fimmtudagur, desember 01, 2005
Fréttnæmt: Meðgöngukvillar magnast upp
Ég rumskaði af ákaflega værum svefni um tvöleytið í nótt og fann að Vigdís var eitthvað að brölta. Hún bar sig aumlega og kvartaði undan sárum verki. Legið var óvenju hart og barnið hreyfði sig alls ekki neitt. Í svefnrofunum fór ég að kynna mér lýsingar á þessum kvillum á netinu. Við höfðum af þessu talsverðar áhyggjur og til greina kom að hringja strax upp á spítala og bera stöðuna undir sérfræðinga. Hins vegar sjatnaði sársaukinn örlítið með tímanum og Vigdísi fannst hún verða vör við lítilsháttar hreyfingar, sem var sannarlega huggandi tilhugsun, svo við ákváðum að hvíla okkur aftur eftir um tveggja tíma andvöku. Um tveimur tímum síðar finn ég hins vegar að hún er aftur vöknuð og er sárþjáð. Klukkan var rúmlega sex og þetta virtist ekkert vera að batna svo við brunuðum beint upp eftir í læknisskoðun. Þar undirgekkst Vigdís ýmsar prófanir, blóðprufu, sírita og ómskoðun. Ekkert grunsamlegt kom í ljós. Allt benti til þess að ýmsir fylgikvillar meðgöngunnar hafi þarna lagst á eitt með sársaukafullum afleiðingum en án þess að gera neinn skaða. Eftir þriggja tíma dvöl á litlu hljóðlátu herbergi og samskipti við tvo lækna ásamt jafnmörgum ljósmæðrum (við komum einmitt rétt fyrir vaktaskipti að morgni) fórum við heim og sváfum úr okkur áhyggjufulla nóttina. Ég mætti sem sagt ekkert til vinnu þann daginn. Seinna um daginn þurftum við svo að koma aftur í tékk til að tryggja að allt líti áfram eðlilega út. Það má því segja að dagurinn hafi byrjað snemma í nótt og hafi allt að kvöldmat verið undirlagður umstangi, áhyggjum, svefnleysi og að því er virðist verulegum sársauka í tengslum við meðgönguna. Þetta er væntanlega forsmekkurinn að því sem við komum til með að upplifa eftir um það bil mánuð. Það jákvæða við þetta allt saman er að við fengum að sjá litlu stúlkuna okkar í óskýru gömlu sónartæki, kynntumst deildinni svolítið og áttum afar jákvæð og traust samskipti við fjöldann allan af fólki á fæðingardeildinni. Við erum meira að segja byrjuð að leggja nöfnin á minnið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Það er gott að það er allt í lagi með stelpurnar þínar en leiðinlegt að lenda í svona.
Voru þetta fyrirvaraverkir (plukkeveer á dönsku)? Á foreldranámskeiðinu var okkur kennt að það gæti einmitt verið mjög sárt en í raun væri þetta móðurlífið í líkamsrækt. Það væri bara að æfa sig fyrir fæðinguna sjálfa.
Gangi ykkur allt í haginn þennan síðasta mánuð og verið dugleg að hvíla ykkur. Við fylgjumst spennt með :-)
Jú, það er einmitt það sem verkirnir voru kallaðir. Sársaukinn leyndi sér ekki. Í dag virtist hins vegar draga enn frekar til tíðinda, Vigdís missti svokallaðan "slímtappa". Það gerðist upp úr hádegi í dag. Mér skilst að þar með geti fæðing farið að bresta á mjög fljótlega, hugsanlega á næstu dögum.
Hjá okkur fór slímtappinn á laugardegi og Áslaug Edda fæddist á miðvikudegi. Ég held að það fari bráðum að draga til tíðinda!
En spennandi! :-)
Skrifa ummæli