þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Kvikmyndir: Videó. Girl with the Pearl Earring & Henry Fool

Við Vigdís gerðum okkur huggulegt kvöld í rokinu í gær og tókum tvær vídeóspólur. Leigan í hverfinu býður nefnilega upp á fríspólu með hverri nýrri spólu. "Nýja" myndin var the Girl with the Pearl Earring. Hún er heillandi innsýn í Niðurlönd sautjándu aldar og það menningarsamfélag sem þar var að finna. Sagan er í raun atburðarásin að baki eins af frægustu málverkum Vermeer. Reyndar er söguþráðurinn ekki neitt ýkja merkilegur en framsetningin og kvikmyndatakan gera myndina að augnayndi.

Henry Fool er hin myndin, eftir Hal Hartley, frá 1997. Þetta er gömul uppáhaldsmynd. Frábær persónusköpun, makalaus húmor og snilldarhandrit. Samtölin og persónurnar sitja í manni lengi á eftir.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég las bókina sem myndin er gerð eftir, Stúlka með perlueyrnarlokk. Atburðarásin er hæg og lítið gerist en þó situr maður við lesturinn því framsetningin er svo áreynslulítil og heillandi. Mér fannst bókin mjög góð og nú, eftir lestur þessarar færslu, langar mig að sjá myndina líka.

Stella