þriðjudagur, desember 05, 2006

Matur: Heil máltíð i ofninum

Eins og sjá má ef flett er upp hugtakinu "Matur" í glugganum uppi til vinstri þá hef ég ekki fjallað mikið um mat undanfarna mánuði. Þó er það ekki svo að við erum hætt að borða í Granaskjólinu. Tilraunamennskan hefur meira að segja fengið sitt pláss. Það er þvi kominn tími á að birta uppskrift. Vegna fjölda áskorana (í alvörunni) birti ég hér uppskrift að tveimur réttum sem ég bakaði nýverið samtímis og virkuðu mjög vel saman: ofnbökuðu grænmeti og spínatlasagna. Þeir bragðast ekki bara ljómandi vel saman heldur er líka þægilegt að búa þá til samtímis.

Fyrri uppskriftin er tekin úr bókinni "The Vegetarian Gourmet´s Easy International Recipes" eftir Bobbie Hinman, bls. 181. Þar heitir hún "Spinach and Rocotta Pie" en ég vil kalla hana:

Spínatlasagna (með pastasósu og osti)

Undirbúningur: Tryggið að spínatið nái að þiðna vel.

1. Ofninn er hitaður í 190 gráður
2. Eldfast mót er smurt vandlega. Bókin mælir með því að dreifa brauðmylsnu í mótið (en ég gerði það ekki).
3. Látið eftirfarandi hráefni í skál og blandið vel saman:

- Ricotta-ostur, einn bolli. (Ég notaði Mascarpone og það kom mjög vel út)
- Eggjahvítur (tvær)
- Jógúrt, óbragðbætt, hálfur bolli (AB-mjólk er líka fín)
- hveiti, hálfur bolli
- Basil, þurrkuð, 2 tsk.
- Salt og pipar (1/4 tsk. hvort um sig)
- Múskat, 1/16 tsk.

4. Bætið að lokum spínati (rúml. 300 g.) við ostablönduna. Það er best að nota spínat sem fæst frosið.
5. Setjið blönduna í fatið og jafnið út.
6. Dreifið spaghettisósu (1/2 bolli) yfir blönduna. Ég notaði tilbúna Hunt´s "Seasoned Tomato Sauce for Lasagna" og hún kom mjög vel út. Sósuna má alveg búa til sjálfur líka úr venjulegri tómatdós sem bætt er út í lauk og hvítlauk hituðum í ólivuolíu - en þetta er einfaldara.
7. Leggið Mozzarella ost (1 bolla) yfir. Bókin segir að hann eigi að vera rifinn (þess vegna gefinn upp sem bolli) en ég skar hann í myndarlegar sneiðar. Mér finnst hann góður þannig.
8. Setjið parmesan ost yfir (eftir smekk, en bókin talar um eina matskeið).
9. Bakist í ofninum í 35 mínútur án loks, þar til osturinn bráðnar og brúnast lítillega.


Þetta er náttúrulega tilvalið með grænmeti og hvítlauksbrauði en einnig með eftirfarandi rétti sem ég fann í "Matreiðslubókinni hennar Pálínu" sem NLFÍ gaf út fyrir örfáum árum. Uppskriftin finnst á blaðsíðu 49 og heitir einfaldlega:

Grænmeti í osti

Ég vitna beint í bókina:

Hráefni: Gulrætur, hvítkál, kartöflur og laukur.

Grænmetið er skorið í teninga, hitað á pönnu í olíu. Örlitlu vatni er bætt í og kryddað með jurtakryddi. Latið krauma í 3-5 mínútur. Sett í smurt, eldfast mót, rifnum osti stráð yfir. Látið ofarlega í ofni við 200 gráður. Tilbúið þegar osturinn er bráðnaður og hefur fengið fallegan blæ. Borið fram með grænmetissalati.


Þar sem ég gerði þetta samhliða hinum réttinum setti ég þá náttúrulega samtímis inn í ofninn. Til að nýta eggjarauðuna sem var afgangs frá hinni uppskriftinni dreifði ég henni líka yfir með ostinum. Það skemmdi a.m.k. ekki fyrir. Kryddið sem ég notaði var létt jurtakrydd, eins og stungið er upp á, en einnig smá hvítlaukskrydd auk einnar teskeiðar af mildu karrýi. Gott ef ég var ekki með lauk líka. Eins og sjá má þá er þetta afar frjálslegt og tilvalið til að vega upp á móti öðrum uppskriftum eða einfaldlega til að taka til í ísskápnum.

Engin ummæli: