föstudagur, mars 04, 2005
Pæling: Víkingaspil
Nú er enn einni vinnuvikunni lokið. Þessi vika var svolítið sérstök því krakkarnir helltu sér af miklum áhuga út í spil sem ég er búinn að vera að þróa í vetur. Þetta er svona víkingaspil og gengur út á landnám. Það samanstendur af landakorti af Íslandi (einföld ljósrituð útlínuteikning sem skipt hefur verið í um það bil fimmtíu jarðir) og tveimur teningum ásamt mismunandi túss- eða trélitum. Hver jörð er merkt með númeri frá einum og upp í tólf. Við strendurnar eru nokkrar hafnir sem eru sérmerktar. Þær eru byrjunarreitir (það eru því nokkrir mögulegir byrjunarreitir og hver keppandi getur numið land úr mörgum áttum). Síðan gengur spilið út á það að ná sem flestum landskikum og reyna að einangra og króa keppinauta sína af. Sá sem eignast flestar jarðir sigrar. Á þessu spili eru ýmsir áhugaverðir kennslufræðilegir fletir. Til dæmis býður hvert hlutkesti upp á þrjá möguleika. Sé til dæmis kastað 5 og 6 getur nemandinn valið á milli jarða sem merktar eru 5, 6 - eða 11 (þjálfaðir nemendur gætu bætt við úsmognari möguleikum eins og mínus, margföldun og deilingu en ég hef ekki farið út í það með mínum nemendum). Þau þylja fyrir munni sér tölurnar þrjár, eins og möntru, á meðan þau skima yfir kortið til að finna lausa skika sem liggja að landsvæðunum þeirra. Reikniþátturinn er augljóslega stór. Svo lita þau vandlega sinn reit. Það krefst natni og réttrar beitingar á penna (fínt fyrir þá sem þurfa að þjálfa þessa færni en nenna yfirleitt með engu móti að skrifa nokkurn skapaðan hlut). Með tímanum fer að birtast litríkt landakort sem í hvert skipti er einstakt fyrir þá "sögu" sem þau ein þekkja. Það með er þetta afraksturinn orðinn í leiðinni myndrænt verk sem hægt er að hengja upp. Ég læt vera hér að útskýra alla núansana sem hafa komið upp í spilamennskunni en það sem er hvað mest spennandi er að á hverjum degi koma nýjar hugmyndir frá nemendunum sjálfum sem spila þetta af einbeittum áhuga. Ég er farinn að velta því fyrir mér hvort ekki sé ástæða til að viðra þetta á stærri vettvangi með tímanum?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli