Nú heldur frásögnin af bifvélavirkjanum sem breyttist í handrukkara áfram (sjá næst síðasta póst). Hann var sem sagt kominn fimm mínútur yfir og beið fyrir utan hjá mér, nennti svo ekki að bíða eftir mér þegar hann sá að ég þurfti að græja Signýju í nokkrar mínútur. Þá átti ég að finna hann í bílskúrnum í grenndinni. Óþægileg spenna kringum þetta. Ég kom Signýju fyrir inni í bíl og skóf af bílnum. Þá rann upp fyrir mér að ég hafði lokað bílhurðinni. Ég passa mig alltaf á að gera það ekki því takkinn á það til að síga niður og sjálflæsa bílnum. Ég álasaði sjálfum mér í andartak fyrir að hafa gleymt mér, en var feginn að bílinn var enn ólæstur (vildi ekki hugsa þá hugsun til enda að vera staddur þarna, strandaglópur, hvorki með gemsann né húslykla og með Signýju inni í bílnum). Ég var feginn um stund og ók svo af stað með Signýju (leyfð henni að drekka úr pela í bílnum af því það var enginn tími í næði heima). Mér tókst að fara fram hjá húsinu og fór svo aftur fram hjá í hina áttina áður en ég sá kallinn teygja álkuna á stéttinni þarna á milli. Það vantaði húsnúmer í röðina þannig að það ruglaði mig. Þýddi samt ekkert að útskýra það fyrir honum.
Hann beið svo fyrir utan bílskúrinn með mér eftir að félaginn kæmi úr vinnu. Samtalið svolítið stirt á milli okkar. Spennan virtist snúast um það hjá honum að standa sig gangvart vinnufélaganum. Ég reyndi að sjá það í því ljósi, að minnsta kosti, og taldi mér trú um að hafa ekki tafið þá eftir allt. Svo kom félaginn eftir skamma stund og ég afhenti kallinum lyklasettið. Ég rétt mundi eftir því á síðustu stundu að fjarlægja heimilislyklana áður en ég dró snjósleðann út og gekk heim með Signýju. Við höfðum komið okkur saman um að hafa samband í síðasta lagi tíu, ef ske kynni að verkið drægist til morguns svo ég gæti gert varúðarráðstafanir með far daginn eftir. Ég minntist líka á það hvernig borguninni skyldi háttað og stakk upp á millifærslu. Hann vildi hins vegar fá þetta í seðlum. Ég kinkaði kolli og gekk svo heim með Signýju í góðu veðri. Stutt á milli.
Nú var ég kominn heim, í höfn, og þeir farnir að vinna. Ég var laus allra mála í bili og Signý bara útitekin og frísk eftir sleðaferðina. Þá fór ég að huga að peningunum sem ég átti eftir að redda, kveikti á tölvunni svo ég gæti nú millifært af söfnunarreikningnum yfir á debetkortið. Þá rann upp fyrir mér ansi óþægileg tilhugsun: Bévítans auðkennislykillinn var ennþá á bíllyklakippunni! Klukkan var orðin fjögur og engin leið að millifæra peninginn eftir öðrum leiðum. Ég hringdi strax. Fannst þetta sérlega vandræðalegt enda fannst mér orðið óþægilegt að tala við kallinn. Mér varð líka hugsað til þess að nú væru þeir byrjaðir að vinna og ekki gaman að draga þá frá miðju verki, - kannski undan bílnum. Ég lét símann hringja nokkra stund og lagði svo á. Ég taldi vissara að hann hringdi þegar honum hentaði best eftir að hann sér númerið.
Hálfftima síðar kom Vigdís. Hún sá að ég var ekki alveg rólegur svo ég sagði henni allar sólarsöguna. Hún reyndi að róa mig með því að ég gæti alltaf látið hann fá peningana snemma daginn eftir og að ég hefði að minnsta kosti boðist til að millifæra. Fyrirvarinn var þar að auki naumur. Hún kom hins vegar auga á nýja og ansi óþægilega snurðu á þræðinum: Það er ekki víst að ég geti tekið nema mjög takmarkaða upphæð út á debetkortið í einu! ÚPS!! Hvort það miðaðist við 20, 40 eða 80 þúsund vissi hún ekki. Ég kíkti á netið og sá engar upplýsingar um þetta.
Núna var ég orðinn mjög uggandi yfir því að geta ekki reddað peningunum. Kallinn hafði ekki hringt til baka. Ég ákvað að fara út að skokka, með gemsann á mér. Ég skokkaði fram hjá húsinu og hringdi aftur þar sem ég stóð fyrir utan. Enn svaraði kallinn ekki. Ég eiginlega kunni ekki við að hamra á bílskúrshurðina, enda hafði hann gefið í skyn að þeir myndu vilja vera sem minnst truflaðir enda asnalegt að birtast þarna og biðja um auðkennislykilinn. Svo skokkaði ég minn hring og vonaðist bara til að hann myndi sjá númerið í símanum og hringja fljótlega.
Þegar ég kom heim fór ég að sinna heimilisverkum, búa til mat, baða Signýju og svoleiðis. Þetta tók allt sinn tíma og mér tókst að gleyma mér um stund. Þá hringdi kallinn, upp úr níu. Ég tala við hann kumpánlega fyrst í stað og spyr hvernig gangi, feginn að heyra loksins í honum, þá segir hann: "Við sjáum fyrir endann á þessu". Það fannst mér óþægilegt að heyra. Ég hefði viljað geta skotist eftir peningunum áður en þeir taka saman. Þá hiksta ég á þessari ömurlegu sögu með peningana sem enn voru ekki tilbúnir út af auðkennislyklinum. Ég er eins og fábjáni í símanum. Hann er af gamla skólanum og veit varla hvað ég er að tala um en sér þó stykkið sem hangir á kippunni og biður mig um að koma þá strax.
Þegar hér er komið sögu er Signý að fara upp í rúm og Hugrún enn vakandi. Við erum vön i kjölfar veikindanna að leggjast með henni svo hún sofni hratt og vel. Núna þurfti ég að rjúka út í skyndingu og skilja Vigdísi eftir í frekar óþægilegri stöðu. Hún þarf að vanrækja Hugrúnu á meðan Signý sofnar, - ef hún sofnar, því Hugrún grætur kröftuglega þegar henni er ekki sinnt á kvöldin. En það var ekki um annað að ræða. Ég þurfti að fara og skilja heimilið eftir í hálfgerðu uppnámi. Kallinn hefur náttúrulega enga tilfinningu fyrir því hvað það er óþægilegt að rjúka af heimilinu með svona stuttum fyrirvara, enda tóku menn ekki þátt í uppeldinu í gamla daga.
Núna fannst mér ég vera með bókstaflega allt niður um mig. Mennirnir eru búnir að skila sinni vinnu hratt og vel og ég mæti þeim tómhentur, seint um kvöld, með eintómar afsakanir, hver annarri frumlegri.
Hann var greinileg ósáttur þegar ég kom á svæðið. Bíllinn var kominn út og tilbúinn til notkunar og ég - rétt að fá auðkennislykilinn í hendur. Hann lét í ljós að hann væri ósáttur við að ég skyldi ekki hafa staðið við minn hluta samkomulagsins - hann væri eins og bjáni gangvart vinnufélaganum. Hann var þungur á svip og vissi greinilega ekki hvar hann hafði mig. Ég reyndi að bera fyrir mig að hafa ekki getað komist lengra út af lyklinum (hljómar enn jafn bjánalega), og að ég hafi hringt og hringt. Hann kannaðist við hringingu en náði henni ekki. Fyrirsjáanlega sagðist hann ekki geta séð á símanum sínum hver hringir (algengt fyrir eldri kynslóðir símnotenda). Þarna vorum við patt svo við ræddum þetta ekki frekar. Hann settist hins vegar upp í bílinn farþegarmegin og sagði við mig að við skyldum þá bara redda peningunum.
(meira seinna)
(meira seinna í dag)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Jiii Steini, ég bíð spennt eftir framhaldinu.
Skrifa ummæli