sunnudagur, ágúst 28, 2005
Matur: Dýrðarinnar samloka
Við Vigdís fórum í gær í berjamó (við erum búin að vera nokkuð dugleg við það að undanförnu). Fórum Nesjavallaleiðina í átt að Þingvöllum og svo heim. Þá leið hafði ég aldrei farið áður og fannst mikið til þess koma. Veðrið var alveg svakalega fallegt og skemmtilegt að sjá fólk í hverri einustu hlíð að bograst þetta með fötur og skálar. Á Þingvöllum stoppuðum við hins vegar til að borða og þá tók ég upp samloku sem nánast stal senunni. Þetta var mjög svo óhefðbundin túnfiskssamloka þar sem túnfiskurinn hafði ekki verið kurlaður eða blandaður við sósusull heldur naut hann sín í áþreifanlegum flykkjum innan um léttsúra ætiþistla og rauðlauk. Brauðið var smurt með sætu sinnepi, lagt með íssalati. Ekki spillti heiðríkan á Þingvöllum fyrir.
laugardagur, ágúst 27, 2005
Pæling: Baunir og hnetur
Á kaffistofunni í skólanum áttu sér stað undarlegar samræður sem snerust um hnetur. Einn kennarinn kom með þá staðhæfingu að svokallaðar "salthnetur" (sem í raun eru bara saltaðar "jarðhnetur") væru ekki hnetur heldur baunir og væru því grænmeti (legumes). Því til stuðnings benti hún á að í enskumælandi heimi væru þessar hnetur ekki kallaðar jarðhnetur heldur baunahnetur (peanuts). Þá fór maður að velta fyrir sér orðaflórunni og hvernig hún myndi umbreytast öll ef maður kallaði allt sínu rétta nafni. Ef jarðhnetur ættu að heita baunahnetur þá yrði hnetusmjör kallað baunahnetusmjör. Þar sem hnetusmjör er ekki bara notað á brauð mætti allt eins kalla það baunahnetumauk. Þær afurðir sem samanstanda fyrst og fremst af þessu mauki, eins og Satay-sósan (sem notuð er mikið í Indónesíska rétti og er afar vinsæl í Hollandi) héti því baunahnetumaukssósa. Hollenskur samkennari minn brosti mikið að þessu enda væri hugtakið ólíkt stirðara í daglegu tali en Satay-sósa - og kannski ekki eins girnilegt.
mánudagur, ágúst 22, 2005
Fréttnæmt: Seinni hluti - uppákomur alls staðar
Undanfarna daga hefur verið ærið mikill erill. Hann hefur reyndar verið af ánægjulegra taginu í formi tónleikahalds, hátíðahalda og heimboða. Byrjum á miðvikudeginum. Þá héldu Sonic Youth, hin geysimagnaða hávaðabeislandi rokksveit frá New York, tónleika á NASA. Það var upplifun út af fyrir sig að sjá þá því ég hef haldið upp á þá síðan ég var á unglingsaldri. Ég hitti nokkra vini mína eftir tónleikana og við urðum að skella okkur á Kaffibrennsluna til að gera tónleikana upp. Ég kom því seint heim það kvöldið. Daginn eftir þraukaði ég syfjaður undirbúningsvinnudag í skólanum (nú er það allt að fara af stað) og uppgötvaði á síðum Fréttablaðsins að einvalalið íslenskrar tónlistarflóru ætlaði sér þá um kvöldið að troða upp á Grandrokk með svokölluðum Bowie-tribute tónleikum. Þetta voru þeir Guðmundur Pé. á Gítar, Birgir Baldurs á trommu og fleiri. Ég hringdi í flesta Bowieunnandi vini mína og boðaði þessa stórveislu af mikili skyldurækni og brennandi áhuga. Tveir þeirra mættu á staðinn (Jón Már - ásamt bróður sínum reyndar - og Halldór, sem hefur unnið með mér árum saman á sambýlinu í Grafarvogi). Við skemmtum okkur einstaklega vel enda var mikil partýstemning þarna inni, eins og vera ber. Tónlistin er náttúrulega frábær og henni var gerð mjög músíkölsk og kraftimikil skil. Aftur skilaði ég mér seint heim. Næsti vinnudagur var enn erfiðari og höfðu menn það á orði að ég væri ekki enn búinn að skila mér niður á jörðina. Þannig var það langt fram eftir degi þangað til þreytan fór að segja verulega til sín seinni partinn. Það var í raun óheppilegt því einmitt þá hófst ég handa við að klæða mig í mitt fínasta skart því Kristján var að halda útskriftarveislu sem doktor í eðlisfræði ásamt Stellu sem nýlega kláraði B.A. í bókmenntafræði (og þau á leiðinni út til Danmerkur í næstu viku). Upp á þetta var haldið með pompi og pragt. Mig grunar hins vegar að ég hafi sveimað um eins og hálfgerður draugur því ég var á fullu að skrapa orku upp úr varatankinum. Ég naut þess engu að síður að spjalla við gesti, einkum foreldra þeirra Kristjáns og Stellu og virti fyrir mér húsakynnin sem voru glæsileg. Veitingarnar voru einnig hreinasta afbragð. Ég fór hins vegar sæmilega snemma að sofa í þetta skiptið. Gat reyndar ekki sofið út því ég ákvað að skutla Vigdísi á morgunvakt og fór svo í bæinn á svokallaða Menningarnótt þá um morguninn. Það var eiginlega bara lýjandi. Keypti mér þó slatta af geisladiskum í 12 tónum (allt á hálfvirði). Fór heim í millitíðinni, sótti svo Vigdísi og fór í bæinn aftur. Labbaði að lokum heim með Vigdísi í eftirminnilegu skyndiúrhelli að flugeldum loknum. Það var því ekki fyrr en á sunnudag að ég gat fyrst farið að slaka á. Fór upp úr hádegi í afslappaða og þægilega kaffiheimsókn til Einars og Sólveigar í Kópavoginum þar sem ég hitti Kristján og Stellu einnig. Við spjölluðum um útskriftir, ferðalög og barneignir (kannski mest um barneignir). Gott að slaka aðeins á efti þetta allt saman áður en vinnuvikan hefst á ný fyrir alvöru.
Fréttnæmt: Fyrri hluti - Geitungaskúrinn
Yfirleitt þegar illa gengur að skrifa þá stafar það af því að of mikið hefur gengið á og lítill tími verið til aflögu. Ég hef ekki skrifað núna í um tíu daga. Það byrjaði með geitungatörn á miðvikudaginn fyrir rúmri viku síðan. Geitungabú uppgötvaðist innan á klæðningunni á bílskúrnum okkar, nágrannamegin. Þaðan barst okkur kvörtun og ég leitaði strax til Jóns Más, sem hefur svo heppilega farið á námskeið í útrýmingu meindýra. Hann þurfti í stuttu máli að heimsækja okkur nokkrum sinnum því staðsetningin á búinu gerði honum illkleift að ráða niðurlögum búsins. Með eitri tókst ekki að metta loftið kringum búið því loftgöt voru nánast á allri húshliðinni. Flugurnar fundu alltaf nýja leið út úr klæðningunni og inn aftur - þar til við tókum á honum stóra okkar og fylltum inn í öll nærliggjandi göt. Síðan hefur ekki borið mikið á flug(u)umferð í grennd við skúrinn. Mér verður samt stundum hugsað til þeirra þar sem þær kunna að vera að svelta innanklæðningar á bílskúrnum. Hálf óskemmtileg mynd sem hugurinn bregður upp af þeim viðburði. En það er bara ég. Sem verðlaun fyrir rösklega framgöngu bauð ég Jóni inn, ásamt Margréti sem var með honum í úrslitaskiptið, og bauð þeim upp á allsherjar svarta veislu. Hún samanstóð af hálf ógeðslegum Batman-frostpinna (sem við Vigdís keyptum nýverið á tilboði) og krækiber (með rjóma og vænum slurki af hindberjaís). Þau gerðu veitingunum að sjálfsögðu góð skil.
miðvikudagur, ágúst 10, 2005
Daglegt líf: Meðgöngusamvera
Í gær fórum við Vigdís í heimsókn til Bjarts og Jóhönnu í þeim tilgangi að bera saman bumbur, eins og okkur fannst við komast svo hnyttilega að orði, ásamt því að skiptast á meðgöngusögum. Eins og lesa má út úr þessum orðum er Jóhanna ólétt, rétt eins og Vigdís. Hún er því sem næst fjórum mánuðum á undan okkur. Við Vigdís nutum því ekki aðeins kaffiveitinga í góðu tómi heldur fengum við líka mikilvæga innsýn í þann kafla meðgöngunnar sem framundan er. Þau Jóhanna og Bjartur eru nefnilega búin að undirbúa sig mjög vel enda hafa þeim borist föt úr öllum áttum sem geymd eru í þartilgerðri kommóðu, allt sorterað í stærðarröð. Við sáum okkur strax í anda fara að undirbúa lokakafla vegferðarinnar.
þriðjudagur, ágúst 09, 2005
Sjónvarpið: Veraldarrökkvun
Í sjónvarpinu í gærkvöldi var magnaður fræðsluþáttur um "global dimming" eða svokallaða veraldarrökkvun sem virðist vega upp á móti gróðurhúsaáhrifunum. Jón Már kíkti í heimsókn til okkar Vigdísar og sá þáttinn með okkur. Dómsdagsspáin ýtti við okkur öllum. Maður man nú eftir þættinum hér um árið um flóðbylgjuna frá Kanaríeyjum sem átti að geta valdið stórtjóni á Atlantshafi en varð síðan skyndilega að raunveruleika annars staðar á hnettinum fyrir tæpu ári síðan. Global dimming útskýrir vel hvers vegna gróðurhúsaáhrifin skelfilegu séu ekki lengra á veg komin í samanburði við gamlar dómsdagsspár. Nú virðist þetta allt vera að koma heim og saman.
mánudagur, ágúst 08, 2005
Fréttnæmt: Meðgangan. Sónarmyndir.
Í dag fórum við í reglubundna skoðun hjá ljósmóður, og enn virðist allt vera með felldu. Eftir það kíktum við upp á fósturgreiningardeild Landspítalans og sáum barnið í fyrsta skipti með eigin augum þar sem það bylti sér í leginu. Magnað að sjá þetta svona. Við fengum svo að fara heim með fjórar myndir til að sýna vinum og ættingjum. Í dag hefur því verið töluverður gestagangur og notaleg stemning. Við höfum verið spurð töluvert um kynið en enn sem komið er vitum það ekki. Þær upplýsingar geymum við í lokuðu umslagi þar til okkur finnst tímabært að vita það. Hins vegar er fæðingardagsetningin komin á hreint, hún er sett á 31. desember, en það er enn einhverjum breytingum háð. Þegar á hólminn er komið vonumst við til að dagurinn verði hinum megin við áramótin. Kannski þrettándinn...
Vídeo: Mannránsmyndir
Ekki er meiningin að tíunda gæði allra þeirra mynda sem við Vigdís sjáum. Það yrði með tímanum hvimleitt og tilgangslaust. Ég stenst hins vegar ekki mátið í þetta skiptið vegna þess að í vikunni sáum við tvær myndir sem tengjast innbyrðis. Þær eru báðar rómaðar mannránsmyndir. Fyrst sáum við myndina Breakdown sem tekin var upp fyrir okkur úr sjónvarpinu. Ágætis afþreying. Svolítið öfgakennd og ótrúverðug en engu að síður heldur hún manni vel við efnið. Þessi mynd varð hins vegar til þess að við tókum aðra sem líklega telst vera rómaðasta mannránsmynd allra tíma, the Vanishing. Ég sá hana fyrst fyrir nokkrum árum og gat ekki á mér setið að sjá hana aftur. Ólíkt Breakdown gengur þessi mynd hundrað prósent upp og gerir beinlínis út á þá að maður setji sig í spor og huga kaldlynda mannræningjans. Maður stendur sjálfan sig að því að eiga tiltölulega auðvelt með það. Algjör sálfræðihrollur. Ég verð hins vegar að benda fólki á að sjá hollensku frumgerðina (Spoorlos) frekar en þá amerísku. Á þeim er veigamikill munur.
Veikindi: Góðkynja stöðusvimi
Ég er búinn að vera hálf skrýtinn undanfarna þrjá daga. Það byrjaði seinni part garðdagsins svokallaða, þá kom ég dasaður heim úr sundferð. Ég fór að vera eitthvað þreyttur í hausnum og fékk undarlegan svima. Auðvitað hélt ég að þetta væri undanfari hefðbundinnar flensu og hafði hægt um mig það sem eftir var dagsins. Daginn eftir var ég einkennalaus og mjög ferskur, fór í bæinn og horfði á Gay Pride gönguna ásamt Vigdísi. Aftur gerðist það hins vegar við heimkomu, seinni partinn, að ég fór að finna fyrir þessum svima ásamt þreytu í hausnum. Sviminn var ólíkur venjulegum svima sem fylgir lágum blóðþrýstingi. Ég þekki þann svima vel. Hann hefur fylgt mér í gegnum tíðina. Mér hefur nokkrum sinnum sortnað fyrir augum við það eitt að standa skyndilega á fætur. Þessi svimi virtist hins vegar vera öðruvísi og brestur á við einfaldan höfuðsnúning. Til dæmis hallaði ég mér aftur þegar ég var að gæða mér á ís í brauðformi (formið byrjaði að leka og ég þurfti þá að sjúga ísinn úr forminu). Við þetta fékk ég öflugan svima. Mig svimaði jafnvel við það að bylta mé uppi í rúmi. Okkur fór þá að gruna sterklega að þetta hlyti að vera eitthvað inni í innra eyranu, frekar en blóðþrýsingurinn, ef til vill sýking af völdum ofnæmisins. Það stóð heima. Stutt læknisskoðun á sunnudagsmorgni leiddi í ljós að þetta var góðkynja stöðusvimi sem á útlenskunni útleggst sem "benign paroxysmal positional vertigo". Þar hafiði það. Þetta á víst að ganga yfir á innan við viku. Ég fann fyrir engum svima í gær þannig að það getur verið að þetta sé nú þegar yfirstaðið.
laugardagur, ágúst 06, 2005
Upplifun: Garðdagurinn mikli
Við Vigdís erum svo heppin að hafa aðgang að fallegum og myndarlegum garði með tilheyrandi grasflöt, beðum og trjágróðri. Því fylgir náttúrulega heilmikil vinna en sem betur fer er henni ekki allri velt yfir á okkur. Ég sé um að slá blettinn á um það bil tveggja vikna fresti en bæjarvinnan er hins vegar fengin til að hirða beðin tvisvar á sumri. Þetta skilst mér að sé þjónusta bæjarins við "gamla fólkið", en eigandi lóðarinnar er einmitt eldri kona sem, þrátt fyrir fjarveru sína vegna veikinda, er annt um garðinn sinn.
Svo stendur maður sjálfur, fullfrískur og horfir á mannskapinn úti í garði (ýmist sofandi eða í vatnsslag) og finnst í rauninni vera meira ónæði af þessu brölti en þjónusta. Í fyrra skiptið var það að minnsta kosti með þeim hætti. Þau unnu sína vinnu með hangandi hendi og skildu eftir stór svæði í órækt. Þegar þau voru farin sá ég fram á að þurfa að taka til í beðunum sjálfur, sem óx mér nokkuð í augum. Í gær komu þau hins vegar í seinna skiptið. Það var víst annar hópur sem mér skildist að væri töluvert duglegri. Ég leit á hópinn sem velkomna aðstoð við mig enda hefði ég sjálfur átt að sinna garðinum betur í sumar. Til að gera sem mest úr þessari "aðstoð" byrjaði ég daginn á því að skella margrómuðu bananabrauði í ofninn og bauð þeim það í kaffihléinu ásamt osti, sódavatni og pepsí. Þetta sló í gegn og létu þau sérlega vel að brauðinu. Veðrið var líka frábært og afköstin voru eftir því mjög fín. Þau töluðu um það á meðan þau mauluðu brauðið hvað þetta var búið að vera erfitt sumar enda stöðug vætutíð vikum saman. Þar sem þetta var síðasti dagurinn hjá þeim flestum, sól í heiði og fint veður, sögðu þau það mikils virði að lenda á svona góðum "garði" svona í lokin.
Satt að segja var ég búinn að vera með nokkuð samviskubit yfir því í alllangan tíma að geta ekki sinnt garðinum almennilega. Vegna vaxandi áhuga á garðyrkju gat ég ekki á mér setið og tók þátt í því með hersveitinni að snyrta garðinn. Miklu skemmtilegra að gera það í kröftugum hópi heldur en eftir á. Ég gerði svona það smámunalegasta eins og að kantskera og annaði í þeim dúr, allt það sem mér fannst leiðinlegast að biðja aðra um. Í leiðinni var ég bæði sýnilegur og að einhverju leyti til leiðbeiningar um frágang. Þetta var feykilega gaman og ég græddi ábyggilega sjálfur lang mest á þessu enda kynntist ég garðinum algerlega upp á nýtt með þessu brölti mínu. Ég vissi nefnilega ekki ég fyrr en ég tók á garðinum hversu miklar dásemdir hann hefur að geyma. Rabarbarinn og ribsberin fara reyndar ekki fram hjá neinum en inn á milli má hins vegar finna gnægð af graslauk, einhvers konar lakkrísrunna og duglega sprettu af myntu á leyndum stað, svo að ekki sé minnst á allar matjurtirnar sem ég hef sett niður í matjurtargarðinum (sem núna hýsir rósmarín, basilikum, villiblóðberg og jarðarberjarunna). Það er því alveg ljóst að það sem eftir lifir sumars á öll matseld á eftir að taka mið af matarkistunni bakatil.
Svo stendur maður sjálfur, fullfrískur og horfir á mannskapinn úti í garði (ýmist sofandi eða í vatnsslag) og finnst í rauninni vera meira ónæði af þessu brölti en þjónusta. Í fyrra skiptið var það að minnsta kosti með þeim hætti. Þau unnu sína vinnu með hangandi hendi og skildu eftir stór svæði í órækt. Þegar þau voru farin sá ég fram á að þurfa að taka til í beðunum sjálfur, sem óx mér nokkuð í augum. Í gær komu þau hins vegar í seinna skiptið. Það var víst annar hópur sem mér skildist að væri töluvert duglegri. Ég leit á hópinn sem velkomna aðstoð við mig enda hefði ég sjálfur átt að sinna garðinum betur í sumar. Til að gera sem mest úr þessari "aðstoð" byrjaði ég daginn á því að skella margrómuðu bananabrauði í ofninn og bauð þeim það í kaffihléinu ásamt osti, sódavatni og pepsí. Þetta sló í gegn og létu þau sérlega vel að brauðinu. Veðrið var líka frábært og afköstin voru eftir því mjög fín. Þau töluðu um það á meðan þau mauluðu brauðið hvað þetta var búið að vera erfitt sumar enda stöðug vætutíð vikum saman. Þar sem þetta var síðasti dagurinn hjá þeim flestum, sól í heiði og fint veður, sögðu þau það mikils virði að lenda á svona góðum "garði" svona í lokin.
Satt að segja var ég búinn að vera með nokkuð samviskubit yfir því í alllangan tíma að geta ekki sinnt garðinum almennilega. Vegna vaxandi áhuga á garðyrkju gat ég ekki á mér setið og tók þátt í því með hersveitinni að snyrta garðinn. Miklu skemmtilegra að gera það í kröftugum hópi heldur en eftir á. Ég gerði svona það smámunalegasta eins og að kantskera og annaði í þeim dúr, allt það sem mér fannst leiðinlegast að biðja aðra um. Í leiðinni var ég bæði sýnilegur og að einhverju leyti til leiðbeiningar um frágang. Þetta var feykilega gaman og ég græddi ábyggilega sjálfur lang mest á þessu enda kynntist ég garðinum algerlega upp á nýtt með þessu brölti mínu. Ég vissi nefnilega ekki ég fyrr en ég tók á garðinum hversu miklar dásemdir hann hefur að geyma. Rabarbarinn og ribsberin fara reyndar ekki fram hjá neinum en inn á milli má hins vegar finna gnægð af graslauk, einhvers konar lakkrísrunna og duglega sprettu af myntu á leyndum stað, svo að ekki sé minnst á allar matjurtirnar sem ég hef sett niður í matjurtargarðinum (sem núna hýsir rósmarín, basilikum, villiblóðberg og jarðarberjarunna). Það er því alveg ljóst að það sem eftir lifir sumars á öll matseld á eftir að taka mið af matarkistunni bakatil.
miðvikudagur, ágúst 03, 2005
Matur: Uppskrift að sumarsúpu
Vegna fjölda áskorana hef ég ákveðið að birta uppskriftina að uppáhalds sumarsúpunni okkar Vigdísar. Við elduðum hana í tvígang í síðustu viku fyrir vini og vandamenn.
Tómatsúpa með ferskjum og rækjum
1 laukur og 1-3 hvítlauksrif eru léttsteikt í olíu ásamt 1-2 tsk. af karrí.
1 dós af niðursoðnum tómötum bætt út í ásamt 4 dl. af fisksoði (vatn + teningar). Látið krauma í 5-10 mín.
Bætið einni dós af niðursoðnum ferskjum (skerið þær í passlega stóra bita) og setjið út í ásamt einum pela af rjóma. Bragðbætið með örlitlum ferskjusafa úr dósinni (drekkið bara restina). Hleypið upp að suðu.
Takið pottinn af hellunni og setjið 200g af rækjum út í (látið ekki sjóða)
Skerið kínakál í mjóa strimla, setjið í skálar og hellið súpunni í.
Mælt er eindregið með góðu brauði sem meðlæti og einhverjum bragðmildum drykk að smekk hvers og eins.
Tómatsúpa með ferskjum og rækjum
1 laukur og 1-3 hvítlauksrif eru léttsteikt í olíu ásamt 1-2 tsk. af karrí.
1 dós af niðursoðnum tómötum bætt út í ásamt 4 dl. af fisksoði (vatn + teningar). Látið krauma í 5-10 mín.
Bætið einni dós af niðursoðnum ferskjum (skerið þær í passlega stóra bita) og setjið út í ásamt einum pela af rjóma. Bragðbætið með örlitlum ferskjusafa úr dósinni (drekkið bara restina). Hleypið upp að suðu.
Takið pottinn af hellunni og setjið 200g af rækjum út í (látið ekki sjóða)
Skerið kínakál í mjóa strimla, setjið í skálar og hellið súpunni í.
Mælt er eindregið með góðu brauði sem meðlæti og einhverjum bragðmildum drykk að smekk hvers og eins.
þriðjudagur, ágúst 02, 2005
Fréttnæmt: Stofan verður huggulegri
Það var einstaklega þægilegt að hreiðra um sig í stofunni heima á meðan meirihluti landsmanna kúldraðist í suddanum utandyra um síðustu helgi. Ekki það að maður hugsaði mikið um hlutskipti annarra heldur fór bara sérstaklega vel um okkur í nýjum hægindastól. Við fengum hann í IKEA í síðustu viku og erum hæstánægð með hann. Hann býður nefnilega upp á öll þægindi Lay-z-boy stólanna en er mikið nettari og passar betur inn í hjá okkur. Það er í rauninni fyrst núna sem sjónvarpsstundirnar eru orðnar makindalegar því antíksófinn var aldrei gerður fyrir annað en teboð á sínum tíma.
mánudagur, ágúst 01, 2005
Vídeó: Fjögurra mynda "Innipúkahátið".
Verslunarmannahelgin var innipúkahelgi hjá okkur í Granaskjólinu. Við fórum reyndar ekki á neina svokallaða Innipúkatónleika heldur tókum við skurk í vídeóglápi og af metnaði leituðum við fanga hjá Aðalvídeóleigunni. Við horfðum á tvær myndir á dag í tvo daga. Afraksturinn var þessi:
Tesis. Spænskur taugatryllir af bestu gerð. Minnti mig örlítið á Nattevagten hvað varðar frumlega nálgun og efnistök. Hún fjallar um kvikmyndafræðinema sem ákveður að skrifa um ofbeldi í kvikmyndum, fer á stúfana í hirslum skólans og kemst óvart yfir myndband með raunverulegum misþyrmingum og morði. Þá tekur verkefnavinnan náttúrulega allt aðra stefnu. Mjög flott handrit.
L´ennui. Frönsk kvikmynd um þráhyggjukennt, furðulegt og eiginlega óskiljanlegt ástarsamband. Við náðum engum tengslum við myndina. Okkur fannst hún langdregin og leiðinleg. Það hefur reyndar eitthvað með það að gera að okkur þótti erfitt að hafa frönskuna í eyrunum.
Angel Heart. Snilldarverk Alan Parker. Mjög myrk mynd í anda "Seven" (er reyndar um 10 árum eldri en hún). Handritið kemur verulega aftan að manni (löngu áður en það komst í tísku) og heldur manni fram að því í heljargreipum allan tímann. Reyndar er myndin mjög sérkennilegt sambland af hryllingsmynd og sakamálamynd. Leikurinn í hæsta gæðaflokki (Mickey Rourke kemur verulega á óvart og Robert De Niro er sérlega eftirminnilegur). Það sem fangaði mig hins vegar mest af öllu var handbragð leikstjórans, Alan Parker, enda er myndin mikið augnayndi. Hann hefur ótal oft sýnt hversu fagmannlega hann vinnur með öll sjónarhorn, klippingar og setur fram heillandi sjónarspil ljóss og skugga. Mynd til að eiga og skoða vel, ramma fyrir ramma.
Bad Guy. Kóreysk mynd um dapurleg örlög ungrar stúlku sem hneppt er í þrældóm vændis. Stuggar við manni með svipuðum hætti og Lilya-4-ever. Hún er reyndar ekki eins óþyrmileg því stílbragð leikstjórans er allan tímann mjög fágað og listrænt. Fegurðin nær einhverra hluta vegna að ráða ríkjum allan tímann, jafnvel á hrottalegustu augnablikum. Samband stúlkunnar við mangara sinn er stundum baðað dularfullum rómantískum ljóma, gegnum ríkjandi tómleika. Mjög sérkennileg mynd. Handbragðið minnir svolítið á Requiem for a Dream, sem sýnd verður í sjónvarpinu um næstu helgi.
Jæja, núna ætlum við að horfa svolítið á Himalaya-seríu Michal Palins, sem sýnd var í sjónvarpinu nýlega. Ég fann hana á bókasafninu í Hafnarfirði og get notið þess að fara mjög vandlega gegnum ferðalag hans um "þak heimsins".
Tesis. Spænskur taugatryllir af bestu gerð. Minnti mig örlítið á Nattevagten hvað varðar frumlega nálgun og efnistök. Hún fjallar um kvikmyndafræðinema sem ákveður að skrifa um ofbeldi í kvikmyndum, fer á stúfana í hirslum skólans og kemst óvart yfir myndband með raunverulegum misþyrmingum og morði. Þá tekur verkefnavinnan náttúrulega allt aðra stefnu. Mjög flott handrit.
L´ennui. Frönsk kvikmynd um þráhyggjukennt, furðulegt og eiginlega óskiljanlegt ástarsamband. Við náðum engum tengslum við myndina. Okkur fannst hún langdregin og leiðinleg. Það hefur reyndar eitthvað með það að gera að okkur þótti erfitt að hafa frönskuna í eyrunum.
Angel Heart. Snilldarverk Alan Parker. Mjög myrk mynd í anda "Seven" (er reyndar um 10 árum eldri en hún). Handritið kemur verulega aftan að manni (löngu áður en það komst í tísku) og heldur manni fram að því í heljargreipum allan tímann. Reyndar er myndin mjög sérkennilegt sambland af hryllingsmynd og sakamálamynd. Leikurinn í hæsta gæðaflokki (Mickey Rourke kemur verulega á óvart og Robert De Niro er sérlega eftirminnilegur). Það sem fangaði mig hins vegar mest af öllu var handbragð leikstjórans, Alan Parker, enda er myndin mikið augnayndi. Hann hefur ótal oft sýnt hversu fagmannlega hann vinnur með öll sjónarhorn, klippingar og setur fram heillandi sjónarspil ljóss og skugga. Mynd til að eiga og skoða vel, ramma fyrir ramma.
Bad Guy. Kóreysk mynd um dapurleg örlög ungrar stúlku sem hneppt er í þrældóm vændis. Stuggar við manni með svipuðum hætti og Lilya-4-ever. Hún er reyndar ekki eins óþyrmileg því stílbragð leikstjórans er allan tímann mjög fágað og listrænt. Fegurðin nær einhverra hluta vegna að ráða ríkjum allan tímann, jafnvel á hrottalegustu augnablikum. Samband stúlkunnar við mangara sinn er stundum baðað dularfullum rómantískum ljóma, gegnum ríkjandi tómleika. Mjög sérkennileg mynd. Handbragðið minnir svolítið á Requiem for a Dream, sem sýnd verður í sjónvarpinu um næstu helgi.
Jæja, núna ætlum við að horfa svolítið á Himalaya-seríu Michal Palins, sem sýnd var í sjónvarpinu nýlega. Ég fann hana á bókasafninu í Hafnarfirði og get notið þess að fara mjög vandlega gegnum ferðalag hans um "þak heimsins".
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)