkrar sekúndur var eins og hún áttaði sig ekki á því hvers vegna könguló væri í vefnum en tók sig svo til og spann utan um hana, pakkaði henni saman á örskotsstundu. Ég stóð hinum megin við glerið og horfði agndofa á hildarleikinn úr mikilli nánd. Fann hálfpartinn til með litla kvikindinu sem ég hafði reynt að bjarga. Vissi ekki alveg hvort ég ætti að vera með samviskubit yfir bjarnargreiðanum eða heillaður af þessu einstaka sjónarspili sem ég gat fylgst með í smáatriðum. Reyna köngulærnar ekki að halda bráðinni sem ferskastri og sjúga úr henni næringu hægt og rólega? Það hefði ábyggilega verið mun þægilegra, eftir á að hyggja, að sjúgast inn i svartholið sem ég hélt á.
Pæling: Allsherjar rútínuhegðun
Ég ákvað að klippa á mér neglurnar um daginn og var rétt nýbúinn að klippa eina fingurnögl þegar ég hætti og pakkaði saman. Ástæðan var sú að Vigdís var nýsofnuð og ég fattaði að smellirnir gætu verið til óþæginda í kvöldkyrrðinni. Ekkert mál að halda áfram daginn eftir. Nema hvað, þegar ég held áfram daginn eftir og set mig í stellingar þá gríp ég í tómt. Ég sé að það er búið að klippa nöglina sem ég ósjálfrátt byrja á! Án þess að hugsa út í það hafði ég semsagt byrjað á nákvæmlega sama stað og daginn á undan þó svo ég væri fullfær um að klippa allar neglurnar án vandræða. Þá fór ég að velta fyrir mér hvort maður sé yfirleitt svona rútíneraður niður í smæsta smáatriði. Byrjar maður alltaf á því að klippa sömu nöglina? Ef maður heldur áfram á sömu braut getur maður spurt sjálfan sig hvort maður fari alltaf í sömu röð í sokkana? Bræði ég smjörklípu á pönnu alltaf réttsælis? Get ég yfir höfuð tannburstað mig með vinstri? Ósjálfráða kerfið hjálpar okkur óneitanlega en gerir okkur í leiðinni að svolítið hjákátlegum rútínuverum.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)