fimmtudagur, október 18, 2012

Fréttnæmt: Miklar breytingar framundan

Ég hef þagað nógu lengi á blogginu.  Nú er liðinn meira en mánuður síðan ég skrifaði síðast.  Ég hef bara ekki haft frið í mér til að setjast niður og skrifa um líðandi stund.  Ég stend á miklum tímamótum.  Við Vigdís höfum ákveðið að hætta að búa saman.  Okkar samband hefur gengið í gegnum miklar sveiflur undanfarin þrjú ár og forsendur fyrir áframhaldandi sambúð eru brostnar.  Fyrir því liggja ástæður sem ég kann ekki við að greina frá hér en þær eiga sér langa sögu.  Möguleikinn á því að við náum saman aftur er lítill og það er háð forsendum sem eru heldur langsóttar, en við verðum bara að sjá til.

Vigdís flutti að heiman fyrir tæpum þremur vikum síðan.  Það var á 30. september.  Það vill svo til að það gerðist daginn fyrir 1. október, sem er einmitt dagurinn sem við fluttum inn í Granaskjólið fyrir níu árum síðan.  Í gær gengum við loks frá pappírum þess efnis hjá sýslumanni.  Það vantaði einnig dag upp á til að það passaði við merkingarbæra dagsetningu.  Í dag eru nákvæmlega 10 ár og 5 mánuðir síðan við kynntumst (18. maí 2002).

Ég er búinn að velta því fyrir mér hvort ég ætti yfir höfuð að halda áfram að blogga.  Ég byrjaði að skrifa af kappi þegar við fluttum inn í Granaskjólið.  Fyrir þann tíma voru þetta bara þreifingar.  Núna verð ég að finna nýjan metnað og nýja ástæðu til að halda utan um skrifin.  Tíminn er af skornum skammti og hann nýtist helst Signýju og Hugrúnu.  Þegar ég er út af fyrir mig vil ég helst hvíla mig eða skrifa í einkadagbókina hugleiðingar um daginn hverju sinni. Ég trassaði dagbókarskrif um árabil eftir að ég byrjaði að blogga en undanfarin ár hefur sú tjáningarleið nýst mér vel til að halda utan um ruglingslegar hugsanir sem hafa sótt á mig, eftir aðstæðum.

Við Vigdís erum enn í góðu sambandi, þannig séð.  Við tölumst ekkert mikið við en það er engin sérstök beiskja á milli okkar. Við finnum bæði fyrst og fremst fyrir söknuði. En við vorum sammála um að við værum komin á leiðaenda, að minnsta kosti í bili.  Hún þarf tíma til að finna sig á ný hvert sem það á eftir að leiða hana.  Ég vona innilega að það eigi eftir að fara vel.  Það má segja að hún sé að fara út í óvissuferð á meðan mín staða er önnur.  Ég er heima á sama stað og stelpurnar áfram með lögheimili hér.  Ég legg ofurkapp á að halda hlutunum í horfinu og sinna stelpunum eins vel og ég get.

laugardagur, september 15, 2012

Daglegt líf: Brúðkaup og veikindi

Eins og fram kom síðast er margt búið að ganga á.  Ýmiss konar veikindi hafa barið að dyrum en einnig gleðilegir atburðir, stundum samtímis. Til dæmis var Signý sárlasin um mánaðarmótin.  Hún var með háan hita í þrjá daga og var um það bil viku að jafna sig.  Á meðan var haldið eftirminnilegt brúðkaup í stórfjölskyldunni þegar Ásdís og Toggi giftu sig. Signý var svo lasin heima að hún var varla meðvituð um hvað var að gerast.  Hugrún naut sín hins vegar til hins ítrasta.  Hún fékk það hlutverk að vera blómaberi og skilaði sínu hnökralaust.  Hún settist í þrepin við altari Dómirkjunnar, var mjög yfirveguð og brosti út í salinn með jöfnu millibili eftir því hver náði augnsambandi við hana.  Athöfnin var einföld, falleg og látlaus.  Svo fóru veislugestir út í kaffi Flóru.  Það var einstaklega vel til fundið því veðrið var svo dumbungslegt.  Þar er bara huggulegt að finna fyrir rigningunni dynja á glerskálanum eins og í vel heppnaðri útilegu.  Krakkarnir undu sér líka einstaklega vel á þessum stað tiplandi í kringum tjörnina með gullfiskunum.  Þeir fengu sáupkúlustauka til að leika sér með og höfðu nóg fyrir stafni á meðan við hin sátum afslöppuð í góðum félagsskap.

Þau tóku sig einstaklega vel út brúðhjónin og voru svo sannarlega vel að því komin að eiga hvort annað, enda fimmtán ára samvistir að baki.  Þau hafa farið í gegnum alls kyns tímabil í sameiningu, og hafa upplifað bæði súrt og sætt, og vita nákvæmlega hvar þau hafa hvort annað.  Það er ekki hægt að segja um mörg nýgift hjón.

Það gerðist margt skemmtilegt í Flóru en ég má til með að segja frá einni uppákomu.  Ég var svolítið utan við mig um tíma og heyrði allt í einu einhvern kalla fram einhver orð við klingjandi glas, eitthvað sem endaði á -oss.  Fólk lyfti glösum og ég gerði slíkt hið sama og endurtók það sem mér fannst hafa verið sagt: "Já, proust" (er það ekki franska fyrir "skál"?)  Ég skildi ekkert hvers vegna viðkomandi hafði slegið um sig á frönsku en ég tók bara undir og var eitthvað hissa á því þegar kliður fór um salinn sem magnaðist þar til brúðhjónin stigu upp úr sætum sínum og skelltu myndarlegum kossi á hvort annað.  Þá fattaði ég: "Já, koss!", var allt of seinn að draga fram myndavélina.  Missti af Kódak-augnablikinu.

Sem betur fer hvíslaði Vigdís einhverju að Hugrúnu nokkru seinna, sem lék á als oddi.  Vigdís lét klingja í glasi og Hugrún kallaði stríðnislega: "Kyssist! Kyssist!" og þá kom annað tækifæri.  Stríðnisglampinn í augum Hugrúnar var hins vegar svo ómótstæðilegur að ég byrjaði að smella mynd af henni.  Ég verð bara að treysta því að aðrir hafi náð kossinum  :-)

Svo var ennþá gaman þegar við komum heim.  Ég var afslappaður að aðstoða Hugrúnu við að búa sig undir svefninn og sagði upp úr þurru: "Hugrún, þú varst alveg frábær í dag!"  Sú stutta svaraði bara blátt áfram: "Já, ég veit". Síðan bætti hún við: "Þetta var líka alveg frábær dagur!"


sunnudagur, september 09, 2012

Daglegt líf: Dekurdagar um helgina

Það eru eins konar dekurdagar núna um helgina hjá Signýju og Hugrúnu.  Þær fengu að gista hjá Beggu á föstudaginn, fóru svo í afmæli til Almars daginn eftir, haldið í ævintýragarðinum, og fengu þar á eftir að gista hjá Ásdísi í fyrsta skipti.  Þau Ásdís og Toggi stilltu þessu upp sem náttfatapartíi og það féll aldeilis í góðan jarðveg.  Þær vildu helst ekki taka eftir mér þegar ég kom til að sækja þær áðan.  Síðan fórum við út að leika, buðum Almari með, og erum aftur á leiðinni heim til hans á eftir í kaffiboð (fullorðins afmæli).  Dekurdagar, eins og ég sagði.

Um sveiflur í bloggfærslum

Í síðasta mánuði setti ég met í bloggskrifum.  Ég komst upp í tíu færslur í fyrsta skipti í heil fjögur ár (frá  því í ágúst 2008).  Það er að sama skapi til marks um það hvað mikið hefur gerst í þessum mánuði að ég hef ekkert mátt vera að því að skrifa.  Fyrir því liggja ótal ástæður, sumar þeirra jákvæðar og aðrar neikvæðar, en þar er fyrst núna sem ég er að ná áttum.

þriðjudagur, ágúst 28, 2012

Ferðalag: Óvissuferð með Togga, fjórði hluti

Það var sannarlega gaman að aka beina leið eftir hitaveiturörinu í átt að Nesjavöllum með þrumandi rokktónlist í bakgrunni.  Adrenalínið fór því sjálfkrafa af stað á leiðinni í Adrenalíngarðinn á Nesjavöllum, sem var næsti áfangastaður.  Þar fengum við útrás fyrir spanið og eftirvæntinguna.  Toggi vissi auðvitað ekkert hvað tæki við á þessum stað og virtist hæstánægður með lendinguna, enda mikið fyrir hraðskreið farartæki, spennu og "adrenalín". Garðurinn er vel hannaður og öllum öryggiskröfum fylgt út í æsar.  Þetta er kaðlavirki með alls kyns "brúm" á milli stólpa (sem ná 10-15 metra upp).  Þrautirnar liggja á þremur hæðum og eru misjafnlega erfiðar en í öllum tilvikum er maður festur í tvöfaldri öryggislínu.  Þegar skipt er um þraut þarf að leysa sig og festa aftur en lögð er áhersla á það að maður festi aukalínu á sig áður en hinni fyrri er sleppt.

Þarna döngluðum við á víbrandi köðlum og tipluðum í 12-15 metra hæð eftir þröngum einstigum.  Sums staðar var mælt með því að maður styðji sig við öryggislínuna sína, sem hangir rétt fyrir ofan, til að finna jafnvægið betur.  Hins vegar er það meira krefjandi að láta sem hún sé ekki þarna og reyna eftir bestu getu að fikra sig eftir mjög svo ótryggri brú í allt að því lífshættulegri hæð (vitandi af línunni góðu, samt sem áður).  Að endingu var boðið upp á að láta sig gossa og renna sér eftir kaðli niður yfir læk sem rennur fram hjá þrautabrautinni.  Til að pumpa enn meira adrenalíni gegnum æðakerfið var svo slúttað með þar til gerðri risarólu sem sveiflar manni nánast úr frjálsu 10 metra falli upp í sömu hæð og aftur til baka.  Sú tilfinning var geggjuð.

Sæmilega örir og kampakátir fórum við til baka sem leið lá Nesjavallaleiðina og mættum þá sama hægfara bíl og hafði verið á vegi okkar fyrr um daginn.  Er við höfðum tekið fram úr honum mundi Toggi skyndilega eftir einu verkefninu: "Mundu að hleypa bílum fram úr ef þú þarft að hægja á þér".  Um leið og Toggi hafði sleppt orðinu fann Kristinn álitlegan stað til að stöðva bifreiðina, og framúr silaðist fjölskyldubifreiðin, eflaust sátt og sæl eftir vel heppnaðan berjaleiðangur og jafnframt undrandi yfir þessum sveiflukennda akstri okkar.  Þetta var hins vegar skammgóður vermir því stuttu eftir að við vorum lagðir af stað lentum við aftur á eftir sama bílnum.  Þegar Kristinn tók framúr á ný hvatti hann Togga til að setja á sig yfirvaraskeggið: "Sýndu þeim stashið maður!".  Þetta var nú meira hugsað sem ögrun fyrir Togga því hann er svo ferlega fyndinn með þetta skegg og hann tók áskoruninni hikstalaust. En því miður var sem enginn tæki eftir Togga með sitt prýðilega skegg.  Þá varð Kristinn nokkuð svekktur og fann sig knúinn til að leggja bílnum á ný og gera þetta almennilega.  Á þeim tímapunkti áttaði Toggi sig hins vegar á því að gamanið væri kannski öllu grárra hjá greyið fólkinu í fjölskyldubílnum og við ákváðum að láta kyrrt liggja enda virtist okkur þau aka óvenju hratt framúr í þetta skiptið.

Ferðin gekk nokkuð tíðindalaust sem eftir var að því undanskildu að ég vildi skipta um föt áður en við færum út að borða og datt í hug að renna við í Nauthólsvíkinni.  Þar eru skiptiklefar og ég nýtti tækifærið til að vaða út í saltan sjóinn.  Þeir Toggi og Kristinn létu sér nægja að fylgjast með, - sundsprettnum það er að segja.  Eftir það var ég sjálfur mjög ferskur og tilbúinn að snæða öndvegis pizzu.  Á Pisa var rætt og skrafað út frá ýmsum heilræðum sem Toggi hafði valið sér í hellinum og síðustu verkefnin lögð fyrir í leiðinni. Hann átti að vera sérlega kurteis við gengilbeinur og vera duglegur að hrósa, sem hann og gerði svo sannfærandi að ein daman fór næstum hjá sér. Annars bragðaðist maturinn frábærlega og við meira en sáttir við daginn, orðnir lúnir og saddir í senn.  Á planinu hjá Togga var að lokum skálað í ógeðsdrykk: Rauðrófusafa.  Hann var reyndar prýðilegur á bragðið að mínu mati (ég veit að þeir eru mér ekki sammála) en lyktin var eins og úr fjósi.   

föstudagur, ágúst 24, 2012

Ferðalag: Óvissuferð Togga, þriðji hluti

Hellinn fundum við á sínum stað.  Leiðarendi er magnaður hellir.  Hann er einn til tveir metrar á hæð og  liggur sem göng neðanjarðar einhver staðar undir helluhrauninu milli Bláfjalla og Hafnarfjarðar.  Göngin ná um það bil kílómetra og liggja í hring þannig að hægt er að ganga inn hellisopið á einum stað og koma út annars staðar.  Við þremenningarnir vorum ögn tímabundnari en svo að við gætum grandskoðað hellinn en fórum þó nógu langt inn, gegnum klungur og ruðninga, til að missa algjörlega sjónar af dagsljósinu.  Rigning undanfarinna daga hripaði niður sprungur í hellisloftinu.  Þegar Kristinn stakk upp á því að við slökktum á lugtum og hlustuðum á kyrrðina upplifðum við magnaða stund.  Að því loknu tendraði ég nokkur sprittkerti og fór yfir prógrammið með Togga.

Við vorum með bók sem innihélt 509 heilræði og hann fékk að nefna tölur af handahófi í daufum bjarmanum af kertaljósinu.  Heilræðin skyldu höfð í huga það sem eftir var ferðarinnar sem eins konar verkefni handa Togga. Hann var hins vegar heppinn með verkefni og þurfti bara að: vera kurteis við gengilbeinur, vera óspar á hrós, muna eftir því að vera brosmildur og annað í þeim dúr.  Við Kristinn sáum í hendi okkar að þetta væri hægt að gera á einu bretti á veitingahúsi seinna um daginn.  Hann fékk reyndar líka nokkur ónýt heilræði í ljósi aðstæðna eins og "Vinkaðu börnum í skólabílum" en heilræðið "Mundu að hleypa bílum framúr ef þú þarft að nema staðar" átti eftir að vinda upp á sig.

Okkur vað brátt hrollkalt í hellinum og fikruðum okkur aftur í átt að opinu.  Það var eins og að stíga úr flugvél á Spáni að koma aftur upp á yfirborðið.  Hlýr rakamettaður loftmassinn lagðist utan í okkur og það var gríðarlega notalegt.

Aftur var skálað í pólsku gosi og haldið sem leið lá í átt að Nesjavöllum.  Nesjavallaleiðin var svolítið ný upplifun fyrir mig.  Ég hafði í mesta lagi ekið hana hálfa áður.  Ég var ekki við stýrið og naut þess að fljóta með farþegamegin.  Það sæmdi vel þeim bílaáhugamönnum sem ferðuðust með mér að bruna þessa beinu braut á eðalvagni.  Mér varð næstum um og ó en sem betur fer setti bíllinn okkur takmörk.  Á meðan var hlustað á "framandi" tónlist, sem framhald af framandleikanum í ávaxtaverkefninu. Hvað er meira framandi á svona stað en "dauðarokk"?  Það er að minnsta kosti ekki tónlist sem margir leggja sig eftir að hlusta á að jafnaði og heyrist afar sjaldan í útvarpi.  Kristinn er hins vegar áhugamaður um harða rokktónlist og miðlaði af þessu til okkar hinna sem kyrjuðum með af miklum móð meðan kerran brunaði sína leið.  Svo kom að því einhvers staðar á leiðinni að við mættum hægfara bíl.  Í hneykslunartón sagði ég gegnum bílrúðuna "Haltu dampi maður!" sem Kristinn var fljótur að yfirfæra á slangur: "Haltu dampi hvað það var gaman!"  Toggi sveiflaði í sömu mund fram blótsyrði sem umsvifalaust varð að klassík í okkar eyrum: "Haltu á ketti!".  Þetta tvennt var rumið og kyrjað á víxl á leið til Nesjavalla, þar sem Toggi vissi ekki hvað beið sín.

miðvikudagur, ágúst 22, 2012

Ferðalag: Óvissuferð með Togga, annar hluti

Óvissuferðin var sannkölluð óvissuferð.  Við Kristinn vorum aðeins með lauslegt plan og spunnum ferðina að hluta til jafn óðum.  Grunnhugmyndin var hins vegar nokkuð skýr: Ætlunin var að reyna á Togga með ýmsum hætti og sjá hvort hann sé haldinn innilokunarkennd, geti treyst öðrum blindandi, hvort hann sé nokkuð smeykur við hið óþekkta og hvort hann geti yfirvegið eigin lofthræðslu.  Sem meðlæti alla leiðina buðum við upp á framandi veitingar af ýmsu tagi sem fengust í skemmtilegri pólskri búð í Breiðholtinu (Pólskt gos og nammi er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana og svei mér ef það á ekki upp á pallborðið hjá þeim Togga og Kristni eftir ferðina).

Ferðin hófst fyrir alvöru með fyrsta verkefni um leið og við náðum útjaðri borgarinnar.  Þá fékk Toggi framandi ávexti í hendur, sex talsins, hver öðrum skrýtnari, og eyðublað þar sem hann þurfti að gera grein fyrir bragði og framandleika hvers og eins auk þess að gefa frá sér ítarlega lýsingu eðli bragðsins. Þetta verkefni kláraði Toggi með miklum sóma og varpaði fram ýmsum skáldlegum lýsingum ("eins og hlaupkenndur appelsínubörkur" var ein).  Sigurvegari ávaxtasmakksins reyndist vera granatepli, sem var eini ávöxturinn sem við vorum allir hrifnir af (og Toggi lýsti með "berjabragði, sætu en þó svolítið súru").

Við enduðum fyrsta hluta bíltúrsins í Bláfjöllum, alveg óvart, því við Kristinn vorum ekki með mjög nákvæma leiðarlýsingu á fyrsta áfanga ferðarinnar.  Skemmtilegur og súrrealískur staður til að staldra við á að sumarlagi, eins og draugaborg eða eyðibýli, mannvistarleifar sem vakna til lífsins öðru hvoru. Þar var stoppið nýtt til að stilla sér upp. Kristinn dró fram yfirvaraskegg (sem við kölluðum "the stash") og skellti á Togga.  Hann líktist helst ábúðarmiklum rússneskum kaupsýslumanni sem ígrundaði troðnar brekkurnar bak við sig.  Þá fórum við aftur af stað að afleggjaranum í átt að Hafnarfirði, sem okkur hafði sést yfir. Hann átti að leiða okkur að næsta áfangastað: Hellinum Leiðarenda.

Við Kristinn studdumst við mjög ónákvæma leiðarlýsingu og samkvæmt henni átti slóðinn að hellinum að vera mjög greinilegur norðan megin við veginn.  Merking á korti gat skeikað nokkur hundruð metrum.  Við stoppuðum því á vitlausum stað og gengum mjög "greinilegan" slóða út í hraunbreiðuna, út í óvissuna.  Toggi hafði ekki hugmynd um það hvað við ætluðum að gera en setti þó á sig hjálm (eins og við) og gekk með bundið fyrir augu.  Það var eiginlega aðdáunarvert hvað hann var þolinmóður og fótviss í senn og gekk án sýnilegs tilgangs í 15-20 mínútur áður en við Kristinn áttuðum okkur á því að slóðinn endaði ofanjarðar og dó út.  Toggi fékk að opna augun úti á berangri og horfði í kringum sig.  Ég skokkaði um í leið að mögulegum hliðarstígum og leyndum hellum en allt kom fyrir ekki. En við komumst að minnsta kosti út í óvissuna og komumst á leiðarenda, Toggi öðrum fremur, enda upplifði hann miklu torfærari og lengri göngu en við hinir.

Við skáluðum sem oft fyrr í pólsku gosi þegar við komum að bílnum og ákváðum að freista þess að aka í tíu mínútur lengur til að finna réttan stíg. Og hann blasti við, svo sannarlega, með áberandi vörðu og grárri möl sem gerði gönguleiðina mjög greinilega.

Meira seinna

laugardagur, ágúst 18, 2012

Ferðalag: Óvissuferð með Togga - fyrsti hluti.

Í gær var ég óvenju þreyttur, nýkominn úr vel heppnaðri óvissuferð sem ég skipulagði með Kristni (bróður Vigdísar). Við vorum búnir að brjóta heilann og velta vöngum lengi án þess að hafa haft gott svigrúm til samráðs.  Þegar fókusinn var orðinn skarpur og öll plön endanlega samofinn í eina samfellu var lagt í "steggjun".  Það var í fyrradag, fimmtudag, sem við "steggjuðum" Togga í tilefni af brúðkaupi hans og Ásdísar (systur Vigdísar) undir lok mánaðarins.  Undirbúningurinn var vandmeðfarin því við vildum gera eitthvað sem var okkur öllum til ánægju.  Við Kristinn erum þar að auki ekki þannig hugsandi að við vildum gera Togga of vandræðalegan og sneiddum að mestu fram hjá vandræðalegum uppákomum.  Vorum sammála um að virða öll velsæmismörk.  Áherslan var því lögð á óvissuna og ögruðum Togga frekar með áhættu og spennu í stöðugri glímu við hið "óþekkta".

Dagurinn byrjaði hins vegar með smá vandræðagangi, svona til að gefa tóninn.  Við mættum alveg óvænt í vinnuna til hans eftir hádegismat.  Yfirmenn og samstarfsfólk vissi af þessu en Toggi kom alveg af fjöllum.  Við Kristinn mættum með furðuleg gleraugu þar sem augun okkar eru afmynduð með skringilegum myndum af annarlegu augnaráði og litum hálf geðveikislega út.  Toggi var bara í vinnugírnum, eitthvað að dunda sér við að sýna Ásdísi bíl, og var ekkert á því að fara með okkur í fyrstu.  Það var ekki fyrr en við skelltum á hann hárkollu að hann fór að átta sig á því hvert stefndi. Hann settu fús á sig kolluna og leit nákvæmlega út eins og Davíð Oddsson á borgarstjóraárunum.  Það var óvæntur bónus og öllum til skemmtunar.  Þegar hann var búinn að ganga frá síðustu erindum og kveðja starfsfólk, með hlátrasköllum þeirra, fór hann hálf ringlaður með okkur út í bíl, gamlan Volvo (árgerð 1990).  Bíllinn var honum að skapi og þegar við vorum búnir að skála með orkudrykk var lagt af stað í glampandi sólina.

Framhald seinna  (í kvöld eða á morgun)

þriðjudagur, ágúst 14, 2012

Tónlist: "Gleðigjafi" enduruppgötvaður

Elton John hefur verið mikið spilaður á okkar heimili undanfarna viku.  Ástæðan er fyrst og fremst teiknimynd sem stelpurnar eignuðust um daginn, Gnomeo and Juliet.  Þetta er ágæt teiknimynd að mörgu leyti en ekkert sérstaklega merkileg nema fyrir það helst að innihalda nær eingöngu gömul klassísk lög eftir Elton John.  Í stað þess að frumsemja fyrir myndina gaf þessi skrautlegi tónlistarmaður leyfi fyrir því að gömlu lögin hans yrðu aðlöguð myndinni.  Útkoman er sérkennileg í fyrstu en virkar vel þegar maður venst henni.  Þarna má heyra smelli eins og Your Song og Rocket Man en þau lög sem njóta sín best í myndinni (og stelpunum finnst skemmtilegust) eru hressilegu stuðlögin hans: Crocodile Rock,  Don´t Go Breaking My Heart og Saturday Night´s All Right For Fightin´.  Í hvert sinn sem við förum í bíltúr þessa dagana biðja þær til dæmis um "kappaksturslagið" og þá vita allir hvað átt er við.

Ég hef lengi átt tvöfaldan safndisk með Elton John í tölvunni og einstaka sinnum sett hann í ipodinn en einhvern veginn hef ég aldrei nennt að hlusta á hann.  Ég er ekki alltaf í stuði fyrir hreina og beina popptónlist og vel yfirleitt eitthvað frumlegra, torræðara eða dularfyllra.  Hins vegar nýt ég þess til hins ýtrasta þessa dagana að uppgötva með stelpunum (enduruppgötva, í mínu tilfelli) tónlist Elton Johns og geri svo í því að læða nokkrum lögum að inn á milli sem leynast á safnplötunni.  Mikið eru lög eins og Song for a Guy smekkleg.  Það er nánast alveg instrumental og finnst mér vera á par við lagasmíðar á borð við Chariots of Fire og slíka tímalausa tónlist.  Eða poppsmellurinn Nikita, sem er uppfullt af söknuði eftir því sem ekki er hægt að fá.  Þetta lag minnir mig alltaf á dvöl mína í Rússlandi hér um árið (1999), enda heyrðist manni rússar hafa sérstakt dálæti á tónlist Elton John.  Hann var stöðugt í spilun þar eystra, bæði þetta lag og aðrar melódískar perlur, og það gerði sitt til að ylja manni þreyttum ferðamanninum.  Mörg laga Elton Johns vekja fyrir vikið upp rússnesk hughrif hjá mér og mér þykir svolítið vænt um það.

Svo er því ekki að neita að framan af ferlinum var Elton John mjög frumlegur og djarfur lagasmiður.  Lögin hans áttu það til að vera uppfull af sérkennilegheitum (sbr. Bennie and the Jets).  Sum lög hef ég svo tekið til endurskoðunar, lög eins og Candle in the Wind, sem ég hef ekki hlustað á í meira en fimmtán ár.  Ég varð skyndilega mjög þreyttur á laginu á sínum tíma eftir að Elton flutti það í minningarathöfn Díönu prinsessu.  Þá upplifði ég það sem yfirdrifna vellu.  Lagið er samt frábært og ég nýt þess að hlusta á það með ferskum eyrum á ný eftir svona langt hlé.  Eins er það með meistaraverkið hans, Goodbye Yellow Brick Road, sem var talsvert spilað á sínum tíma.  Mér fannst það alltaf mjög flott en einhvern veginn náði það enn betur til mín tilfinningalega núna.  Þetta er eitt af þessum fáu lögum sem ná því að vera metnaðarfull, frumleg og sérkennileg en samt innileg og ógurlega fögur.

Fyrir þremur dögum síðan, á sama tíma og gleðigangan þrammaði niðri í bæ, var ég staddur einhvers staðar í úthverfi með þennan frábæra tónlistarmann í spilaranum og fannst það einhvern veginn við hæfi að enduruppgötva þennan glysgjarna tónlistarmann á þessum degi.  Hann er einn frægasti glamúrhommi samtímans og hefur náð merkilega vel að höfða til mismunandi kynslóða gegnum tíðina. Af seinni tíma afrekum hans má nefna tónlistina við Lion King sem við í fjölskyldunni höfum hlustað á óspart í allt sumar og oftar en ekki sett í botn.







föstudagur, ágúst 10, 2012

Pæling: Uppgjör við tapið í London

Þá er það opinbert: Liðin sem við unnum í okkar riðli í handboltanum eru að keppa til úrslita á ólympíuleikunum.  Þetta má líta á sem svekkelsi út af fyrir sig en það má líka sjá þetta sem hvatningu. Frammistaða liðsins í riðlinum, með hliðsjón af niðurstöðu mótsins, sýndi það og sannaði að liðið hafði alla burði til að sigra.  Þeir misstigu sig bara á versta tíma. Núna geta þeir hins vegar horft á verðlaunapallinn og sagt með sjálfum sér: Þarna eigum við heima! Og þeir vita að það er engin ímyndun. Eftir að hafa nagað sundur handarbökin (sem ég veit að þeir hafa gert) eiga þeir svo sannarlega að geta gengið stoltir frá mótinu.

miðvikudagur, ágúst 08, 2012

Tímamót: Leikskólabyrjun og veðraskil

Í dag fór Hugrún í leikskólann á ný.  Ég sofnaði hálfpartinn á verðinum og áttaði mig fyrst á því seinni partinn í gær að leikskólastarfið væri að hefjast.  Leyfði mér fyrir vikið að taka því rólega í morgun, horfði á leikinn umrædda og leyfði stelpunum að dunda sér í tölvunni á meðan.  Hún fór ekki í leikskólann fyrr en eftir hádegi í dag.

Það mun taka smá tíma að snúa svefnrútínunni aftur.  Þær voru farnar að sofna upp úr tíu og vakna níu að morgni.  Voða kósí hjá okkur í sumar.  Ég hugsa að við vöknum rólega næstu tvo daga, enda helgi framundan.

Dagurinn í dag markaði önnur þáttaskil: Það kom bæði rok og rigning!  Þetta er eiginlega fyrsti alvöru rigningardagurinn í allt sumar.  Með kvöldmyrkri ágústmánaðar finnur maður rækilega fyrir návist haustsins. Eftir sólríkasta sumar í manna minnum má segja að veðurguðirnir hafi vottað okkur samúð eftir tapið í morgun með bæði dimmum og drungalegum degi.

Handbolti: Tapið gegn Ungverjum

Þá er ólympíuævintýri handboltalandsliðsins lokið.  Það er ekki laust við að maður sé vankaður af undarlegum tómleika svona rétt á eftir.  Við vorum öll búin að sjá fyrir okkur að liðið kæmist í fjögurra liða úrslit og að þeir myndu vinna til verðlauna, jafnvel ná gullinu.  Slíkar væntingar voru í þetta skiptið raunhæfar því önnur lið í keppninni virtust vera af svipuðum styrk og við.  Frakkarnir hafa verið áskrifandi að gullinu hingað til en núna voru mun árennilegri en áður.  Breiddin í okkar hópi var líka mun meiri en nokkru sinni fyrr.  Við áttum meira að segja nóg "inni", ef tekið er mið af þeim leikmönnum sem enn áttu eftir að blómstra eða voru einfaldlega lítið búnir að spreyta sig. Það lá einhvern veginn í augum uppi að við myndum ná langt með þetta lið.  Samsetning ferskleikans (Arons) og reynslunnar (Ólafs) var baneitruð auk þess sem aðrir reynsluboltar í liðinu voru í toppformi.  Hvernig gat þetta eiginlega gerst?

Vantaði einhverja hvatningu?  Þegar liðinu hefur verið stillt upp við vegg hefur það alltaf staðið sig best.  Þegar þeir hafa "klúðrað" auðveldum leikjum og "orðið" að vinna lið á borð við Frakka til að komast áfram, þá hafa þeir magnað upp einhverja geðveiki og slátrað andstæðingunum.  Þá skiptir engu hverjum þeir mæta. Kannski hefðu þeir átt að sjá fyrir sér fyrirsagnir morgundagsins á borð við "Ólympíudraumurinn úti", fyrir leik, til þess að gera sér grein fyrir því að Unverjarnir væru komnir til að stela af þeim tækifærinu.  Búa til einhverja grimmd.  En sú einbeiting virtist vera fyrst og fremst í hinu liðinu, því miður.

Það er líka synd að fyrirkomulag keppninnar skuli leiða fjögur efstu liðin í átta liða útsláttarkeppni.  Persónulega er ég mun hrifnari af hinu fyrirkomulaginu, þegar tvö efstu liðin mætast í kross í undanúrslitum.  Þá skiptir meira máli að standa sig mótið á enda.  Með þessu fyrirkomulagi hefði vel verið hægt að slappa af allt mótið og leyfa sér að tapa móti Svíum, Frökkum og .... tja, ég ætla ekki að segja Bretum, en Túnis, þess vegna.  Með fjórða sætinu hefðum við líklega náð meiri einbeitingu. Ég veit ekki.  Einn stakur leikur getur svo auðveldlega þróast út í "happdrætti" (eins og Guðmundur þjálfari tók til orða).  Það var nánast hending hvoru megin sigurinn lenti.  Eðlilegra hefði verið að við fengjum að gera atlögu að bronsinu eftir frammistöðuna í mótinu, en því er ekki að skipta, eins og mótinu hefur verið stillt upp.

Á maður þá að halda með Ungverjum?  Þeir stóðu sig frábærlega gegn okkur og það væri viss huggun harmi gegn ef þeir næðu verðlaunum. Að minnsta kosti hef ég ekki lyst á að halda með hinum liðunum sem komin eru áfram.

Sjá öll úrslit hér.



mánudagur, ágúst 06, 2012

Kvikmyndir: Dáleiðandi meistaraverk

Verslunarmannahelgin hefur verið ljúf eins og venjulega.  Hvað er betra en að spóka sig í mannlausri borg þegar þorri landsmanna hamast úti á landi við að elta mesta fjörið eða sterkustu sólina?  Flestir koma eflaust þreyttir til baka og jafnvel pirraðir eftir umferðarteppuna eftir helstu þjóðbrautum landsins.  Hér heima er hins vegar slíkur friður að það er engu líkara en sveitasælan hafi flúið landið og leitað inn í borgina.

Ég hefði getað kíkt á innipúkann, þar var nóg af áhugaverðum uppákomum, en lét það vera því ég hlakkaði svo mikið til að klára myndina sem ég var nýbyrjaður á: Once Upon a Time in America.  Þetta er mikið meistaraverk, bæði fyrir eyru og augu,  eftir meistara Sergio Leone (sem gerði sína ódauðlegu spagettívestra á miðjum sjöunda áratugnum).  Þessi saga er ólík vestrunum að því leyti að hún gerist í borgarumhverfi á tuttugustu öld, nánar tiltekið í New York frá kreppuárunum til 1968 og spannar lífshlaup svikahrappa og bruggara sem maka krókinn á bannárunum og þurfa að svífast einskis til að lifa af.  Myndin hefur mikla mannlega dýpt og fjallar að miklu leyti um tækifæri sem fara forgörðum og vináttu sem spillist.  Persónusköpun í myndinni og handritið eru bæði í hæsta gæðaflokki, enda eru Robert de Niro og James Woods í aðalhlutverkum.  Þetta er saga sem flakkar fram og til baka í tíma, sem er ekki svo óvenjulegt í dag, en á þeim tíma sem myndin kom út (1984) fann bandaríska kvikmyndaeftirlitið sá sig knúið til að raða söguköflunum í rétta tímaröð (klippa myndina upp á nýtt, sem sagt).  Myndin er heldur engin smásmíði, rúmlega 240 mínútur í óstyttri útgáfu (sem hefur reyndar enn aldrei komið út).  Eftirlitið miskunnarlausa í Bandaríkjunum skar myndina niður í rúma tvo tíma, en í Evrópu var hún sýnd sem þriggja og hálfs tíma mynd, og það er nokkurn veginn sú útgáfa sem ég horfði á í áföngum núna um helgina.

Það var reyndar mjög skemmtilegt að vera með svona stórvirki í spilaranum því ég er nýbúinn að breyta til í stofunni og færa til húsgögn þannig að sjónvarpsaðstaðan hefur batnað til muna.  Þvílíkur munaður að sitja í leiðslu yfir þessari mynd og vígja þannig "nýju stofuna".  Myndin er dáleiðandi meistaraverk.

Tónlist: Vínylsala aldarinnar - afrakstur

Síðast skrifaði ég nokkuð ítarlega um goðsagnakennda plötu.  Hana fékk ég á plötusölu í Norðurmýrinni, sem titluð hefur verið "vínylsala aldarinnar" og hefur mikið verið mikið í fréttum.  Hún stóð undir nafni enda um merkilegt safn að ræða.  Þetta var hluti af einkasafni tónlistargagnrýnandans Arnars Eggerts, sem skrifað hefur mikið fyrir Morgunblaðið.  Ég hef átt auðvelt með að treysta dómgreind hans gegnum tíðina. Hann er af sömu kynslóð, hlustaði á sömu þætti í gamla daga (Skúla Helgason og Snorra Má) og virðist halda upp á nákvæmlega sömu perlur úr tónlistarsögunni.  Við eigum það til dæmis sameiginlegt að halda óumræðilega mikið upp á sveitir eins og Talk Talk og Thin White Rope og getum gleymt okkur í spjalli um þær og hristum á sama tíma hausinn yfir sveitum eins og Nirvana.  Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar þegar ég frétti af sölunni og það er líka gott að vita að salan komi til af góðu: Hann stefnir á nám í sínum tónlistarfræðum í Skotlandi.

Ég er sjálfur þokkalegur safnari sjálfur en á þó ekki nema um þúsund geisladiska og aðeins nokkur hundruðu platna.  Ég grisja safnið mitt reglulega. Safn Arnars skipti þúsundum platna og diska.  Hann hafði, að eigin sögn, þann háttinn á að safna nánast öllu án þess að grisja neitt, tapa svo gleðinni og missa sjónar á tilganginum með safninu.  Fyrir vikið voru á sölunni mörg merkileg heildarsöfn af ýmsu tagi auk alls konar dýrgripa inni á milli, sem hann átti eflaust í tvíriti (á diski og plötu og svoleiðis).

Þetta var notaleg garðsala, svolítið þrönt í blábyrjun þegar allir kepptust um að finna feitasta bitann.  Ég kom hins vegar aftur daginn eftir og grúskaði örlítið meira.  Vigdís fann tvær plötur en að því slepptu hélt ég mig alveg við diskana.  Plötuspilarinn er ónothæfur eftir að magnarinn minn brann yfir hér um árið.  En ég fann aldeilis fína titla á diski:

Love: Forever Changes (tónleikaútgáfan)
Dexy´s Midnight Runners: Don´t Stand Me Down
David Bowie: Christiane F./Baal/Rarities
Talk Talk: Missing Pieces
Jethro Tull: Too Old To Rock´n Roll
(Original Soundtrack): The Wizard of Oz
Peter Gabriel: Up
Eugene Chadbourne & Jimmy Carl Black: The Jack and Jim Show

svo fékk ég nokkrar plötur sem tengjast "Ameríkuþemanu" mínu:

Johnny Cash: American III, Solitary Man
The Handsome Family: Through the Trees og Twilight
Whiskeytown: Strangers Almanac

Að lokum, þegar ég spjallaði við Arnar einslega eftir söluna, gaukaði hann að mér miklum gæðagrip sem ég sá eitt sinn á lista yfir bestu týndu ("lost") plötum allra tíma. Þetta er sem sagt ein af þeim plötum sem vöktu enga athygli þegar þær komu út (eða komu hreinlega ekki út fyrr en löngu eftir að þær voru teknar upp, eins og í þessu tilviki, og eru því á skjön við tónlistarsöguna).  Það er plata Chris Bell: I am the Cosmos.  Þessi tónlistarmaður var í rokkhljómsveitinni Big Star, sem hafði mikil áhrif á amerískt rokk á sínum tíma (R.E.M. og the Replacements eru tvö dæmi).  Þeir notuðust við mjög melódíska tónlist og safaríka harmóníu í anda Beach Boys og Bítlanna en matreiddu það sem rokktónlist, með seiðandi áhrifum.  Þessi plata er mögnuð á svolítið undarlegan hátt og ég átti virkilega erfitt með að slíta mig frá henni strax í fyrstu spilun.