fimmtudagur, mars 17, 2005
Daglegt lif: Ferðaundirbuningur
Við erum búin að standa í ferðaundirbúningi undanfarna daga. Það er tímafrekt enda langt síðan við fórum út. Ég hef til að mynda ekki flogið í tæp þrjú ár og við Vigdís höfum ekki ferðast saman út fyrir landsteinana nema með Norrænu um árið, og það var hálfgerður bíltúr alla leið, eða þannig. Óneitanlega erum við spennt. Það verður aldeilis nægur tími til að slaka á við sundlaugarbakkann eða á ströndinni með bók um hönd, sólina í fangið og eitthvað svalandi til að sötra. Þessar stundir við bakkann eru satt að segja því ég hef enn ekki dottið niður á neina tilvalda bók til að lesa. Að vísu hoppaði ein rakin í töskuna um daginn, svona lauflétt yfirlit um spænsk máltæki með þýðingum og útskýringum. Þægileg leið til að liðka spænskuna. En sagan sem hæfir stað og stund á enn eftir að dúkka upp, sem er kannski bara spennandi. Gerir fríhafnarstússið áhugaverðara. Ekki veit ég hvort við komum til með að finna tölvur á Kanarí. Ef engin færsla bætist hér við vita menn af hverju. Tölvuleysi, eða bara svona mikil sól. :-)
laugardagur, mars 12, 2005
Tilkynning: Ekki Eldsmiðjan á álagstíma!
Ég vara fólk eindregið við því að skipta við Eldsmiðjuna, a.m.k. á álagstíma. Við lentum illa í því í gær, rétt á undan úrslitaþætti Idolsins. Ég pantaði pizzuna að heiman með klukkutíma fyrirvara og þurfti samt að bíða í hálftíma þegar á hólminn var komið. Til að bæta gráu ofan á svart hafði enginn í afgreiðslunni hugmynd um hversu mikið pizzan hafði tafist. Þarna biðu tugir manna í þröngu anddyrinu og hristu hausinn. Óvissan var mjög óþægileg fyrir alla sem biðu. Ég hafði samband við þá út af þessu eftir á og þeir komu vel fram við mig, útskýrðu meðal annars að þeir hefðu ekki neitt tölvukerfi og þess vegna væru föstudagarnir þeim mjög erfiðir. Svo buðu þeir mér náttúrulega fría pizzu með kók í kaupbæti sem ég get innheimt innan mánaðar. Ágætt fyrir okkur Vigdísi þegar við komum heim að utan að skella okkur á eina góða.
Upplifun: Temenning
Fyrir um mánuði síðan horfði ég á tóman teskápinn þar sem venjulega má finna sætt kex, sykraðan engifer, dökkt súkkulaði og allar hugsanlegar sortir ef tei, bæði svörtu og grænu. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hef ég keypt fleiri tegundir af tei en ég hef áður átt. Meðal annars uppgötvaði ég svokallað "Spicy Chai" í Te og Kaffi. Þetta er kryddte sem er blandað til helminga með flóaðri mjólk að viðbættu hunangi. Frábært á síðkvöldum rétt fyrir svefninn. Það er nú svo skrítið að um leið og maður kynnist einhverju nýju fer maður að veita því athygli allt í kringum sig. Kaffihúsið Amokka selur þetta eins og hvern annan kaffidrykk og mér skilst að þessi gerð af tei sé mjög vinsæl á Norðurlöndunum (Amokka er víst dönsk kaffihúsakeðja). Einn vinnufélagi minn var einnig að koma frá Indlandi og mætti í vinnuna með svona te. Líklega er þetta þaðan upprunnið. Í fyrradag kíkti ég svo á athyglisvert tehús á Frakkastígnum sem heitir Feng Shui. Þau hafa víst staðið sig í því að kynna þessa einstöku tevöru ásamt öðrum tegundum frá framleiðandanum Gypsytea. Þeir selja ótrúlega ilmríkar og góðar tevörur. Þar fékk ég myntuteið sem ég minntist á í síðustu færslu. Ég mæli virkilega með þessum stað. Gaman að setjast þar niður eins og á hverju öðru "kaffi"húsi og prófa nýjar ævintýralega tegundir.
föstudagur, mars 11, 2005
Daglegt líf: Samvera, nærvera og einvera.
Fimmtudagskvöldin hafa reynst okkur Vigdísi vel sem afslöppunarkvöld að undanförnu. Núna var það með öðru sniði en fyrir viku síðan. Ég stundaði hálfgerða skrifstofuvinnu í hægindastólnum í sjónvarpshorninu og fylgdist með flöktinu frá skerminum útundan mér á meðan Vigdís slakaði á yfir sjónvarpinu. Við vorum að sinna ólíkum hlutum í sama rými. Það sem gerði gæfumuninn var að ég hafði tónlist á eyrunum (með hjálp þráðlausu heyrnartólanna) þannig að ég náði góðum vinnugír við þessar aðstæður. Við vorum því eiginlega í sitt hvoru lagi, en samt saman gegnum nærveruna (mér finnst dýrmætt að geta sameinað svona vel kosti einveru og samveru). Svo sötruðum við sameiginlega dýrindis myntute sem ég hafði varla undan við að hella upp á.
þriðjudagur, mars 08, 2005
Fréttnæmt: Flatur tölvuskjár
Tölvuskjárinn okkar hefur nýverið tekið upp á því að suða með slíkum hátíðnibrag að engum líkar. Geislunin og fyrirferðin er út af fyrir sig þreytandi en þetta var full mikið. Maður varð eiginlega hálf hræddur um að hann myndi springa yfir andlitið á manni með tímanum. Eftir nokkurra daga þóf var mér í dag nóg boðið enda ætlaði ég að eyða kvöldinu markvisst fyrir framan tölvuna og vinna við ýmiss konar skriftir. Ég keypti mér einn flatan - frá Neovo. Þeir eru ódýrir og ég hef góða reynslu af þeim (sá sem stolið var af mér á Grettisgötunni um árið var aldeilis fínn í þær tvær vikur sem ég notaði hann). Það vita þeir sem staðið hafa í uppfærslu af þessu tagi hvað léttirinn er mikill.
Netið: Karrítexti
Á vísindavefnum var að birtast texti sem ég hef verið að dunda mér við að skrifa um nokkurt skeið. Hann fjallar um karrí. Það kom mér töluvert á óvart þegar ég viðaði að mér heimildir og las mig til um karrí hvað það er margslungið fyrirbæri. Satt að segja þá vafðist það töluvert fyrir mér að gera því viðunandi skil í svona stuttu máli. Þetta er þriðja svarið sem þeir á Vísindavefnum birta eftir mig. Hin tvö sem eru fyrir fjalla um spelti og Gaia-kenninguna. Ég á von á því að það verði eitthvert framhald á þessu næstu vikur og mánuði því mér hafa verið eyrnamerktar nokkrar spurningar sem ég dunda mér áfram við í frístundum að svara. Það má segja að ég hafi tekið það að mér, ásamt tveimur öðrum aðilum, að fjalla um mat fyrir vefinn. Hinir eru meira á næringarfræðilegu línunni á meðan ég tek frekar fyrir svör sem tengjast menningu og matarhefðum. Þrjú svör eru núna í burðarliðnum. Þau fjalla um danska matarmenningu, enskar morgunmatarhefðir og stjörnualdin. Ég stefni að því að klára þessi þrjú svör í næstu viku áður en við Vigdís förum út.
sunnudagur, mars 06, 2005
Matur: Eggaldin í ofni
Þegar ég vaknaði í gær hófst ég handa við að útbúa nýja uppáhaldsréttinn okkar Vigdísar. Við fundum hann í fylgiblaði Moggans í síðustu viku og vorum fljót að prófa hann. Núna sannreyndum við hann með því að klára leifarnar af hráefninu (svolítið dýrt hráefni). Þetta er eggaldinréttur með parmesanosti og mozzarella í ofni ásamt tómötum og ólífuolíu.
Ég byrjaði á því að smyrja eggaldinsneiðar (skornar langsum) með ólífuolíu. Þetta fannst mér í fyrra skiptið vera full löðrandi vinna svo ég ákvað að hella olíunni á pönnuna núna (á meðan hún var köld) og velta sneiðunum upp úr olíunni þar. Lang snyrtilegast. Síðan er þetta hitað upp úr olíunni þar til aldinsneiðarnar eru fallega gullbrúnar. Þessu lokaði ég á pönnunni og leyfði að kólna og hugsaði með mér að það væri bara betra að leyfa sneiðunum að sjúga olíuna í sig góða stund. Ég fór í bæinn á meðan Vigdís vildi kúra frameftir (næturvakt framundan). Svo hringdi ég í hana nokkrum tímum síðar, bað hana um að hita ofninn og kom svo tilbúinn í slaginn. Fínt að geta gert þetta með svona fyrirvara. Þá var aðeins lítilræði eftir. Sneiðunum var raðað í eldfast fat, saltað og piprað, maukuðum tómat úr dós dreift yfir ásamt vænni lófafylli af grænum ólífum (skornum í tvennt). Yfir þetta er fínt að rífa parmesanost, skera svo mozzarella með hníf í þunnar sneiðar og raða yfir og inn í ofn. Það er allt og sumt. Uppskriftin hljóðar reyndar upp á tvö lög af öllu gumsinu en þar sem ég var að klára restar (og var búinn með tvo þriðju af eggaldininu og ostinum) var því ekki að dreifa að sinni. Það kom ekki að sök enda er mjög sveigjanlegur réttur og eflaust hægt að nota sem grunn í ýmislegt. Aðalatriðið er að olíubera eggaldinið vel - og nota gott hráefni. Þá getur þetta ekki klikkað. Það gerir líka heilmikið fyrir réttinn ef maður tálgar parmesan yfir í litlum flísum ásamt því að rífa hann. Það er girnilegra að finna hann undir tönn öðru hvoru.
Bon appetit!
Ég byrjaði á því að smyrja eggaldinsneiðar (skornar langsum) með ólífuolíu. Þetta fannst mér í fyrra skiptið vera full löðrandi vinna svo ég ákvað að hella olíunni á pönnuna núna (á meðan hún var köld) og velta sneiðunum upp úr olíunni þar. Lang snyrtilegast. Síðan er þetta hitað upp úr olíunni þar til aldinsneiðarnar eru fallega gullbrúnar. Þessu lokaði ég á pönnunni og leyfði að kólna og hugsaði með mér að það væri bara betra að leyfa sneiðunum að sjúga olíuna í sig góða stund. Ég fór í bæinn á meðan Vigdís vildi kúra frameftir (næturvakt framundan). Svo hringdi ég í hana nokkrum tímum síðar, bað hana um að hita ofninn og kom svo tilbúinn í slaginn. Fínt að geta gert þetta með svona fyrirvara. Þá var aðeins lítilræði eftir. Sneiðunum var raðað í eldfast fat, saltað og piprað, maukuðum tómat úr dós dreift yfir ásamt vænni lófafylli af grænum ólífum (skornum í tvennt). Yfir þetta er fínt að rífa parmesanost, skera svo mozzarella með hníf í þunnar sneiðar og raða yfir og inn í ofn. Það er allt og sumt. Uppskriftin hljóðar reyndar upp á tvö lög af öllu gumsinu en þar sem ég var að klára restar (og var búinn með tvo þriðju af eggaldininu og ostinum) var því ekki að dreifa að sinni. Það kom ekki að sök enda er mjög sveigjanlegur réttur og eflaust hægt að nota sem grunn í ýmislegt. Aðalatriðið er að olíubera eggaldinið vel - og nota gott hráefni. Þá getur þetta ekki klikkað. Það gerir líka heilmikið fyrir réttinn ef maður tálgar parmesan yfir í litlum flísum ásamt því að rífa hann. Það er girnilegra að finna hann undir tönn öðru hvoru.
Bon appetit!
Upplifun: Föstudagsupplyfting
Á föstudaginn var skruppum við Vigdís á eins konar Árshátið í vinnunni hjá henni, svokallaða Góugleði, með viðeigandi þrírétta máltíð, skemmtiatriðum og fullt af vinnustaðahúmor. Það var allt gott og blessað enda alltaf gaman að hitta nýtt fólk í góðu tómi. Það sem stóð hins vegar hvað hæst upp úr þessari minningu hjá mér var aðdragandi prógrammsins þegar við Vigdís sátum í anddyrinu (hjá Ferðafélagi Íslands í Mörkinni). Það voru tónlistin og fordrykkurinn sem komu aftan að mér. Fyrst drykkurinn, sem var einfaldlega besta freyðivín sem ég hef smakkað. Ég er ekkert fyrir freyðivín (kampavín finnst mér óttalegt gosgutl) en þessi var alveg sérstakur. Ljósrauður með ríkan jarðaberjakeim. Hann var mjög sætur en alveg laus við að vera væminn og svei mér þá ef hann var ekki keimríkur í ofanálag (eftirbragð og allt það). Að sjálfsögðu var tékkað á nafninu: Fresita - Jarðaberjafreyðivín frá Chile, 7,9%, geri aðrir betur! Þarna sötruðum við drykkinn góða, hissa á þessu öllu saman, á meðan undrun tvö læddist að mér. Við vorum að hlusta á Roger Whittaker!. Ég hef ekki heyrt í gamla góða flautandi spörfuglinum síðan ég vann í Skífunni fyrir nákvæmlega tíu árum. Þá setti kollegi minn (mikill og úfinn rokkhundur) þessa stimamjúku tónlist á í lok erfiðs vinnudags og kom skælbrosandi: "Þetta er eins og að vera faðmaður af mjúkum skógarbirni!". Mér fannst súrrealísk samsetningin á drykk og tónlist gefa kvöldinu sérlega góð fyrirheit. Sat svo og fylgdist með ókunnugu fólki læðast inn á svæðið grunlaust um hinar skingilegu aðstæður.
föstudagur, mars 04, 2005
Pæling: Víkingaspil
Nú er enn einni vinnuvikunni lokið. Þessi vika var svolítið sérstök því krakkarnir helltu sér af miklum áhuga út í spil sem ég er búinn að vera að þróa í vetur. Þetta er svona víkingaspil og gengur út á landnám. Það samanstendur af landakorti af Íslandi (einföld ljósrituð útlínuteikning sem skipt hefur verið í um það bil fimmtíu jarðir) og tveimur teningum ásamt mismunandi túss- eða trélitum. Hver jörð er merkt með númeri frá einum og upp í tólf. Við strendurnar eru nokkrar hafnir sem eru sérmerktar. Þær eru byrjunarreitir (það eru því nokkrir mögulegir byrjunarreitir og hver keppandi getur numið land úr mörgum áttum). Síðan gengur spilið út á það að ná sem flestum landskikum og reyna að einangra og króa keppinauta sína af. Sá sem eignast flestar jarðir sigrar. Á þessu spili eru ýmsir áhugaverðir kennslufræðilegir fletir. Til dæmis býður hvert hlutkesti upp á þrjá möguleika. Sé til dæmis kastað 5 og 6 getur nemandinn valið á milli jarða sem merktar eru 5, 6 - eða 11 (þjálfaðir nemendur gætu bætt við úsmognari möguleikum eins og mínus, margföldun og deilingu en ég hef ekki farið út í það með mínum nemendum). Þau þylja fyrir munni sér tölurnar þrjár, eins og möntru, á meðan þau skima yfir kortið til að finna lausa skika sem liggja að landsvæðunum þeirra. Reikniþátturinn er augljóslega stór. Svo lita þau vandlega sinn reit. Það krefst natni og réttrar beitingar á penna (fínt fyrir þá sem þurfa að þjálfa þessa færni en nenna yfirleitt með engu móti að skrifa nokkurn skapaðan hlut). Með tímanum fer að birtast litríkt landakort sem í hvert skipti er einstakt fyrir þá "sögu" sem þau ein þekkja. Það með er þetta afraksturinn orðinn í leiðinni myndrænt verk sem hægt er að hengja upp. Ég læt vera hér að útskýra alla núansana sem hafa komið upp í spilamennskunni en það sem er hvað mest spennandi er að á hverjum degi koma nýjar hugmyndir frá nemendunum sjálfum sem spila þetta af einbeittum áhuga. Ég er farinn að velta því fyrir mér hvort ekki sé ástæða til að viðra þetta á stærri vettvangi með tímanum?
fimmtudagur, mars 03, 2005
Daglegt lif: Spilakvöld á fimmtudegi
Ég er ótrúlega ánægður með kvöldið í kvöld. Við Vigdís ákváðum rétt upp úr fréttum að fara að spila Scrabble. Yfirleitt þegar við skröbblum saman, sem er ekki svo sjaldan, þá er það seint föstudags- eða laugardagskvöldi (og við spilum þá vel frameftir). Núna var klukkan hins vegar tæplega níu á fimmtudegi. Við tókum fram te, pilsner, smá bjór og fullt af nýrri spennandi tónlist (sjá síðustu færslu). Ólíkt venjulegu spilakvöldi hjá okkur héldum við einbeitingu til enda enda kláraðist spilið rétt fyrir miðnætti. Við uppgötvuðum frábæra plötu með Low (Things We Lost in the Fire) og snaggaralega melódíska rokkskífu Lemonheads frá 1992 (It´s a Shame about Ray). Báðar hreint afbragð.
Daglegt líf: Tiltekt i tónlistarskúffum
Þegar ég kom heim úr vinnu í dag var ég þreyttur og dasaður og ákvað að endurnýja mig á einhvern hátt. Ég var með í fórum mínum plastpoka fullan af geisladiskum sem ég hafði lánað vini mínum. Þar á meðal var ein af albestu skífum sem ég þekki. Ég setti hana undir geislann: Television - Marquee Moon. Þvílík plata! Þegar maður hlustar á tónlist í þessum klassa skilur maður ekki tilganginn með að æla út allri þessari iðnaðarvöru sem heyrist í útvarpinu. Með þetta í huga leit ég sömu augum á safnið mitt sem samanstendur af tónlist sem er af ýmsum toga, meðal annars yfir hundrað geisladiska sem ég hef aldrei hlustað á neitt af ráði. Ég ákvað á þessari stundu, með innspýtingu Television í æðum, að taka safnið mitt í gegn. Það hafði verið flokkað nokkurn veginn í tímaröð óháð gæðum hvers disks. Nú fann ég hjá mér þörf fyrir að flokka sundur kjarnann frá hisminu. Á einn stað fór það efni sem ég gæti ekki hugsað mér að vera án lengi í einu. Á annan stað fór efni sem mér er kært á einhvern hátt en gæti líklega leitt hjá mér að jafnaði. Á þriðja staðinn setti ég haug af efni sem ég þekkti illa eða hafði ekki hlustað nægilega mikið á til að mynda mér skoðun á. Mér fannst þessi flokkun fríska mig á undarlegan hátt. Á meðan ég umfaðmaði úrvalsefnið og kinkaði kolli til tónlistarinnar í klassa tvö tók ég mig til og fór að gramsa af nýjum áhuga í þriðja plássinu og fann þar helling af efni sem mig dauðlangaði að kynnast. Ég held ég eigi eftir að uppgötva mikið af tónlist á næstu dögum og vikum.
Matur: Ný útgáfa af grjónagraut
Fínt. Nú er ég passlega saddur eftir að hafa reitt fram vænan slurk af grjónakássu. Ég átti drjúga botnfylli af soðnum grjónum í potti frá í gær sem ég geymdi inni í ísskáp. Ég hellti mjólk saman við til að búa til graut. En það var ekki til neitt kanilduft og afar takmarkaður sykur. Sem betur fer var til einn banani sem ég skar í litla bita ofan í. Ég fylgdist gaumgæfilega með honum leysast saman við grautinn á sama tíma og mjólkinn sauð niður og þykknaði öll. Þetta gaf grautnum frábæran keim og er í sjálfu sér alveg nóg sem létt máltíð. Við þetta má náttúrulega blanda hverju sem er - vanilludropum, smjöri, rjóma, döðlum eða öllu þessu hefðbundna. Hvernig ætli þetta sé með ristuðum möndlum, kælt í ísskáp? Ég hvet fólk til að prófa.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)