fimmtudagur, mars 03, 2005
Daglegt líf: Tiltekt i tónlistarskúffum
Þegar ég kom heim úr vinnu í dag var ég þreyttur og dasaður og ákvað að endurnýja mig á einhvern hátt. Ég var með í fórum mínum plastpoka fullan af geisladiskum sem ég hafði lánað vini mínum. Þar á meðal var ein af albestu skífum sem ég þekki. Ég setti hana undir geislann: Television - Marquee Moon. Þvílík plata! Þegar maður hlustar á tónlist í þessum klassa skilur maður ekki tilganginn með að æla út allri þessari iðnaðarvöru sem heyrist í útvarpinu. Með þetta í huga leit ég sömu augum á safnið mitt sem samanstendur af tónlist sem er af ýmsum toga, meðal annars yfir hundrað geisladiska sem ég hef aldrei hlustað á neitt af ráði. Ég ákvað á þessari stundu, með innspýtingu Television í æðum, að taka safnið mitt í gegn. Það hafði verið flokkað nokkurn veginn í tímaröð óháð gæðum hvers disks. Nú fann ég hjá mér þörf fyrir að flokka sundur kjarnann frá hisminu. Á einn stað fór það efni sem ég gæti ekki hugsað mér að vera án lengi í einu. Á annan stað fór efni sem mér er kært á einhvern hátt en gæti líklega leitt hjá mér að jafnaði. Á þriðja staðinn setti ég haug af efni sem ég þekkti illa eða hafði ekki hlustað nægilega mikið á til að mynda mér skoðun á. Mér fannst þessi flokkun fríska mig á undarlegan hátt. Á meðan ég umfaðmaði úrvalsefnið og kinkaði kolli til tónlistarinnar í klassa tvö tók ég mig til og fór að gramsa af nýjum áhuga í þriðja plássinu og fann þar helling af efni sem mig dauðlangaði að kynnast. Ég held ég eigi eftir að uppgötva mikið af tónlist á næstu dögum og vikum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli