Nú er ég nýkominn inn úr jólahlaðborði með vinnunni á Hótel Nordica. Vigdís var að vinna en ég tók Signýju samt með. Hún naut sín bara ótrúlega vel, enda voða vinsæl þar sem hún sat í öndvegi langborðs og veifaði til kollega minna brosandi. Svo fékk hún jafnvel að smakka, smá rauðrófubita, laufabrauð, sæta kartöflu, ris a la mande og súkkulaðiköku. Reyndar passaði ég upp á að hún kæmi ekki svöng (né syfjuð) þannig að hún var aðallega í selskapnum. Eftir tveggja tíma borðhald varð hún hins vegar þreytt og steinsofnaði á leiðinni heim í bílnum.
Maturinn á Hótel Nordica er ótrúlega góður, svo ég gerist nú veitingahúsarýnir í framhjáhlaupi. Þeir leggja mikla áherslu á meðlætið og forréttina og það er mér mjög að skapi. Það voru ekki nema þrir til fjórir kjötréttir af um það bil tuttugu og ég er ekki frá því að þeir hafi átt erfitt uppdráttar hjá mörgum eftir krassandi forrétti. Ekki voru eftirréttirnir síðri. Yfirleitt eru þeir annars flokks á svona hlaðborðum en það er ekki í þessu tilviki. Algjörn nammi - súkkulaðikakan, möndlugrauturinn og créme brulé (með jólakökuívafi). Maturinn í það heila var tiltölulega frjáls við hefðina - til dæmis var rauðkálið með negulkeim - en samt ekki of mikið út úr kortinu, ekki frekar en menn vildu (sushi líka í boði sem meðlæti ásamt ýmsu sem ég kann ekki að nefna).
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli