Nú þegar jólin eru að baki er ekki úr vegi að velta fyrir sér til hvers allt umstangið var. Þetta gengur yfir mjög hratt og í ár má segja að jólin séu óvenju stutt. En jólin eru ekki bara þessir örfáu dagar þegar nánar er að gáð. Þetta er líka spurning um að njóta aðventunnar, tilhlökkunarinnar og ljósanna sem fylgja jólunum og eru logandi nokkrar vikur í senn hjá flestum. Margir ná engan veginn að njóta þessa tímabils sem skyldi og láta jólin spenna sig upp. Okkur tókst hins vegar ágætlega upp í þessum efnum núna, þökk sé góðri jólaafþreyingu.
Jólaalmanakið í ár var fyrsta flokks. Á hverjum einasta degi var sýndur þáttur frá aðventunni í "Snædal", norskri seríu sem var nokkuð í anda "Himmelbla" en ætlað yngri markhópi. Hver þáttur glímdi markvisst við einhver grunngildi, eins og gildi þess að tala ekki illa um náungann, um að hlaupast ekki undan ábyrgð, um að þora að taka áhættu í lífinu og þar fram eftir götunum. Sögurnar voru alltaf nógu einfaldar til þess að fimm ára nái að lifa sig inn í atburðarásina en nógu raunsæir og djúpir til að skírskota til tilfinninga fullorðinna. Kannski svolítið eins og Húsið á sléttunni á sínum tíma. Alla vegana var þetta fastur punktur í aðventunni hér á bæ og hún Signý hlakkaði sérstaklega til hvers þáttar og lagði hiklaust til hliðar aðra afþreyingu á meðan.
Þetta stóð upp úr þeirri afþreyingu sem var í boði á aðventunni, hiklaust, og minnir mann hastarlega á hvað íslenskt leikið efni er aftarlega á merinni (hver hefur annars nennt að horfa á jóladagatalið undanfarin ár?). En svo að maður tefli saman andstæðum þá verð ég taka fram það sem mér þykir vera versta afþreyingin þetta árið, sem endranær. Það eru Frostrósir og allar þessar glamúrtónleikauppákomur sem voru í boði, hvort sem það voru Björgvin og félagar eða aðrir. Í mínum huga eru tónleikar af þessu tagi einmitt til þess fallnir að spenna fólk upp. Ég meina, það er ekkert snoturt, einlægt eða einfalt við þetta. Þetta er þaulskipulagt og flókið prógramm þar sem helstu látúnsbarkar landsins koma saman til að berast á í gala-klæðnaði við undirspil stórrar hljómsveitar og kórs, með öllu því glimmeri sem því fylgir. Það er beinlínis gefið í skyn að jólin gangi út á þessa fullkomnun, eins og risavaxið ofskreytt silfurjólatré. Þetta finnst mér vera lágkúrulegt og flokkas því hjá mér undir það lélegasta í afþreyingu á aðventunni. Líður fólki vel eftir svona tónleika? Ef ég hefði skellt mér á jólatónleika þá hefði það verið venjulegir kórtónleikar eða eitthvað enn lágstemmdara (eins og Pál Óskar og Móníku) eða fundið einhvern kammerkór á götuhorni. En Frostrósir, nei takk. Með fullir virðingu fyrir frábærum flytjendum.
En til að enda ekki á neikvæðu nótunum langar mig að rifja upp jólatónlist sem virkar alltaf jafn þægilega á mig ár eftir ár. Það er hið gamla og góða "Do They Know it´s Christmas?". Hvað er það við þetta lag? Bernskuminning? (ég var tólf ára þegar lagið kom út). Eða er það hlýlegi hitabeltishljómurinn sem virkar alltaf eins og endurómur úr fjarlægri álfu? Eða er það kaldhæðnin í laginu sem alltaf skín í gegn: "Tonight, thank God, it´s them, instead of you!", sem Bono hikaði lengi við að syngja. Eða er það spennan og eftirvæntingin í flutningnum sem gerir lagið svo klassískt? Flytjendur voru meira eða minna gagnteknir af því sem var að gerast enda hafði ekkert í þessum dúr verið reynt áður. Að minnsta kosti skilar þetta sér allt, á hverju einasta ári.
En ef ég ætti að velja mér gamalt jólalag til að halda upp á (frá því fyrir minn tíma) þá myndi það hins vegar vera The Little Drummer Boy. Það virðist bara ekki vera hægt að klúðra þessu lagi, enda laust við alla væmni og tilgerð, og fjallar um eitthvað allt annað en jólasveina, jólastress og jesúbarnið (sem er óneitanlega svolítið frískandi á aðventunni). Sérstaklega held ég upp á flutning the Kings´ Singers og svo auðvitað flutning heiðursmannanna Bing Crosby og David Bowie. Þar er eitthvað pínulítið vandræðalegt við flutninginn sem gerir hann svo skemmtilegan, eins og þeir viti ekki hvað þeir hafa hvorn annan, en þetta varfærnislega í flutningnum gerir hann einmitt svo viðkunnanlegan.
sunnudagur, desember 26, 2010
Upplifun: Snjókarlinn
Þá eru jólin að baki. Snjórinn féll tímanlega og skolaðist burt í dag, kannski full snemma. Við nýttum hins vegar gærdaginn mjög vel. Það var eiginlega hinn fullkomni jóladagur. Þá var garðurinn þakinn nýföllnum snjó og stutt í þíðuna þannig að hann var frekar rakur og tilbúinn til meðhöndlunar. Við réðumst strax í að rúlla upp snjókarli og fórum klassísku leiðina: bjuggum til harðan snjóbolta og veltum honum eftir lóðinni. Í kjölfarið af boltanum lá mjög áberandi græn slóð því snjórinn hafði ekki legið lengi. Þegar maður hugsar út í það þá er eins og þessi snjór hafi fallið beinlínis til að gera okkur kleift að búa til snjókarl á jóladag. Snjókarlinn var í fullri stærð og fékk sín hefðbundnu klæði: húfu (jólasveinahúfu), trefil og myndarlega gulrót fyrir nefið. Hann brosti sáttur við sig þegar við röltum inn.
Við vorum þrjú í þessu á meðan Vigdís sýslaði ýmislegt inni, reddaði okkur gulrót, trefli og hönskum eftir því sem við átti, þannig að þetta var samvinnuverkefni allra. Svo beið okkar inni heitt súkkulaði og smákökur með rjóma. Það tilheyrir á jóladag. Signý og Hugrún settust þá við sjónvarpið og horfðu með mér á uppáhalds jólamyndina okkar: The Snowman. Þetta er töfrandi saga (upphaflega barnabók) og er frábærlega komið til skila sem teiknimynd. Þetta er saga af snjókarli sem vaknar til lífsins á jólanótt. Við svífum með snjókarlinum á vit ævintýranna og tökum þátt í veislu með jólasveininum sem bíður á Suðurpólnum áður en yfir lýkur (þ.e.a.s. áður en svifið er til baka og snjókarlinn bráðnar morguninn eftir). Stelpurnar horfðu stoltar út í garð öðru hvoru og báru snjókarlana saman með reglubundnu millibili. Þær voru ekkert leiðar yfir því þegar hann bráðnaði í dag enda vita þær fullvel að það eru örlög snjókarla, jafnvel þeirra sem vakna til lífsins.
Við vorum þrjú í þessu á meðan Vigdís sýslaði ýmislegt inni, reddaði okkur gulrót, trefli og hönskum eftir því sem við átti, þannig að þetta var samvinnuverkefni allra. Svo beið okkar inni heitt súkkulaði og smákökur með rjóma. Það tilheyrir á jóladag. Signý og Hugrún settust þá við sjónvarpið og horfðu með mér á uppáhalds jólamyndina okkar: The Snowman. Þetta er töfrandi saga (upphaflega barnabók) og er frábærlega komið til skila sem teiknimynd. Þetta er saga af snjókarli sem vaknar til lífsins á jólanótt. Við svífum með snjókarlinum á vit ævintýranna og tökum þátt í veislu með jólasveininum sem bíður á Suðurpólnum áður en yfir lýkur (þ.e.a.s. áður en svifið er til baka og snjókarlinn bráðnar morguninn eftir). Stelpurnar horfðu stoltar út í garð öðru hvoru og báru snjókarlana saman með reglubundnu millibili. Þær voru ekkert leiðar yfir því þegar hann bráðnaði í dag enda vita þær fullvel að það eru örlög snjókarla, jafnvel þeirra sem vakna til lífsins.
laugardagur, desember 18, 2010
Upplifun: Tvær leiksýningar
Í dag kíktum við á skemmtilega brúðuleiksýningu í Gerðubergi sem hét, að mig minnir: Minnsta tröllskessa í heimi. Sýningin var á vegum áhugahóps um brúðuleikhús sem kallast Unima. Stelpurnar höfðu sérlega gaman af þessu enda fengu þær ásamt öðrum krökkum að taka virkan þátt í atburðarásinni. Það er nóg að gera þessa dagana og þeim leiðist hreint ekki þeim Signýju og Hugrúnu. Begga systir eru dugleg að þefa uppi leiksýningar og tilboð og þær njóta góðs af því (og fá að gista hjá henni reglulega í tengslum við þetta). Fyrir um viku síðan fékk Signý til dæmis að fara með henni og Fannari og Guðnýju í Borgarleikhúsið á sýninguna: Jesú litli. Þar sat hún víst þægust af öllum, langt undir meðalaldri áhorfenda, og horfði gagntekin allan tímann. Svo fékk hún að fara baksviðs að heilsa upp á frænku sína sem lék í sýningunni (Halldóru Geirharðs). Það fannst henni ekki síður skemmtilegt og fékk teknar myndir af sér með henni. Þetta er N.B. fyrsta "Dóran" sem hún kynnist í alvörunni, á eftir landkönnuðinum fræga. Hún bar Dóru vel söguna og talaði mikið um hana eftir á við Hugrúnu (sem því miður varð að vera heima í þetta skiptið en fékk bara meiri athygli heima á meðan).
Uppákoma: Jólasveinninn komst ekki til byggða
Síðustu dagar hafa verið erilsamir, jólaball bæði í leikskólanum og í vinnunni, en sem betur fer er ég sloppinn hér með í jólafrí. Það er frábært að fá góða viku fyrir jól til að hnýta saman alla lausa enda. Erillinn að undanförnu hefur að einhverju leyti bitnað á stelpunum. Þegar jólasveinninn fór að gefa í skóinn hefur til að mynda gleymst öðru hvoru að tékka á súkkulaðimolanum í dagatalinu. Það var afar heppilegt í morgun því þá var ekkert í skónum. Hvað gerðist eiginlega? Trassaskapur? Þeirri skýringu var hins vegar haldið á lofti að sveinki hafi ekki komist vegna óveðursins sem gekk yfir landið. Grýla hélt honum heima og lofaði að hleypa honum út í kvöld í staðinn. Það er því eins gott að það verði veglegt um að litast í fyrramálið. Kannski gjöf og smá nammi að auki. Söguskýringuna tóku Hugrún og Signý að minsta kosti mjög trúanlega. Þær voru mjög þægar í gærkvöldi og tóku skóinn ekki persónulega. Í staðinn gæddu þær sér stóískar á uppsöfnuðum súkkulaðiforða úr dagatalinu.
þriðjudagur, desember 14, 2010
Tímamót: Signý fimm ára
Í gær átt Signý afmæli. Nú er hún orðin fimm ára og var býsna stolt af því. Við skiptum afmælinu hennar í tvennt vegna plássleysis, eins og svo oft áður. Annars vegar kíktu ættingjar í heimsókn um helgina, án formlegs boðs, bara hver á sínum tíma. Nema mamma og pabbi. Þau buðu okkur bara heim í staðinn í mat á sunnudaginn. Bara frjálslegt, þægilegt og óformlegt. Síðan var daginn eftir haldið formlega upp á tímamótin með vinum úr leikskólanum, á sjálfan afmælisdaginn.
Ákveðið var að bjóða þremur vinkonum í heimsókn eftir leikskóla. Það var bara eins einfalt og hugsast gat. Fyrir utan afmæliskökuna (súkkulaðiköku) var fyrirhöfnin bara tiltekt. Smákökur voru dregnar fram í dagsljósið, ein aukakaka (með Pekanhnetum) var keypt í Hagkaupum og svo lumað á íspinna í lokin. Signý var hæstánægð með þetta allt saman enda eru þær vinkonurnar mjög fínar saman. Eina stundina datt þeim i hug að fara að njósna um mig og fóru þá í felur úti um allt. Það var allur prakkarskapurinn. Eftirminnilegast fannst mér hins vegar að fylgjast með þeim horfa á jóladagatalið. Þær voru allar sem límdar á skjánum og rétt töluðu öðru hvoru og þá bara um efni þáttarins. Eitt skiptið álpaðist Hugrún hins vegar til að standa upp og horfa á þáttinn standandi rétt fyrir framan skjáinn. Þá sagði ein þeirra, kurteislega: "Hugrún, ekki vera fyrir sjónvarpinu". Hún var hálf hissa, steig til hliðar og sagði svo bara: "Fyrirgefðu!". Svona var þetta pent.
Signý var rosalega ánægð með veisluna og hafði orð á því hvað þetta var gaman. Þá átti hún hins vegar eftir að taka fleiri pakka sem biðu þangað til hún og Hugrún voru búnar að hátta sig og tannbursta. Þetta voru pakkar frá okkur foreldrunum og svo frá Ásdísi frænku og fjölskyldu. Í einum pakkanum var DVD-mynd: Where the Wild Things Are sem er byggð á klassískri barnabók sem stelpurnar þekkja vel. Þær voru mjög spenntar fyrir henni og fengu að lokum smá "kósí" stund fyrir framan sjónvarpið og horfðu þá á myndina í ró og næði. Bara huggulegur fimm ára afmælisdagur og Signý fór mjög sátt að sofa.
Ákveðið var að bjóða þremur vinkonum í heimsókn eftir leikskóla. Það var bara eins einfalt og hugsast gat. Fyrir utan afmæliskökuna (súkkulaðiköku) var fyrirhöfnin bara tiltekt. Smákökur voru dregnar fram í dagsljósið, ein aukakaka (með Pekanhnetum) var keypt í Hagkaupum og svo lumað á íspinna í lokin. Signý var hæstánægð með þetta allt saman enda eru þær vinkonurnar mjög fínar saman. Eina stundina datt þeim i hug að fara að njósna um mig og fóru þá í felur úti um allt. Það var allur prakkarskapurinn. Eftirminnilegast fannst mér hins vegar að fylgjast með þeim horfa á jóladagatalið. Þær voru allar sem límdar á skjánum og rétt töluðu öðru hvoru og þá bara um efni þáttarins. Eitt skiptið álpaðist Hugrún hins vegar til að standa upp og horfa á þáttinn standandi rétt fyrir framan skjáinn. Þá sagði ein þeirra, kurteislega: "Hugrún, ekki vera fyrir sjónvarpinu". Hún var hálf hissa, steig til hliðar og sagði svo bara: "Fyrirgefðu!". Svona var þetta pent.
Signý var rosalega ánægð með veisluna og hafði orð á því hvað þetta var gaman. Þá átti hún hins vegar eftir að taka fleiri pakka sem biðu þangað til hún og Hugrún voru búnar að hátta sig og tannbursta. Þetta voru pakkar frá okkur foreldrunum og svo frá Ásdísi frænku og fjölskyldu. Í einum pakkanum var DVD-mynd: Where the Wild Things Are sem er byggð á klassískri barnabók sem stelpurnar þekkja vel. Þær voru mjög spenntar fyrir henni og fengu að lokum smá "kósí" stund fyrir framan sjónvarpið og horfðu þá á myndina í ró og næði. Bara huggulegur fimm ára afmælisdagur og Signý fór mjög sátt að sofa.
sunnudagur, desember 05, 2010
Tónlist: S/H Draumur á miðnætti
Ég fór á rokktónleika í gær í fyrsta skipti í mörg ár. Þá á ég við ALVÖRU rokktónleika, sveitta, troðna, háværa. Það voru S/H Draumur sem stóðu fyrir brjálaðri stemningu á Sódómu. Gamli góði Draumurinn, sem lagði upp laupana fyrir hartnær tuttugu árum, með Dr. Gunna innanborðs. Þetta er lítið þekkt rokkhljómsveit frá miðjum níunda áratugnum sem bjó við fremur þröngan aðdáendahóp á sínum tíma. Síðan hljómsveitin hætti í kringum 1990 hefur hún öðlast goðsagnakennda stöðu í rokksögunni. Að mínu mati gáfu þeir út bestu hreinræktuðu rokkskífu sem komið hefur út hér á landi. Það var árið 1987 þegar platan Goð kom út og nú stóð til að endurflytja hana í heild sinni ásamt öðrum lögum sem gefin voru út bæði á undan og á eftir.
Hvernig voru þá tónleikarnir? Staðurinn var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Sódoma er á eftri hæðinni á gamla "Gauknum" fyrir þá sem það þekkja. Hann er þröngur, sem er bæði kostur og galli þegar rokktónlist er annars vegar. Hins vegar fannst mér ægilegt að það skuli ekki vera boðið upp á fatahengi! Þarna voru inni menn í jakkafötum eða frökkum í kófinu, af því þeir gátu ekki annað. Ég meina, hvað áttu þeir að gera? Það var kalt úti. Ömurlegt. Ég var upphaflega í þykkri peysu utan yfir síðerma nærbol og regnjakka þar yfir. Þegar í ljós kom að staðurinn vildi ekki þjónusta mig að þessu leyti stökk ég aftur út, skokkaði í fimm mínútur út í bíl, og kastaða heitari klæðunum af mér þar. Kom skokkandi til baka á síðerma nærbolnum. Heitur af hlaupunum, til í smá rokk.
Það fór ekkert illa um mig, sem betur fer, en hljómburðurinn hefði mátt vera betri. Það var dúndrandi árás fyrir skilningarvitin að standa uppi við sviðið. Þangað fór ég strax og naut mín afar vel en dró mig hins vegar í hlé til að hvíla eyrun aðeins. Síðasta hálftíman var ég hins vegar kominn til að vera og hentist fram og til baka með öðrum jafn áköfum aðdáendum sveitarinnar. Það var ekkert smá kraftur í bæði bandinu og áhorfendum! Gamla góða "slammið" tók sig upp í einhverri dýrðlegri nostalgíu uppi við sviðið. Allt í kring voru kunnugleg andlit, bæði persónulegir kunningjar og vinir auk andlita sem ég man eftir frá þeim tiíma þegar ég sótti rokktónleika reglulega. Sama gamla grúppan. Hljómsveitin sjálf stóð sig líka vel þrátt fyrir að það hafi vantað örlítið upp á snerpuna frá í gamla daga en var að mínu mati aukaatriði í sjálfu sér. Það var staðurinn og stundin sem stóð upp úr. Og sjálf tónlistin.
Á leiðinni út staldraði ég við á þröskuldinum og spjallaði örlítið við dyravörðinn. Honum varð starsýnt á uppgufunina sem stóð upp úr hvirflinum og hrópaði hátt: Heyrðu, það bara rýkur upp úr þér!! Þannig gekk ég funheitur í áttina að bílnum, gegnum frostkalt loftið, klukkan orðin eitt. Daginn eftir verkjaði mig hér og þar í líkamann og suðið yfirgaf ekki eyrun næsta sólarhringinn.
Hvernig voru þá tónleikarnir? Staðurinn var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Sódoma er á eftri hæðinni á gamla "Gauknum" fyrir þá sem það þekkja. Hann er þröngur, sem er bæði kostur og galli þegar rokktónlist er annars vegar. Hins vegar fannst mér ægilegt að það skuli ekki vera boðið upp á fatahengi! Þarna voru inni menn í jakkafötum eða frökkum í kófinu, af því þeir gátu ekki annað. Ég meina, hvað áttu þeir að gera? Það var kalt úti. Ömurlegt. Ég var upphaflega í þykkri peysu utan yfir síðerma nærbol og regnjakka þar yfir. Þegar í ljós kom að staðurinn vildi ekki þjónusta mig að þessu leyti stökk ég aftur út, skokkaði í fimm mínútur út í bíl, og kastaða heitari klæðunum af mér þar. Kom skokkandi til baka á síðerma nærbolnum. Heitur af hlaupunum, til í smá rokk.
Það fór ekkert illa um mig, sem betur fer, en hljómburðurinn hefði mátt vera betri. Það var dúndrandi árás fyrir skilningarvitin að standa uppi við sviðið. Þangað fór ég strax og naut mín afar vel en dró mig hins vegar í hlé til að hvíla eyrun aðeins. Síðasta hálftíman var ég hins vegar kominn til að vera og hentist fram og til baka með öðrum jafn áköfum aðdáendum sveitarinnar. Það var ekkert smá kraftur í bæði bandinu og áhorfendum! Gamla góða "slammið" tók sig upp í einhverri dýrðlegri nostalgíu uppi við sviðið. Allt í kring voru kunnugleg andlit, bæði persónulegir kunningjar og vinir auk andlita sem ég man eftir frá þeim tiíma þegar ég sótti rokktónleika reglulega. Sama gamla grúppan. Hljómsveitin sjálf stóð sig líka vel þrátt fyrir að það hafi vantað örlítið upp á snerpuna frá í gamla daga en var að mínu mati aukaatriði í sjálfu sér. Það var staðurinn og stundin sem stóð upp úr. Og sjálf tónlistin.
Á leiðinni út staldraði ég við á þröskuldinum og spjallaði örlítið við dyravörðinn. Honum varð starsýnt á uppgufunina sem stóð upp úr hvirflinum og hrópaði hátt: Heyrðu, það bara rýkur upp úr þér!! Þannig gekk ég funheitur í áttina að bílnum, gegnum frostkalt loftið, klukkan orðin eitt. Daginn eftir verkjaði mig hér og þar í líkamann og suðið yfirgaf ekki eyrun næsta sólarhringinn.
föstudagur, nóvember 26, 2010
Þroskaferli: Fyrsta tönnin farin
Signý missti sína fyrstu tönn á þriðjudaginn. Tönnin var búin að vera laus í rúmlega viku. Það er eiginlega dæmigert fyrir hana að ná að "geyma" hana svo lengi því þannig eru hún. Til dæmis, ef hún fær eitthvað gott að morgni dags, eins og rúsínur, þá er hún líkleg til að geyma þær þangað til hún mætir í leikskólann til að geta sýnt vinum sínum. Góðan mat getur hún sömuleiðis treinað sér auðveldlega. Hún er lengi að borða mat sem hún er hrifin "af af því að hann er svo góður". Að sumu leyti má segja að hún sé mjög öguð að eðlisfari. En nákvæm líka. Hún gagnrýnir sjálfa sig óspart þegar hún gerir mistök. Það gerir hún með að missa móðinn og finnast hún sjálf vonlaus. Fullkomnunaráráttan getur virkilega verið til vansa. En lausu tönnina passaði hún sem sagt afar vel og lengi. En tönnin varpar líka skemmtilegu ljósi á systkinasamskiptin. Um leið og Signý tilkynnti um það að hún væri með lausa tönn sagði Hugrún: "Ég er líka með lausa tönn". Nema hvað! Hugrún notar Signýju stöðugt sem viðmið eins og algengt er með náin systkini. Metingurinn er hins vegar sjaldnast neikvæður. Þegar þær keppa, til dæmis í kapphlaupi, þá er Signý yfirleitt á undan og undirstrikar það náttúrulega með því að segja: "Ég vann!" Þá kemur Hugrún nokkrum skrefum á eftir henni og gerir nákvæmlega eins: "Ég vann líka!" Þannig er Hugrún. Hún er ekkert að flækja hlutina. Signý veltir hins vegar tilverunni mikið fyrir sér og tekur afar nærri sér ef henni finnst hún ekki vera að standa sig.
En tönnin er búin að vera mikið umhugsunarefni. Það vill svo til að Vigdís var í nokkurra daga ferðalagi á þessum tíma og kom heim einmitt þegar tönnin féll. Það fannst henni afar táknrænt. Sem er líka lýsandi fyrir hana. Hún á það til að leita að táknum og fyrirboðum víða og hrífst alltaf af þvi sem samræmist skemmtilega, eins og þessu. Sem sagt, það lögðu allir sína merkingu í tönnina. En hvað um mig þá? Ég segi bara "Úff!" Mér finnst tilhugsunin um fallandi tennur frekar skuggaleg. Það er bara synd af svona fallegar tennur skuli þurfa að losna. En sú mynd sem situr efst í huga mér er þessi fallega tönn. Hún var alveg skjannahvít og greinilegt að tannhirðan er í lagi á þessu heimili :-)
En tönnin er búin að vera mikið umhugsunarefni. Það vill svo til að Vigdís var í nokkurra daga ferðalagi á þessum tíma og kom heim einmitt þegar tönnin féll. Það fannst henni afar táknrænt. Sem er líka lýsandi fyrir hana. Hún á það til að leita að táknum og fyrirboðum víða og hrífst alltaf af þvi sem samræmist skemmtilega, eins og þessu. Sem sagt, það lögðu allir sína merkingu í tönnina. En hvað um mig þá? Ég segi bara "Úff!" Mér finnst tilhugsunin um fallandi tennur frekar skuggaleg. Það er bara synd af svona fallegar tennur skuli þurfa að losna. En sú mynd sem situr efst í huga mér er þessi fallega tönn. Hún var alveg skjannahvít og greinilegt að tannhirðan er í lagi á þessu heimili :-)
miðvikudagur, nóvember 17, 2010
Pæling: Kynbundnir litir og beyging lýsingarorða
Þegar kom að kvöldmatnum í kvöld sagði Hugrún: "ég er ekki svangur". Hún á það til að nota lýsingarorð svona um sjálfa sig, í karlkyni. Það liggur svo sem engin merking að baki því önnur en sú að hún sé ekki meðvituð um muninn. Hún er það góð í málnotkun almennt að ég hef engar áhyggjur haft af þessu og ekki áréttað það neitt markvisst nema með því að endurtaka setninguna í réttri beygingu. En í þetta skiptið gerði Signý athugasemd við þetta og ég sá mér leik á borði og langaði að gera úr þessu smá endurtekningarleik.
Þegar strákarnir segja: "Ég er þreytt-UR" þá segja stelpurnar "Ég er þreytt"
Þegar strákarnir segja: "Ég er syfjað-UR" þá segja stelpurnar "Ég er syfjuð".
Og svo leyfði ég þeim að botna. Þær höfðu mjög gaman af því og lögðu sig fram um að vera á undan mér að klára setningarnar. Eftir nokkar endurtekningar sneri ég þessu við þannig að ég byrjaði á stelpunum og leyfði þeim að botna með strákunum.
Þegar stelpurnar segja: "Ég er þyrst" þá segja strákarnir "Ég er þyrst-UR"
og svo framvegis. Smám saman langaði mig að stríða þeim pínulítið og notaði orð sem virkar sérkennilega hjá strákunum:
Þegar stelpurnar segja: Ég er sæt" þá segja strákarnir "Ég er sæt-UR". Þeim fannst ekkert undarlegt við að ímynda sér strákana tala svona um sjálfa sig þó mér þætti það kannski heldur óvenjulegt (yfirleitt er því haldið að strákunum að þeir séu stórir og sterkir en ekki "sætir", en þær bara vissu það greinilega ekki, sem er náttúrulega bara gott).
En næsta tilraun fór á annan veg. Þá ögraði ég þeim með lýsingarorðinu "bleikur":
Þegar stelpurnar segja: "Ég er bleik" þá segja strákarnir.....
Hugrún var ekki lengi að botna þessa línu:
....þá segja strákarnir: "Ég er SVARTUR".
Hún var ekkert að leiðrétta mig eða útskýra neitt. Það hvarflaði bara ekki að henni að nota bleika litinn á strákana. Sem sagt, litaaðgreining kynjanna lifir enn góðu lífi.
Þegar strákarnir segja: "Ég er þreytt-UR" þá segja stelpurnar "Ég er þreytt"
Þegar strákarnir segja: "Ég er syfjað-UR" þá segja stelpurnar "Ég er syfjuð".
Og svo leyfði ég þeim að botna. Þær höfðu mjög gaman af því og lögðu sig fram um að vera á undan mér að klára setningarnar. Eftir nokkar endurtekningar sneri ég þessu við þannig að ég byrjaði á stelpunum og leyfði þeim að botna með strákunum.
Þegar stelpurnar segja: "Ég er þyrst" þá segja strákarnir "Ég er þyrst-UR"
og svo framvegis. Smám saman langaði mig að stríða þeim pínulítið og notaði orð sem virkar sérkennilega hjá strákunum:
Þegar stelpurnar segja: Ég er sæt" þá segja strákarnir "Ég er sæt-UR". Þeim fannst ekkert undarlegt við að ímynda sér strákana tala svona um sjálfa sig þó mér þætti það kannski heldur óvenjulegt (yfirleitt er því haldið að strákunum að þeir séu stórir og sterkir en ekki "sætir", en þær bara vissu það greinilega ekki, sem er náttúrulega bara gott).
En næsta tilraun fór á annan veg. Þá ögraði ég þeim með lýsingarorðinu "bleikur":
Þegar stelpurnar segja: "Ég er bleik" þá segja strákarnir.....
Hugrún var ekki lengi að botna þessa línu:
....þá segja strákarnir: "Ég er SVARTUR".
Hún var ekkert að leiðrétta mig eða útskýra neitt. Það hvarflaði bara ekki að henni að nota bleika litinn á strákana. Sem sagt, litaaðgreining kynjanna lifir enn góðu lífi.
miðvikudagur, nóvember 10, 2010
Sýning: Ormurinn ógnarlangi
Við í skólanum skruppum í gær með nemendur á sýninguna "Ormurinn ógnarlangi" í Gerðubergi. Þetta er stórkostleg sýning, bæði fyrir börn og fullorðna. Sagt er með risavöxnum leikmunum frá heimsmynd norrænnar goðafræði (hægt er að skríða inn í Miðgarðsorm og sitja í kjöltu Fenrisúlfs). Sýningin er listaverk og það er svo rækilega nostrað við hvern krók og kima að maðuur á ekki orð. Sýningin er opin fram í mars (þetta er langur opnunartími vegna þess hve mikill tími fór í að setja sýninguna upp). Ég mæli hins vegar með því að fara sem fyrst áður en leikmunir láta á sjá og til þess að hafa möguleika á að fara aftur og aftur...
þriðjudagur, nóvember 09, 2010
Uppákoma: Afgreiðsla í Krua Thai
Við Vigdís ákváðum að panta okkur tælenskan mat hjá Krua Thai (Tryggvagötu). Við stóðum í ströngu og gerðum vel við okkur; pöntuðum þrjá rétti. Einn þeirra var fiskréttur (hitt voru djúpsteiktar rækjur og einhver kjötréttur, fyrir Vigdísi). Ég skutlaðist eftir matnum og var snöggur að því, enda svangur. Upp úr dúrnum kom hins vegar rækjurétturinn og tveir kjötréttir. Þá fór ég á netið til að skoða hvort ég hefði gert einhver mistök í pöntun og sá mér til undrunar að rétturinn minn var "fiskur" samkvæmt íslensku skýringunni en "beef" (nautakjöt) samkvæmt ensku skýringunni . Ég hringdi undir eins og benti þeim á þessa villu sem augljóslega staðfesti að þeir hefðu gert mistök. Ég þurfti að eyða talsverðum tíma í að útskýra þetta og um tíma fannst mér eins og starfsmaðurinn væri að taka niður nýja pöntun. Þegar ég hafði klippt skilaboðin niður smáar einingar, í eins konar skeytastíl, skildi starfsmaðurinn loks hvað ég var að meina, skaust á bak við (til að tékka á vefsíðunni) og kom hlæjandi til baka. Nú átti ég von á því, samkvæmt íslenskum hefðum, að fá einhverjar sárabætur fyrir þessi leiðu mistök því ég sá fram á að þurfa að skutlast aftur (staðurinn býður ekki upp á heimsendingu). Nei, þá var ég spurður: "Geturðu komið með hinn réttinn!". Ég var svo hissa að ég sagði ósjálfrátt "já" en fattaði um leið og símtalinu lauk að þetta væri algjör vitleysa. Ég var reiður sjálfum mér og hringdi aftur og reyndi að útskýra að ég ætti ekki að þurfa að koma með hinn réttinn til baka því þeir bera ábyrgð á mistökunum. Þeir ættu að koma til móts við mig með einhverjum hætti. En það komst einhvern veginn ekki alveg til skila gegnum símann þannig að ég snöggreiddist og skellti á.
Niður eftir skutlaðist ég og var nokkuð heitt í hamsi og reyndi að tala sjálfan mig niður. Undirbjó einfalda útskýringu á því hvernig þetta ætti að ganga fyrir sig. Þegar á staðinn var komið var fiskurinn tilbúinn. Ég var mjög yfirvegaður þegar á hólminn var komið, en ákveðinn, og bað um starfsmanninn sem hafði talað við mig í símann. Ung stúlka kom þá lafhrædd (að því er virtist). Mér tókst í þetta skiptið að útskýra hvernig staðurinn ætti að koma til móts við mig fyrir eigin mistök. Þá ýtti hún nautakjötsréttinum varlega að mér, hikandi, og benti mér á að ég mætti alveg hafa hann líka. Hún var greinilega fegin þegar ég sætti mig við þessa lágmarksmálamiðlun. Síðan afsakaði ég mig fyrir að hafa reiðst svo snögglega í símanum og ég kvaddi kurteislega.
Eftir á veltum við Vigdís þessu fyrir okkur. Þetta er dæmi um spennu á milli ólíkra þjóðfélagshópa þar sem upp getur komið misskilningur (eða bara takmarkaður skilningur). Líklega er það vinnuregla á þessum stað að kúnninn skili rétti ef hann kvartar yfir honum en í þessu tilviki var þessu öðruvísi farið. Reynslulítill starfsmaður dettur auðveldlega inn í vélrænt vinnulag án þess að skoða samhengið hverju sinni. En ég var feginn því að hafa ekki verið með leiðindi og læti á staðnum þegar inn var komið. Það hefði ekki haft neitt upp á sig nema óþægindi á báða bóga.
Nú verður hins vegar gaman að sjá hvað þeir eru lengi að laga vefsíðuna síná (sjá rétt númer 37 á maðseðlinum). Þangað til geta óprúttnir séð sér leik á borði.
Niður eftir skutlaðist ég og var nokkuð heitt í hamsi og reyndi að tala sjálfan mig niður. Undirbjó einfalda útskýringu á því hvernig þetta ætti að ganga fyrir sig. Þegar á staðinn var komið var fiskurinn tilbúinn. Ég var mjög yfirvegaður þegar á hólminn var komið, en ákveðinn, og bað um starfsmanninn sem hafði talað við mig í símann. Ung stúlka kom þá lafhrædd (að því er virtist). Mér tókst í þetta skiptið að útskýra hvernig staðurinn ætti að koma til móts við mig fyrir eigin mistök. Þá ýtti hún nautakjötsréttinum varlega að mér, hikandi, og benti mér á að ég mætti alveg hafa hann líka. Hún var greinilega fegin þegar ég sætti mig við þessa lágmarksmálamiðlun. Síðan afsakaði ég mig fyrir að hafa reiðst svo snögglega í símanum og ég kvaddi kurteislega.
Eftir á veltum við Vigdís þessu fyrir okkur. Þetta er dæmi um spennu á milli ólíkra þjóðfélagshópa þar sem upp getur komið misskilningur (eða bara takmarkaður skilningur). Líklega er það vinnuregla á þessum stað að kúnninn skili rétti ef hann kvartar yfir honum en í þessu tilviki var þessu öðruvísi farið. Reynslulítill starfsmaður dettur auðveldlega inn í vélrænt vinnulag án þess að skoða samhengið hverju sinni. En ég var feginn því að hafa ekki verið með leiðindi og læti á staðnum þegar inn var komið. Það hefði ekki haft neitt upp á sig nema óþægindi á báða bóga.
Nú verður hins vegar gaman að sjá hvað þeir eru lengi að laga vefsíðuna síná (sjá rétt númer 37 á maðseðlinum). Þangað til geta óprúttnir séð sér leik á borði.
þriðjudagur, nóvember 02, 2010
Draumur: Andsetinn íverustaður
Það er búið að vera einstaklega leiðinlegt veður að undanförnu - bæði kalt og hvasst. Það bitnar á manni með ýmsum hætti, meðal annars með því að maður þarf að hita íbúðina meira en venjulega og lokar frekar glugganum. Þetta tvennt fer illa saman. Yfirleitt þegar heitt er inni og glugginn lokaður sef ég illa, eins og ég sé með óráði. Oftast nær þegar ég sit vankaður á rúmstokknum þá rifjast upp fyrir mér einhvers konar martröð.
Núna í nótt til dæmis dreymdi mig ferlega illa. Mig dreymdi að ég væri staddur í einhverri íbúð í Bústaðahverfinu, nánar tiltekið í Grófarhverfinu (nálægt Elliðaárdalnum). Mér fannst eins og ég byggi þarna ásamt einhverjum öðrum (ég veit ekki hvort það var Vigdís en það virtist einhver náinn, í það minnsta). Þarna leið mér illa. Ég fann að mér var ekki sjálfrátt. Húsið var reimt. Einhverjir andar settust að inni í mér, og hinum aðilanum, og létu okkur gera alls konar andstyggilega hluti. Ég man til dæmis eftir ketti í þvottavél. Svo sé ég fyrir mér hinn aðilann upprúllaðan í sæng eins og það væri liður í pyntingum. Ég upplifði stöðuga ógn og óþægindi, eins og það væri alltaf eitthvað yfirvofandi. En svo komst ég þaðan einhvern veginn og man eftir húsinu úr fjarska. Gott ef það rann ekki lækur undir það eins og húsið væri einhvers konar brú og ég man hvernig það reyndi að lokka mig til sín á meðan ég fjarlægðist. Ég fann hvað þetta var íþyngjandi en samt upplifði líka einhvers konar létti.
Núna í nótt til dæmis dreymdi mig ferlega illa. Mig dreymdi að ég væri staddur í einhverri íbúð í Bústaðahverfinu, nánar tiltekið í Grófarhverfinu (nálægt Elliðaárdalnum). Mér fannst eins og ég byggi þarna ásamt einhverjum öðrum (ég veit ekki hvort það var Vigdís en það virtist einhver náinn, í það minnsta). Þarna leið mér illa. Ég fann að mér var ekki sjálfrátt. Húsið var reimt. Einhverjir andar settust að inni í mér, og hinum aðilanum, og létu okkur gera alls konar andstyggilega hluti. Ég man til dæmis eftir ketti í þvottavél. Svo sé ég fyrir mér hinn aðilann upprúllaðan í sæng eins og það væri liður í pyntingum. Ég upplifði stöðuga ógn og óþægindi, eins og það væri alltaf eitthvað yfirvofandi. En svo komst ég þaðan einhvern veginn og man eftir húsinu úr fjarska. Gott ef það rann ekki lækur undir það eins og húsið væri einhvers konar brú og ég man hvernig það reyndi að lokka mig til sín á meðan ég fjarlægðist. Ég fann hvað þetta var íþyngjandi en samt upplifði líka einhvers konar létti.
mánudagur, nóvember 01, 2010
Gullmolar: Athugsemdir yfir morgunsjónvarpinu
Helgarsjónvarpið olli heilabrotum, eins og um síðustu helgi. Það var þessi dæmalausi þáttur um mannslíkamann "Einu sinni var...lífið" sem persónugerir alla líkamsstarfsemina (sjá næst síðustu færslu). Núna tók Signý eftir undarlegri þversögn. Við fylgdumst með sögupersónu athafnast eitthvað, hlaupa eða hvað það nú var, og skyggndumst síðan inn í líkamann og sáum þar alls konar verur svara kalli líkamans. Þar á meðal voru yfirvegaðir náungar í stjórnstöð líkamans (ekki var sýnt nákvæmlega hvar hún var staðsett en ég sem foreldri ímynda mér að það eigi að vera staðsett einhvers staðar í heilanum). Þetta herbergi var alsett tölvum. Vandinn var hins vegar sá að þær verur sem höfðu yfirsýn yfir alla líkamsstarfssemina og unnu fyrir framan tölvurnar voru minni útgáfur af persónunum sem voru að hlaupa og hamast. Þá gall í Signýju:
"Hann er í maganum sínum! Hann er í maganum sínum! Hvernig komst hann í magann á sér?"
Í þetta skiptið svaraði ég engu og brosti bara með.
Eins vakti athygli mína glögg athugasemd Hugrúnar yfir Stundinni okkar. Við fylgdumst náið með stúlku syngja dapurlegt lag ("Bátur líður út um Eyjasund..."). Hún hafði fallega söngrödd en var mjög óörugg með sig. Röddinn var óstyrk og öll holningin bar með sér að hún væri allt annað en afslöppuð. Hún virtist eiginlega lafhrædd og hálf stjörf. Signý og Hugrún horfðu á þetta og hlustuðu gaumgæfilega og sögðu ekki múkk fyrr en lagið var rúmlega hálfnað. Þá fann Hugrún sig knúna til að grípa inn í með útskýringu eins og henni er einni lagið:
"Hún á enga vini Signý. Hún á bara enga vini." .
Þetta vakti mig til umhugsunar um það hvað börn eru næm hvert á annað. Þau þekkja kannski ekki forsendurnar fyrir líðan hvers annars en geta samt verið fljót að álykta.
"Hann er í maganum sínum! Hann er í maganum sínum! Hvernig komst hann í magann á sér?"
Í þetta skiptið svaraði ég engu og brosti bara með.
Eins vakti athygli mína glögg athugasemd Hugrúnar yfir Stundinni okkar. Við fylgdumst náið með stúlku syngja dapurlegt lag ("Bátur líður út um Eyjasund..."). Hún hafði fallega söngrödd en var mjög óörugg með sig. Röddinn var óstyrk og öll holningin bar með sér að hún væri allt annað en afslöppuð. Hún virtist eiginlega lafhrædd og hálf stjörf. Signý og Hugrún horfðu á þetta og hlustuðu gaumgæfilega og sögðu ekki múkk fyrr en lagið var rúmlega hálfnað. Þá fann Hugrún sig knúna til að grípa inn í með útskýringu eins og henni er einni lagið:
"Hún á enga vini Signý. Hún á bara enga vini." .
Þetta vakti mig til umhugsunar um það hvað börn eru næm hvert á annað. Þau þekkja kannski ekki forsendurnar fyrir líðan hvers annars en geta samt verið fljót að álykta.
miðvikudagur, október 27, 2010
Daglegt líf: Bangsar, spil og leikföng
Í morgun fóru Signý og Hugrún með bangsa í leikskólann í tilefni af hinum alþjóðlega bangsadegi (aldrei hafði ég heyrt minnst á hann áður). Signý fór með Albert bangsa (sem er mjög klassískur í útliti) en Hugrún tók með sér lemúrinn sinn (augnstórt tuskudýr, tæknilega séð ekki "bangsi" því hann er af apakyni, sem lengi vel gekk undir heitinu "ugla" þar til ég benti á að hann var með langt röndótt skott). Þeim fannst mjög gaman að fá að taka uppáhaldsbangsana sína með og Signý vildi endilega að ég kæmi því á framfæri við fóstrurnar að hún vildi fá að taka hann með sér alltaf.
Það vill svo sérkennilega til að dagurinn var einhvern veginn undirlagður þessu þema bernskunnar; bangsar, spilir og leikföng. Ég var einmitt í dag með fyrirlestur í vinnunni um spil og hvernig þau nýtast í kennslu. Í kjölfarið var ég með sýningu á námsgögnum í spilaformi ásamt vinnufélaga mínum, smíðakennaranum Bjarna, sem hefur með sinni færni náð að gera óljósar hugmyndir áþreifanlegri. Þetta eru sem sagt kennslugögn sem við höfum í samvinnu búið til á undanförnum árum. Í stuttu máli sagt gekk kynningin ákaflega vel og voru flestir á því að þetta væri mikil innspýting í kennslufyrirkomulagið þar á bæ.
Tímasetningin á þessari spilakynningu var tilviljun og kannski ekki svo merkileg sem slík. Hins vegar fór ég eftir vinnu hugsunarlaust á bókasafnið á Seltjarnarnesi (var bara á leiðinni út í búð) og tók tvær vídeóspólur fyrir Signýju og Hugrúnu (spólurnar getum við haft fram yfir helgi). Önnur þeirra var Toy Story ("Leikfangasaga"). Lengi hefur staðið til að sýna þeim þessa frægu teiknimynd en ég hef alltaf frestað því. En ég lét loksins verða af því í dag. Það var ekki fyrr en eftir á að ég áttaði mig á því að þetta bar akkúrat upp á bangsadaginn og fannst það vel við hæfi.
Það vill svo sérkennilega til að dagurinn var einhvern veginn undirlagður þessu þema bernskunnar; bangsar, spilir og leikföng. Ég var einmitt í dag með fyrirlestur í vinnunni um spil og hvernig þau nýtast í kennslu. Í kjölfarið var ég með sýningu á námsgögnum í spilaformi ásamt vinnufélaga mínum, smíðakennaranum Bjarna, sem hefur með sinni færni náð að gera óljósar hugmyndir áþreifanlegri. Þetta eru sem sagt kennslugögn sem við höfum í samvinnu búið til á undanförnum árum. Í stuttu máli sagt gekk kynningin ákaflega vel og voru flestir á því að þetta væri mikil innspýting í kennslufyrirkomulagið þar á bæ.
Tímasetningin á þessari spilakynningu var tilviljun og kannski ekki svo merkileg sem slík. Hins vegar fór ég eftir vinnu hugsunarlaust á bókasafnið á Seltjarnarnesi (var bara á leiðinni út í búð) og tók tvær vídeóspólur fyrir Signýju og Hugrúnu (spólurnar getum við haft fram yfir helgi). Önnur þeirra var Toy Story ("Leikfangasaga"). Lengi hefur staðið til að sýna þeim þessa frægu teiknimynd en ég hef alltaf frestað því. En ég lét loksins verða af því í dag. Það var ekki fyrr en eftir á að ég áttaði mig á því að þetta bar akkúrat upp á bangsadaginn og fannst það vel við hæfi.
laugardagur, október 23, 2010
Gullmoli: Löggurnar í maganum
Nú þegar tölvumálin eru komin í eðlilegt horf get ég með lágmarks fyrirhöfn bloggað um hversdagslega hluti jafnóðum. Núna í morgun datt til dæmis gullmoli út úr munni Hugrúnar. Þær systur voru að horfa á Einu sinni var... lífið sem fjallar um líkamsstarfssemi mannsins. Umfjöllunarefnið er persónugert með þeim hætti að hvítu blóðkorninn eru her hvítklæddra vera og bakteríurnar eins konar innrásarher. Öll líkamsstarfsemin er sett undir þetta sama stækkunargler og sýnir þannig flókinn veruleikann á aðgengilegan hátt. Eða hvað? Signý spurði mig í morgun: "Pabbi, af hverju eru löggur í maganum?" Ég átta mig sjálfur oft ekkert á því sem er verið að útskýra í þáttunum og sýndi henni fullan skilning með því að reyna ekkert að útskýra það frekar. Sagði bara: "Þetta er bara grín" þannig að hún þyrfti ekkert að hafa áhyggjur af "löggunum í maganum". En þá fann Hugrún sig knúna til að útskýra þetta frekar: "Signý, það eru bara börn í maganum!".
þriðjudagur, október 19, 2010
Fréttnæmt: Ný tölva
Jæja, ég nú blogga ég af nýrri tölvu. Gerði mér lítið fyrir og keypti í gær eina netta Macbookfartölvu. Segi kannski ekki að ég hafi "gert mér lítið fyrir" því ég keypti mér notaða tölvu, þriggja ára gamla, á þriðjungsverði (miðað við nýja í dag). Var lengi með þetta í maganum. Ég lá yfir spjallsíðum Maclantic og fann þar þessa frábæru tölvu. Það er svo sem ekki hlaupið að því að kaupa hluti á þessum netmarkaði, áhættan er meiri að sjálfsögðu, svo ég setti það fram sem skilyrði að tölvan kæmist í gegnum "skoðun". Þeir hjá Apple bjóða upp á fría ástandsskoðun á tölvum eftir lokun á fimmtudögum. Frábær þjónusta hjá þeim. Tölvan reyndist pottþétt að mestu og aðeins smáræði sem þurfti að athuga. En Þvílíkur unaður að nota hana! Allt annað en borðtölvan. Þetta er svona eins og að bera saman skriðdreka og reiðhjól. Stundum þarf maður bara að fara út í búð, ef þið skiljið hvað ég á við, og þá er gott að eiga reiðhjól. Stóra borðtölvan mín mun áfram þjóna mér sem allsherjar "Jukebox" með sín hundruð gígabæti af tónlist. Einnig verður hún stórtæk sem gagnageymsla, ef til vill, og líklega notuð í ýmiss konar vinnslu (myndræna) og í að hýsa ljósmyndasafnið okkar. Hins vegar er þessi netta tölva notuð í allt þetta einfalda eins og að tékka á vefsíðum, skrifa tölvupóst og blogga. Nú hefur maður enga afsökun lengur. Á meðan hin tölvan fer í viðgerð (hún er enn mjög óáreiðanleg fyrir utan það að vera fyrirferðarmikil og hávær) get ég notið þess að "fúnkera" með þessa mér til halds og trausts. Þetta er ekkert annað en bylting fyrir allt heimilishaldið.
fimmtudagur, október 14, 2010
Daglegt líf: Friðarganga
Okkur varð starsýnt á forsíðu Fréttablaðsins í morgun. Þar mátti sjá "Friðargöngu" leikskólabarna þrammandi niður Skólavörðustíginn. Fremst í flokki fóru krakkar úr Vesturborg. Reyndar sést Signý ekki en þær Hugrún þekktu nokkra af vinum sínum. Hugrún vaknaði á undan Signýju og var fljót að nafngreina andlitin og sýndi svo Signýju sem pírði gegnum svefndrukkin augun. Þeim þótti þetta merkilegt, að sjálfsögðu. Ekki voru síðri viðbrögðin í leikskólanum sjálfum og nokkrir krakkar valhoppuðu af kæti.
Þau fór sem sagt í gær í þessa Friðargöngu og til marks um það kom Signý heim með föndrað skilti sem á stóð "Allir vinir". Sumir höfðu skrifað "Við viljum frið" og eitthvað í þeim dúrnum. Þegar við Signý komum yfir á deildina hennar Hugrúnar, með skiltið, vildi sú litla umsvifalaust eignast svona skilti líka. Hún varð mjög ósátt um stund. Ég veit ekki hvort Signý var að reyna að hugga systur sína þegar hún sagði við hana: "Stundum fæ ég frið frá þér".
Þetta má skilja á ýmsa vegu :-)
Þau fór sem sagt í gær í þessa Friðargöngu og til marks um það kom Signý heim með föndrað skilti sem á stóð "Allir vinir". Sumir höfðu skrifað "Við viljum frið" og eitthvað í þeim dúrnum. Þegar við Signý komum yfir á deildina hennar Hugrúnar, með skiltið, vildi sú litla umsvifalaust eignast svona skilti líka. Hún varð mjög ósátt um stund. Ég veit ekki hvort Signý var að reyna að hugga systur sína þegar hún sagði við hana: "Stundum fæ ég frið frá þér".
Þetta má skilja á ýmsa vegu :-)
þriðjudagur, október 05, 2010
Netið: Landmælingar Íslands
Ég var að uppgötva frábæra síðu Landmælinga Íslands. Þar er gagnvirkt kort sem er stillanlegt á ýmsan máta. Það sem í fljótu bragði er praktískast við vefinn, og gerir hann umsvifalaust nothæfan fyrir mig frá degi til dags, er möguleikinn á að draga línu hvert sem er um kortið fá út reiknaðan þann fjölda kílómetra sem línan spannar. Frábært þegar maður vill átta sig á gönguleiðum og hlaupaleiðum í nágrenni við sig.
Upplifun: Heimildamyndir og hreyfimyndagerð
Hinni alþjóðlegu kvikmyndahátíð er nýlokið. Ekki var maður duglegur að sækja sýningar en fór þó á eina heimildarmynd í Norræna húsinu rétt fyrir helgi. Hún hét "Earth Keepers" og fjallar hún um leit fyrrum öfgafulls aðgerðarsinna að raunhæfum lausnum fyrir framtíð Jarðar. Hún er ólík flestum öðrum myndum um umhverfismál að því leyti að hún fyllir mann von frekar en örvæntingu. Margar lausnanna eru mjög áhugaverðar og einfaldar. Ekki meira um það hér (skoðið þó vefsíðuna). Hins vegar var einnig mjög áhugaverð barnamyndasýning Norræna hússins sem rúllaði daglega milli tvö og fjögur. Þetta var um það bil hálftíma prógramm (5 myndir) sem sýnt var stöðugt þannig að hver sem var gat komið hvenær sem er á þessum tíma og sest í hálftíma. Sniðugt fyrirkomulag sem vonandi verður eins að ári. Signý og Hugrún höfðu mjög gaman af þessu og kíktu svo niður í kjallara með mér þar sem kennd var hreyfimyndagerð (sem á ensku kallast "stop motion"). Sú kvikmyndagerð gengur þannig fyrir sig að tekin er mynd, ein í einu með vél sem er vel skorðuð (og hreyfist þar af leiðandi ekki á milli ramma). Myndefnið er síðan hreyft á milli rammanna þannig að augað skynjar hreyfingu þegar myndaröðin er sýnd (eða "spiluð"). Svona eru leirkallamyndirnar og margar brúðumyndirnar gerðar (hver man ekki eftir "Klaufabárðunum" frá Tékklandi?). En þetta er líka hægt að nota á svo margt, eins og teikningar (sem þróast ramma fyrir ramma) og fólk (sem virðist fyrir vikið hreyfa sig öðruvísi en það annars gæti). Það vill svo til að myndirnar á barnamyndasýningunni voru allar af þessari gerð, og sú eftirminnilegasta er til sýnis á Youtube. Hún heitir "Sorry I´m Late" og er mikill innblástur.
mánudagur, september 27, 2010
Tungumál: Sjávardýraheiti
Við áttum huggulega stund fyrir framan sjónvarpið í kvöld. "Kósíkvöld" felur í sér að Signý og Hugrún mega horfa á sjónvarpið og kúra þar þangað til þær sofna (sem er iðulega fyrir klukkan níu). Mánudagskvöldin eru tilvalin í þetta því þá er svo notalegt sjónvarp strax eftir fréttir - yfirleitt náttúrulífsþættir. Þeir virka róandi á stelpurnar en eru líka áhugaverðir útgangspunktar í alls konar spjall og vangaveltur.
Í kvöld var horft á ferðir Stephens Fry um Cortez-haf í leit að Steypireiði. Signý vissi að í þetta skiptið ætlaði hann að leita að hval (síðast var það páfagaukur). Hún spurði hvort það væri Hnúfubakur. Hún kannast við hann úr Dóruþáttunum og virðist muna sérstaklega vel eftir honum. Framburðurinn á heitinu vafðist eitthvað fyrir henni. Yfirleitt segir hún "hnúðubakur" en sagði í kvöld hálf-syfjuð, "lúðubakur". Hún var auðvitað fljót að leiðrétta það. Svo horfðum við áfram og sáum merkileg dýr - smokkfiska í stórri torfu með sína sogblöðkuarma. Þetta var heldur ókræsileg sjón og ég sá að Signýju leist eiginlega ekkert á þetta og spurði mig virkilega hvort þetta væri "plokkfiskur".
Ég held hún hafi verið svolítið fegin þegar ég leiðrétti misskilninginn :-)
Í kvöld var horft á ferðir Stephens Fry um Cortez-haf í leit að Steypireiði. Signý vissi að í þetta skiptið ætlaði hann að leita að hval (síðast var það páfagaukur). Hún spurði hvort það væri Hnúfubakur. Hún kannast við hann úr Dóruþáttunum og virðist muna sérstaklega vel eftir honum. Framburðurinn á heitinu vafðist eitthvað fyrir henni. Yfirleitt segir hún "hnúðubakur" en sagði í kvöld hálf-syfjuð, "lúðubakur". Hún var auðvitað fljót að leiðrétta það. Svo horfðum við áfram og sáum merkileg dýr - smokkfiska í stórri torfu með sína sogblöðkuarma. Þetta var heldur ókræsileg sjón og ég sá að Signýju leist eiginlega ekkert á þetta og spurði mig virkilega hvort þetta væri "plokkfiskur".
Ég held hún hafi verið svolítið fegin þegar ég leiðrétti misskilninginn :-)
miðvikudagur, september 22, 2010
Pæling: Í sparnaðarskyni
Mig dreymdi sérkennilega í nótt. Ég var staddur í verslun og bauðst að kaupa gallabuxur á 300 þúsund krónur og fannst boðið mjög girnilegt af því buxurnar höfðu áður kostað 1.3 milljónir. Ég var sem sagt að græða heila milljón á kaupunum. Ég var um það bil að rétta fram kortið þegar rofaði til í höfðinu og ég mundi eftir því að gallabuxur ættu ekki að kosta nema um 10 þúsund kall.
Þegar ég vaknaði tók ég þessu eins og hverri annarri dæmisögu. Dags daglega stendur maður frammi fyrir tilboðum og heldur að maður sé að spara með því að kaupa vöru á niðursettu verði en yfirleitt er maður bara að kaupa eitthvað sem maður hefði annars ekki keypt (kaupmaðurinn græðir). Það á líka við um magnafslátt. Stundum er betra að kaupa smærri umbúðir þó þær séu hlutfallslega dýrari vegna þess að umframmagnið nýtist ekki eða að það kallar á óþarfa umframneyslu. Klassískt dæmi er tveggja lítra gos sem hefur í för með sér meiri sykurneyslu en menn hafa gott af (og kostar að auki meiri pening) eða skemmist í meðförum þeirra sem kunna sér hóf (og kostar samt meiri pening).
Um daginn keypti ég, einu sinni sem oftar, kassa af íspinnum handa Signýju og Hugrúnu. Þetta eru tuttugu grænir íspinnar í bland við vanillu rjómaíspinna á um það bil 600 krónur. Mér reiknast til að pinninn kosti þá 30 krónur stykkið! Frábært að eiga heima í sparnaðarskyni. Málið er hins vegar að þær vita af þessu í frystinum og eiga það til að biðja um ís strax eftir heimkomu úr leikskóla. Ég spyr sjálfan mig að því hvort þetta sé þá ekki bara óþarfa sykurneysla plús peningaeyðsla. Ég var því mjög ánægður einn daginn þegar ég fann áþreifanlega fyrir sparnaði gegnum þessi kaup. Þá stóð beinlínis til að fara út í ísbúð en Signý óskaði eftir því að fá íspinna heima frekar - og Hugrún samsinnti. Samanlagt hefði ísinn úr ísbúðinni kostað jafn mikið og 20 íspinnar í pakka. Þarna borguðu kaupin sig upp á einu bretti! Ef þetta væri nú bara alltaf svona :-)
Þegar ég vaknaði tók ég þessu eins og hverri annarri dæmisögu. Dags daglega stendur maður frammi fyrir tilboðum og heldur að maður sé að spara með því að kaupa vöru á niðursettu verði en yfirleitt er maður bara að kaupa eitthvað sem maður hefði annars ekki keypt (kaupmaðurinn græðir). Það á líka við um magnafslátt. Stundum er betra að kaupa smærri umbúðir þó þær séu hlutfallslega dýrari vegna þess að umframmagnið nýtist ekki eða að það kallar á óþarfa umframneyslu. Klassískt dæmi er tveggja lítra gos sem hefur í för með sér meiri sykurneyslu en menn hafa gott af (og kostar að auki meiri pening) eða skemmist í meðförum þeirra sem kunna sér hóf (og kostar samt meiri pening).
Um daginn keypti ég, einu sinni sem oftar, kassa af íspinnum handa Signýju og Hugrúnu. Þetta eru tuttugu grænir íspinnar í bland við vanillu rjómaíspinna á um það bil 600 krónur. Mér reiknast til að pinninn kosti þá 30 krónur stykkið! Frábært að eiga heima í sparnaðarskyni. Málið er hins vegar að þær vita af þessu í frystinum og eiga það til að biðja um ís strax eftir heimkomu úr leikskóla. Ég spyr sjálfan mig að því hvort þetta sé þá ekki bara óþarfa sykurneysla plús peningaeyðsla. Ég var því mjög ánægður einn daginn þegar ég fann áþreifanlega fyrir sparnaði gegnum þessi kaup. Þá stóð beinlínis til að fara út í ísbúð en Signý óskaði eftir því að fá íspinna heima frekar - og Hugrún samsinnti. Samanlagt hefði ísinn úr ísbúðinni kostað jafn mikið og 20 íspinnar í pakka. Þarna borguðu kaupin sig upp á einu bretti! Ef þetta væri nú bara alltaf svona :-)
þriðjudagur, september 21, 2010
Myndir: Ferðalag í Elliðaárdalnum
Ég setti nokkrar myndir á myndasíðuna í gær. Þær segja frá ævintýraferð okkar Signýjar og Hugrúnar með Beggu og börnum í Elliðaárdalinn þar sem við leituðum uppi kanínur. Við gerðum svolítið meira úr ferðinni en ætla mætti, lögðum bílnum í Bústaðahverfinu og röltum sem leið lá undirgöngin og þaðan í átt að Mjóddinni. Þar eru kanínurnar einmitt staðsettar, í grenndi við bæinn og stóra hólinn (sem við kölluðum alltaf "kanínuhól"). Smellið á myndina hér fyrir neðan til að fá alla söguna :-)
þriðjudagur, september 07, 2010
Upplifun: Leynilegir tónleikar
Ég fór á afar sérstaka tónleika í gærkvöldi. Ég fékk "leynilegar" upplýsingar um að til stæði að halda tónleika að Gljúfrasteini. Þröstur, fyrrv. mágur, var svo almennilegur að hvísla þessu að mér símleiðis. Hann hefur starfað þarna í fjölmörg ár og setið marga tónleikana sem þarna hafa verið haldnir gegnum tíðina. En þessir voru óvenjulegir fyrir það að vera ekkert auglýstir og voru þess vegna aðeins fáeinir útvaldir á staðnum. Þarna var hins vegar saman komið einvalalið djassista (Eyþór Gunnars og fleiri góðir) að taka upp plötu. Þeir voru búnir að nota daginn í upptökur og fylgdu því ferli svo eftir með tónleikum, sem einnig voru teknir upp. Þetta var afar heimilislegt - enda er heimili Nóbelskáldsins notalegt í alla staði. Laxness var mikill smekkmaður, það er ljóst, og það var nánast eins og að stíga nokkra áratugi aftur í tímann að koma þarna inn. Ég kippti auðvitað Jóni Má með á þessa tónleika og nutum við þess að stíga þarna inn í þetta virðulega hús af þessu tilefni.
miðvikudagur, september 01, 2010
Matur: Krækiber
Ég er orðinn krækiberjaóður. Við fórum í berjatínslu við Hafravatn í síðustu viku og komum heim með hauga af risastórum og ferskum berjum (sprettan er rosaleg í ár). Bláberin hurfu fljótt því enginn vill krækiber, - nema ég. Þau eru hins vegar svo stór og safarík í ár að ég nýt þess að tyggja þau og finna hvernig þau springa í munninum - með rjóma og sykri, að sjálfsögðu. Ekki er verra að hafa bláberjaskyr með. Hins vegar eru krásirnar svo miklar að ég er farinn að borða þetta á ýmsa vegu, bæði kvölds og morgna - fyrst með morgunmatnum (AB mjólk með rúsínum og krækiberjum - sem er merkilega góð blanda) og svo sem eftirrétt eftir kvöldmatinn (ber og rjómi - þetta klassíska). Ég veit í raun ekkert betra en að "bryðja" krækiber nú þegar myrkrið skellur á. Það er eins og að taka inn í eins konar örvæntingu síðustu leifarnar af uppsafnaðri sólarorku sumarsins til að geta stefnt svo ótrauður inn í myrkrið, útblásinn af andoxunarefnum.
þriðjudagur, ágúst 31, 2010
Pæling: Staðir í Reykjavík
Eins og fram hefur komið ferðaðist fjölskyldan í Granaskjólinu minna í sumar en oft áður. Ein sumarbústaðarferð og ein tjaldgisting var allt og sumt sem hafðist upp úr því krafsinu - utan bæjarmarkanna. Tíminn í bænum nýttist hins vegar ágætlega til þess að feta ýmsar óhefðbundnar leiðir og gerast hálfgerður túristi á heimaslóðum, meðan flestir aðrir borgarbúar herjuðu á landsbyggðina.
Það sem Reykvískur túristi á heimaslóðum væri líklegastur til að gera er kannski þrennt: Að fara í hvalaskoðun, skreppa út í Viðey og fara í Bláa lónið. Við létum lónið reyndar eiga sig en skoðuðum hins vegar hvali og Viðey. Signý og Hugrún höfðu mjög gaman af því að sigla (höfðu ekki prófað það áður) og voru mjög uppi með sér yfir hvalnum sem þær sáu og sýndu hvölum í kjölfarið mikinn áhuga. Viðey vakti líka mikla lukku enda um að ræða ævintýralega vorferð með leikskólanum, með sjóræningjum og öllu tilheyrandi. Fjöruferðir voru nokkrar í sumar, þar á meðal ein sem endaði úti í sjálfri Gróttu þar sem skjannahvítur vitinn blasti við í öllu sínu veldi. En hann var því miður lokaður. Eltingarleikir í fjörunni bættu hins vegar vel upp svekkelsið yfir lokuðum vitanum. En ekki voru allar ferðir sumarsins tengdar sjónum, þó hann sé alltaf nærtækur. Gönguferðir um Öskjuhlíðina voru vinsælar og við uppgötvuðum svæðið "handan" við Perluna (vesturhlíðarnar) þar sem sjaldséð grasbreiða (hálfgert engi) teygir sig dágóðan spöl niður í skógarjaðarinn sem síðar opnast á ný og við blasa skotbyrgin úr seinna stríði. Afar fjölbreytt og skemmtilegt svæði. "Engið" þótti mér sérlega sjarmerandi staður fyrir börn til að hlaupa um á og leika sér. Annar staður vakti líka mikla lukku: Vatnsmýrin. Það liggja nefnilega göngustígar þvers og kruss án þess að mikið beri á. Besta aðgengið er frá stóru göngubrúnni yfir Hringbrautina (sem líka er gaman að skoða, bæði til að fara yfir og til að sjá umferðina ofan frá). Í Vatnsmýrinni er svo Norræna húsið, eins og menn vita, og þar hefur verið í sumar (og er enn, fram í september) sýning á eðlisfræðileikföngum og -þrautum. Þar er eitthvað fyrir alla, bæði yngstu börnin og okkur sem eldri erum, hvort sem það eru bjagaðir speglar eða vatnshljóðfæri. Brúin sem minnst var á áðan tengir síðan Vatnsmýrina eins og hún leggur sig við Hljómskálagarðinn. Þar eru nú margir spennandi krókar, þar á meðal leiksvæði sem liggur algjörlega í hvarfi frá almannaleið. Ekki skemmdi svo fyrir að sjálfur Hljómskálinn var með starfrækt kaffihús á neðri hæðinni (og opið upp i turninn) í allt sumar - fram að Menningarnótt. Þetta er svo sannarlega garður sem við eigum eftir að kanna betur á næsta ári. Svo voru strætóferðir líka vinsælar í sumar og var hvað eftirminnilegust gönguferð um Bústaðahverfið í afbragðs veðri. Það er nefnilega svo ótrúlega einfalt að hafa ofan af fyrir börnum á þessum aldri með því að sitja í vagninum, horfa á borgina út um gluggana og yfirgefa svo vagninn um leið eitthvað áhugavert blasir við (eins og til dæmis skemmtilegur leikvöllur). Þá er hægt að ganga um "framandi hverfi" og sjá það með augum barnanna. Það er mjög spennandi. Talandi um framandi svæði þá er Mosfellsbær fullur af áhugaverðum stöðum. Þar var útimarkaður á laugardögum í sumar. Í eitt skiptið könnuðum við "bakland" markaðarins og fundum vinsælt tjaldstæði og þegar enn lengra var skyggnst á bak við það gengum við fram á gerðarlegt og stórt tjald frá Mongólíu sem gert er út sem gistipláss (fyrir hvern sem er). Gaman væri að tékka á því einn daginn. En hvað um það, í Mosfellsbæ er fullt af skemmtilegum leikvöllum, nútímalegum og spennandi, enda mörg ný og nýleg hverfi þar í bæ. Svo er alltaf stutt í náttúruna. Síðasti staðurinn sem ég vildi minnast á í þessu yfirliti tengist líka náttúrunni en með allt öðrum hætti. Ég uppgötvaði nefnilega frábært lífrænt kaffihús í Garðheimum, Mjóddinni. Það er staðsett á svölunum fyrir ofan miðbik meginálmunnar. Þetta kaffihús er sérlega barnvænt og býður það að auki upp á dýrindis súpur í brauði og allt annað sem búast má við á slíkum stað - auk ódýrs íss í brauðformi og/eða uppáhellingu (hundrað kall hvort). Þaðan rölta allir út sáttir. Eins og staðan er í dag er vænlegt að hnýta aftan við slíka kaffihúsaferð smá rölt í norðurátt upp á hólinn stóra sem þar blasir við rétt hjá Reykjanesbrautinni og horfa þaðan niður í Elliðaárdalinn. Hóllinn er allur sundurnagaður og -grafinn eins og termítahaugur og þegar litið er niður má sjá litla svarta og hvíta hnoðra um víðan völl. Kanínurnar eru augnayndi en blasa samt við eins og martröð úr smiðju Hitchkocks, svo yfirþyrmandi er fjöldinn. Engu að síður frábær upplifun fyrir börnin.
Það sem Reykvískur túristi á heimaslóðum væri líklegastur til að gera er kannski þrennt: Að fara í hvalaskoðun, skreppa út í Viðey og fara í Bláa lónið. Við létum lónið reyndar eiga sig en skoðuðum hins vegar hvali og Viðey. Signý og Hugrún höfðu mjög gaman af því að sigla (höfðu ekki prófað það áður) og voru mjög uppi með sér yfir hvalnum sem þær sáu og sýndu hvölum í kjölfarið mikinn áhuga. Viðey vakti líka mikla lukku enda um að ræða ævintýralega vorferð með leikskólanum, með sjóræningjum og öllu tilheyrandi. Fjöruferðir voru nokkrar í sumar, þar á meðal ein sem endaði úti í sjálfri Gróttu þar sem skjannahvítur vitinn blasti við í öllu sínu veldi. En hann var því miður lokaður. Eltingarleikir í fjörunni bættu hins vegar vel upp svekkelsið yfir lokuðum vitanum. En ekki voru allar ferðir sumarsins tengdar sjónum, þó hann sé alltaf nærtækur. Gönguferðir um Öskjuhlíðina voru vinsælar og við uppgötvuðum svæðið "handan" við Perluna (vesturhlíðarnar) þar sem sjaldséð grasbreiða (hálfgert engi) teygir sig dágóðan spöl niður í skógarjaðarinn sem síðar opnast á ný og við blasa skotbyrgin úr seinna stríði. Afar fjölbreytt og skemmtilegt svæði. "Engið" þótti mér sérlega sjarmerandi staður fyrir börn til að hlaupa um á og leika sér. Annar staður vakti líka mikla lukku: Vatnsmýrin. Það liggja nefnilega göngustígar þvers og kruss án þess að mikið beri á. Besta aðgengið er frá stóru göngubrúnni yfir Hringbrautina (sem líka er gaman að skoða, bæði til að fara yfir og til að sjá umferðina ofan frá). Í Vatnsmýrinni er svo Norræna húsið, eins og menn vita, og þar hefur verið í sumar (og er enn, fram í september) sýning á eðlisfræðileikföngum og -þrautum. Þar er eitthvað fyrir alla, bæði yngstu börnin og okkur sem eldri erum, hvort sem það eru bjagaðir speglar eða vatnshljóðfæri. Brúin sem minnst var á áðan tengir síðan Vatnsmýrina eins og hún leggur sig við Hljómskálagarðinn. Þar eru nú margir spennandi krókar, þar á meðal leiksvæði sem liggur algjörlega í hvarfi frá almannaleið. Ekki skemmdi svo fyrir að sjálfur Hljómskálinn var með starfrækt kaffihús á neðri hæðinni (og opið upp i turninn) í allt sumar - fram að Menningarnótt. Þetta er svo sannarlega garður sem við eigum eftir að kanna betur á næsta ári. Svo voru strætóferðir líka vinsælar í sumar og var hvað eftirminnilegust gönguferð um Bústaðahverfið í afbragðs veðri. Það er nefnilega svo ótrúlega einfalt að hafa ofan af fyrir börnum á þessum aldri með því að sitja í vagninum, horfa á borgina út um gluggana og yfirgefa svo vagninn um leið eitthvað áhugavert blasir við (eins og til dæmis skemmtilegur leikvöllur). Þá er hægt að ganga um "framandi hverfi" og sjá það með augum barnanna. Það er mjög spennandi. Talandi um framandi svæði þá er Mosfellsbær fullur af áhugaverðum stöðum. Þar var útimarkaður á laugardögum í sumar. Í eitt skiptið könnuðum við "bakland" markaðarins og fundum vinsælt tjaldstæði og þegar enn lengra var skyggnst á bak við það gengum við fram á gerðarlegt og stórt tjald frá Mongólíu sem gert er út sem gistipláss (fyrir hvern sem er). Gaman væri að tékka á því einn daginn. En hvað um það, í Mosfellsbæ er fullt af skemmtilegum leikvöllum, nútímalegum og spennandi, enda mörg ný og nýleg hverfi þar í bæ. Svo er alltaf stutt í náttúruna. Síðasti staðurinn sem ég vildi minnast á í þessu yfirliti tengist líka náttúrunni en með allt öðrum hætti. Ég uppgötvaði nefnilega frábært lífrænt kaffihús í Garðheimum, Mjóddinni. Það er staðsett á svölunum fyrir ofan miðbik meginálmunnar. Þetta kaffihús er sérlega barnvænt og býður það að auki upp á dýrindis súpur í brauði og allt annað sem búast má við á slíkum stað - auk ódýrs íss í brauðformi og/eða uppáhellingu (hundrað kall hvort). Þaðan rölta allir út sáttir. Eins og staðan er í dag er vænlegt að hnýta aftan við slíka kaffihúsaferð smá rölt í norðurátt upp á hólinn stóra sem þar blasir við rétt hjá Reykjanesbrautinni og horfa þaðan niður í Elliðaárdalinn. Hóllinn er allur sundurnagaður og -grafinn eins og termítahaugur og þegar litið er niður má sjá litla svarta og hvíta hnoðra um víðan völl. Kanínurnar eru augnayndi en blasa samt við eins og martröð úr smiðju Hitchkocks, svo yfirþyrmandi er fjöldinn. Engu að síður frábær upplifun fyrir börnin.
sunnudagur, ágúst 29, 2010
Pæling: Kvikmyndahlaðborð
Mig langaði að fylgja eftir sumaruppgjörinu úr síðustu færslu með enn frekara sumaruppgjöri (maður var svo óduglegur í sumar við þessar skriftir, svo uppgjörin reynast þeim mun fleiri fyrir vikið). Við ferðuðumst sem sagt lítið, eins og áður sagði, en vorum hins vegar dugleg á öðrum sviðum. Eitt láðist mér að nefna síðast: Við horfðum á óvenju margar myndir í sumar! Þetta hljómar kannski einkennilega en venjulega höfum við eytt frítíma okkar í spila tónlist og spila alls konar spil (eins og skrabbl) en gert mun minna af því að taka góða mynd á leigu. Á venjulegu sumri hefðum við bara séð það sem er í sjónvarpinu og látið okkur nægja að leigja eina eða tvær myndir þar fyrir utan. Listinn í sumar var hins vegar óvenju veglegur:
Amelie (***)
Ghostbusters (*)
The Raiders of the Lost Ark (***)
The Natural Born Killers (***)
Edward Scissorhands (**)
Dog Day Afternoon (****)
Catch Me if You Can (***)
No Country for Old Men (***)
In the Air (***)
Almost Famous (****)
The Mission (****)
Leaving Las Vegas (***)
City of Angels (**)
Stjörnugjöfin hjá mér er enginn allsherjardómur heldur endurspeglar fyrst og fremst hversu líklegur ég er til að vilja sjá myndina aftur og aftur (fjórar stjörnur). Þetta eru myndir sem hrífa mig. Þriggja stjarna mynd er hins vegar mynd sem er vel þess virði að sjá, flestar afbragðsmyndir, en eru að einhverju leyti takmarkaðar (Amelie fannst mér til dæmis pínu pirrandi í bland við allt það sem hreif á meðan mér fannst hin magnaða No Country for Old Men ekki sannfærandi á lokakaflanum). Tvær stjörnur eru myndir sem ég rétt hékk yfir - voru viss vonbrigði en voru samt áhugaverðar á einhvern hátt. Ghostbusters fannst mér hins vegar óþolandi (hélt út kannski hálftíma og var þá að fríka út af leiðindum). Flestar myndanna eru vel þekktar, fyrir utan kannski"Dog Day Afternoon" sem ég vil vekja sérstaka athygli á (sjá hér umfjöllun Wikipediunnar og hér umfjöllun Rottentomatoes).
Amelie (***)
Ghostbusters (*)
The Raiders of the Lost Ark (***)
The Natural Born Killers (***)
Edward Scissorhands (**)
Dog Day Afternoon (****)
Catch Me if You Can (***)
No Country for Old Men (***)
In the Air (***)
Almost Famous (****)
The Mission (****)
Leaving Las Vegas (***)
City of Angels (**)
Stjörnugjöfin hjá mér er enginn allsherjardómur heldur endurspeglar fyrst og fremst hversu líklegur ég er til að vilja sjá myndina aftur og aftur (fjórar stjörnur). Þetta eru myndir sem hrífa mig. Þriggja stjarna mynd er hins vegar mynd sem er vel þess virði að sjá, flestar afbragðsmyndir, en eru að einhverju leyti takmarkaðar (Amelie fannst mér til dæmis pínu pirrandi í bland við allt það sem hreif á meðan mér fannst hin magnaða No Country for Old Men ekki sannfærandi á lokakaflanum). Tvær stjörnur eru myndir sem ég rétt hékk yfir - voru viss vonbrigði en voru samt áhugaverðar á einhvern hátt. Ghostbusters fannst mér hins vegar óþolandi (hélt út kannski hálftíma og var þá að fríka út af leiðindum). Flestar myndanna eru vel þekktar, fyrir utan kannski"Dog Day Afternoon" sem ég vil vekja sérstaka athygli á (sjá hér umfjöllun Wikipediunnar og hér umfjöllun Rottentomatoes).
mánudagur, ágúst 16, 2010
Fréttnæmt: Vetur hefst (með sumaruppgjöri)
Þá er sumrinu lokið formlega með fyrsta vinnudeginum. Skólarnir byrja í næstu viku með kennslu og öllu því sem tilheyrir skólastarfinu en núna stendur hins vegar yfir undirbúningsvika hjá okkur kennurunum. Það er að mörgu leyti gott að komast aftur inn í rútínuna.
Sumarið leið hratt, eins og vanalega. Það byrjaði náttúrulega með fótboltaveislu eins og allir vita. Síðan tók við ferðamánuður hjá flestum í mikilli veðurblíðu. Við í Granaskjólinu létum það hins vegar eiga sig að mestu (að einni sumarbústaðarferð og einni tjaldnótt undanskilinni). Við héldum okkur mikið til heima í garðinum og leyfðum Signýju og Hugrúnu að busla í uppblásanlegu sundlauginni okkar. Einnig nýttist tíminn vel til að taka heimilið svolítið í gegn. Það þurfti að fara í gegnum alls konar hirslur og hreinsa til. Einnig fóru rafmagnstæki af öllum stærðum og gerðum í viðgerð eða á Sorpu, svo að ekki sé minnst á tölvuna sem drjúgur tími fór í að lagfæra. Síðast en ekki síst nýttist sumarið vel til að rækta sambandið við gamla vini og nýja kunningja, bæði með heimsóknum og matarboðum. Við mætum því nokkuð fersk til leiks þó að ferðaævintýri sumarsins hafi kannski setið á hakanum.
Sumarið leið hratt, eins og vanalega. Það byrjaði náttúrulega með fótboltaveislu eins og allir vita. Síðan tók við ferðamánuður hjá flestum í mikilli veðurblíðu. Við í Granaskjólinu létum það hins vegar eiga sig að mestu (að einni sumarbústaðarferð og einni tjaldnótt undanskilinni). Við héldum okkur mikið til heima í garðinum og leyfðum Signýju og Hugrúnu að busla í uppblásanlegu sundlauginni okkar. Einnig nýttist tíminn vel til að taka heimilið svolítið í gegn. Það þurfti að fara í gegnum alls konar hirslur og hreinsa til. Einnig fóru rafmagnstæki af öllum stærðum og gerðum í viðgerð eða á Sorpu, svo að ekki sé minnst á tölvuna sem drjúgur tími fór í að lagfæra. Síðast en ekki síst nýttist sumarið vel til að rækta sambandið við gamla vini og nýja kunningja, bæði með heimsóknum og matarboðum. Við mætum því nokkuð fersk til leiks þó að ferðaævintýri sumarsins hafi kannski setið á hakanum.
miðvikudagur, ágúst 11, 2010
Fréttnæmt: Tölvuviðgerð
Júli var líklega aumasti bloggmánuður í sögu vikuþanka (og nær sú saga allmörg ár aftur í tímann). Ástæðan er einfaldlega sú að tölvan hefur verið meira eða minna í viðgerð í mánuðinum, allt þar til nú. Þetta er í raun löng og stembin píslarganga sem ég nenni ekki að fara út í í smáatriðum hér og nú. Þeir voru margir fagmennirnir sem komu við sögu í bilanagreiningu tölvunnar og niðurstaðan reyndist vera sú að einn minniskubbanna (þeir eru fjórir í tölvunni) var farinn að gefa sig með þeim afleiðingum að tölvan fraus á ólíklegustu tímum - jafnvel þegar hún var ekkert að erfiða. Menn geta gert sér í hugarlund hversu pirrandi það er að vinna við slíka tölvu og hversu fælingarmátturinn er mikill þegar manni á annað borð hugkvæmist að nýta hana til skapandi skrifa. Ég einsetti mér hins vegar að pirra mig ekki á henni lengur og lagði allt kapp á að koma henni í lag (eða ýta henni út af borðinu endanlega). Feginn er ég að þurfa ekki að fjárfesta í 200-300 þúsund króna tölvu á þessum síðustu og verstu tímum. Það sem meira er að gegnum allt bilanagreiningarferlið hef ég náð að skerpa á virkni tölvunnar talsvert (burt séð frá tilhneigingu hennar til að frjósa). Hún er hraðvirkari en nokkurn tímann áður og hefur nú að geyma meira rými fyrir hins ýmsustu gögn. Ég hlakka bara til að fara að nota hana á ný. Þetta er mikill léttir.
fimmtudagur, júlí 08, 2010
Pæling: Ár undantekninga (eða straumhvarfa?)
Þetta ár er eiginlega að verða með ólíkindum. Ekki nóg með að þessi straumhvörf verða í fótboltanum (og að mótið skuli vera haldið í Afríku yfir höfuð og það með fádæma góðum árangri) heldur eru aðrir atburðir í samfélaginu algjörlega úr takti við stefnu undanfarinna áratuga. Nú er ég til dæmis að tala um Jón Gnarr sem borgarstjóra. Barack Obama er að auki á sínu fyrsta ári sem svartur forseti Bandaríkjanna (reyndar kjörinn í fyrra) og Vinstri Grænir eru við völd - svo að segja. Það að hvorki Framsókn né Sjálfstæðisflokkurinn sé við völd er út af fyrir sig magnað. Hið pólitíska landslag, heima og erlendis, er einhvern veginn allt annað en fyrir bara tveim árum.... Svo lætur náttúran á sér kræla að auki með eftirminnilegri hætti en maður er vanur. Eyjafjallajökull sýnir á sér sparihliðina með túristagosi og grettir sig síðan og hristir með óhemjugangi stuttu seinna, nokkuð sem setur allt úr skorðum á norðurhjara veraldar. En þó er það ekkert í líkingu við hamfarirnar á Haíti, sem eru einhverjar mestu náttúruhamfarir sem dunið hafa á einni þjóð í mannkynssögunni. Eigum við von á einhverju meira? Árið er bara rétt liðlega hálfnað og er þegar orðið mun eftirminnilegra en nokkurt annað ár síðustu tveggja áratuga.
Pæling: Hið fullkomna mót
Mikið er gaman að vera evrópskur unnandi fagurfræðileg fótbolta nú um mundir. Þau tvö lið sem undanfarna áratugi hafa spilað hvað áferðarfellegustu knattspyrnuna í Evrópu og verið með alsterkustu liðum á pappírunum (án þess að uppskera sem skyldi) eru nú loksins komin í úrslit heimsmeistarakeppninnar. Ég man þegar Holland og Spánn brilleruðu á Evrópumótinu fyrir tveimur árum. Þá spiluðu bæði liðin eins og "heimsmeistarar" og voru eiginlega allt of góð fyrir Evrópumótið. Hollendingar misstigu sig reyndar á leiðinni en höfðu spilað fram að því flottasta fótbolta sem maður hafði séð síðan Brasilía heillaði knattspyrnuheiminni árið 1982. Það hlakkaði sérstaklega í mér við tilhugsunina um það hversu ung bæði liðin voru því þau áttu greinilega mörg góð ár inni. Það lá hins vegar beinast við að þau myndu sanna sig á "stóra sviðinu" núna í ár. Það að þau skyldu bæði komast í úrslit er hins vegar hreint magnað. Nú er ljóst að nýr heimsmeistari (það er að segja, lið sem aldrei hefur hampað titlinum áður) verður krýndur eftir nokkra daga eftir að fyrrverandi "áskrifendur" að titlinum undanfarna áratugi (Ítalía, Argentína, Þýskaland og Brasilía) hafa verið knésettir.
mánudagur, júní 28, 2010
Pæling: Fótboltapælingar
Maður situr heima þögull, steinrunninn, yfir fótboltanum. Nánast allur frítíminn fer í leiki. Ég hef náð að horfa á annan hvern leik, á að giska, og fylgist að auki náið með stöðu leikja hverju sinni þegar ég er í fjarsambandi. Ég hef ekki fyglst svona vel með heimsmeistaramóti síðan Maradona varð heimsmeistari 1986! Mér finnst umfjöllunin fyrir og eftir leiki, undir stjórn nafna míns og spekinganna þriggja, vera hreint afbragð. Hún er betri en áður. Það er eins og samvinna þeirra sé að slípast til ár frá ári. Hins vegar er netleikur á vegum Keflavíkurflugvallar (Kefairport.is) búinn að grípa mig kverkataki. Þetta er getraunaleikur þar sem engu er að tapa (engu veðjað, sem sagt) en allt að vinna (fyrsti vinningur ferð fyrir tvo til Tyrklands, annar vinningur sjónvarp, og svo fjöldi smærri vinninga). Fyrst hélt ég að þetta væri einfaldur leikur sem gengi út á að giska á sigurvegara keppninnar bara í eitt skipti fyrir öll, svona eins og verslanirnar gera (og bjóða vinning eða endurborgun fyrir það sem keypt er). Nei, þessi getraunaleikur er sko alvöru og krefst stöðugrar þátttöku. Svona virkar hann:
Hver einasti leikur er liður í stigasöfnun. Hægt er að giska á þrjá möguleika fyrir hvern leik (1-X-2) og hverjum möguleika fylgja stig (eða stuðlar). Giski maður á rétt fær maður stigafjöldann sem samsvarar ágiskuninni. Til dæmis núna síðast, þegar Argentína mætti Mexíkó, voru stuðlarnir þessir: 2.20-3.00-6.00. Það var sem sagt talið líklegast að Argentína myndi vinna en býsna líklegt líka að leikurinn endaði með jafntefli (miðað við venjulegan leiktíma). Langólíklegast var talið að Mexíkó myndi vinna. Þeir sem giskuðu á sigur Argentínu fengu því 2.20 stig en aðrir ekkert. Hefði leikurinn hins vegar endað með jafntefli þá hefði ég fengið 3 stig (ég giskaði á jafntefli).
Þessi leikur er ótrúlega ávanabindandi því maður giskar tiltölulega stutt fram í tímann, kannksi 2-6 leiki í einu, og getur skipt um skoðun fram og til baka allt þar til flautað er til leiks. Oft hefur það komið mér í koll. Nokkrum sinnum hef ég breytt á síðustu stundu, frá því sem var rétt, og það er ótrúlega svekkjandi. Ég lít hins vegar svo á að þetta sé þjálfun í að fylgja eftir sannfæringu sinni (þá verður maður síður svekktur þegar úrlitin stangast á við ágiskunina). Svo er gaman og þrælspennandi að bera sig saman við aðra keppendur. Þeir eru eitthvað á bilinu 3-4000 talsins og safna áfjáðir stigum. Heildarlistinn er opinn þannig að öllum er ljóst hvernig leikar standa í þessari hliðarkeppni við sjálft heimsmeistaramótið. Efstu menn skipta sætum reglulega. Ég er ekki meðal þeirra en gekk hins vegar geysilega vel framan af. Af fyrstu níu leikjunum giskaði ég rétt í sex tilvikum. Ef maður miðar við tölfræðilegu líkurnar þá er einn á móti þremur að maður giski rétt í hvert skipti. Líkur eru því á að maður nái einum leik réttum af hverjum þremur að jafnaði - jafnvel þó maður giski út í loftið. Tveir af þremur er því nokkuð gott en skilaði mér þó ekki nema 180. sæti til að byrja með. Ég vissi hins vegar af því að í tveimur tilvikum hafði ég breytt ágiskuninni á síðustu stundu frá því sem reyndist rétt svo mér fannst ég alveg líklegur til að ná enn betri árangri.
Sjá hér (ágiskun mín innan sviga):
Suður-Afríka og Mexíkó 1:1 (1) fyrst giskaði ég á jafntefli en svo breytti ég gegn "sannfæringunni" og fylgdi "óskhyggjunni" því mér fannst það gott fyrir keppnina að S-Afríka byrjaði vel. Kannski var það vorkunnsemi gagnvart heimaþjóðinni sem ekki virtist líkleg til að komast upp úr riðlinum. En þessu breytti ég einni mínútu fyrir leik og klikkaði.
Uruguay og Frakkland 0:0 (x) Fyrstu leikir Frakka hafa yfirleitt verið bragðdaufir. Svo hafði ég sérstaklega litla trú á þessu liði yfir höfuð eins og það hefur spilað að undanförnu.
Suður-Kórea og Grikkland 2:0 (1) Grikkir koma til með að eiga erfitt uppdráttar í næstu stórmótum eftir að hafa uppskorið fyrir heila öld í Evrópukeppninni 2004, sem meistarar.
Argentína og Nígería 1:0 (2) Hér stólaði ég á að Argentínumenn væru illa undirbúnir og að Nígeríumenn kæmu mjög einbeittir til leiks.
England og Bandaríkin 1:1 Þegar þessar þjóðir mætast er ekki ekki von á öðru en jafntefli. Það er bara þannig.
Alsír og Slóvenía 0:1 (2) Ég hélt hálfpartinn með "austantjaldsþjóðunum": Slóveníu, Slóvakíu, Serbíu....
Serbía og Ghana 0:1 (1) ...sem kom mér illa í þessu tilviki, en vel í leiknum hér á undan.
Þýskaland og Ástralía 4:0 (1) Þetta var nú eins og að hirða sleikipinna af smákrakka. Það voru miklu fleiri stig í boði fyrir Ástralasigur (7.05) heldur en Þjóðverjasigur (1.55) en maður verður að vera sæmilega skynsamur.
Holland og Danmörk 2:0 (1) Hvernig get ég giskað á annað en hollenskan sigur gegnu gömlu og þreyttu dönsku liði?
Þegar hér var komið sögu var ég með 66,7% árangur (tveir af hverjum þremur) og ætlaði hærra en 180. sæti. Það voru ekki nema örfá stig frá þessu sæti og því fyrsta. Ef ég bara hefði giskað rétt í upphafsleiknum....
Í næstu þremur leikjum gekk mér hins vegar ekki eins vel.
Japan og Kamerún 1:0 (2) Nokkuð óvænt úrslit.
Ítalía og Paraguay 1:1 (2) Þarna hafði ég trú á Paraguay en var bara óheppinn.
Nýja Sjáland og Slóvakía 1:1 (2) Aftur óvænt úrslit.
Þrír rangir í röð!! Bæði óvænt úrslit og óheppni í bland. Ég féll um mörg sæti eftir hvern leik (lenti í sæti nr. 230 eftir Japansleikinn, svo 340. og loks 520.). Ég var samt enn nokkuð kokhraustur þar sem um mjög óvænt úrslit hafði verið að ræða í öllum tilvikum (og ég var nærri því að ná einum leiknum réttum). Á þessum tímapunkti greindi ég Vidísi frá þessum skemmtilega leik og að við ætluðum saman til Tyrklands eftir keppnina (maður er alltaf að ögra sjálfum sér). Við vorum þá á leið niður í bæ að horfa á næsta leik, Portúgal spila við Fílabeinsströndina. Við sáum þennan leik saman af því við eigum góðar minningar í Portúgalska liðinu frá því fyrir átta árum. Þá vorum við að kynnast á meðan þáverandi keppni stóð yfir. Hún þekkti ekki liðin en hafði áhuga á að fylgjast með keppninni með mér og spurði mig markvisst út í liðin. Þá sagði ég henni frá Portúgal (sem hafði verið frábært lið árin á undan) og við ættum að halda með þeim. Svo þegar út í keppnina var komið reyndist liðið "okkar" illa undirbúið og andlaust. Mér líkaði engan veginn hvernig þeir spiluðu og var fljótur að hafna þeim. Ég á það til að hafna hvaða liði sem er á staðnum ef þeir standa sig ekki vel þegar á hólminn er komið. Þá sneri Vigdís sér að mér og var heldur en ekki ósátt við skort minn á staðfestu og sagði við mig ákveðin: "Þetta er engin góðgerðastarfsemi!" Mér fannst þetta lýsa afstöðu manneskju sem fylgir sínum mönnum eftir, eða manni, í gegnum súrt og sætt. Þetta situr þess vegna eftir sem svolítið sæt minning.
Fílabeinsströnding og Portúgal 0:0 (2) Þessum leik breytti ég úr jafntefli á síðustu stundu. Treysti ekki innsæinu sem sagði mér að Portúgalar gætu ekkert. Ég lét "óskhyggjuna" trufla mig því ég vildi helst sitja með Vigdísi yfir góðum Portúgölskum leik - vitandi það að liðið gæti þó líklega ekkert. En nú var ég kominn með fjóra ranga í röð!! Í kjölfarið féll ég enn og aftur um sæti og var kominn í rúmlega þúsundasta sæti!! Ég ferðina til Tyrklands fjarlægjast óðfluga og stigabilið milli mín og fyrsta sætisins aukast. Næsta leik gerði ég þó rétt.
Brasilía og Norður-Kórea 2:0 (1) Hér var ég næstum búinn að freistast til að giska á jafntefli. Ég hef nefnilega ekkert sérstaka trú á Brasilíu og var að vonast til að Norður-Kórea kæmi á óvart (sem þeir sannarlega gerðu í þessum leik). En ég ákvað að vera skynsamur á síðustu stundu og giskaði á brasilískan sigur. En það hafa nánast allir í getraunaleiknum gert það sama því ég færðist ekkert upp á við í stigatöflunni eftir þennan leik.
En ef þetta var slæmur kafli þá var framhaldið skelfilegt. Ég fór ég að gera helling af mistökum. Ég reyndi af örvæntingu að hala markvisst inn stig með því að giska ítrekað á ólíklega kostinn. Græðgi? Ég fór í smá greiningarvinnu eftir á og áttaði mig á að þrennt varð mér að falli: græðgin (vildi giska á þann kost sem gæfi fleiri stig), óskhyggjan (sem stundur stríðir gegn köldu mati) og hrein óheppni (leikir þar sem ég er sáttur við sjálfa ágiskunina eftir á þó hún hafi verið röng). Svona leit þetta út:
Hondúras og Chile 0:1 (1). Græðgi: (stuðlar voru 5.1/3.3/2.5). Ég viss að Chile væru sterkari fótboltaþjóð.
Spánn og Sviss 0:1 (x) Óheppni. Ég vissi að Sviss myndi koma á óvart og ekki fá á sig mark.
Suður-Afríka og Uruguay 0:3 (1) Óskhyggja. Enn fann ég til með heimamönnum og vissi ekki alveg hvar ég hafði Uruguay.
Argentína og Suður-Kórea 3:1 (x) Græðgi: (stuðlar voru: 1.95/6.95/10.2). Ég vissi eignlega betur.
Grikkland og Nígería 2:1 (x) Óheppni. Furðuleg uppákoma í leiknum, með brottvísun, gjörbreytti gangi leiksins.
Frakkland og Mexíkó 0:2 (x) Óheppni. Ég bjóst við daufum jafnteflisleik. Það var meira varið í Mexíkó en ég átti von á.
Þýskaldand og Serbía 0:1 (1) Óheppni. Hér hvarflaði að mér að stóla á Serbíu en breytti yfir í "kalt mat" á síðustu stundu.
Slóvenía og Bandaríkin 2:2 (2) Óheppni. Bandarískur sigur var mjög líklegur enda "löglegt" mark dæmt af liðinu undir lokin.
England og Alsír 0:0 (1) Óskhyggja. Ég vonaðist til að England færi að spila vel en hafði samt ekki trú á því.
Níu rangir í röð!! Hér var gengi mitt í getraunaleiknum hræðilegt. Ég var kominn í tvöþúsundasta sæti!! Skandall. Núna breytti ég afstöðu minni. Ég átti ekki lengur raunhæfan möguleika á stórum vinningi og ákvað að taka þetta af yfirvegun. Ég ákvað að taka þetta eins og hver annar íþróttamaður. Í stað þess að spila af örvæntingu og klúðra málunum algjörlega einsetti ég mér að vinna mig inn í leikinn (eins og sagt er á íþróttamáli) hægt og rólega og setja mér persónulegt takmark. Vinna marga smásigra og hala inn örugg stig þegar þau bjóðast. Ef ég enda ofar en í þúsundasta sæti héðan í frá get ég verið mjög sáttur. Það er takmarkið.
Þetta eru auðvitað mikil vísindi allt saman, ekki bara hvað varðar þekkingu á fótboltanum heldur reynir mikið á sjálfsþekkingu líka (hvenær er mat byggt á "óskhyggju" eða "græðgi"? Hvenær beitir maður "köldu mati" eða "innsæi"?). Með hæfilegri blöndu af þessu öllu saman hefur mér undanfarið tekist að giska á ólíkleg úrslit (Suður-Afríka vann loksins... Frakkland, af öllum liðum) en verið stundum óheppinn (hvernig tókst Nýja-Sjálandi að halda jöfnu gegn Ítalíu?) og full vongóður á köflum (giskaði á Norður-Kóeyskan sigur gegn Portúgal, sem endaði 7:0 fyrir Portúgal, eins og frægt er orðið). Eftir útrýmingu stigagræðginnar og tortryggni í garð eigin óskhyggju og ég hef rokkað á milli 1100 og 1500 og er staddur í sæti númer 1064 (er það ekki frægt ártal?). Mér hefur tekist að giska rétt í öðrum hverjum leik að undanförnu.
Sem sagt.... mæli með þessum leik í næsta móti (ef menn geta leyft sér að sökkva sér ofan í keppnina).
Hver einasti leikur er liður í stigasöfnun. Hægt er að giska á þrjá möguleika fyrir hvern leik (1-X-2) og hverjum möguleika fylgja stig (eða stuðlar). Giski maður á rétt fær maður stigafjöldann sem samsvarar ágiskuninni. Til dæmis núna síðast, þegar Argentína mætti Mexíkó, voru stuðlarnir þessir: 2.20-3.00-6.00. Það var sem sagt talið líklegast að Argentína myndi vinna en býsna líklegt líka að leikurinn endaði með jafntefli (miðað við venjulegan leiktíma). Langólíklegast var talið að Mexíkó myndi vinna. Þeir sem giskuðu á sigur Argentínu fengu því 2.20 stig en aðrir ekkert. Hefði leikurinn hins vegar endað með jafntefli þá hefði ég fengið 3 stig (ég giskaði á jafntefli).
Þessi leikur er ótrúlega ávanabindandi því maður giskar tiltölulega stutt fram í tímann, kannksi 2-6 leiki í einu, og getur skipt um skoðun fram og til baka allt þar til flautað er til leiks. Oft hefur það komið mér í koll. Nokkrum sinnum hef ég breytt á síðustu stundu, frá því sem var rétt, og það er ótrúlega svekkjandi. Ég lít hins vegar svo á að þetta sé þjálfun í að fylgja eftir sannfæringu sinni (þá verður maður síður svekktur þegar úrlitin stangast á við ágiskunina). Svo er gaman og þrælspennandi að bera sig saman við aðra keppendur. Þeir eru eitthvað á bilinu 3-4000 talsins og safna áfjáðir stigum. Heildarlistinn er opinn þannig að öllum er ljóst hvernig leikar standa í þessari hliðarkeppni við sjálft heimsmeistaramótið. Efstu menn skipta sætum reglulega. Ég er ekki meðal þeirra en gekk hins vegar geysilega vel framan af. Af fyrstu níu leikjunum giskaði ég rétt í sex tilvikum. Ef maður miðar við tölfræðilegu líkurnar þá er einn á móti þremur að maður giski rétt í hvert skipti. Líkur eru því á að maður nái einum leik réttum af hverjum þremur að jafnaði - jafnvel þó maður giski út í loftið. Tveir af þremur er því nokkuð gott en skilaði mér þó ekki nema 180. sæti til að byrja með. Ég vissi hins vegar af því að í tveimur tilvikum hafði ég breytt ágiskuninni á síðustu stundu frá því sem reyndist rétt svo mér fannst ég alveg líklegur til að ná enn betri árangri.
Sjá hér (ágiskun mín innan sviga):
Suður-Afríka og Mexíkó 1:1 (1) fyrst giskaði ég á jafntefli en svo breytti ég gegn "sannfæringunni" og fylgdi "óskhyggjunni" því mér fannst það gott fyrir keppnina að S-Afríka byrjaði vel. Kannski var það vorkunnsemi gagnvart heimaþjóðinni sem ekki virtist líkleg til að komast upp úr riðlinum. En þessu breytti ég einni mínútu fyrir leik og klikkaði.
Uruguay og Frakkland 0:0 (x) Fyrstu leikir Frakka hafa yfirleitt verið bragðdaufir. Svo hafði ég sérstaklega litla trú á þessu liði yfir höfuð eins og það hefur spilað að undanförnu.
Suður-Kórea og Grikkland 2:0 (1) Grikkir koma til með að eiga erfitt uppdráttar í næstu stórmótum eftir að hafa uppskorið fyrir heila öld í Evrópukeppninni 2004, sem meistarar.
Argentína og Nígería 1:0 (2) Hér stólaði ég á að Argentínumenn væru illa undirbúnir og að Nígeríumenn kæmu mjög einbeittir til leiks.
England og Bandaríkin 1:1 Þegar þessar þjóðir mætast er ekki ekki von á öðru en jafntefli. Það er bara þannig.
Alsír og Slóvenía 0:1 (2) Ég hélt hálfpartinn með "austantjaldsþjóðunum": Slóveníu, Slóvakíu, Serbíu....
Serbía og Ghana 0:1 (1) ...sem kom mér illa í þessu tilviki, en vel í leiknum hér á undan.
Þýskaland og Ástralía 4:0 (1) Þetta var nú eins og að hirða sleikipinna af smákrakka. Það voru miklu fleiri stig í boði fyrir Ástralasigur (7.05) heldur en Þjóðverjasigur (1.55) en maður verður að vera sæmilega skynsamur.
Holland og Danmörk 2:0 (1) Hvernig get ég giskað á annað en hollenskan sigur gegnu gömlu og þreyttu dönsku liði?
Þegar hér var komið sögu var ég með 66,7% árangur (tveir af hverjum þremur) og ætlaði hærra en 180. sæti. Það voru ekki nema örfá stig frá þessu sæti og því fyrsta. Ef ég bara hefði giskað rétt í upphafsleiknum....
Í næstu þremur leikjum gekk mér hins vegar ekki eins vel.
Japan og Kamerún 1:0 (2) Nokkuð óvænt úrslit.
Ítalía og Paraguay 1:1 (2) Þarna hafði ég trú á Paraguay en var bara óheppinn.
Nýja Sjáland og Slóvakía 1:1 (2) Aftur óvænt úrslit.
Þrír rangir í röð!! Bæði óvænt úrslit og óheppni í bland. Ég féll um mörg sæti eftir hvern leik (lenti í sæti nr. 230 eftir Japansleikinn, svo 340. og loks 520.). Ég var samt enn nokkuð kokhraustur þar sem um mjög óvænt úrslit hafði verið að ræða í öllum tilvikum (og ég var nærri því að ná einum leiknum réttum). Á þessum tímapunkti greindi ég Vidísi frá þessum skemmtilega leik og að við ætluðum saman til Tyrklands eftir keppnina (maður er alltaf að ögra sjálfum sér). Við vorum þá á leið niður í bæ að horfa á næsta leik, Portúgal spila við Fílabeinsströndina. Við sáum þennan leik saman af því við eigum góðar minningar í Portúgalska liðinu frá því fyrir átta árum. Þá vorum við að kynnast á meðan þáverandi keppni stóð yfir. Hún þekkti ekki liðin en hafði áhuga á að fylgjast með keppninni með mér og spurði mig markvisst út í liðin. Þá sagði ég henni frá Portúgal (sem hafði verið frábært lið árin á undan) og við ættum að halda með þeim. Svo þegar út í keppnina var komið reyndist liðið "okkar" illa undirbúið og andlaust. Mér líkaði engan veginn hvernig þeir spiluðu og var fljótur að hafna þeim. Ég á það til að hafna hvaða liði sem er á staðnum ef þeir standa sig ekki vel þegar á hólminn er komið. Þá sneri Vigdís sér að mér og var heldur en ekki ósátt við skort minn á staðfestu og sagði við mig ákveðin: "Þetta er engin góðgerðastarfsemi!" Mér fannst þetta lýsa afstöðu manneskju sem fylgir sínum mönnum eftir, eða manni, í gegnum súrt og sætt. Þetta situr þess vegna eftir sem svolítið sæt minning.
Fílabeinsströnding og Portúgal 0:0 (2) Þessum leik breytti ég úr jafntefli á síðustu stundu. Treysti ekki innsæinu sem sagði mér að Portúgalar gætu ekkert. Ég lét "óskhyggjuna" trufla mig því ég vildi helst sitja með Vigdísi yfir góðum Portúgölskum leik - vitandi það að liðið gæti þó líklega ekkert. En nú var ég kominn með fjóra ranga í röð!! Í kjölfarið féll ég enn og aftur um sæti og var kominn í rúmlega þúsundasta sæti!! Ég ferðina til Tyrklands fjarlægjast óðfluga og stigabilið milli mín og fyrsta sætisins aukast. Næsta leik gerði ég þó rétt.
Brasilía og Norður-Kórea 2:0 (1) Hér var ég næstum búinn að freistast til að giska á jafntefli. Ég hef nefnilega ekkert sérstaka trú á Brasilíu og var að vonast til að Norður-Kórea kæmi á óvart (sem þeir sannarlega gerðu í þessum leik). En ég ákvað að vera skynsamur á síðustu stundu og giskaði á brasilískan sigur. En það hafa nánast allir í getraunaleiknum gert það sama því ég færðist ekkert upp á við í stigatöflunni eftir þennan leik.
En ef þetta var slæmur kafli þá var framhaldið skelfilegt. Ég fór ég að gera helling af mistökum. Ég reyndi af örvæntingu að hala markvisst inn stig með því að giska ítrekað á ólíklega kostinn. Græðgi? Ég fór í smá greiningarvinnu eftir á og áttaði mig á að þrennt varð mér að falli: græðgin (vildi giska á þann kost sem gæfi fleiri stig), óskhyggjan (sem stundur stríðir gegn köldu mati) og hrein óheppni (leikir þar sem ég er sáttur við sjálfa ágiskunina eftir á þó hún hafi verið röng). Svona leit þetta út:
Hondúras og Chile 0:1 (1). Græðgi: (stuðlar voru 5.1/3.3/2.5). Ég viss að Chile væru sterkari fótboltaþjóð.
Spánn og Sviss 0:1 (x) Óheppni. Ég vissi að Sviss myndi koma á óvart og ekki fá á sig mark.
Suður-Afríka og Uruguay 0:3 (1) Óskhyggja. Enn fann ég til með heimamönnum og vissi ekki alveg hvar ég hafði Uruguay.
Argentína og Suður-Kórea 3:1 (x) Græðgi: (stuðlar voru: 1.95/6.95/10.2). Ég vissi eignlega betur.
Grikkland og Nígería 2:1 (x) Óheppni. Furðuleg uppákoma í leiknum, með brottvísun, gjörbreytti gangi leiksins.
Frakkland og Mexíkó 0:2 (x) Óheppni. Ég bjóst við daufum jafnteflisleik. Það var meira varið í Mexíkó en ég átti von á.
Þýskaldand og Serbía 0:1 (1) Óheppni. Hér hvarflaði að mér að stóla á Serbíu en breytti yfir í "kalt mat" á síðustu stundu.
Slóvenía og Bandaríkin 2:2 (2) Óheppni. Bandarískur sigur var mjög líklegur enda "löglegt" mark dæmt af liðinu undir lokin.
England og Alsír 0:0 (1) Óskhyggja. Ég vonaðist til að England færi að spila vel en hafði samt ekki trú á því.
Níu rangir í röð!! Hér var gengi mitt í getraunaleiknum hræðilegt. Ég var kominn í tvöþúsundasta sæti!! Skandall. Núna breytti ég afstöðu minni. Ég átti ekki lengur raunhæfan möguleika á stórum vinningi og ákvað að taka þetta af yfirvegun. Ég ákvað að taka þetta eins og hver annar íþróttamaður. Í stað þess að spila af örvæntingu og klúðra málunum algjörlega einsetti ég mér að vinna mig inn í leikinn (eins og sagt er á íþróttamáli) hægt og rólega og setja mér persónulegt takmark. Vinna marga smásigra og hala inn örugg stig þegar þau bjóðast. Ef ég enda ofar en í þúsundasta sæti héðan í frá get ég verið mjög sáttur. Það er takmarkið.
Þetta eru auðvitað mikil vísindi allt saman, ekki bara hvað varðar þekkingu á fótboltanum heldur reynir mikið á sjálfsþekkingu líka (hvenær er mat byggt á "óskhyggju" eða "græðgi"? Hvenær beitir maður "köldu mati" eða "innsæi"?). Með hæfilegri blöndu af þessu öllu saman hefur mér undanfarið tekist að giska á ólíkleg úrslit (Suður-Afríka vann loksins... Frakkland, af öllum liðum) en verið stundum óheppinn (hvernig tókst Nýja-Sjálandi að halda jöfnu gegn Ítalíu?) og full vongóður á köflum (giskaði á Norður-Kóeyskan sigur gegn Portúgal, sem endaði 7:0 fyrir Portúgal, eins og frægt er orðið). Eftir útrýmingu stigagræðginnar og tortryggni í garð eigin óskhyggju og ég hef rokkað á milli 1100 og 1500 og er staddur í sæti númer 1064 (er það ekki frægt ártal?). Mér hefur tekist að giska rétt í öðrum hverjum leik að undanförnu.
Sem sagt.... mæli með þessum leik í næsta móti (ef menn geta leyft sér að sökkva sér ofan í keppnina).
föstudagur, júní 18, 2010
Upplifun: Útilegustemning í Vatnsmýrinni
Fyrir nokkrum vikum baðaði maður sig í sólskini. Mér leist ekki á að hafa sama veður yfir mér í júní. Þá yrði ég að bíta í það súra að sitja inni á meðan aðrir spókuðu sig utandyra. En það kom ekki til þess. Veðrið breyttist snögglega rétt fyrir mót. Ég var eiginlega hálfpartinn búinn að spá því - án þess að ég lýsi mig ábyrgan. Reyndar var óheppilegt að fá hellirigningu á laugardaginn var því þá hélt Stella (stundum kennd við Kristján) útskriftarveislu í glerskála bak við Norræna húsið. Það hefði verið ljúft að hafa glampandi sól við litlu tjörnina svo að börnin gætu valsað um frjálslega. Í staðinn myndaðist all sérstök og hugguleg tjaldstemning á meðan droparnir féllu á glerið. Veitingar voru að sjálfsögðu fyrsta flokks, þar sem laukmarínerað kartöflusalat kom skemmtilega á óvart.
sunnudagur, maí 30, 2010
Tónlist: Megas í Háskólabíói
Ég minntist á listahátíð Reykjavíkur í síðustu færslu. Í ár stóð ekki til að gera neitt. Megas reyndist hins vegar ómótstæðilegur þegar á reyndi og ég fann stakan miða nokkrum dögum fyrir tónleika. Vigdís lét hvarfla að fara með en ákvað að halda sig heima. Það reyndist skynsamlega valið því tónleikar Megasar voru vægast sagt tyrfnir, illskiljanlegir og - á köflum - beinlínis leiðinlegir. Fyrst kom hann fram með rokksveit sem nánast ískraði sig gegnum lögin. Hljómburður salarins bauð ekki upp á notalega upplifun. Á eftir því kom stúlknakór og söng hátt í tíu lög eftir meistarann í mjög flottum útsetningum. Það var glæsilegasti kafli tónleikanna og sá eini sem gaf mér gæsahúð. Útsetningar voru skemmtilega loðnar en ákaflega fallegar. Einnig var fyndið að horfa á sjálfan Megast standa á bak við söngpallinn, gægjast upp úr á milli stúlknakollanna, eins og refur um nótt (stúlknakórinn = hænsnabú). Þá kom hlé. Tónleikarnir hófust ekki fyrr en um níu þannig að þegar hér var komið sögu var maður orðinn hálf syfjaður. Eftir hlé var það því þrautin þyngri að sitja undir prógramminu án þess að mjaka sér til og frá af óþægindum og leiða. Kammersveit (kvintett) samansettur af einvalaliði úr sinfóníuhljómsveitinni flutti lög Megasar í klassískum búningi (í útsetningum sonar hans, sem er klassískt menntaður tónlistarmaður), með hann sjálfan rymjandi ofan í. Þetta fannst mér engan veginn passa saman - ofurnæmni strengjanna með óhefluðum og ryðguðum söng Megasar. Hins vegar voru nokkrir glæsilegir sprettir inni á milli, eins og jarðarfararútgáfan á "Gamla sorrí Grána". Eftir þetta kom aftur á svið hefðbundna hljómsveit Megasar og kláraði restina af prógramminu - fyrst í þjóðlagakenndum stíl og síðan í rokkaðri búningi. Aftur voru magnaðir sprettir inni á milli en að jafnaði fannst mér samspilið ekki nógu gott eins og prógrammið hefði ekki náð að slípast almennilega. Meðsöngvari Megasar, hún Ágústa Eva Erlends, var þar að auki algjörlega týnd í sumum lögum, sérstaklega þegar hún átti að spinna sig kringum rödd Megasar. Hún var hins vegar þeim mun betri ein og sér. Gaman væri að heyra í henni taka Megasarprógramm út af fyrir sig. Það er nægileg ótukt í hennar karakter til að halda góðum dampi í því prógrammi. En sem sagt, lýjandi tónleikar en afar athyglisverðir. Þeir voru svo kórónaðir í sjálfu uppklappinu. Þá datt Megasi í hug að fara í störukeppni við salinn. Aðrir hljóðfæraleikarar höfðu yfirgefið sviðið og hann stóð þarna ásamt syni sínum og Ágústu Evu. Þau tvo voru hálf vandræðaleg yfir þessu og horfðu afsakandi til hliðar á meðan hann horfði einbeittur og keikur út í salinn þar til fólk var farið að tínast út. En hann stóð sem fastast þar til lófatakið þagnaði. Þá fyrst kinkaði hann kolli og fannst tímabært að yfirgefa sviðið. Þá uppskar hann aftur lófaklapp fyrir þennan undarlega gjörning.
Upplifun: Magnaður maí
Mikið er maímánuður alltaf orkumikill! Ekki nóg með að veðrið snarbatni heldur er samfélagið allt undirlagt hátíðarhöldum. Listahátíð Reykavíkur og Eurovision eru dæmi um það - að vissu leyti andstæður kannski. Á fjögurra ára fresti bætast svo við sveitastjórnarkosningar auk heimsmeistarakeppni í knattspyrnu (sem reyndar er ekki haldin fyrr en í júní en eftirvæntingin er svo mikil í mínu tilfelli að hún litar stemninguna í maí skærum litum). Ég man eftir því þegar við Vigdís kynntumst, fyrir átta árum, að þá var þetta fernt allt í hámæli - fyrst kosningar og Eurovision, síðan listahátíð með heimsmeistarakeppni í kjölfarið. Magnaðir tímar.
Sveitastjórnarkosningar og Eurovisionkeppnin hafa áður haldist í hendur. Sá dagur er fyrir vikið hlaðin eftirvæntingu. Stundum slokknar á glæðunum þegar líða tekur á kvöldið. Oftar en ekki hafa hallærisleg lög sigrað söngkeppnina og sama gamla tuggan farin að hljóma í sömu gömlu rugguhestunum þegar öll kosningakurl koma til grafar. En ekki núna. Bæði sigraði frísklegt og líflegt lag frá Þýskalandi keppnina (laust við alla Eurovision-klisju) auk þess að bylting var gerð í kjörklefunum í Reykjavík. Hvað verður í framhaldi veit hins vegar enginn. Svoleiðis á einmitt að byrja sumarið.
Sveitastjórnarkosningar og Eurovisionkeppnin hafa áður haldist í hendur. Sá dagur er fyrir vikið hlaðin eftirvæntingu. Stundum slokknar á glæðunum þegar líða tekur á kvöldið. Oftar en ekki hafa hallærisleg lög sigrað söngkeppnina og sama gamla tuggan farin að hljóma í sömu gömlu rugguhestunum þegar öll kosningakurl koma til grafar. En ekki núna. Bæði sigraði frísklegt og líflegt lag frá Þýskalandi keppnina (laust við alla Eurovision-klisju) auk þess að bylting var gerð í kjörklefunum í Reykjavík. Hvað verður í framhaldi veit hins vegar enginn. Svoleiðis á einmitt að byrja sumarið.
sunnudagur, maí 16, 2010
Fréttnæmt: Flott sumarhelgi - nýtt grill og Viðeyjarferð.
Nú um helgina gekk sumarið í garð. Það segi ég í bókstaflegri merkingu því við vígðum garðinn með formlegum hætti á laugardaginn með því að slá grasið í fyrsta skipti. Í leiðinni tókum við í gagnið grill sem við vorum að kaupa (eða GLIRR, eins og Hugrún segir yfirleitt). Þetta er ódýrt grill, en vel nothæft í nokkur ár, og víkkar að sumu leyti út íbúðina og tengir hana við garðinn með því að búa til eins konar "útvortis" eldhús. Í góðu veðri er núna hægt með góðu móti að vera stöðugt úti og komast hjá því að spora út eldhúsið endalaust (þ.e. "innvortis" eldhúsið :-).
Gærdagurinn var eiginlega magnaður því áður en við buðum í garðinn hófst dagurinn með Viðeyjarferð á vegum foreldrafélags leikskólans. Veðrið var með ólíkindum gott. Fólk tók með sér hefðbundin útivistarföt með væntingar um næðing úti í eynni eða jafnvel rok, en veðrið reyndist hins vegar hið blíðasta. Signý og Hugrún fóru í siglingu í fyrsta skipti og voru mjög spenntar fyrir því. Ferðin var hin ævintýralegasta og foreldrafélagið stóð sig frábærlega í undibúningnum. Allt var til alls, útileikföng á hverju strái, nægar veitingar (grillaðar, að sjálfsögðu) og rúsínan í pylsuendanum var fjársjóðsleit með "alvöru" sjóræningjum, sem bara birtust allt í einu. Krakkarnir voru allir með útprentað fjársjóðskort af eynni og notuðu það öðru hvoru til að átta sig á eynni (svo er þetta eftir á skemmtilegur minjagripur). En það sem eftir stendur er sú tilfinning að Viðey sé staðurinn til að spóka sig á í góðu veðri. Þangað förum við pottþétt aftur í sumar - kannski bara til að borða. Eitthvað verður um skipulagðar ferðir um eyna í sumar svo maður verður bara vakandi fyrir þeim.
Gærdagurinn var eiginlega magnaður því áður en við buðum í garðinn hófst dagurinn með Viðeyjarferð á vegum foreldrafélags leikskólans. Veðrið var með ólíkindum gott. Fólk tók með sér hefðbundin útivistarföt með væntingar um næðing úti í eynni eða jafnvel rok, en veðrið reyndist hins vegar hið blíðasta. Signý og Hugrún fóru í siglingu í fyrsta skipti og voru mjög spenntar fyrir því. Ferðin var hin ævintýralegasta og foreldrafélagið stóð sig frábærlega í undibúningnum. Allt var til alls, útileikföng á hverju strái, nægar veitingar (grillaðar, að sjálfsögðu) og rúsínan í pylsuendanum var fjársjóðsleit með "alvöru" sjóræningjum, sem bara birtust allt í einu. Krakkarnir voru allir með útprentað fjársjóðskort af eynni og notuðu það öðru hvoru til að átta sig á eynni (svo er þetta eftir á skemmtilegur minjagripur). En það sem eftir stendur er sú tilfinning að Viðey sé staðurinn til að spóka sig á í góðu veðri. Þangað förum við pottþétt aftur í sumar - kannski bara til að borða. Eitthvað verður um skipulagðar ferðir um eyna í sumar svo maður verður bara vakandi fyrir þeim.
mánudagur, maí 10, 2010
Pæling: Slaufukall
Einu verð ég að bæta við síðustu frásögn. Þegar ég var á leiðinni út úr húsi, uppáklæddur í hvíta skyrtu og svörtum jakka (ásamt svörtum buxum) og ætlaði þannig klæddur með Signýju og Hugrúnu upp í Breiðholt í pössun, horfði Signý brosandi á mig og sagði: Þú ert eins og slaufukall! (Það vantaði bara slaufuna, sem sagt). Svo bætti hún við stuttu síðar: Þú ert bara krúttlegur.
Óvenjuleg atburðarás helgarinnar
Þetta er búin að vera sérkennileg helgi. Að minnsta kosti þróaðist hún á ófyrirsjáanlegan máta þannig að allt varð eiginlega öfugt við það sem upphaflega var áætlað. Þegar helgin nálgaðist blasti við að ég yrði heima með Signýju og Hugrúnu á meðan Vigdís ynni tvær næturvaktir. Eftir að Hugrún fæddist hefur Vigdís afar sjaldan tekið næturvaktir svo að mér fannst þetta áhugavert. Kannski myndi ég vaka frameftir og hlusta á tónlist, sökkva mér í einhver verkefni eða horfa á einhverjar bíómyndir sem höfða fremur til mín en Vigdísar. Ég var kominn í einhvers konar undirbúningshug. Af rælni minntist ég við Vigdísi, rétt fyrir helgi, á árshátíð hjá Buglinu. Ég ætlaði eiginlega ekkert að fara á hana en eftir hvatningu Vigdísar ákvað ég þó að slá til. Ég ætlaði bara að vera temmilega stutt og koma heim og sitja í einrúmi frameftir í sama fyrirhugaða gírnum. Þetta virtist auðvelt því það þurfti ekki að redda pössun nema í tvo til þrjá tíma frá því rétt áður en Vigdís legði af stað á næturvaktina og þar til ég kæmi heim (kringum miðnættið). En þegar á reyndi voru allir þeir nærtækustu víðs fjarri í ferðalögum úti á landi. Begga systir (sem býr uppi í Breiðholti) var hins vegar til í að passa (eins og ævinlega, takk :-) en þar sem hún býr svo langt í burtu leit ég á það sem heilmikið rask fyrir hana að koma svona seint, með Fannar og Guðnýju, og lafa fram að miðnætti heima hjá okkur. Þá fannst mér beinlínis tillitssamara að taka því sem einnig stóð til boða að koma með Signýju og Hugrúnu upp eftir til hennar og leyfa þeim að gista yfir nótt. Þegar þetta var klappað og klárt leit áttaði ég mig hins vegar á því að helgin yrði sérlega óvenjuleg. Enginn heima nema ég, eftir að ég kæmi heim af árhátíðinni. Ég vissi eiginlega ekki í hvort fótinn ég ætti að stíga með það hvort ég ætti að reyna að vera frameftir á árshátíðinni (fara í bæinn og svona) eða koma strax heim og njóta þess að vera aleinn og sinna einhverum áhugamálum þar til ég lognast út af seint um nótt. Hins vegar einfaldaðist valið strax á föstudagsmorguninn. Þá vaknaði Vigdís með verki í baki og treysti sér ekki á næturvaktirnar (það er víst erfiðara að hlífa sér á fáliðuðum næturvöktum í samanburði við dagvaktir). Helgin hafði snarbreyst frá því að Vigdís yrði í burtu og við hin heima yfir í að hún ein sæti heima og ég í burtu (og Hugrún og Signý í pössun). En notalegt var það nú samt. Ég fór á mína árshátíð og kom heim á miðnætti. Þar beið mín Vigdís og við nýttum tækifærið og fórum í miðnæturgöngu í svölu næturloftinu - þokumistruðu - og það var tilfinnanlega sumar handan við þokuna (einhver útlandastemning í loftinu). Gaman að rifja upp þessar einföldu en sjarmerandi kvöldgöngur - eitthvað sem við höfðum ekki gert árum saman.
föstudagur, apríl 30, 2010
Daglegt líf: Afmæli og Gróttuferð.
Dagurinn í dag er allmerkilegur í okkar augum því hún Hugrún er loksins orðin þriggja ára. Manni hefur lengi fundist hún hafa náð þessum aldri því hún er svo dugleg á mörgum sviðum. Hún hefur til að mynda aldrei vílað fyrir sér að leika sér við eldri krakka, eins og til dæmis vini Signýjar. En það er fyrst núna sem við getum sagt það sem okkur hefur lengi fundist: Hún er orðin þriggja ára. Í kvöld fórum við bara út að borða saman - bara nett í tilefni dagsins - og heima var boðið upp á íspinna. Á sunnudaginn kemur höldum við hins vegar upp á afmælið hennar með fjölskyldumeðlimum. Seinna verður ef til vill boðið upp á barnaafmæli - en það á eftir að koma í ljós nákvæmlega hvenær.
Ég minni í leiðinni á myndasíðuna á flickr. Þangað hef ég látið drjúgan slatta af myndum frá síðustu vikum. Þar eru meðal annars nokkrar myndir frá skemmtilegri Gróttuferð sem við fórum í fyrir tveimur vikum með Jóni Má og Melkorku. Þá var vitinn opinn og boðið upp á vöfflur í tilefni dagsins. Útsýnið úr vitanum var vitaskuld flott.
Ég minni í leiðinni á myndasíðuna á flickr. Þangað hef ég látið drjúgan slatta af myndum frá síðustu vikum. Þar eru meðal annars nokkrar myndir frá skemmtilegri Gróttuferð sem við fórum í fyrir tveimur vikum með Jóni Má og Melkorku. Þá var vitinn opinn og boðið upp á vöfflur í tilefni dagsins. Útsýnið úr vitanum var vitaskuld flott.
sunnudagur, apríl 25, 2010
Upplifun: Vorkoman
Nú er vor í lofti. Þau segja það að minnsta kosti í vinnunni þegar þau heyra mig hnerra. En það er líka sýnilegt á götum úti. Grasið er farið að grænka örlítið og farfuglarnir komnir til landsins. Um daginn keyrði ég Vigdísi í vinnuna (Borgarspítalann) og á grænum grasbala við þyrluflugpallinn niðri, austan megin við spítalann, sá ég fjöldann allan af Lóum spássera. Venjulega sér maður þær bara eina og eina, kannski tvær, en þarna voru þær einar þrjátíu saman komnar. Þetta er frekar stór fugl og myndarlegur svo mér fannst nokkuð mikið til hans koma í svona stórum hóp. Ég ályktaði sem svo að fyrst þeir halda sig meginpart sumars út af fyrir sig þá hljóti hópurinn að vera nýlentur.
Vorið hefur líka áhrif á lífið heima því með grænkandi grasi þarf ég að huga að garðhúsinu. Síðustu vikur hef ég ekki þurft að hreyfa við því (til að koma í veg fyrir að grasið undir því visni) en nú þarf ég að mjaka því til og frá í hverri viku. Annars myndast leiðinlegir ferkantaðir rammar út um alla lóð. Svo er kominn tími á að stinga niður fræjum í matjurtagarðinum. Ég er þegar búinn að kaupa fyrir gulrótum, steinselju og basiliku. Þetta hefur gefist best - bæði er það harðgert og vinsælt. Frost er á undanhaldi svo fyrstu skrefin í garðvinnunni hljóta að vera á næsta leyit. Sólin hækkar stöðugt á lofti og hefur líka sín áhrif á kvöldrútínu Signýjar og Hugrúnar. Það er að koma "sumarnótt", svo ég vitni í Signýju. Birtan er farin að teygja sig fram yfir háttatíma. Í vikunni settum við upp teppi fyrir gluggann sem myrkratjald, svona rétt á meðan þær sofna. Svo kemur myrkrið fljótlega í kjölfarið - næstu vikurnar að minnsta kosti.
Vorið hefur líka áhrif á lífið heima því með grænkandi grasi þarf ég að huga að garðhúsinu. Síðustu vikur hef ég ekki þurft að hreyfa við því (til að koma í veg fyrir að grasið undir því visni) en nú þarf ég að mjaka því til og frá í hverri viku. Annars myndast leiðinlegir ferkantaðir rammar út um alla lóð. Svo er kominn tími á að stinga niður fræjum í matjurtagarðinum. Ég er þegar búinn að kaupa fyrir gulrótum, steinselju og basiliku. Þetta hefur gefist best - bæði er það harðgert og vinsælt. Frost er á undanhaldi svo fyrstu skrefin í garðvinnunni hljóta að vera á næsta leyit. Sólin hækkar stöðugt á lofti og hefur líka sín áhrif á kvöldrútínu Signýjar og Hugrúnar. Það er að koma "sumarnótt", svo ég vitni í Signýju. Birtan er farin að teygja sig fram yfir háttatíma. Í vikunni settum við upp teppi fyrir gluggann sem myrkratjald, svona rétt á meðan þær sofna. Svo kemur myrkrið fljótlega í kjölfarið - næstu vikurnar að minnsta kosti.
föstudagur, apríl 16, 2010
Pæling: Tímabundin skyndiöldrun
Undanfarnar vikur hafa verið undarlegar, rammaðar inn af tveimur eldgosum. Það byrjaði með því að ég meiddist í baki, eins og fram kom síðast. Það hafði þær afleiðingar að ég var með eins konar "vöðvabólgu" milli herðablaðanna og upp eftir hálsi. Það olli þreytu, síþreytu til að byrja með. Þegar læknisskoðun leiddi í ljós að líklega væru "bara" vöðvarnir í bakinu tímabundið laskaðir (en ekki hryggjarliðirnir eða rifbein) ákvað ég að byrja að hreyfa mig á ný. Við það varð mér deginum ljósara að ég yrði lengi að ná mér. Ég gat ekki einu sinni skokkað varlega út í búð um það bil viku eftir að meiðslin áttu sér stað. Tilfinningin var mjög óþægileg: Mér fannst eins og verið væri að kippa stöðugt í hryggjarsúluna ofanverða. Ég reyndi sund en allt kom fyrir ekki. Ég gat tekið bringusundstök varlega en var alveg ófær um snúningana sem fylgja skriðsundi. Í tvær vikur gat ég sem sagt lítið sem ekkert hreyft mig, var þreyttur og orkulítill og var það líklega bæði afleiðing af vöðvabólgunni og hreyfingarleysinu. Á sama tíma missti ég af tækifærinu til að þeysast út á land og skoða glæsilegt túristagos. Ég gat ekki hugsað mér að "fara" í bakinu uppi á viðsjárverðum Fimmvörðuhálsinum og tók þessu af vissu æðruleysi. Ég þurfti alla vegana ekkert að velkjast um í vafa um það hvort ég ætti að æða út í óblíða náttúruna á þessum tíma árs. Ég hafði mig því hægan og fylgdist með úr fjarska. Öðru hvoru varð mér hugsað til þess að hugsanlega væri ég eitthvað skaddaður varanlega en myndi líklega geta skokkað með tímanum. Einhvern veginn tókst mér að sætta mig við þá tilhugsun og einbeitti mér að því að styrkja mig með æfingum. Gönguferðir yfir náttúrlegt undirlag eru til að mynda frábær leið til að styrkja bakvöðvana heildrænt og nýtti ég það óspart, ásamt heitum bökstrum og heitum pottum öðru hvoru. Svo gerðist það um síðustu helgi að ég var einn með stelpurnar heima (Vigdís á kvöldvakt) og mér tókst að beita mér eitthvað vitlaust, líklega vegna þess að ég var að hlífa mér, þannig að ég "fór" alveg í mjóbakinu. Þá var ég orðinn slæmur bæði í bakinu uppi (milli herðablaðanna) og niðri samtímis. Samfara þessu glímdi maður við kvef (veirusýkingu og kuldaköst) ásamt fyrstu bylgju af ofnæmisköstum (kláða í nefi og augum). Þetta voru ekki þægilegir dagar. En þar sem verkurinn í bakinu ofanverðu var eitthvað á undanhaldi náðí verkurinn niðri að yfirtaka skynjunina. Hann knúði mig til að hvíla mig enn markvissar og fékk ég ágætt tækifæri til að sofa út og hvíla mig um helgina. Ég gætti þess sérstaklega að beita mér rétt, hreyfa mig rétt og fara mér hægt. Eftir tveggja daga rósemi og hæglæti var ég orðinn miklu betri neðantil og uppgötvaði mér til ánægju að ég var búinn að gleyma "efri" verknum. Hann var sem sagt því sem næst horfinn með hinum. Þetta fannst mér hálf kyndugt og minnti mig á klassíska ráðið sem maður gefur við höfuðverk; maður stígur bara á tána (þá gleymsit höfuðverkurinn).
Núna eftir helgina hef ég getað hreyft mig dálítið. Fyrst í stað þorði ég ekki annað en að ganga rösklega og með tímanum prófaði ég að skokka - og það tókst (án verkja)! Þvílík orka sem maður fær út úr því! Mér fannst ég ganga í endurnýjun lífdaga. Mér sem hafði liðið eins og gamlingja um tíma frískaðist allur upp á ný. Í leiðinni veltir maður því fyrir sér hvað það er mögnuð upplifun að standa frammi fyrir heilsubresti og ná að yfirstíga hann. Góð heilsa blasir við manni sem gjöf eftir á sem maður tekur fegins hendi og reynir að varðveita. Á sama tíma er ég meðvitaðri en fyrr um allt það fólk úti á götu eða í umhverfi manns sem ekki býr yfir góðri heilsu, fólk sem gengur um bogið eða er svo stíft að það getur ekki beygt sig. Fólk sem dregur fótinn eða gengur skakkt. Það þarf ekki mikið út af að bera.
Núna eftir helgina hef ég getað hreyft mig dálítið. Fyrst í stað þorði ég ekki annað en að ganga rösklega og með tímanum prófaði ég að skokka - og það tókst (án verkja)! Þvílík orka sem maður fær út úr því! Mér fannst ég ganga í endurnýjun lífdaga. Mér sem hafði liðið eins og gamlingja um tíma frískaðist allur upp á ný. Í leiðinni veltir maður því fyrir sér hvað það er mögnuð upplifun að standa frammi fyrir heilsubresti og ná að yfirstíga hann. Góð heilsa blasir við manni sem gjöf eftir á sem maður tekur fegins hendi og reynir að varðveita. Á sama tíma er ég meðvitaðri en fyrr um allt það fólk úti á götu eða í umhverfi manns sem ekki býr yfir góðri heilsu, fólk sem gengur um bogið eða er svo stíft að það getur ekki beygt sig. Fólk sem dregur fótinn eða gengur skakkt. Það þarf ekki mikið út af að bera.
miðvikudagur, mars 31, 2010
Fréttnæmt: marsyfirlit
Eins og fram hefur komið hef ég verið í vandræðum með tölvuna undanfarið. Það skýrir að hluta til langavarandi þögn. Nú er hins vegar komið að mánaðarmótum og kannski tímabært að líta aðeins um öxl á þá atburði sem standa upp úr í mars...
Þrennt stóð upp úr: frábærir tónleikar í Salnum, ferming Fannars (systursonar) og meiðsli.
Ég fór á tónleika með Beggu systur 10. mars síðastliðinn í Salnum. Þau Jóhanna Guðrún og Ingó voru með dúettaprógramm af ýmsu tagi. Sumt var mjög "svalt" (Johnny Cash dúettar og Nick Cave, svo eitthvað sér nefnt) og annað var poppað og grípandi (lög úr Grease eða Dirty Dancing). Allt steinlá meira eða minna. Þau tvö bættu hvort annað upp mjög skemmtilega. Hann er einstaklega öruggur á sviði og á gott með að tala við salinn og slá á létta strengi á meðan hún er með einstaka rödd og lyftir gæðunum á næsta plan. Hann náði sem sagt að taka stífnina svolítið úr Jóhönnu Guðrúnu en hún neyddi hann til að taka á honum stóra sínum sem söngvara til þess eins að standa uppi í hárinu á henni. Og það getur hann svo sem. Það eiga þau hins vegar sameiginlegt að vera geysilega músíkölsk bæði tvö og geta leikið sér svolítið með tónlistina. Útkoman var því frábær í líflegu og áhugaverðu prógrammi. Sem er eins gott því mér skilst að tónleikarnir hafi verið teknir upp (og aðrir tvennir tónleikar haldnir í kjölfarið að auki). Ég er eiginlega er illa svikinn ef þau ætla ekki að herja á innanlandsmarkað með sumrinu. Með því að gefa plötuna úr í byrjun sumar yrðu þau eflaust eftirsótt á sveitaböllum og árshátíðum langt fram eftir ári. Það getur ekki annað en gengið upp því sérstaða prógrammsins er algjör og vinsældir þeirra sem söngvara í algjöru hámæli um þessar mundir. Það verður spennandi að sjá hvað setur.
Svo er það ferming Fannars (sonar Beggu, fyrir þá sem ekki vita). Það var sunnudaginn 21. mars og var haldið í sal sem mamma hafði aðgang að gegnum vinnuna. Í fermingum koma jafnan saman tveir fjölskylduvængir sem ekki hafa stöðug samskipti sín á milli. Útkoman er oft vandræðaleg og stíf en í þetta skipti er ég á því að veislan hafi verið með afslappaðra móti. Það var eitthvað heimilislegt við staðsetninguna. Maturinn hitti í mark og allir lögðu sig fram um að eiga góða stund saman. Það tókst ljómandi vel, að mínu mati. Við gáfum Fannari Japönskunámskeið sem mér skilst að hann hafi verið kampakátur með auk þess sem ég hvatti Villa bróður til að bæta við áhugaverðri japanskri teiknimynd í einskonar Disney-heimi þeirra Japana. Hún er hugsuð sem kynning á japönskum hugarheimi auk þess sem hægt er að horfa á hana bæði á ensku og japönsku (með enskum texta).
Svo er það meiðslin sem ég varð fyrir rétt fyrir páskafrí. Ég meiddi mig í baki og var verulega áhyggjufulur yfir því að hafa mögulega skaðað mig varanlega á hrygg. Með tímanum útilokaði ég þann möguleika og fannst líklegast að ég hefði brákað rifbein. Úrskurður læknis eftir vandlega þreifingu á beinagrindinni bakatil var hins vegar sakleysislegri: Bakvöðvarnir voru aumir eftir höggið. Annað ekki. Sársaukinn við það eitt að hósta var hins vegar svipaður - stingandi!
En hvað kom fyrir? Ég skammast mín of mikið fyrir það til að greina frá hér en ef einhver vill fá nánari skýringu má ganga eftir því í eigin persónu. Því mun fylgja saga af fáránlegum fíflaskap.
Þrennt stóð upp úr: frábærir tónleikar í Salnum, ferming Fannars (systursonar) og meiðsli.
Ég fór á tónleika með Beggu systur 10. mars síðastliðinn í Salnum. Þau Jóhanna Guðrún og Ingó voru með dúettaprógramm af ýmsu tagi. Sumt var mjög "svalt" (Johnny Cash dúettar og Nick Cave, svo eitthvað sér nefnt) og annað var poppað og grípandi (lög úr Grease eða Dirty Dancing). Allt steinlá meira eða minna. Þau tvö bættu hvort annað upp mjög skemmtilega. Hann er einstaklega öruggur á sviði og á gott með að tala við salinn og slá á létta strengi á meðan hún er með einstaka rödd og lyftir gæðunum á næsta plan. Hann náði sem sagt að taka stífnina svolítið úr Jóhönnu Guðrúnu en hún neyddi hann til að taka á honum stóra sínum sem söngvara til þess eins að standa uppi í hárinu á henni. Og það getur hann svo sem. Það eiga þau hins vegar sameiginlegt að vera geysilega músíkölsk bæði tvö og geta leikið sér svolítið með tónlistina. Útkoman var því frábær í líflegu og áhugaverðu prógrammi. Sem er eins gott því mér skilst að tónleikarnir hafi verið teknir upp (og aðrir tvennir tónleikar haldnir í kjölfarið að auki). Ég er eiginlega er illa svikinn ef þau ætla ekki að herja á innanlandsmarkað með sumrinu. Með því að gefa plötuna úr í byrjun sumar yrðu þau eflaust eftirsótt á sveitaböllum og árshátíðum langt fram eftir ári. Það getur ekki annað en gengið upp því sérstaða prógrammsins er algjör og vinsældir þeirra sem söngvara í algjöru hámæli um þessar mundir. Það verður spennandi að sjá hvað setur.
Svo er það ferming Fannars (sonar Beggu, fyrir þá sem ekki vita). Það var sunnudaginn 21. mars og var haldið í sal sem mamma hafði aðgang að gegnum vinnuna. Í fermingum koma jafnan saman tveir fjölskylduvængir sem ekki hafa stöðug samskipti sín á milli. Útkoman er oft vandræðaleg og stíf en í þetta skipti er ég á því að veislan hafi verið með afslappaðra móti. Það var eitthvað heimilislegt við staðsetninguna. Maturinn hitti í mark og allir lögðu sig fram um að eiga góða stund saman. Það tókst ljómandi vel, að mínu mati. Við gáfum Fannari Japönskunámskeið sem mér skilst að hann hafi verið kampakátur með auk þess sem ég hvatti Villa bróður til að bæta við áhugaverðri japanskri teiknimynd í einskonar Disney-heimi þeirra Japana. Hún er hugsuð sem kynning á japönskum hugarheimi auk þess sem hægt er að horfa á hana bæði á ensku og japönsku (með enskum texta).
Svo er það meiðslin sem ég varð fyrir rétt fyrir páskafrí. Ég meiddi mig í baki og var verulega áhyggjufulur yfir því að hafa mögulega skaðað mig varanlega á hrygg. Með tímanum útilokaði ég þann möguleika og fannst líklegast að ég hefði brákað rifbein. Úrskurður læknis eftir vandlega þreifingu á beinagrindinni bakatil var hins vegar sakleysislegri: Bakvöðvarnir voru aumir eftir höggið. Annað ekki. Sársaukinn við það eitt að hósta var hins vegar svipaður - stingandi!
En hvað kom fyrir? Ég skammast mín of mikið fyrir það til að greina frá hér en ef einhver vill fá nánari skýringu má ganga eftir því í eigin persónu. Því mun fylgja saga af fáránlegum fíflaskap.
fimmtudagur, mars 18, 2010
Fréttnæmt: Tímamót að vori
Nú er aldeilis vor í lofti. Einstaklega fallegt veður - enda á ég afmæli í dag. Ég lít alltaf á þetta sem tímamót, ekki bara í mínu lífi heldur verða tilfinnanleg straumhvört í veðurfari líka. Veturinn er á bak og burt og vorið boðar komu sína. Afmælið mitt er eins og Lóan, boðberi vorsins, nema það að ég er á undan :-)
Mér finnst talan 38 að sumu leyti skuggaleg ef maður veltir því mikið fyrir sér en ásættanleg af því hún er svo yfirveguð. Hér er staldrað við í passlegri fjarlægð frá fertugsaldrinum. Annað en 37 ára aldurinn sem er óstöðugur - enda prímtala. Mér fannst einhvern veginn alltaf erfitt að muna hvað ég var gamall á liðnu ári, jafnvel þó 3 plús 7 séu tíu.
Gamall? Nei, mér finnst ég ekkert hafa elst síðan ég var 28. Hins vegar er alltaf lengra og lengra síðan ég fæddist.
Mér finnst talan 38 að sumu leyti skuggaleg ef maður veltir því mikið fyrir sér en ásættanleg af því hún er svo yfirveguð. Hér er staldrað við í passlegri fjarlægð frá fertugsaldrinum. Annað en 37 ára aldurinn sem er óstöðugur - enda prímtala. Mér fannst einhvern veginn alltaf erfitt að muna hvað ég var gamall á liðnu ári, jafnvel þó 3 plús 7 séu tíu.
Gamall? Nei, mér finnst ég ekkert hafa elst síðan ég var 28. Hins vegar er alltaf lengra og lengra síðan ég fæddist.
miðvikudagur, mars 17, 2010
Fréttnæmt: Tölvuleysi
Nú er ég búinn að vera tölvulaus í nokkra daga. Ég fór með hana í yfirhalningu hjá vini mínum og gaf honum svigrúm til að sinna henni eftir eigin hentugleikum. Það þarf bara að uppfæra stýrikerfi og ýmis grunnforrit. Fyrir vikið hef ég ekki getað skrifaði tölvupóst eða sinnt blogginu sem skyldi. Núna er hins vegar róleg stund í vinnunni...
(Tímabundið innskot: Hef bætt smá klausu við síðustu færslu, praktískar upplýsingr um veitingar í Borgarnesinu)
(Tímabundið innskot: Hef bætt smá klausu við síðustu færslu, praktískar upplýsingr um veitingar í Borgarnesinu)
þriðjudagur, mars 09, 2010
Pæling: Náttúruskoðun og útúrdúrar í bústaðaferð
Eins og fram kom síðast fórum við í bústaðarferð um helgina. Við dvöldum í bústað í Svignaskarði, Borgarfirði. Ég nýtti tækifærið og skoðaði mig lítillega um. Veðrið var ekki sérlega notalegt reyndar. Það hafði skollið á með skyndivetri, bálhvasst fyrsta daginn með frosti. Á laugardeginum snjóaði. Síðan þiðnaði þetta allt saman. Upp úr krafsinu hafði ég athyglisvert myndefni sem lýsir veðrinu. Fyrst staðnæmdist ég við lítinn poll með athyglisverðar frostmyndanir. Yfirborðið hafði fokið upp á nokkur stingandi strá og frosið í taumum upp stráin eins og grýlukerti á leið upp á við.
Klakastrá
Originally uploaded by Steiniberg.
Síðan kíkti ég á nánasta umhverfi. Svignaskarð er um það bil kílómetra frá vegasjoppunni Baulu, sem er rétt fyrir sunnan Munaðarnes. Menn kannast eflaust við einkennandi bergmyndanir í Borgarfirði - klettastalla sem standa upp úr sléttlendinu vítt og breitt. Þarna er hins vegar að finna þröngt og flott gil sem fer eflaust fram hjá flestum. Það virkar mjög tilkomumikið í þeim hálfkaraða vetrarbúningi sem umhverfið var búið. Gömul brú rétt fyrir neðan þjóðveginn gerir staðinn myndrænni en ella:
Bruargil
Originally uploaded by Steiniberg.
Svo fór maður í bíltúr í Borgarnes. Mikið er það áhugaverður bær! Það er hægt að hringsóla um bæinn og skoða endalaust, enda náttúrlegt bæjarstæði mjög stöllótt og lifandi. Það sem vakti upphaflega áhuga minn var að kíkja á útíbú Laugarásvídeós. Þeir hafa verið með leigu á Borgarnesi um nokkurt skeið og var það til þess að þeir gátu hafið starfsemi í Reykjavík tiltölulega fljótlega á ný eftir brunann í fyrra. Útibúið bjargaði innbúinu! Annars vakti helst athygli mína frábær leikvöllur fyrir börn sem kallast Bjössaróló. Þetta er sögufrægur heimasmíðaður leikvöllur á fremur óaðgengilegum en afar spennandi stað. Leiktæki eru hvert öðru ævintýralegra og öll umgjörðin vönduð. Vegna veðurs gátum við ekki staldrað lengi við (það var bálhvasst) og ég náði fyrir vikið ekki almennilegum myndum til staðfestingar þessari fjálglegu lýsingu. Útsýnið frá staðnum verður því að duga! Þetta er gönguleiðin þangað :-)
Bjossarolo
Originally uploaded by Steiniberg.
Ferðin í Borgarfjörðinn (og Borgarnesið, nánar til tekið) hins vegar ekki aðeins upplífgandi náttúruupplifun og bæjarrölt. Hún var líka svolítið lærdómsrík. Við lærðum af misjafnri reynslu hvar best væri að næra sig í Borgarnesinu. Þar sem margir þurfa að staldra þar við á leiðinni norður hlýtur þetta að teljast praktískar upplýsingar. En það var þannig að við byrjuðum ferðina á því að borða afleitan mat á leiðinni í bústaðinn í Hyrnunni. Eftir á að hyggja hefði sú niðurstaða átt að vera fyrirsjáanleg. Staðurinn er erilsamur og frekar stór og ákaflega ópersónulegur. Hann hentar ágætlega stórum hópum, fullum rútum af skólaferðalöngum til dæmis. Staðurinn fyrir neðan, Shell-sjoppan, er hins vegar mikið huggulegri, afslappaðri og býður upp á töluvert betri mat. Það sannreyndum við á leiðinni heim. Verðið er kannski svipað en andrúmsloftið og gæði matarins í öðrum klassa. Ég fékk mér hrísgrjóna- og rækjufylltan pönnukökuvafning með karrísósu á meðan Vigdís prófaði djúpsteiktan fisk sem reyndist mun betri en sambærilegur fiskur á hinum staðnum. Þarna var hægt að slaka á og njóta mun betra útsýnis en af hinum staðnum (beint fyrir ofan brúna). Þetta ætlum við Vigdís svo sannarlega að hafa í minnum þegar við keyrum norður eða vestur næst - einhvern tímann í sumar, vonandi.
Klakastrá
Originally uploaded by Steiniberg.
Síðan kíkti ég á nánasta umhverfi. Svignaskarð er um það bil kílómetra frá vegasjoppunni Baulu, sem er rétt fyrir sunnan Munaðarnes. Menn kannast eflaust við einkennandi bergmyndanir í Borgarfirði - klettastalla sem standa upp úr sléttlendinu vítt og breitt. Þarna er hins vegar að finna þröngt og flott gil sem fer eflaust fram hjá flestum. Það virkar mjög tilkomumikið í þeim hálfkaraða vetrarbúningi sem umhverfið var búið. Gömul brú rétt fyrir neðan þjóðveginn gerir staðinn myndrænni en ella:
Bruargil
Originally uploaded by Steiniberg.
Svo fór maður í bíltúr í Borgarnes. Mikið er það áhugaverður bær! Það er hægt að hringsóla um bæinn og skoða endalaust, enda náttúrlegt bæjarstæði mjög stöllótt og lifandi. Það sem vakti upphaflega áhuga minn var að kíkja á útíbú Laugarásvídeós. Þeir hafa verið með leigu á Borgarnesi um nokkurt skeið og var það til þess að þeir gátu hafið starfsemi í Reykjavík tiltölulega fljótlega á ný eftir brunann í fyrra. Útibúið bjargaði innbúinu! Annars vakti helst athygli mína frábær leikvöllur fyrir börn sem kallast Bjössaróló. Þetta er sögufrægur heimasmíðaður leikvöllur á fremur óaðgengilegum en afar spennandi stað. Leiktæki eru hvert öðru ævintýralegra og öll umgjörðin vönduð. Vegna veðurs gátum við ekki staldrað lengi við (það var bálhvasst) og ég náði fyrir vikið ekki almennilegum myndum til staðfestingar þessari fjálglegu lýsingu. Útsýnið frá staðnum verður því að duga! Þetta er gönguleiðin þangað :-)
Bjossarolo
Originally uploaded by Steiniberg.
Ferðin í Borgarfjörðinn (og Borgarnesið, nánar til tekið) hins vegar ekki aðeins upplífgandi náttúruupplifun og bæjarrölt. Hún var líka svolítið lærdómsrík. Við lærðum af misjafnri reynslu hvar best væri að næra sig í Borgarnesinu. Þar sem margir þurfa að staldra þar við á leiðinni norður hlýtur þetta að teljast praktískar upplýsingar. En það var þannig að við byrjuðum ferðina á því að borða afleitan mat á leiðinni í bústaðinn í Hyrnunni. Eftir á að hyggja hefði sú niðurstaða átt að vera fyrirsjáanleg. Staðurinn er erilsamur og frekar stór og ákaflega ópersónulegur. Hann hentar ágætlega stórum hópum, fullum rútum af skólaferðalöngum til dæmis. Staðurinn fyrir neðan, Shell-sjoppan, er hins vegar mikið huggulegri, afslappaðri og býður upp á töluvert betri mat. Það sannreyndum við á leiðinni heim. Verðið er kannski svipað en andrúmsloftið og gæði matarins í öðrum klassa. Ég fékk mér hrísgrjóna- og rækjufylltan pönnukökuvafning með karrísósu á meðan Vigdís prófaði djúpsteiktan fisk sem reyndist mun betri en sambærilegur fiskur á hinum staðnum. Þarna var hægt að slaka á og njóta mun betra útsýnis en af hinum staðnum (beint fyrir ofan brúna). Þetta ætlum við Vigdís svo sannarlega að hafa í minnum þegar við keyrum norður eða vestur næst - einhvern tímann í sumar, vonandi.
mánudagur, mars 08, 2010
Daglegt líf: Þriggja ára afmæli Togga
Við skruppum í bústaðaferð um helgina í tilefni af þrítugsafmæli Togga (hennar Ásdísar). Fóstrurnar vissu upp á hár hvað var í vændum, meira að segja hjá henni Hugrúnu. Hún var búin að greina frá því að hún væri á leið upp í sumarbústað, að þar væri "heitur pottur", að hann Toggi ætti afmæli. Hann væri "þriggja" ára.
Ég sagði henni Vigdísi frá þessu á leiðinni úr bænum og hún hló að sjálfsögðu góðlátlega að þessari glöggu athugun og frásögn Hugrúnar. Þá heyrðist úr aftursætinu, skýrt og skorinort: "Pabbi! Mamma! Þetta er ekki fyndið!" Aftur var það Hugrún. Maður gleymir því stundum hvað þær heyra vel og hlusta vel.
Í afmælinu í sumarbústaðnum fór vel um alla. Þar var margt um manninn. Einhverju sinni mátti ég til að endurtaka þessa sögu af Hugrúnu í veislunni, enda hún skammt undan, og minntist í kjölfarið á Togga sem "afmælisbarnið" í því samhengi. Það fannst Hugrúnu hins vegar skjóta verulega skökku við að kalla hann "barn" og ákvað að leiðrétta mig: "Hann er ekki afmælisbarn. Hann er þri...." og svo staldraði hún við andartak áður en hún leiðrétti sig "...hann er 4 ára".
Ég sagði henni Vigdísi frá þessu á leiðinni úr bænum og hún hló að sjálfsögðu góðlátlega að þessari glöggu athugun og frásögn Hugrúnar. Þá heyrðist úr aftursætinu, skýrt og skorinort: "Pabbi! Mamma! Þetta er ekki fyndið!" Aftur var það Hugrún. Maður gleymir því stundum hvað þær heyra vel og hlusta vel.
Í afmælinu í sumarbústaðnum fór vel um alla. Þar var margt um manninn. Einhverju sinni mátti ég til að endurtaka þessa sögu af Hugrúnu í veislunni, enda hún skammt undan, og minntist í kjölfarið á Togga sem "afmælisbarnið" í því samhengi. Það fannst Hugrúnu hins vegar skjóta verulega skökku við að kalla hann "barn" og ákvað að leiðrétta mig: "Hann er ekki afmælisbarn. Hann er þri...." og svo staldraði hún við andartak áður en hún leiðrétti sig "...hann er 4 ára".
fimmtudagur, mars 04, 2010
Fréttnæmt: Athyglisverð myndlistarsýning fyrir barnafjölskyldur
Nú er að koma helgi og tímabært að minna fólk, einkum barnafólk, á merkilega sýningu sem klárast einmitt um þessa helgi. Verið er að sýna í Gerðubergi myndskreytingar íslenskra barnabóka (með bækurnar sjálfar til hliðsjónar). Þetta er grípandi sýning fyrir bæði börn og foreldra. Ekki veit ég nákvæmlega hvenær húsið er opið en þó veit ég fyrir víst að bókasafnið, sem er til húsa í sömu byggingu, er opið báða helgardagana frá eitt til fjögur. Tilvalið að kíkja með fjölskyldunni. Sjálfur rataði ég þangað um síðustu helgi fyrir tilviljun á leiðinni á bókasafnið. Sem betur fer voru Signý og Hugrún með í för og nutu góðs af. Við mættum á svæðið rétt fyrir hálf fjögur og næstum því misstum af opnun bóksafnsins því myndverkin á neðri hæðinni voru svo skemmtileg.
sunnudagur, febrúar 28, 2010
Daglegt líf: Litið um febrúaröxl
Nú þegar stysti mánuður ársins er á enda runninn er ekki úr vegi að taka saman allt lauslegt (=segja frá því helsta sem ekki hefur komist að enn þá). Þrennt ber hæst upp á síðkastið: A) Öskudagsbúningar Signýjar og Hugrúnar, B) fjögurra ára skoðun Signýjar og C) tónleikar Emilíönu Torrini, sem við Vigdís fórum á.
A) Ólíkt öskudeginum í fyrra lögðum við svolitinn metnað í að búa sjálf til búninga í ár. Mig minnir að þær hafi verið einhvers konar prinsessur í fyrra (með englavængi) - mjög auðvelt hugmynd - en núna fengu þær sjálfar að nota hugmyndaflugið. Signý var alltaf með á hreinu að hún vildi vera kisa, eins og þær sem hún horfir á í "Cats" söngleiknum. Það var nú ekki svo flókið. Við fundum nettan dansbúning og áttum kisueyru. Annað var bara spurning um útfærslu. Andlitsfarðinn var líka til staðar og ekki lengra síðan en í sumar að við máluðum þær báðar mjög veglega sem kisur. Núna var málið að gera bara enn betur og hafa búning með. Hugrún var hins vegar með örlítið erfiðari hugmynd. Hún vildi vera Mikki mús! Eftir smá umhugsun sáum við hins vegar að þetta ætti heldur ekki að vera svo ýkja erfitt. Aðalmálið var hins vegar að finna síðerma svartar buxur og bol og sníða á hana eldrauðar Mikkamúsbuxur með gulum hnöppum. Buxurnar reyndist hægðaleikur að sníða í vinnunni hjá mér því ég naut góðs af afar hæfum handmenntakennara í skólanum. Síðerma svartur bolur var hins vegar mesti höfuðverkurinn eftir allt saman því svartur er ekki sérlega vinsæll litur í þessari stærð. Hann fer börnum yfirleitt ekki svo vel :-) En það reddaðist og árangurinn má sjá á myndasíðunni.
B) Signý fór í fjögurra ára skoðun í mánuðinum og stóð sig vel. Hún var reyndar mjög feimin og misskildi eitt verkefnið. Þegar hún var látin endurtaka nokkrum sinnum hopp á öðrum fæti og var leiðrétt aftur og aftur (af því hún vildi styðja sig við) fór hún í baklás. Vildi varla telja upphátt þegar að því kom. En feimnin rann svo af henni áður en yfir lauk og hún kláraði mun flóknari verkefni í lokin með glans.
C) Svo fórum við Vigdís á eftirminnilega tónleika í Háskólabíói um síðustu helgi. Emilíana hefur mjög tilgerðarlausa sviðsframkomu og nær að heilla alla með einlægninni. Lögin voru mjög fjölbreytt enda hefur ferillinn hennar verið mjög breytilegur gegnum tíðina. Síðustu tvær plötur eru til dæmis mjög ólíkar en báðar hreint frábærar, sú fyrri mjög innileg og persónuleg en hin nokkuð flippuð og hugdjörf. Lagavalið var að mestu leyti helgað þessum tveimur plötum í bland við nokkra eldri gullmola. Persónulega fannst mér flutningurinn hennar á "Birds" standa upp úr (það lag fattaði ég ekki almennilega fyrr en á tónleikunum) og svo hið svakalega sýrukennda "Gun" sem ég hef nýverið haldið hvað mest upp á af lögunum hennar. Það lag var lang magnaðasti hluti tónleikanna að mínu mati. Hins vegar voru upphitunarlistamennirnir líka mjög eftirminnilegir og stálu nánast senunni, svo góðir voru þeir. Sá fyrri var þjóðlagasöngkona sem minnti mig mjög á Lhasa de Sela (sem ég einmitt minntist á nýlega) og hin var rísandi nýstirni frá Bretlandi, söngvari af guðs náð. Sá seinni heitir Joe Worricker en ég hef enn ekki getað komist að því hver hinn listamaðurinn er - jafnvel ekki með hjálp netsins.
A) Ólíkt öskudeginum í fyrra lögðum við svolitinn metnað í að búa sjálf til búninga í ár. Mig minnir að þær hafi verið einhvers konar prinsessur í fyrra (með englavængi) - mjög auðvelt hugmynd - en núna fengu þær sjálfar að nota hugmyndaflugið. Signý var alltaf með á hreinu að hún vildi vera kisa, eins og þær sem hún horfir á í "Cats" söngleiknum. Það var nú ekki svo flókið. Við fundum nettan dansbúning og áttum kisueyru. Annað var bara spurning um útfærslu. Andlitsfarðinn var líka til staðar og ekki lengra síðan en í sumar að við máluðum þær báðar mjög veglega sem kisur. Núna var málið að gera bara enn betur og hafa búning með. Hugrún var hins vegar með örlítið erfiðari hugmynd. Hún vildi vera Mikki mús! Eftir smá umhugsun sáum við hins vegar að þetta ætti heldur ekki að vera svo ýkja erfitt. Aðalmálið var hins vegar að finna síðerma svartar buxur og bol og sníða á hana eldrauðar Mikkamúsbuxur með gulum hnöppum. Buxurnar reyndist hægðaleikur að sníða í vinnunni hjá mér því ég naut góðs af afar hæfum handmenntakennara í skólanum. Síðerma svartur bolur var hins vegar mesti höfuðverkurinn eftir allt saman því svartur er ekki sérlega vinsæll litur í þessari stærð. Hann fer börnum yfirleitt ekki svo vel :-) En það reddaðist og árangurinn má sjá á myndasíðunni.
B) Signý fór í fjögurra ára skoðun í mánuðinum og stóð sig vel. Hún var reyndar mjög feimin og misskildi eitt verkefnið. Þegar hún var látin endurtaka nokkrum sinnum hopp á öðrum fæti og var leiðrétt aftur og aftur (af því hún vildi styðja sig við) fór hún í baklás. Vildi varla telja upphátt þegar að því kom. En feimnin rann svo af henni áður en yfir lauk og hún kláraði mun flóknari verkefni í lokin með glans.
C) Svo fórum við Vigdís á eftirminnilega tónleika í Háskólabíói um síðustu helgi. Emilíana hefur mjög tilgerðarlausa sviðsframkomu og nær að heilla alla með einlægninni. Lögin voru mjög fjölbreytt enda hefur ferillinn hennar verið mjög breytilegur gegnum tíðina. Síðustu tvær plötur eru til dæmis mjög ólíkar en báðar hreint frábærar, sú fyrri mjög innileg og persónuleg en hin nokkuð flippuð og hugdjörf. Lagavalið var að mestu leyti helgað þessum tveimur plötum í bland við nokkra eldri gullmola. Persónulega fannst mér flutningurinn hennar á "Birds" standa upp úr (það lag fattaði ég ekki almennilega fyrr en á tónleikunum) og svo hið svakalega sýrukennda "Gun" sem ég hef nýverið haldið hvað mest upp á af lögunum hennar. Það lag var lang magnaðasti hluti tónleikanna að mínu mati. Hins vegar voru upphitunarlistamennirnir líka mjög eftirminnilegir og stálu nánast senunni, svo góðir voru þeir. Sá fyrri var þjóðlagasöngkona sem minnti mig mjög á Lhasa de Sela (sem ég einmitt minntist á nýlega) og hin var rísandi nýstirni frá Bretlandi, söngvari af guðs náð. Sá seinni heitir Joe Worricker en ég hef enn ekki getað komist að því hver hinn listamaðurinn er - jafnvel ekki með hjálp netsins.
fimmtudagur, febrúar 25, 2010
Myndasyrpa úr bústað og frá Öskudag
Þessa myndasyrpu set ég hér á meðan ég hugsa um hvað ég ætla að skrifa næst. Í leiðinni minni ég á að myndasíðan hefur verið virkjuð aftur.
Myndasyrpa úr bústað og frá Öskudag .þriðjudagur, febrúar 23, 2010
Upplifun: Kúplingarsaga bílsins
Ef einhver skyldi hafa velt vöngum yfir örlögum bílsins úr síðustu færslu þá er hann í mjög góðu standi þessa dagana. Sagan er hins vegar brokkgeng og nær aftur til janúarmánaðar 2008 þegar ég átti í spennuþrungnum samskiptum við bifvélavirkja. Þá var skipt um kúplingu í bílnum og leiddist það út í eftirminnilega atburðarás eins og ég greindi ítarlega frá í þremur pistlum. Á þeim tíma sem liðinn er hefur bíllinn plumað sig ágætlega og gírskiptingin verið í góðu lagi, með smá dagamun kannski, sem mér hefur virst fara eftir raka og hitastigi að einhverju leyti. Núna fyrir nokkrum vikum síðan fór bíllinn hins vegar að verða leiðinlegur á ný. Það gerðist akkúrat vikuna fyrir bústaðaferðina. Á nokkrum dögum versnaði bíllinn úr því að láta sérkennilega í að geta ekki skipst á milli gíra. Hann var óökufær með öllu nokkrum dögum fyrir bústaðaferð. Hræðileg tímasetning! Þá kom Sverrir, bróðir Vigdísar, okkur til bjargar og vann í bílnum í eina tvo daga. Fyrst átti að redda þessu fyrir horn en með tímanum kom í ljós að kúplingin væri ónýt. Aftur! Sverri munaði hins vegar ekkert um að stússast í þessu og reddaði öllum varahlutum og bíllinn var orðinn eins og nýr daginn fyrir brottför. Við vorum auðvitað dauðfegin en samt svolítið hvekkt líka. Ég skildi ekki hvernig kúpling gæti farið á aðeins tveimur árum. Það er orðið ansi mikill aukakostnaður að þurfa að gera þetta á tveggja ára fresti.
Um það bil viku eftir bústaðaferðina gerðist hins vegar það ótrúlega: Gírarnir fóru að standa á sér! Enn einu sinni. Þessi forsaga skýrir kannski hvers vegna ég var svo ráðalaus þegar bíllinn brást mér síðast (sjá síðustu færslu). Ég hafði ekki hugmynd um hvað væri að gerast og rétt náði að klöngrast á bílnum í öðrum gír á áfangastað þar sem ég hringdi í Sverri. Honum brá sjálfum mikið við lýsinguna á bílnum og kom hið snarasta, fór með bílinn upp í bílskúr til sín og kíkti á hann. Rúmlega klukkutíma seinna kom hann aftur og sagðist hafa komið auga á galla í sjálfum pedalanum - en ekki kúplingunni - alls óskyldur galli en með sömu einkennum. Hann reddaði þessu fyrir horn til að ég kæmist heim og lagaði svo til fullnustu seinna um kvöldið. En ég velti því hins vegar fyrir mér hvort pedalinn hafi verið orsök þess að síðasta kúpling slitnaði svo fljótt? Einnig, hvort slitin kúpling verki einnig neikvætt á pedalann? Maður þarf að beita sér óeðlilega á pedalanum ef kúplingin er slitin. Allt hlýtur þetta að verka á víxl og ég vonast svo sannarlega, út frá þeirri kenningu, að nú hafi verið komist endanlega fyrir þennan veikleika í bílnum.
Um það bil viku eftir bústaðaferðina gerðist hins vegar það ótrúlega: Gírarnir fóru að standa á sér! Enn einu sinni. Þessi forsaga skýrir kannski hvers vegna ég var svo ráðalaus þegar bíllinn brást mér síðast (sjá síðustu færslu). Ég hafði ekki hugmynd um hvað væri að gerast og rétt náði að klöngrast á bílnum í öðrum gír á áfangastað þar sem ég hringdi í Sverri. Honum brá sjálfum mikið við lýsinguna á bílnum og kom hið snarasta, fór með bílinn upp í bílskúr til sín og kíkti á hann. Rúmlega klukkutíma seinna kom hann aftur og sagðist hafa komið auga á galla í sjálfum pedalanum - en ekki kúplingunni - alls óskyldur galli en með sömu einkennum. Hann reddaði þessu fyrir horn til að ég kæmist heim og lagaði svo til fullnustu seinna um kvöldið. En ég velti því hins vegar fyrir mér hvort pedalinn hafi verið orsök þess að síðasta kúpling slitnaði svo fljótt? Einnig, hvort slitin kúpling verki einnig neikvætt á pedalann? Maður þarf að beita sér óeðlilega á pedalanum ef kúplingin er slitin. Allt hlýtur þetta að verka á víxl og ég vonast svo sannarlega, út frá þeirri kenningu, að nú hafi verið komist endanlega fyrir þennan veikleika í bílnum.
mánudagur, febrúar 15, 2010
Pæling: Félagslegt innsæi Signýjar
Það er að koma betur og betur í ljós hvað Signý er mikill friðarsinni og diplómat. Hún hefur ávallt minnt okkur á að lækka róminn ef við spennumst eitthvað upp, jafnvel bara yfir handboltaleik. Hún sagði mér eitt sinn skýrt og skorinort að "maður á alltaf að vera góður". Hvaðan hún hefur það veit ég ekki :-)
Núna upp á síðkastið kemur þetta viðhorf sem sagt betur og betur í ljós með frumkvæði hennar á ögurstundu. Þegar Hugrún grætur - til dæmis eftir að hafa verið skömmuð - er Signý fyrst á vettvang til að hugga hana. Stundum færir hún henni uppáhalds bangsana hennar - eða sína eigin - og leggur sig virkilega fram. Um daginn var svo vasaljósadagur í leikskólanum. Af tilefninu eignuðust þær báðar nett vasaljós og voru þær mjög uppteknar af leik með ljós og myrkur allt kvöldið. Hugrún fór hins vegar ekki eftir settum reglum (opnaði vasaljósið og var í sífellu að fikta í rafhlöðunum) og fór að hágráta þegar ljósið var fjarlægt (eftir ítrekaða viðvörun, að sjálfsögðu). Hún gaf sig ekki og hélt áfram að gráta og spurði í sífellu um vasaljósið á meðan við foreldrarnir hunsuðum viðbrögðin. Þá kom Signý með sitt vasaljós á vettvang og bauð henni: "Sjáðu, Hugrún, ég FANN ljósið ÞITT!". Það sem vakti athygli mína var ekki sú fórnfýsi að láta sitt vasaljós af hendi heldur vissi hún að Hugrún myndi ekki viljað annað en sitt eigið ljós. Þetta krafðist ekki bara fórnfýsi heldur ákveðins félagslegs innsæis líka, að hagræða sannleikanum svolítið til hvatningar.
Núna um helgina bræddi hún mig hins vegar alveg. Ég var á leiðinni í heimsókn með þær tvær og bíllinn fór að láta mjög illa á miðri leið. Hann gat ekki með góðu móti skipt á milli gíra, einhverra hluta vegna. Ég var þreyttur í ofanálag og varð mjög pirraður við þetta. Tók bensín, þungt hugsi, og ætlaði svo af stað á ný. Bíllinn komst hins vegar ekki nema í fyrsta gír svo ég renndi honum á plan rétt hjá. Ég hugsaði mitt rjúkandi ráð. Veðrið var leiðinlegt og ég sá fyrir mér vesenið að hringja í leigubíl og fara aftur með honum heim, með stelpurnar og stólana. Ég var hálf hjálparvana yfir þessu vegna þess að bíllinn var nýkominn úr viðgerð út af einmitt þessu, með glænýja kúplingu! Fannst þessi vandi ætla að elta mig endalaust. Þá fann ég allt í einu hvað þær Signý og Hugrún voru hljóðar. Þær skynjuðu auðvitað hvað ég var pirraður og sögðu ekki orð fyrr en ég leit til þeirra. Þá sagði Signý hughreystandi: Pabbi, við getum alveg labbað?
Núna upp á síðkastið kemur þetta viðhorf sem sagt betur og betur í ljós með frumkvæði hennar á ögurstundu. Þegar Hugrún grætur - til dæmis eftir að hafa verið skömmuð - er Signý fyrst á vettvang til að hugga hana. Stundum færir hún henni uppáhalds bangsana hennar - eða sína eigin - og leggur sig virkilega fram. Um daginn var svo vasaljósadagur í leikskólanum. Af tilefninu eignuðust þær báðar nett vasaljós og voru þær mjög uppteknar af leik með ljós og myrkur allt kvöldið. Hugrún fór hins vegar ekki eftir settum reglum (opnaði vasaljósið og var í sífellu að fikta í rafhlöðunum) og fór að hágráta þegar ljósið var fjarlægt (eftir ítrekaða viðvörun, að sjálfsögðu). Hún gaf sig ekki og hélt áfram að gráta og spurði í sífellu um vasaljósið á meðan við foreldrarnir hunsuðum viðbrögðin. Þá kom Signý með sitt vasaljós á vettvang og bauð henni: "Sjáðu, Hugrún, ég FANN ljósið ÞITT!". Það sem vakti athygli mína var ekki sú fórnfýsi að láta sitt vasaljós af hendi heldur vissi hún að Hugrún myndi ekki viljað annað en sitt eigið ljós. Þetta krafðist ekki bara fórnfýsi heldur ákveðins félagslegs innsæis líka, að hagræða sannleikanum svolítið til hvatningar.
Núna um helgina bræddi hún mig hins vegar alveg. Ég var á leiðinni í heimsókn með þær tvær og bíllinn fór að láta mjög illa á miðri leið. Hann gat ekki með góðu móti skipt á milli gíra, einhverra hluta vegna. Ég var þreyttur í ofanálag og varð mjög pirraður við þetta. Tók bensín, þungt hugsi, og ætlaði svo af stað á ný. Bíllinn komst hins vegar ekki nema í fyrsta gír svo ég renndi honum á plan rétt hjá. Ég hugsaði mitt rjúkandi ráð. Veðrið var leiðinlegt og ég sá fyrir mér vesenið að hringja í leigubíl og fara aftur með honum heim, með stelpurnar og stólana. Ég var hálf hjálparvana yfir þessu vegna þess að bíllinn var nýkominn úr viðgerð út af einmitt þessu, með glænýja kúplingu! Fannst þessi vandi ætla að elta mig endalaust. Þá fann ég allt í einu hvað þær Signý og Hugrún voru hljóðar. Þær skynjuðu auðvitað hvað ég var pirraður og sögðu ekki orð fyrr en ég leit til þeirra. Þá sagði Signý hughreystandi: Pabbi, við getum alveg labbað?
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)