sunnudagur, desember 31, 2006
Daglegt líf: Áramótakveðja
En á meðan ég var ekki að horfa á skaupið ákvað ég að drepa tímann í tölvunni og það var hreint undravert hvað tölvutengingin var hraðvirk! Það er greinilegt að netumferðin hér heima hægir verulega á hraðanum. Og öfugt. Niðurhal sem venjulega tekur mínútu kom á augabragði. Verst bara hvað skaupið var stutt. Jæja. Gleðilegt ár! Flanið ekki að neinu á nýju ári en sitjið heldur ekki með hendur í skauti. (Þetta má túlka að vild.)
2007 (you are here)
---
2006
laugardagur, desember 30, 2006
Vetrarengill og jólafréttir
Ég ætlaði mér alltaf að senda jólakveðju með þessari mynd sem er hér fyrir neðan en jólaamstrið riðlaði gjörsamlega venjubundinni rútínu þannig að ég gleymdi öllu bloggi dögum saman. Í staðinn er hægt að líta á myndina sem tákn um íslenskt skammdegi og með nettum friðarboðskap tengdum jólum og nýári - með hátíðarkveðju.
Vetrarengill
Fleiri myndir má sjá á myndasíðunni .
Jólin hafa annars farið vel í okkur Vigdísi og Signýju. Vigdís var í fríi á aðfangadag og við eyddum honum saman uppi í Dalseli hjá mömmu og pabba og systkinum mínum (og börnum). Daginn eftir söng ég í messu í Seltjarnarnesinu og hafði gaman af að þenja raddböndin á ný. Á jóladag og öðrum í jólum fórum við í tvö hefðbundin jólaboð hjá fjölskyldu Vigdísar. Signý var afar hress með mannamótin og skemmti sér vel bæði kvöldin. Á þriðja og fjórða (miðvikudag og fimmtuda) voru hins vegar spilakvöld heima hjá okkur í Granaskjólinu. Fyrra kvöldið spiluðum við Vigdís ein en daginn eftir var hins vegar fullt hús. Báða dagana var öndvegisspilið Leonardo í hávegum. Í dag gerðum við Vigdís okkur hins vegar dagamun og fórum í bíó - sáum Kalda slóð. Ég fór á hana af hálfum hug en hún kom mér því verulega á óvart. Það er óhætt að mæla með henni fyrir þá sem unna flottri sviðsmynd, dulúð og sálfræðispennu.
miðvikudagur, desember 20, 2006
Jólaumferðin
Jólaumferðin
Fleiri myndir má sjá á myndasíðunni.
Um daginn kíktum við Vigdís hins vegar á Laugaveginn og það var allt önnur stemning þar. Komnar eru upp fjölmargar skemmtilegar verslanir sem ég hafði ekki hugmynd um. Ein heitir því huggulega nafni Kisan. Búðin hefur franskt yfirbragð enda eigendurnir frönskumælandi hjón (frönsk að ég held) og selja bara það sem þau hafa dálæti á hvort sem það eru barnabækur, leikföng, bækur um arkítektúr, geisladiskar með franskri alþýðutónlist, klæðnaður, skrautmunir eða húsgögn. Ótrúleg verslun. Við Vigdís réðum okkur varla fyrir útlandastemningu. Ég var ótrúlega glaður þegar ég yfirgaf Laugaveginn því hann virtist sem verslunargata vera að vaxa á ný. Þar var að minnsta kosti sannkölluð jólastemning.
föstudagur, desember 15, 2006
Upplifun: Smá óhapp
Seinna um daginn fórum við í ungbarnasund og þá tókust sárindin upp um allan helming þar sem margar æfingarnar með Signýju gera ráð fyrir því að hún grípi í fingurna (sérstaklega þá litlu). Ég kunni ekki við að kveinka mér of mikið en gat stundum ekki annað en grett mig. Það er svo skrýtið með þessi grunnu fleyður, þar eru taugakerfið hvað virkast, þarna við yfirborðið. Bara grunnt hörundssár getur verið óskaplega vont.
"Hörundssár" er svolítið athyglisvert orð ef maður spáir í það. Sem nafnorð lýsir það líkamlegu sári en sem lýsingarorð á það við um andlegt sár, eins konar viðkvæmni. Ég get því auðveldlega snúið út úr spurningunni ef ég er inntur eftir því hvort ég sé hörundssár. Ég get sagt: "Nei, ég er yfirleitt ekkert hörundssár, ef undan er skilinn einn staður: Nánar tiltekið á utanverðri þriðju kjúku litla fingurs hægri handar".
fimmtudagur, desember 14, 2006
Daglegt líf: Afmæli
Afmælisbarnið veltir vöngum
Fleiri frá afmælinu á Flickr-síðunni.
þriðjudagur, desember 12, 2006
Þroskaferli: Fingurkoss
Að öðru leyti gekk skoðunin eins og í sögu, ólíkt tíu mánaða skoðuninni (þegar við Signý lentum í eins konar "skyndiprófi", vansællar minningar). Það vildi nefnilega svo til í þetta skiptið að Signý var nýbúin að læra að senda fingurkoss. Það lærði hún af Beggu systur sem við hittum á bæjarröltinu um klukkutíma fyrr. Að venju gaf hún sig góða stund að Signýju með þeim árangri að Signý hermdi eftir henni fingurkoss, öllum að óvörum. Í skoðuninni, nokkru síðar, vorum við semsagt að ræða eitthvað um það hvað Signý væri nú fljót að læra hitt og þetta (sem hjúkrunarkonan taldi sig nú vita þrátt fyrir framganginn síðast) og ég minntist á þennan fingurkoss sem dæmi um það nýjasta. Hjúkkan brosti breitt og vildi endilega prófa og kyssti fingurinn til hennar. Signý beið ekki boðanna, stakk fingrinum upp í sig brosleit, saug andartak, og stakk honum aftur út í átt til hennar til samþykkis, öllum til óblandinnar ánægju, náttúrulega. Síðan þá (það er að segja í dag) er ég ekki frá því að kossinn sé eitthvað að þróast. Ég hef að minnsta kosti staðið Signýju að því nokkrum sinnum að kyssa á sér lófann, talsvert hugsi, og það hefur hún aldrei gert áður.
föstudagur, desember 08, 2006
Matur/netið: Matarblogg
Þessi hliðarbloggsíða, sem ég hef nú sett á laggirnar, er á byrjunarstigi en ég hef þó sett inn nokkrar myndir ásamt texta. Kringum eina þeirra er raunveruleg uppskrift en hitt eru enn sem komið er aðeins fyrirheit eða pælingar. Undir hverri færslu eru hins vegar komin viðeigandi leitarorð og því tilvalið að sjá hvernig þetta virkar. Hugmyndin með þessu öllu saman er ekki bara sú að geta á einum stað leitað uppi þær uppskriftir sem við í Granaskjólinu höldum upp á (svokallaðir standardar) heldur geta vinir og vandamenn líka lætt til okkar hugmyndum og nýtt sér síðuna. Hér eftir verður eitthvað minnst áfram á mat í "vikuþönkum" en einungis í félagslegu samhengi. Uppskriftir sem slíkar fá hins vegar sitt verðskuldaða pláss (ásamt myndum og leitarorðum) á hinni síðunni og verður það tilkynnt jafnóðum hér í aðalblogginu.
Upplifun/matur: Jólahlaðborð
Maturinn á Hótel Nordica er ótrúlega góður, svo ég gerist nú veitingahúsarýnir í framhjáhlaupi. Þeir leggja mikla áherslu á meðlætið og forréttina og það er mér mjög að skapi. Það voru ekki nema þrir til fjórir kjötréttir af um það bil tuttugu og ég er ekki frá því að þeir hafi átt erfitt uppdráttar hjá mörgum eftir krassandi forrétti. Ekki voru eftirréttirnir síðri. Yfirleitt eru þeir annars flokks á svona hlaðborðum en það er ekki í þessu tilviki. Algjörn nammi - súkkulaðikakan, möndlugrauturinn og créme brulé (með jólakökuívafi). Maturinn í það heila var tiltölulega frjáls við hefðina - til dæmis var rauðkálið með negulkeim - en samt ekki of mikið út úr kortinu, ekki frekar en menn vildu (sushi líka í boði sem meðlæti ásamt ýmsu sem ég kann ekki að nefna).
þriðjudagur, desember 05, 2006
Matur: Heil máltíð i ofninum
Fyrri uppskriftin er tekin úr bókinni "The Vegetarian Gourmet´s Easy International Recipes" eftir Bobbie Hinman, bls. 181. Þar heitir hún "Spinach and Rocotta Pie" en ég vil kalla hana:
Spínatlasagna (með pastasósu og osti)
Undirbúningur: Tryggið að spínatið nái að þiðna vel.
1. Ofninn er hitaður í 190 gráður
2. Eldfast mót er smurt vandlega. Bókin mælir með því að dreifa brauðmylsnu í mótið (en ég gerði það ekki).
3. Látið eftirfarandi hráefni í skál og blandið vel saman:
- Ricotta-ostur, einn bolli. (Ég notaði Mascarpone og það kom mjög vel út)
- Eggjahvítur (tvær)
- Jógúrt, óbragðbætt, hálfur bolli (AB-mjólk er líka fín)
- hveiti, hálfur bolli
- Basil, þurrkuð, 2 tsk.
- Salt og pipar (1/4 tsk. hvort um sig)
- Múskat, 1/16 tsk.
4. Bætið að lokum spínati (rúml. 300 g.) við ostablönduna. Það er best að nota spínat sem fæst frosið.
5. Setjið blönduna í fatið og jafnið út.
6. Dreifið spaghettisósu (1/2 bolli) yfir blönduna. Ég notaði tilbúna Hunt´s "Seasoned Tomato Sauce for Lasagna" og hún kom mjög vel út. Sósuna má alveg búa til sjálfur líka úr venjulegri tómatdós sem bætt er út í lauk og hvítlauk hituðum í ólivuolíu - en þetta er einfaldara.
7. Leggið Mozzarella ost (1 bolla) yfir. Bókin segir að hann eigi að vera rifinn (þess vegna gefinn upp sem bolli) en ég skar hann í myndarlegar sneiðar. Mér finnst hann góður þannig.
8. Setjið parmesan ost yfir (eftir smekk, en bókin talar um eina matskeið).
9. Bakist í ofninum í 35 mínútur án loks, þar til osturinn bráðnar og brúnast lítillega.
Þetta er náttúrulega tilvalið með grænmeti og hvítlauksbrauði en einnig með eftirfarandi rétti sem ég fann í "Matreiðslubókinni hennar Pálínu" sem NLFÍ gaf út fyrir örfáum árum. Uppskriftin finnst á blaðsíðu 49 og heitir einfaldlega:
Grænmeti í osti
Ég vitna beint í bókina:
Hráefni: Gulrætur, hvítkál, kartöflur og laukur.
Grænmetið er skorið í teninga, hitað á pönnu í olíu. Örlitlu vatni er bætt í og kryddað með jurtakryddi. Latið krauma í 3-5 mínútur. Sett í smurt, eldfast mót, rifnum osti stráð yfir. Látið ofarlega í ofni við 200 gráður. Tilbúið þegar osturinn er bráðnaður og hefur fengið fallegan blæ. Borið fram með grænmetissalati.
Þar sem ég gerði þetta samhliða hinum réttinum setti ég þá náttúrulega samtímis inn í ofninn. Til að nýta eggjarauðuna sem var afgangs frá hinni uppskriftinni dreifði ég henni líka yfir með ostinum. Það skemmdi a.m.k. ekki fyrir. Kryddið sem ég notaði var létt jurtakrydd, eins og stungið er upp á, en einnig smá hvítlaukskrydd auk einnar teskeiðar af mildu karrýi. Gott ef ég var ekki með lauk líka. Eins og sjá má þá er þetta afar frjálslegt og tilvalið til að vega upp á móti öðrum uppskriftum eða einfaldlega til að taka til í ísskápnum.
Tungumál: Eiginhandaráritun
Indriði á reyndar eiginhandaráritun.
Segið það svo hratt, nokkrum sinnum:
Indri ándra eindra undra indra ándra...
Og svo öfugt: Reyndar á Indriði....
mánudagur, desember 04, 2006
Þroskaferli: Hreyfiþroskasagan
Signý er greinilega sátt við sína stöðu.
Í sumar var Signý frekar lengi að byrja að skríða og lengi vel mjakaði hún sér bara örlítið og fór aldrei langt. Hún var mjög vær á sínum stað og dundaði sér bara. Á sama tíma hélt hún illa jafnvægi í setstöðu þrátt fyrir augljósan styrk í baki. Í ágúst small þetta hins vegar. Hún öðlaðist öryggi í setstöðu eftir að hafa nýtt góða sólardaga með okkur úti á mjúku grasinu. Við þetta er eins og Signý missti alveg áhugann á því að skríða og undi sér bara enn betur sitjandi á mottunni sinni mjúku.
Í september leit út fyrir að Signý ætlaði hreinlega að stökkva yfir það stig að skríða því hún fékk mikinn áhuga á að grípa í fingurna á okkur og ganga með. Smám saman þróaðist skriðstíllinn hins vegar samhliða þessu og áður en maður vissi af var Signý farin að skríða um gólf eins og í skriðsundi (þar sem önnur höndin teygir sig fram á sama tíma og andstæður fótur spyrnir aftur). Þessu má líka líkja við lárétt klettaklifur eða jafnvel skotgrafarhermann (þar sem rassinn lyftist aldrei upp). Í októbermánuði var Signý farin að þeytast um gólf og mátti vart á milli sjá hvort væri skemmtilegra; að ganga með eða þjóta um gólfin.
Í nóvember gerðist það svo að litla stúlkan reis á fætur með hjálp ýmissa stoðgrinda eins og borðfóta eða rimlanna í rúminu. Borðplatan í stofunni er til að mynda mjög vinsælli lyftipunktur. Hún liggur rétt í höfuðhæð og reyndir á styrk Signýjar að hífa sig upp. Á sama tíma þarf hún að hagræða fótunum til að skorða þá almennilega af undir sér. Hún á það til enn að gleyma sér og fylgjast með einhverju í kring og renna á meðan óafvitandi úr öruggri stöðu. Ekki er laust við að hún hafi meitt sig stundum en aldrei illa. Þó fékk hún sár á neðri vör um daginn þegar andlitið nuddaðist utan í borðplötuna.
Núna í blábyrjun desember, bara um helgina, gerðust svo þau óvæntu undur að Signý fór upp á fjóra fætur og skreið með hefðbundnum hætti. Ég hélt hún hefði hætti við þetta á sínum tíma. Þennan stíl hefur hún hins vegar stuðst við síðan ásamt gamla "þeytistílnum" (þar sem hún er nær gólfinu).
Það sem mér finnst undarlegast er hvernig skriðstíllinn og set-/göngustíllinn þróast samhliða og eiginlega til skiptis. Nú er hins vegar ekki eftir neinu að bíða. Bara spurning hvenær hún fer að ganga sjálf. Það eru varla margar vikur í það miðað við ákafann undanfarið.
(ath. tímasetningar hér fyrir ofan eru námundaðar eftir minni)
Netið: Myndir á blogginu
Daglegt líf: Eldhúsbreyting
sunnudagur, desember 03, 2006
Netið: Bloggið tekur stakkaskiptum
Þrátt fyrir þetta er hægt að leita í öllum gagnagrunninum. Það er gert með annarri leitaraðferð sem er líka nýkomin upp. Kíkið upp í vinstra hornið - þar er leitargluggi. Ég mæli með því að notandinn slái upp lykilorðinu sem ég hef hingað til alltaf passað upp á að setja sem upphaf hvers titils (einhvern veginn hafði ég alltaf trú á að bloggið myndi þróast í þessa átt og tel mig græða núna heilmikið á framsýninni). Þessi leitaraðferð nær aftur til fyrstu færslu en er þó þeim takmörkunum háð að ég hef einskorðað merkinguna í titlinum við eitt hugtak hverju sinni en hver færsla getur fjallað um margt í senn (sumar eru mjög almennar). Reyndar er með þessari aðferð (leitarglugganum) leitað bæði í titlinum og í sjálfum textanum þannig að ef leitarorðið er mjög almennt þá koma óþægilega margar færslur. Ég prófaði til dæmis að leita að Signýju í öllu því sem ég hef skrifað, setti "Signý" í gluggann, og fékk dágóðan slatta, bæði færslur þar sem fjallað er um hana sérstaklega og einnig þar sem minnst er á hana í framhjáhlaupi. Þannig virkar þessi leitaraðferð. Hún hefur sína kosti og galla en getur að sama skapi komið skemmtilega á óvart.
Ég fer fljótlega lengra aftur í tímann og merki gamlar færslur. Það væri því gaman að frétta af góðum leitarorðum hjá ykkur sem lesið því þá gæti ég notað það til að merkja með sérstaklega.
Lestur: Mislestur 2
föstudagur, desember 01, 2006
Upplifun: Eftirminnileg atburðarás
Þannig var að við Signý skutluðum Vigdísi á morgunvakt og til stóð að sækja hana aftur klukkan kortér í tvö (tíminn var skráður kortér yfir). Við Signý urðum dösuð og þreytt þegar við komum heim og þegar leið á morguninn ákváðum við að leggja okkur. Þá var klukkan orðin rúmlega tíu og mér fannst vænlegast að taka símann úr sambandi á meðan við sváfum svona undir hádegið. Ég fylgdist vel með tímanum allan tímann og upp úr tólf stauluðumst við feðginin á fætur, ég gaf henni eitthvað að borða og var nokkurn veginn búinn að gefa henni þegar ég uppgötvaði að ég átti eftir að opna fyrir simann aftur. Vigdís hringdi nánast samstundis og sagði mér að hún hafði reynt að ná í okkur nokkuð lengi. Hún var orðin svolítið áhyggjufull yfir að ná ekki í okkur (enda stutt í að við ætluðum af stað til að ná í hana). Henni fannst við vera orðin svolítið sein. Ég leit á klukkuna inni í eldhúsi og sá að hún var ekki nema 13.33 og fannst tíminn vel rúmur en ákvað samt að flýta mér. Eftir að hafa klætt Signýju fattaði ég að hún var nýbúin að losa hægðir. Ég þurfti því að hafa snör handtök, vippaði Signýju síðan aftur í föt og hafði það á tilfinningunni í þetta skiptið að við værum kannski að verða svolítið sein eftir allt saman, tók töskuna hennar Signýjar með mér, gleypti hálsbrjóstsykur til að fríska mig við og stökk út. Þegar ég skellti á eftir mér rann upp fyrir mér, mér til skelfingar, að ég var ekki með bíllyklana á mér. Það sem verra var, húslykillinn var á sömu kippu. Þarna stóð ég því með Signýju í fanginu og vissi ekki mitt rjúkandi ráð. Ég var ekki einu sinn með gemsa á mér til að hringja á leigubíl. Veðrið var sem betur fer nokkuð skaplegt eftir illviðri undanfarna daga en var að öðru leyti vorum við í vondum málum. Núna var ég orðinn virkilega seinn. Ég hafði ekki einu sinn möguleika á að ganga úr skugga um hversu seinn ég var því gemsinn var inni.
Nú voru góð ráð svo sannarlega dýr. Tvennt kom til greina: Að brjótast inn í húsið með einhverjum hætti eða banka upp á hjá nágrönnunum og reyna að hringja þaðan á bíl. Mér fannst seinni kosturinn skynsamlegri og markvissari. Sem betur fer var bíllinn okkar ólæstur svo ég gat komið Signýju vel fyrir i vönduðum stól. Hún var vel klædd og þar var ekki sérlega kalt úti (sem betur fer). Þá fór ég og bankaði upp á hjá nágrönnunum og var bara rétt sæmilega vongóður um að ná einhverjum heima, enda virkur morgunn og flestir í vinnu. Í annarri tilraun tókst mér þó að draga nágranna til dyra og tilkynnti um að þetta væri "eiginlega neyðartilelli" þegar ég bað um að komast í síma og sagði í afar stuttu máli hvers eðlis það var. Ég hringdi á leigubíl og áttaði mig á því með símadömunni að þeir byðu mjög fáir upp á barnastól þannig að fljótlegast yrði að taka minn með, ef það væri mögulegt. Núna var ég orðinn verulega stressaður og gekk aftur rakleiðis að bílnum þar sem Signý sat og var öll útgrátin yfir að hafa ekki séð mig mínútum saman. Ég tók hana strax í fangið og stikaði um ráðvilltur. Fannst vont að hafa ekki hringt líka í Vigdísi þegar ég hafði haft tækifæri til þess og vissi að nú væri hún orðin örvæntingafull að bíða eftir mér. Bíllinn lét nú bíða eftir sér, ábyggilega tíu mínútur eða meira, og ég dundaði mér við það á meðan að brjótast inn í íbúðina í síðasta sinni, í þeirri vona að hefði yfirsést einföld inngönguleið. Það tókst ekki betur en svo að þegar ég kippti eldhúsglugganum upp (hann var hálfopinn) þá stöðvaði hnúður á gluggafalsinum mig í að opna, og við höggið kom brestur í rúðuna. "Þetta er þá bara býsna þjófahellt eftir allt saman" reyndi ég að hugsa með mér til að svekkja mig ekki á þessum aukalega skaða. Síðan kom bíllinn. Ég hafði snör handtök og vippaði barnabílstólnum yfir og greindi bílstjóranum frá stöðunni svo ég fengið strax að hringja hjá honum. Klukkan var sem betur fer ekki nema rétt rúmlega tvö þegar hér er komið sögu en augljóslega vorum við orðin mjög sein. Til að stressa Vidísi ekki á ofangreindri sögu ákvað ég að vinda mér strax að efninu þegar hún kom í simann: "Vigdís, ég er á leiðinni, en ég kem á leigubíl" Þannig fékk hún svigrúm til að átta sig áður en ég kom á vettvang. Ég sagði henni sólarsöguna og bíllinn skutlaði okkur á leiðarenda, fimm mínútum á eftir áætlun (geri aðrir betur). Það var óneitanlega undarlegt að koma í ómskoðunina með bílstól og barn í fanginu og fólk horfði verulega undrandi á okkur þegar við mættum.
Sónarskoðunin gekk eins og í sögu, eins og áður hefur verið greint frá, og er það fyrir öllu. Vigdís kom dösuð heim. Hún var náttúrulega svekkt yfir framvindunni. Hún hafði helst viljað fara yfirvegað og afslappað í gegnum þennan merka dag. Hún fór þess vegna beint i rúmið til að hvíla sig þegar heim kom en ég labbaði hins vegar í eldhúsið, skoðaði gluggann innan frá. Mér varð líka litið á klukkuna utundan mér þar sem hún hangir á mjög áberandi stað við hliðina á glugganum. Þá brá mér allverulega við að sjá hvað hún sýndi:
Hún var enn 13.33!