sunnudagur, mars 06, 2005

Matur: Eggaldin í ofni

Þegar ég vaknaði í gær hófst ég handa við að útbúa nýja uppáhaldsréttinn okkar Vigdísar. Við fundum hann í fylgiblaði Moggans í síðustu viku og vorum fljót að prófa hann. Núna sannreyndum við hann með því að klára leifarnar af hráefninu (svolítið dýrt hráefni). Þetta er eggaldinréttur með parmesanosti og mozzarella í ofni ásamt tómötum og ólífuolíu.

Ég byrjaði á því að smyrja eggaldinsneiðar (skornar langsum) með ólífuolíu. Þetta fannst mér í fyrra skiptið vera full löðrandi vinna svo ég ákvað að hella olíunni á pönnuna núna (á meðan hún var köld) og velta sneiðunum upp úr olíunni þar. Lang snyrtilegast. Síðan er þetta hitað upp úr olíunni þar til aldinsneiðarnar eru fallega gullbrúnar. Þessu lokaði ég á pönnunni og leyfði að kólna og hugsaði með mér að það væri bara betra að leyfa sneiðunum að sjúga olíuna í sig góða stund. Ég fór í bæinn á meðan Vigdís vildi kúra frameftir (næturvakt framundan). Svo hringdi ég í hana nokkrum tímum síðar, bað hana um að hita ofninn og kom svo tilbúinn í slaginn. Fínt að geta gert þetta með svona fyrirvara. Þá var aðeins lítilræði eftir. Sneiðunum var raðað í eldfast fat, saltað og piprað, maukuðum tómat úr dós dreift yfir ásamt vænni lófafylli af grænum ólífum (skornum í tvennt). Yfir þetta er fínt að rífa parmesanost, skera svo mozzarella með hníf í þunnar sneiðar og raða yfir og inn í ofn. Það er allt og sumt. Uppskriftin hljóðar reyndar upp á tvö lög af öllu gumsinu en þar sem ég var að klára restar (og var búinn með tvo þriðju af eggaldininu og ostinum) var því ekki að dreifa að sinni. Það kom ekki að sök enda er mjög sveigjanlegur réttur og eflaust hægt að nota sem grunn í ýmislegt. Aðalatriðið er að olíubera eggaldinið vel - og nota gott hráefni. Þá getur þetta ekki klikkað. Það gerir líka heilmikið fyrir réttinn ef maður tálgar parmesan yfir í litlum flísum ásamt því að rífa hann. Það er girnilegra að finna hann undir tönn öðru hvoru.

Bon appetit!

Engin ummæli: