laugardagur, desember 17, 2005

Fréttnæmt: Heimkoman

Nú er litla fjölskyldan loksins komin heim í fyrsta skipti eftir rúmlega þriggja sólarhringa dvöl á spítalanum. Ég var náttúrulega sjálfur heima allar nætur og vann þar að auki í skólanum fram yfir hádegi (tek ekki frí fyrr en eftir áramót enda stutt í jólafrí hvort eð er). Ég eyddi því kvöldunum eins og þau lögðu sig með Vigdísi og litlu dömunni (sem er svo óskaplega pen og kurteis og lítil). Þetta er auðvitað búið að vera mjög lýjandi tími. Ég er reyndar svo heppinn að hafa getað sofið vel á nóttunni en hins vegar hef ég ekkert hvílst á daginn og er líkamlega mjög lúinn eftir langar stöður (var um tíma með ferlega strengi upp eftir fótleggjunum aftanverðum). Ég get þó varla ímyndað mér hversu þreytt Vigdís hlýtur að vera eftir þessa þrekraun sem fæðingin er, þennan blóðmissi sem fylgir henni, háan blóðþrýsting, stöðugar undirliggjandi áhyggjur og allt of grunnan og óreglulegan svefn (meðal annars vegna umgangs). Það fór reyndar að öðru leyti vel um Vigdísi og litlu dömuna okkar enda starfsfólk deildarinnar ákaflega alúðlegt og hjálplegt. Hún upplifði sig í mjög traustum og öruggum höndum. Engu að síður hafði Vigdís sofið frekar illa og var heimkoman því nokkuð langþráð.

Einmitt núna finnst mér því tímabært að þakka öllum fyrir hvatningarorðin og góðu hugsanirnar sem okkur hafa borist, bæði hér á síðunni og annars staðar. Við erum fyrst núna, um það bil sólarhring eftir heimkomu, að ná áttum. Það er svo ótrúlega auðvelt að gleyma að borða og hvílast þegar lífið umturnast á skammri stundu. Við höfum nú hvílst mjög vel heima, þrátt fyrir að hafa þurft að vaka hálfa fyrstu nóttina, enda ákváðum við strax við heimkomu að fresta öllum gestakomum um sinn og sinna okkur sjálfum eins vel og við gátum. Á morgun, sunnudag, megum við líklega eiga von á allra nánustu aðstandendum í stutt innlit. Fljótlega eftir helgi getum við síðan farið að taka markvisst á móti öðrum vinum og vandamönnum, ef allt gengur áfram að óskum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég skil vel að þið séuð þreytt og finnst skynsamlegt hjá ykkur að fresta gestakomum í bili. Okkur þótti amk gott að vera út af fyrir okkur fyrst um sinn á meðan við vorum að jafna okkur og kynnast Áslaugu Eddu.

Hlakka til að lesa meira um litlu Lúsíuna ykkar :-)

Steini sagði...

Sæl Stella (og fjölskylda :-)

Já, þetta var ekkert auðveld fæðing. Vigdís fékk nefnilega meðgöngueitrun á síðustu metrunum og uppgötvaðist það ekki fyrr en á mánudaginn var hjá ljósunni (var þá líklega búin að vera með hana mallandi yfir helgina, en hún var frekar orkulítil þá). Án eftirlits sérfræðinga getur meðgöngueitrun verið mjög alvarleg. Hún dregur úr blóðflæði til barnsins og veldur því að líkaminn fer að pumpa af meiri krafti, sem veldur hækkuðum blóðþrýstingi hjá móðurinni (stundum er þetta kallað "meðgönguháþrýstingur" sem er meira lýsandi hugtak). Ástandið er í raun ekki alvarlegt fyrir barnið sjálft nema það sé svo óheppið að þurfa að dúsa inni við þessar aðstæður lengi, því minna blóðflæði dregur óhjákvæmilega úr vextinum. Á sama tíma getur móðir hins vegar misst heilsuna.

Sem betur fer fékk Vigdís þetta um það bil þegar henni var óhætt að fæða. Læknarnir fylgdust vel með henni og ætluðu sér að setja hana af stað fljótlega, einhvern næstu daga. Einmitt þá missti hún vatnið (samdægurs og eitrunin uppgötvaðist) þannig að litla krílið okkar var greinilega harðákveðið í að koma út sem fyrst. Legvatnið var víst ekki mjög hreint svo að sérstök ástæða var til að ganga marvisst til verks flytja sig strax af meðgöngudeild og upp á fæðingardeild.

Fæðingarferlið gekk hins vegar hægt fyrir sig og klukkutímarnir siluðust áfram. Hún fékk "dreypi" (hormón sem framkallar aukna útvíkkun). Allt kom fyrir ekki. Sársaukinn jókst en lítið virtist vera að gerast (engin aukin útvíkkun átti sér stað tímunum saman og grunsamlega litlar hreyfingar mældust á sama tíma á ritinu frá litlu dömunni í leginu). Mér fannst örlítil örvænting gera vart við sig. Læknarnir sáu fyrir sér hugsanlegan keisara, í versta falli. Með mænurótardeyfingunni komst hins vegar hreyfing á málið og fæðingin fór af stað í morgunsárið, eins og áður sagði, og tiltölulega hratt.

Í ljós kom þegar litla stúlkan birtist, og fylgjan og allt þetta gums með, að legkakan var orðin mjög óvistlegur bústaður, að sögn ljósmóður. Dóttir okkar virðist þrátt fyrir allt góð til heilsunnar. Hún fékk 8 á APGAR prófinu, sem er harla gott miðað við aðstæður. Hún er afar lítil og hefur minna fiutlag en gengur og gerist. Er að öðru leyti spræk en afslöppuð. Og náttúrulega alveg dýrðleg :-)

Frá fæðingunni hefur Vigdísi liðið þokkalega en hefur þurft að glíma bæði við járnskort (burt séð frá blóðmissinum), höfuðverk, mikinn bjúg og háan blóðþrýsting. Hún fékk að fara heim í gær en hefði alveg eins getað dvalið lengur á deildinni, hefði hún ekki treyst sér heim. Í dag erum við öðru hvoru í símasambandi við sérfræðinga á deildinni, fyrst vegna blóðþrýstingsins (sem virðist fara batnandi) og líka vegna fyrirspurna um umönnun litlu dóttur okkar (sem sefur óskaplega mikið og drekkur lítið). Ég þarf nú sjálfur að gæta þess vandlega að Vigdís borði járnríkan og hollan mat en hennar vellíðan og hvíld er víst lykillinn að því að brjóstagjöfin gangi sem best.

Þannig er nú eiginlega sagan svona í stærra samhengi. Ég kann einhvern veginn betur við að tjá mig um smáatriðin hér á "bak við tjöldin" en að flíka því á áberandi hátt. Þeir sem þekkja til geta þá haft gaman af að glugga hér á bak við :-)

Svo er það líka mjög skemmtilegt, eins og þú minntist á, að við eignuðumst Lúsíubarn. Eru Danir mjög meðvitaðir um þessa hátíð? Lúsíumessan hefur víst haldist hvað best við í Svíþjóð. Við Vigdís vorum einmitt að fara að glugga í "Sögu daganna" til að fræðast aðeins um þennan athyglisverða dag.

kær kveðja,
Steini og Vigdís