Síðata sumar var alveg einstakt. Blíðviðri upp á hvern dag og jafnvel hitabylgja, viku eftir viku, án afláts. Við í Granaskjólinu gerðum hins vegar lítið af því að spóka okkur utandyra. Við urðum varla vör við hitabylgjuna, nema gegnum sjónvarpsfréttirnar, fyrst og fremst, og svo þegar fólk sprangaði niður í kjallara á stuttbuxunum, berandi með sér fjarlæga angan af sólarvörn. Veikindi héldu okkur nær algjörega innandyra frá og með fyrsta júni.
Hvers vegna verka veikindi svo þungt á litla fjölskyldu? Jú, samsetningin "brjóstabarn+landkönnuður" er ekki á eins manns færi, svo að vel sé. Hugrún var gríðarlega heimtufrek á brjóstið, drakk lengi í einu og ef hún sofnaði þá var það aðeins í hálftíma í einu. Þetta var undarlegt mynstur. Vigdis var einfaldlega bundin henni (Signý var mun "brjóstléttari"). Þegar barn sýgur svona óskaplega mikið þá getur maður ímyndað sér að það sé óþægilegt að vera mikið utandyra. Það er ekki eins og hún drekki í kortér og sofi næstu tvo tímana, eins og tíðkast hjá mörgum börnum.
Á sama tíma og Hugrún virkaði sem akkeri þurfti að elta Signýju. Hún var nýbúin að fá sjálfstraust í fæturna og vildi ólm kanna landssvæðið utandyra. En því miður komumst við ekki oft út, vegna veikinda. Stundum var hún þó innandyra eftir veikindi, hitalaus, enda þarf að framfylgja samviskusamlega tveggja daga útgöngubanni fyrir börn á þessum aldri eftir veikindi. Hvort sem hún var frísk eða veik þurfti hún mikla mikla athygli, annað hvort aðhlynningu eða eftirtekt, og þess vegna fór best á því að við værum saman með þeim öllum stundum.
SJálfur komst ég rétt út í stutt skokk öðru hvoru þegar gesti bar að garði, en það vill svo til að einmitt þegar veðrið er sem best er fólk síður en svo iðnast við að fara í heimsóknir. Svo þegar pestirnar dundu yfir fældi það jafnframt allmarga frá. Kjallarinn dimmi virkaði á okkur eins og grafhýsi á meðan sólin gyllti veggina að utanverðu. Með tímanum nenntum við ekki einu sinni að tékka á góða veðrinu, því það var hvort eð er annars staðar.
En til að fara í gegnum ferlið (sem má lesa nánar um hér: júní, júlí og ágúst) þá byrjuðu ósköpin strax og Signý átti að byrja í leikskólanum. Hún sem aldrei hafði verið veik í eitt og hálft ár (nema rétt yfir nótt eftir sprautur og svoleiðis) veiktist daginn fyrir sinn fyrsta leikskóladag. Furðulegt að hún skuli veikjast svona fyrirfram! Hún jafnaði sig hins vegar næstu tvo daga (sem var helgi) og kom aftur inn á mánudegi. Það gekk vel en hún veiktist hins vegar aftur um kvöldið og fékk heilmikla ælupest - missti talsverðan vökva og hafði enga matarlyst í tvo daga. Það var erfitt, en hún náði sér fyrir föstudaginn (og ég veiktist yfir helgina í staðinn). Næsta vika var hins vegar heil - þ.e. veikindalaus, þar næsta ekki (smá veikindi). Þá fórum við upp í bústað í heila viku og Signý tók sér frí frá leikskólanum. Þar veiktist hún líka, fékk barkabólgu og missti alveg röddina. Þessu fylgdi mikill hiti.
Þetta var í raun ægileg dvöl því ég varð verulega slappur af fjrókornaofnæmi framan af (þurrkur út af hitabylgjunni miklu) og fann líka hrikalega til í bakinu eftir að hafa rogast um með Hugrúnu kvöld eftir kvöld, mánuðum saman (vegna magakveisunnar, sem hún ætlaði seint ætla að losna við). Því olli líklega einhæft átak í mjóbakinu (verkurinn fór gegnum annan lærvöðvann og alla leið niður). Verkurinn snarlagaðist við það að ég stundaði þúfnagöngu, sem betur fer, því ég var farinn að óttast uppskurð. Við áttum því ekki sjö dagana sæla (bókstaflega, enda vikudvöl). Signý fór varla lengra en út á verönd þá vikuna, eftir að hafa spókað sig utandyra fyrsta daginn. Þegar þeirri dvöl lauk náði Signý sér, en Hugrún fór að veikjast. Hún fékk barkabólgu eins og Signý og var veik vikuna eftir að við komum aftur heim. Signý sótti hins vegar leikskólann á meðan og allt virtist ganga vel hjá henni. Við sáum fram á að þetta væri loks að baki. Á föstudeginum veiktist hún hins vegar aftur og við héldum henni inni yfir helgi. Á mánudeginum fór hún aftur í skólann, kláraði daginn, en fékk hita aftur um kvöldið. Hún var orðin nokkuð góð aftur á miðvikudeginum, en í þetta skiptið vorum við orðin svo hvekkt að við ákváðum að halda henni heima fram að helgi svo hún næði að jafna sig alveg. Það var sterkur leikur. Hún kom öflug til baka og náði í vikunni á eftir að halda út alla dagana í leikskólanum án veikinda. Mér reiknaðist til að þetta væri önnur heila vikan hennar í leikskólanum frá því hún byrjaði (tímabil 1. júní - 20.júlí).
Þegar hér er komið sögu er júlímánuður rétt rúmlega hálfnaður og við Vigdís nýttum þessa dýrmætu viku vel sem Signý var frísk. Hún var í leikskólanum fyrri part dags og var með okkur utandyra seinni partinn. Við settum allt á fullt í gera allt sem við náðum aldrei að gera í sumar (eins og lautarferðir og Húsdýragarðinn). Þvílíkur munaður! Það má segja að þetta hafi verið eina vikan þar sem við nutum sumarsins almennilega. En það mátti ekki seinna vera því þessa vikuna (á fimmtudeginum) fór að draga ský fyrir sólu og dropar féllu úr lofti. Áfram var reyndar þokkalegasta veður en sjálfri hitabylgunni var lokið.
Þrír dagar í garðinum er samt betra en ekki neitt. Ég hugsaði líka með mér að það væri aukaatriði. Nú væri maður loksins fær um að sinna einhverju öðru ein heimilinu þegar Signý er orðin frísk og getur verið í leikskólanum. Ég hafði nefnilega í upphafi sumars séð í hendi mér að ég myndi fara í tvo til þrjá tima upp í vinnu og nýta mér skrifstofuaðstöðuna þar, skrifa eitthvað fyrir Vísindavefinn eða sinna öðrum áleitnum áhugamálum (eins og að uppfæra heimasíðuna mína). Vinna skapandi og endurnærandi vinnu þar, koma svo heim og sinna heimlinu af krafti upp úr hádegi. Það var alltaf planið, þar til veikindin röskuðu áætluninni. Núna virtist Signý orðin öflug og ég ætti því að minnsta kosti að geta nýtt 3 vikur eða svo áður en skólinn hæfist á ný. Þá komu duttlungar sumarsins aftur aftan að mér eina ferðina enn!: Leikskólinn fór i sumarfrí. Lengd frísins er mismunandi eftir nemendum, en Signý var "úrskurðuð" í tveggja vikna frí! Við vissum af þessu alveg, en vorum búin að steingleyma því í öllum veikindunum.
Jæja. Hún var þó frísk og við gátum því eytt þessum tveimur vikum að miklu leyti utandyra. Ég komst á snoðir um leikvöll i göngufæri þar sem maður gat notið góðs af gæslu og Signý gat leikið sér við önnur börn. Það var ágætur tími og veðrið þokkalegt. Þegar Signý fór aftur í leikskólann var aðeins vika eftir af sumarfrínu mínu. Mér fannst ekki taka því að fara upp í skóla að sýsla þar. Sumarið var búið. Þegar maður leit um öxl kom í ljós að leikskólin gerði okkur meiri grikk en greiða. Hefði Signý ekki "notið góðs" af því að koma svona snemma inn hefðum við að minnsta kosti geta eytt sumrinu utandyra. Og það ætluðum við svo sannarlega að gera með haustinu. Metnaðarfull áform um útivist voru til staðar, en haustið átti hins vegar eftir að fara á allt annan veg.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Hello. This post is likeable, and your blog is very interesting, congratulations :-). I will add in my blogroll =). If possible gives a last there on my site, it is about the CresceNet, I hope you enjoy. The address is http://www.provedorcrescenet.com . A hug.
Hæ
Athyglisverður annáll yfir tímabil sem vonandi er að baki.
Ps. ég held að hr. Crecenet hafi nú ekki skilið mikið. Þori ekki einu sinni að kíkja á síðuna hans/hennar! : )
kv/jmh
Nákvæmlega ;-) Furðulegar þessar persónulausu útlensku dreifiathugasemdir.
Skrifa ummæli