Við fórum í skoðun með Signýju í gær, svokallaða tólf mánaða skoðun (enda á hún afmæli á morgun). Við fórum eiginlega illa að ráði okkar með tímasetninguna á þessari skoðun því eftirköstin af sprautunni sem hún fékk voru hiti og vanlíðan. Hún bar sig aumlega í alla nótt og er fyrst núna að ná sér almennilega. Vonandi verður hún góð á morgun því þá eigum við von á að fjöldi vina og ættingja kíki í heimsókn og taki sér fri frá jólaerlinum með okkur.
Að öðru leyti gekk skoðunin eins og í sögu, ólíkt tíu mánaða skoðuninni (þegar við Signý lentum í eins konar "skyndiprófi", vansællar minningar). Það vildi nefnilega svo til í þetta skiptið að Signý var nýbúin að læra að senda fingurkoss. Það lærði hún af Beggu systur sem við hittum á bæjarröltinu um klukkutíma fyrr. Að venju gaf hún sig góða stund að Signýju með þeim árangri að Signý hermdi eftir henni fingurkoss, öllum að óvörum. Í skoðuninni, nokkru síðar, vorum við semsagt að ræða eitthvað um það hvað Signý væri nú fljót að læra hitt og þetta (sem hjúkrunarkonan taldi sig nú vita þrátt fyrir framganginn síðast) og ég minntist á þennan fingurkoss sem dæmi um það nýjasta. Hjúkkan brosti breitt og vildi endilega prófa og kyssti fingurinn til hennar. Signý beið ekki boðanna, stakk fingrinum upp í sig brosleit, saug andartak, og stakk honum aftur út í átt til hennar til samþykkis, öllum til óblandinnar ánægju, náttúrulega. Síðan þá (það er að segja í dag) er ég ekki frá því að kossinn sé eitthvað að þróast. Ég hef að minnsta kosti staðið Signýju að því nokkrum sinnum að kyssa á sér lófann, talsvert hugsi, og það hefur hún aldrei gert áður.
þriðjudagur, desember 12, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli