sunnudagur, desember 30, 2007

Daglegt líf: Óvenjuleg jól

Þá eru jólin að baki. Venjulega förum við í mat til mömmu á aðfangadag, förum svo í jólaboð til systur Vigdísar og daginn eftir til pabba hennar. Þrjú boð í röð. Ágæt hefð. Í ár urðum við hins vegar að brjóta þetta upp vegna veikinda. Signý fékk blómstrandi hlaupabólu um það bil þegar Hugrún var að ná sér af sinni. Við fórum í fyrsta jóaboðið saman en eftir það tók ég það að mér að passa stelpurnar heima (á öðrum í jólum var Signý komin með 40 stiga hita og öll útsprungin). Vigdís mætti hins vegar fyrir okkar hönd. Ég var samt ekkert illa settur með mitt hlutskipti. Það var bara jólalegt á sinn hátt að vera heima í ró og næði og leika sér við dætur sínar. Snjóþunginn úti við gerði þetta bara enn huggulegra og einangrunina áþreifanlegri. Maður á líklega eftir að muna eftir þessum jólum með einhverjum fortíðarglampa í augum, svona eins og þegar maður rifjar upp rafmagnsleysi, sjónvarpslausa fimmtudaga og aflýsta skóladaga vegna óveðurs. Þetta var svolítið sérstakt.

mánudagur, desember 24, 2007

Fréttnæmt: Veikindi og jólakveðja

Ég vaknaði við dúnmjúkan nýfallinn snjó í morgun og naut þess að sópa af bílnum. Þetta var heldur óvænt eftir dumbungshaust og -vetur. Tímasetningin gæti ekki verið jólalegri. Jólastemningin heima hjá okkur er hins vegar undarleg. Signý og Hugrún eru stöðugt að glíma við kveisur. Ástandið fyrir um mánuði síðan (þegar ég talaði um "pensillínfjölskylduna") er bara djók miðað við það sem hefur komið í kjölfarið. Ég greini betur frá því síðar en í stuttu máli þá fórum við snemma á fætur í morgun til að skjótast á læknavaktina. Hugrún er komin með hlaupabóluna (b´lurnar skipta tugum) og er þar að auki með eyrnabólgu öðru megin og streptokokka sýkingu í hálsi (sem er verra en nokkur hálsbólga, skilst mér). Signý er á góðu róli en hefur undanfarið verið með lungnabólgu og eyrnabólgu sem lyfjagjöf hefur bjargað fyrir horn. Þetta kíkjum við hins vegar á betur seinna.

Jólaundirbúingur hefur allur rakast vegna stöðugra veikiinda. Tvísýnt er með jólakort (sem mörg hver verða áramótakort) og við þurftum að skera niður fjölda jólagjafa og þann tíma sem gátum leyft okkur í búðaráp verulega. En þetta reddast. Við förum í mat uppi í Dalseli og reynum að hafa það náðugt. Það verður góð tilbreyting að láta dekra aðeins við sig eina kvöldstund.

VIð óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og vonum að allir hafi það afar huggulegt.

þriðjudagur, desember 11, 2007

Fréttnæmt: Sagan endalausa

Loksins fæ ég mig til að skrifa. Það sem hefur haldið mér frá tölvunni er sambland af önnum og veikindum. Signý þurfti að fara á annan pensillín-kúr og á meðan var Hugrún með undarlegar hægðir í heila viku. Í kjölfarið fékk hún hita sem fór hækkandi. Við kíktum til læknis í tvígang, í seinna skiptið mættum við með þvagsýni. Í ljós kom að hún var með blöðrubólgu. Hún fór því á lyfjakúr líka. Sýnið fór hins vegar í rannsókn og í ljós kom að þar voru einar þrjá bakteríur að berjast um yfirrráðin. Það þarf að rannsaka þetta betur og Hugrún fer í ómun á næstu dögum til að ganga úr skugga um hvort þetta sé tilfallandi eða krónískt.

Þegar við höfðum hvað mestar áhyggjur af þessu veiktist ég. Ég hélt það hlyti bara að vera einhver aumingjaveiki vegna álagsins að undanförnu, en það var öðru nær. Ég er kominn með hlaupabólu, á gamals aldri. Ég fékk hana aldrei sem barn og það er skelfilegt að fá hana svona gamall. Hún leggst miklu þyngra á mann fyrir vikið. Ég var með 38 stiga hita fyrstu tvo dagana, síðan 39 og núna í dag var ég með 39,7. Svo á þetta að batna smám saman en svo lengi sem gamlar bólur eru enn þá að þorna og falla af mér er ég bráðsmitandi. Ég er í sóttkví og meldaði mig frá vinnu út vikuna (það verður líklega framhald á því).

Afmæli Signýjar er augljóslega í uppnámi. Það verður ekkert haldið hér innandyra. Kannski bökum við litla köku og færum henni eitthvað, en höfum þess í stað ákveðið að færa afmælisdaginn fram yfir áramót. Í stað þess að halda hann þrettánda des. höldum við hann á þrettándanum (6. jan). Okkur finnst það skemmtileg lausn, og þá er fólk afslappaðra en í aðdraganda jóla (og meiri líkur á að við verðum heil heilsu).

miðvikudagur, nóvember 21, 2007

Daglegt líf: Ikea-ferð á óhefðbundnum tíma

Við fórum í IKEA í kvöld. Venjulega leyfir maður sér þetta bara um helgar en okkur datt í hug að það væri þess virði að fara jafnvel þó maður væri hálfþreyttur eftir vinnu ef viðdvölin í IKEA er þeim mun afslappaðri. Það var sannarlega þess virði. Við dvöldum þar í mestu rósemd og yfirvegun frá fimm til hálf átta og fundum ekki fyrir þreytu. Signý naut þess að valsa um að vild og tók langar hlauparispur um sýningarbása og mannlausa ganga. Hugrún naut góðs af frábærri aðstöðu verslunarinnar (gjafaherbergi) og öll fengum við okkur að borða. Ég var hissa á því hvað grænmetisbuffið var vel heppnað hjá þeim. Stundum hef ég fengið í magann af mötuneytisfæðinu en í þetta skiptið fannst mér vera herslumunur á gæðunum. Kannski bara ég. En við mælum alla vegana eindregið með heimsókn þangað um fréttaleytið í miðri viku. Það er allt önnur búð sem tekur á móti manni þá en um stappaðar helgar.

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Fréttnæmt: Pensillínfjölskyldan

Á föstudaginn fyrir rúmri viku síðan fórum við með Signýju til læknis, sem skaffaði henni að bragði vikuskammt af pensilín-mixtúru. Hún reyndist vera bæði bólgin í hálsi og með sýkingu í eyrunum. Læknirins sagði okkur að þessar stuttu hitasóttir sem hún fékk helgi eftir helgi í síðasta mánuði (samfara þrálátum en mallandi og lágum hita) urðu sem sagt til þess að kvefið náði ekki að hreinsast og sýking tók að grassera. Núna er hún talsvert betri eftir kúrinn. Hún tók við mixtúrunni kvölds og morgna á hverjum degi (hún var mjög dugleg). Hitinn hvarf fljótlega og á þriðjudaginn var mætti Signý aftur í leikskólann. Hún er fjörug og virðist vera mjög frísk (alveg hitalaus) en þó má heyra hana hósta öðru hvoru auk þess sem það þarf reglulega að snýta. Við vonum að þetta fari að hverfa.

Ég var hins vegar með einhver leiðindi í hálsi líka á sama tíma og fattaði það eiginlega eftir læknisheimsóknina með Signýju. Ég kíkti læknis nokkrum dögum seinna. Kyngingarerfiðleikar og sár hálsbólga voru orðin meira en lítið pirrandi, auk þess sem þrálátur hósti angraði mig að degi og nóttu. Ég var hálf slappur dögum saman, en samt ekki almennilega veikur, og sinnti vinnunni bara með hangandi hendi. Það var því þess virði að fá lækningu, sem fólst í pensillínskammti (nema hvað). Ég var samferða Signýju kvölds og morgna - með sömu mixtúruna (mitt reyndar í töfluformi). Þetta er viss hagræðing, myndi maður ætla, en það reyndist samt ekki sérlega hjálplegt fyrir minnið að gera þetta svona samhliða. Mér fannst ég oft hafa tekið inn töfluna þegar ég hafði gefið Signýju sinn skammt. Svona blekkir hugurinn mann stundum.

Núna er ég orðinn miklu betri og er fullur af starfsorku (enn eimir þó eftir af hóstanum, en hálsbólgan er farin). Þá er hins vegar komið að Hugrúnu. Um helgina fékk hún einhverja sýkingu í augað og nefrennsli auk fjölskylduhóstans. Full kunnuglegt. Í kvöld var hún eirðarlaus og ekki sjálfri sér lík - þó gætti hún vandlega að því að sjarmera mann með innilegu brosi öðru hvoru (þannig að hún þjáist að minnsta kosti ekki). Þegar ég svæfði hana í kvöld hjalaði hún að minnsta kosti svo blíðlega að ég dró hálsbólgu stórlega í efa. Hún er sem betur fer hitalaus, enn þá, og á meðan hún sefur sæmilega vel erum við að vonast til að þetta líði hjá hratt og vel.

sunnudagur, nóvember 11, 2007

Upplifun: Skírnardagurinn mikli

Í dag fórum við í tvær skírnir. Fyrst í Dómkirkjunni þar sem sonur Ásdísar og Togga var skírður. Hann heitir nú Almar Steinn. Við Vigdís vorum búin að vita af nafninu ansi lengi enda nýttu þau Ásdís og Toggi okkur óspart sem ráðunauta (eins og við reyndar nýttum þau á sínum tíma). Almar þykir svolítið prakkaralegt nafn og þess vegna ágætlega við hæfi að gefa því jarðbunda aukamerkingu með því að vísa í stein.

Athöfnin í Dómkirkjunni var óvenju skemmtileg. Kór Menntaskólans í Reykjavík söng rausnarlega og séra Hjálmar fór á kostum. Hann var afslappaður (eins og hann eflaust er alltaf) og gerði góðlátlega grín að barnsgrátinum með því að vitna í brandara:

Kona nokkur sat með barn sitt í skírnarmessu undir predikun prests. Barnið var óhuggandi og hún reyndi hvað hún gat til að lægja grátinn. Þá hallaði presturinn sér í miðri ræðu í áttina að henni og sagði, svona til að róa hana: "Þetta er allt í lagi. Hann truflar mig ekkert". Þá sagði konan að bragði: "Nei, það er ekki málið. Það ert þú sem ert að trufla hann!"


Í þessum dúr brosti hann í áttina að Almari Steini og vitnaði upp frá því öðru hvoru í líðan hins nýskírða sveins: "Nú virðist Almar Steinn vera sofnaður", við góðar undirtektir salarins.

Við Vigdís vorum skírnarvottar og það var ekki búið að útskýra fyrir okkur hvernig við ættum að bera okkur að, hver ætti að halda á Almari og svo framvegis. Til þess gafst enginn tími, en Hjálmar var greinilega þaulvanur óundirbúinni þátttöku og stýrði athöfninni fumlaust, eins og vanur leikstjóri. Án fyrirvara reyndist heppilegt að við tækjum Signýju með okkur upp á altari þar sem hún stóð með okkur hinum sem eins konar "aukavottur". Hún stóð sig aldeilis vel. Hún var kyrr allan tímann og horfði yfirveguð fram á við í salinn, héld að sér höndunum, nánast eins og í bæn, á meðan presturinn fór með bænir. Síðan hélt ég á henni þegar við sungum skírnarsálminn.

Skírnarveislan var haldin á heimili foreldra Togga og við Vigdís gáfum okkur tíma til að staldra þar við í rúman klukkutíma, þar til klukkan sló hálf tvö. Þá tókum við Hugrúnu með okkur og ókum sem leið lá í Kópavoginn (Signý varð eftir í tryggum höndum aðstandenda í fyrri skírnarveislunni). Í Kópavoginum búa foreldrar Jóns Más en hann og Margrét skírðu dóttur sína þar á meðal sinna nánustu (og örfárra vina). Dóttir þeirra heitir því myndarlega nafni Melkorka Kristín. Fæstir þar inni höfðu haft hugmynd um nafnið en mér hafði tekist með nokkrum fyrirvara að spyrja Jón leiðandi spurninga og var kominn með kollgátuna varðandi fyrra nafnið. Melkorka er reyndar eitt af þeim nöfnum sem alltaf skaut upp kollinum öðru hvoru þegar við Vigdís leituðum að nafni fyrir dætur okkar tvær. Það verður gaman að fá að nota það í daglegu lífi.

Það að ganga um heimili foreldra Jóns rifjaði upp ýmsar minningar frá því þau bjuggu í Breiðholtinu fyrir alllöngu. Ég kom auga á mynd af honum tíu ára gömlum á vinnustofu foreldra þeirra. Ég man eftir sama svipnum á eldgamalli bekkjarmynd (kringum 1980). Þá leit hann nánast alveg eins út og Melkorka litla gerir í dag, en það á kannski eftir að breytast.

laugardagur, nóvember 10, 2007

Þroskaferli: Nokkur undarleg orð

Signý meðhöndlar algeng orð eins og henni sýnist. Eitt af uppáhaldsorðunum er "inniskórnir" sem hún fer í þegar ég skila henni af mér í leikskólanum. Hún sagði fyrst "innigoddí" en fór svo að segja það í öðru falli "innigóna". Eins eru sérkennileg orð fyrir þekkt fyrirbæri eins og önd og bíl. Bíl hefur hún reyndar talað um lengi. Fyrst notaðist hún við hljóðlíkingu (um það bil ársgömul) og þá gaf frá sér eins konar "raddað ell", eða "dl". Það minnir á hljóðið undan hjólbörðunum þegar bílarnir lötrast hægt fram hjá húsinu. Síðan hefur það þróast út í orðið "dl-la" (eða "díla"). Önd hefur þróast á svipaðan hátt. Hún talar um "Muagga" sem er komið undan hljóðinu "quack". Signý skeytti alltaf emmi á undan hljóðinu: "muagg". Það skilja hana því aðeins nánustu þegar hún biður um "Möggu".

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Þroskaferli: Signý i október

Ólíkt Hugrúnu þá var októbermánuður erfiður hjá Signýju. Hún fékk flensu í þrígang (hugsanlega sömu flensuna sem tók sig upp). Það var alltaf um helgi þannig að við gerðum ósköp lítið saman. Hún náði sér fljótt en fór sjaldnast í leikskólann fyrr en á þriðjudegi eða miðvikudegi. Núna er hún veik eina ferðina enn, var send heim úr leikskólanum á þriðjudag (eftir fríska helgi). Við ætlum að halda henni heima fram að helgi.

Það er helst af Signýju að frétta að þrátt fyrir krankleikann má greina meiri framfarir en áður í samskiptum. Fram til þessa var undarlega löng bið eftir nýjum orðum. Hún var með fínan orðaforða í kringum eins árs en svo gerðist tiltölulega lítið (kannski eitt nýtt orð á mánuði). Nú er biðin á enda. Orðin koma loks fjöldamörg, að minnsta kosti eitt nýtt orð á dag (yfirleitt nokkur í einu).

Almennt er Signý hins vegar orðin mikið virkari í að endurtaka og herma eftir. Maður heyrir mörg ný orð, en oft aðeins einu sinni. Hún er líka farin að taka virkan þátt í símaspjalli (sem hingað til hefur aðallega falist í hlustun í bland við já og nei). Hún svarar með vel völdum orðum og hlustar af athygli. Um daginn sagði ég mömmu frá þessu með lottóið (sem ég skrifaði um nýlega) og bað hana um að spyrja Signýju út í það. Þá glumdi við "Lottó" í henni og hún hljóp til og fann einn slíkan miða og "sýndi" símanum hann, býsna hróðug. Svo varð svipurinn hálf vandræðalegur, eins og hún velti því fyrir sér hvort amma sæi þetta nokkuð.

Þegar kemur að söng er Signý í essinu sínu. Hún er miklu duglegri að syngja en áður og er farin að botna textana á fullu. Eitt af uppáhaldsorðunum hennar er "glugginn" enda kemur það fyrir ótal oft þegar ég raula lögin hennar fyrir svefninn:

Fljúga hvítu fiðrildin, fyrir utan gluggann....
Ó hve létt er þitt skóhljóð, ó hve lengi ég beið þín. Það er vorhret á glugga....
Bíum, bíum, bambaló. Bambaló og dillidillidó. Vini mínum vagga ég í ró, en úti biður andlit á glugga....

Mér finnst þetta vera nánast alls staðar, eins og hún syngur það. Reyndar spurning hvort það sé uppbyggilegt að koma því inn hjá börnum að það sé alltaf þarna fyrir utan sem bíður við gluggann, tilbúið að gægjast inn.

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Þroskaferli: Hugrún í október

Október var mikill framfaramánuður hjá Hugrúnu. Hann byrjaði með því að hún fór í 5 mánaða skoðun og var vigtuð og mæld. Í gær fór hún svo í sex mánaða skoðun. Í fyrra skiptið var hún 6.8 kíló en orðin 7.4 mánuði seinna. Þessar vigtanir ramma inn eftirfarandi framfaraskref:

- Hugrún fékk fyrsta grautinn sinn í byrjun október (áttunda) og var farin að borða hann reglulega núna um mánaðarmótin. Fyrst var hún ekkert voða hrifin, ullaði grautnum út úr sér og kjamsaði á honum til skiptis (þetta sést ágætlega á myndinni hér fyrir neðan).


Grauturinn og Hugrún

- Hugrún byrjaði að skríða, eða öllu heldur mjaka sér. Vigdís kvikmyndaði það 15. október þegar hún seiglaðist út fyrir dýnuna markvisst en ákveðið. Síðan þá hefur hún verið mjög dugleg að færa sig til og er býsna hreyfanleg. Það er sérlega gaman að sjá það hvernig hún nær að nýta sér hreyfanleika sinn þegar Signý leggst við hliðina á henni. Signý er reyndar mjög dugleg að koma til móts við Hugrúnu en getur verið svolítið óaðgætin (og fer jafnvel hálfpartinn ofan á hana í bægslaganginum). Þá snýr Hugrún sér út úr klemmunni, lyftir fótunum upp í loftið og sveiflar sér til - eins og júdókappi.

- Við tókum eftir því nýlega að Hugrún hjalar stundum á innsoginu. Það er sérstaklega sætt. Þá færist da-da-da yfir í ma-ma-ma. Auðvitað er þetta ekki merkingarbært á þessu stigi, en samt notalegt að heyra.

- Hugrún hefur stundað ungbarnasund síðan í september og í miðjum mánuðinum var kennt að kafa. Hún stóð sig ótrúlega vel og kafaði a.m.k. þrisvar sinnum lengur en allir hinir. Flestir létu sér nægja að skima við yfirborðið en hún kafaði djúpt og synti með kröftugum fótatökum í áttina til mín þegar Vigdís sleppti. Hún uppskar gapandi undrun viðstaddra og kennarinn sagði stóreyg "Hún er ótrúleg". Það sem meira er, hún blés aldrei úr nös. Ég kalla hana líka stundum jógameistarann fyrir það hvað hún getur verið yfirveguð við krefjandi aðstæður ;-)

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Þroskaferli: Frekar óvænt orð Signýjar

Ég ætlaði mér að segja frá októbermánuði út frá Signýju og Hugrúnu, í sitt hvoru lagi. Það kemur næst vegna þess að í dag kom Signý mér verulega á óvart. Það best að segja frá því strax.

Við fórum í duglegan göngutúr í roki og talsverðum kulda. Komum svo inn og ég var upptekinn við að klæða hana úr kuldagallanum þegar hún benti upp á símaborðið í anddyrinu og sagði: Ljodú. Ég horfði upp því ég kannaðist ekki við orðið. Sá þar penna og grunaði að hún væri að vísa á hann (Lita). Sem sannur vísindamaður ákvað ég að gefa mér ekkert né spyrja hana leiðandi spurninga svo ég lyfti henni upp að borðinu og bað hana um að sýna mér. Þá benti hún á miða í miðri hirslunni: Lottó.

Ég var gapandi hissa vegna þess að við höfum aldrei minnst á lottó við hana. Það hvarflaði að mér hvort að þau hefðu talað um lottó í leikskólanum (oft lumar hún á nýjum orðum þaðan) en átti erfitt með að sjá fyrir mér slíka umræðu þar né heldur lottóleik af neinu tagi. Svo blasti það við mér að þetta hlyti hún að hafa "pikkað upp" úr sjónvarpinu. Við horfum ekki sérlega mikið á sjónvarpið en höfum þó til siðs að horfa á fréttatímann, - að minnsta kosti yfirlitið, og rétt fyrir fréttir er einmitt þessi stutti dagskrárliður: Lottó. Tónlist og mynd vinna þar saman í eftirminnilegu stefi sem kristallast í upphrópuninni "Lottó". Sú litla tekur auðvitað eftir svona löguðu enda er lógóið á miðanum einkennandi (hattur og gulir/rauðir stafir). Hún var að minnsta kosti ekki í vafa.

Hún er náttúrulega ekki byrjuð að lesa en þetta er vísbending um að athyglin sé í lagi og að hún eigi gott með að muna sjónrænt. Það á eftir að nýtast henni vel. Ég man þegar við vorum í bústaðnum í sumar, og þá var hún töluvert yngri, og hún tók eftir lógói sjúkraliðafélagsins í glugganum og benti síðan á það í dagbókinni, og á fánastöng. Þetta minnir mann á að börn sjá og taka eftir meiru en þeir geta tjáð sig um. Það er ábyggilega óþægilegt að geta ekki sagt frá öllu sem maður tekur eftir.

þriðjudagur, október 30, 2007

Upplifanir: Fuglamynd

Þó að mánaðaryfirlit sé í bígerð um þær systur Signýju og Hugrúnu langar mig að stelast til að segja frá Signýju frá í gær. Hún var heima, orðin nokkuð frísk eftir slenið og frekar eirðarlaus. Við tókum skorpu í að horfa á DVD-myndir, þar á meðal mynd sem mamma og pabbi gáfu henni um daginn um fugla (í seríunni um Cecile og Pepo). Þetta eru teiknimyndafígúrur sem setjast í kvikmyndasal og horfa á eina stuttmynd af annarri um dýrin sem eru til umfjöllunar. Fyrst lauma þeir ýmsum fróðleiksmolum til barnanna í um hálfa mínútu. Síðan breytist myndin (súmmað er inn í myndina og fram hjá þeim félögum) og við fylgjumst án orða með fuglunum við undirleik líflegrar tónlistar í um þrjár mínútur. Þetta er passlega langt fyrir ung börn, stutt kynning og ljóðræn mynd í kjölfarið. Fuglarnir sem eru í boði eru af ýmsu tagi: Ernir, fálkar, gæsir, lundi, gammar, páfagaukar, páfuglar, hegrar og fleiri fuglar (flestir framandi).

Signý kom upp um eitt af sínum sérlegu áhugasviðum þegar við völdum fuglamynd úr safninu. Hún benti alltaf á lundann. Þegar ég spilaði myndina fyrst lét hún sig hverfa inn í herbergi og kom galvösk til baka með lundadúkkuna sína. Hún stillti henni rausnarlega upp á borðinu sem við höfum á milli hennar og sjónvarpsins (svo hún freistist ekki til að vera of nærri skjánum). Ljóst var að hún ætlaði að sýna lundanum hvernig frændur hans hegða sér. Þarna sátu þau svo, félagarnir, og horfðu gagntekin.

Þá kom upp óvænt vandamál. Þessi tiltekna stuttmynd var ótrúlega misheppnuð. Það er greinilegt að margir ólíkir kvikmyndagerðarmenn hafa verið fengnir til að vinna stuttmyndirnar því sumar voru sérlega flottar og sniðugar. Lundamyndin var hins vegar hræðileg. Hún byrjaði á því að sýna lunda í návígi í nákvæmlega 15 sekúndur. Bara fínt. Síðan breytist myndin snarlega og við fylgjumst með skúmi sveima fram hjá fuglabjargi og verða fyrir aðkasti mávfugla, sem hann virðir að vettugi, snarar sér að einni syllunni og hrifsar með mér máv sem situr þar á eggi. Síðan flýgur skúmurinn með bráðina rakleiðis burt til sjávar þar sem hann sest og gerir að bráðinni. Þetta tekur um 45 sekúndur, og ekki einasti lundi í mynd. Næst sjáum við lundabyggð í fjarska (sem er nógu fjarlægt til að maður þurfi að grilla í þá). Yfir lundunum sveimar Svartbakur. Hann steypir sér niður og tekur með sér einn lunda og er að vandræðast með hann í loftinu góða stund, missir hann, tekur hann síðan upp aftur (á meðan lundinn spriklar varnarlaus). Því næst sporðrennir hann lundanum með þeim árangri að hann stendur hálfpartinn í honum. Þá kemur annar Svartfugl að og nær að draga lundann upp úr honum. Þá er miskunnarlaust togast á um hann í loftinu. Þetta tekur um það bil tvær mínútur. Eftir það súmmar vélin aftur upp að lundunum og sýnir prýðilega myndir af þeim í tuttugu sekúndur. Búið.

Ég lenti í vandræðum með þetta því ekki langaði mig til að sýna Signýju tóman óhugnað í tenslum við uppáhaldsfuglinn hennar. Þetta er eins að segja: Þetta er New York, og sýna bara myndbrot frá ellefta september. Hún fékk því að sjá fimmtán sekúndur í byrjun, hraðspólun, og svo tuttugu sekúndur í lokin. Þetta bað hún um aftur og aftur (enda bara stutt brot í boði). Mér finnst það með ólíkindum að gæðaeftirlitið á svona flottri spólu skuli vera svona gloppótt. Eflaust hefur mönnum þótt senurnar flottar, en þá gleyma þeir markhópnum, fyrir utan það að lundinn er nánast aldrei í mynd.

Fréttnæmt: Veikindi eina ferðina enn

Þetta er búið að vera strembið að undanförnu. Núna um helgina fékk Signý hitasótt eina ferðina enn (þriðja helgin í mánuðinum) og var heima á mánudaginn. Hún er orðin spræk núna en í kjölfarið fengum við Hugrún einhverja óværu líka. Hugrún virtist ná sér fljótt (var með nokkrar kommur í einn dag) en ég er enn hálf lemstraður. Ég mætti í vinnu í dag og vinnufélagarnir kepptust við að vísa mér heim snemma. Samt er ég ekki með neinn hita! Kallast það að vera veikur ef enginn hiti fylgir lasleikanum? Ég er samt áberandi slappur, rámur eins og kráka og tuskast til eins og brúða (og rek mig utan í reglulega vegna sljóleikans). Þetta er langt frá því að vera gaman. Verst er að geta ekki bara lagt sig og gleymt stund og stað eins og í gamla daga. Ég næ þó að leggja mig öðru hvoru.

Nú blasir vetrarfrí við frá fimmtudegi til og með þriðjudags: sex daga frí sem á að nýta vel til að hvílast og gera ýmislegt fyrir heimilið. Ég ætla svo sannarlega ekki að vera lasinn þessa daga. Vonandi næ ég að vinna upp bloggpásuna sem er að baki. Það er margt sem mig hefur langað að tjá mig um varðandi Signýju og Hugrúnu. Ætli það endi ekki með því að ég taki saman mánaðaryfirlit um þær báðar í fríinu.

laugardagur, október 20, 2007

Fréttnæmt: Heima um helgina

Fyrir um viku síðan vorum við Vigdís komin á fremsta hlunn með að kaupa okkur sameiginlegt armband á Airwaves-hátíðina. Við vorum búin að tékka á hljómsveitunum og ég náði meira að segja í nokkrar plötur á netinu til að kanna frekar. Við tókum jafnvel nokkrar Airwaves-skorpur og létum tölvuna (eða iPodinn) spila tilviljunarkennt upp úr sérstakri Airwaves-möppu sem ég hafði útbúið. En við hikuðum við að kaupa vegna þess að þar með myndum við setja utanaðkomandi pressu á okkur kvöld eftir kvöld. Hátíðin stendur yfir í fimm kvöld og ekki hægt að kaupa miða á stök kvöld. Armbandið myndi annað hvort draga annað okkar út úr húsi daglega alla þessa daga (sem er talsvert álag til lengdar þegar maður er með tvö börn) eða valda samviskubiti þau kvöld sem maður færi ekki. Svo hefðum við ekki getað farið saman á neina uppákomu, nema með því að kaupa tvö armbönd (eitt stykki er nógu dýrt = 8.500 kall).

Við vorum því eiginlega bara fegin þegar við fréttum af því að það hefði selst upp á hátíðina um síðustu helgi. Svo kom á daginn að Signý veiktist núna um helgina. Fékk hita í gær og liggur núna, örlítið að braggast. Við áttum því ekki séns. Við sjáum að sjálfsögðu ekki eftir tímanum sem fór í að kynda undir væntingarnar. Við kynntumst lítillega áhugaverðum sveitum eins og Bloc Party, Of Montreal og Grizzly Bear og áttum huggulegar hlustunarstundir saman.

Það var því í fullkomnu samræmi við þessa atburðarás að við skyndilega eignuðumst risastórt sjónvarp á miðvikudaginn var! Ásdís og Toggi hringdu í okkur og buðu okkur gamla sjónvarpið sitt (sem var þó ekki nema þriggja ára) því þau höfðu fjárfest í flötum skjá. Við hikuðum reyndar vegna þess að stofan okkar er ekki stór og vorum hrædd um að sjónvarpið yrði of ráðandi í rýminu. Hógværðin yfir gamla litla sjónvarpinu var okkur alltaf að skapi en það tæki var hins vegar orðið varhugavert vegna aldurs (og farið að sýna ýmis óvænt litbrigði og jafnvel bjóða upp á hátíðniískur einsöku sinnum). Þegar á reyndi kom stóra sjónvarpið hins vegar einstaklega vel út. Það er með grárri umgjörð og virkar því í heild ekki svo mikið stærra en litla sjónvarpið (sem var svart og þannig séð meira áberandi). Einnig er stóra sjónvarpið ekkert fyrirferðameira að öðru leyti, jafnvel eilítið grynnra og því vel hægt að ýta því lengra út í horn. Útkoman var því hreint afbragð. Núna njótum við þess að horfa á nánast hvað sem er. Jafnvel barnasjónvarpið er sjónræn upplifun. Það verður frábært að horfa á alvöru myndir í þessari græju og sé fyrir mér kvikmyndahátið áður en langt um líður.

þriðjudagur, október 16, 2007

Daglegt líf: Ótímabær afmælissöngur

Ótrúlega getur maður verið seinn að fatta stundum! Signý hefur undanfarið verið að biðja mig um að syngja "ammli". Ég hélt að hún væri að tala um "afmælissönginn". Þau syngja náttúrulega afmælissönginn í leikskólanum öðru hvoru. Reyndar er það bara gert einu sinni í mánuði (og þá er sungið fyrir öll afmælisbörn mánaðarins sama daginn og haldin pitsuveisla í leiðinni). Ég var því hissa á því hvað hún hamraði oft á þessu með "ammli" og truflaði mig jafnvel sérstaklega í miðjum söng með þetta mikilvæga "óskalag". Ég var minnugur þess að hún hefur áður komið heim með lagstúf á vörunum sem við höfðum ekki sjálf haldið að henni hér heima. Nýlega var það "sól, sól, skín á mig" sem hún sönglaði einn daginn upp úr þurru (án textans, en laglínan skýr og góð). Ég ákvað því að láta það eftir henni að syngja afmælissönginn öðru hvoru, eftir beiðni, og söng hann ýmist fyrir hana (tveggja ára í desember) eða fyrir ímyndaðan leikfélaga (hann á afmæli í dag) eða eitthvað álíka út í loftið - hálf vandræðalegt semsagt. En alltaf fannst mér hún taka hálf dræmt í sönginn. Hún kannaðist alveg við lagið en gladdist ekkert sérstaklega. Svo kom að því í dag að ég var eitthvað að raula yfir henni í baðinu og datt inn á gamlan slagara:

Gamli Nói

Þá tók hún ákaflega vel undir og kunni lagið miklu betur en mig minnti og sagði strax: Ammli.

Þau greinilega syngja þetta í leikskólanum. Við vorum eiginlega búin að gleyma Nóa gamla enda önnur lög í uppáhaldi þessa dagana ("Uppi á grænum, grænum himinháum hól" er í sérstöku uppáhaldi með miklum leikrænum tilþrifum Signýjar). En hann er velkominn heim, að sjálfsögðu, ekki síst vegna þess að nú sé ég feginn fram á að vera laus við að syngja afmælissönginn í tima og ótíma.

mánudagur, október 15, 2007

Upplifanir: Tónleikar og kvikmyndir

Það er mjög óheppilegt að maður skuli einmitt ekki hafa tíma til að skrifa þegar maður hefur frá hvað mestu að segja. Undanfarið höfum við Vigdís nefnilega leyft okkur þann munað að njóta þess besta sem borgin hefur upp á að bjóða og látið öðrum eftir að gæta dætranna okkar. Núna stendur yfir (ennþá, að því er best ég veit) kvikmyndahátið Reykjavíkur (RIFF) og við skelltum okkur á Sigurrósarmyndina "Heim". Myndin er undur. Svo einfalt er það. Ég er á því að þeir sem ekki hrífast af hljómsveitinni á þessari sýningu eru einfaldlega skyndaufir eða þurfa alvarlega á hjartaígræðslu að halda. Myndin spilar á allt litróf fegurðar, gerir talsverðar kröfur til næmni áhorfandans og þegar dramatíkin er hvað mest tekur hún sig ekki allt of hátíðlega. Ég er ekki hissa á að heyra talað um að þetta sé ein besta tónleikamynd sögunnar. Sú eina sem kemst upp á sama stall í mínum huga eru Pink Floyd-tónleikarnir "Live at Pompeii" (þar sem þeir léku í aldagömlu opnu hringleikahúsi í brennandi heitri miðdegissól. Ógleymanlegt).

Önnur mynd var sýnd á hátíðinni sem er ekki síður merkileg; Control. Það er eins konar heimildarmynd (afar nákvæm leikin eftirmynd) um feril hljómsveitarinnar Joy Division (sem áhugamenn um nýbylgjutónlist ættu að þekkja). Þessi mynd er eiginlega "Downfall" tónlistarheimsins því hér er mannlýsingin á aðalpersónunni (sem hnignar jafnt og þétt eins og Hitler í hinni myndinni) algjörlega óaðfinnanleg. Þeir sem til þekkja tala um að líkindin milli leikarans og aðalsöngvara sveitarinnar séu óhugnanleg. Einnig er myndin merkileg "heimild" því nánast ekkert myndefni hefur varðveist með hljómsveitinni. Leikstjórinn var ímyndarsmiður sveitarinnar á sínum tíma - tók frægustu ljósmyndirnar af sveitinni - og nær að fanga andrúmsloftið í svart-hvítu (eins og ljósmyndirnar voru) af einstakri listrænn smekkvísi.


Fjórar plötukápur Danielson


Svo skellti ég mér á eftirminnilega tónleika með hljómsveitinni "Danielson". Henni er best lýst sem Pixies á helíum (svolítið svipað lögum af fyrstu plötunni, eins og "I´ve Been Tired" og "Levitate Me"). Lögin eru hugmyndarík og full af skemmtilegri sérvisku. Ekki skemmdi það fyrir að hljómsveitinn tróð upp í Fríkirkjunni og klæddi sig upp í herklæði Hjálpræðishersins. Í anda biblíuskólanna virkjaði Danielson sjálfur salinn með klappköflum (sem hann kallaði "Clap-a-longs") enda ekki vanþörf í sumum lögum á að láta leiða sig gegnum fjölbreytilegar taktbreytingar. Þetta var mjög sérstakt og skemmtilegt.

þriðjudagur, október 09, 2007

Upplifun: Bubbi byggir datt

Signý kemur manni stundum á óvart. Sérstaklega þar sem hún bíður enn með að tala fyrir alvöru, en virðist skilja helling. Í dag var ég að spjalla við hana á meðan ég skipti á bleyjunni fyrir háttinn. Hún missti snuðið á gólfið og sagði "Dudda gúlli". Ég tók auðvitað undir þetta með henni, ánægður með að heyra hvernig orðin eru að raðast í einfaldar setningar. "Gólf" er nýtilkomið (sem "gúll") og hún er farin að nota það af meira öryggi en áður. Ég rétti henni snuðið aftur. Hún virtist hins vegar ekki fyllilega sátt við svarið mitt og sönglaði laglínu með fjórum nótum (og einhverju óljósara í framhaldi): Daaa-da-daa-daa. Ég kannaðist við laglínuna úr "Bubbi byggir" og var eiginlega hissa á að heyra hana syngja þetta, - var ekki viss því þessu lagi hefur aldrei verið haldið sérstaklega að henni. Ég söng þá bara með henni "Bubbi byggir" í þeirri von að hún væri að hugsa um sama lag og ég og setti hana svo upp í rúm. Þá benti hún á rúmið, eða púðann upp við vegginn, eða bara vegginn (ég var ekki viss) og sagði: "Duddi datt gúlli". Ég var ánægður með þessa setningu í ljósi þess að hún var nýbúin að missa snuðið á gólfið og bað hana að endurtaka svo að mamma hennar heyrði. Þá kom Vigdís í dyragættina. Signý benti áfram jafn dularfull á svipinn á sama stað og áður, sem ég áttaði mig loksins á að væri bilið á milli rúmsins og veggjarins, og sagði: "Duddi datt gúlli". Við vorum áfram jafn hissa. Þá söng hún aftur lagið: Daaa-da-daa-daa ("Bubbi byggir"). Eitthvað hlaut að hafa dottið þarna á milli svo ég ákvað að kíkja undir. Það fór eiginlega um mig þegar ég sá að þetta var bók!: "Bob the Builder" (Bubbi byggir). Mikið óskaplega var hún glöð þegar ég uppgötvaði þetta loksins!

Daglegt líf: Hitaflensa

Nú eru liðnir um það bil tveir mánuðir síðan leikskólinn hóf hauststarfsemi sína eftir stutt hlé í ágúst. Fram að því var Signý búin að missa mikið úr vegna veikinda en hefur verið alveg heil heilsu síðan (fyrir utan nefrennsli og svoleiðis), - þangað til á laugardaginn var. Þá fékk hún töluverðan hita. Hún var furðu hress miðað við að hitinn færi vel yfir 39 gráður, en fljótt syfjuð. Um nóttina kastaði hún upp og var mjög slöpp fyrri partinn á sunnudag. Síðan fór hitinn að lækka jafnt og þétt aftur. Hún var hitalaus yfir nóttina en við urðum að sjálfsögðu að halda henni heima daginn eftir. Þá kom í ljós hvað leikskólinn er mikið þarfaþing, sem útrás fyrir börnin. Signý var svo eirðarlaus og óþreytt á mánudaginn að það var beinlínis erfitt að fá hana til að sofna um kvöldið. Hún trítlaði fram hvað eftir annað (hún en náttúrulega í rimlalausu rúmi, eins og áður hefur komið fram, sem hefur þennan fyrirsjáanlega ókost). Hún var greinilega orðin fullfrísk og var áfram hitalaus og fór því aftur í leikskólann í dag. En þá er eins og þetta smotterí sem hrjáði hana hafi smitast yfir í Hugrúnu. Hún var eitthvað lítilsháttar slöpp í gær og er komin með hita í dag. Hann virðist hins vegar vera á undanhaldi nú þegar ég skrifa þetta þannig að ég geri ekki ráð fyrir frekari eftirmálum.

sunnudagur, október 07, 2007

Fréttnæmt: Leikfélagahópurinn stækkar

Þetta er mikil barnsburðarhelgi. Í gærmorgun fengum við þær fréttir að Jón og Margrét hefðu eignast um nóttina stálpaða og vel hærða dóttur. Rétt eins og Hugrún var hún fremur stór miðað við þyngd. Þá sagði Vigdís: "Hún fæðist löng og svöng", sem passaði ágætlega. Við hlökkum mikið til að heimsækja þau í vikunni og vonum að þau nái að hvílast vel.

Varla var maður búinn að ná sér af tilhugsuninni fyrr en ég kveikti á tölvunni í morgun. Lítill tími hefur gefist til þess undanfarið og ég var farinn að fá það á tilfinninguna að það væri farið að draga til tíðinda í Svíþjóð einnig (en þar búa Kristján og Stella ásamt Áslaugu Eddu litlu, og lítil systir á leið í heiminn). Ekki hafði spurst til þeirri í nokkra daga en nú kom í ljós hver ástæðan var: Þau eignuðust aðra dóttur sína farsællega á mánudaginn var.

Það er því mörgum gleðitíðindum að fagna og gaman að hugsa til þess að nú hafi fjölgaði í framtíðarleikfélagahóp Hugrúnar og Signýjar um heila tvo.

laugardagur, september 29, 2007

Upplifun: Lauf og leikur

Í gær hringdi Vigdís í mig í vinnuna og spurði mig hvort mig langaði ekki á "leikinn". Hún hafði nefnilega reddað mér tveim miðum á leik Vals og HK gegnum útvarpsstöð. Svona hugsar hún um mann jafnvel þegar maður er í burtu :-). Ég tók þessu gylliboði að sjálfsögðu vel, enda fátt skemmtielgra en að fara inn í helgina með fögrum fyrirheitum. Vigdís hafði sjálf reyndar ekki áhuga á leiknum svo ég þurfti að skima um eftir boltafélaga. Nokkrir komu til greina en fyrir tilviljun hringdi Jón Már einmitt í mig þegar ég var rétt að byrja að leita. Heimili Jóns er á mjög skemmtilegum stað með tilliti til uppákoma í dalnum, (í Álfheimunum) og þvi tilvalið að leggja bílnum þar, fjarri þvögunni, og ganga í rólegheitum á staðinn. Sú ganga var vel þess virði. Reyndar vorum við á því að gangan sjálf hafi slegið leiknum við því haustlitirnir allt í kring voru vægast sagt hrífandi. Grasagarðurinn er auðvitað vel skipaður fjölbreyttri flóru og það er hrein unun að sjá hvernig allir litirnir vega hvern annan upp. Sums staðar er augljóst að niðursetning plantnanna hafi verið hugsuð út frá haustlitunum. Ég dauðsá eftir að hafa ekki verið með myndavél og er eiginlega á því að það sé þess virði að skella sér aftur í dalinn, vopnaður vélinni góðu. Í kjölfarið fæddist sú hugmynd að fara í sambærilega ferð í Heiðmörkina á morgun. Það verður án efa skemmtilegt. Signý kemur með og hugsanlega Vigdís og Hugrún líka (í magabelti).

Hvað leikinn áhrærir (svo maður komi sér aftur að upphafspunktinum) þá var það prýðileg skemmtun að fylgjast með áhorfendum, eins og alltaf á svona leikjum. Ég tók eftir því að litla stúkan á móti var galtóm (á meðan sú stóra var bara hálffull). Líklega er þetta alltaf svona á deildarleikjum, því sætaval var frjálst. Allt í einu læddist að mér lítill stríðnispúki. Mig langaði allt í einu ógurlega mikið til að vera "þessi eini hinum megin". Ef ég hefði ekki haft félagsskap hefði ég líklega stokkið yfir og horft á allt mannhafið í mestu makindum. Svo hefði ekki verið úr vegi að taka nokkur spor, hoppa, veifa og láta á mér bera. Líklega myndi maður rata inn á nokkuð margar ljósmyndir, svona í bakgrunni, rétt eins og náunginn sem stundar það að smygla sér inn á konungsfjölskylduljósmyndir í Evrópu. Ég ber mikla virðingu fyrir svona hugsjónamönnum. En ég hætti við. Var of bláklæddur til að sjást almennilega (sú afsökun dugði mér að minnsta kosti). Kannski maður undirbúi þetta aðeins betur næst og mæti bara í rauðri og hvítri þverröndóttri prjónapeysu eins og Valli í bókinni frægu:-)

sunnudagur, september 23, 2007

Sjónvarpið: Snillingarnir

Í gærmorgun var tilhlökkun í loftinu eftir barnasjónvarpinu. Signý vissi reyndar ekki hvað var í vændum en við Vigdís vorum búin að bíða nokkuð lengi eftir seríu númer tvö með Snillingunum (Little Einsteins). Þetta er kennslufræðilega útpældar teiknimyndir um fjóra unga vini (og allsherjar farartækið þeirra) sem þurfa að leysa einhvern vanda (t.d. frelsa einn þeirra úr sápukúlu, hjálpa mús að ná sambandi við tunglið, finna týnt boðskort í fiðrildaveislu eða bara svæfa geimskipið þeirra með því að fljúga sólkerfið á enda). Til að leysta þrautirnar notast vinirnir við þekkt tóndæmi úr klassískri tónlistarsögu sem fylgir atburðarásinni allri eins og leiðarastef. Á sama tíma rennur bakgrunnsmyndin saman við þekkt málverk úr listasögunni. Svo birtast inn á milli þekktir staðir og náttúrufyrirbæri þannig að þættirnir sýna í leiðinni hvað Jörðin er merkilegur staður. Miðpunkturinn í hverjum þætti er hins vegar málverkið (eitt eða tvö) tónverkið, sem kynnt er í upphafi og afkynnt aftur formlega í uppklappi í lok þáttarins.


Signý fylgist vel með
Originally uploaded by Steiniberg.


Signý er heilluð af þessum þáttum og við Vigdís höfum sogast inn í þessa seríu með henni. Við fórum að taka upp þættina þegar langt var liðið á fyrstu seríu. Núna höfum við horft á þessa fáeinu þætti ótal oft og vorum farin að lengja eftir nýju efni. Næsta sería lofar góðu enda eru þættirnir framundan fullir af áhugaverðri tónlist og myndlist (eins og sjá má hér). Hver þáttur er frumsýndur á laugardagsmorgnum og endursýndur rétt fyrir fréttir á föstudögum, tæplega viku seinna.

fimmtudagur, september 20, 2007

Tilvitnun: Refaskyttuskets

Það var vægast sagt óborganleg grein i Fréttablaðinu í gær undir fyrirsögninni "Refaskytta í gæsaleit skaut tvo stóra útseli". Ég ætla svo sem ekkert að nefna manninn á nafn, en gef honum í staðinn orðið:

"Ég var bara að kíkja að gamni hvort ég sæi einhverjar gæsir"...en þá rak hann augun í útsel í víkinni, en þeir eru víst sjaldgæfir á þessum slóðum (Kaldbaksvík). "Ég sá einn svona hundrað metra frá landi og skaut hann. Ég var með veiðistöng og spún og ætlaði að húkka í hann og sá að ég dreif ekkert". Þá beið hann eftir því að selinn rak nær landi og var eitthvað að útbúa spotta til að ná til hans. "Þá sá ég að það var annar, enn þá stærri, úti á víkinni þannig að ég náði bara í riffilinn og plammaði hann líka". Síðan er sagt frá því í greininni hvernig hann hóaði í föður sinn og þeir komu selunum á land og hjálpuðust að við að "bisa skepnunum upp á bílpallinn". Selirnir vógu 325 og 232 kíló. Þá er sagt frá því að Hringormanefnd greiði (að sögn refaskyttunnar) þrjú þúsund krónur fyrir hvern selskjálka og fimmtíu krónur að auki fyrir hvert kíló sem dýrin vega, þannig að skyttan fékk um þrjátíu þúsund krónur fyrir báðar skepnurnar. Hann segist hins vegar ekki ætla að nýta dýrin neitt frekar: "Alla vega langar mig ekki í það. Ég bauð handverkskonu að hirða skinnið og hún var alveg himinlifandi en svo kom hún og skoðaði og sá að hún þyrfti kranabíl til að snúa honum svo hún hætti við. Ég verð bara að láta urða þetta."

Öll þessi atburðarás og orðfæri mannsins minnir mig á atriði úr Spaugstofunni, eða Fóstbræðraskets. Einhver afdala skytta þekkir ekkert nema að skjóta, vinnur við það að skjóta refi, ákveður að gera eitthvað annað til tilbreytingar en er á endanum kominn i einhverja vitleysu sem enginn græðir á. Eins og ofvirkur krakki sem fiktar við eitthvað og tekur sundur tæki og slítur snúrur úr sambandi bara til að hafa eitthvað fyrir stafni. Man einhver eftir Emil í Kattholti? Þannig hvatvísi er mér í huga þegar ég les þessa atburðarás. Ekkert hugsað um samhengi hlutanna, bara ætt áfram. Er þetta ekki kjörið dæmi um það þegar skotið er fyrst og spurt eftir á? :-)

Hvað er þetta annars með Hringormanefnd? Er þarna verið að hvetja til selveiða í því skyni að halda jafnvægi á dýrastofnum (eða halda í skefjum hringormum)? Þegar nefndir eða sjálfskipaðir sérfræðingar fara að hvetja til dýraveiða til þess að halda jafnvægi á vistkerfinu þá hljómar það eins og hver önnur hring(orm)avitleysa. Svona eins og þegar vitgrannur leiðtogi stórveldis fer út í heim að boða lýðræði. Náttúran sér um sig sjálf. Maður hefði alveg skilið það ef veiðimaðurinn hefði lagt selina sér til munns. Það eru allt aðrir sálmar.

Fyrir nokkrum mánuðum var sýnd heimildarmynd um Maó. Honum datt einn góðan veðurdag í hug að allar pestir bærust okkur með fuglum. Þá var fyrirskipað að hver kínverji skyldi kappkosta að útrýma fuglum í borginni. Konur, börn, fullvaxta karlmenn og gamalmenni veifuðu kússköftum út í loftið þangað til fuglarnir duttu niður örmagna. Þetta gerist bara í Kína. Fuglarnir drápust milljónum saman, en þeir komu samt aftur. Og það var aldrei neitt að þeim. Annað óborganlegt skets úr raunveruleikanum átti sér stað í fyrra þegar fuglaflensan átti að vera yfirvofandi (var hún það eða var þetta ímyndun?). Óttinn var svo mikill að menn voru farnir að líta alla fugla hornauga, einkum farfugla sem komu langt að. Hinn einstaki og óumdeilanlega stríðelskandi Shirinovski hvatti þá til þess að herinn skyti alla farfugla sem færu yfir landamærin til Rússlands. Þetta eru dæmi um menn sem þekkja bara vopnvald og bera ekki skynbragð á hið flókna og fíngerða samhengi hlutanna.

Fyrst ég minntist á Spaugstofuna áðan þá verður mér ósjálfrátt hugsað til brandara sem þeir settu í útvarpsþættina sína fyrir margt löngu, sem minnir sérlega á greinina um refaskyttuna sem ætlaði sér eitt en gerði svo eitthvað allt annað. Það var svona "skets" um mann sem fór í byggingarvöruverslun og ætlaði að kaupa "klósett" en fór út með "salerni".

Viðskiptavinur: Eigið þið nokkuð til klósett?
Sölumaður: Nei, ekki heilt klósett. En við eigum hins vegar stakar klær.
Viðskiptavinur: Nú? Eigið þið þá kló af fálka?
Sölumaður: Nei, en við eigum kló af erni.
Viðskiptavinur: Hvernig erni?
Sölumaður: Salerni.

laugardagur, september 15, 2007

Þroskaferli: Signý og dýrahugtökin

Signý er lífleg og hugmyndarík. Hún skilur okkur mjög vel og tjáir sig á lifandi hátt og notast við tilþrifamikið tungumál af einhverjum óþekktum uppruna, svipbrigði, dansspor og blærbrigðaríkt tónfall. Hún hermir eftir okkur stöðugt. Hins vegar notast hún við afar fá orð enn þá. Það hvarflar að mér hvort hún sé þessi týpa sem bíður með hlutina þar til hún er viss um að þeir séu í lagi og láti þá vaða. Hún er að minnsta kosti mjög varkár. Stundum velti ég því líka fyrir mér hvort hún eigi erfitt með einhver tiltekin hljóð og að það hamli henni á einhvern hátt. Til dæmis hefur hún ótal oft sagt "Hugrún" en ekki sitt eigið nafn. Þá segir hún í besta falli "Diddý" (sem okkur finnst samt óskaplega sætt og tímum ekki að leiðrétta). Ég man ekki eftir því að hafa heyrt hana bera fram "S" eða "T" enn þá. Kannski er það þröskuldur sem þarf að ryðja úr vegi. Hún er til dæmis farin að segja "leikskóli" með því að fara í kringum orðið: "Gégolí". Það styður a.m.k. S-kenninguna.

Einhvern tímann í haustbyrjun fór hún að taka eftir köngulóm. "Gogguljó" sagði hún af ákefð. Þá var ég nú viss um að orðaflaumurinn væri á leiðinni. Hins vegar varð þetta eina orð að þráhyggju. Einskær áhugi Signýjar á köngulóm varð til þess að hún sá köngulær í hverjum kima og tengdi meira að segja köngulóarvefi i bókum við köngulær (án þess að henni væri bent á það sérstaklega). Stundum finnst henni allar pöddur vera köngulær, en það er skiljanlegt. Það er eins og orðið eitt og sér hafi vakið athygli hennar á fyrirbærinu. Eða var það öfugt. Kom orðið upp úr eðlislægum áhuga á dýrum. Það er ekki svo afleit hugsun.

Hún þekkir fjöldamörg dýr og ég er ekki frá því að hún þekki sundur algengar fuglategundir nú þegar. Fyrir um mánuði síðan vorum við stödd á bókasafninu á Seltjarnarnesi, þar sem uppstoppaðir fuglar prýða innganginn í stóru glerbúri. Ég fór að spyrja hana út í loftið um krumma og uglu, sem hún þekkti. Það kom mér ekki svo mikið á óvart því þessir fuglar eru oft í myndabókum fyrir börn. Ég tók hins vegar upp á því að spyrja hana um kríu. Þegar hún benti rétt var ég verulega hissa. Hún hafði bara séð kríuna í fjarska, á flugi yfir fjörunni, og kannaðist aðallega við hljóðið. Tilviljun kannski? Við höfum ekki farið í þennan leik lengi en í dag kæmi mér síður á óvart að hún þekkti fuglinn. Hins vegar er lundinn í uppáhaldi þessa dagana. Hún á lundadúkku, mjög myndarlega, og hann er líka uppi á vegg á flottu plakati. Nýverið keypti ég póstkort handa henni með lunda. Það fannst mér stórsniðug hugmynd. Þannig er hágæða ljósmynd af fuglinum í höndunum á henni hvenær sem hún vill og má alveg krumpast.

fimmtudagur, september 13, 2007

Tilvitnun: Flottræfilsháttur samfélagsins

Ég er búinn að minnast á bakþanka Doktors Gunna við alla sem ég tala við í dag. Í dag hitti doktorinn naglann beint á höfuðið með lýsingu sinni á íslensku samfélagi, sem og endranær. Það er hægt að nálgast pistlana hans hér. Ég er ekki frá því að skrifin hans séu ein samhangandi frásögn, þematengd sem ein allsherjarlýsing á "ástandinu" sem ríkir í samfélaginu. Græðgiskenndur glundroðinn er honum hugleikinn og öll firringin og hræsnin sem honum fylgir. Gaman að fylgjast með þessu...

miðvikudagur, september 12, 2007

Fjórar myndir af Signýju

Já, ég gat ekki lengi á mér setið. Hér er myndasería Signýjar - með eilítið breyttri uppsetningu. Allt nýlegar myndir. Með því að birta þetta svona er ég hálft í hvoru að minna á myndasíðuna. Þar er fullt af nýjum myndum.




Fjórar myndir af Signýju
Originally uploaded by Steiniberg.

þriðjudagur, september 11, 2007

Fjórar myndir af Hugrúnu

Ég var að læra á skemmtilegt forrit á netinu sem vinnur náið með flick-myndsetrinu. Þetta kemur ótrúlega vel út. Ég get ekki beðið eftir að gera meira. Næst...Signý.


Fjórar myndir af Hugrúnu
Originally uploaded by Steiniberg.

mánudagur, september 10, 2007

Daglegt líf: Nýtt matarþema

Pabbi og mamma komu heim frá Grikklandi um daginn, sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi (enda ferðast þau tölvuert). Ekki urðu þau sérstaklega vör við eldana ógurlegu sem þar hafa geisað, að öðru leyti en því að bjarmann bar við nærliggjandi fjallasýn. Þau komu hins vegar færandi hendi með ýmsan grískan varning.

Hugrún og Signý fengu báðar kjól með dumbrauðu og ólífugrænu blómamynstri (miðjarðarhafsbragur á því). Einnig fengum við nettar en vandaðar grískar matreiðslubækur með girnilegum þjóðlegum réttum ásamt rauðvíni og fetaosti. Það á segja að þau hafi fært okkur gríska menningu á silfurfati. Ég var ekki lengi að nýta ostinn í matargerð. Í gær gerðum við einfaldan pastarétt sem samanstóð af tómötum og ólifum eingöngu (ásamt léttu kryddi). Með hvítlauknum og lauknum hefði þetta verið full ítalskt, en hann megum við helst ekki nota þessa dagana (laukar virðast fara illa í Hugrúnu gegnum móðurmjólkina). Við urðum því að leggja nýjar áherslur. Fetaosturinn kom þar sterkur inn ásamt ferskri agúrku lyfti matnum upp á annan stall.

Alvöru grískur fetaostur er öðruvísi en sá sem framleiddur er hér heima. Hann er bragðmeiri og öflugri. Ég kjamsa á honum einum og sér en ég hef tekið eftir því að flestir sem smakka hann vilja helst draga úr bragðinu með því að borða hann í bland við annað hráefni, í salötum og slíkum umbúnaði, svo öflugur er hann. Við fengu rausnarlegan skammt af ostinum þannig að hann á eftir að koma sér vel og nýtast næstu vikurnar. Það er því ljóst hvert matarþemað verður á okkar bæ þetta haustið. Ýtum Ítalíu aðeins til hliðar í bili.

laugardagur, september 08, 2007

Fréttnæmt: Frændafæðing

Í nótt eignuðust Ásdís (systir Vigdísar) og Toggi stálpaðan strák. Við erum búin að fylgjast vel með og ekki laust við að Vigdís hafi farið í gegnum spennuþrungið ferli. Ég átti hins vegar gott með að sofa í gegnum eftirvæntinguna og vaknaði við góðar fréttir. Við erum með þeim í anda á Hreiðrinu þar sem þau hafa það náðugt í nótt sem þriggja manna fjölskylda í fyrsta skipti.

sunnudagur, september 02, 2007

Netið: Myndirnar flæða inn

Nú er nýja tölvan komin að fullu í gagnið. Ég nýt þess að hespa af einfalda hluti sem sú gamla hökti á. Ég var til dæmis hættur að nenna að blogga reglulega vegna þess að innslátturinn var orðinn hægur (það er ótrúlega pirrandi þegar manni er mikið niðri fyrir). Ég miklaði það verulega fyrir mér að gera enn margslungnari hluti eins og að setja inn myndir. Núna er þetta ekkert vandamál.

Áður en ég sendi myndirnar inn þarf ég að forvinna þær lítillega. Það hef ég nú gert við marga tugi mynda. Ég ætla að láta þær læðast inn nokkrar í einu út vikuna. Nú þegar eru komnar nokkrar sem ég hef trassað og lýsa ýmsu sem ég hef sagt frá að undanförnu. Skoðið myndasíðuna reglulega á næstunni.

Til marks um metnaðinn þessa dagana hef ég endurunnið nokkurra daga gamla bloggfærslu, þessa um stórinnkaupin. Nú hefur hún verið myndskreytt nokkuð ítarlega.

föstudagur, ágúst 31, 2007

Upplifun: Fagnaðarfundir

Það er alltaf gaman að taka á móti Signýju í leikskólanum. Hún hrópar upp yfir sig "pa-ba" og ljómar öll. Ég hef tekið eftir því að þetta er líka ákveðið ánægjuefni hjá starfsfólkinu. Þegar ég gægist fyrir hornið á hana leika sér (og læt lítið fara fyrir mér) þá er sá starfsmaður sem fyrstur tekur eftir mér mjög fljótur að vekja athygli Signýjar á því að ég sé kominn og brosir svo í kampinn. Í gær var hún stödd í "salnum" (sem er ílöng stofa með púðum og grindum) og var stödd í fjærendanum þegar ég gægðist inn. Við það að taka eftir mér kom hún hlaupandi, tiplandi á táberginu, og stökk í fangið á mér (svona eins og "Húsið á sléttunni", ef menn muna eftir því). Þetta var í fyrsta skiptið sem ég sá hana virkilega hlaupa með þessum hætti. Ég tók þess vegna sérstaklega eftir því hvernig hún hljóp (hún er táfeti mikill). Ég velti því fyrir mér ósjálfrátt hvort hún væri að ná þessari hreyfifærni fyrst núna eða hvort hún gæti einfaldlega ekki hlaupið heima sökum plássleysis (þar sem þröskuldar og hurðir eru á alla kanta og herbergin frekar þröng). Seinna um daginn komu gestir í heimsókn til okkar og þá sá ég hana rjúka að dyrum, skoppandi með sínum hætti, á svipaðan hátt og í leikskólanum. Hún er bara orðin býsna örugg með sig. Það munar greinilega um leikskólann því hér heima hefði hún fengið minni hvatningu til að hlaupa um (í göngutúrum erum við svo róleg, að það er eiginlega heldur ekki að marka). Nú er hún búin að vera í leikskólanum samfellt í þrjár vikur án þess að veikjast, og það er gleðiefni fyrir okkur sem erum minnug þess hvað sumarið var erfitt að þessu leyti.

mánudagur, ágúst 27, 2007

Daglegt líf: Ýmis stórinnkaup

Undanfarnar vikur höfum við Vigdís látið verða af ýmsum fyrirhuguðum stórinnkaupum sem lengi hafa vaxið okkur í augum. Okkur vantaði stærra rúm fyrir Hugrúnu (sem er vaxin upp úr vöggunni), ég þurfti nauðsynlega að uppfæra tölvuna mína (sem var orðinn dragbítur í öllum verkefnum) og svo langaði mig mikið til að kaupa vagn fyrir Signýju sem hægt er að tengja við hjól þannig að við getum saman stundað alvöru útivist.

Við létum fyrst vaða rétt upp úr verslunarmannahelgi og keyptum þá þennan frábæra reiðhjólavagn í Erninum. Þetta er rándýr græja sem ég hafði haft í sigtinu vikum saman, en ákveðið að bíða með að kaupa þar til á haustútsölunni. Vagninn er hægt að tengja við hjól eins og ég reiknað með en alls kyns aukafylgibúnaður gerir manni kleift að breyta honum í ýmislegt annað. Það er hægt að breyta honum í skokkvagn (með stóru hjóli að framanverðu) og venjulega kerru (með tveimur nettum kerruhjólu) auk þess sem hægt er að festa hann við mittið og ganga fjöll eða setja undir hann skíði og arka með hann á göngusíðum. Við Signý erum bæði hæstánægð með vagninn og njótum þess að fara yfir torfærur í honum. Hann þolir það vel að skrönglast yfir stórgrýti á stóru hjólunum og þá samsetningu höfum við helst notað til þessa enda dugleg að fara í fjörurnar allt í kring.


Signý í nýju kerrunni
Originally uploaded by Steiniberg.



Nokkrum dögum eftir að ég keypti vagninn frétti ég (hjá sérlegum Macintosh-útsendara mínum) af mjög öflugri tölvu til sölu á ekki nema fjörtíu-þúsundkall! Eftir að hafa gaumgæft tölvuna vel og skoðað með fyrrum eiganda komst félagi minn að því að þetta væri afbragðstölva, mjög öflug (tveir gígabæta örgjörvar), með gott minni og hraðvirk. Hún klárar verkefni á augabragði sem hin réði varla við. Það sem var einna mest traustvekjandi við tölvuna var að fyrrum eigandi notaði hana til að klippa kvikmyndir (starfandi hjá Sjónvarpsstöð) og þurfti bara að losa sig við hana vegna þess að hann var að flytja til útlanda. Gæti ekki verið flottara!

Að endingu, ekki löngu síðar, keyptum við rúm handa Signýju. Hún fékk sem sagt nýtt rúm (eins og þetta hér nema í furu, gult semsagt) á meðan Hugrún fékk, í leiðinni, gamla rúmið hennar Signýjar. Báðar græddu þær á kaupunum. Reyndar var Signý ekkert allt of hress með þetta til að byrja með. Hún hristi hausinn þegar hún kom heim úr leikskólanum (við vorum búin að stilla öllu upp) og tuldraði "nei" fyrir munni sér. Það tók hana nokkra daga að átta sig almennilega á breytingunni og það sem meira var, hún sá að Hugrún fékk rúmið hennar.


Er þetta ekki rúmið mitt?
Originally uploaded by Steiniberg.



Kannski varð hún afbrýðisöm eða upplifði höfnun (Hugrún sefur inni hjá okkur en hún ekki), það vitum við ekki. Kannski fannst henni bara óþægilegt að hafa ekki rimlana. Við brugðum hins vegar á það ráð, til að hvekkja hana ekki frekar, að leyfa henni að sofa uppí hjá okkur fyrstu dagana. Þá vorum við þar saman í einu herbergi öll fjögur - mjög huggulegt - en á endanum fór Signý að sætta sig við nýja rúmið sem næturstað. Það fylgir hins vegar sögunni að Hugrúnu líður afar vel í stóra rúminu, enda var hún farin að bylta sér ansi mikið í vöggunni. Hún sefur lengur og værar en áður.


Breytt herbergi
Originally uploaded by Steiniberg.



Á meðan á öllu þessu stóð vorum við Vigdís nokkuð duglega að skoða íbúðir og fundum reyndar eina sem okkur langaði mikið í. Það munaði því pínulitlu að við keyptum íbúð í mánuðinum. Hún var bara verulega á mörkum þess að við réðum við hana og við þurftum að hugsa okkar gang. Á meðan fór hún tiltölulega snögglega (með manni og mús :-) og við skimum enn eftir nýrri. Reyndar er enginn asi á okkur. Við erum enn í traustu húsnæði á lágri leigu. Það er bara orðið ansi þröngt og farið að reynda fullmikið á þolinmæðina og leiðinlegt að horfa upp á íbúðarverð hækka mun hraðar en maður nær að safna.

En þetta er nú það helsta sem á daga okkar hefur drifið að undanförnu (fyrir utan það að ég skuli vera byrjaður að vinna aftur). Vegna tölvubreytinganna hef ég trassað það að setja myndir á netið (sem ég hafði lofað nýlega að gera) en það fer að detta inn heill hellingur núna í vikunni. Þá sýni ég m.a. nýja rúmið, nýja vagninn og eitthvað fleira.

föstudagur, ágúst 24, 2007

Upplifun: Fljótandi bókamarkaður

Í vikunni fór ég ítrekað um borð í geysistórt trúboðsskip sem lá við Ægisgarð (eða er það Ægishöfn?). Skipið er nefnilega stórmerklegt. Það er jú kristilegt, sem er í raun aukaatriði í mínu tilviki. Aðalmálið er að skipið er fljótandi bókamarkaður með bækur utan úr heimi (amerískar) á lygilega lágu verði (undir markaðsverði þar ytra). Helmingurinn tengist trúboði og kristilegu efni með ýmsum hætti eins og búast mátti við (fyrirlestrar um andleg málefni, tilraunir til að afhjúpa "lygi" þróunarkenningarinnar, Biblíur, sniðugar myndabækur fyrir börn og svo framvegis). Hinn helmingurinn er hins vegar gulrótin. Sá bókakostur bitastæður í meira lagi: Fræðibækur af öllum toga auk mjög vandlega úthugsaðra barnabóka og kennslubóka í ýmsum greinum. Sérstaklega leist mér vel á kennslubækurnar frá mileskelly útgáfunni (Smellið svo á "reference titles" ef þið viljið sjá dæmi um vel heppnað kennsluefni fyrir börn og unglinga).

Ég fór fyrst á stúfana sjálfur á sunnudaginn var, lét síðan skólann minn vita og fékk leyfi til að láta greipar sópa í kjölfarið, ásamt kollegum mínum (til að styðjast við ígrundað meirihlutaálit). Við misstum okkur hins vegar öll og komum til baka með fimm troðfulla poka af vönduðum skólabókum (á ekki nema um tíu þúsund kall!) Betra en markaðurinn í Perlunni, svo mikið er víst. Sjálf keyptum við líka bækur handa okkur sjálfum, svona til hliðar. Síðan þá hef ég kíkt aftur í þeim tilgangi að finna góðar bækur hana Signýju (frábærar barnaorðabækur, límmyndabækur og fleira). Næst kíki ég á matreiðslubækurnar og huga að afmælisgjöfum og jólagjöfum í leiðinni.

Skipið er í höfn fram á þriðjudaginn 28. þessa mánaðar (sem er síðasti opnunardagur). Ekið fram hjá Búllunni.

mánudagur, ágúst 20, 2007

Daglegt lif: Menningarnóttin

Menningarnóttin var aldeilis stórskemmtilegur dagur. Dagurinn (sem kennir sig við nótt) byrjaði á því að við Signý fórum í fjöruferð við Ægissíðuna. Þar sá ég gæslumann standa á miðjum veginum, á einhverjum nýmáluðum línum. Ég var alveg búinn að gleyma maraþonhlaupinu en var ekki lengi að vinda mér að kallinum og spyrja hann hver staðan væri. Hann sagði að fjöldi hlaupara hefði farið fram hjá fyrir stuttu en að rétt á eftir ætti hann von á þúsundum í viðbót (skemmtiskokkararnir voru ræstir seinna en hinir). Við Signý vorum hvort eð er í skoðunarferð um Ægissíðuna og komum okkur bara vandlega fyrir í grjótinu og horfðum á fólkið streyma fram hjá. Þetta var svolítið magnað. Næst verð ég með myndavél, það er alveg klárt.

Eftir hádegi, þegar Signý var vöknuð af hádegisblundinum, fórum við fjögur niður í bæ. Veðrið var glimrandi allan daginn og ekki hægt að hugsa sér betri Menningardag. Við fórum markvisst í bæinn án nokkurrar áætlunar (vegna þess að með tvö börn er harla ólíklegt að maður geti haldið striki þannig að það byði bara upp á svekkelsi að byggja upp væntingar). Við komum okkur bara fyrir á Austurvelli og skoðuðum mannlífið. Hittum Ólöfu systur Vigdísar og héldum hópinn þar í góðu tómi. Hittum auðvitað fullt af fólki. Mér fannst gaman að sjá hvað mannlífið var líflegt og afslappað. Venjulega á degi sem þessum finnst mér eins og fólk sé á fullu að elta eitthvað, spenna sig upp og arka út og suður. Núna var andrúmsloftið allt öðruvísi. Kannski var það vegna þess að tónleikarnir á Miklatúni voru á sama tíma og léttu þar með verulega á þvögunni (það var vel hægt að labba um með barnavagna í miðbænum). Borgin minnti mig í fyrsta skipti á alvöru stórborg þar sem iðandi mannlíf er meira en bara þreytt þvaga. Fólk alls staðar spókaði sig og naut alls þess sem var í boði, sitjandi, flatmagandi eða sötrandi.

Ekki fylgdumst við með neinu af viti svosem, en mér fannst sérlega skemmtileg uppákoma í litlu hvítu útihátíðartjaldi á Austurvelli. Þar var búið að reisa "Lifandi bókasafn". Nafnið eitt vakti furðu mína, svo ég kíkti inn. Þá sá ég aðra fyrirsögn "Skoraðu fordóma þína á hólm!". Svo fattaði ég þetta: Þarna sátu fyrir svörum talsmenn ýmissa minnihlutahópa og buðust til að ræða við hvern sem er um lífsstílinn og menninguna sem þeir standa fyrir. Þarna voru skráðir til leiks forsvarar múslima, lesbía, útlendinga, klæðaskiptinga, svertingja, fatlaðra og svo framvegis. Frábær hugmynd, vægast sagt, en mér fannst heldur tómlegt um að litast í tjaldinu. Ætli fólk hafi ekki haft hugann frekar við það að slappa af í bænum en að velta sér upp úr svona áleitnum viðfangsefnum?

Þegar heim kom hvatti ég Vigdísi til að fara í bæinn aftur og hitta vinkonur sínar um stund og horfa á flugeldana. Ég treysti mér fyllilega til að vakta dætur okkar á meðan þær sofa, að sjálfsögðu. Þetta gerum við allt of sjaldan, að skipta liði svona (það er þá oftar á hinn veginn), en Vigdís tók boðinu fegins hendi. Á meðan heyrði ég í flugeldunum og virti fyrir mér mannlífið í götunni. Ég get svarið það, ég hef aldrei séð gestkvæmt í eins mörgum húsum í götunni áður. Þetta kvöld er að verða nokkuð rótgróið í þjóðarvitundinni. Það þykir ábyggilega nokkuð dannað að fara í heimahús og skemmta sér á menningarnótt. Að minnsta kosti sá ég furðu margt vel fullorðið fólk ráfa um Granaskjólið, vel í glasi og hresst, á meðan ómurinn af spjallinu eða hlátrasköllunum úr að minnst kosti fjórum húsum barst út á götu. Mér fannst þetta allt afar huggulegt. Þetta var eins og að vera í miðju samkvæmi, en samt algjörlega óáreittur.

þriðjudagur, ágúst 14, 2007

Tilvitnun: Mótmæli útlendinga

Ég var að renna í gegnum Fréttablaðið frá í gær (13. ágúst) og fann þar stórskemmtilega grein um Saving Iceland félagsskapinn undir titlinum "Biluð sjónvörp" (eftir Guðm. Andra Thorsson). Mig langar að vitna í hana hér og varðveita í leiðinni eftirminnilegustu vangavelturnar. Höfundurinn veltir fyrir sér viðhorfum okkar Íslendinga til mótmælenda sem eru í hróplegu ósamræmi við aðgerðir þeirra. Þeir fóru meðal annars í Kringluna þar sem þeir "hoppuðu um í Hare-Krisna-fíling og einhver Ameríkani átaldi Kringlugesti fyrir neysluæði". Um þetta sagði höfundurinn nánar:

"Þetta var eins og Stubbarnir að hnoðast um og virkaði meira sætt en ógnandi á flesta - nema kannski lögregluna sem fagnaði því að fá loks hryðjuverkaógn að kljást við. Samtökin virka vissulega á almenning eins og óútreiknanleg öfgasamtök en þær öfgar birtast í kunnuglegum vandalisma og óþekkt sem löngum hefur fylgt íslenskum unglingum: þau sletta skyri og málningu, klifra upp í krana og fleygja sér gólandi á lögregluna... Eiginlega er Saving Iceland eins og al-kaída krúttkynslóðarinnar.

Mér fannst líka skemmtileg athugasemd höfundarinns um þá staðreynd að flestir mótmælendur séu komnir utan úr heimi sérstaklega til að mótmæla:

" komist undan því að minnast á hinn stóra þátt útlendinga í aðgerðum hópsins, þótt vissulega komi öllu mannkyni við þegar íslenskri náttúru er spillt. Óneitanlega fannst manni þetta sérkennileg birtingarmynd alþjóðavæðingarinnar: ekki þyrfti aðeins að flytja inn vinnuaflið til framkvæmdanna við Kárahnjúka heldur líka mótmælendurna; og ófagur vitnisburður um neysludoða Íslendinga"

Flott orðalag og hnitmiðað. Við þetta vil ég bæta að það er athygisvert að virkjanasinnar skuli finna að mótmælendum fyrir það eitt að vera innfluttir (enda vinnuaflið innflutt eins og bent var á hér að ofan). Forsendan er víst sú að þeir ættu ekki að hafa á málunum nokkra skoðun né vit enda komi það þeim ekki við hvað gerist hér innanlands. Á sama tíma er orkuframleiðslan, og virkjunarframkvæmdin þar af leiðandi, réttlætt í alþjóðlegu samhengi (þar sem sömu orku hefði að öðrum kosti þurft að afla annars staðar með mjög loftlagsspillandi afleiðingum). Því er troðið ofan í kokið á mótmælendum að það sé alþjóðleg skylda okkar Íslendinga að láta "vistvæna" orku í té á sama tíma og útlendingar mega ekki hafa skoðun á framkvæmdunum. Í rökfræði er til sérstakt hugtak yfir svona þversagnir enda auðvelt að snúa út úr málflutningi andstæðingsins með orðagjálfri.

fimmtudagur, ágúst 09, 2007

Daglegt líf: Leikskólinn byrjaður aftur

Nú er Signý byrjuð aftur á leikskólanum. Hún er býsna kát með það allt saman og hefur kvatt mig á morgnana með bros á vör. Fríið undanfarnar tvær vikur hefur samt farið mjög vel í hana. Við uppgötvuðum leikvöll í grenndinni þar sem ÍTR starfrækir barnagæslu. Þar var huggulegt að koma sér fyrir og leyfa Signýju að leika sér að vild og fylgjast með henni með öðru auganu. Þetta var fastur punktur á morgnana. Seinni partinn fórum við hins vegar gjarnan út á Gróttu þar sem hún naut sín í fjöruborðinu. Við höldum þeim sið til streitu um helgar héðan í frá enda fátt eins endurnærandi en að spóka sig í fjörunni, hvernig sem viðrar.

Signý var einnig dugleg að hitta jafnaldra sína í fríinu. Við fengum margar góðar heimsóknir og fórum líka sjálf út úr húsi, meðal annars í heimsókn á Álftanesið þar sem Einar og Sólveig eru nýbúin að byggja yfir sig glæsilegt hús. Þangað komu einnig Kristján og Stella með Áslaugu Eddu. Öll eigum við tvær dætur (ein þeirra reyndar enn á leiðinni) og höfum sérlega gaman af að leyfa þeim að hittast.

Myndir úr þessari heimsókn, fjörumyndir og leikvallamyndir birtast á myndasíðunni fljótlega.

föstudagur, ágúst 03, 2007

Þroskaferli: Mörg framfaraskref Hugrunar

Við höldum áfram að gefa Hugrúnu öðru hvoru úr pela og það gengur þokkalega, - stundum vel og stundum alls ekki - en þetta kemur með tímanum. Annars er helst af henni að frétta að hún er farin að halda snuði nokkuð vel. Það eru góðar fréttir því hún er með talsverða sogþörf (og hefur hingað til hafnað snuðinu). Reyndar sáum við hana á hliðinni á leikteppinu þar sem hún skoðaði leikföng í seilingarfjarlægð. Þar kom þetta skýrt í ljós (snuðið hélst uppi í henni allan tímann þó hún lægi ekki á bakinu) en í leiðinni föttuðum við það að hún er farin að fetta sig og snúa - og virðist fara létt með það. Núna í sömu vikunni tókum við líka eftir því að hún er hætt að barma sér þegar við látum hana á magann. Hún lyftir bara höfði og lítur fram á við eins og Sfinxinn í Egyptalandi Það er því margt að gerast samtímis hjá Hugrúnu, og allt helst þetta í hendur.


Höfðinu lyft

mánudagur, júlí 30, 2007

Fréttnæmt: Harmleikurinn í gær

Harmleikurinn í gær, þegar byssumaður skaut vegfaranda til bana og svipti sig síðan lífi, snerti okkur Vigdísi sérstaklega. Fórnarlamb árásarinnar er frændi Vigdísar. Þau eru systkinabörn. Við eigum von á mjög erfiðri viku framundan þegar við höfum frekara samband við nánari ættingja. Á meðan einbeitum við okkur að því að lifa eðlilegu lífi og vera öðrum styrkur þegar að því kemur. Manni er hugsaði til margra á stundu eins og þessari og hversu marga þessi atburður snertir.

sunnudagur, júlí 29, 2007

Upplifun: 240 krónur bensinlítrinn

Á leiðinni austur slepptum við því að fylla á tankinn enda föstudagsörtröð nærri Atlantsolíustöðvunum. Bensínið dugði yfir heiðina og eitthvað meira, en varla til baka. Við mundum hins vegar bæði eftir bensínstöð á Þingvöllum og við ornuðum okkur við þá tilhugsun á leiðinni austur. Sú minning reyndist hins vegar úrelt. Það var engin bensínstöð við umferðamiðstöðina lengur (þar var hún fyrir fjórtán árum) og hina stöðina (sem Vigdís hafði munað eftir við Valhöll) var einnig búið að fjarlægja. Á leiðinni til baka, í hitamollu, var brýnt að redda sér með einhverjum hætti því ekki gátum við gerst strandaglópar á milli Mosó og Þingvalla með þriggja mánaða barn í bílnum.

Nú voru góð ráð dýr. Við hringdum í hina og þessa í þeirri von um að vinir eða skyldmenni væru í grenndinni og nenntu að keyra hingað með bensín í brúsa og snæða með okkur kvöldverð í staðinn á Valhöll. Við náðum hins vegar ekki í neinn. Þá mundi ég eftir landvörðunum á Þingvöllum. Þeir eru staðsettir í umferðarmiðstöðinni og veita þar upplýsingar um þjóðgarðinn. Þeirra hlutverk er einnig að aðstoða ferðamenn í þengingum. Þar sem reikna má með því að þessi vandi skjóti upp kollinum reglulega hlytu þeir einfaldlega að hafa einhver ráð.

Ég var strax spurður að því hvort tankurinn væri "alveg tómur". Næsta bensínstöð var á Laugavatni eða Mosfellsbæ og þeir mega helst ekki selja mér bensín nema í neyð (Þeir sögðu mér að þjóðgarðurinn væri hugsaður sem framtíðarvatnsból Reykvikinga og þess vegna mætti geyma bensín á staðnum). Ég féll hins vegar undir þessa neyðarskilgreiningu svo hann hringdi eitt símtal og fékk kollega sinn til að skutlast eitthvað á bak við. Þar geymdu þeir fimm lítra brúsa (væntanlega nokkur stykki) og seldu mér hann á þúsundkall. Reyndar er þetta dýrt bensín, ég sá það strax, tvöhundruð kall lítrinn en reddingin var góð (enda "góð ráð dýr") og ég var ánægður með snör viðbrögð fyrrum kollega minna á Þingvöllum. Þegar kom að þvi að borga kom hins vegar upp sérkennilega staða. Ég gat ekki borgað með korti því þetta er ekki hluti af opinberri þjónustu þjóðgarðsins og má ekki fara í gegnum bókhaldið (þetta er bara óformleg redding). Ég vissi að allur peningurinn í veskinu mínu var uppurinn. Þeir hefðu svo sem selt mér eitthvað ódýrt gegnum debetkortið og látið mig fá pening í skiptum fyrir hærri upphæð. Ég fann hins vegar við nánari leit danskan seðil sem ég hafði þvi sem næst gleymt. Danskan hundraðkall. Seðillinn var mun verðmætari en íslenskur þúsundkall svo þetta þótti nokkuð ásættanlegt. Það fór því þannig að ég keypti fimm lítrana á um það bil 1200 kall, eða 240 krónur lítrann, og var sérlega ánægður með málalyktir.

Fréttnæmt: Stutt bústaðarferð

Við erum nýkomin úr vel heppnaðri sumarbústaðarferð á Þingvöllum. Þar fengum við með tiltölulega skömmum fyrirvara að gista í bústað sem Bryndís systir hefur aðgang að. Við fengum pössun fyrir Signýju á meðan, yfir nótt og fram að kvöldmat daginn eftir (okkur skilst að hún hafi haft það sérlega gott á meðan og farið í ferðalag og svoleiðis). Við hin þrjú slökuðum á á meðan og gerðum lítið annað en að lesa tímarit, hvíla okkur og leggjast í heitan pott. Við tókum ekki neinn mat með okkur nema handhægt ferðanesti og slepptum meira að segja allri tónlist. Eins einfalt og hugsast getur og slökunin eftir því. Það sem var hvað mest endurnærandi var nætursvefninn sem teygði sig til klukkan hálf tíu. Dýrð. Við eigum eftir að búa að þessari hvíld dögum saman.

mánudagur, júlí 23, 2007

Fréttnæmt: Sumarfrí

Nú er Signý komin í sumarfrí frá leikskólanum næstu tvær vikurnar. Þetta gerist einmitt þegar við sáum fram á að forfallatíminn væri (loksins) að baki. Nú er bara að bralla eitthvað saman. Við erum nú með ýmislegt á prjónunum, því er ekki að neita, enda líklegt að Signý verði eirðarlaus án tilbreytingarinnar.

sunnudagur, júlí 22, 2007

Daglegt lif: Frjókornaofnæmi

Ég er búinn að vera að klikkast í ofnæminu í dag. Ég hnerraði svo mikið undir stýri í dag að ég var beinlínis hættulegur umferðinni. Miðað við frjótölur er það kannski ekki svo skrýtið. Þegar við sáum þetta vorum við ekki lengi að loka flestum gluggum - og héldum okkur innandyra það sem eftir lifði dags.

fimmtudagur, júlí 19, 2007

Þroskaferli: Hreyfigeta Hugrunar og pelatilraun

Ef heimsókn Signýjar í Húsdýragarðinn hafi verið tímamót hjá henni (dramatískt áætlað) þá voru svo sannarlega tímamót hjá Hugrúnu um líkt leyti. Við leyfðum henni að prófa pela í fyrsta skipti. "Leyfðum" er ekki alveg lýsandi kannski, því hún sóttist ekki eftir pelanum, en drakk þó eitthvað og lét sig hafa það. Árangurinn veitir okkur von um að á næstunni komist Vigdís út úr húsi öðru hvoru ein síns liðs. Það er nauðsynlegt til að geta slakað almennilega á. Á meðan er ég að sjálfsögðu tilbúinn heima með pela. Núna er Vigdís til að mynda nýfarin upp í Kringlu og ætlar sér að vera þar í tvo tíma eða svo. Ég hef bara gaman af því að vera einn heima (enda sjaldan sem það hefur gerst eftir að Hugrún fæddist).

Hugrún dafnar mjög vel og óhætt að segja að hún styrkist hratt og örugglega. Hún heldur höfði auðveldlega og er orðin nokkuð nákvæm í fínhreyfingum handanna. Við settum hana í "leikfangaland", eins og við köllum það, fyrir um tveim vikum (þetta er teppi með boga yfir þaðan sem tuskudýr dangla fyrir ofan hana). Það var magnað að fylgjast með henni gaumgæfa tuskudýrin og fálma eftir þeim. Á örfáum mínútum mátti sjá hvernig hún náði sífellt betri tökum á hreyfingunum og var farin markvisst að slá til leikfanganna fyrir ofan sig. Núna er eins og hreyfingarnar séu orðnar enn fágaðri. Hún á það til í miðju brosi til manns að rétta út höndina og grípa í nefið, svo að ekki sé minnst á fingur, ef þeir eru nærtækari. Á teppinu þar sem Hugrún liggur öðru hvoru er greinilegt að hún er í óða önn að læra ný brögð. Hún er farin að "vagga" sér á gólfinu með því að lyfta upp fótunum í keng og snúa til vinstri og hægri. Þess verður ekki langt að bíða að hún snúi sér á magann, ef að líkum lætur.

Daglegt lif: Veðursæld lokið

Loksins er byrjað að rigna eftir margra vikna þurrk. Við höfum þurft að vökva garðinn reglulega síðustu daga, sem er tímafrekt og gott að vera laus við (úðarar eru gjörsamlega uppseldir í bænum). Núna sjá skýin um þetta fyrir okkur.

Við Vigdís erum búin að njóta sólarinnar eftir að fjölskyldan steig upp úr veikindunum og getum því verið sátt við okkar hlut. Fyrst fórum við í pikk-nikk með bakkelsi úr bakaríinu. Og hvert fórum við? Jú, auðvitað út í garð. Hann stendur alltaf fyrir sínu - með skjóltjaldi, þægilegum garðstól, mjúku teppi og ljósleita garðhúsinu hennar Signýjar. Þar lágu þær Vigdís og Hugrún á meðan við Signý þurftum að skjótast burt (og komum meðal annars við í Tívolíinu við Smáralindina). Daginn eftir varð sund fyrir valinu. Þar lá ég á bakkanum og las kafla úr einni af mínum uppáhalds bókum (Veröld sem var, eftir Stefan Zweig). Auðvitað var sú för kórónuð með ís úr nágrenninu. Seinna um daginn fórum við svo í Fjölskyldugarðinn. Signý fór í sína fyrstu alvöru ferð þangað (ég lít fram hjá ferð sem við fórum eitt sinn þegar ókeypis var i garðinn og engin leið að komast að til að sjá neitt). Hún kannaðist nú við flest dýrin eftir samviskusamlegan bókalestur og vissi alveg hvað þau "segja" og svoleiðis en hún var samt engan vegin viðbúin tröllslegum hljóðunum. Hún hágrét um leið og hesturinn fnæsti upp við hana. Svínin máttu heldur ekki rýta, þetta er svo stórgerðarlegt allt saman. Engu að síður naut hún sín vel í garðinum og hafði gaman af dýrunum úr hæfilegri fjarlægð.

sunnudagur, júlí 15, 2007

Daglegt lif: Loksins upprisin

Nú erum við öll komin á ról eftir veikindatörnina og vonandi að ekki verði neitt bakslag úr þessu. Signý var orðin nokkuð góð á miðvikudaginn var en við héldum henni hitalausri heima á fimmtudag og föstudag. Fórum þó á stjá rétt fyrir helgi (að mestu innandyra í bílnum og verslunum) og kíktum í skemmtilegar búðir á Laugaveginum - bara svona til að skipta um umhverfi og svoleiðis. Fórum á Borgarbókasafnið í Tryggvagötu og nutum þess að leika okkur í barnahorninu. Kíktum líka í Skífuna þar sem ég gramsaði á meðan Signý dillaði sér í takt við vinsæla popptónlist. Það er alltaf gaman að kíkja þangað með henni og leyfa henni að valsa aðeins um (enda ákaflega geisladiskavön og fer vel með það sem hún finnur). Að lokum kíktum við í úrvarlsverslun efst a Laugaveginum, við Hlemm, sem ég held mikið upp á (og hef skrifað um áður). Hún heitir Völuskrín og er nýkomin með skemmtilega heimasíðu. Þar sýndi ég Signýju alls skyns hugmydarík leikföng en hún tók hins vegar ástfóstri við kyndugum göngustaf á hjólum. Hjólin snúa eins konar tannhjólum (úr gúmmíi) sem snúa skrautlegri fígúru utan um sjálfan stafinn. Þegar búðin lokaði vildum við hvorugt fara án stafsins og hefur hann síðan verið bæði fyrsta leikfang Signýjar að morgni og það síðasta sem hún skilur við sig að kvöldi (reyndar bara tvö kvöld liðin, en þetta hljómaði bara svo vel svona :-).

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Fréttnæmt: Endurtekin veikindi

Ja, hérna. Loksins þegar við héldum að við værum komin á beinu brautina þá veiktist Signý á ný. Hún veiktist lítillega fyrir helgi (gubbaði í leikskólanum). Við héldum henni inni yfir helgina og hún var að mestu hitalaus. Þá létum við á það reyna á ný á mánudaginn. Henni leið vel út skóladaginn en fékk hins vegar hita um kvöldið. Í dag var hún því heima aftur og verður það sömuleiðis á morgun (er með rúmar 38 gráður). Þetta er svona vella sem vill ekki yfirgefa hana. Signý er nokkuð brött en er fremur lystarlítil.

Svona er þetta búið að ganga siðan Signý byrjaði í leikskólanum:

1. vika - veik
2. vika - frísk (en ég veikur)
3. vika - sumarbústaður (veiktist á meðan)
4. vika - frísk (gubbaði á föstudaginn) - Hugrún veik á meðan
5. vika - veik...??

Allan þenna tíma höfum við mest megnis þurft að sinna litlu dætrum okkar innandyra, eða verið sjálf slöpp, og ekki notið hitabylgjunnar sem skyldi. Maður hugsar nú oft til þess hvað það væri nú gaman að geta sprangað um utandyra svolítið. Það hlýtur að fara að styttast í það úr þessu.

miðvikudagur, júlí 04, 2007

Tónleikar: Veggurinn

Mér er sönn ánægja að eiga enn eftir að greina frá tónleikum Dúndurfrétta og sinfóníunnar (frá því á föstudaginn var). Við Villi fórum saman á tónleikana. Hann er gamalgróinn Pink Floyd aðdáandi og þekkir "Vegginn" út og inn, en hafði hins vegar aldrei heyrt Dúndurfréttir spila. Ég gerði mitt besta í að halda aftur af hástemmdum lýsingarorðum mínum í garð Dúndurfrétta fyrir tónleika, enda mikill aðdáandi þeirra. Ég sá þá flytja þetta verk í Austurbæ í hitteðfyrra og var frá mér numinn af hrifningu. Hver sæmilega skynsamur maður myndi ekki taka mark á lýsingum mínum hvort eð er, ef ég leyfi mér að komast á flug, en í stuttu máli má segja að það er erfitt að ímynda sér tónlistina betur flutta, jafnvel þó Pink Floyd sjálf væri á sviðinu. Í þetta skiptið stóð til að flytja verkið sem sagt með sinfóníunni og því sérstaklega spennandi að sjá hvernig þetta tvennt blandast saman.

Eftirvæntingin var mikil og salurinn var þétt skipaður virðulegum borgurum og settlegum rokkurum. Sinfónían byrjaði mildilega með upphafsstefi verksins sem er þjóðlegur ómur frá liðinni tíð, mjúkur hornablástur, sérlega fallega flutt af sinfóníunni, en svo mjúklega að enn heyrðist vel í áhorfendakliðnum (enn voru menn að koma sér fyrir í sætum). Þegar ég hugsaði til þess hvað þetta yrði truflandi til lengdar kvað við sprenging - Dúndurfréttir ruddust inn með "In the Flesh" og gjörsamlega fyllti höllina af þéttum rokkhljóm (og vel það, - skyndilega virkaði hljómbotninn í höllinn mjög lítill). Andstæðurnar þarna á milli voru miklar og augljóst frá þessum upphafsmínútum að áhorfendur skyldu teknir kverkataki. Eftir það var ekkert tvínónað í flutningnum, hvert snilldarlagið á fætur öðru og gaman að sjá hvernig forsöngurinn rennur á milli þriggja liðsmanna Dúndurfrétta (einn með djúpa baritónrödd, annar með hljómmikla tenórrödd og sá þriðji með mjóa og nístandi rödd sem liggur enn hærra). Sinfónían kom einnig inn í þetta með fjölbreytilegum hætti og greinilega mikið lagt í útsetningarnar (sem voru sérstaklega unnar af utanaðkomandi aðila). Hlutverk hennar var ekki bara að fylla inn í hljóminn og elta Dúndurfréttir heldur spannaði samvinnan skalann á milli þess að sinfónían væri með laglínuna alfarið yfir í það að hún sæti til hliðar og fylgdist með Dúndurfréttum "rokka feitt" (eins og unglingarnir myndu orða það), Oftar en ekki var mikið jafnræði milli sveitanna og gaman að heyra hversu mikill metnaður lá í sinfónísku útsetningunum. Stundum var bætt við óvæntum taktslögum, hljóðfærum eða heilu köflunum. Aldrei fékk ég á tilfinninguna að útsetjarinn færi í skógarferð með inngripi sínu og fannst þetta útsett af bæði innsæi og djörfung. Í einu laginu kom barnakór meira að segja við sögu, en það var reyndar nokkuð fyrirsjáanlegt (ef menn muna enn eftir smáskífulagi plötunnar). Í heildina litið þá var útfærslan á tónlistinni ákaflega spennandi og það er mikið tilhlökkunarefni að fá að heyra þetta aftur þegar það kemur út um jólin (sem ég reikna með að verði gert eins og með aðra sambærilega tónleika sinfóníunnar undanfarin ár).

Þar sem ég hef séð Dúndurfréttir flytja verkið áður fannst mér athyglisvert að bera þennan flutning saman við þeirra eigin flutning. Þá eru þeir fáliðaðir en þekkja verkið engu að síður það vel að manni finnst ekkert vanta upp á flutninginn. Mér fannst merkilegt til þess að hugsa að þeir skuli yfir höfuð hafa gert "Veggnum" full skil einir síns liðs þegar maður horfði upp á hersinguna uppi á sviði Laugardagshallar (líklega hátt í hundrað manns). Samanburðurinn var Dúndurfréttum að mörgu leyti hliðhollur, þ.e.a.s. þeirra eigin flutningur stóðst samanburðinn fyllilega. Munurinn var aðallega sá að þau lög sem höfðu hljómað best hjá þeim áður ögn síður út í þetta skiptið. Þeir voru ekki eins frjálslegir í flutningi og slepptu sér kannski ekki eins oft auk þess sem ákaflega vandaður samhljómur raddannar skilaði sér ekki eins vel gegnum hljóðmúr sinfóníunnar. Á móti kemur að í þessum nýja flutningi stálu önnur lög senunni í staðinn. Útsetningar sinfóníunnar voru algjör snilld á köflum og samspilið á milli sveitanna hreint afbragð í mörgum laganna. Best fannst mér lögin "Comfortably Numb" og "Run Like Hell" koma út í þessu tilliti enda fóru þau gegnum talsverða yfirhalningu og urðu svipmeiri fyrir vikið. Andstæður hljómsveitanna komu vel fram í þessum lögum auk þess sem Dúndurfréttir fengu talsvert svigrúm til að spinna galið rokk. Eftir fyrra lagið var geðshræring áhorfenda svo mikil að það þurfti að gera hlé á tónleikunum. Flytjendur virtu stúkuna í dágóða stund þar sem hún reis á fætur með dynjandi lófaklappi, og samt enn var nóg eftir af tónleikunum.

Þetta var magnað. Þetta var magnað. Magnað, magnað, magnað.

mánudagur, júlí 02, 2007

Upplifun: Á bílastæði náttúrunnar

Í síðasta pósti hefði ég vel getað minnst á lífríkið allt í kring um bústaðinn, svona til að undirstrika að maður þarf oftast ekki að leita langt til að upplifa eitthvað eftirminnilegt. Þannig er að kringum bústaðinn er mólendi, tiltölulega berangurslegt en þó mishæðótt og líflegt. Fyrir vikið þrífast þar alls kyns mófuglar (lóan, spói, jaðrakan, stelkur og hrossagaukur - þar sem þeir þrír fyrstnefndu voru mest áberandi). Einnig vandi komu sína á svæðið skógarþröstur sem söng sinn einkennissöng. Ekki þurfti að ganga meira lengra en tuttugu metra út fyrir lóðina áður en varnaðarsöngurinn allt í kring fór að tifa. Spóinn og lóan stilltu sér upp og gerðu sig áberandi, sveimuðu kringum mig ótt og títt (þetta er náttúrulega varptími og ég heljarinnar boðflenna). Lóan beitti klassísku herbragði sínu tili að tæla mig burt frá hreiðrinu og þóttist vera vængbrotin (og staulaðist þannig burt fra mér). Ég lét lokkast smástund en svo fann ég hana ekki lengur, staldraði við og hélt af stað í aðra átt. Þá sýndi lóan snilldartakta og veifaði mer með vængjunum þar sem hún sat. Ég gat ekki staðist mátið og verðlaunaði dugnaðinn i Lóunni með þvi að elta hana örlítið lengra.

Ekki var nauðsynlegt að fara út úr húsi til að upplifa dramatík náttúrunnar. Rétt þegar ró var að færast yfir húsið seint um kvöld, heyrðum við óvenju aðkallandi fuglaklið. Það var mikið á seyði úti í móa beint fyrir framan stofugluggann. Birtist þá ekki refur, rauðleitur og með dökkgráa rófu, og læðupokast yfir bílastæðið og inn í varplandið. Ekkert okkar átti nú von á þessu og fylgdumst við því gaumgæfilega með. Maður gat alltaf séð hvar rebbi var niðurkominn á því hvernig fuglarnir vöppuðu í kringum hann, í passlegri fjarlægð. Nú var hann væntanlega í eggjaleit og skeytti engu um aðfarir fuglanna. Við gátum fylgst með honum alllanga stund þar til hann hvarf bak við næsta leiti. Þegar allt var fallið í ljúfa löð á ný sá ég hvar spói hélt sig upp á róluþverbita. Spóinn er stór fugl. Flott að sjá hann híma þar, öruggan, eins drungalegur og stæðilegur og krákurnar hans Hitchcock.

Ekki lét náttúran þar við sitja. Kvöldið eftir birtist skyndilega rjúpa á áðurgreindu bílastæði og byrjaði að dansa hringdans. "Ja, hérna", hugsuðum við með okkur, "bara sýning á planinu kvöld eftir kvöld!". Hamagangurinn í rjúpunni var slíkur að engu líkara en fuglinn væri að búa sig undir stríð. Líklega var þar tilhugalífi um að kenna en "hinn" fuglinn sáum við þó ekki. Þessi sami fugl (gerum við ráð fyrir) kom aftur kvöldið eftir og tók þar annan tilkomuminn hringdans áður en hann hvarf sjónum okkar fyrir fullt og allt.

Þetta gerðist allt fyrstu dagana í bústaðnum. Ef til vill var meira atgangur af svipuðu tagi á bílastæðinu næstu daga á eftir. Ef svo er urðum við að minnsta kosti ekki vör við það, enda athyglin farin að beinast að Signýju (sem glímdi við hvimleiða barkabólgu, eins og ég greindi frá síðast).

sunnudagur, júlí 01, 2007

Daglegt líf: Sumarbústaðarferð

Sumarbústaðarferðin er semsagt að baki. Við vildum ekki greina frá henni hér á blogginu fyrr en eftir á (maður veit aldrei hvenær óprúttnir sjá sér leik á borði). Við fórum í sama bústað og í fyrra (í Kiðjabergi í Grímsnesinu). Hann er í uppáhaldi hjá okkur þessi árin, bæði mjög nýtískulegur og huggulegur.

Við vorum fimm á staðnum, við fjögur úr Granaskjólinu og tengdó (sem var nauðsynleg okkur til halds og trausts og til að geta flutt allt dótið með okkur austur - enda fjögur sæti frátekin í bílnum okkar fyrirfram). Veðrið var alveg einstaklega gott, eins og ég greindi frá síðast, en því miður tókst okkur ekki að færa það okkur í nyt. Til að byrja með var ég slæmur af ofnæminu vegna þess að nýlagðar túnþökur kringum bústaðinn voru að skrælna í þurrkinum. Ég var líka með einhvern undarlegan streng úr mjóbaki og niður í annan fótinn og átti svolítið bágt með mig (ekki vanur svona löguðu). Við ályktuðum sem svo að þetti hlyti að vera afleiðing af ójöfnu álagi að undanförnu við það að gagna gólfin með Hugrúnu. Ef það væri málið fannst okkur lógískt að ég skyldi nú vappa um móana í kring og ganga þúfur út og suður. Eftir tvær kvöldstundir þar sem ég gekk á brattann upp á nærliggjandi hæðir fann ég hvernig verkurinn snarminnkaði. Ekki hefur spurst til hans síðan :-)

Um það bil þegar ég sá fram á að batna virtist Signý eitthvað slöpp. Hún varð raddlaus og fékk töluverðan hita. Þetta háði henni það sem eftir var ferðarinnar - reyndar svo mjög að við kíktum á vaktafandi lækni í bænum við heimkomu. Þar fengum við þá niðurstöðu að hún væri ekki búin að fá þetta slím í lungun (helsta áhyggjuefnið) og fengum "barkabólgu" sem sjúkdómsgreiningu. Það er víst að ganga. En veikindin settu sem sagt töluvert stórt strik í reikninginn og gerðu lítíð úr áformum okkar um að skreppa hingað og þangað á meðan við vorum fyrir austan. Hitinn bakaði sveitir í kring og við gátum lítið annað gert en halda okkur innandyra, eða skiptast á vaktinni á meðan hinir skruppu í pottinn eða sólbað.

Endurnærð komum við til baka, en samt aðeins til hálfs. Sveitin skartaði sínu fegursta og við áttum margar góðar stundir í góðra vina hópi þessa fáu daga.

laugardagur, júní 30, 2007

Fréttnæmt: Vikudvöl i sumarbustað

Við Vigdís og litlu systurnar erum nýkomin úr sveitinni þar sem við dvöldum í viku í sumarbústað. Allan tímann nutum við góðs af mikilli veðurblíðu - allt að því hitabylgju - en því miður fylgdu ferðinni veikindi þannig að við nutum þess ekki til hins ítrasta. Engu að síður var gott að skipta um umhverfi og koma heim aftur. Ég segi betur frá því í næsta pósti. Þegar við komum heim gafst okkur rétt svo tími til þess að borða kvöldmat og ég var þá aftur rokinn burt, á tónleika með Dúndurfréttum. Við Villi bróðir keyptum miðana fyrir löngu síðan og sáum svo sannarlega ekki eftir kvöldinu. Ég segi líka betur frá því fljótlega.

föstudagur, júní 22, 2007

Þroskaferli: Hugrún heldur höfði og brosir breitt

Lítið hef ég minnst á framgang litlu dömunnar á heimilinu en hún tekur stórstígum framförum að okkar mati. Nýlega ýjaði ég að þessu þegar ég talaði um hversu hratt hún stækkaði og þyngdist. Frá því hún var skírð, þriggja vikna gömul, höfum við tekið eftir því að hún er komin á annað stig í þroskaferlinu. Fyrsta stigið er þegar börn eru innræn og beina athygli sinni að eigin líðan og taka vart eftir því sem gerist í kring. Þau eru þá ekkert að skoða sig um eða svara svipbrigðum foreldranna. Það eina sem skiptir máli er hvíld, hægðalosun, þvaglosun og móðurmjólkin. Strax á þriðju viku, sem sagt, tókum við eftir að þetta var að breytast. Hugrún var farin að brosa mjög markvisst til okkar daginn fyrir skírn. Hún hélt jafnframt höfði nokkuð vel, í nokkrar sekúndur í senn. Síðan þá hefur brosið breikkað og styrkurinn í hálsvöðvum aukist jafnt og þétt. Núna er hún fær um að lyfta höfðinu sjálf, þar sem hún liggur framan á okkur. Hún virðir okkur fyrir sér mjög gaumgæfilega. Brosið er orðið að sannkölluðu samskiptabrosi. Meira að segja þegar hún kvartar undan sárum verkjum þá hefur oft reynst gæfulegast að snúa henni að sér og spjalla við hana á blæbrigðaríkan hátt. Þá sjatnar "verkurinn" og hún "spjallar" á móti með ákaflega sjarmerandi svipbrigðum. Hún er nefnilega að verða talsvert mikil fyrir selskapinn - og það finnst okkur góðs viti.

fimmtudagur, júní 21, 2007

Tónlist: Bowie upptökur

Á meðan ég hef ekkert fréttnæmt fram að færa (Signýju gengur bara vel í leikskólanum og svoleiðis) þá er ekki úr vegi að draga fram ýmis hugðarefni sem ég hef dundað mér við á undanförnum misserum. Byrjum á Bowie sjóræningjaupptökum sem mér áskotnaðist á lokakafla meðgöngu Hugrúnar í apríl. Ég sem sagt kom mér í samband við náunga - safnara - sem á ansi mikið og gott safn af Bowie upptökum. Hann hefur fjallað um safnið sitt á netinu á þvi frábæra vefsetri Rate your music. Ég bauð honum ýmsar upptökur í skiptum fyrir vel valda diska úr safninu hans. Það sem mér barst í hendur var myndarlegt safn, eins konar þversnið af Bowie-tónleikum og annars konar upptökum gegnum tíðina. Enn hef ég ekki hlustað á nema einn diskanna (Vancouver 1976 rehearsals) en hlakka hins vegar mikið til að fara í gegnum safnið, í góðum félagsskap, ef til vill.

David Bowie - The Mainman and the Mainline (The 1976 Vancouver Rehersals)

mánudagur, júní 18, 2007

Fréttnæmt: Þreföld skoðun

Í dag fór fjölskyldan í þrefalda læknisskoðun, þ.e. allir nema ég. Allt var þetta hefðbundið rútínutékk en það er engu að síður gaman að bera saman niðurstöður mælinga hjá systrunum. Hugrún fór í sex vikna skoðun og var vigtuð (4.9 kg) og lengdarmæld (60 sm). Einnig kom fram að hún fylgir vel eftir með augunum og heldur höfði furðu vel miðað við aldur. Signý fór hins vegar í 18 mánaða skoðun, sem innihélt sprautu auk sömu mælinga og hjá Hugrúnu (hún er nú orðin 10 kg og 80 sm). Svo var merkt við hana lauslega í þroskamati, án frekari eftirgrennslanar, enda vissi hjúkkan að Signý var vel á vegi stödd. Hakað var meðal annars við það atriði að Signý gæti staflað upp kubbum, að minnsta kosti tveimur, og ég var minnugur þess þegar hún raðaði upp átta stykkjum fyrir þó nokkru síðan.

Tölurnar sem komu fram hér að ofan eru að mörgu leyti athyglisverðar. Þær eru skemmtilega skýrar. Hugrún er um það bil helmingi léttari en Signý (4.9 kg og 10 kg) og er búin að ná þremur fjórðu af lengd hennar (60 sm og 80 sm). Við skoðuðum tölur fyrir Signýju og sáum að hún var fimm kílógrömm þegar hún var þriggja mánaða. Þessu marki hefur Hugrún nú þegar náð sex vikna gömul. Áður en fólki bregður við þetta misræmi verð ég að minna á að Hugrún fæddist "eldri". Hún naut lengri meðgöngutíma og munaði þar fjórum vikum og fimm dögum. Þar að auki hefur hún allt frá fæðingu verið mun svengri en Signý og verið mun kröfuharðari á brjóstið. Þessi sex vikna munur á líkamsþyngd er því mjög eðlilegur eftir allt.

Til gamans fórum við Vigdís að gramsa í gömlum myndum af Signýju frá þeim tíma er hún var fimm kílógrömm að þyngd og klæddist þeim fötum sem Hugrún klæðist nú. Hér er árangurinn og samanburðurinn, systurnar Signý og Hugrún (í sömu peysunni):


Hugrún (fimm vikna) júní 2007

Signý (þriggja mánaða) mars 2006


Fleiri myndir eru á myndasíðunni.

sunnudagur, júní 17, 2007

Daglegt lif: Þjóðhátíðardagurnn

Í dag héldum við þjóðhátíðardaginn hátíðlegan með ansi löngum göngutúr niður í bæ og heim aftur. Veðrið var frábært og við nutum okkar vel að því undanskildu hvað erfitt var að finna veitingar án þess að standa í löngum biðröðum. Þegar heim var komið var stutt í brottför mína niður í Laugardal þar sem handboltalansliðið tók á móti Serbum í frekar undarlegum leik, en allt er gott sem endar vel. Þetta var nánast endurtekið efni frá því fyrir ári síðan þegar við slógum Svíana mjög naumt út í umspili.

laugardagur, júní 16, 2007

Fréttnæmt: Fyrsta leikskólavikan

Fyrsta leikskólavikan gekk afar vel hjá Signýju eftir brösuga byrjun vegna veikinda okkar beggja. Hún tímdi alveg að sleppa af mer hendinni og var bara eins og heima hjá sér frá fyrsta degi. Það munar líka heilmikið um það fyrir okkur Vigdísi að sjá bara um eitt barn á meðan. Núna er loksins hægt að sinna heimilinu markvisst.

laugardagur, júní 09, 2007

Þroskaferli: Annar leikskóladagur

Ég tók mig taki og mætti hálf lasinn í leikskólann með Signýju á föstudaginn. Hún var orðin alveg hress (en ég átti eftir að versna um kvöldið og ná mér um sólarhring síðar, þ.e.a.s. u.þ.b. núna). Þetta gekk alveg eins og í sögu. Dagur tvö í aðlögun gengur sem sagt þannig fyrir sig að leikskólabarnið staldrar við í tvo tíma og þar af bregður foreldrið sér frá í um það bil hálftíma. Signý kom sér til að byrja með fljótt fyrir og lék sér varfærnislega við krakkana. Hún var óhrædd við að skoða sig um og lét það ekkert á sig fá þó að sumir krakkanna væru stöðugt grátandi. Ég settist um tíma við borð og fiktaði eitthvað í púsli sem ég fann og nokkrir eldri krakkanna (um það bil tveggja og hálfs) gáfu sig að mér og skoðuðu með mér. Signý var ekkert allt of pössunarsöm á mig og lét það alveg fram hjá sér fara. Hún dundaði sér bara sjálf svo lengi sem ég brosti til hennar reglulega. Síðan kom að tímabundnu brotthvarfi mínu. Þá var mér ráðlagt að kveðja hana formlega áður en ég færi. Þá leist henni ekki betur en svo á blikuna að hún vildi stökkva upp í fangið á mér. Auðvitað tók ég hana að mér í smástund. Það leit hún á sem staðfestingu þess að hún væri að fara með mér og tók upp á því undir eins að dreifa fingurkossum yfir salinn - kampakát með velheppnaðan dag. Ég leiðrétti þetta ofur varlega og sagði henni að hún yrði hér, en ég kæmi aftur. Leikskólakennararnir voru fljótir með sitt úrræði og sáu að í þessari stöðu væri vænlegast að dreifa athyglinni. Þeir gripu í risastóran saumaðan orm og sýndu henni. Það dugði greinilega og ég læddi mér út vandræðalaust. Þegar ég kom aftur, þegjandi og hljóðalaust, var því strax varpað á mig að "þetta barn er búið að vera eins og engill". Ég sá hana í einu horninu þar sem hún lék sér af yfirvegun og ég varpaði á hana kveðju og hún svaraði glaðlega, en hélt svo áfram að leika sér.

Mér varð hugsað til þeirra tilvika þegar við Vigdís höfum verið í burtu frá Signýju í einhvern tíma, eins og þegar við fórum til Danmerkur í fyrrasumar, eða á Hóteldvölina í Hvalfirði fyrir nokkrum mánuðum. Þá kom nokkuð berlega í ljós að hún er ekki haldin aðskilnaðarkvíða. Það skipti minna máli þá (enda var hún heima hjá sér í höndunum á okkar nánustu) en mikið óskaplega er gott að horfa upp á það núna.

fimmtudagur, júní 07, 2007

Fréttnæmt: Áframhald pestar

Alltaf undrast ég á því hvernig líkaminn getur breytt sér snögglega í háþrýstidælu og skilað mat burt með vélrænni skilvirkni. Hvernig fer hann að þessu? Ég kastaði sem sagt upp í morgun (í fyrsta skipti í mörg ár) og ljóst þar með að aðlögun Signýjar að leikskólanum tefst enn frekar. Hún er sjálf orðin býsna spræk, glaðleg og kát, og sjálfur er ég allur að ná mér eftir að hafa tekið við pestinni í gærkvöldi. Við stefnum ótrauð á dag númer tvö í aðlöguninni á morgun.

þriðjudagur, júní 05, 2007

Þroskaferli: Fyrsti leikskóladagur

Í gær kíktum við í heimsókn í Vesturborg (leikskólanum við hliðina á ísbúðinni). Signý var mjög hrifin af skólanum og var fljót að kynnst krökkunum. Hún beið ekki boðanna eftir að við hengdum upp fötin hennar og gekk rakleiðis á hurðina sem vísaði að leiksvæðinu. Hún dundaði sér eins og heima hjá sér og lét fara vel um sig í fanginu á starfsmönnum og kvaddi að lokum með fingurkossi. Ég er ekki frá því að hún hafi brætt nokkur hjörtu á leiðinni út. Þessi fyrsti dagur var bara klukkutíma kynning og frá mínum bæjardyrum lítur framhaldið mjög vel út. Andinn í skólanum var mjög jákvæður og yfirvegaður og ekki skemmir fyrir að leikskólastýran á afmæli sama dag og Signý.

Þegar heim kom tók hins vegar verra við; Signý borðaði hádegismat en skilaði honum aftur, bæði upp og niður (Hún var þá ekki alveg búin að klára pestina). Síðan þá hefur hún verið mjög dauf og slöpp. Hún kastaði jafnvel vatni upp (salt/sykurlausn), og þá þótti okkur góð ráð dýr. Við lásum okkur til um þetta og skildist að nú væri málið að láta hana drekka mjög lítið í einu, en reglulega (helst skammta með skeiðum til að byrja með). Maginn þurfti bara tíma til að byggja sig upp á ný. Þannig hefur þetta liðið síðan og fram yfir hádegi í dag, en nú er hún líklega á batavegi. Hún er farin að drekka aftur sjálf og stærri skammta og brátt kemur alvöru matur aftur inn á prógrammið.

Þetta er í fyrsta skiptið sem Signý er veik í meira ein einn sólarhring (þessi pest hefur blundaði í henni síðan á föstudag) og hálfgert ástand myndaðist hjá okkur um tíma. Óþægilegast fannst okkur að geta ekki gefið henni að drekka nægju sína þegar hún sárbændi um meira vatn. Þetta var hálfgerð eyðimerkurganga fyrir litlu stúlkuna, sem hún tók af stóískri yfirvegun þegar á leið.

sunnudagur, júní 03, 2007

Daglegt lif: Babb í bátinn

Á föstudaginn var átti Signý að byrja í leikskólanum, með klukkutíma heimsókn (síðan verður næsta vika stigvaxandi aðlögun). Það vildi hins vegar svo óheppilega og undarlega til að hún vaknaði veik sinn fyrsta skóladag. Hún gubbaði snemma morguns og var með vaxandi hita fram eftir degi. Það sem er undarlegt við þetta er að Signý hefur nánast aldrei orðið veik (nema eftir sprautur og svoleiðis, og þá stutt í einu). Hún hafði aldrei kastað upp fram að þessu. Tímasetningin var því frekar merkileg tilviljun. Þegar við hringdum í leikskólan og tilkynntum um forföll Signýjar spurði leikskólastjórinn í gamansömum tón hvort hún væri ekki bara með "skólakvíða". Því er að sjálfsögðu ekki að skipta enda höfum við Vigdís hlakkað til fyrir hennar hönd og ef hún hefur tekið eitthvað inn á sig þá er það frekar jákvætt.

Það er helst af Signýju að frétta að hún virðist vera búin að ná sér að fullu. Í gær, laugardag, var hún hitalaus en hálf slöpp eftir föstudaginn. Í dag er hún að fullu orðin lík sjálfri sér. Við höldum því ótrauð áfram á morgun að kynna okkur lífið á leikskólanum.