fimmtudagur, mars 03, 2005

Matur: Ný útgáfa af grjónagraut

Fínt. Nú er ég passlega saddur eftir að hafa reitt fram vænan slurk af grjónakássu. Ég átti drjúga botnfylli af soðnum grjónum í potti frá í gær sem ég geymdi inni í ísskáp. Ég hellti mjólk saman við til að búa til graut. En það var ekki til neitt kanilduft og afar takmarkaður sykur. Sem betur fer var til einn banani sem ég skar í litla bita ofan í. Ég fylgdist gaumgæfilega með honum leysast saman við grautinn á sama tíma og mjólkinn sauð niður og þykknaði öll. Þetta gaf grautnum frábæran keim og er í sjálfu sér alveg nóg sem létt máltíð. Við þetta má náttúrulega blanda hverju sem er - vanilludropum, smjöri, rjóma, döðlum eða öllu þessu hefðbundna. Hvernig ætli þetta sé með ristuðum möndlum, kælt í ísskáp? Ég hvet fólk til að prófa.

Engin ummæli: