laugardagur, janúar 26, 2008

Daglegt líf: Heilsa og mataræði Signýjar

Signý var svolítið tæp til heilsunnar núna í vikunni. Á laugardaginn var fékk hún 38 stiga hita, en náði sér fljótt daginn eftir. Við sendum hana í leikskólann en endurmátum ástandið aftur um kvöldið, því þá var hún farin að hósta talsvert (og enn meira um nóttina). Það er stutt síðan hún var með lungnabólgu öðru megin, svo við höfðum vaðið fyrir neðan okkur og héldum henni heima næstu tvo dagana. Á miðvikudaginn fórum við til læknis sem skoðaði hana í bak og fyrir. Hann úrskurðaði hana stálslegna. Hóstinn var bara í hálsinum, sem sagt ekki lungnabólga. Signý fór í leikskólann daginn eftir og hefur verið óvenju hress og þrálátur hóstinn horfið eftir læknisheimsóknina eins og dögg fyrir sólu. Matalystin hefur þar að auki verið sérlega góð. Ég tók eftir því að hún er orðin mun frísklegri núna eftir veikindahrinuna undanfarið. Andlitið er holdmeira og það geislar meira af henni. Ég vona að þetta sé ekki bara ímyndun.

Signý hefur dálæti á ýmsum mat. Núna undanfarið hefur melóna verið í miklu uppáhaldi (og ekki skemmir fyrir hvað það er auðvelt að bera orðið fram). Við reynum að hafa melónu tiltæka flesta daga (þessa appelsínugulu sem er svo meðfærileg). Hún er alltaf sólgin í vínber - svo mjög að ef hún hafnar þeim er það nokkuð áreiðanlegur mælikvarði á veikindi. Rúsínur og seríós hitta alltaf í mark, auðvitað. Svo drekkur hún talsverða mjólk og finnst lífræn jógúrt mjög góð (með jarðarberjabragði eða mangó). Allir þurrkaðir ávextir yfir höfuð virka vel, sérstaklega sem "gulrót" ef hún þarf að borða eitthvað annað (þá læt ég litla þurrkaða bita í skeiðina með). Ferskir ávextir eru líka vinsælir, sérstaklega ef þeir eru ekki of súrir (perur, bananar og gul epli). Öll ber eru étin upp til agna - oftast jarðarber eða bláber. Signý er mjög hrifin af hrísgrjónum, en hafnar yfirleitt kartöflum (eitthvað kannast maður nú við kartöfluandúðina sjálfur. Lengi vel gat maður sjálfur ekki hugsað sér að borða kartöflur, nema sem meðlæti). Annars er hægt að koma aftan að Signýju ef maður býður henni upp á ofnbakaðar kartöflur, eða franskar. Það er hún sólgin í. Svo borðar hún helst ekki kál og er yfir höfuð svolítið skeptísk á grænt safalítið grænmeti. Agúrkur eru hins vegar í góðu lagi. Tómatar og gulrætur líka. "Gúrka" og "gulrót" eru reyndar með fyrstu orðunum sem hún lærði (gúkka og gurró). Það er dagamunur á því hvort Signý er hrifin af fiski. Kjöt borðar hún með góðri lyst en fær það samt mun sjaldnar en fisk (enda er aldrei kjöt á boðstólum þegar ég elda sjálfur). Svo má ekki gleyma kexinu. Ritz-kex og önnu sambærileg ostakex eru prýðilegur ábætir upp á hvern dag. Stundum getur maður alveg gleymt sér og látið Signýju svolgra mjólk og maula kex allan liðlangan daginn (sem bitnar talsvert á matalystinni). Þá er gott að líta á listann hér að ofan og auka fjölbreytnina á ný.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

FLOTT AÐ VITA EF ÉG FÆ HANA LÁNAÐA EINHVERN DAGINN.....

hlakka mikið til þess,....

kv.BB