sunnudagur, desember 27, 2009

Fréttnæmt: Fyrsta lifandi jólatréð berst í hús

Þá eru jólin strangt til tekið að baki - svona alheilögustu dagarnir að minnsta kosti. Erillinn í aðdragandanum hélt mér alveg frá blogginu um tíma svo ég stekk núna nokkra daga aftur, til þess tíma er jólin voru um það bil að bresta á. Þá var ég í bíltúr með Birki ásamt Signýju og Hugrúnu.

Við vorum orðin vonlítil um að finna stæði í miðbænum örfáum dögum fyrir jól þegar skyndilega opnaðist eitt neðarlega á Hverfisgötunni, akkúrat fyrir neðan "Jólaþorpið". Líklega besta stæðið í bænum þá stundina. Það var ískalt úti, líklega um 5 gráðu frost og næðingur í ofanálag. En þarna var flott jólastemning í frostköldu loftinu og lúðrasveit á planinu í jólaskapi. Við örkuðum kappklædd inn á svæðið og fórum undir eins inn í fyrsta tjaldið vegna kuldans. Við blöstu jólatré af öllum stærðum og gerðum. "Má ekki bjóða ykkur jólatré?" kom óhjákvæmileg spurningin. Það var Edda Heiðrún Bachman sem ávarpaði mig kurteislega. Ég leit kringum mig og sá að þarna voru saman komnir nokkrir valinkunnir leikarar frá ýmsum tímum. Líklega var þetta sölubás Þjóðleikhússins. "Nei, ég er eiginlega bara að flýja kuldann" sagði ég, "við búum svo þröngt að við gætum ekki komið jólatré fyrir þó við vildum". Þá benti hún kollega sínum á að finna "litla blágrenið þarna fyrir aftan" sem fannst eftir örsutta leit. "Þetta er svona horntré" útskýrði hún og benti á hversu gisið það var öðrum megin. Hún vildi meina að þetta væri sannarlega betra en ekkert - bara stilla því út í horn ofan í ílát með vatni. Það átti að kosta þúsundkall, sem er svo sem ekkert, en ég ætlaði mér samt ekki að kaupa mér tré. Diplómatískur hallaði ég Hugrúnu hins vegar að trénu og leyfði henni að þefa. Þetta var auðvitað liður í því að sýna áhuga samt sem áður. Hugrún snusaði, fann lyktina af jólunum, og bræddi líklega hjartaði í Eddu því hún sagði að bragði: "Veistu hvað, ég ætla bara að gefa ykkur tréð" og fyrirskipaði svo Benedikt Erlings að rúlla því upp fyrir mig. Þá gat ég ekki annað en þegið tréð og kvaddi með virktum fyrir örlætið.

Þannig eignuðumst við fyrsta lifandi jólatréð okkar! En nú voru góð ráð dýr. Við þurftum að eignast almennilegan fót fyrir tréð til að Signý og Hugrún veltu því ekki um koll. Ég sá fyrir mér hvernig ég gæti henst í vinnuna og nýtt mér smiðaaðstöðuna þar til að setja eitthvað saman til málamynda og fór að skissa einhverjar hugmyndir á blað. Það voru bara þrír dagar til jóla og varla neinn tími til stefnu. Mér fannst hins vegar ótækt að kaupa 5-10 þúsund króna fót fyrir ókeypis tré!!! Tréð skapaði svo sannarlega vandamál sem þurfti að leysa, einmitt þegar enginn tími var til stefnu. Það var á tímabili litið hálfgerðu hornauga, eins og það væri boðflenna á ögurstundu. En sem betur fer komumst við að því, bara á meðan við vorum að deila út pökkum daginn fyrir Þorláksmessu, að einn fótur var á lausu innan fjölskyldunnar. Málum reddað fyrir horn. Að svo búnu var trénu stillt upp vandlega í stofunni, en þá tók seríuvandinn við? Við áttum eina tæpa. Hún var hins vegar mjög tæp. Nokkur kerti voru sprungin og hin sem eftir voru reyndust skuggalega heit þegar á reyndi. Við settum hana á og á Þorláksmessu og Aðfangadag leyfðum við seríunni að loga stutt í einu, bara til málamynda, og drógum í leiðinni slökkvitækið inn í stofu, bara til vonar og vara (svona gamlar seríur geta verið stórhættulegar, skilst manni). En okkur barst á ný hjálp. Sirrý, mamma Vigdísar, hafði fullan skilning á alvarleika málsins og gaukaði að okkur í jólaboði á Jóladag glæsilegri rauðri seríu sem hún átti aflögu. Þetta virkaði að sjálfsögðu sem hvatning og í kjölfarið fór Vigdís að gramsa enn betur í kössum og fann nett jólaskraut sem hæfði rauði seríunni. Núna logar því í stofunni myndarlegt tré, til þess að gera, þangað sem það komst svo sannarlega með herkjum.

þriðjudagur, desember 15, 2009

Upplifun: Leikur að orðum

Um daginn fylgdist ég með sérkennilegum samræðum Signýjar og Hugrúnar. Þær sátu andspænis hvorri annarri við hátt borð og voru eitthvað að dunda sér (að lita, minnir mig). Ég gaf orðum þeirra ekkert sérstakan gaum fyrr en ég tók eftir því að Signý var farin að segja "fyrirgefðu", mjög varlega, í áföngum, með skýru erri eins og hún væri beinlínis að æfa sig í framburðinum. Þá hermdi Hugrún eftir henni og sagði þetta eitthvað kæruleysislegar. "Nei", leiðrétti Signý hana og endurtók sérlega skýrt: "Fyrir-gefðu!". Þá sagði Hugrún, með smá prakkarsvip: "Fjóla Gerður"? Þær brostu báðar því þetta eru nöfn á tveimur starfsmönnum leikskólans og því mjög nærtækt. Signý flissaði jafnvel svolítið og bætti svo um betur: "Maríu-erla"!! Svo hlógu þær báðar. Ég fylgdist hins vegar hissa með og velti fyrir mér hvort þær væru meðvitaðar um orðaleikinn í þessu öllu saman.

Daglegt líf: Jólaerill

Nú eru aðeins nokkrir dagar í jólafrí, með tilheyrandi uppákomum, jólamat í vinnunni, litlu jólum og þvíumlíku. Í dag fór ég til dæmis með Signýju og Hugrúnu í vinnuna seinni partinn til að baka piparkökuhús og skreyta. Þær einskorðuðu sig reyndar við venjulegar piparkökur og komu stoltar með þær heim - skreyttar með glassúr og "smarties". En þetta var ekki í fyrsta skipti sem þær skreyttu piparkökur þessi jólin: í leikskólanum var þetta gert fyrir rúmri viku og nú síðast á sunnudaginn fórum við til Beggu systur að dunda okkur á sama hátt. Ég held að þær systur séu ekkert að fá leið á þessu jólaamstri. Reyndar er af mörgu að taka. Þær eru spenntar fyrir jóladagatalinu (einn moli á dag - strax eftir leikskóla) og nú nýlega er skórinn farinn að luma á ýmsu. Signý er orðin mjög meðvituð um þetta allt saman og spyr strax um skóinn um leið og hún rumskar að morgni.

þriðjudagur, desember 08, 2009

Fréttnæmt: Afmæli Signýjar

Signý hélt upp á afmælið sitt um helgina (sem er strangt til tekið ekki fyrr en þann þrettánda). Hún er búin að vera með þetta í maganum lengi enda er desembermánuður hennar hátíð út í eitt. Undanfarna daga hafði hún spurt mig reglulega út í jólin og afmælið. Hún áttaði sig ekki alveg á muninum, fannst mér, svo ég skissaði upp eins konar dagatal á strimil. Þar merkti ég inn dagarununa frá fyrsta desember og til aðfangadags með skýrum reitum, daganúmerum og öðrum viðeigandi merkingum. Með þessu gat ég einfaldlega sýnt henni dagafjöldann og talið dagana með henni jafnóðum og ég strikaði út dagana sem voru að baki.

Svo kom helgin. Í heimkeyrslunni spurði Signý mig strax: "Hvað eru margir dagar þangað til ég á afmæli?". Hún vissi það reyndar en vildi fá staðfestingu á því að þeir væru bara tveir og sagði svo: "Ó, hvað ég er spennt!"

Afmælið gekk ljómandi vel þrátt fyrir meiri forföll en oft áður. Einhverjir mættu daginn fyrir og aðrir eiga eftir að kíkja óformlega seinna. Svo er barnaafmælið líka eftir - á laugardaginn kemur! Það verður einfalt og óformlegt, eins konar opið hús fyrir börn og aðstandendur þeirra. Maður vonar bara að Signý verði ekki ringluð eftir þetta allt saman því leikskólinn verður líka með smá uppákomu í vikunni fyrir hana og önnur afmælisbörn mánaðarins. Ef svo er tekur maður bara upp strimilinn góða.

Upplifun: "Beinverkir" í vöðvum

Eftir svokallaða "dugnaðarviku" nýlega er eins og allur vindur hafi farið úr manni. Ég veiktist og varð hálf skrýtinn í nokkra daga. Það lýsti sér sem lágur morgunhiti, 38 gráður, sem runnu af mér á hádegi - tvo daga í röð. Vægast sagt sérkennilegt mynstur það. Önnur einkenni voru líka óheðfbundin - ekki neitt í hálsi, né hausverkur eða beinverkir. Hins vegar var ég alsettur verkjum í vöðvum eins og um allsherjar harðsperrur væri að ræða. Ég reyndi að setja þetta í samband við duglegt skokk sem ég einhenti mér í á dögunum en sú skýring hefði þó aðeins náð upp í kálfa. Ég hafði enga skýringu á því hvers vegna ég var með vöðvaverki í öxlum, baki,lærvöðvum og upphandlegg auk þess að vera með verulega skertar fínhreyfingar í fingrum.

Þetta hafði þau áhrif að ég var frá vinnu á miðvikudaginn var (fyrir viku) og á fimmtudaginn líka. Á föstudaginn var kíkti ég í vinnu og lagði mig fram um að vinna eins og maður (eins og heill maður). Svo til læknis, á læknavaktina. Bráðabirgðaniðurstaða hans var sú að ég hefði fengið einhvern vírus (þeir eru víst ólíkindatól og hegða sér oft undarlega) sem hefði fengið útrás með þessum viðvarandi slappleika á eftir. Verkirnir voru hins vegar "beinverkir", sagði læknirinn. Svokallaðir "beinverkir" eru nefnilega "vöðvaverkir" sem okkur finnst koma innan úr beinum. Í þessu tilviki var tilfinningin bara önnur. En niðurstaðan var sú að mér ætti að batna á nokkrum dögum - ellegar skyldi ég koma aftur og láta taka blóðprufu.

Þetta stóð heima hjá lækninum. Verkirnir dvínuðu reyndar hægar en ég hafði vonast til en í dag, þriðjudag, er ég hins vegar orðinn nokkuð góður. Það lýsir sér meðal annars í því að ég get "pikkað" á lyklaborð án þess að finna fyrir áreynsluþreytu í upphandleggg og verkjum í fingrum. Þetta er allt að koma.

laugardagur, nóvember 28, 2009

Netið: Skemmtileg tuskudýr

Við skruppum í bæinn í dag. Gengum Laugaveginn. Hugmyndin var að upplifa Þorláksmessu með góðum fyrirvara og fá hugmyndir að jólagjöfum, jafnvel kaupa eitthvað. Hugrún var hins vegar þreytt svo við stöldruðum ekki eins lengi við og til stóð. Hins vegar áttum við gott stopp í Kisunni. Þar kennir sannarlega margra grasa. Eigendurnir kaupa, skilst mér, vörur héðan og þaðan - aðallega bara það sem þeim sjálfum þykir vænt um og vilja hafa heima hjá sér. Það ægir öllu saman - geisladiskum og brúðum, bókum og bollastellum, þroskaleikföngum og klæðnaði. Við fundum fullt af skemmtilegum gjöfum, svo sannarlega, en Hugrún beit líka á agnið. Hún hélt tangarhaldi í sérlega vandaðan hund (brúðu) sem við öll urðum hrifin af á staðnum. Hann var keyptur, tveir slíkir reyndar, fyrir Hugrúnu og Signýju. Þær fengu þá hins vegar ekki í hendur aftur fyrr en löngu seinna, rétt fyrir svefninn. Mikið var gaman að afhenda þeim hundana í rúmið og sjá þær kúra með sinn hvorn hundinn og sofna eins og sannkölluð jólabörn á tíu mínútum.

Núna þegar ég hef ákveðið að kveikja á tölvunni langaði mig að skoða fleiri vörur frá framleiðanda hundanna (hann var svo vandaður, að okkur fannst). Niðurstöður má sjá hér á þessari skemmtilegu síðu: Douglas Cuddle Toy

Daglegt líf: Dugnaðarvika

Nú er aðventan að hefjast og hún minnir mann á tiltekt, jólaundirbúning og (vonandi) notalegheit. Aldrei þessu vant erum við snemma á ferðinni og komin vel á stað með undirbúning. Í miðri vinnuviku datt mér í hug að baka smjörkökur af því ég var einn heima með Signýju og Hugrúnu (þessi uppskrift er nú það einfaldasta í bókinni). Tveim dögum síðar fylgdi Vigdís þessu eftir með tveimur sortum. Í gær stóð til að gera enn meira, en það hefur frestast þangað til á morgun.

Við ætlum að vera sérlega hagsýn og skynsöm þessi jól. Eitt okkar helsta ráð til að flýta jólaundirbúningi er að halda upp á afmæli Signýjar viku á undan áætlun. Sjötta desember verður haldið upp á afmælið formlega með veislu. Þetta helgast nú reyndar af því að Vigdís er að vinna talsvert helgina á eftir en eftir á að hyggja finnst okkur þetta heppilegt. Þá fá allir meira svigrúm til að undirbúa jólin. Þetta býður líka frekar upp á að taka helgina á eftir (hina eiginlegu afmælishelgi) á móti þeim sem ekki komast helgina á undan. Bæði skiptin eru því "alvöru": fyrri helgin er veisluhelgin og hin er "afmælishelgin". Sem sagt, bráðsniðugt.

Þetta breytta fyrirkomulag ýtti okkur því af stað með allan undirbúning. Nú erum við líklega hálfnuð með smákökubaksturinn, byrjuð á gjafainnkaupum (sem skulu að mestu kláruð fyrir afmæli Signýjar) og byrjuð að taka til í stórum stíl. Heil geymsla (af þremur) hefur verið rudd og ísskápurinn er í þessum skrifuðum orðum að þiðna. Það þýðir náttúrulega tiltekt í honum í kjölfarið. Svo langar mig að státa af skemmtilegu endurskipulagi í eldhúsinu í leiðinni - sérstakt flokkunarkerfi í kryddhillu og frumlegri uppröðun á matreiðslubókum í eldhússkáp - en ég fer ekkert nánar út í það nema í eigin persónu.

Á meðan allt þetta gengur yfir vill svo til að leigusalinn okkar er á fullu utandyra að laga lagnir og leiðslur sem staðið hafa í opnum skurði síðan í sumar. Í dag mokaði hann endanlega yfir.

Opnum skurði, sagði ég? Þetta hljómar svo sem ágætlega en ef maður spáir í það: Getur skurður nokkurn tímann verið annað en opinn?

En sem sagt, athafnasamir dagar sem miðast allir að sérlegri afslöppun hér heima um leið og afmæli Signýjar sleppir.

föstudagur, nóvember 27, 2009

Daglegt líf: Eldhússamræður

Nú á krepputímum er mikilvægt að laga einfaldan og ódýran mat sem oftast. Í kvöld var það hrísgrjónagrautur eftir öllum kúnstarinnar reglum (kanilsykur, vanilludropar, rúsínur og smjörklípa). Til að hann bragðist sem best þarf maður nauðsynlega að standa yfir honum og hræra reglulega á ekki of háum hita (annars kemur hæglega brunabragð af mjólkinni). Þessu hafa stelpurnar gaman af og njóta þess að hjálpa mér, svona við og við. Hugrún stóð við hlið mér all lengi og bað mig síðan: "Vittu halda mér og hræða?", sem má svo sem alveg misskilja. Ég lyfti henni hins vegar varlega upp að pottinum þar sem hún naut þess að "hræða" í grautnum með mér smástund. Svo fylgdist hún vel með þegar ég tók fram vanilludropana. Þegar hún fékk að þefa af dropunum sagði hún að bragði: "Oj, vond litt (lykt)" (þetta segir hún eiginlega alltaf þegar hún fær að þefa af einhverju). Síðan var henni lyft upp á ný til að fylgjast með því hvernig kandísbrúnn litur dropanna blandaðist saman við hvítan grautinn. En ekki hefur henni fundist liturinn merkilegur: "Það gleymdi (að) setja tómatsósu". Auðvitað! Tómatsósan reddar öllum mat. Hún Hugrún notar mikið orðið "geymdi" í merkingunni "vantar", sem mér finnst svolítið merkilegt. Ég benti henni hins vegar á að það ætti engin tómatsósa að fara saman við grautinn. "Ó" sagði hún þá (sem hún gerir gjarnan þegar hún er leiðrétt). Við svo búið kom Signý inn í eldhús. Hún vissi að ég væri að hita graut. Hún var farin að hlakka til og spurði full eftirvæntingar: "Pabbi, má ég líka fá blóðnös?". Ekki skildi ég spurninguna fyrr en hún endurtók: "Blóðnös, með sykri á!"

þriðjudagur, nóvember 24, 2009

Þroskaferli: Þroskamat Hugrúnar

Í gær var gaman hjá Hugrúnu. Hún fór í tveggja og hálfs árs skoðun, sem er fyrst og fremst þroskamat. Hún naut sín og settist prúð og yfirveguð við lítið barnaborð og leysti þar þrautir. Hún minnti mig satt að segja á japanskt eða kínverskt barn sem sest fulkomnlega agað og bíður fyrirmæla. Ég, sem er vanur hegðunarröskun á háu stigi í mínu starfi, undaðist hvað hún virtist vera skólahæf nú þegar. Og þrautirnar leysti hún með bravúr og fékk einkunn vel yfir meðaltali. Hún byggði meðal annars turn úr tíu smágerðum, sléttum kubbum. Viðmið fyrir hennar aldur er víst átta en hún fór létt með að reisa turninn alla leið, úr öllum kubbunum. Á vissum tímapunkti hallaði hann pínulítið og þá gerði sú litla sér lítið fyrir og leiðrétti turninn vandlega og hélt svo áfram. Ótrúlega yfirveguð. Þetta var eins og spennuatriði úr bíómynd fyrir okkur foreldrana sem horfðum gaumgæfilega en þegjandi á. Fyndnasta atriðið snerist hins vegar um ritun. Hún var spurð að því hvaða hönd hún notaði til að teikna. Hugrún var hálf undandi yfir þessari spurningu en lyfti upp hægri höndinni skýrt og greinilega. Hjúkrunarfræðingurinn ítrekaði við þetta spurningu sína - fannst þetta eitthvað óljóst - og þá rétti Hugrún upp vinstri höndinni með vísifingurinn útréttan og benti á hina höndina.

sunnudagur, nóvember 15, 2009

Upplifun: Tvíkeypt gjöf

Nú er athafnasamur sunnudagur að baki. Við fengum fullt af gestum í heimsókn, bæði upp úr hádegi og seinni partinn. Þar á milli skruppum við Signý og Hugrún í afmæli til bestu vinkonu Signýjar úr leikskólanum. Þar gekk allt óskaplega vel og maður sá betur en áður hvað þær eru góðar vinkonur. Þetta var líka til þess að brjóta ísinn því núna geta þær farið að mæta í heimsókn hvor til annarrar. Reyndar er það allt í burðarliðnum...

Gærdagurinn var ekki síður eftirminnilegur, en fyrir allt aðrar sakir. Við Signý og Hugrún fórum í bókabúðina á Eiðistorgi og fundum þar afmælisgjöf. Þetta var samtíningur sem Signý valdi saman af natni. Þessu var öllu pakkað inn mjög skemmtilega af afgreiðsludömunni. Síðan fórum við beint á eftir upp á bókasafn, sem er þarna nánast beint á móti. Þar héldum við okkur næsta hálftímann eða þar til tilkynnt var um lokun. Þær systur voru búnar að klæða sig úr útiskóm og heitum útiflíkum þannig að það var svolítil fyrirhöfn að hafa sig af stað á ný. Ekki bætti úr skák að Hugrún var engan veginn tilbúin að yfirgefa svæðið og harðneitaði að fara í skó. Það endaði þannig að ég hélt bara á Hugrúnu, skólausri, og var með skóparið í fanginu ásamt henni. Signý var hins vegar viljug til að halda á úlpunni hennar á leiðinni út. Þegar þangað var komið var daman klædd, áreynslulaust að þessu sinni, og við fórum út í bíl. Þegar heim var komið uppgötvaði ég hins vegar að pakkinn hafði ekki komið með okkur!!! Við það brunaði ég einn upp á safn og var kominn þangað fimmtán mínútum eftir lokun. Þá var kveikt innandyra en enginn á ferli þrátt fyrir ítrekað bank og bjölluhringingar. Líklega var enginn innandyra (ég gat gægst). Ljósið var hugsanlega ætlað ræstingunni sem var á næsta leyti. Gjöfin var hins vegar ábyggilega innandyra og myndi ekki koma í leitirnar fyrr en á mánudaginn kemur. Það er náttúrulega allt of seint. Ég sá í anda sársvekkta Signýju sem hafði brugðið mikið við að hafa gleymt gjöfinni. Þá datt mér þjóðráð í hug. Ég arkaði aftur út í bókabúð og vissi að ég myndi finna eitthvað annað í staðinn - með þá von í brjósti að ef til vill væru til önnur eintök af sömu hlutum og voru í pakkanum týnda. Sem og reyndist vera. Ég rétti afgreiðslukonunni nákvæmlega sömu hluti og áður og greindi í leiðinni frá atburðarásinni. Hún sýndi mér skilning og tók sérstaklega fram nýja rúllu af sama umbúðapappír og hafði klárast hálfum tíma fyrr og bjó nákvæmlega eins um hnútana og áður. Svo var hún að sjálfsögðu tilbúin til að taka við hinum pakkanum strax eftir helgi.

Þar með voru allir sáttir og jafnvægi helgarinnar stóð óraskað.

fimmtudagur, nóvember 12, 2009

Fréttnæmt: Hraðasekt

Í gær fékk ég bæði jákvæðar og neikvæðar fréttir inn um póstlúguna. Ég fékk annars vegar að vita það að lögreglan er farin að fylgjast mjög náið með hraðaakstri í hverfinu. Sem er gott. Hins vegar frétti ég þetta frá lögreglunni sjálfri. Ekki nógu gott. Þeir gómuðu mig í hverfinu með eftirlitsmyndavél, á 48 kílómetra hraða á götu þar sem hámarkshraðinn er þrjátíu.

Nánar tiltekið var þetta um hábjartan daginn á Kaplaskjólsvegi - nánast gatan heim í hlað, klukkan hálf þrjú (engin umferð). Ef ég þekki mig rétt þá hef ég ákveðið að aka greitt þennan stutta spotta vegna þess að ég sá vel yfir og ekki nokkur hræða á sveimi um þetta leyti á svæðinu. Yfirsýn er mjög góð þegar engum bíl hefur verið lagt í götunni, eins og tíðkast um þetta leyti. En því miður þá er eftirlitsmyndavél bara vél og tekur ekki mið af aðstæðum.

Svekktur? Nei, bara hissa á að lenda í þessu aftur. Það rifjaðist upp fyrir mér hraðasekt sem ég fékk á leiðinni til Færeyja fyrir sex árum síðan (sjá hér). Samanlagt hef ég nú verið gómaður þrisvar (einu sinni þegar ég vann fyrir austan, á leið milli Hellu og Hvolsvallar). Í öll skiptin varð ég jafn hissa.

fimmtudagur, nóvember 05, 2009

Daglegt líf: Venjulegt amstur og framfaraskref

Síðustu tvær vikurnar hef ég ekkert skrifað en það helgast af því að tiltölulega fátt hefur á daga okkar drifið. Eins og flestir erum við í viðbragðsstöðu vegna svínaflensunnar. Vigdís fékk einhverja smápest og mátti ekki vinna vegna hennar síðustu helgi. Mögulega var þar um að ræða svínaflensuna sem náði þá ekki að grassera vegna forvarnarsprautunnar sem hún fékk nýlega sem heilbrigðisstarfsmaður. Eða kannski var þetta bara eitthvað allt annað. Annars höfum við verið mjög frísk eftir að ég náði mér sjálfur af flensunni minni þar á undan. Fórum fyrir tveimur vikum í bústað og höfðum það náðugt. Það er alltaf gott að sleppa aðeins út úr bænum.

Síðan við komum úr bústaðnum höfum við smám saman verið að venja Hugrúnu af næturbleyju. Við erum enn að nota leifarnar af bleyjupokanum sem hún kom með heim um daginn úr leikskólanum og ætlum okkur ekki að sólunda þeim kæruleysislega. Það verður ekki keyptur annar poki á þetta heimili! Þetta krefst auðvitað sérstakrar athygli af okkar hálfu. Það þarf að vekja hana á miðnætti og fara með hálfsofandi á klósettið (hún tekur því furðu vel). Svo er hún gómuð um miðja nótt ef hún byltir sér eða vaknar. Á morgnana fær hún heldur ekki að lúra fram eftir. En auðvitað gerast slysin þrátt fyrir allt. Þá kemur þvottavélin að góðum notum - sem, nota bene, þurfti viðgerðar við um daginn. Allt kemur þetta heim og saman.

miðvikudagur, október 21, 2009

Pæling: Hinn margslungni markaður

Ég var að koma af kaffihúsarölti með Jóni Má. Það fór öðruvísi en ætlaði því upphaflega stóð til að fara í bíó, á myndina "Capitalism: A Love Story" (nýjustu Michael Moore myndina). Ég átti tilboðsmiða á myndina (tveir fyrir einn). Það gekk ekki betur en svo að tilboðið var háð greiðslu með Mastercard korti. Það stóð reyndar á miðanum ef rýnt var í smáa letrið en auðvitað hafði það farið fram hjá mér. Mér fannst líka skjóta verulega skökku við að mynd sem gagnrýnir peningahyggju samfélagsins skuli vera kynnt af markaðsráðandi kortafyrirtæki (og að tilboðið skuli háð skilyrðum frá þeim). Við hugsuðum okkur um andartak, því til greina kom að fara á myndina þrátt fyrir allt, en ákváðum að skella okkur í bæinn á endanum. Prinsippið vóg þar þungt.

Við gerðum það ansi gott í bænum. Satt að segja má segja að um hugmyndafræðilega byltingu hafi verið hjá mér að ræða persónulega því í stað þess að rölta á milli hvimleiðra kaffihúsa, uppfullum af skemmtanaglöðum (eða -þreyttum) Íslendingum fórum við á hótelin. Þar er mikið notalegri stemning en úti í samfélaginu. Þar er mjög huggulegt að spjalla í tímalausu umhverfi, fámennt og yfirvegað - jafnvel þegar lætin eru sem mest úti (eða því trúði einn þjónninn fyrir mér aðspurður). Það er einnig óhætt að segja um aðbúnaðinn á hótelunum að húsgögnin séu almennt vandaðri og þægilegri en annars staðar, enda ekki sami ólifnaðurinn sem líðst á hótelum og úti í samfélaginu. Það sem kom mér hins vegar mest á óvart var að verðið á veitingunum er ekki hærra en annars staðar. Kannski var það meinloka frá ferðum mínum erlendis sem fékk mig til að brennimerkja öll hótel sem ofurdýr afdrep. Það á líklega við víðast erlendis en ferðamenn hérlendis eru hins vegar varir um sig í okkar dýra landi. Það heldur verðinu á hótelveitingum verulega niðri, geri ég ráð fyrir. Til dæmis fékk ég mér sérlega myndarlegan og rausnarlegan kaffi latte á Radisonhótelinu á 390 krónur. Ég efast um að uppáhellingin annars staðar sé ódýrari nú til dags.

föstudagur, október 16, 2009

Daglegt líf: Veikindahrina

Nú er veikindatörn að baki. Hugrún veiktist lítillega á föstudaginn var - með magakveisu. Hún lagaðist fljótt en við létum hana vera með bleiu yfir helgina þar til hægðirnar formuðust almennilega. Á meðan veiktist Signý, aðfaranótt laugardagsins, með ælupest. Hún var strax betri á sunnudeginum. Á mánudeginum fór Hugrún í leikskólann en Signý var heima um sinn. Magakveisan tók sig hins vegar upp um kvöldið og við héldum henni heima á þriðjudag, ásamt Signýju (þær voru báðar full tæpar). Ég tók mér frí frá vinnu þann daginn enda leið Vigdísi eitthvað einkennilega, með magaverki (sem löguðust þegar á leið). Um kvöldið voru litlu stúlkurnar hins vegar orðnar bara nokkuð brattar en mér fór hins vegar að líða undarlega - með doða um liðamótin - eins konar létta beinverki. Til stóð að fara í bíó um kvöldið og var ég efins um þau áform. Eftir mælingu reyndist ég alveg hitalaus og skellti mér.

Fór með Jóni Má á "Stúlkuna sem lék sér að eldinum". Við urðum báðir fyrir vonbrigðum með myndina, sérstaklega í samanburði við fyrstu söguna (sem ég hafði séð og hann lesið). Atburðarásin var ótrúverðug á köflum, þræðir sögunnar of margir og flóknir (fyrir mig að minnsta kosti), og andhetjur sögunnar lygilegar í anda heljarmenna úr James Bond sagnabálkinum. Nei, hún skildi lítið eftir sig samanborið við fyrsta hluta. Ég held að veikindin hafi ekki haft mikið með matið að segja en ég verð samt að viðurkenna að mér var farið að líða undarlega, með skjálfta og beinverki þegar á leið.

Síðan á þriðjudag hafa Signý og Hugrún farið í leikskólann eins og ekkert sé á meðan ég hef verið heima lasinn. Ég skalf eins og hrísla um tíma og á miðvikudag var hitinn stöðugt vaxandi frá mildum ca. 38 stiga hita og upp í 39 og toppaði í 39,4 en verið hægt og rólega á undanhaldi eftir það (hitalaus í gærkvöldi). Núna er ég með leifar af veikindunum í bólgnum hálsi og með þrálátan verk í höfðinu. Hlýt að verða fullfrískur yfir helgina. Ef maður setur þetta í stærra samhengi þá skilst mér að svínaflensan sé mikið öflugri. Þá á maður víst að steinliggja. Hún kemur með mjög háan hita og er með engin vettlingatök ólíkt þessari flensu. Í gær var ég meira að segja nógu brattur til að keyra Vigdísi upp á spítala. Hún er í vaktafríi en þurfti að láta sprauta sig eins og allt heilbrigðisstarfsfólk. Nú bara vonar maður það besta. Ekki nenni ég að vera veikur aftur.

miðvikudagur, október 07, 2009

Daglegt líf: Tvenns konar sýn á Fróða

Signý og Hugrún eru í þessum skrifuðum orðum að horfa á barnaefnið í sjónvarpinu. Nú er verið að sýna gömlu góðu þættina Einu sinni var. Þar er hvíthærði öldungurinn Fróði í broddi fylkingar og leiðir ætt sína gegnum mannkynssöguna. Núna er hann víst staddur á köldu hellisgólfi á forsögulegum tíma (þáttur tvö, held ég). Við lentum inn í miðjum þætti þegar ég kveikti á sjónvarpinu og hvíthært andlit Fróða birtist skyndilega í nærmynd. Þá hrópaði Hugrún upp yfir sig: Jólasveinninn! Signý hristi hins vegar hausinn, fannst þetta greinilega mikil fjarstæða, og leiðrétti hana strax: Nei, þetta er api!

fimmtudagur, október 01, 2009

Þroskaferli: Burt með allar bleyjur

Hugrún hefur staðið sig sérlega vel undanfarnar þrjár vikur við að losa sig við bleyjurnar og pissar nú nánast eftir pöntun. Fyrir mánuði síðan leit þetta ekki svona vel út. Reyndar nær sagan ár aftur til þess tíma þegar Signý var að venja sig af bleyjum. Þá vildi Hugrún prófa líka að pissa í kopp. Okkur fannst hún þessleg að hún myndi ná þessu fljótlega. Hún sat hins vegar upp á "sportið" en náði aldrei árangri. Þar sem blöðrubólguvandinn var enn til staðar vildum við ekki setja á hana neina pressu að svo stöddu og vonuðumst bara til að þetta kæmi af sjálfu sér. Jólin gengu í garð og ekki vildi hún klára dæmið. Hún var ekki orðin tveggja ára - og átti raunar nokkuð í land með það (fjóra mánuði eða svo) - þannig að við sátum bara hjá og reiknuðum með að páskarnir yrðu gjöfulli. Þeir fóru hins vegar eins og þeir fóru - ég nánast hinum megin á hnettinum og aðalmálið að raska ekki heimilislífinu of mikið á meðan, enda nóg að gera fyrir. Þá fór sumrið að líta vel út. Það þarf nefnilega gott svigrúm til að koppavenja, helst frí, þannig að maður geti veitt aðhald allan sólarhringinn. Sumarið hefur mörgum reynst vel því þá er auðvelt að láta börnin spranga um úti bleyjulaus þar til eitthvað gerist (engum húsgögnum fórnað). Við vorum sannfærð um að þetta gengi auðveldlega eftir, enda Hugrún orðin rúmlega tveggja ára á þeim tímapunkti. En allt kom fyrir ekki. Við tókum af henni bleyjuna langtímum saman en það var sem hún héldi í sér á meðan, frá hádegi og langt fram á kvöld. Þetta leist okkur ekki vel á með tilliti til blöðrubólgunnar svo við leyfðum henni að losa í bleyju öðru hvoru. Það flækti hlutina. Hún var viljug til að sitja á koppinum - það vantaði ekki - en ekkert gerðist í svo ótalmörg skipti. Stundum losaði hún eftir að hafa nýlega staðið upp. Maður klóraði sig í kollinum - hefur hún sjálfstjórn (heldur í sér) eða ekki (nær ekki að losa)? Ég neita ekki að það var oft stutt í gremjuna.

Í lok júlí fórum við með Hugrúnu í rannsókn, eins og ég skrifaði um á sínum tíma. Þá gerðist nokkuð sérstakt. Í þvagblöðruna var dælt vökva með skuggaefni sem gerir þvagið sýnilegra á myndunum. Hún átti að pissa á meðan þau fylgdust með leið þvagsins. Ekkert gerðist hins vegar. Þá datt hjúkrunafræðingnum í hug að setja hana á kopp. "Glætan" hugsaði ég og fannst ólíklegt að hún myndi skila árangri svona eftir pöntun þegar við vorum búin að reyna mánuðum saman heima. En viti menn, hún pissaði! Væntanlega var hún komin alveg í spreng út af viðbótarvökvanum og mátti ekki við því að setjast upp. Sú litla var hins vegar mjög stolt og talaði um það reglulega á eftir hvað hún hafði verið "duleg a pissa í koppinn". Nú heldum við að hún væri bara búin að "fatta" þetta en samt varð bið á næsta árangri. Nokkrum vikum seinna kom næsta buna. Síðan ekki fyrr en fyrir þremur vikum síðan, einmitt þegar þær systur fóru í pössun til Beggu frænku sinnar, að hún pissaði í þriðja skiptið. Þá er eins og björninn hafi verið unninn, loksins. Eftir það náði hún árangri á hverjum degi - stundum að eigin frumkvæði og yfirleitt eftir pöntun. Hún er nú nýfarin að sleppa bleyju í leikskólanum og stendur sig bara ljómandi vel.

Daglegt líf: Síðasta uppskeran

Frostið framundan kallar uppskeruna inn. Ég hentist út í garð og náði í lokaskammtinn af gulrótauppskerunni okkar. Hún fyllti litla skál, gómsætar en smáar. Við köllum þær "barnagulrætur" og þær eru étnar eins og sælgæti af okkur öllum. Ætli sumrinu sé ekki endanlega lokið hér með?

sunnudagur, september 27, 2009

Pæling: Furðumikil menningarskorpa

Nú er kreppa en menningin blómstrar! Alþjóðlega kvikmyndahátíðin er að renna sitt skeið á enda. Við kíktum á barnasýningar með Signýju og Hugrúnu, nokkrar stuttar í einum rykk. Þær myndir voru hver annarri furðulegri, en ein var þó stórskemmtileg og þess virði að sjá aftur einhvern tímann (Björninn kemur/Bear is coming e. Janis Cimermanis). Tilbreytingin var hins vegar af hinu góða í grámyglunni og rigningaréljasuddaslyddunni undanfarið. Ekki fór ég sjálfur á fleiri myndir á hátíðinni en kíkti hins vegar á indverska daga hjá Grand Hótel. Þar var boðið upp á indverskan mat í viku, bæði í hádegi og á kvöldin ásamt indverskum kvikmyndasýningum. Allt beint frá Indlandi. Þetta er auðvitað þemað í ár og ég skellti mér á fimmtudaginn var með vinnufélögunum. Maturinn stóð fyrir sínu (þó helst til mikið kryddaður og full mikið úrval af kjötréttum á kostnað grænmetis) og voru eftirréttirnir auðvitað bestir. Það er sérlega gaman að sitja þarna og borða. Hótelið býr yfir yfirbyggðu torgi á milli stórhýsa. Umhverfið minnti mig helst á New York, svona í fljótu bragði, og náttúruleg birta og opið rými minnti mann á góðviðrisdag í útlöndum. Ég mæli því eindregið með þessu, sem upplifun, ef menn vilja eitthvað nýtt og öðruvísi. Þeir eru víst með hádegishlaðborð dags daglega á 2.400 manninn. Ekki slæmt.

Eins og ég minntist á þá voru kvikmyndasýningar í boði hótelsins á sama tíma. Tímasetningin hlýtur að teljast óheppileg í ljósi alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar. En er þetta ekki alltaf svona!? Yfirleitt skiptast á offramboð og gúrkutíð þegar menning er annars vegar. Á sama tíma var nefnilega bókmenntahátið, sem hefði verið gaman að kíkja á, og vísindasýning fyrir börn og fullorðna í Listasafni Íslands. Svo var fjölbreytt tónleikahátíð í gangi núna um helgina (Réttir) og önnur kvikmyndahátið (norræn) að renna í hlað. Hvað ef maður er veikur í viku? Verður maður þá að bíða í nokkra mánuði eftir næsta skammti?

Af hverju er þetta svona? Mig grunar að þetta liggi svolítið í eðli landans. Við erum skorpufólk, við skeytum engu um það hvað næsti maður er að gera (og samræmum ekki áætlanir okkar) og sveiflumst öll meira eða minna með sömu öfgafullu tímaklukkunni, ársveiflum ljóss og myrkurs sem trekkja okkur upp að því er virðist jafn hratt. Um leið og verslunarmannahelgin slúttar sumrinu og kvöldmyrkrið fer að læðast inn hefst undirbúningstími okkar allra fyrir veturinn með þeim afleiðingum að uppskeran er öll meira eða minna á sama tíma. Eða hvað? Vonandi hugsa ekki allir eins og stíla inn á sama "dauða tímann" í september. Ætti október að vera eitthvað verri mánuður fyrir menningarveislur?

laugardagur, september 26, 2009

Daglegt líf: Sjokkerandi verðsamanburður

Ég skrapp út í búð seint í gærkvöldi - þurfti að redda mjólk - og fór í 10/11 í nágrenninu. Það hvarflaði að mér að kaupa lítinn brauðpoka í leiðinni en mér brá snarlega þegar ég sá verðið: 278 kr! Mér fannst þetta hátt verð fyrir heilt samsölubrauð, hvað þá hálft! Ég kíkti í budduna til samanburðar og fann strimil úr Bónus. Þar var brauðið með ódýrara móti: 99 kr.!

Í dag fór ég aftur út í búð og hafði þetta brauðsjokk sérstaklega í huga. Fór í gegnum Hagkaup til að tékka á brauðinu þar og fann sama brauð á 198 kr. Eftir það átti ég leið í Krónuna: 147 kr. Sem sagt, nokkurn veginn eftir bókinni: Bónus: 99 kr. - Krónan: 147 kr. - Hagkaup: 198 kr. - 10/11: 278 kr. Það skiptir svo sannarlega máli hvað maður kaupir vöruna, eins og menn vita! Oft er um tvöfalt verð að ræða - jafnvel þrefalt - á milli búða.

Undanfarin ár hefur mér fundist Krónan vera samstíga Bónusi í verði - kannski krónu dýrari. Nýlega komst ég hins vegar að því að það er liðin tíð. Margt er reyndar á svipuðu verði og í Bónus (og fullt af fínum tilboðum) en svo inni á milli eru vörurnar mun dýrari (þannig græða þeir á grunlausum kúnnum). Krónan er að minnsta kosti stórvarasöm ef maður ætlar að sópa úr hillunum. Ég hef minnst á þetta við marga kringum mig undanfarið en læt flakka hér með eina sögu af þistilhjörtum:

Ég fór í Hagkaup fyrir um tveimur vikum síðan í leit að þistilhjörtakrukku (frá Sacla). Ég gerði mér væntingar um að hún myndi kosta um 5-600 kall. Ekki mikið dýrara en það. Hún kostaði hins vegar svimandi 978 krónur! Ég snaraði mér undir eins út í Bónus þar sem ég þóttist viss um að geta fengið krukkuna að minnsta kosti nokkrum hundraðköllum undir því verði. Þar brá mér hins vegar á hinn veginn: 398 kr.!! Hvernig stendur á svona ótrúlegum verðmun? Nokkrum dögum síðar tékkaði ég á nákvæmlega sömu vöru í Krónunni, til að hafa allt á hreinu, og átti von á að verðið myndi liggja þarna mitt á milli, en viti menn, verðið var nákvæmlega það sama og í Hagkaupum: 978 krónur sléttar!!! Eftir það hef ég verið mun varkárari í þeirri búð og haldið mig einungis við nauðsynjar og þær vörur sem Bónus selur alls ekki.

laugardagur, september 19, 2009

Kvikmyndir: District 9

Ég fór í bíó í gær, aldrei þessu vant, og skellti mér á frumsýningu á myndinni "District 9". Þetta er sérlega óvenjuleg mynd. Hún fjallar um samskipti manna og geimvera eftir að geimskip "strandar" fyrir ofan Jóhannesarborg í Suður-Afríku einhvern tímann í framtíðinni. "Fyrir ofan" segi ég, því skipið brotlenti ekki heldur hékk það á himnum, hreyfingarlaust, langtímum saman og varð að endanum sem tröllaukið kennileiti borgarinnar. En ekkert gerðist fyrr en menn ákváðu að kanna skipið að innan. Þar fundu þeir geimverur í tugþúsundatali sem voru við það að veslast upp.

Myndin fjallar um samskipti manna og þessara geimvera eftir að þeim hefur verið komið fyrir á afmörkuðu svæði. Myndin er hreint ótrúlega vegna þess að hún er svo margt í senn: Hún er félagsleg ádeila á samskipti drottnara og hins kúgaða og þá spillingu sem þrífst kringum völd. Hún er vísindaskáldssaga, sem gerist í framtíðinni með mjög ferskum og spennandi pælingum sem virka mjög trúverðugar. Hún er líka spennutryllir því við lifum okkur inn í hlutskipti aðalsögupersónu sem er hundelt af yfirvöldum. Myndin er líka stríðsmynd í anda "Saving Private Ryan" með mjög nærgöngulum og blóðugum senum á köflum. Svo er hún líka sæt geimverumynd í anda E.T. (við kynnumst geimverunum svolítið persónulega og fáum samúð með þeim). Að endingu er þetta mögnuð sýndar-heimildarmynd (pseudo-documentary) því myndin er öll sett fram sem fræðileg umfjöllun á atburðum sem eiga að vera liðnir, með fréttaskotum og viðtölum. Á tímabili er myndavélin á hreyfingu og það magnar upp raunveruleikatilfinninguna. Fyrir vikið er þessi fjarstæða mynd ótrúlega trúverðug og kemur gjörsamlega aftan að manni.

Mér fannst beinlínis undarlegt að stíga út úr salnum og horfa á alla bílana á bílastæðinu fyrir utan. Ég hafði sogast svo rækilega inn í þessa skálduðu framtíð að mér fannst eins og ég væri að ganga um safn, með snyrtilega röðuðum fornbílum. Allt virkaði svo furðu friðsamt, snyrtilegt og haganlega skipulagt.

miðvikudagur, september 16, 2009

Upplifun: Jethro Tull tónleikarnir

Eins og venjulega gefst svigrúm til að blogga ekki fyrr en löngu eftir á. Núna er ég með hugann við frábæra tónleika sem ég fór á um helgina, með Jóni Má, Villa bróður og Guðmari vini hans. Jethro Tull var það í þetta skiptið. Þeir eru orðnir sannkallaðir Íslandsvinir (þetta er fjórða tónleikaheimsókn Ian Andersons, í eigin persónu eða með hljómsveitinni). Anderson er frábærlega öruggur sviðsmaður. Hann fór á köflum hamförum á sviðinu með látbragði og geiflum. Svo kann hann svo sannarlega að hafa ofan af fyrir áhorfendum milli laga með líflegu spjalli og húmor. Oft er það gálgahúmor í garð meðspilara sinna eða kaldhæðni gagnvart sjálfum sér og eigin lagasmíðum. Það er ekki síður gaman að horfa á svona jaxla taka eldgömul lög og umbreyta þeim í lifandi flutningi. Fyrir það fær hljómsveitin full af plúsum frá mér. Þetta voru flottir tónleikar sem uxu þegar á leið og urðu hreint magnaðir undir lokin.

Á meðan ég naut mín í Háskólabíói voru Signý og Hugrún hins vegar í góðu yfirlæti hjá Beggu systur sem af sínu örlæti bauðst til að passa einu sinni enn. Yfirleitt nýtum við svona tækifæri í sameiningu, við Vigdís, en engu að síður nýttist þetta henni mjög vel. Hún bauð til sín tveim systrum sínum í DVD-kvöld. Þegar ég kom heim, upphafinn af mögnuðum tónleikunum, tók við ekki síðri tónaveisla: "Heima" með Sigurrós. Ekki ónýt heimkoma það!

fimmtudagur, september 10, 2009

Þroskaferli: Tónlistarnæmni systranna

Í kvöld hlustuðum við Signý og Hugrún á Karnival dýranna eftir Camille Saint-Saens. Þar er líkt eftir ýmsum dýrum með stuttum en hugmyndaríkum tónsmíðum. Þær hafa svo sem heyrt þetta áður en mér fannst þær hlusta betur núna. Þegar kom að kafla um steingervinga (Tóndæmi: Carnival of the Animals - Fossils) kviknaði einhver tenging hjá þeim báðum og þær ústkýrðu fyrir mér að þarna væri Mikki og Mína að fara til nornarinnar. Ég fattaði strax að þær voru að vísa í myndband sem var í uppáhaldi hjá þeim á netinu þar sem Mikki og Mína lenda í hrakningum hjá norn (með vísun í Hans og Grétu). Þetta var allt sett fram við undirspil klassískrar tónlistar. Það var hins vegar ekki rétt hjá þeim að þetta væri sama lagið en samt voru lögin að mörgu leyti mjög svipuð. Þegar ég fór að hugsa málið frekar áttaði ég mig á því að viss fimm nótna lykilfrasi var nánast sá sami. Það sem meira er að lögin voru bæði frönsk (hljómaheimurinn mjög áþekkur). Síðan áttaði ég mig á því að hitt lagið var Danse Macabre, einnig eftir Saint-Saens!

Sjá hitt myndbandið hér: Mikki og Mína (Hans og Gréta)

Mér var nokkuð brugðið þegar ég komst að þessum tengslum. Lögin tvö hef ég þekkt lengi en aldrei áttað mig á því hvað þau eru lík. Í leiðinni er ég eiginlega gáttaður á næmninni í Signýju og Hugrúnu því þær tengdu þetta báðar saman hikstalaust.

sunnudagur, september 06, 2009

Netið: Tónlistargrúsk á Pitchforkmedia

Um daginn datt ég inn í grúsk á vefsetrinu sem kennir sig við tónkvísl (Pitchforkmedia). Þetta er sá vefmiðill sem nýtur hvað mestrar virðingar hjá tónlistarmönnum enda er þar tekinn púlsinn á því framsæknasta í tónlistinni hverju sinni. Þegar nýútkomin plata fær afbragðsdóma hjá þessum vefmiðli er umsvifalaust tekið mark á því og keppast aðrir netmiðlar og bloggarar heimsins um að kynna sér gripinn í kjölfarið. Ég hef reyndar ekki verið duglegur að eltast þetta og fletti tiltölulega sjaldan upp á Pitchforkmedia (mér nægir að skoða uppgjör bloggara og annarra netmiðla um áramót og tékka þá á helstu plötunum - þannig að ég fylgist með í annarri eða þriðju bylgju, má segja). Þarna skýli ég mér á bak við tímaskort (áhuginn er alveg fyrir hendi). Einnig hefur mér fundist umfjöllun þeirra í fyrstu sýn frekar óaðlaðandi, satt að segja. Þeir fjalla um tónlist á frekar háfleygan hátt með vísun í tónlist sem ekki allir þekkja. Þar að auki meta þeir plöturnar með einkunnagjöf sem hleypur á hundraðshlutum, sem virkar vægast sagt undarlega. Hvernig er hægt að gera greinarmun á plötu sem fær 9.2 og 9.3 í einkunn? Fyrir vikið hef ég fengið á tilfinninguna að þeir taki sig full hátíðlega með sinni læknisfræðilegu nákvæmni.

Núna er ég hins vegar tilbúinn til að meðtaka það sem þeir hafa að segja. Ástæðan er einfaldlega sú að ég komst yfir umfjöllun þeirra um tónlistarsöguna og fann undir eins að þeir virtust hafa svipað verðmætamat og fagurfræðilega nálgun og ég, þegar tónlist er annars vegar. Um er að ræða kaflaskipta umfjöllun um tónlist síðustu fjögurra áratuga þar sem hver áratugur er tekinn fyrir með lista yfir hundrað merkustu plötur hvers um sig. Yfirleitt er ég ekkert sérstaklega sammála svona listum og finnst hljómsveitum eins og Oasis og Sex Pistols gert full hátt undir höfði á kostnað hljómsveita sem voru raunverulega skapandi, framsæknar og spennandi. Hér gladdist ég hins vegar óskaplega. Látum okkur sjá:

Bestu plötur áttunda áratugarins (1970-1979)

1. Low - David Bowie
2. London Calling - the Clash
3. Marquee Moon - Television
4. There´s a Riot Going On - Sly and the Family Stone
..... Dylan, Brian Eno, Gang of Four, Joy Division, Led Zeppelin og Kraftwerk inni á topp tíu (ekki í þessari röð þó).

Hvernig er hægt annað en að taka mark á vefmiðli sem lýsir Low sem merkustu plötu þessa áratugar? Flestar sambærilegar umfjallanir hafa gert Ziggy Stardust mun hærra undir höfði en mín skoðun er sú að þessi plata sé margfalt merkilegri. Eins finnst mér stórkostlegt að sjá Marquee Moon og "Riot" svona ofarlega.

Kíkjum á næsta áratug (1980-1989):

1. Sonic Youth - Daydream Nation
2. Remain in Lights - Talking Heads
3. Paul´s Boutique - Beastie Boys
4. Doolittle - the Pixies

Næstu plötur geyma aðra Pixies plötu (Surfer Rosa) , Joy Division, Tom Waits, the Smiths (Queen is Dead), R.E.M. (Murmur) og Public Enemy. Í fyrsta lagi er unaðslegt að sjá topp tíu lista frá þessum tíma sem ekki geymir Joshua Tree. Í öðru lagi tvær Pixies plötur! Þetta er svo sannarlega tónlistarsagan eins og ég sé hana fyrir mér. Ég þekki ekki rappplöturnar tvær en efast ekki um að þær séu snilld... á bara eftir að gefa mig að þeim. Og Daydream Nation á toppnum! Svona á sko að slá um sig með tónlist!

Næsti áratugur (1990-1999)

1. Ok Computer - Radiohead
2. Loveless - My Bloody Valentine
3. The Soft Bulletin - the Flaming Lips
4. Neutral Milk Hotel - In the Aeroplane Over the Sea

Þarna var ég svo gjörsamlega sammála að ég nánast missti mig. Það hefði verið freistandi fyrir framsækinn lista eins og Pitchforkmedia að líta fram hjá Radiohead-plötunni, af því hún hefur verið mikið í útvarpinu, en þeir gera það ekki. Þeir eru einfaldlega ekki of uppteknir af sjálfum sér til að segja sannleikann: Ok Computer er einhver ótrúlegasta plata sem nokkurn tímann hefur komið út. Svo kemur Loveless strax í kjölfarið - önnur fullkomnun, en á mikið afmarkaðri hátt. Soft Bulletin er líka óaðfinnanleg plata. Ég einfaldlega varð að kynna mér plötuna í fjórða sætinu undir eins og var ekki lengi að falla fyrir henni. Þar er um að ræða mjög ólíklega samsuðu af tónlist sem gengur ótrúlega vel upp. Næstu plötur voru svo sem ekkert slor heldur: Tvær með Pavement, ein með DJ Shadow, Bonnie Prince Billie, Guided By Voices og svo auðvitað risaplatan með Nirvana (sem ég hreifst reyndar aldrei almennilega af).

Þegar þetta er allt tekið saman, eftir að hafa skimað yfir heildarlistana, sér maður að Pitchforkmedia leitar markvisst að skapandi og frumlegri tónlist en er ekki of uppskrúfuð til að líta fram hjá augljósri snilld sem nær til fjöldans heldur. Listamannasamfélagið sem hringaði sig um New York og Berlín á sínum tíma (Lou Reed, Brian Eno, David Bowie og David Byrne úr Talking Heads) fá veglegan sess í þessari umfjöllun. Það er mér mjög að skapi. Líka er gaman að benda á það að hún Björk fær þrjár plötur inn á þessa lista og Sigur Rós eina. Getum við annað en tekið mark á því?

Nú vantar enn þá yfirlit yfir síðustu tíu ár sem og sjötta áratuginn (1960-1969). Þetta er hins vegar hreint út sagt magnaður gagnabanki til að grúska í á næstunni. Þrjú hundruðu plötur frá 1970-1999 auk styttri lista yfir fyrri hluta þessa áratugar (2000-2004) og lista yfir bestu lög sjötta áratugarins og þess sjöunda (með tóndæmum). Ekki má heldur gleyma árslistum síðustu ára, eitt ár í einu. Þar sem ég þekki allra nýjustu tónlistina tiltölulega lítið (samanborið við eldri tímabil) get ég ekki annað en tekið áskoruninni fegins hendi á meðan ég hneigi mig fyrir Pitchforkmeida.

Daglegt líf: Breytingar haustsins

Vetrarstarfið er gengið í garð. Vigdís byrjaði að vinna í vikunni eftir drjúgt sumarfrí. Sú aðkoma var kannski ekki þægileg í ljósi niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu og þess uppnáms sem því fylgir. Hún skynjaði vanlíðan margra á sínum fyrsta vinnudegi. Það má segja að ég sigli lygnan sjó í samanburði. Vinnan mín er í sömu skorðum og í fyrra. Reyndar finnur maður hvernig þrengir að með óbeinum hætti. Buglið er undir þeirri pressu frá yfirvöldum að koma fleiri börnum í gegnum greiningu á skemmri tíma. Það þýðir fyrir okkur í skólanum að við höfum ívið styttri tíma til að vinna með hvern nemanda (4-6 vikur nú í stað 6-8 áður). Þetta finnst okkur miður og bitnar að einhverju leyti á faglegri vinnu okkar, en það má líka líta á þetta sem jákvæða pressu. Sjálfur finn ég fyrir því hvernig frítími minn í vinnunni (sem nýtist til undirbúnings fyrir næsta kennsludag) er minni ár frá ári.

Sú breyting á högum fjölskyldumeðlima sem er jákvæðust hlýtur að vera Hugrúnar og Signýjar. Þær eru báðar að færast upp um deild í leikskólanum. Hugrún er nú komin á Miðbæ (úr Norðurbæ) og Signý er komin í Suðurbæ. Þetta gekk áreynslulaust fyrir sig hjá þeim báðum. Hugrún tók þessu með stóískri ró, enda vön Miðbænum frá Signýju, en Signý var hins vegar mjög spennt og full tilhlökkunar eftir því að byrja á Suðurbæ. Þessi breyting hjá systrunum gekk í garð samtímis þannig að Hugrún fékk bara snagann hennar Signýjar (voða þægilegt fyrir okkur foreldrana). Þegar við vorum búin að skila Hugrúnu af okkur á Miðbæ gat Signý ekki beðið eftir að byrja á Suðurbæ og hljóp á undan mér á sína deild. Þar hefur hún unað sér vel alla vikuna. Þetta er gaman að sjá og vonandi til vitnis um metnað hennar, enda hefur hún oft útskýrt það fyrir okkur að undanförnu að hún ætli í Melaskóla þegar hún er búin með leikskólann.

föstudagur, ágúst 28, 2009

Pæling: Óraunveruleikaþættir

Síðustu tvær vikur hefur verið á dagskrá Sjónvarpsins þáttur um Bresku konungsfjölskylduna. Maður hefur horft á fullt af raunveruleikaþáttum í gegnum tíðina en ég gat ekki varist þeim samanburði að finnast þessir þættir vera andhverfa slíkra þátta: eins konar óraunveruleikaþættir. Þarna er fjölskylda sem hefur ekkert sérstakt sér til dundurs annað en það að skoða hvernig við hin lifum lífinu og sveima yfir okkur með sinni ímynduðu verndarhendi (eða fjárstyrk). Þeirra líf er aðskilið raunveruleikanum. Þau horfa kannski ekki á okkur í sjónvarpinu í þar til gerðum raunveruleikaþáttum (eins og við hin) heldur læðast þau út á "vettvang" og eru þar stödd í eigin skinni og virða fyrir sér framgang lífsins utan kastalans hjá okkur hinum sem raunverulega þurfum að hafa fyrir því að lifa. Þar sem þau mæta í eigin persónu á vettvang, og hafa boðað komu sína með löngum fyrirvara, er ekki hjá því komist að öll upplifun þeirra kemur til með að vera "fölsk". Þau sjá ekki hið daglega amstur heldur uppstillta sparimynd. Það sem var hins vegar óraunverulegast af öllu fyrir mig að horfa upp á, og kannski óhugnanlegast í leiðinni, var sá hluti almúgans sem lifði og hrærðist í því að fylgjast með kóngafólkinu. Það fólk er kannski enn sorglegra því það hefur þó kost á að lifa raunverulegu lífi. Svo spyr maður sjálfan sig hvort áráttukennd hefð konungsfjölskyldunnar að "vernda" og veita blessun sína hinum og þessum góðgerðarsamtökum sé raunverulegur velvilji í okkar garð? Er þetta ekki bara sjálfsbjargarviðleitni í heimi sem efast um réttmæti þess að halda uppi fjölskyldunni? Svo hlýtur þetta að svala þörf þeirra fyrir raunverulegu lífi lítillega, ef þau hafa nagandi samviskubit yfir hlutskipti sínu yfir höfuð, það er að segja.

Þroskaferli: Tímatilfinning

Ég er að skrá hjá mér eftirminnilega málnotkun og framburð hjá Signýju og Hugrúnu. Kannski birti ég hér einhvers konar markvissa umfjöllun um það á næstunni. Þessa dagana tek ég hins vegar eftir því sérstaklega hvernig Signý reynir að sortera atburði í tíma.

Hún notar orðið "áðan" um það sem er liðið, jafnvel þó það sé margra vikna gamall atburður, eða notast við frasann "í gær". Hún notar þetta jöfnum höndum og gildir einu hvort atburðurinn sé síðan áðan, í gær eða fyrir mörgum dögum síðan . Ég er ekkert að leiðrétta hana neitt sérstaklega. Til þess þyrfti ég að stilla upp dagatali með henni, sem kemur til greina að gera á næstunni, en á meðan svara ég henni bara með réttri tímatilvísun. Það er eflaust svolítið ruglandi fyrir hana því það sem hún orðaði "í gær" var kannski bara áðan og það sem hún talaði um sem "áðan" gerðist kannski í gær. Hún er hins vegar að verða svolítið meðvituð um þetta því upp á síðkastið hefur hún beitt fyrir sig orði sem dekkar bæði þessi orð, sem er hið heimatilbúna: Áðanígær (í einu orði). Þetta orð vísar hins vegar bara stutt aftur í tímann. Þegar hún vill hins vegar vísa langt aftur í tímann (marga mánuði, hálft ár eða meira) þá dugar ekki að segja "áðanígær". Þá segir hún einfaldlega: "Þegar ég var lítil".

sunnudagur, ágúst 23, 2009

Daglegt líf: Vetrarstarf framundan

Nú er sumarið formlega á enda í mínum huga. Það er Menningarnótt sem setur punktinn á eftir sumrinu. Vikuna á undan eru skólar að hefja undirbúning og fólk byrjað að huga að vetrinum. Með vikunni sem framundan er hefst hin eiginlega vetrarstarfsemi. Fyrsta kennsluvikan er framundan.

Það er búið að vera notalegt að ganga í góðu veðri, fara í berjamó með börnunum, kíkja í Heiðmörkina, skreppa upp í bústað og svamla í uppblásnu sundlauginni í garðinum. Við erum meira að segja búin að vera dugleg að tékka á mannlífinu í bænum, eins og djasshátíðinni sem stendur yfir þessa dagana. Þar munar aldeilis um pössun sem Begga systir hefur verið örlát að bjóða upp á undanfarið. Nú síðast í gær, en þá fengu Signý og Hugrún að gista yfir nótt (í fyrsta skipti saman) enda nutum við Menningarnæturinnar sérlega vel í ár fyrir vikið. Maður var næstum búinn að gleyma hvað það er að sofa út.

föstudagur, ágúst 14, 2009

Pæling: Stafirnir Þ=F og Æ=Ai

Það var gaman að svæfa Hugrúnu og Signý rétt áðan. Ég las stafabók með þeim þar sem hver blaðsíða er helguð einum staf og einu dýri. Við fórum í gegnum þetta og kringumstæðurnar minntu mig á kennslu. Ég stóð með bókina, eins og ekta kennari (sem maður svo sem er), og hafði hana opna fyrir ofan rúmin tvö, svona tveim metrum frá þeim, og sýndi þeim myndirnar (og kom nær ef þær vildu rýna í þær).

Hvað er hér? Benti á dýrið og spurði svo um stafinn, hvað hann heitir og hvað annað "á" þennan staf.

Það var gaman hvað þær nutu sín við þessar aðstæður (yfirleitt er maður með þær í fanginu en þessi bók leyfði þessa nálgun). Yfirleitt komu þær með hugmyndir að orðum sem pössuðu vel við orðin og voru mjög skapandi og gáfu sér góðan tíma til að hugsa sig um. Báðar tvær. Ég var duglegur að hrósa og hvetja. Þegar kom að síðustu stöfunum komu sérstaklega skemmtileg svör.

Stafurinn Þ og bókin sýndi mynd af Þvottabirni. Þá sagði Signý "þú" (er hún að meina "Þorsteinn" eða fattaði hún orðið "þú"). Ég lagði til Þorskur og þá stakk Signý upp á "Froskur" (sem hljómar mjög líkt, sérstaklega eins og hún ber það fram). Síðan kom að næsta staf. Það var stafurinn Æ, sem bókin studdi með mynd af Æðarfugli. Þá sagði Signý:

"AIDA"

Bein úr Snillingunum, og söng svo laglínuna stolt úr Aida-aríunni. Fínn endir hjá henni.

fimmtudagur, ágúst 13, 2009

Fréttnæmt: Viðgerðarbrölt

Á mánudaginn var byrjaði leikskólinn aftur eftir mánaðarlangt sumarfrí. Í næstu viku byrja ég svo sjálfur aftur að vinna. Þessi vika sem nú er að klárast er því svolítið sérstök og hefur verið tilhlökkunarefni. Það er ekki oft sem maður getur notið þess að slappa af heima yfir daginn, jafnvel sofið út. Við Vigdís (sem er líka í fríi og verður það nokkrar vikur í viðbót) höfum verið býsna dugleg í útivistinni þessa fáu daga. Við fórum tvívegis í langan göngutúr kringum golfvöllinn við Gróttu og skelltum okkur líka í Heiðmörkina. Annað kom ekki tili greina í því blíðviðri sem gerði í byrjun vikunnar. En það er ekki það eina sem hvatti okkur til að flakka um fjarri hemilinu: Eigendur hússins eru eitthvað að bardúsa utandyra, í garðinum. Það er verið að lappa upp á húsið, mála gluggakarma, gera við svalirnar fyrir ofan okkur, sementskústa þrepin allt í kring og endursmíða girðinguna. Okkur grunar að þetta sé forleikurinn að einhvers konar söluferli. Við höfum klárlega gott svigrúm sem leigendur og höfum svo sem ekki stórar áhyggjur. Þetta minnir okkur samt á að við þurfum að fara að hugsa okkar gang. En á meðan þetta gengur yfir er heilmikið brölt í gangi og verst að það skuli þurfa að lenda á þessari viku, einmitt þegar við ætluðum að nýta fríið heima.

föstudagur, júlí 31, 2009

Upplifun: Hugrún strýkur að heiman

Hugrún er mikill arkari, eins og kom fram í síðustu færslu. Þegar hún var komin heim, örþreytt, var hún síður en svo búin á því. Fyrst tók við leikstund með Signýju og vinkonu hennar (sem enn var í heimsókn) og að lokum var kominn matartími. Vigdís grillaði úti og kom með dýrindisfenginn inn, með tilheyrandi sumarlykt. Það sem Hugrún gerði hins vegar eftir matinn á eftir að sitja í okkur lengi. Hún læddist út rétt á meðan ég leitaði að þvottapoka til að þrífa hendurnar á þeim systrum. Hún er vön að fara varlega upp þrepin sem liggja niður í kjallarann okkar en í þetta skipti er eins og hún hafi strunsað út um ólæstar dyrnar. Það tók okkur líklega 10-15 sekúndur að átta okkur á því að hún væri "horfin" og það nægði henni til að strjúka. Garðshliðið er henni engin fyrirstaða og fannst hún strunsandi eftir gangstéttinni um það bil tveimur húsum frá. Hún leit ekki einu sinni um öxl þegar mamma hennar stikaði á eftir henni og gómaði. Við vorum að sjálfsögðu í uppnámi yfir því sem hefði getað komið fyrir hana. Hvað ef við hefðum áttað okkur eins og mínútu seinna? Hefði hún á endanum snúið við? Hvað verður þá um svona tveggja ára grísling sem enn áttar sig ekki á því hvað göturnar eru hættulegar? Eitt er víst að dyrnar koma ekki til með að standa opnar eða ólæstar héðan í frá, jafnvel um hásumarið þegar gestagangur er stöðugur. Til þess er Hugrún of óútreiknanleg - og dýrmæt.

Upplifun: Leyndur staður í Heiðmörk

Við Hugrún drifum okkur í Heiðmörk í dag til að hitta Beggu og Guðnýju. Signý var á meðan upptekin heima; hún átti von á vinkonu sinni í heimsókn. En við Hugrún nutum veðursins úti á meðan. Ég reiknaði nú ekki með að ganga neitt sérlega mikið með henni, en hún gerði sér lítið fyrir og strunsaði upp göngustíginn, eins og í kraftgöngu. Hún linnti varla látum í heila tvo tíma nema rétt til að koma til móts við okkur hin og til að koma sér notalega fyrir í laut með nesti. Jón og Margrét slógust líka í hópinn með Melkorku sinni um það bil þegar Begga og Guðný voru á heimleið. Þær Melkorka náðu betur saman en nokkurn tímann áður. Hingað til hefur Signý haft frumkvæðið af Hugrúnu, enda kynntist hún Melkorku fyrr í bústaðarferð fyrir rúmu ári (og þá var Hugrún í pössun í bænum). Í þetta skipti voru þær saman tvær og náðu eiginlega merkilega vel saman og að sama skapi voru þær ótrúlega líka í háttum, örkuðu báðar tvær beint af augum. Þær voru nokkurn spöl á undan okkur Jóni og Margréti þegar þær sýndu lítt greinilegum göngustíg áhuga sem lá undir stingandi greni (við hin þurftum að beygja okkur) og upp talsverða brekku. Rætur trjánna virkuðu eins og þrep eina fimmtíu metra þar til við komum okkur fyrir í lundi sem gnæfði yfir Heiðmörkinni fyrir neðan. Glæsilegur staður sem þær fundu stöllurnar Melkorka og Hugrún. Við vorum öll hæstánægð og kroppuðum í nesti á þessum kyrrláta og afskekkta stað og einsettum okkur að koma hingað aftur. Í tilefni af því var lundinum gefið nafn: Hugkorkulundur.

þriðjudagur, júlí 28, 2009

Fréttnæmt: Heilsufarsskýrsla 2

Í dag heyrði Vigdís í heimilislækninum okkar. Hún átti pantaðan símatíma vegna rannsóknarinnar á Hugrúnu frá því fyrir viku. Læknirinn kom með bæði jákvæðar og neikvæðar fréttir. Jákvæðu fréttirnar eru að bakflæðið hefur minnkað umtalsvert, frá því að vera þriðja stigs (í fjórskiptu kerfi) niður í fyrsta stigs. Hún er búin að þurfa að vera á lyfjum út af þessu hvert einasta kvöld undanfarið ár en héðan í frá má hún sleppa þeim. Hún má líka fara í sund í kjölfarið af þessari jákvæðu breytingu. HIns vegar eru neikvæðu fréttirnar þær að hún þarf að undirgangast rannsóknina aftur að ári, til að ganga endanlega úr skugga um að þetta sé á undanhaldi. Þetta var mjög óþægilega rannsókn fyrir Hugrúnu. Í bæði skiptin hefur hún hins vegar tekið fljótt af svo ég á von á því að þetta gangi hratt fyrir sig næst líka og verði þá úr sögunni.

Daglegt líf: Sumarbústaðarferð í Grímsnesið

Við Vigdís erum rétt stigin inn úr fjögurra daga bústaðaferð í Grímsnesið. Það gerðist svo sem ekkert markvert annað en það að við nýttum tímann til að slappa af. Veðrið heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir og það takmarkaði óneitanlega athafnagleðina. Það er hins vegar alltaf gaman að sjá hvað Signý og Hugrún halda mikið upp á þennan stað. Fyrir þær er þetta eins og að koma "heim", þær eru orðnar svo heimavanar í húsinu. Svo er bústaðurinn svo þægilega staðsettur, með Selfoss, Laugavatn og önnur byggðarlög í næsta nágrenni. Við áttum reyndar erindi upp á Hvolsvöll um helgina þar sem eins konar ættarmót var haldið í fjölskyldu Vigdísar. Þá var gott að geta skotist fram og til baka án þess að þurfa að híma of lengi í bílnum með stelpurnar. Sem sagt, bæði praktískt og notalegt hjá okkur um helgina.

föstudagur, júlí 24, 2009

Daglegt líf: Sundlaug í garðinn

Nú hefur hitinn lækkað töluvert og það kemur beinlínis eins og ferskur andblær inn í tilveruna. Það rifjaðist upp fyrir mér í gær, þegar ég var staddur úti með Hugrúnu og Signýju, hvernig það var í gamla daga að koma heim frá útlöndum og rakamettuðu lofti yfir í ferskleikann. Mann langaði bara að reka út úr sér tunguna um leið og maður steig út úr flugvélinni.

Garðurinn hefur verið einstaklega vel nýttur þessa sólríku daga. Við gerðum okkur lítið fyrir og keyptum myndarlega uppblásanlega sundlaug fyrir Signýju og Hugrúnu. Hún er nógu stór til að við foreldrarnir og aðrir gestir getum spókað okkur í henni ásamt börnunum, í ylvolgu vatninu. Nú þegar hafa margir dýft tá ofan í laugina og vonandi eiga fleiri eftir að njóta góðs af það sem eftir er sumars.

þriðjudagur, júlí 21, 2009

Fréttnæmt: Heilsufarsskýrsla

Síðan Signý og Hugrún hættu á sýklalyfjunum fyrir um tveimur vikum síðan hefur dregið til tíðinda á ný. Signý fór með nefrennsli til læknis fyrir rúmri viku síðan og var ekki með nein önnur einkenni (okkur fannst endurkoma streptokokkasýkingar ólíkleg af þeim sökum). Þegar læknirinn fékk upplýsingar um að við foreldrarnir erum bæði með gróðurofnæmi úrskurðaði hann hana með það sama. Þetta er víst orðið mjög algengt hjá ungum börnum í dag þó það hafi verið fáheyrt fyrir 20-30 árum síðan. Hún fékk að taka Loritín, hálfa töflu, og virtist lagast eitthvað við það.

Um viku síðar, eða á þriðjudaginn var, fór Hugrún í rannsókn. Nú átti að skoða á ný bakflæðið hennar. Góðar líkur voru á því að það myndi lagast af sjálfu sér og til að gera langa sögu stutta leit út fyrir það. Ekkert sérstakt kom í ljós á myndunum. Við bíðum þó enn eftir úrskurði sérfræðinga sem eiga eftir að skoða þetta betur. Þetta er hins vegar mikill léttir. Við getum nú óhikað, ef að líkum lætur, farið með Hugrúnu í sund aftur. Þetta bakflæði olli blöðrubólgu sem vonandi er nú að baki.

fimmtudagur, júlí 16, 2009

Fréttnæmt: Nýtt rúm

Á mánudaginn var skelltum við okkur í IKEA og keyptum rúm fyrir Signýju. Hugrún fékk rúm Signýjar þannig að þær græddu báðar svefnpláss. Það var gaman að breyta herberginu og finna hvað þær voru spenntar fyrir breytingunni. Signý hvatti mig eindregið til þess að "búa til" rúmið strax, en ég ætlaði að gera það í góðu tómi daginn eftir. Þær sátu yfir mér góða stund og fylgdust með og voru að lokum hæstánægðar með árangurinn, sem reyndar kom ekki í ljós fyrr en morguninn eftir. Þær sváfu sem sagt báðar mun lengur en venjulega um morguninn, og daginn eftir líka. Ég spurði Signýju eldsnemma morguns á meðan ég strauk henni um vangann hvort henni fyndist gott að lúlla í nýja rúminu, og hún kinkaði strax kolli (og hélt svo áfram að sofa).

sunnudagur, júlí 05, 2009

Pæling: Söngleikir fyrir börn?

Síðustu daga hefur Signý verið gagntekin af söngleiknum "Cats" eftir Andrew Lloyd Webber. Þetta stykki sló í gegn í Englandi á miðjum áttunda áratugnum og ég man eftir því sem einni af helstu leikhúsperlum Lundúna frá þeim tíma sem ég var þar árið 1988. Ég fór á söngleikinn og hreifst mjög á sínum tíma af tilburðum leikaranna, dönsunum, hreyfingunum og öllu litrófinu. Mann langaði eiginlega strax að fara í fimleika, eða eitthvað. Tónlistin hreif líka en þó ekki eins og sjónræni þátturinn og öll þessi smitandi gleði sem einkenndi sýninguna. En núna, sem sagt, er Signý komin á bragðið. Ég leyfði henni að sjá þetta á DVD á meðan hún var lasin. Síðan þá hefur hún spurt um "kisurnar" á hverjum degi. Fyrst spurði hún reyndar um "apana", sem er raun nær lagi því þetta eru jú manneskjur í loðfeldum og með skott. En með tímanum gerði hún sér betur og betur grein fyrir sögunni og áttar sig á því að þarna er verið að segja frá samfélagi katta og þeirra samskiptum. Hún heillast sérstaklega af dansatriðunum og hreyfir sig gjarnan í takt. Það vekur líka furðu mína hvað hún er búin að ná lögunum vel, eftir ekki nema fimm rennsli eða svo. Þess á milli sem hún hreyfir sig eða syngur horfir hún á með andakt og tjáir sig um líðan kattanna: "Enginn vill vera vinur hennar" eða "þetta er ljóti kisinn". Eitt atriðið vill hún hins vegar alltaf stökkva yfir, en þá birtist "draugakisi" með ægilegum hlátrasköllum. Þetta er náttúrulega frábær upplifun fyrir hana og ég er mjög feginn að hafa dottið inn á þetta. Í framhaldi velti ég því hins vegar fyrir mér hvort ekki séu margir aðrir söngleikir sem henta börnum á hennar aldri? Flestir söngleikja Webbers held ég að höfði síður til barna. En hvernig er "Ávaxtakarfan"? Ég man að hún hreif ekki fyrir svona ári síðan, en það má reyna aftur. Svo eru norsku leikritin "Dýrin í Hálsaskógi" og "Kardimommubærinn" nánast söngleikir. Gaman væri að heyra í hugmyndum, hér sem athugasemd eða í tölvupósti. Nú eða í eigin persónu :-)

föstudagur, júlí 03, 2009

Fréttnæmt: Smá veikindatörn

Það er eins og ég hafi fundið það á mér: um leið og ég sleppti orðinu síðast fóru veikindin að ágerast. Hugrún fékk aftur heilmikið bakslag um nóttina svo við ákváðum að fara með þær báðar strax til læknis, á þriðjudag. Þær voru snarlega úrskurðaðar með Streptokokkasýkingu og fóru á tiu daga lyfjakúr. Eru orðnar fínar núna og komnar í leikskólann. Ég fann hins vegar fyrir einhverju svipuðu sama kvöld, smá beinverki og örlitla hálsbólgu. Þetta var eitthvað lítilsháttar, hitinn á bilinu 38-39 gráður, en Vigdís var ákveðin í að ég skyldi gangast undir sama próf, sem var á miðvikudaginn, og útkoman reyndist jákvæð. Við erum þá þrjú á heimilinu núna á tíu daga Streptokokkakúr. Sem betur fer ákváðum við þetta í tæka tíð því þegar ég vaknaði daginn eftir, í gærmorgun, var ég eiginlega fárveikur. Vaknaði í algjöru svitabaði, með fjörtíu stiga hita. Það perlaði af mér svitinn. Hvernig hefði maður verið án lyfjanna? Eftir að hafa innbyrt verkjatöflur og fyrsta lyfjaskammt dagsins fór mér hins vegar að snarbatna og hef verið á batavegi síðan (bara tvær kommur í morgun). Við erum sem sagt öll á batavegi og það er rétt að taka fram að einum sólarhring eftir fyrstu lyfjagjöf hættir maður að vera smitandi. Það er því óhætt að kíkja í heimsókn eða hafa samband um helgina, ef menn vilja.

mánudagur, júní 29, 2009

Upplifun: Bústaðaferðin

Núna er Signý með hálsbólgu og smá hita og liggur heima í ró og spekt. Hugrún var líka með hita um daginn en var hitalaus í gær og í dag. Hún er í leikskólanum. Vonandi að ekki sé veikindatörn framundan. Maður er orðinn hálf hvumpinn eftir tímabilið sem við fórum í gegnum fyrir rúmu ári síðan. Við erum búin að vera heppin með veikindi undanfarið og fyrst þær eru veikar núna prísar maður sig sælan fyrir að hafa komist í sumarbústaðinn fyrir viku síðan. Þá nutu þær sín sérstaklega vel. Allt umhverfið þar hentar þeim mjög vel og virkar eins og ævintýri á þær. Í bústaðnum eru "þverkojur" í miklu uppáhaldi (sem sagt efra rúmið er þvert á neðra rúmið, til fóta). Þær nýttu sér rýmið undir eins og hús eða helli og þess á milli vippuðu þær sér upp á efri kojuna þaðan sem þær gátu horft niður á neðri kojuna eins og útbreitt landsvæði. Leikurinn tók á sig skemmtilega mynd því efri kojan breyttist brátt í flugvél og ég lá í neðri kojunni og lék flugstjórann, stýrði ferðalögum til fjarlægra landa. Það sem kom mér skemmtilega á óvart var hvernig þær útbjuggu flugsætin. Í efri kojunni eru geymdar sólstólasessur, með teygjubandi. Sessunum var komið fyrir í "sitjandi stöðu", í vinkli. Systurnar settust á þær eins og sæti og smeygðu teygjubandinu utan um sig: "Beltin spennt!". Signý er yfirleitt með frumkvæðið og Hugrún dugleg að fylgja hugmyndum eldri systur sinnar eftir. Ferðalagið teygði sig fram og aftur um heiminn, frá Afríku til Indlands, með viðkomu á Akureyri! (ekki veit ég hver hefur minnst á Akureyri við hana Signýju. Líklega er einhver þaðan í leikskólanum).

Bústaðaferðin var eftirminnileg fyrir ýmislegt. Einar afi (pabbi Vigdísar) hélt upp á stórafmæli í nágrenninu og þar voru margir saman komnir. Ég tók mig til og rakaði af mér hárið og spókaði mig um í sveitakyrrðinni með "kiwikoll". Allt gott um það að segja, enda ekkert þægilegra í byrjun sumars en að létta aðeins af hárinu. HIns vegar kom upp sérkennileg staða þegar við ætluðum aftur í bústaðinn. Þar er öryggishlið sem þarf að hringja í til að opnist. Það svarar aðeins fyrirfram skráðum símanúmerum svo að ég hef alltaf þurft að hringja í eigendur bústaðarins (Jón Má eða foreldra hans) til að fá hliðinu lyft. Það er ekkert mál nema það að núna vildi hliðið ekki opnast. Við biðum í óvissu um það hvenær eða hvort hliðið myndi opnast. Hugrún var sofnuð eftir veisluna fyrr um daginn, dagur að kvöldi kominn, og við smeyk um að það myndi fara illa um hana til lengdar. Þarna biðum við í rúman hálftima eftir því að einhver annar gestanna á svæðinu birtist og myndi opna fyrir okkur. Það reyndust furðufáir á svæðinu og sá sem endanum birtist og hleypti okkur inn kannaðist við þessa bilun í búnaðinum. Það er eiginlega furðulegt að þetta skuli geta komið fyrir. Ég spjallaði við Jón um þetta eftir á og við vorum sammála að þetta gæti í einhverjum tilvikum reynst mjög alvarlegt, til dæmis ef maður er að fara í skyndingu á sjúkrahús með veikt barn! Það sem er hins vegar eftirminnilegast við þessa uppákomu er sú sérkennlega staða sem ég sjálfur var í, nýbúinn að snoða mig og alveg svartklæddur frá toppi til táar. Ég hefði getað farið fótgangandi og leitað aðstoðar í næsta húsi. Ég hins vegar kunni engan veginn við það að banka upp á svona útlítandi því ég var viss um að ég myndi þykja grunsamlegur í meira lagi. Við sátum góða stund og mændum á einn bústaðinn, nokkur hundruð metra í burtu, þar sem greinilega voru gestir innandyra á meðan ég reyndi að sannfæra sjálfan mig um að einhver hlyti að birtast á næstunni (enda vont að vera í burtu þegar einhver loksins kemur að hliðinu). Þetta var svona svipuð stemning og að bíða eftir strætó í rúman hálftíma. Óvissan er verst og maður tvístígur allan tímann. En sem betur fer fór þetta vel og allir sofnuðu vel á endanum eins og allar hinar næturnar.

miðvikudagur, júní 24, 2009

Pæling: Alls kyns dagbækur og dagbókafærslur

Eins og sjá má á síðustu færslu eru ágætar skýringar á bloggleysi síðustu vikna. Sagnfræðingar framtíðarinnar koma hins vegar ekki til með að eiga í vanda með að stoppa í gatið (ef þeir sýna ævi þessa tiltekna Íslendings nokkurn áhuga, það er að segja) því ég hef verið duglegur að skrifa í dagbækur á tímabilinu. Ég er farinn að skrifa markvisst í gömlu góðu prívat bókina mína. Mikið finnst mér það notalegt. Þar getur maður notað alls kyns styttingar og talað dulmál við sjálfan sig. Svo er kyrrðin fyrir framan bók, með penna í hönd, alltaf mjög notaleg. Fyrir utan þessa bók skildi ég eftir tiltölulega langa færslu í gestabók sumarbústaðarins um síðustu helgi. Svo skrifuðum við líka í dagbók bangsa sem fylgdi Signýju heim um daginn. Um hann má lesa á myndasíðunni en þar er líka að finna fullt af öðrum nýjum myndum. Líka fullt af myndum frá Indlandi sem ég hafði lengi trassað að færa inn. Ekki gleyma því að myndasíðan er líka eins konar blogg, bara myndrænna :-)

Fréttnæmt: Fyrstu dagar sumarfrísins

Nú er ég loksins kominn í sumarfrí (reyndar eru ein og hálf vika að baki). Satt að segja hefur tíminn ekki nýst vel til að blogga. Ætli bíllinn hafi ekki tekið mestan tíma frá mér. Ég var búinn að bíða með að yfirfara bílinn af því ég vissi af svo góðu fríi framundan. Svo bíður hann, skjóðurinn, eftir mér ókláraður þegar fríið byrjar, auðvitað. Það var svo margt sem ég hafði trassað:

Ég átti eftir að:

* fara með hann í olíuskipti,
* láta líta á viftureimina (sem ískrar ískyggilega öðru hvoru),
* skipta um dekk (orðin nánast gatslitin og griplaus)
* ryðhreinsa ljóta bletti (til þess þarf ég verfæri og vinnuaðstöðu)
* skipta um framrúðu (kom sprunga í hana snemma í vetur)
* bóna bílinn í bak og fyrir (það gerði ég bara einu sinni í vetur)
* taka til í honum og hreinsa að innan
* fara með hann í skoðun.

Tímafrekast af þessu öllu (fyrir utan að hreinsa ryðblettina) er að finna góð notuð dekk í réttri stærð, því þau liggja ekki á lausu. Ný dekk kosta 25-30 þúsund stykkið í dag svo að sá kostur var ekki álitlegur. Með hjálp Togga, hennar Ásdísar, fann ég hins vegar óslitin og fín dekk á 10 þúsund stykkið. Slapp þar með skrekkinn. Á morgun fer bíllinn í skoðun og fær nýja rúðu. Í næstu viku, ef til vill, ræðst ég á ryðblettina. Þetta er allt að koma.

Ég var heppinn að finna dekk í tæka tíð því um síðustu helgi fórum við í fjölskyldunni saman í sumarbústað Jóns Más (þann bústað sem Signý kallar Melkorkuhús, eftir dóttur þeirra Jóns og Margrétar). Þar áttum við ákafleg notalega daga saman. Meira um það næst.

þriðjudagur, júní 02, 2009

Upplifun: Þrefalt brölt

Eins og ég ýjaði að í síðustu færslu átti eftir að verða framhald á menningarupplifunum mánaðarins. Aldrei þessu vant fór ég út úr húsi þrjú kvöld í röð í síðustu viku á meðan Vigdís var heima og gætti Signýjar og Hugrúnar. Fyrsta daginn, á þriðjudaginn var, fór ég í bíó og sá Draumalandið. Sú mynd stóðst væntingar fyllilega. Hún fór ekki út í öll smáatriði bókarinnar en bætti í staðinn ýmsum áhugaverðum molum við og var sjónrænt mjög mögnuð upplifun. Í myndinni kemur meðal annars fram hversu hrikalega stórfyrirtækin hafa leikið sér að Austfjörðum og keypt þau, rétt eins og eiturlyfjasali sem gefur óhörðnuðum unglingum dóp og herðir síðar meir snöruna. Við pabbi fórum á myndina saman og röltum fram og til baka í Háskólabíó í frábæru vorveðri. Daginn eftir kíkti ég niður í bæ þar sem ég mælti mér mót við Jón Má yfir úrslitaleiknum stóra milli Barcelona og Manchester United. Veðrið var áfram frábært og við hittumst hjólandi. Hann var kominn á undan mér á staðinn og úrskurðaði "fundarstaðinn" fullbókaðan. Áhuginn á leiknum var það gríðarlegur. En við dóum ekki ráðalausir og hjóluðum heim til hans í Álfheimana. Sáum leikinn þar og sötruðum pilsner. Sá drykkur var keyptur í klukkubúð í Glæsibæ og verðið kom mér til að kvarta sáran við afgreiðslustúlkuna - sem samsinnti fáránlega háu verði enda sagðist hún sjálf koma með nesti í vinnuna!! Pilsnerinn kostaði sem sagt um 178 krónur sem er talsvert meira en hægt er að fá hann á í Bónus (68 krónur). Reyndar ekki alveg sama tegund en það vekur mann samt til umhugsunar. Að lokum skellti ég mér á síðustu stundu á sögulega sinfóníutónleika í Háskólabíói. Þeir voru sögulegir fyrir það annars vegar að tónlistin fjallaði um alræmt umsátur Nasista um Leníngrad í síðari heimstyrjöldinni, túlkað af rússanum Shostakovich, sem var í borginni í upphafi umsátursins. Tónlistin er því mjög ógnvekjandi og skelfileg. Sigurmars, sem spilaður er í lokin, er ljótleikinn uppmálaður, enda stóð enginn upp sem hreykinn sigurvegari eftir þessa raun. Hin sögulega ástæðan fyrir því að ég skellti mér á tónleikana var hljómsveitarstjórinn sem kominn er vel á aldur. Rozdhestvensky (vonandi skrifaði ég nafnið rétt) fæddist á fjórða áratug síðustu aldar, var einn af vinum sjálfs tónskáldsins og er með virtari hljómsveitarstjórum síðustu aldar. Hann er þar að auki einn af mínum uppáhalds hljómsveitarstjórum allra tíma. Gott ef ég á ekki hátt í tíu diska með klassískri tónlist sem keyptir voru af áfergju út á nafn hans eingöngu. Keimurinn af þessari minningu á því eflaust eftir að verða nokkuð sætur þegar fram líða stundir.

mánudagur, maí 25, 2009

Daglegt líf: Stiklað á stóru

Undanfarin ein og hálf vika hefur verið uppfull af uppákomum og viðburðum ýmiss konar. Fyrst var það Eurovision sem litaði dagana sínum skæru neonlitum - þrjú kvöld með stuttu millibili (þar af horfði ég á eitt og hálft kvöld). Þetta setti aldeilis mark sitt á tilveruna vegna þess hvað áhrifin á samfélagið voru mikil. Í fyrsta skipti síðan hrunið mikla átti sér stað heyrði maður fólk tala saman á jákvæðan hátt. Gleði var í loftinu. Fyrstu sumardagarnir voru nýlentnir á Fróni og fólk spókaði sig úti um allt með bros á vör. Mér skilst að úrslitakvöldið í Idolinu hafi verið nánast á sama tíma. Mikill uppskerutími almennings.

Á þessum tíma var mikið um að vera innan fjölskyldunnar og í nánasta umhverfi. Fannar og Guðný (börn Beggu systur) héldu upp á afmæli sitt. Þau halda stundum upp á afmælið sitt sameiginlega vegna þess hvað er stutt á milli þeirra á árinu. Svo var hún Begga systir að útskrifast úr námi í fatahönnun úr kvöldskóla F.B. Hún hélt nú ekki upp á það sérstaklega en tók þátt í athöfninni með pompi og prakt. Útskriftin reyndist vera með stærra móti. Skólastjórinn, hún Kristín Arnalds, var að láta af störfum vegna aldurs. Ég man að þegar ég byrjaði í skólanum að þá hafði hún nýhafið störf sem skólastjóri. Mér fannst allt í einu vera óralangt síðan. Rúm tuttugu ár síðan ég byrjaði í skólanum, haustið 1988. En fyrst við erum komin á þá braut að fjalla um óravíddir tímans þá héldum við Vigdís upp á sjö ára samband okkar (og fimm ára trúlofun) í vikunni sem leið (átjánda maí). Við ætluðum út að borða en breyttum áætluninni og náðum í mat heim úr nágrenninu, beint af Sjávarbarnum. Við mælum heilshugar með þessum stað. Ferskt sjávarfangið hitti aldeilis í mark og mettaði marga maga (hjá okkur voru nokkrir gestir).

Á hæðinni fyrir ofan okkur dró einnig heldur betur til tíðinda fyrir tveimur vikum síðan. Þá lést Matthildur, eigandi íbúðarinnar sem við leigjum. Hún hefur reyndar alltaf verið fjarverandi, veik og ófær um að snúa til baka. Við höfum alla tíð verið í beinu sambandi við son hennar en hann hefur annast íbúðina í hennar fjarveru. Á miðvikudaginn var kom stórfjölskyldan saman á efri hæðinni og hélt erfidrykkju og átti saman notalega stund, að mér skilst. Við Vigdís héldum okkur fjarri og veittum þeim það svigrúm sem okkur taldist eðlilegt. Vorum búin að taka vel til í garðinum og gera umhverfið sem skikkanlegast þannig að þau gátu verið utandyra í góðu veðri og spókað sig í garðinum sem gamla konan hafði svo mikið dálæti á. Sjálf jarðarförinn var svo á föstudaginn var.

Þetta er því búið að vera óneitanlega eftirminnilegur tími að mörgu leyti. Svo margt hefur gengið á að ég hef sjálfur þurft að afboða tvær læknaheimsóknir í vikunni vegna anna. það er þá á næsta leyti, ásamt (mögulega) einhverjum viðburðum af listahátíð. Vel á minnst: Fyrir aðeins tveimur dögum gerðum við Vigdís okkur dagamun, fengum pössun og skelltum okkur niður í bæ. Lhasa de Sela hélt tónleika á Nasa fyrir fullu húsi, eins og ég greindi frá nýlega. Við hittum góða vini og kunningja og áttum afar skemmtilega stund, bæði á tónleikunum sjálfum og í næsta nágrenni eftir á. Tónleikarnir voru vel heppnaðir og vantaði bara herslumuninn upp á að Lhasa næði af yfirvinna þá aumu staðreynd að vera stödd í ópersónulegum og kuldalegum súlnasal.

föstudagur, maí 15, 2009

Þroskaferli: Stafameðvitund Hugrúnar

Í dag fór ekki á milli mála að Hugrún þekkir stafinn sinn. Við horfðum á veðurfréttir saman og hún rétti þá upp höndina og benti á skjáinn "Da minn" (Stafurinn minn). Það var auðvitað hið myndarlega "H" á veðurkortinu sem hún tók eftir. Þetta er greinilega allt að koma.

Upprifjun: Tónlist með í för

Nú er listahátið hafin og ekki nema um vika þangað til við Vigdís förum að sjá Lhasa de Sela. Ég var eitthvað búinn að ota þessari tónlist að henni fyrir nokkrum árum síðan svo hún var fljót að samþykkja miðakaupin. Þetta er ómótstæðileg blanda af kaffihðúsatónlist og sígaunatónlist, hæfilega mjúkt en samt sveipað dulúð. Akkúrat núna er ég að færa tónlistina hennar yfir á ipodinn, því við eigum tónlistina hennar ekki annars staðar en í tölvunni. Við erum búin að ráðgera spilakvöld í vikunni þar sem við skröbblum og hlustum á Lhösu (ef ég má fallbeygja hana). Það er tilhlökkunarefni.

Ipodinn (eða spilastokkurinn, eins og hægt er að kalla hann) fer í gegnum yfirhalningu um að bil mánaðarlega. Þá skiptir maður út kannski helmingnum fyrir eitthvað nýtt og spennandi. Þegar ég fer yfir hann núna vakna hins vegar skemmtilegar minningar um ferðalagið mitt til Indlands.

Þarna eru Jane´s Addiction sem buðu mér upp á létt geðveika rokktónlist á leiðinni út á völl, þegar ég var fullur eftirvæntingar. Nick Drake tók við á Heathrow og náði að þurrka út öll spennuhlaðin áreiti flugvallarins. Mér fannst ég vera við arineld þar sem ég hélt á ferðatöskum á löngu færibandi. Ómetanlegt. Eftir næturbrölt í London (þið munið að ég þurfti að vera yfir nótt áður en ég flaug til Indlands) þá tók ég næturstrætó til baka upp á flugvöll, um þrjú um nóttina, og hlustaði á eldgamlar BBC upptökur með Bowie frá þeim tíma þegar hann var enn í vísnasöng og þjóðlegri tónlist. Þá var gaman að vera á breskri grundu og horfa á myrkvuð stræti borgarinnar líða hjá. Ferðin framundan var hins vegar löng. Eftir svefnlausan sólarhring í viðbót, en þá var ég um það bil að lenda á áfangastað á Indlandi nóttina á eftir, reyndist stimamjúkur Leonard Cohen mér gríðarlega vel. Hann var eins og vögguvísa í næturmyrkrinu þegar ég var orðinn hálf stjarfur af svefnleysi og náði að mýkja mig allan eins og nuddari. Þegar til Indlands var komið hlustaði ég reyndar mjög lítið á tónlist því það eru svo gríðarlega mörg áreitin í loftin hvort eð er og nóg að gera. Hins vegar man ég eftir sérlega notalegum hvíldarstundum uppi á hótelherbergi með glitrandi stemningsfullri djasstónlist eftir John Surman (sem minnti mig að mörgu leyti á Talk Talk). Á leiðinni til baka frá Indlandi kom spilastokkurinn sér aftur vel - aðallega á flugvellinum. Þá tók PJ Harvey að sér hlutverk Nicks Drake og söng fyrir mig af nýlegri plötu (sem er undarlega angurvær miðað við hverju maður er vanur frá henni). Aftur fór ég inn í miðbæ Lundúna á leiðinni heim. Þá tók ég mig til í fyrsta skipti og ákvað að hlusta á fræga tónleika Radiohead frá 1997 þegar þeir slógu í gegn á Glastonbury (rétt eftir útgáfu OK Computer). Kennileiti Lundúna blöstu við á meðan úr lestinni. Að lokum, þegar heim var komið var hreint magnað eftir svona langt ferðalag að heyra í Sigur Rós á leiðinni í vinnuna fyrsta daginn. Sólin skein og birtan var óvenju falleg, að mér fannst. Ferðalagið hafði verið stutt en kraftmikið og magnað. Mér finnst gaman til þess að hugsa það komi til með að rifjast upp að einhverju leyti í hvert sinn sem ég hlusta á tónlistina að ofan aftur og eins og allir vita getur tónlist vakið upp sterkar minningar.

föstudagur, maí 08, 2009

Upprifjun: Indlandsferð

Jæja, tíminn líður og núna er liðinn nákvæmlega mánuður frá því ég lagði af stað til Indlands. Kominn tími til að rifja upp.
Ég byrja á heildarmyndinni. Tilefnið var brúðkaup. Leonie, þýsk vinkona mín frá því fyrir um tíu árum síðan (sem bjó hér í eitt ár sem Au Pair) var að gifta sig indverskum manni. Þau eru bæði mjög víðförul og búa nú saman í Singapoor. Þau ákváðu sem sagt að gifta sig í fæðingarborg hans, en hann heitir Jayanth (svo að það komi fram). Nöfnin klingja nú ágætlega saman, þegar þau hafa verið stytt. Leo giftist Jay.

Ferðalag til Indlands er heilmikið mál og ekki sjálfgefið að komast þangað yfir langa helgi (ef maður hefur í huga að eyða hluta af páskafríinu heima). Samt tókst það, einhvern veginn. Ég var heima fram á skírdag. Fór þá út til London um kvöldið, var þar yfir nótt og flaug allan næsta dag til Indlands. Eftir millilendingu í Bombay lenti ég um nóttina í Chennai (sem var áfangastaðurinn). Eftir svefnlitla nótt (eins og ég hef áður fjallað um) var farið í verslunarleiðangur (meðal annars keypt indversk hátíðarklæði og svo prinsessuföt til að taka með heim). Um kvöldið var fyrsti áfangi brúðkaupsins: garðveisla með rausnarlegum mat og drykk. Það fól í sér ræðuhöld og aðra skemmtan, langt fram eftir hjá flestum, jafnvel þeim þreyttustu.

Þá um nóttina náði ég að sofa vel og var sérlega vel endurnærður fyrir kvöldið annars dags, enda var sá dagur frídagur framan af. Þá fólst annar liður brúðkaupsferlisins í sér að við komum okkur öll saman (eftir rútuferð) í einhvers konar samkomusal (líklega kirkju, en mér fannst staðurinn ekkert líkjast kirkju sérstaklega). Fyrst var komið saman í matsal þar sem fram var reiddur matur (á bananalaufblöðum - en ég fjalla um matinn sérstaklega síðar). Svo var farið aftur inn í sal. Þar var setið (eins og í kirkju) og fylgst með ýmsum sýningaratriðum (indverskum söng og dansi) í um tvo tíma og boðið upp á drykki á meðan og bara spjallað, gengið um. Frekar frjálslegt. Loks kom að þeim lið sem flestir biðu eftir. Þá birtust tilvonandi brúðhjón uppi á sviðinu, afar glæsilega skreytt, og settust eins og konungborið par með foreldrana sér á sitt hvora hönd. Við hin röðuðum okkur upp, handahófskennt, og biðum þess að geta gengið upp á svið til að afhenda brúðhjónum gjöf og óska þeim alls hins besta. Þetta minnti mig svolítið á altarisgöngu, svo maður vísi í eigin menningarheim. Þetta tók geysilega langan tíma því tekin var mynd reglulega. Að endingu var aftur safnast saman, nokkuð handahófskennt og frjálslega eins og áður, í matsalnum þar sem aftur var boðið upp á veislumáltíð á bananalaufblöðum.

Á þriðja degi var sjálf vígslan. Einhver spámaður hafði reiknað út að vænlegast yrði fyrir brúðhjónin að láta pússa sig saman um sjöleytið, árdegis. Það þýddi að þennan daginn var maður (aftur) svolítið syfjaður. Aftur fórum við í rútu á áfangaastað, sem reyndist vera sama samkomuhús og daginn á undan. Þar tók við brjálæðisleg indversk tónlist, blómskrúð og gangstéttar skreyttar með málningu. Uppi á sviði var Jayanth ásamt skyldmennum og prestum í lótusstellingu að taka á móti einhvers konar blessun. Reykelsi og einhver stærri eldur logaði þar uppi á sviði. Mikið blómskrúð - allt mjög framandi. Mikil lykt í loftinu. Verst er að myndavélin mín lognaðist út af þennan morguninn. Ég gleymdi að hlaða hana og verð að stóla á myndir frá ferðafélögum mínum (sem enn hafa ekki borist). En þegar Leonie birtist barst leikurinn út. Þar voru þau tvö hysjuð upp á axlir þeirra tveggja veislugesta sem hávaxnastir voru og var att saman í eins konar hanaslag, nema hvað það virtist ganga út á að sveipa hvort öðru blómsveig (eins og þau væru að ræna hvoru öðru). Síðan voru þau sett í rólu (ríkulega skreytta blómum) og þar sátu þau á meðan nánaustu aðstandendur köstuðu í þau hrísgrjónakúlum eftir kúnstarinnar reglum. Einhvers konar blessun, eflaust. Allt rann þetta saman en einvern veginn endaði þetta innandyra aftur með formlegum hætti, en fæstir okkar enskumælandi gesta áttuðu sig almennilega á því hvenær nákvæmlega þau Leo og Jay giftust. Það virtist ekki vera nein afmörkuð stund. Enginn koss. Bara flæði. Eins og að vera staddur úti í skógi og sjá heilmikið sjónarspil en ná ekki plottinu.

Þar sem giftingin átti sér stað eldsnemma vorum við hin laus upp úr hádegi og gátum eytt deginum eins og við vildum. Ég fór eitthvað að versla og fór svolítið að kynna mér menningu staðarins með því að bjarga mér á eigin spýtur. Það var heilmikið ævintýri. Um kvöldið var öllum svo hóað saman til kvöldverðar - sem var ágætt. Þá fyrst náði ég að spjalla við Leonie almennilega, þegar allt var um garð gengið.

Á fjórða degi (lokadegi) hafði ég það líka mjög náðugt og skoðaði ég mig um. Ég leyfði mér meira að segja að þvælast um fátækrahverfi og um ströndina (sem var ekki svo langt undan). Ég heillaðist af fólkinu sem þarna bjó. Eyddi líka meiri gæðastundum um eftirmiðdaginn með brúðhjónunum og við komum okkur saman um að endurfundir yrðu á Íslandi áður en langt um líði. Um kvöldið flaug ég svo heim (þ.e. í átt til London).

Morguninn eftir var ég kominn til London, eyddi þar deginum (og þó nokkrum seðlum í leiðinni) og var kominn heim á miðnætti. Þá var miðvikudagur og ekki nema fimm og hálfum dagur liðinn frá skírdegi. Lengri mátti giftingarferlið ekki vera til að áætlunin gengi upp. Mér skilst reyndar að hefðbundið indverskt brúðkaup geti varað í allt að viku. Þá er verið að gefa frá sér brúðina (sem kemur kannski ekki aftur) - og þá er víst mikið grátið. Slík dramatík var aldeilis ekki uppi á teningnum í þetta skiptið, athöfnin hin hófsamasta, og þau núna komin heim í kotið, í Singapoor.

Skyldi maður eiga eftir að ferðast þangað einhvern tímann?

fimmtudagur, maí 07, 2009

Daglegt líf: Endurnýjun á sál og líkama

Í gær gerði ég svolítið sem ég hef ekki látið eftir mér mánuðum saman: Ég fór út að hjóla í tíu mínútur og eyddi svo um kortéri í innhverfa íhugun. Hvort tveggja hreinsaði mig svo um munaði. Mér fannst ég nánast ósnertanlegur og gjörsamlega laus við streitu í kjölfarið þrátt fyrir að hafa verið talsvert þreyttur klukkustundu fyrr.

Hjólatúrinn var sérlega endurnærandi. Vegna plássleysis geymum við hjólin okkar hálft árið inni í geymslu og drögum ekki út fyrr en á vorin. Sem hreyfing slær þetta skokkinu auðveldlega við. Maður þarf ekki að eyða tíu mínútum í að "hitna" áður en maður tekur á því vegna þess að hreyfingin er svo miklu mýkri. Umhverfið breytist líka talsvert hraðar og gerir manni því kleift að upplifa hverfið í miklu stærra samhengi heldur en skokkið. Svo er vindurinn kringum hjólið alltaf frískandi. Ég semsagt þurfti ekki langan tíma til að koma heim eins og gormur.

Þá var stutt í að ég stigi inn í svæfingarferlið hjá Signýju og Hugrúnu. Vigdís hafði tekið það að sér til að hleypa mér út á hjólinu (útiveran tók reyndar lengri tíma en tíu mínútur því ég þurfti að yfirfara hjólin í leiðinni). Þegar ég kom inn voru Signý og Hugrún ekki alveg sofnaðar enn. Búið var að lesa og fara í gegnum rútínuna en vantaði bara herslumuninn. Hugrún á það til að brölta út í hið endalausa, jafnvel þó hún sé dauðþreytt. Ég ákvað því að setjast inn til þeirra, loka augunum og hverfa inn á við. Mér fannst þær upplifa sérstaka ró á sama tíma. Það er nefnilega ekki súrrealískur hugarburður hjá David Lynch að áhrif innhverfrar íhugunar nái til umhverfisins. Þetta hefur verið rannsakað í bak og fyrir. Sjálfur hef ég hug á að láta á þetta reyna hér heima. Í stað þess að halla höfðinu og þykjast sofna - og gera mér jafnvel upp hrotur (og verða smám saman syfjaður sjálfur) - er langtum skynsamlegra að nýta sér þennan tíma sjálfur til slökunar og til að fínstilla hugann. Íhugun er nefnilega vökuástand og hefur þann augljósa og eftirsóknarverða kost umfram "lúr" að maður staulast ekki fram í svefnrofunum eftir á.

mánudagur, maí 04, 2009

Daglegt líf: Seinni afmælisveisla Hugrúnar

Daginn eftir afmælisveisluna hvíldum við okkur heima. Hugrún var svolítið slöpp og ég með kvefpest (eða ofnæmi, í bland). Á sunnudaginn fengum við hins vegar annan vænan hóp af góðum gestum í tilefni af afmæli Hugrúnar. Þetta var hópurinn sem fór á mis við hina veisluna, gamlir vinir með börn á sama aldri og okkar. Aftur gerðist það að íbúðin fylltist. Í þetta skiptið voru ívið færri innanhúss en þeim mun fleiri börn (Signý, Hugrún, Friðrik Valur, Dagmar Helga, Melkorka, Áslaug Edda og Þórdís Ólöf). Við foreldrarnir undruðumst hversu vel þeim gekk að leika sér saman. Í ábyggilega tvo heila tíma umgengust þau hvert annað í sátt og samlyndi. Það var unun að fylgjast með þeim í sjálfstæðum leik. Einhvern veginn grunar mig að þrönga rýmið hafi stuðlað að rósemi barnanna (það gat enginn rasað almennilega út). Sjálfum fannst mér mjög huggulegt að þurfa ekki nema að snúa mér hálfhring eða smeygja mér yfir einn af þröskuldunum til að renna inn í nýjar samræður. Maður er manns gaman. Matarhlaðborðið var einfalt og frjálslegt með sætindum í bland við mat: Grænmetisbaka ásamt salati var á boðstólum, léttur ostabakki með kexi og vínberjum, kökuleifar frá fyrri veislunni (sem náðu að klárast) og hunangsmelóna sem svalaði þörf barnanna.

Mikið er ég farinn að hlakka til sumarsins. Þá verður sko hægt að útfæra þessa veislu frekar í blíðviðri, utandyra, með krakkana valsandi um garðinn. Vonandi hefur kreppan ekki áhrif á veðrið í sumar :-)

föstudagur, maí 01, 2009

Daglegt líf: Afmælisveisla Hugrúnar

Nú er dagur að kveldi kominn. Þessi var fremur annasamur vegna þess að við héldum upp á tveggja ára afmæli Hugrúnar (sem er tveggja ára frá í gær). Við buðum öllum nánustu aðstandendum heim til okkar en gátum ekki (frekar en áður fyrr) boðið vinum okkar líka, vegna plássleysis (vonandi verður sú takmörkun úr sögunni að ári). Erum hins vegar mjög opin fyrir heimsóknum um helgina án þess að stefna fólki sérstaklega saman. Það er alltaf gaman að fá góða gesti :-)

Afmælisagurinn var tiltölulega hefðbundin, sem slíkur. Veitingar plús gestir. Það sem var óvenjulegt var hins vegar tvennt. Annars vegar sáu gestirnir um veitingarnar að mestu leyti. Vigdís bjó reyndar til dýrðarinnar brauðtertur en sjálf afmæliskakan (súkkulaðikakan) kom frá tengdó (ríkulega skreytt með jarðarberjum). Mamma mín kom með rausnarlegan skammt af pönnukökum og tvær rjómatertur til viðbótar og Begga systir mætti með sínar eðal-hjónabandssælur. Ég ætlaði reyndar upphaflega að leggja bananabrauð í púkkið en fannst það fullmikið þegar allt kom til alls.

Hitt sem gerði afmælisboðið sérstakt var mætingin, sem var vægast sagt góð. Varla nokkur forföll og það vildi svo sérstaklega til að mætingin dreifðist lítið sem ekkert yfir tímabilið sem við gáfum upp (2-6). Yfirleitt hefur þetta gengið fyrir sig í hollum þannig að ca. 6-10 manna hópur er á staðnum hverju sinni en í þetta skiptið voru nánast allir mættir fyrir þrjú (og því fullsnemmt fyrir þá fyrstu að yfirgefa samkvæmið). Þá var tímabært að syngja og blása. Á þeim tímapunkti reiknaðist okkur Vigdísi (eftir á) til að í íbúðinni væru saman komnir sautján gestir. Með okkur húsráðendum gerir það 21 manneskju (og líklega voru allir í stofunni um tíma). Svona mannmergð hef ég ekki upplifað síðan ég kom heim frá Indlandi :-) En það virtist fara vel um alla sem er fyrir öllu. Hugrún og Signý voru kampakátar með gjafirnar sínar og hafa í kvöld verið að leika sér af miklu kappi. Þær fóru frekar seint í háttinn.

Takk fyrir okkur

fimmtudagur, apríl 30, 2009

sunnudagur, apríl 26, 2009

Pæling: Mikilvægar breytingar

Á þessum fyrsta degi hins "Nýja Íslands" (eins og sumir vilja kalla það) er gaman að segja frá því að ég tók mig til í gær og endurnýjaði heimilishaldið. Ég ákvað í snarhasti að einhenda mér í húsgagnaflutning. Borðið í eldhúsinu fór inn í stofu í staðinn fyrir borð sem þar var fyrir (sem fór í staðinn til inn í eldhús á meðan). Það magnaða gerðist að bæði borðin nutu sín betur á nýja staðnum með þeim árangri að þau búa til meira pláss kringum sig en áður. Þetta hljómar eins og stærðfræðileg þversögn en svona er það nú samt (enda eru húsgögn ekki bara massi og ummál heldur ber líka að taka tillit til hlutverks og notkunar). Þau virka sem sagt bæði "minni" en áður.

Það sem meira máli skiptir, hins vegar, er það að borðið sem fluttist inn í stofu bjó yfir þeim eiginleika að það er tiltölulega gott að sitja við það - allan hringinn. Ég var farinn að sjá fjölskylduna fyrir mér í hillingum sitjandi saman öll við sama borðið. Lága stofu-/sjónvarpsborðið er búið að henta Signýju og Hugrún ágætlega hingað til, rétt til að narta við og sitja við fyrir framan sjónvarpið. Hins vegar gramdist mér smám saman sú tilfinning að Signý og Hugrún virtust ætla að fara á mis við það grundvallaratriði í uppeldi sínu (vegna plássleysis í stofunni!!) að fá að sitja við borð með foreldrum sínum. Það er ótrúlega mikið uppeldisatriði. Þar með helgar maður sig frekar að matmálstímanum og skapar virðulegri umgjörð. Það sem kom mér hins vegar á óvart (því þarna borðuðum við strax í gær) að það að sitja í sömu augnhæð, bæði börn og foreldrar, skapar miklu fleiri tækifæri til samskipta. Tengslin eru miklu nánari svona.




Þegar ég var nýbúinn að koma borðinu fyrir á besta stað (sem er garðglugginn - fallegasti rammi stofunnar) var Signý fljót að átta sig á aðstæðum. Ég fór inn í eldhús og tók eitthvað til þar eftir tilfærsluna og kom inn í stofu á ný örfáum mínútum síðar og þá var sú litla sest á koll við borðið og byrjuð að dunda sér við að teikna (sjá hér fyrir ofan). Stuttu síðar dró ég fram Trip-trap barnastólana (sem hafa því miður lítið nýst okkur hingað til) og settist sjálfur á kollinn. Þarna sátum við svo þrjú, eins og í friðastund, og dunduðum okkur saman við að lita og púsla (sjá mynd fyrir neðan). Fjarlægðin frá sjónvarpinu og hæðin yfir gólfinu gerðið það að verkum að þær eirðu miklu lengur en annars og nutu sín einstaklega.




Við þessar tilfærslur bisaði ég frameftir. Fyrst prufukeyrði ég breytinguna á þeim Signýju og Hugrúnu, sem voru mjög sáttar og höfðu gaman af veseninu. Síðan hélt ég áfram að snurfusa hitt og þetta eftir að þær voru sofnaðar. Það var ekki fyrr en klukkan hálf tólf sem ég kveikti á kosningasjónvarpinu til að tékka á stöðu minna manna og leist bara ljómandi vel á stöðuna á þeim vettvangi líka. Ég get því ekki annað sagt en að þessi dagur hafi lofað góðu fyrir framhaldið - bæði hér heima við og úti í þjóðfélaginu.




fimmtudagur, apríl 23, 2009

Upplifun: Dætramóttaka

Áður en ég greini frá ferðinni til Indlands verð ég að segja frá því hvað það er magnað að vera svona langt í burtu og koma svo heim. Signý og Hugrún voru í miðjum draumaheimi þegar ég læddist inn til þeirra og viðbrögðin voru því ekkert of dramatísk. Enginn hamskipti í dagsins önn. Þær höfðu reyndar verið frekar stóískar yfir fjarveru minni allan tímann og voru aldrei neitt úr jafnvægi á meðan. Hins vegar skynjuðu þær vel þegar ég kom inn til þeirra. Signý reis upp eins og við martröð og baðaði út handleggjunum, hálfsofandi, og umlaði bænarrómi "pabbi"! Ég hélt utan um hana í smástund og hún sofnaði aftur vært. Hugrún var hins vegar uppí hjá okkur þessa nóttina og varð vör við mig þegar ég lagðist út af. Hún gjóaði til mín augunum og brosti og muldraði síðan "pabbi" með sér, aftur og aftur. Það var eins og hún dæsti af feiginleik á meðan hún hjúfraði sig inn í svefninn.

Einhvern veginn brenglast öll skynjunin við svona langa fjarvergu þannig að tilfinningin fyrir aldri og þroska eigin barna verður bjöguð. Þegar ég kom heim brá mér hálfpartinn við það hvað þær Hugrún og Signý voru mikið þroskaðri en mig minnti. Að einhverju leyti getur það stafað af því að ég hafði meðferðis á ferðalaginu myndir af þeim frá síðasta hausti. Myndirnar voru orðnar nokkurra mánaða gamlar og vöktu því sumpart upp úrelt hughrif. Fjarlægðin gerir líka fjöllin blá og börnin manns smá og ósjálfbjarga (þó þau séu langt komin með að vera stálpuð og stór). Svo þroskast þær líka alltaf eitthvað á meðan maður er í burtu. Sem betur fer passaði ég vandlega upp á þetta þegar ég keypti föt á þær. Ég keypti prinsessuklæði fyrir þriggja og fjögurra ára, svona til að vera nokkuð öruggur með að það nýtist á einhverju tímapunkti, ef ekki strax.

Það sem ég tók fyrst eftir var að Hugrún er farin að segja "Signý" (Sinný) en ekki "systir" þegar hún ávarpar systur sína. Þetta var alveg nýtt. Svo tók ég eftir því hvað þær tjáðu sig skýrt. Signý kom mér til dæmis skemmtilega á óvart með öllum sínum þroskuðu svipbrigðum. Hún er farin að geta látið líðan sína og hugsanir í ljós með svipbrigðunum einum saman. Vandlætingarsvipurinn sem hún sendir mér stundum er alveg dýrðlegur. Um daginn var ég að ávíta hana fyrir það að passa ekki nógu vel upp á að fara á klósettið í tæka tíð. Ég tók til þess bragðs að skamma hana. Þá sá ég hvernig það braust um í henni hvort hún ætti að vera pirruð, ósátt eða fara að gráta. Svo setti hún í brýrnar, stillti vinstri hönd á mjöðm og fór með vísifingur hægri handar á loft til áherslu: "Mér finnst ekki gaman þegar þú skammar mig svona, pabbi!".

mánudagur, apríl 20, 2009

Fréttnæmt: Heimkoma

Um helgina skelltum við Vigdís okkur út að borða í tilefni af heimkomu minni á fimmtudaginn var. Við fórum á Indian Mango sem er frábær indverskur staður á Frakkastígnum. Gaman var að virða hana Vigdísi fyrir sér uppáklædda í föt sem ég keypti úti með indverskt skart um hálsinn. Maturinn var líka fyrsta flokks og verðið nokkuð hófstillt. Frábær stund í alla staði.

Ferðin til Indlands var heljarmikil upplifun. Hún var líka gríðarleg vökuraun. Það er ótrúlegt hvað hægt er að fá líkamann til að gera og þola ef maður neitar því að hlusta á hann. Ég svaf nánast ekkert frá því ég vaknaði að morgni ferðadags (flogið um eftirmiðdaginn til London) þar til tveim dögum síðar. Þetta var sem sagt vökunótt í London + morgunflug í tíu tíma til Indlands (án svefns, því ég get ekkert sofið í flugvélasætum án þess að finnast ég vera að hálsbrotna) + millilent upp úr miðnætti í Mumbai og með töfum lent fimm að morgni í Chennai þar sem ég kom mér fyrir á hóteli rétt fyrir sex um morguninn. Klukkan ellefu var maður svo ræstur í verslunarleiðangur. Veisla framundan og svo framvegis...

Ég náði þó að sofa vel nóttina þar á eftir og naut mín vel þá þrjá daga sem liðu þar til ég fór heim á ný. Sú ferð var einnig vökuraun en þó ekki eins svæsin og ferðin til Indlands. "Bara" vökunótt í flugvél í næturferð til London og lent að morgni. Þar var ég svefnlaus strandarglópur en naut mín bara vel. Rölti um miðbæinn og keypti hitt og þetta í hinni mögnuðu borg. Ég flaug heim um kvöldið og lenti heima á miðnætti, kom heim um eitt. Vaknaði eldsnemma til vinnu daginn eftir.

Ég greini betur frá sjálfu landinu og hinni raunverulegu upplifun í næstu færslu - ásamt myndum.