föstudagur, desember 15, 2006

Upplifun: Smá óhapp

Eftir afmælið vöknuðum við eldsnemma því Vigdís þurfti að fara á morgunvakt. Venjulega vöknum við öll saman og tökum daginn snemma. Þessi morgunn var samkvæmt þeirri venju nema hvað ég var svo óskaplega þreyttur að mér tókst að reka tána í einhvern borðfótinn. Það var auðvitað óþægilegt en ekki einsdæmi. Verra tók hins vegar við þegar ég bisaði við að opna útidyrnar með Signýju í fanginu. Hún sat á vinstri handleggnum og ég sneri sveifinni með hægri og þurfti að lyfta hægra hnénu til að ýta niður handfanginu. Það tókst ágætlega, að venju, en þegar ég lét höndina síga slengdist hún utan í stimpilinn á hurðinni. Hann er glænýr og þrælbeittur og náði að rista upp myndarlegt sár á (og nú þarf að einbeita sér) utanverða þriðju kjúku litla fingurs hægri handar. Það blæddi umsvifalaust úr þessu en ég mátti ekki vera að því að sinna þessu sérstaklega enda vorum við orðin að flýta okkur svolítið. Ég saug sárið og leyfði þessu svo bara að kleprast innan í leðurhanskanum sem ég nota við akstur á köldum dögum.

Seinna um daginn fórum við í ungbarnasund og þá tókust sárindin upp um allan helming þar sem margar æfingarnar með Signýju gera ráð fyrir því að hún grípi í fingurna (sérstaklega þá litlu). Ég kunni ekki við að kveinka mér of mikið en gat stundum ekki annað en grett mig. Það er svo skrýtið með þessi grunnu fleyður, þar eru taugakerfið hvað virkast, þarna við yfirborðið. Bara grunnt hörundssár getur verið óskaplega vont.

"Hörundssár" er svolítið athyglisvert orð ef maður spáir í það. Sem nafnorð lýsir það líkamlegu sári en sem lýsingarorð á það við um andlegt sár, eins konar viðkvæmni. Ég get því auðveldlega snúið út úr spurningunni ef ég er inntur eftir því hvort ég sé hörundssár. Ég get sagt: "Nei, ég er yfirleitt ekkert hörundssár, ef undan er skilinn einn staður: Nánar tiltekið á utanverðri þriðju kjúku litla fingurs hægri handar".

Engin ummæli: