föstudagur, ágúst 06, 2004

Pæling: Strætóbókin

Menn þekkja vel hugtakið náttborðsbók. Með því að hafa bók á náttborðinu finnst oft í viku friðsöm náðarstund sem margir upplifa einungis á jólunum eða uppi í sumarbústað. Þetta er mikils virði. Ég á mér hins vegar strætóbók Hún er allt annars eðlis en náttborðsbókin. Hún má til dæmis ekki vera svo spennandi að hætta sé á að maður gleymi sér. Hún má heldur ekki krefjast svo mikillar einbeitingar að utanaðkomandi áreiti stuði mann (allt frá hristingi vagnsins yfir í tillitslausan umgang annarra farþega). Einnig verður bókin að geta notið sín í smáum afmældum skömmtum því strætólestur er bútalestur. Umfram allt þarf hún hins vegar að bjóða upp á vangaveltur því fátt er betra eftir mergjaða málsgrein en að líta upp drjúga stund og geta leyft nýju innihaldi hugans að reika um lifandi og síbreytilegt landslagið sem rennur hjá.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér heyrist góð ljóðabók vera kjörin strætóbók. Maður getur lesið eitt eða tvö ljóð í hverri ferð.

Kveðja,
Kristján

Steini sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Steini sagði...

Nákvæmlega. Kannski er það hin fullkomna strætóbók. Eða bók með kjarnyrtum tilvitnunum. Tímarit eru líka heppileg (gott að setja sig inn í heimsmálin með samfélagið á ferð í kringum sig, ein grein í einu). Svo eru vissar "bækur" vel til strætóferða fallnar, sérstaklega ef þær eru heimspekilegs eðlis. Spennusögur og þungar námsbækur væru hins vegar óheppilegar held ég.