föstudagur, desember 08, 2006

Matur/netið: Matarblogg

Eins og ég minntist á nýlega þá hefur lítið verið fjallað um mat í þessu bloggi undanfarna mánuði. Það vakti mig til umhugsunar um ýmsa rétti sem eiga erindi hingað inn. Á sama tíma og ég var að velta því fyrir mér fékk ég tilkynningu um að bloggsíðan væri að ganga í gegnum rækilega uppfærslu. Nú er boðið upp á ýmsa leitarkosti, eins og ég hef áður minnst á, með því að slá upp leitarorðum í glugganum uppi til vinstri eða með því að smella á lykilorðin fyrir neðan hverja færslu. Þetta er auðvitað frábært en samtímis þessu vildi svo til að eg fattaði hvernig maður sendir myndir á bloggfærslurnar sínar með hjálp flickr-myndsetursins. Þetta þrennt: myndatæknin, leitartæknin og matarpælingar sameinuðust allt í einu í einni skemmtilegri hugmynd: Nú get ég búið til myndrænt matarblogg með uppskriftum þar sem hráefnið er sett inn sem leitarorð!

Þessi hliðarbloggsíða, sem ég hef nú sett á laggirnar, er á byrjunarstigi en ég hef þó sett inn nokkrar myndir ásamt texta. Kringum eina þeirra er raunveruleg uppskrift en hitt eru enn sem komið er aðeins fyrirheit eða pælingar. Undir hverri færslu eru hins vegar komin viðeigandi leitarorð og því tilvalið að sjá hvernig þetta virkar. Hugmyndin með þessu öllu saman er ekki bara sú að geta á einum stað leitað uppi þær uppskriftir sem við í Granaskjólinu höldum upp á (svokallaðir standardar) heldur geta vinir og vandamenn líka lætt til okkar hugmyndum og nýtt sér síðuna. Hér eftir verður eitthvað minnst áfram á mat í "vikuþönkum" en einungis í félagslegu samhengi. Uppskriftir sem slíkar fá hins vegar sitt verðskuldaða pláss (ásamt myndum og leitarorðum) á hinni síðunni og verður það tilkynnt jafnóðum hér í aðalblogginu.

Engin ummæli: