mánudagur, desember 04, 2006

Þroskaferli: Hreyfiþroskasagan

Nú er stutt í afmælið hennar Signýjar. Ég hef ekki staðið mig nógu vel á bloggsíðunni í að fylgja þroskaferlinu eftir. Það er svo margt sem gerist á tiltölulega stuttum tíma að manni reynist erfitt að taka upp þráðinn, ef maður missir úr. Í afar stuttu máli hefur Signý hins vegar risið af gólfinu. Það ferli er í sjálfu sér fyrirsjáanlegt en hefur engu að síður að mörgu leyti komið okkur mjög á óvart vegna þess að Signý fór sína eigin leið.


Signý er greinilega sátt við sína stöðu.



Í sumar var Signý frekar lengi að byrja að skríða og lengi vel mjakaði hún sér bara örlítið og fór aldrei langt. Hún var mjög vær á sínum stað og dundaði sér bara. Á sama tíma hélt hún illa jafnvægi í setstöðu þrátt fyrir augljósan styrk í baki. Í ágúst small þetta hins vegar. Hún öðlaðist öryggi í setstöðu eftir að hafa nýtt góða sólardaga með okkur úti á mjúku grasinu. Við þetta er eins og Signý missti alveg áhugann á því að skríða og undi sér bara enn betur sitjandi á mottunni sinni mjúku.

Í september leit út fyrir að Signý ætlaði hreinlega að stökkva yfir það stig að skríða því hún fékk mikinn áhuga á að grípa í fingurna á okkur og ganga með. Smám saman þróaðist skriðstíllinn hins vegar samhliða þessu og áður en maður vissi af var Signý farin að skríða um gólf eins og í skriðsundi (þar sem önnur höndin teygir sig fram á sama tíma og andstæður fótur spyrnir aftur). Þessu má líka líkja við lárétt klettaklifur eða jafnvel skotgrafarhermann (þar sem rassinn lyftist aldrei upp). Í októbermánuði var Signý farin að þeytast um gólf og mátti vart á milli sjá hvort væri skemmtilegra; að ganga með eða þjóta um gólfin.

Í nóvember gerðist það svo að litla stúlkan reis á fætur með hjálp ýmissa stoðgrinda eins og borðfóta eða rimlanna í rúminu. Borðplatan í stofunni er til að mynda mjög vinsælli lyftipunktur. Hún liggur rétt í höfuðhæð og reyndir á styrk Signýjar að hífa sig upp. Á sama tíma þarf hún að hagræða fótunum til að skorða þá almennilega af undir sér. Hún á það til enn að gleyma sér og fylgjast með einhverju í kring og renna á meðan óafvitandi úr öruggri stöðu. Ekki er laust við að hún hafi meitt sig stundum en aldrei illa. Þó fékk hún sár á neðri vör um daginn þegar andlitið nuddaðist utan í borðplötuna.

Núna í blábyrjun desember, bara um helgina, gerðust svo þau óvæntu undur að Signý fór upp á fjóra fætur og skreið með hefðbundnum hætti. Ég hélt hún hefði hætti við þetta á sínum tíma. Þennan stíl hefur hún hins vegar stuðst við síðan ásamt gamla "þeytistílnum" (þar sem hún er nær gólfinu).

Það sem mér finnst undarlegast er hvernig skriðstíllinn og set-/göngustíllinn þróast samhliða og eiginlega til skiptis. Nú er hins vegar ekki eftir neinu að bíða. Bara spurning hvenær hún fer að ganga sjálf. Það eru varla margar vikur í það miðað við ákafann undanfarið.

(ath. tímasetningar hér fyrir ofan eru námundaðar eftir minni)

Engin ummæli: