föstudagur, desember 01, 2006

Upplifun: Eftirminnileg atburðarás

Nú er vinnuvikan liðin á ný og lífið einfaldlega gengið sinn vanagang. Reyndar er það eina dramatíska sem gerst hefur hjá okkur í Granaskjólinu var daginn sem systir Signýjar var opinberuð í sónarskoðun. Það var nefnilega hrikalegur dagur þó hann hafi borið góð tíðindi og endað vel.

Þannig var að við Signý skutluðum Vigdísi á morgunvakt og til stóð að sækja hana aftur klukkan kortér í tvö (tíminn var skráður kortér yfir). Við Signý urðum dösuð og þreytt þegar við komum heim og þegar leið á morguninn ákváðum við að leggja okkur. Þá var klukkan orðin rúmlega tíu og mér fannst vænlegast að taka símann úr sambandi á meðan við sváfum svona undir hádegið. Ég fylgdist vel með tímanum allan tímann og upp úr tólf stauluðumst við feðginin á fætur, ég gaf henni eitthvað að borða og var nokkurn veginn búinn að gefa henni þegar ég uppgötvaði að ég átti eftir að opna fyrir simann aftur. Vigdís hringdi nánast samstundis og sagði mér að hún hafði reynt að ná í okkur nokkuð lengi. Hún var orðin svolítið áhyggjufull yfir að ná ekki í okkur (enda stutt í að við ætluðum af stað til að ná í hana). Henni fannst við vera orðin svolítið sein. Ég leit á klukkuna inni í eldhúsi og sá að hún var ekki nema 13.33 og fannst tíminn vel rúmur en ákvað samt að flýta mér. Eftir að hafa klætt Signýju fattaði ég að hún var nýbúin að losa hægðir. Ég þurfti því að hafa snör handtök, vippaði Signýju síðan aftur í föt og hafði það á tilfinningunni í þetta skiptið að við værum kannski að verða svolítið sein eftir allt saman, tók töskuna hennar Signýjar með mér, gleypti hálsbrjóstsykur til að fríska mig við og stökk út. Þegar ég skellti á eftir mér rann upp fyrir mér, mér til skelfingar, að ég var ekki með bíllyklana á mér. Það sem verra var, húslykillinn var á sömu kippu. Þarna stóð ég því með Signýju í fanginu og vissi ekki mitt rjúkandi ráð. Ég var ekki einu sinn með gemsa á mér til að hringja á leigubíl. Veðrið var sem betur fer nokkuð skaplegt eftir illviðri undanfarna daga en var að öðru leyti vorum við í vondum málum. Núna var ég orðinn virkilega seinn. Ég hafði ekki einu sinn möguleika á að ganga úr skugga um hversu seinn ég var því gemsinn var inni.

Nú voru góð ráð svo sannarlega dýr. Tvennt kom til greina: Að brjótast inn í húsið með einhverjum hætti eða banka upp á hjá nágrönnunum og reyna að hringja þaðan á bíl. Mér fannst seinni kosturinn skynsamlegri og markvissari. Sem betur fer var bíllinn okkar ólæstur svo ég gat komið Signýju vel fyrir i vönduðum stól. Hún var vel klædd og þar var ekki sérlega kalt úti (sem betur fer). Þá fór ég og bankaði upp á hjá nágrönnunum og var bara rétt sæmilega vongóður um að ná einhverjum heima, enda virkur morgunn og flestir í vinnu. Í annarri tilraun tókst mér þó að draga nágranna til dyra og tilkynnti um að þetta væri "eiginlega neyðartilelli" þegar ég bað um að komast í síma og sagði í afar stuttu máli hvers eðlis það var. Ég hringdi á leigubíl og áttaði mig á því með símadömunni að þeir byðu mjög fáir upp á barnastól þannig að fljótlegast yrði að taka minn með, ef það væri mögulegt. Núna var ég orðinn verulega stressaður og gekk aftur rakleiðis að bílnum þar sem Signý sat og var öll útgrátin yfir að hafa ekki séð mig mínútum saman. Ég tók hana strax í fangið og stikaði um ráðvilltur. Fannst vont að hafa ekki hringt líka í Vigdísi þegar ég hafði haft tækifæri til þess og vissi að nú væri hún orðin örvæntingafull að bíða eftir mér. Bíllinn lét nú bíða eftir sér, ábyggilega tíu mínútur eða meira, og ég dundaði mér við það á meðan að brjótast inn í íbúðina í síðasta sinni, í þeirri vona að hefði yfirsést einföld inngönguleið. Það tókst ekki betur en svo að þegar ég kippti eldhúsglugganum upp (hann var hálfopinn) þá stöðvaði hnúður á gluggafalsinum mig í að opna, og við höggið kom brestur í rúðuna. "Þetta er þá bara býsna þjófahellt eftir allt saman" reyndi ég að hugsa með mér til að svekkja mig ekki á þessum aukalega skaða. Síðan kom bíllinn. Ég hafði snör handtök og vippaði barnabílstólnum yfir og greindi bílstjóranum frá stöðunni svo ég fengið strax að hringja hjá honum. Klukkan var sem betur fer ekki nema rétt rúmlega tvö þegar hér er komið sögu en augljóslega vorum við orðin mjög sein. Til að stressa Vidísi ekki á ofangreindri sögu ákvað ég að vinda mér strax að efninu þegar hún kom í simann: "Vigdís, ég er á leiðinni, en ég kem á leigubíl" Þannig fékk hún svigrúm til að átta sig áður en ég kom á vettvang. Ég sagði henni sólarsöguna og bíllinn skutlaði okkur á leiðarenda, fimm mínútum á eftir áætlun (geri aðrir betur). Það var óneitanlega undarlegt að koma í ómskoðunina með bílstól og barn í fanginu og fólk horfði verulega undrandi á okkur þegar við mættum.

Sónarskoðunin gekk eins og í sögu, eins og áður hefur verið greint frá, og er það fyrir öllu. Vigdís kom dösuð heim. Hún var náttúrulega svekkt yfir framvindunni. Hún hafði helst viljað fara yfirvegað og afslappað í gegnum þennan merka dag. Hún fór þess vegna beint i rúmið til að hvíla sig þegar heim kom en ég labbaði hins vegar í eldhúsið, skoðaði gluggann innan frá. Mér varð líka litið á klukkuna utundan mér þar sem hún hangir á mjög áberandi stað við hliðina á glugganum. Þá brá mér allverulega við að sjá hvað hún sýndi:

Hún var enn 13.33!

Engin ummæli: