sunnudagur, desember 03, 2006

Netið: Bloggið tekur stakkaskiptum

Ég vil vekja athygli lesenda á því að það er búið að betrumbæta bloggið. Nú er hægt að leita markvisst að "merkingum" (labels) sem sjá má fyrir neðan hverja færslu. Ég þarf reyndar að fara í gegnum póstinn sjálfur og merkja allar færslur sérstaklega en það gengur hins vegar nokkuð hratt fyrir sig. Núna ná merkingarnar 100 færslur aftur í tímann (sem er rétt tæplega ár) og fljótlega verð ég búinn að merkja allar 347 færslurnar samviskusamlega.

Þrátt fyrir þetta er hægt að leita í öllum gagnagrunninum. Það er gert með annarri leitaraðferð sem er líka nýkomin upp. Kíkið upp í vinstra hornið - þar er leitargluggi. Ég mæli með því að notandinn slái upp lykilorðinu sem ég hef hingað til alltaf passað upp á að setja sem upphaf hvers titils (einhvern veginn hafði ég alltaf trú á að bloggið myndi þróast í þessa átt og tel mig græða núna heilmikið á framsýninni). Þessi leitaraðferð nær aftur til fyrstu færslu en er þó þeim takmörkunum háð að ég hef einskorðað merkinguna í titlinum við eitt hugtak hverju sinni en hver færsla getur fjallað um margt í senn (sumar eru mjög almennar). Reyndar er með þessari aðferð (leitarglugganum) leitað bæði í titlinum og í sjálfum textanum þannig að ef leitarorðið er mjög almennt þá koma óþægilega margar færslur. Ég prófaði til dæmis að leita að Signýju í öllu því sem ég hef skrifað, setti "Signý" í gluggann, og fékk dágóðan slatta, bæði færslur þar sem fjallað er um hana sérstaklega og einnig þar sem minnst er á hana í framhjáhlaupi. Þannig virkar þessi leitaraðferð. Hún hefur sína kosti og galla en getur að sama skapi komið skemmtilega á óvart.

Ég fer fljótlega lengra aftur í tímann og merki gamlar færslur. Það væri því gaman að frétta af góðum leitarorðum hjá ykkur sem lesið því þá gæti ég notað það til að merkja með sérstaklega.

Engin ummæli: