sunnudagur, mars 06, 2005
Upplifun: Föstudagsupplyfting
Á föstudaginn var skruppum við Vigdís á eins konar Árshátið í vinnunni hjá henni, svokallaða Góugleði, með viðeigandi þrírétta máltíð, skemmtiatriðum og fullt af vinnustaðahúmor. Það var allt gott og blessað enda alltaf gaman að hitta nýtt fólk í góðu tómi. Það sem stóð hins vegar hvað hæst upp úr þessari minningu hjá mér var aðdragandi prógrammsins þegar við Vigdís sátum í anddyrinu (hjá Ferðafélagi Íslands í Mörkinni). Það voru tónlistin og fordrykkurinn sem komu aftan að mér. Fyrst drykkurinn, sem var einfaldlega besta freyðivín sem ég hef smakkað. Ég er ekkert fyrir freyðivín (kampavín finnst mér óttalegt gosgutl) en þessi var alveg sérstakur. Ljósrauður með ríkan jarðaberjakeim. Hann var mjög sætur en alveg laus við að vera væminn og svei mér þá ef hann var ekki keimríkur í ofanálag (eftirbragð og allt það). Að sjálfsögðu var tékkað á nafninu: Fresita - Jarðaberjafreyðivín frá Chile, 7,9%, geri aðrir betur! Þarna sötruðum við drykkinn góða, hissa á þessu öllu saman, á meðan undrun tvö læddist að mér. Við vorum að hlusta á Roger Whittaker!. Ég hef ekki heyrt í gamla góða flautandi spörfuglinum síðan ég vann í Skífunni fyrir nákvæmlega tíu árum. Þá setti kollegi minn (mikill og úfinn rokkhundur) þessa stimamjúku tónlist á í lok erfiðs vinnudags og kom skælbrosandi: "Þetta er eins og að vera faðmaður af mjúkum skógarbirni!". Mér fannst súrrealísk samsetningin á drykk og tónlist gefa kvöldinu sérlega góð fyrirheit. Sat svo og fylgdist með ókunnugu fólki læðast inn á svæðið grunlaust um hinar skingilegu aðstæður.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli