sunnudagur, desember 31, 2006

Daglegt líf: Áramótakveðja

Nú er innan við hálftími í nýja árið. Skaupið búið. Ég horfði ekki á það. Ég hafði reyndar tröllatrú á skaupinu að þessu sinni (er ekki Hugleikur handritshöfundur skaupsins?) en ákvað að treina mér það. Vigdís var nefnilega að vinna í kvöld þannig að ég tók það upp og horfi á það með henni þegar hún kemur heim kringum miðnættið. Hlakka svolítið til, satt að segja.

En á meðan ég var ekki að horfa á skaupið ákvað ég að drepa tímann í tölvunni og það var hreint undravert hvað tölvutengingin var hraðvirk! Það er greinilegt að netumferðin hér heima hægir verulega á hraðanum. Og öfugt. Niðurhal sem venjulega tekur mínútu kom á augabragði. Verst bara hvað skaupið var stutt. Jæja. Gleðilegt ár! Flanið ekki að neinu á nýju ári en sitjið heldur ekki með hendur í skauti. (Þetta má túlka að vild.)


2007 (you are here)
---
2006

laugardagur, desember 30, 2006

Vetrarengill og jólafréttir

Ég ætlaði mér alltaf að senda jólakveðju með þessari mynd sem er hér fyrir neðan en jólaamstrið riðlaði gjörsamlega venjubundinni rútínu þannig að ég gleymdi öllu bloggi dögum saman. Í staðinn er hægt að líta á myndina sem tákn um íslenskt skammdegi og með nettum friðarboðskap tengdum jólum og nýári - með hátíðarkveðju.


Vetrarengill
Fleiri myndir má sjá á myndasíðunni .



Jólin hafa annars farið vel í okkur Vigdísi og Signýju. Vigdís var í fríi á aðfangadag og við eyddum honum saman uppi í Dalseli hjá mömmu og pabba og systkinum mínum (og börnum). Daginn eftir söng ég í messu í Seltjarnarnesinu og hafði gaman af að þenja raddböndin á ný. Á jóladag og öðrum í jólum fórum við í tvö hefðbundin jólaboð hjá fjölskyldu Vigdísar. Signý var afar hress með mannamótin og skemmti sér vel bæði kvöldin. Á þriðja og fjórða (miðvikudag og fimmtuda) voru hins vegar spilakvöld heima hjá okkur í Granaskjólinu. Fyrra kvöldið spiluðum við Vigdís ein en daginn eftir var hins vegar fullt hús. Báða dagana var öndvegisspilið Leonardo í hávegum. Í dag gerðum við Vigdís okkur hins vegar dagamun og fórum í bíó - sáum Kalda slóð. Ég fór á hana af hálfum hug en hún kom mér því verulega á óvart. Það er óhætt að mæla með henni fyrir þá sem unna flottri sviðsmynd, dulúð og sálfræðispennu.

miðvikudagur, desember 20, 2006

Jólaumferðin

Undanfarna daga hefur alls kyns jólastúss tekið tímann frá okkur eins og flestum öðrum. Í dag var ég til að mynda hálftíma á leiðinni upp Kringlumýrarbraut af því að allir ætla í Kringluna. Það var um sexleytið. Öll borgin virðist vera á faraldsfæti, hver um annan þveran, allir á leið á sama áfangastað. Þetta var eins að vera staddur inni í einhverri dómsdagsmynd.


Jólaumferðin
Fleiri myndir má sjá á myndasíðunni.

Um daginn kíktum við Vigdís hins vegar á Laugaveginn og það var allt önnur stemning þar. Komnar eru upp fjölmargar skemmtilegar verslanir sem ég hafði ekki hugmynd um. Ein heitir því huggulega nafni Kisan. Búðin hefur franskt yfirbragð enda eigendurnir frönskumælandi hjón (frönsk að ég held) og selja bara það sem þau hafa dálæti á hvort sem það eru barnabækur, leikföng, bækur um arkítektúr, geisladiskar með franskri alþýðutónlist, klæðnaður, skrautmunir eða húsgögn. Ótrúleg verslun. Við Vigdís réðum okkur varla fyrir útlandastemningu. Ég var ótrúlega glaður þegar ég yfirgaf Laugaveginn því hann virtist sem verslunargata vera að vaxa á ný. Þar var að minnsta kosti sannkölluð jólastemning.

föstudagur, desember 15, 2006

Upplifun: Smá óhapp

Eftir afmælið vöknuðum við eldsnemma því Vigdís þurfti að fara á morgunvakt. Venjulega vöknum við öll saman og tökum daginn snemma. Þessi morgunn var samkvæmt þeirri venju nema hvað ég var svo óskaplega þreyttur að mér tókst að reka tána í einhvern borðfótinn. Það var auðvitað óþægilegt en ekki einsdæmi. Verra tók hins vegar við þegar ég bisaði við að opna útidyrnar með Signýju í fanginu. Hún sat á vinstri handleggnum og ég sneri sveifinni með hægri og þurfti að lyfta hægra hnénu til að ýta niður handfanginu. Það tókst ágætlega, að venju, en þegar ég lét höndina síga slengdist hún utan í stimpilinn á hurðinni. Hann er glænýr og þrælbeittur og náði að rista upp myndarlegt sár á (og nú þarf að einbeita sér) utanverða þriðju kjúku litla fingurs hægri handar. Það blæddi umsvifalaust úr þessu en ég mátti ekki vera að því að sinna þessu sérstaklega enda vorum við orðin að flýta okkur svolítið. Ég saug sárið og leyfði þessu svo bara að kleprast innan í leðurhanskanum sem ég nota við akstur á köldum dögum.

Seinna um daginn fórum við í ungbarnasund og þá tókust sárindin upp um allan helming þar sem margar æfingarnar með Signýju gera ráð fyrir því að hún grípi í fingurna (sérstaklega þá litlu). Ég kunni ekki við að kveinka mér of mikið en gat stundum ekki annað en grett mig. Það er svo skrýtið með þessi grunnu fleyður, þar eru taugakerfið hvað virkast, þarna við yfirborðið. Bara grunnt hörundssár getur verið óskaplega vont.

"Hörundssár" er svolítið athyglisvert orð ef maður spáir í það. Sem nafnorð lýsir það líkamlegu sári en sem lýsingarorð á það við um andlegt sár, eins konar viðkvæmni. Ég get því auðveldlega snúið út úr spurningunni ef ég er inntur eftir því hvort ég sé hörundssár. Ég get sagt: "Nei, ég er yfirleitt ekkert hörundssár, ef undan er skilinn einn staður: Nánar tiltekið á utanverðri þriðju kjúku litla fingurs hægri handar".

fimmtudagur, desember 14, 2006

Daglegt líf: Afmæli

Afmælið gekk eins og í sögu í gær. Það stóð yfir frá klukkan tvö til átta og sá tími var vel nýttur. Reyndar komu fyrstu gestir fyrir tvö og þeir seinustu fóru tæplega níu og allan tímann var fullt hús (enda frekar fáir sem komast að í einu). Signý var auðvitað hrókur alls fagnaðar og kunni selskapnum vel. Hún er vön að leggja sig um miðjan daginn en lét það alveg eiga sig í þetta skiptið enda var þetta svo skemmtilegur dagur.


Afmælisbarnið veltir vöngum
Fleiri frá afmælinu á Flickr-síðunni.

þriðjudagur, desember 12, 2006

Þroskaferli: Fingurkoss

Við fórum í skoðun með Signýju í gær, svokallaða tólf mánaða skoðun (enda á hún afmæli á morgun). Við fórum eiginlega illa að ráði okkar með tímasetninguna á þessari skoðun því eftirköstin af sprautunni sem hún fékk voru hiti og vanlíðan. Hún bar sig aumlega í alla nótt og er fyrst núna að ná sér almennilega. Vonandi verður hún góð á morgun því þá eigum við von á að fjöldi vina og ættingja kíki í heimsókn og taki sér fri frá jólaerlinum með okkur.

Að öðru leyti gekk skoðunin eins og í sögu, ólíkt tíu mánaða skoðuninni (þegar við Signý lentum í eins konar "skyndiprófi", vansællar minningar). Það vildi nefnilega svo til í þetta skiptið að Signý var nýbúin að læra að senda fingurkoss. Það lærði hún af Beggu systur sem við hittum á bæjarröltinu um klukkutíma fyrr. Að venju gaf hún sig góða stund að Signýju með þeim árangri að Signý hermdi eftir henni fingurkoss, öllum að óvörum. Í skoðuninni, nokkru síðar, vorum við semsagt að ræða eitthvað um það hvað Signý væri nú fljót að læra hitt og þetta (sem hjúkrunarkonan taldi sig nú vita þrátt fyrir framganginn síðast) og ég minntist á þennan fingurkoss sem dæmi um það nýjasta. Hjúkkan brosti breitt og vildi endilega prófa og kyssti fingurinn til hennar. Signý beið ekki boðanna, stakk fingrinum upp í sig brosleit, saug andartak, og stakk honum aftur út í átt til hennar til samþykkis, öllum til óblandinnar ánægju, náttúrulega. Síðan þá (það er að segja í dag) er ég ekki frá því að kossinn sé eitthvað að þróast. Ég hef að minnsta kosti staðið Signýju að því nokkrum sinnum að kyssa á sér lófann, talsvert hugsi, og það hefur hún aldrei gert áður.

föstudagur, desember 08, 2006

Matur/netið: Matarblogg

Eins og ég minntist á nýlega þá hefur lítið verið fjallað um mat í þessu bloggi undanfarna mánuði. Það vakti mig til umhugsunar um ýmsa rétti sem eiga erindi hingað inn. Á sama tíma og ég var að velta því fyrir mér fékk ég tilkynningu um að bloggsíðan væri að ganga í gegnum rækilega uppfærslu. Nú er boðið upp á ýmsa leitarkosti, eins og ég hef áður minnst á, með því að slá upp leitarorðum í glugganum uppi til vinstri eða með því að smella á lykilorðin fyrir neðan hverja færslu. Þetta er auðvitað frábært en samtímis þessu vildi svo til að eg fattaði hvernig maður sendir myndir á bloggfærslurnar sínar með hjálp flickr-myndsetursins. Þetta þrennt: myndatæknin, leitartæknin og matarpælingar sameinuðust allt í einu í einni skemmtilegri hugmynd: Nú get ég búið til myndrænt matarblogg með uppskriftum þar sem hráefnið er sett inn sem leitarorð!

Þessi hliðarbloggsíða, sem ég hef nú sett á laggirnar, er á byrjunarstigi en ég hef þó sett inn nokkrar myndir ásamt texta. Kringum eina þeirra er raunveruleg uppskrift en hitt eru enn sem komið er aðeins fyrirheit eða pælingar. Undir hverri færslu eru hins vegar komin viðeigandi leitarorð og því tilvalið að sjá hvernig þetta virkar. Hugmyndin með þessu öllu saman er ekki bara sú að geta á einum stað leitað uppi þær uppskriftir sem við í Granaskjólinu höldum upp á (svokallaðir standardar) heldur geta vinir og vandamenn líka lætt til okkar hugmyndum og nýtt sér síðuna. Hér eftir verður eitthvað minnst áfram á mat í "vikuþönkum" en einungis í félagslegu samhengi. Uppskriftir sem slíkar fá hins vegar sitt verðskuldaða pláss (ásamt myndum og leitarorðum) á hinni síðunni og verður það tilkynnt jafnóðum hér í aðalblogginu.

Upplifun/matur: Jólahlaðborð

Nú er ég nýkominn inn úr jólahlaðborði með vinnunni á Hótel Nordica. Vigdís var að vinna en ég tók Signýju samt með. Hún naut sín bara ótrúlega vel, enda voða vinsæl þar sem hún sat í öndvegi langborðs og veifaði til kollega minna brosandi. Svo fékk hún jafnvel að smakka, smá rauðrófubita, laufabrauð, sæta kartöflu, ris a la mande og súkkulaðiköku. Reyndar passaði ég upp á að hún kæmi ekki svöng (né syfjuð) þannig að hún var aðallega í selskapnum. Eftir tveggja tíma borðhald varð hún hins vegar þreytt og steinsofnaði á leiðinni heim í bílnum.

Maturinn á Hótel Nordica er ótrúlega góður, svo ég gerist nú veitingahúsarýnir í framhjáhlaupi. Þeir leggja mikla áherslu á meðlætið og forréttina og það er mér mjög að skapi. Það voru ekki nema þrir til fjórir kjötréttir af um það bil tuttugu og ég er ekki frá því að þeir hafi átt erfitt uppdráttar hjá mörgum eftir krassandi forrétti. Ekki voru eftirréttirnir síðri. Yfirleitt eru þeir annars flokks á svona hlaðborðum en það er ekki í þessu tilviki. Algjörn nammi - súkkulaðikakan, möndlugrauturinn og créme brulé (með jólakökuívafi). Maturinn í það heila var tiltölulega frjáls við hefðina - til dæmis var rauðkálið með negulkeim - en samt ekki of mikið út úr kortinu, ekki frekar en menn vildu (sushi líka í boði sem meðlæti ásamt ýmsu sem ég kann ekki að nefna).

þriðjudagur, desember 05, 2006

Matur: Heil máltíð i ofninum

Eins og sjá má ef flett er upp hugtakinu "Matur" í glugganum uppi til vinstri þá hef ég ekki fjallað mikið um mat undanfarna mánuði. Þó er það ekki svo að við erum hætt að borða í Granaskjólinu. Tilraunamennskan hefur meira að segja fengið sitt pláss. Það er þvi kominn tími á að birta uppskrift. Vegna fjölda áskorana (í alvörunni) birti ég hér uppskrift að tveimur réttum sem ég bakaði nýverið samtímis og virkuðu mjög vel saman: ofnbökuðu grænmeti og spínatlasagna. Þeir bragðast ekki bara ljómandi vel saman heldur er líka þægilegt að búa þá til samtímis.

Fyrri uppskriftin er tekin úr bókinni "The Vegetarian Gourmet´s Easy International Recipes" eftir Bobbie Hinman, bls. 181. Þar heitir hún "Spinach and Rocotta Pie" en ég vil kalla hana:

Spínatlasagna (með pastasósu og osti)

Undirbúningur: Tryggið að spínatið nái að þiðna vel.

1. Ofninn er hitaður í 190 gráður
2. Eldfast mót er smurt vandlega. Bókin mælir með því að dreifa brauðmylsnu í mótið (en ég gerði það ekki).
3. Látið eftirfarandi hráefni í skál og blandið vel saman:

- Ricotta-ostur, einn bolli. (Ég notaði Mascarpone og það kom mjög vel út)
- Eggjahvítur (tvær)
- Jógúrt, óbragðbætt, hálfur bolli (AB-mjólk er líka fín)
- hveiti, hálfur bolli
- Basil, þurrkuð, 2 tsk.
- Salt og pipar (1/4 tsk. hvort um sig)
- Múskat, 1/16 tsk.

4. Bætið að lokum spínati (rúml. 300 g.) við ostablönduna. Það er best að nota spínat sem fæst frosið.
5. Setjið blönduna í fatið og jafnið út.
6. Dreifið spaghettisósu (1/2 bolli) yfir blönduna. Ég notaði tilbúna Hunt´s "Seasoned Tomato Sauce for Lasagna" og hún kom mjög vel út. Sósuna má alveg búa til sjálfur líka úr venjulegri tómatdós sem bætt er út í lauk og hvítlauk hituðum í ólivuolíu - en þetta er einfaldara.
7. Leggið Mozzarella ost (1 bolla) yfir. Bókin segir að hann eigi að vera rifinn (þess vegna gefinn upp sem bolli) en ég skar hann í myndarlegar sneiðar. Mér finnst hann góður þannig.
8. Setjið parmesan ost yfir (eftir smekk, en bókin talar um eina matskeið).
9. Bakist í ofninum í 35 mínútur án loks, þar til osturinn bráðnar og brúnast lítillega.


Þetta er náttúrulega tilvalið með grænmeti og hvítlauksbrauði en einnig með eftirfarandi rétti sem ég fann í "Matreiðslubókinni hennar Pálínu" sem NLFÍ gaf út fyrir örfáum árum. Uppskriftin finnst á blaðsíðu 49 og heitir einfaldlega:

Grænmeti í osti

Ég vitna beint í bókina:

Hráefni: Gulrætur, hvítkál, kartöflur og laukur.

Grænmetið er skorið í teninga, hitað á pönnu í olíu. Örlitlu vatni er bætt í og kryddað með jurtakryddi. Latið krauma í 3-5 mínútur. Sett í smurt, eldfast mót, rifnum osti stráð yfir. Látið ofarlega í ofni við 200 gráður. Tilbúið þegar osturinn er bráðnaður og hefur fengið fallegan blæ. Borið fram með grænmetissalati.


Þar sem ég gerði þetta samhliða hinum réttinum setti ég þá náttúrulega samtímis inn í ofninn. Til að nýta eggjarauðuna sem var afgangs frá hinni uppskriftinni dreifði ég henni líka yfir með ostinum. Það skemmdi a.m.k. ekki fyrir. Kryddið sem ég notaði var létt jurtakrydd, eins og stungið er upp á, en einnig smá hvítlaukskrydd auk einnar teskeiðar af mildu karrýi. Gott ef ég var ekki með lauk líka. Eins og sjá má þá er þetta afar frjálslegt og tilvalið til að vega upp á móti öðrum uppskriftum eða einfaldlega til að taka til í ísskápnum.

Tungumál: Eiginhandaráritun

Um helgina uppgötvaði ég tungubrjót sem ég held að hafi ekki verið á milli tannanna á fólki og byggist á orðinu "eiginhandaráritun". Ef maður ber orðið óskýrt fram hljómar það eins og "einandarárdun". Fyrir vikið er eftirfarandi setning tilvalin:

Indriði á reyndar eiginhandaráritun.

Segið það svo hratt, nokkrum sinnum:

Indri ándra eindra undra indra ándra...

Og svo öfugt: Reyndar á Indriði....

mánudagur, desember 04, 2006

Þroskaferli: Hreyfiþroskasagan

Nú er stutt í afmælið hennar Signýjar. Ég hef ekki staðið mig nógu vel á bloggsíðunni í að fylgja þroskaferlinu eftir. Það er svo margt sem gerist á tiltölulega stuttum tíma að manni reynist erfitt að taka upp þráðinn, ef maður missir úr. Í afar stuttu máli hefur Signý hins vegar risið af gólfinu. Það ferli er í sjálfu sér fyrirsjáanlegt en hefur engu að síður að mörgu leyti komið okkur mjög á óvart vegna þess að Signý fór sína eigin leið.


Signý er greinilega sátt við sína stöðu.



Í sumar var Signý frekar lengi að byrja að skríða og lengi vel mjakaði hún sér bara örlítið og fór aldrei langt. Hún var mjög vær á sínum stað og dundaði sér bara. Á sama tíma hélt hún illa jafnvægi í setstöðu þrátt fyrir augljósan styrk í baki. Í ágúst small þetta hins vegar. Hún öðlaðist öryggi í setstöðu eftir að hafa nýtt góða sólardaga með okkur úti á mjúku grasinu. Við þetta er eins og Signý missti alveg áhugann á því að skríða og undi sér bara enn betur sitjandi á mottunni sinni mjúku.

Í september leit út fyrir að Signý ætlaði hreinlega að stökkva yfir það stig að skríða því hún fékk mikinn áhuga á að grípa í fingurna á okkur og ganga með. Smám saman þróaðist skriðstíllinn hins vegar samhliða þessu og áður en maður vissi af var Signý farin að skríða um gólf eins og í skriðsundi (þar sem önnur höndin teygir sig fram á sama tíma og andstæður fótur spyrnir aftur). Þessu má líka líkja við lárétt klettaklifur eða jafnvel skotgrafarhermann (þar sem rassinn lyftist aldrei upp). Í októbermánuði var Signý farin að þeytast um gólf og mátti vart á milli sjá hvort væri skemmtilegra; að ganga með eða þjóta um gólfin.

Í nóvember gerðist það svo að litla stúlkan reis á fætur með hjálp ýmissa stoðgrinda eins og borðfóta eða rimlanna í rúminu. Borðplatan í stofunni er til að mynda mjög vinsælli lyftipunktur. Hún liggur rétt í höfuðhæð og reyndir á styrk Signýjar að hífa sig upp. Á sama tíma þarf hún að hagræða fótunum til að skorða þá almennilega af undir sér. Hún á það til enn að gleyma sér og fylgjast með einhverju í kring og renna á meðan óafvitandi úr öruggri stöðu. Ekki er laust við að hún hafi meitt sig stundum en aldrei illa. Þó fékk hún sár á neðri vör um daginn þegar andlitið nuddaðist utan í borðplötuna.

Núna í blábyrjun desember, bara um helgina, gerðust svo þau óvæntu undur að Signý fór upp á fjóra fætur og skreið með hefðbundnum hætti. Ég hélt hún hefði hætti við þetta á sínum tíma. Þennan stíl hefur hún hins vegar stuðst við síðan ásamt gamla "þeytistílnum" (þar sem hún er nær gólfinu).

Það sem mér finnst undarlegast er hvernig skriðstíllinn og set-/göngustíllinn þróast samhliða og eiginlega til skiptis. Nú er hins vegar ekki eftir neinu að bíða. Bara spurning hvenær hún fer að ganga sjálf. Það eru varla margar vikur í það miðað við ákafann undanfarið.

(ath. tímasetningar hér fyrir ofan eru námundaðar eftir minni)

Netið: Myndir á blogginu

Nú get ég loksins gefið bloggsíðunni langþráða andlitslyftingu með því að bæta inn stafrænum myndum úr flickr-safninu, þökk sé aðstoð Kristjáns og leiðbeiningum flickr-síðunnar. Þetta nýti ég mér strax í næstu færslu.

Daglegt líf: Eldhúsbreyting

Ég tók mig til og stækkaði eldhúsið í gær. Það var farið að þrengja svo að mér að mig langaði ekki lengur til að elda mat. Þá er fokið í flest skjól. Ég horfði ásökunaraugum á eldhúsborðið og á þeim tíma rann upp fyrir mér að það gegndi ekki hlutverki sínu sem "borð" í þeirri merkingu að við það sé setið og borðað. Í kringum það er einaldlega allt of þröngt. Í rauninni er þetta bara viðarplata í mittishæð sem nýtist sem geymsla undir dót, eins og ílát, brauð, brauðrist, bolla, eldhúsrúllu og annað tilfallandi. Borðið mátti því þess vegna fara út í horn. Með því móti myndast heilmikið gólfpláss. Ég þurfti ekki nema að hreyfa örlítið við ísskápnum til að búa til pláss í horninu fyrir borðið og útkoman var hreint makalaus. Ég segi bara þeim sem eiga kost á að kíkja: sjón er sögu ríkari.

sunnudagur, desember 03, 2006

Netið: Bloggið tekur stakkaskiptum

Ég vil vekja athygli lesenda á því að það er búið að betrumbæta bloggið. Nú er hægt að leita markvisst að "merkingum" (labels) sem sjá má fyrir neðan hverja færslu. Ég þarf reyndar að fara í gegnum póstinn sjálfur og merkja allar færslur sérstaklega en það gengur hins vegar nokkuð hratt fyrir sig. Núna ná merkingarnar 100 færslur aftur í tímann (sem er rétt tæplega ár) og fljótlega verð ég búinn að merkja allar 347 færslurnar samviskusamlega.

Þrátt fyrir þetta er hægt að leita í öllum gagnagrunninum. Það er gert með annarri leitaraðferð sem er líka nýkomin upp. Kíkið upp í vinstra hornið - þar er leitargluggi. Ég mæli með því að notandinn slái upp lykilorðinu sem ég hef hingað til alltaf passað upp á að setja sem upphaf hvers titils (einhvern veginn hafði ég alltaf trú á að bloggið myndi þróast í þessa átt og tel mig græða núna heilmikið á framsýninni). Þessi leitaraðferð nær aftur til fyrstu færslu en er þó þeim takmörkunum háð að ég hef einskorðað merkinguna í titlinum við eitt hugtak hverju sinni en hver færsla getur fjallað um margt í senn (sumar eru mjög almennar). Reyndar er með þessari aðferð (leitarglugganum) leitað bæði í titlinum og í sjálfum textanum þannig að ef leitarorðið er mjög almennt þá koma óþægilega margar færslur. Ég prófaði til dæmis að leita að Signýju í öllu því sem ég hef skrifað, setti "Signý" í gluggann, og fékk dágóðan slatta, bæði færslur þar sem fjallað er um hana sérstaklega og einnig þar sem minnst er á hana í framhjáhlaupi. Þannig virkar þessi leitaraðferð. Hún hefur sína kosti og galla en getur að sama skapi komið skemmtilega á óvart.

Ég fer fljótlega lengra aftur í tímann og merki gamlar færslur. Það væri því gaman að frétta af góðum leitarorðum hjá ykkur sem lesið því þá gæti ég notað það til að merkja með sérstaklega.

Lestur: Mislestur 2

Aftur stend ég sjálfan mig að því að lesa einhverja vitleysu út úr því sem stendur skrifað skýrum stöfum fyrir framan mig. Í þetta skiptið var það nýjasta forstíða Birtu en þar er mynd af fjórum einstaklingum sem stillt hefur verið upp hálf vandræðalega og allir hafa þeir rauða kúlu á nefinu. Ég sé þessa forsíðu á hvolfi og les: "Dagur dauðarefsingar". Mér finnst eins og þessu seinna orði sé skipt milli lína en vanda mig hins vegar örlítið í næstu tilraun: "Dagur rauða nefsins". Ekki skrítið hvað mér fannst fólkið brosa vandræðalega á myndinni.

föstudagur, desember 01, 2006

Upplifun: Eftirminnileg atburðarás

Nú er vinnuvikan liðin á ný og lífið einfaldlega gengið sinn vanagang. Reyndar er það eina dramatíska sem gerst hefur hjá okkur í Granaskjólinu var daginn sem systir Signýjar var opinberuð í sónarskoðun. Það var nefnilega hrikalegur dagur þó hann hafi borið góð tíðindi og endað vel.

Þannig var að við Signý skutluðum Vigdísi á morgunvakt og til stóð að sækja hana aftur klukkan kortér í tvö (tíminn var skráður kortér yfir). Við Signý urðum dösuð og þreytt þegar við komum heim og þegar leið á morguninn ákváðum við að leggja okkur. Þá var klukkan orðin rúmlega tíu og mér fannst vænlegast að taka símann úr sambandi á meðan við sváfum svona undir hádegið. Ég fylgdist vel með tímanum allan tímann og upp úr tólf stauluðumst við feðginin á fætur, ég gaf henni eitthvað að borða og var nokkurn veginn búinn að gefa henni þegar ég uppgötvaði að ég átti eftir að opna fyrir simann aftur. Vigdís hringdi nánast samstundis og sagði mér að hún hafði reynt að ná í okkur nokkuð lengi. Hún var orðin svolítið áhyggjufull yfir að ná ekki í okkur (enda stutt í að við ætluðum af stað til að ná í hana). Henni fannst við vera orðin svolítið sein. Ég leit á klukkuna inni í eldhúsi og sá að hún var ekki nema 13.33 og fannst tíminn vel rúmur en ákvað samt að flýta mér. Eftir að hafa klætt Signýju fattaði ég að hún var nýbúin að losa hægðir. Ég þurfti því að hafa snör handtök, vippaði Signýju síðan aftur í föt og hafði það á tilfinningunni í þetta skiptið að við værum kannski að verða svolítið sein eftir allt saman, tók töskuna hennar Signýjar með mér, gleypti hálsbrjóstsykur til að fríska mig við og stökk út. Þegar ég skellti á eftir mér rann upp fyrir mér, mér til skelfingar, að ég var ekki með bíllyklana á mér. Það sem verra var, húslykillinn var á sömu kippu. Þarna stóð ég því með Signýju í fanginu og vissi ekki mitt rjúkandi ráð. Ég var ekki einu sinn með gemsa á mér til að hringja á leigubíl. Veðrið var sem betur fer nokkuð skaplegt eftir illviðri undanfarna daga en var að öðru leyti vorum við í vondum málum. Núna var ég orðinn virkilega seinn. Ég hafði ekki einu sinn möguleika á að ganga úr skugga um hversu seinn ég var því gemsinn var inni.

Nú voru góð ráð svo sannarlega dýr. Tvennt kom til greina: Að brjótast inn í húsið með einhverjum hætti eða banka upp á hjá nágrönnunum og reyna að hringja þaðan á bíl. Mér fannst seinni kosturinn skynsamlegri og markvissari. Sem betur fer var bíllinn okkar ólæstur svo ég gat komið Signýju vel fyrir i vönduðum stól. Hún var vel klædd og þar var ekki sérlega kalt úti (sem betur fer). Þá fór ég og bankaði upp á hjá nágrönnunum og var bara rétt sæmilega vongóður um að ná einhverjum heima, enda virkur morgunn og flestir í vinnu. Í annarri tilraun tókst mér þó að draga nágranna til dyra og tilkynnti um að þetta væri "eiginlega neyðartilelli" þegar ég bað um að komast í síma og sagði í afar stuttu máli hvers eðlis það var. Ég hringdi á leigubíl og áttaði mig á því með símadömunni að þeir byðu mjög fáir upp á barnastól þannig að fljótlegast yrði að taka minn með, ef það væri mögulegt. Núna var ég orðinn verulega stressaður og gekk aftur rakleiðis að bílnum þar sem Signý sat og var öll útgrátin yfir að hafa ekki séð mig mínútum saman. Ég tók hana strax í fangið og stikaði um ráðvilltur. Fannst vont að hafa ekki hringt líka í Vigdísi þegar ég hafði haft tækifæri til þess og vissi að nú væri hún orðin örvæntingafull að bíða eftir mér. Bíllinn lét nú bíða eftir sér, ábyggilega tíu mínútur eða meira, og ég dundaði mér við það á meðan að brjótast inn í íbúðina í síðasta sinni, í þeirri vona að hefði yfirsést einföld inngönguleið. Það tókst ekki betur en svo að þegar ég kippti eldhúsglugganum upp (hann var hálfopinn) þá stöðvaði hnúður á gluggafalsinum mig í að opna, og við höggið kom brestur í rúðuna. "Þetta er þá bara býsna þjófahellt eftir allt saman" reyndi ég að hugsa með mér til að svekkja mig ekki á þessum aukalega skaða. Síðan kom bíllinn. Ég hafði snör handtök og vippaði barnabílstólnum yfir og greindi bílstjóranum frá stöðunni svo ég fengið strax að hringja hjá honum. Klukkan var sem betur fer ekki nema rétt rúmlega tvö þegar hér er komið sögu en augljóslega vorum við orðin mjög sein. Til að stressa Vidísi ekki á ofangreindri sögu ákvað ég að vinda mér strax að efninu þegar hún kom í simann: "Vigdís, ég er á leiðinni, en ég kem á leigubíl" Þannig fékk hún svigrúm til að átta sig áður en ég kom á vettvang. Ég sagði henni sólarsöguna og bíllinn skutlaði okkur á leiðarenda, fimm mínútum á eftir áætlun (geri aðrir betur). Það var óneitanlega undarlegt að koma í ómskoðunina með bílstól og barn í fanginu og fólk horfði verulega undrandi á okkur þegar við mættum.

Sónarskoðunin gekk eins og í sögu, eins og áður hefur verið greint frá, og er það fyrir öllu. Vigdís kom dösuð heim. Hún var náttúrulega svekkt yfir framvindunni. Hún hafði helst viljað fara yfirvegað og afslappað í gegnum þennan merka dag. Hún fór þess vegna beint i rúmið til að hvíla sig þegar heim kom en ég labbaði hins vegar í eldhúsið, skoðaði gluggann innan frá. Mér varð líka litið á klukkuna utundan mér þar sem hún hangir á mjög áberandi stað við hliðina á glugganum. Þá brá mér allverulega við að sjá hvað hún sýndi:

Hún var enn 13.33!

sunnudagur, nóvember 26, 2006

Fréttnæmt: Sónarskoðun

Það sem gerðist markverðast í vikunni er vafalaust sónarskoðunin á mánudaginn var. Þá fengum við úr því skorið hvors kyns litla krílið er. Við ákváðum ekkert að bíða með þetta núna og nutum þess í stað að skoða myndirnar í bak og fyrir. Síðan hefur vikan verið hin notalegasta og við Vigdís og Signý tekið á móti gestum í létt kaffiboð. Allir fá það hlutverk um leið og þeir koma inn að skoða myndirnar, fyrstu myndirnar af litlu systur Signýjar.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Netið: Myndauppfærlsa - Kárahnjúkar og brúðkaup

Undanfarið hefur uppfærsla á myndasíðunni þurft að víkja fyrir áhuga mínum á að uppfæra tónlistarsíðuna. Ég hef nú bætt úr því með því að setja inn helling af myndum. Í kláraði þar með myndasöguna af ferð okkar Jóns austur að Kárahnjúkum (frá í ágúst) og bætti einnig við nýlegri myndum frá í október og nóvember. Nýjustu myndirnar þrjár eru úr brúðkaupi Bjarts og Jóhönnu. Einnig bendi ég fólki á þann skemmtilega möguleika að fletta myndum upp eftir leitarorðum.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Tónleikar: Sykurmolarnir og Sufjan Stevens

Mikil tónleikaveisla er að baki. Ég fór á Sykurmolatónleikana á föstudaginn og sá síðan Sufjan Stevens daginn eftir. Þetta var náttúrulega kærkomin útrás eftir að hafa verið innandyra dögum saman vegna veðurs (ekki treysti ég mér út í kuldann með Signýju).

Sykurmolarnir stóðust allar mínar væntingar. Ég held satt að segja að hrifning mín á þeim hafi aukist eftir þessa upplifun (það er eiginlega einn helst mælikvarði góðra tónleika að virðing manns eða skilningur á tónlistinni aukist). Molarnir voru í miklu stuði. EInstöku sinnum heyrði maður hnökra í spilamennskunni en það gerði ekkert til því það var ljóst allan tímann að Molarnir komu til að skemmta sér. Björk var hversdagslega klædd (ólíkt því sem hún hefur gert á sólóferlinum) og líktist aftur litlu smástelpunni í súrrealíska bandinu. Reyndar fékk ég gæsahúð um leið og hljómsveitin steig á svið því þá gerði ég mér skyndilega ljóst að þetta var alvöru viðburður. Á íslenskan mælikvarða þá voru Bítlarnir að koma saman aftur, hvorki meira né minna, og allir voru enn í fullu fjöri og endurnýjaðir, ef eitthvað er. Einar Örn fór á kostum alla tónleikana með súrrealísku bulli sem iðulega hitti í mark. Hann talaði töluvert við áhorfendur og dansaði mikið með sérkennilegri líkamstjáningu. Björk var greinilega mjög skemmt yfir frumkvæði hans. Þau tvö voru eins og uppvaxnir krakkar, nýbúnir að finna aftur gamla sandkassann sinn. Súrrealískur karakter allra laganna hjá molunum og líkamstjáningin gerði það að verkum að mér fannst ég sjálfur vera staddur í einhvers konar hliðarveruleika þar sem sviðið var risastór brúðubíll með hreyfisöngvum og öllu tilheyrandi. Þegar leið á tónleikana losnaði meiri kraftur úr læðingi. Delicious Demon, Hit, Fucking in Rhythm and Sorrow og loks Luftgítar enduðu tónleikana með látum. Maður gekk sjálfur í endurnýjun lífdaga.

Sufjan tónleikarnir voru nokkru síðri fyrir það að vera haldnir við vonlausar aðstæður í Fríkirkjunni (þar sem margir urðu að standa langtímum saman í þungu lofti) og einnig vegna þess að það skorti léttleikann og allan spuna. Tónlist Sufjan er þrælskipulögð og margslungin, við því var að búast, og hún er á margan hátt gríðarlega heillandi (sjá umsögn um síðustu plötu hans Illinois sem bestu plötu ársins 2005). Kveikt var á kertum í myrkrinu og allt gert til að skapa notalega umgjörð. Hersveit tónlistarmanna með flugdrekavængi á bakinu stilltu sér upp kringum þröngt sviðið kringum Sufjan sem sjálfur var með arnarvængi. Á sviðinu var einnig haugur af uppblásnum jólasveinum (sem fengu að dansa um salinn eins og blakboltar í einu laganna). Í þessu litla rými var ekki nægilega mikið pláss fyrir þá tónasúpu sem boðið var upp á - enda var meðal hljóðfæraleikara myndarleg blásturssveit með tilheyrandi þéttum hljómi. Ef maður lítur hins vegar fram hjá lýjandi aðstæðum þá stóðu allir sig frábærlega og stemningin var mjög góð. Sufjan er nærgætin og skemmtilegur á sviði, góður sögumaður, með mjóróma rödd sem nær samt að skila sér gegnum hljómsveitina. Í raun var dýrðin svo mikil að mér fannst synd að þetta skyldi ekki vera haldið á Miklatúni. Þar hefði ég legið og lygnt aftur augum. En þetta voru eftirminnilegir tónleikar þrátt fyrir það og ekki síst fyrir þá staðreynd að þetta voru síðustu tónleikar ferðalagsins hjá Sufjan og félögum og ekki laust við að maður skynjaði nostalgíuna hjá þeim á þessum kveðjutónleikum.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Upplifun: Ekki hundi út sigandi

Þetta er nú meira andstyggilega veðrið. Ekki nóg með að það skelli á með djúpri lægð í tvígang í síðustu viku heldur tekur að kólna í skyggilega í þessari viku. Fimm til tíu stiga frost er svo sem engin nýmæli en að það skuli viðgangast á meðan það er bálhvasst úti á sama tíma gerir upplifunina mannfjandsamlega. Við Signý erum búin að halda okkur innandyra síðustu tvo daga og er farið að leiðast pínulítið. Það er nauðsynlegt að skjótast að heiman, í göngutúr eða bíltúr, svona til að brjóta upp daginn en eins og ég lýsti þá er það óskynsamlegt.

Við förum þó nauðsynlega rúnta, til að skutla Vigdísi í vinnuna og sækja hana. Það lýsir ástandinu hvað best að Signý er vön að leika sér með litla platflösku sem innihélt örlítlar leifar af gosvatni. Núna hringlar í flöskunni, jafnvel hálftíma eftir að lagt var af stað í hægt bílnum (sem hitnar allt of hægt).

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Fréttnæmt: Græjur uppfærðar

Á sunnudaginn var skruppum við Vigdis á tónleika í Hallgrímskirkju þar sem Dómkórinn söng verk eftir Bruckner, Palestrina, Mozart og stórvirki eftir Lizst "Messe Choralis" (frumflutningur). Við buðum Sirrý (tengdó) með. Við vorum misjafnlega hrifin af verkinu en af því verður þó ekki skafið að flutningurinn var tilkomumikill með fimm einsöngvurum og áttatíu manna kór, ásamt orgelundirleik.

Dagana fyrir tónleika tók ég mig til af metnaði og leitaði uppi verkið. Þetta er lítið flutt stykki en það fannst þó á vínylplötu í tónlistarbókasafninu í Hafnarfirði (sem er vandaðasta tónlistarsafn landsins fyrir almenning). Geisladiskur hefði nú verið hentugri en ég lét samt til leiðast enda vissi ég af traustum plötuspilara gröfnum einhvers staðar undir dóti í geymslunni. Þegar á reyndi var ég ekki svo ýkja hrifinn af verkinu (og hlustaði þó í tvígang) en sit samt sáttur við minn hlut vegna þess að nú er ég búinn að tengja plötuspilarann minn við græjurnar. Það finnst mér býsna merkur áfangi á tölvuöld. Honum er komið haganlega fyrir á bak við allt sjónvarps/græju/DVD-settið þar sem plássið er hvort sem er illa nýtt. Hann sést ekki einu sinni, fyrr en vel er að gáð. Hljómurinn villir hins vegar ekki á sér heimildir, skrefinu nær lifandi hljómburði. Að sjálfsögðu er ég búinn í kjölfarið á öllu þess að draga fram vænan bunka af tónlist sem ég hef ekki hlustað á lengi og hugsa mér gott til glóðarinnar.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Matur: Sætur morgunmatur

Ég fékk mér frábæran morgunmat í dag sem eg hef haldið svolítið upp á undanfarið. Um er að ræða óvenjulega samsetningu af tiltölulega venjulegu hráefni. Fyrst fyllir maður skál af sætri ávaxtasúrmjólk (eða jógúrti) og setur út á hana þurrkaða ávexti. Þetta gerir sætleikann fjölbreyttari og áhugaverðari. Siðan er óbragðbættu en fingerðu morgunkorni (ekk músli) bætt út á svo að tannavinnan verði fjölbreyttari.

Mín útgáfa er nákvæmlega þessi:
Perusúrmjólk
Þurrkað ananas/papaya nasl
Óbragðbætt Cheerios (ekki hunangs eða neitt svoleiðis)

Útkoman er svo suðræn að ég fæ mér alltaf tvo diska.

mánudagur, nóvember 06, 2006

Netið: Sýndarplötusafnið stækkar

Nú er ég búinn að vera talsvert mikið heima síðustu tvær vikurnar. Við Signý skemmtum okkur vel saman en þess á milli vill hún dunda sér sjálf eða þarf að leggja sig. Þá finn ég mér eitthvað annað að gera. Það sem hefur hentað mér best við þessar aðstæður er að vinna við einfalda handavinnu af einhverju tagi. Þá kemur fyrirbæri eins og Rate Your Music mjög sterkt inn. Þetta er vefsamfélag þar sem mönnum gefst kostur á að setja inn í gagnagrunn upplýsingar um plötusafnið sitt ásamt einkunnum og umsögnum. Þetta minntist ég á fyrir um ári síðan þegar ég uppgötvaði síðuna en nú hef ég bætt verulega í safnið og get ófeiminn flíkað því út á við (er þó bara um þriðjungur safnsins kominn upp). Það sem heillar við þetta netsamfélag er sú innsýn sem maður fær inn í tónlistina frá venjulegum hlustendum auk tölfræðinnar sem birtist um manns eigið safn.

Rennið músinni niður síðuna til að skoða það og þá sjáið þið síðustu færslur í litlum glugga. Þar fyrir ofan eru nokkrir flipar (recent, ratings, collection, reveiws, wishlist og tags). Til dæmis ef þið smellið á "reviews" birtist plötulistinn ásamt umsögnum í stafrófsröð (því er hægt að breyta með því að smella á flipana þar fyrir ofan - til dæmis til að raða í einkunnaröð). Með því að smella á einkunnir, þ.e. "ratings" þá birtist súlurit yfir einkunnagjöf mína. Þar er hægt að smella á tiltekna gæðaflokka (til dæmis meistaraverkin sem fá fimm í einkunn eða plöturnar þar fyrir neðan "(fjórir komma fimm)" sem eru álíka góðar, með örlitlum vanköntum eða takmarkaðri á einhvern hátt. Ég útskýri þetta svo sem ágætlega á aðalsíðunni en í stuttu máli má segja að plötur sem ég gef þrjá eða meira í einkunn eru á einhvern hátt í uppáhaldi hjá mér. Skalinn frá 4-5 er einhvers konar snilld á meðan meðalmennskan er miðuð við einkunnina tvo (tónlist sem rennur hlutlaust í gegn). Amatöraháttur eða yfirgengileg tilgerð fær ekki meira en einn í einkunn. Þangað hefur R.E.M. til að mynda komist og Bowie hefur daðrað við lágkúruna líka. Annars má endalaust leika sér með þetta, og jafnvel deila.

Eitt af því sem er hvað skemmtilegat við þetta allt saman er flokkkunarkerfið, svokallað "tags". Þeir birtast hér og þar með umsögnunum og þá er alltaf hægt að smella á þann efnisflokk sem er álitlegastur. Sem dæmi um tvo myndarlega (en ekki of stóra) má nefna electronica (þar sem rafræn tilþrif eru áberandi, en tónlistin þó ekki endilega ósungin) og confessional (þar sem tónlistin er mjög persónuleg og allt að því nærgöngul). Þarna eru margir efnisflokkar og margt enn á vinnslustigi.

Þessir efnisflokkar voru ekki til staðar fyrir ári síðan enda eru gömlu umsagnirnar mínar efnisflokkalausar fyrir vikið (ég vinn í því með tímanum enda finnst mér þetta mjög spennandi). Sama má segja um "visualize" möguleikann þar sem hægt er að skoða á mjög sjónrænan og skemmtilegan hátt plötusafnið í heild sinni. Ég mæli með þessu.

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Upplifun: Vandræðalegt þroskamat

Fyrir tveimur vikum lofaði ég því að minnast á skoðunina sem Signý undirgekkst þá. Tilvalið að minnast á það hér strax á eftir hinni skoðuninni (nú er vart þverfótað fyrir ferðum okkar upp á heilsugæslu). Sú skoðun var nokkuð eftirminnileg og fékk mig til að velta vöngum yfir ýmsu.

Þannig var að ég var nýbyrjaður í feðraorlofi og hafði nýlokið við að skutla Vigdísi í vinnuna, á morgunvakt, og var af ýmsum ástæðum mjög illa sofinn. Þegar inn var komið fann ég hvað það var óþægilegt að vera einn með Signýju í skoðun. Yfirleitt hefur Vigdís spjallað á meðan ég yfirvegaður klæði Signýju úr. Núna þurfti ég að halda uppi vitrænum samræðum, eins illa sofinn og ég var, og klæða Signýju úr á sama tíma. Við þetta bættist að hjúkrunarfræðingurinn var með nema með sér, aldrei þessu vant, sem fylgdist gaumgæfilega með. Allt í einu fannst mér mjög óþægilegt að standa í þessu, klæðandi Signýju úr undir eftirliti, svarandi einhverjum spurningum í leiðinni. Svolítið skrítin upplifun. En ég var hæfilega kærulaus því þetta gengur yfirleitt bara út á að mæla lengd bols, ummál höfuðs og vigta. Mjög einfalt. Einstöku sinnum bætist sprauta við. En eitthvað var ég óvenju klaufskur við þetta - orðinn hálf pirraður. Ég spurði um sprautuna, sem ég átti von á í þetta skiptið, þá sagði hjúkkan "Nei, nei. Núna er þroskamat! Við ætlum að skoða hvað hún kann, hvort hún getur vinkað, sýnt hvað hún er stór, klappað og svona!"

Mér var brugðið. Fyrsta próf Signýjar! Eða vorum það við Vigdís sem vorum í prófi?

Ég svaraði að bragði að við hefðum ekkert verið að leggja áherslu á þessi atriði. Hún kann samt ýmislegt annað. Ég hugsaði með mér í leiðinni: "Hvernig á hún að geta sýnt hvað hún er stór, ef maður hefur ekki kennt henni það? Maður hefði mátt vita af þessu fyrirfram". Við höfðum heldur ekki verið að vinka henni neitt. Við erum alltaf hjá henni, meira eða minna! "En hún klappar alveg", sagði ég vandræðalegur, "sérstaklega ef hún heyrir tónlist, þá fer hún strax að klappa". Þá byrjaði hjúkkan að brosa framan í hana og klappa svolítið og Signý brosti til baka og lagði saman lófana, hikandi, en klappaði ekki.

Þetta var eins og að sýna glæsibifreið sem fer síðan ekki í gang.

Ég hefði getað sungið "Allir krakkar" eða eitthvað og fengið hana til að klappa undireins. En ég var ekki í stuði til þess.

Eftir þetta var Signý mæld, eins og við var búist (hún er um það bil átta kíló) og þær stöllurnar, hjúkkan og neminn, yfirgáfu mig án frekari seremóníu. Læknir kom inn og skoðaði Signýju enn frekar, hlustaði hana, kíkti í eyrun og athugaði síðan hreyfifærnina. Ég leyfði henni að halda í puttana á mér og hún labbaði af ákefð eftir gólfinu. Lækninum leist vel á.

Eftir þessa heimsókn var ég mjög hugsi. Er svo mikilvægt að öll börn læri allt samtímis? Eru þessi fáu atriði mælikvarði á þroska barnsins, eða var svar mitt um að henni hafi ekki verið kennt það tekið gott og gilt? Það er nú ýmislegt sniðugt sem hún gerir, hún Signý, sem sýnir mikla samskiptahæfni, þannig að við getum alveg verið róleg yfir þessu. Við höfum nefnilega alltaf staðið í þeirri trú að það væri mikilvægast fyrir barn að búa við öryggi, tilfinningalegt jafnvægi á heimilinu og geta treyst foreldrum sínum. Hitt kemur að sjálfu sér. En fyrst það er búið að ýta við okkur með þessar fáeinu kúnstir þá ætti ætti Signýju nú ekki að muna mikið um að læra þær á næstu dögum.

Eftir það höfðum við Vigdís þetta á bak við eyrað: að kenna henni að vinka, sýna hvað hún er stór og allt þetta hefðbundna, án þess að þrýsta neitt á hana. Það kann hún núna og gerir mjög vel. Hún vinkar eins og drottning með fallegan úlnliðsvinkil. Þegar hún sýnir hvað hún er stór verður hún líka ósköp stolt. Það sem er best er náttúrulega það að hún hefur gaman af þessu enda verðum alltaf svo kát með henni.

Fréttnæmt: Bumbuskoðun

Aftur kominn sunnudagur. Það er farið að verða fyrirsjáanlegt að ég hafi ekki tíma fyrir bloggfærslur nema á sunnudögum. Ég er sjálfur farinn að reikna með því og lít á alla viðbót sem hreinan bónus.

Annars er það helst úr vikunni að frétta að við kíktum í skoðun, litla fjölskyldan. Signý sat á hnénu á mér á meðan ljósmóðirin skoðaði Vigdísi, þ.e.a.s. bumbuna og hjartsláttinn þar. Við feðginin fengum líka að heyra og ég er ekki frá því að Signý hafi kannast við hljóðið. Hún snarhætti að leika sér og var einhvern veginn hugsi yfir þessu. Eiginlega vissi hún ekki hvort henni ætti að þykja þetta sniðugt því hún brosti hálf vandræðalega og var næstum því alvarleg yfir þessu.

Það vill svo til að einmitt í þessari viku sem við fórum í skoðun erum við farin að sjá talsverðan mun á Vigdísi. Hún er farin að finna fyrir spörkum öðru hvoru síðustu daga og bumban hefur snarstækkað á nokkrum dögum. Nú er meðgangan komin á það stig að vera orðin "áþreifanleg" og sýnileg.

mánudagur, október 30, 2006

Lestur: Mislestur

Ég var í Bónus í dag og stóð í biðröðinni þar sem við blöstu alls kyns tímarit. Allt í einu sá ég verulega undarlega fyrirsögn yfir mynd af Steingrími Hermannssyni og Guðmundi syni hans og mændi á blaðið. Þar fannst mér standa "Raðnauðganir". Eftir að hafa pússað augun sá ég betur hvað þar stóð: Rauðgrænir. Þar er verið að fjalla um hvernig græni pabbinn (Framsókn) styður við bakið á rauðum syninum (í framboði hjá Samfylkingunni). Þetta minnti mig á gamla mislesturinn á síðum Morgunblaðsins: "Nauðungaruppboð" sem ég misskildi árum saman með þessum sama hætti.

sunnudagur, október 29, 2006

Fréttnæmt: Brúðkaup Bjarts og Jóhönnu

Í gær giftu þau Bjartur og Jóhanna sig við hátíðlega athöfn. Vel valinn söngflokkur stóð á svölunum og söng brúðkaupsmarsinn við orgelspil (og þar naut ég þess að vera innanborðs). Marsinn er sjaldnast sunginn nú til dags en það var þó sérlega viðeigandi og hátíðlegt því sönghefðin er í hávegum á heimili þeirra hjóna. Þau voru gefin saman í Hafnarfjarðarkirkju og buðu svo til veisluhalds í Safamýrinni í veislusal gamla fótboltafélagsins míns. Mikill fjöldi var þar staddur til að fagna með þeim. Fæsta þekkti maður svo sem en inn á milli kannaðist ég við gamla söngfélaga og einn og einn tónlistarmann sem kunnur er á opinberum vettvangi. Eins og við mátti búast var mikið af skemmtiatriðum og söng. Bæði sprellandi og spriklandi Smaladrengum (óborganlega fyndnir) og innilega næmum og fallegum söng Hallveigar. Eftirminnilegust fannst mér þó persónulegri atriðin, þar sem systkini Bjarts og fjölskylda þeirra sungu gömul lög eftir hann sem hann samdi sjálfur sem lítill krakki, að þeirra sögn. Þau voru skemmtilega súrrealísk og einlæg. Einnig stóð Bjartur sig frábærlega þegar hann settist við píanóið sjálfur, við undirleik strengja, og söng ástaróð til Jóhönnu. Ekki man ég hvað lagið heitir, en hann samdi það líka sjálfur, nema hvað, einhver annar var víst á undan honum að semja það :-). Haldin var vísubotnasamkeppni eftir að öllum söngatriðum sleppti og fékk sigurliðið forgang að kaffihlaðborðinu.

Er ég horfi út í geim
oft hann virðist svartur

Einhver sneri út úr keppninni og skipaði þar með borði sínu í aftasta sæti í röðinni:

Þetta er nú heldur "leim"
lakur fyrripartur

En sigurvegarinn var föðursystir Jóhönnu sem samdi þenna snilldarbotn, sem var sérstaklega vel við hæfi.

Um lágnættið þau leiðast heim
litla frænka og Bjartur

Þau héldu einmitt út í nóttina og dvöldu fyrir utan borgarmörkin í kyrrðinni yfir nóttina. Við óskum þeim aftur innilega til hamingju og hlökkum mikið til að hitta þau á ný.

sunnudagur, október 22, 2006

Fréttnæmt: Vikuyfirlit

Stundum gefst mjög takmarkaður tími til að kíkja í tölvuna og lítið sem ekkert bloggað. Þannig var síðasta vika. Hún var samt merkileg á margan hátt. Ef ég stikla á stóru þá ber kannski hæst að Vigdís fór að vinna eftir barneignarfrí (hún hefur ekki unnið síðan í desember síðastliðnum). Hún tók kvöldvakt á mánudag og strax morgunvakt daginn eftir. Akkúrat þann dag fór Signý í skoðun og ég mætti því einn með hana, frekar illa sofinn eftir að hafa vaknað snemma og skutlað Vigdísi. Það var athyglisverð heimsókn (og þess virði að fjalla um sérstaklega í annarri færslu). Svo er frásagnarvert að í vikunni lét eigandin grafa upp garðinn fyrir framan húsið til að komast að frárennslisrörunum. Það flæddi nefnilega upp úr niðurfallinu á ný um síðustu helgi og eigandinn ákvað í þetta skiptið að bíða ekki boðanna, hringdi strax í gröfumann og sérfræðing til að hreinsa leiðslurnar. Skurðurinn hefur nú staðið opinn í nokkra daga því rörin verða ekki hreinsuð fyrr en eftir helgi. Það er því sérkennilegt um að litast í Granaskjólinu og ekki laust við að maður rifji upp gömlu góðu kastalasíkin þegar gengið er fram hjá holunni. Núna um helgina yfirgáfum við Vigdís svæðið og skildum Signýju eftir í höndum ömmu sinnar. Við dvöldum yfir nótt í góðu yfirlæti með Jóni Má og Margréti í bústað í Grímsnesi. Þar var nútíminn tekinn beinlínis úr sambandi. Ekkert sjónvarp, ekkert útvarp - nánast ekkert rafmagn (kertaljós) - og við spjölluðum í algjöru tímaleysi frameftir kvöldi (eftir vel heppnaða kvöldmáltíð þar sem humar lék aðalhlutverkið). Við Vigdís komum endurnærð heim í dag.

sunnudagur, október 15, 2006

Tónleikar: Edda I - eftir Jón Leifs

Ég fór í gær ásamt Villa bróður á sinfóníutónleika. Þeir voru að frumflytja stórvirki eftir Jón Leifs, Eddu I, sem fjallar um sköpun heimsins samkvæmt norrænni goðatrú. Þetta er fyrsta Edda af þremur sem Jón samdi á lífsleiðinni (af áætluðum fjórum Eddum). Hann dó frá þeirri þriðju. Mér skilst að hinar tvær hafi verið fluttar áður en þessi, fyrsti hluti, hafi vaxið flytjendum svo mjög í augum að enginn hafi treyst sér hingað til að flytja hana (og nú eru tæp 40 ár síðan höfundurinn dó). Það þurfti margra vikna strembið æfingaferli fyrir þrautþjálfaða hljómsveitarmeðlimi og kór (Mótettukórinn) til að koma verkinu á framfæri og talað var um að nokkrum dögum fyrir flutning vissi enginn enn hvernig þetta myndi hljóma, svo strembið var æfingaferlið.

Tónleikarnir voru verulega magnaðir og ég fékk gæsahúð í það minnst þrígang í fyrsta og öðrum kafla (af tólf). Síðan fór ég að verða samdauna þessum tónaheimi og fannst síendurteknir hápunktar og hljóðeffektar hreyfa minna við mér. Jón Leifs ræðst á skynfærin og maður hálfpartinn kúplar sig frá eftir um tuttugu mínútna hlustun. Mér fannst verkið skorta í fljótu bragði fjölbreytni og hafði jafnvel á tilfinningunni á tímabili eins og því miðaði ekkert. Þetta var eins og að vera staddur inni í eldfjalli og sjá hraunið vella og logatungurnar steypast yfir mann án þess að neitt sérstakt væri í aðsigi. Það var ekki eins og hraunið væri um það bil að fara að umlykja mann eða neitt slíkt. Engin spenna - bara stöðug dramatík. Að flutningi loknum endurspeglaði salurinn þennan skort á framvindu og spennu í tónlistinni. Fólk var ekki beinlínis æst í að rjúka á fætur. Það hafði ekki fengið almennilega útrás eða svölun, eins og menn væru meira uppgefnir en hrifnir og klappaði meira af virðingu og þakklæti en geðshræringu.

Það var samt ástæða til að dáðst að flutningi verksins. Kórinn fannst mér syngja sérlega virkilega vel og hann rann á mjög sannfærandi hátt saman við sprengingarnar og lætin í hljómsveitinni. Tónlistin var því mjög áhrifamikil á köflum og það voru fjölmargir staðir sem ég vildi gjarnan hlusta á aftur og gefa betri gaum. Það verður vonandi hægt fljótlega enda stendur til að taka verkið upp og gefa út á vegum BIS útgáfunnar. Kannski fattar maður verkið betur í annarri atrennu.

miðvikudagur, október 11, 2006

Fréttnæmt: Nýr bílstóll

Við keyptum nýjan og betri bílstól fyrir Signýju í gær í BabySam. Við erum mjög ánægð með þjónustuna hjá þeim þvi þeir eru með aðstöðu til að sýna hvernig maður festir bílstól í sæti (þeir eru beinlínis með sæti og belti til að prófa). Signý fékk líka að prófa stólinn og henni leið greinilega mjög vel í honum (við tókum fullt af myndum). Hún var búin að stynja svolítið yfir gamla stólnum sem var orðinn nokkuð þröngur.

Starfsfólkið kinkuði kolli yfir gamla bílstólnum sem Signý er að vaxa upp úr og voru sammála okkur í því að hann væri svolítið klúðurslega hannaður (enda keyptum við hann hjá Ólafíu og Óliver). Við höfum verið svolítið ósátt við hann enda stirðbusalegur í notkun (en samt öruggur). Þessi er hins vegar betri á allan hátt ef maður ætlar að geta stillt hann af, lengt í böndum og svoleiðis. Og svo er hann stærri (10-18 kg.) auk þess að hann snýr fram en ekki aftur eins og hinn.

Við græjuðum stólinn strax og leyfðum Signýju að "prufukeyra" hann á leiðinni heim. Fyrst var hún hálf smeyk, enda snýr hún öðruvísi og situr hærra. Hún var hins vegar fljót að venjast og var bara eins og konan í gömlu auglýsingunni frá Bílasölu Guðfinns, ef menn muna (...og frúin hlær í betri bíl...). Hún brosti alla leið heim og klappaði saman lófunum.

þriðjudagur, október 10, 2006

Upplifun: Draugabær

Um helgina fór ég í skemmtilega ferð með Birki Frey. Við stukkum á skipulagða Varnarliðsferð frá BSÍ og upp á Miðnesheiði. "Litla Ameríka" er orðin að draugabæ og nöturlegt um að litast. Ekki sála á ferli. Ferðin var þannig skipulögð að það mátti ekki stoppa og fara út. Við urðum að gera okkur að góðu að sitja í rútunni og hlusta á vandaða leiðsögn um svæðið. Það sem sat eftir í mér var hvað ótrúlega miklir fjármunir hafa farið í endurbætur á húsunum og öðrum byggingum á liðnum misserum, sem síðan eru skilin eftir auð (og verða mörg hver rifin). Það er líka fáránlegt hvað miklum verðmætum var beinlínis hent eftir að herinn fór. Það mátti ekki gefa neitt því það hefði komið "markaðnum" utan girðingar úr jafnvægi. Sama máli gegnir um húsnæðið allt sem nú er ónotað. Ekki er búið að skipuleggja nýtingu þess enn þá. Sumt verður rifið en annað fær að standa. Það þarf að huga hratt að nýtingunni þvi íbúðarhúsnæði getur gereyðilagst á einu ári standi það autt. Það þarf ekki nema saklausan leka sem enginn verður var við.

Ég setti nokkrar myndir úr þessari ferð á myndasíðuna ásamt nokkrum öðrum nýlegum úr Granaskjólinu.

Daglegt líf: Sérstakar verslanir

Nú er rúm vika liðin frá því feðraorlofið hófst. Við Vigdís höfum verið saman í fríi þessa vikuna vegna handarbrotsins. Í dag var gifsið hins vegar fjarlægt og útséð með það hvenær hún byrjar að vinna aftur. Það verður strax eftir næstu helgi.

Maður leyfir sér alls kyns munað þegar tíminn er nægur. Við njótum þess að taka á okkur krók til þess eins að versla þar sem okkur finnst best að versla. Við fundum afmælisgjöf í Nexus, sem er ævintýraleg sérverslun teiknimyndasöguunnenda. Við keyptum nettar tækifærisgjafir í versluninni Völuskrín, sem helgar sig spilum og þroskaleikföngum. Þar er algjörlega hægt að gleyma stund og stað. Við fórum í Móðurást í Kópavoginum sem er til dæmis eina verslunin á höfuðborgarsvæðinu sem hefur fyrir því að kaupa inn sérstakar "skriðbuxur" handa börnum (buxur með gúmmíi á hnjánum svo að börn renni síður þegar þau skríða). Við nýttum sömu ferð til að kíkja í Fjarðarkaup. Þar er alltaf skemmtilegt að versla. Matvörur eru í huggulegum básum, sem gerir þetta allt meira spennandi, eins og í útlöndum. Fjarðakaup flytur inn ýmsar vörur sem ekki fást annars staðar og úrvalið kemur því raunverulega á óvart. Það fæst til dæmis hjá þeim ekta Bugles (Bögglesið, gamla og góða) sem er aðeins til sem eftirlíking i öðrum matvörubúðum. Að lokum gerðum við okkur sérferð til besta framkallarans í bænum, Pixlar, sem ótvírætt afgreiðir bestu stafrænu prentunina í bænum (og getur afgreitt hlutina gegnum tölvupóst og afhent þér við mætingu). Eflaust eru fleiri skemmtilegar snattferðir í þessum dúr framundan áður en Vigdís byrjar að vinna í næstu viku.

laugardagur, október 07, 2006

Netið: Myndasíðan - dætramyndir

Síðasta sumar trassaði ég mánuðum saman að setja myndir á myndasíðuna. Síðan hef ég verið nokkuð duglegur að bæta úr því. Hins vegar tekur það nokkuð langan tíma að vinna upp margra mánaða eyðu. Það bitnar á nýlegum myndum sem birtast fyrir vikið allar nokkurra vikna gamlar. Ég hef því ákveðið að gera þetta í bland. Fyrir hvern skammt af gömlum myndum (og nú er ég kominn í ágústmánuð) set ég alltaf inn nokkrar nýjar myndir. Þannig lokast hringurinn úr tveimur áttum samtímis.

Nýjustu myndirnar eru frá eftirminnilegu kvöldi í Kópavoginum þar sem við Kristján & Stella, Einar & Sólveig og við Vigdís ákváðum að hittast og leyfa dætrum okkar að kynnast svolítið. Þær eru allar í kringum ársgamlar (fyrir utan eldri dóttur Einars og Sólveigar) en við hittumst ekki fyrr en nú þar sem Kristján og Stella eru búsett erlendis. Þetta var heilmikið fjör.

föstudagur, október 06, 2006

Pæling: Eins konar atvinnuskipti

Lítilsháttar kreppa blasir við á heimilinu næsta mánuðinn. Ég fékk aðeins um 10 prósent af laununum útborgað. Ástæðan var sú að ég er kominn í feðraorlof, frá og með mánudeginum síðasta, og þar sem ég er á fyrirframgreiddum launum fæ ég lítið sem ekkert núna frá mínum venjulega launagreiðanda. Engin greiðsla frá Tryggingastofnun skilaði sér hins vegar (80 prósent af venjulegum daglaunum eiga að berast frá þeirri stofnun). Ég hélt að sú greiðsla myndi koma sjálfkrafa því ég tók tvær vikur út í byrjun ársins og tók fram á þeirri umsókn hvernig ég myndi haga skiptingu orlofsins síðar meir. En það þarf víst að ýta eitthvað við þeim. Þetta eru því nánast launalaus mánaðamót. Það er eins hjá Vigdísi, en með öðrum hætti. Barnsburðarleyfið hennar kláraðist þrettánda síðastliðinn (þá voru liðnir 9 mánuðir frá fæðingu Signýjar) og vegna handarbrotsins var hún í veikindaleyfi út mánuðinn (og hefði átt að fá það borgað frá launagreiðanda sínum). Eitthvað klúðraðist hins vegar á launaskrifstofunni hjá henni þannig að hún fékk ekki þann hálfa mánuð sem hún átti von á (en fékk hins vegar hálfa greiðslu frá Tryggingastofnun). Þetta þýðir bara að við þurfum að vera sparsöm þennan mánuðinn vitandi af tveimur feitum tékkum síðar meir þegar þetta verður leiðrétt.

Reyndar er þessi launahagræðing sem feðraorlofið felur í sér óþarflega fyrirhafnarmikil og einmitt líkleg til að valda svona misskilningi. Maður hefði haldið í fljótu bragði að þetta gengi því sem næst sjálfkrafa fyrir sig. Maður ætti ekki að þurfa að gera meira en að rétta upp hönd og segjast ætla í feðraorlof á tilteknum tíma og yfirmaður manns gengur frá pappírum og tryggir að maður fái sín 80 prósent þann mánuðinn í stað fullra launa. Slík umsýsla fer best í eins manns hendi. En svo er nú aldeilis ekki. Launagreiðandinn er ekki sá sami og því þarf að meðhöndla öll gögn eins og um atvinnuskipti sé að ræða (og það er á ábyrgð þess sem "skiptir um" vinnu). Tryggingastofnun þarf að fá skattkortið í hendur frá Reykjavíkurborg auk þess sem ég þarf að fylla út nákvæmt eyðublað og skila inn til þeirra. Þetta þurfti ég að gera í bæði skiptin, þegar ég tók út fyrstu tvær vikurnar í janúar og nú þegar ég klára restina af mánuðunum þremur. Það má því segja að ég sé á launum hjá Tryggingastofnun án þess að mæta nokkurs staðar í vinnu, þ.e.a.s. "heimavinnandi".

mánudagur, október 02, 2006

Fréttnæmt: Tvenn tímamót

Nú um helgina áttu sér stað tvenn tímamót á heimilinu. Fyrst ber að nefna afmæli okkar Vigdísar hér i hverfinu: Granaskjólstíminn okkar telur nú þrjú ár, frá og með í gær. Við fluttum inn fyrsta október 2003. Við héldum ekkert upp á það með neitt formlegum hætti en buðum samt foreldrum mínum í mat og höfðum það notalegt. Enn meiri breyting tengist hins vegar hinum tímamótunum því barneignarleyfi Vigdísar lauk nú um helgina og á sama tíma hófust þeir tveir og hálfur mánuður sem ég á í vændum í feðraorlofi heima. Vigdís fer reyndar ekki að vinna alveg strax því hún er enn með gifsið á sért. Þangað til í næstu viku er hún í leyfi á þeim forsendum.

fimmtudagur, september 28, 2006

Pæling: Dagur myrkursins

Í kvöld var slökkt á götuljósum um allan bæ. Það var magnað hvernig bærinn breytti um svip. Í götunni okkar stóðu nágrannarnir sig almennt mjög vel og slökktu á nánast hverri týru. Bjarminn að handan hvarf einnig með almennri myrkvun í borginni. Skyndilega gerðist það að borgarlandslagið, götumyndin og allt það sem maður hefur alment fyrir sjónum sér flutti sig um set úr forgrunni í bakrunn. Himnahulan (því ekki var stjörnubjart) varð mun áþreifanlegri og nálægari en maður er vanur svona á milli húsa. Það glitti í nokkrar stjörnur, svona eins og til að gefa fyrirheit um annað stefnumót seinna.

Það mætti nú fínpússa útfærsluna á þessu eitthvað fyrir næsta skipti því ég leyfi mér að trúa því að þetta verði raunverulegur valkostur í framtíðinni þegar stórviðburðir eiga sér stað á himninum. Sjoppur og bensínstöðvar geta dregið úr eða slökkt á neónbirtu sinni og yfirgefnir vinnustaðir þurfa að slökkva útiljós sín með fyrirvara. Strætó má líka alveg sleppa því að aka um upplýstur eins og bálköstur. Reyndar var það svo að ég treysti mér ekki til að ganga yfir götu í þessu myrkri sem myndaðist. Ég treysti einhvern veginn ekki koldimmum götunum í þessu framandi umhverfi. Leið eins og í útlöndum - þar sem ljósunum er ekki flíkað eins ótæpilega og hér heima.

En það var ekki bara myrkur milli tíu og hálf ellefu. Dagurinn var eitt myrkur því í dag fæddist drullupollur fyrir austan. Dýrasti drullupollur í veröldinni. Hann kostaði þjóðina 300 milljarða (sem eru 300 þúsund milljónir). Ef við reiknum þetta út sem ársverk (hvert metið i kringum þrjár milljónir) þá er um að ræða hundrað þúsund ársverk venjulegs verkamanns. Þetta eru þúsund manns í eina öld. Þau eru frekar dýr störfin þarna fyrir austan (svo ekki sé minnst á fórnarkostnaðinn).

Þrátt fyrir að þetta grúfði yfir manni tókst mér að upplifa einhvers konar þjóðarstolt um daginn. Þessu fann ég fyrir í fyrsta skipti í mörg ár fyrir tveimur dögum síðan þegar Ómar og hin þúsundin sameinuðust með litlum sem engum fyrirvara og flæddu út á göturnar eins og stórfljót niður Laugaveginn (smellið á "allur fjöldinn á laugaveginum" og horfið til enda). Það er þá eitthvað meira en tóm græðgi sem knýr fólkið sem hérna býr. Ég hef nú endurheimt þá trú, en geri mér jafnframt grein fyrir því að það eru "hinir" sem hafa völdin.

Upplifun: Skuggaverur i garðinum

Í nótt þurftum við að hringja í 112. Það var klukkan sex að morgni að Vigdís varð vör við umgang í garðinum. Þegar ég komst sjálfur til rænu heyrði ég einnig eitthvert grunsamlegt þrusk og gægðist út milli rimla á gardínunni. Þar var einhver laumulegur náungi á ferðinni, með höfuðið falið í hettupeysu. Hann ráfaði ómarkvisst en leitandi eftir húsinu endilöngu. Ég hentist fram í eldhús til að tékka á dótinu okkar utandyra (tvö hjól og barnavagn ásamt bílnum) og sá ekkert athugavert þar. Fór aftur inn í herbergi og gægðist út. Þeir voru þá tveir að sniglast þar fyrir utan og voru eitthvað að lauma sér yfir í næsta garð. Þá hringdi ég í 112 og fékk samband við lögregluna. Eftir stutta lýsingu sögðust þeir ætla að senda bíl á svæðið. Við fórum hins vegar að sofa, fremur órótt og grunnt.

þriðjudagur, september 19, 2006

Fréttnæmt: Meðganga framundan

Líklega eru ekki allir lesendur bloggsíðunnar meðvitaðir um að heimilisbragurinn í Granaskjólinu er um það bil að taka stakkaskiptum á ný. Nýtt meðgöngutímabil er framundan og Signý verður brátt stóra systir. Þetta vissum við fyrir um það bil mánuði síðan, nánar tiltekið daginn áður en ég fór austur að Kárahnjúkum.

Við fórum í ómskoðun í gær og fengum úr þvi skorið að líklega séu ellefu vikur og tveir dagar að baki (dagurinn í dag þar með talinn). Framreiknað mun fæðing að öllum líkindum eiga sér stað í kringum sjöunda apríl. Við þekkjum marga sem eiga afmæli í þeim mánuði svo þetta verður spennandi. Samkvæmt stjörnuspekinni eru "hrútabörn" víst mjög ólík "bogmannsbörnum"; til dæmis eru þau bæði skapmeiri og kröfuharðari. Þegar vinskapur þeirra er skoðaður eiga þau hins vegar ágætlega skap saman.

Við Vigdís erum að vonum spennt en þetta er samt öðruvísi en áður. Maður áttar sig betur og er ekki nærri eins óviss um ferlið framundan. Svo er auðvitað allt til alls á heimilinu, sem er bara vel í stakk búið án frekari undirbúnings. Það munar gríðarlega miklu. Í leiðinni er maður er ekki eins mikill "brautryðjandi" og í fyrra skiptið. Fyrir vikið er meðgangan ekki eins leyndardómsfull. Að sjalfsögðu sjáum við fram á ýmsa hagkvæmni eins og það að geta strax nýtt aftur ungbarnasettið eins og það leggur sig sem við þurftum að redda á sínum tíma með ærinni fyrirhöfn. Það þarf þá ekki að hírast í geymslum til lengri tíma. Svo á maður von á því að félagsskapurin sem systkinin (eða systurnar) fá af hvoru öðru (hvorri annarri) verði mikils virði.

sunnudagur, september 17, 2006

Tónleikar: Nick Cave í Höllinni

Við Vigdís fórum á magnaða tónleika með Nick Cave í gær. Hann spilaði við þriggja manna undirleik (fiðla, rafgítar og trommur) en lék sjálfur á píanó og gítar (mest píanó). Þetta voru nokkuð óvenjulegir tónleikar. Maður bjóst við ballöðum í öndvegi en það var öðru nær. Cave hamraði píanóið eins og hann ætti lífið að leysa og fiðlan sargaði og ískraði. Trommuleikarinn fór hamförum á settinu en gítarleikarinn lét minna fara fyrir sér. Jafnvel mýkstu ballöður meistarans tóku hamskiptum og urðu að einhvers konar brjálæði, að minnsta kosti á vel völdum hápunktum. Þetta var áhrifamikið til að byrja með en svo fór maður að kikna undan álaginu og varð lúinn undir það síðasta. Þá dró Cave upp óvænt spil og söng sitt alrafmagnaðasta lag í undurfagurri ballöðuútgáfu sem ég hafði ekki heyrt fyrr. "The Mercy Seat" fjallar bókstaflega um rafmagn og hugaróra dauðadæmds manns á leið í rafmagnsstólinn. Þar hefði fiðlan fyrirsjáanlega komið sér vel en engu að síður var flutningurinn án hennar óaðfinnanlegur og kom manni gjörsamlega í opna skjöldu.

Tónleikarnir voru vægast sagt rosalegir en engu að síður var eitt og annað sem kom í veg fyrir að maður nyti þeirra til fullnustu. Í fyrsta lagi vorum við nokkuð langt í burtu í stúkunni og mér fannst hálfpartinn eins og ég væri að rýna inn í fiskabúr. Í öðru lagi var umgjörðin ekki í takt við tónlistina. Steingeld íþróttahöllin og sitjandi áhorfendur pössuðu engan veginn við hamhleypurnar uppi á sviði. Í þriðja lagi var hljómburðurinn of skerandi (Of mikill diskant, eins og maður kallaði það í gamla daga). Ég saknaði mjúka og hlýja hljómsins af plötunum. Að lokum fannst mér útfærslur hljómsveitarinnar skorta fjölbreytni. Stöðugt ögrandi flutningur, barningur og sarg, virkaði lýjandi til lengdar. Fyrir vikið reyndust hápunktar tónleikanna vera þau fáu lög sem tekin voru í lágstemmdri útgáfu, afdrepið á milli stórhríðanna.

Sjónrænt var upplifunin sterk og efttirminnileg. Nick Cave var virkilega flottur á sviði og holningin minnti mann helst á vampíru. Handahreyfingarnar þær sömu og hjá töframanni sem galdrar aftur saman sundursagaðan sjálfboðaliða. Fiðluleikarinn virkaði hins vegar eins og tvífari Paganinis (eða eins konar fiðluútgáfa af Ian Anderson flautuleikara hjá Jethro Tull). Trommarinn var einnig eftirminnilegur og tókst að hrista sundur trommusettið í einu brjálæðinu og þurfti aðstoð rótara í miðju lagi. Svo er Cave mjög svalur karakter og ávarpaði áhorfendur yfirleitt á milli laga. Það finnst mér alltaf kostur. Oftar en ekki var hann hnyttinn og jafnvel smekklega á mörkum velsæmis.

Hápunktar: The Mercy Seat, eins og áður sagði, en einnig "God is in the House" þar sem heyra mátti saumnál detta í hvíslköflunum. "Stagger Lee" var einnig gríðarlega magnaður og ég var hissa á sjálfum mér yfir að þekkja lagið ekki betur. Einnig var hreint ógleymanlegt hvernig Nick Cave fékk salinn til að taka hárnákvæmt undir í lagi sem ég þekkti ekki, en viðlagið er: "Oh, mama!" Hann galdraði fram drungalegt lag sem leitaði alltaf í "Oh, mama" og þá tók salurinn undir andartaki síðar og kastararnir lýstu Höllina upp á meðan. Þetta var hrollkennd samkoma með sama yfirbragð og trúarsamkomur í suðurríkjum Bandaríkjanna í skjóli myrkurs. Minnti mig á Ku Klux Klan.

laugardagur, september 16, 2006

Fréttnæmt: Frárennsli rofið

Áfram heldur átakasagan því á fimmtudaginn steig ég í poll þegar ég kom heim eftir vinnu. Rigningin hafði verið gegndarlaus og ég hélt að það hefði bara flætt inn í fordyrið. Lyktin var hins vegar mjög vond af þessu vatni. Rotnunarlykt. Ekki sterk, en vond. Mér varð þá litið á niðurfallið í anddyrinu. Gæti vatnið hafa komið þarna upp? Þessi spurning hvatti mig til að hringja í leigusalann, sem bæði þekkir húsið vel og er vel græjum búinn. Hann kom seinna um kvöldið. Þá var ég nattúrulega búinn að hreinsa allt upp og svoleiðis. Hann kíkti hins vegar nánar á niðurföllin, bæði fyrir utan og innan. Eftir mjög langt streð og tilraunir komumst við að því að það var einhver hrikaleg stífla í innra niðurfallinu. Við prófuðum losunina í niðurföllunum með vatnsslöngu, og vatnið ætlaði ekki þar niður. Nú voru góð ráð dýr, bókstaflega. Á meðan ég var að vinna daginn eftir skilst mér að leigusalinn hafi komið aftur með sérfræðing sem hafði sérstakan hátæknibúnað með sér, myndavél sem fer þarna niður og sitthvað fleira. Í ljós kom að rótarskot hafði náð að brjóta sér leið gegnum rörið og hefði þannig stíflað frárennslið. Þeir náðu í sameiningu að laga þetta til bráðabirgða en stefna á meiriháttarviðgerð næsta vor.

Það sem var kyndugt við þessa niðurstöðu var að ég var einmitt að fræða krakkana í skólanum um rætur á meðan þeir voru að bisa við niðurfallið. Rætur trjáa sinna þrenns konar hlutverki: Þær halda trénu föstu (og í jafnvægi), þær afla næringarefna og geyma næringarforða. Ekkert var minnst á spellvirki í þeirri umfjöllun.

fimmtudagur, september 14, 2006

Netið: Myndasíðan stækkar

Undanfarna daga hef ég bætt ráð mitt verulega og dælt myndum inn á myndasíðuna mína hjá Flickr. Ég tók upp þráðinn þar sem frá var horfið snemma í vor og stefni að því að birta helstu myndir sumarsins áður en septembermánuður er úti. Ég hef nú þegar náð inn á mitt sumar. Myndirnar sem komnar eru spanna meðal annars utanlandsferð okkar Vigdísar í júníbyrjun og sumarbústaðaferð í byrjun júlí. Þar sem ég er kominn á góða ferð með þetta má reikna með myndum reglulega næstu dagana og vikurnar. Allt er þetta í tímaröð. Segja má að sumarið endi með myndaseríu úr Kárahnjúkum, sem ég á von á að birta eftir rúma viku.

þriðjudagur, september 12, 2006

Fréttnæmt: Uppnám á heimilinu

Signý fékk einhverja pest í gær og er nú óðum að ná sér. Hún vaknaði í fyrrinótt með sárum gráti og var mjög heit. Hún var með upp undir fjörtíu stiga hita. Vigdís var líka slöpp og sá fram á að eiga erfitt með að halda mikið á Signýju, enda með hægri höndina í gifsi. Ég ákvað því að vera heima í gær.

Reyndar var allt í hers höndum því um leið og ég steig inn í eldhúsið í morgunskímunni, til að ná í pela fyrir Signýju, tók ég eftir þremur geitungum sveimandi um. Það hafði gleymst að loka eldhúsglugganum sem skildi eftir um fimm sentímetra glufu fyrir utanaðkomandi smágesti. Ljóstýra í eldhúsinu (sem einnig hefði átt að vera slökkt) laðaði þessa óboðnu gesti að. Þarna stóð ég fáklæddur og fannst hálf ónotalegt að hefja strembinn dag með þessum hætti. Stuttu síðar veiddi ég flugurnar í glas og hleypti þeim út, en fann bara tvær!

Morgunninn var erilsamur eins og við mátti búast og Signý var óskaplega lítil og umkomulaus. Henni fannst lang best að halla sér upp að okkur og finna öryggistilfinningu í fanginu. Við hringdum í hina og þessa og fengum fullt af góðum ráðum. Þetta var svolítið mál fyrir okkur því hún Signý hefur aldrei veikst fram að þessu. Núna fór maður hins vegar í gegnum þetta klassíska ferli sem flestir foreldrar kvíða: Hvað gerir maður þegar barnið veikist? Auðvitað héldum við yfirveguninn því það er fyrst og fremst það sem Signý þurfti að geta stólað á. Svo fékk hún hitastillandi stíla sem bættu líðanina hjá henni talsvert og gerðu henni kleift að sofa vært, um stund.

Á hádegi fékk ég óvæntan gest því Bjartur var á ferðinni í bænum og kíkti í kaffi. Hann gaf okkur ýmis góð ráð enda hafði Friðrik Valur hans og Jóhönnu veikst mun meira en Signý á sínum tíma. Er við spjölluðum í afslöppuðum gír í eldhúsinu, og Vigdís í dyragættinni, urðum við vitni að óvæntri árás. Vigdís tók skyndilega kipp í miðri setningu. Hún var með geitung á enninu! Áður en ég náði að fjarlægja hann rak Vigdís upp skerandi vein og sló hann frá sér. Hann hafði stungið hana í ennið, nokkrum sentimetrum fyrir ofan hægra augað. Eins og lög gera ráð fyrir þá var þessum geitungi snarlega varpað á dyr, eins og hinum tveimur. Sársaukanum lýsti Vigdís sem mjög miklum og í raun var hann talsvert meiri en hún hafði búist við. Hún bólgnaði örlítið og sveið í blettinn en er í dag einkennalaus.

Hvað Signýju áhrærir þá er hún líka einkennalaus í dag. Hún virðist ætla að stíga upp úr veikindum sínum fyrr en maður þorði að vona. Vonandi er það merki um að hún sé með öflugt ónæmiskerfi sem á eftir að hjálpa henni síðar meir.

sunnudagur, september 10, 2006

Þroskaferli: Göngugrind, skrið og staða

Nú er liðinn um mánuður síðan ég sagði frá síðustu framfaraskrefum Signýjar. Þá var hún nýbyrjuð að sitja sjálf. Það er í raun ótrúlegt að það skuli vera svona stutt síðan því nú situr hún eins og hún hafi aldrei gert annað. Hún er alveg hætt að missa jafnvægispunktinn aftur fyrir sig og skella á hnakkann. Jafnvel í sundi getur hún setið á dýnu (sem er álíka óstöðug og vatnsdýna - enda sama fyrirbærið í raun). Hún unir sér hvergi betur en þegar hún dundar sér í sitjandi stöðu.

Signý er að sjálfsögðu farin að skríða. Reyndar er það ekki vandræðalaust. Gólfið er sleipt og henni tekst ekki almennilega að lyfta sér upp á hnén. Í staðinn skríður hún með höndunum og mjakar sér þannig eftir gólfinu. Maður sér oftast ekki hvernig hún fer að þessu, því hún skríður ekki sérlega stefnufast. Hún virðist nota borðfætur og gólf til að mjaka sér áfram og þegar henni sýnist sem svo snýr hún sér í hálfhring á maganum og snýr sér að einhverju öðru (í bókstaflegri merkingu).

Nú er svo komið að hún vill fara að ganga. Í hvert sinn sem ég tek hana í fangið toga ég hana upp í standandi stöðu áður en ég lyfti henni. Stundum leyfi ég henni að standa þannig með stuðningi í góðan tíma og leyfi henni að dilla sér við tónlistina sem við hlustum á saman. Yfirleitt leyfi ég henni að halda um þumalinn á mér á báðum höndum og teygi vel úr henni. Henni finnst þetta mikil upplifun. Það er eins og áður, þegar hún var að læra að sitja, að styrkurinn virðist vera til staðar. Bara spurning um jafnvægi.

Í mánuðinum var Signýju gefin göngugrind. Þetta allt hjálpar. Fyrst í stað tókst Signýju bara að ganga aftur á bak. Núna getur hún hins vegar stýrt göngunni að vild og er farin að halda geysilega mikið upp á græjuna. Grindin tekur náttúrulega sitt pláss en getur sem betur fer lagst saman og legið inni í geymslu þangað til hún er tekin fram, ca. tvisvar á dag.

þriðjudagur, september 05, 2006

Pæling: Fæðingatíðni í vinahópum

Við Vigdís og Signý fórum í ansi eftirminnilegt barnaafmæli um helgina - og reyndar annað helgina á undan. Fyrstu tvö barnaafmælin hennar Signýjar, og bæði voru það eins árs afmæli. Fyrst var það Siggi bróðir og Svetlana sem eignuðust Daníel í fyrra. Stuttu síðar eignuðust Bjartur og Jóhanna hann Friðrik Val. Í fyrra afmælinu var saman komið fyrst og fremst fjölskyldufólk en í seinna afmælinu var vinafólk á svipuðu reki saman komið.

Bæði afmælin voru ljómandi skemmtileg en það sem var svo sérstaklega eftirminnilegt við seinna afmælið var að allir sem voru mættir áttu börn á svipuðum aldri (þar voru saman komin fjögur ungbörn, eins árs og aðeins yngri). Það kom upp úr krafsinu, þegar við byrjuðum að spjalla, að mun stærri kunningjahópur gestanna hafði líka eignast barn á sama tíma (yfir tíu pör), en enginn síðan um þá. Nær allir voru þar að eignast sitt fyrsta barn. Maður veltir ósjálfrátt fyrir sér hvað það þetta er undarlegt. Skrítið hvernig vinir og kunningjar eiga það til að fylgjast að í lífsrytma. Ég minntist ekkert á fleiri fæðingar frá sama tíma sem viðkomandi vissi ekkert um. Hef heldur ekki frétt af neinni fæðingu síðan um áramót.

Upplifun: Bónustónlist

Ég skrapp út í Bónus í gær, samkvæmt venju, en ákvað í þetta skiptið að enangra mig frá erlinum og stressinu í loftinu. Ég gerðist álkulegur og setti upp nokkuð myndarleg heyrnartól, hljóðeinangrandi, og hafði iPodinn í vasanum. Þetta gerði gjörsamlega gæfumuninn. Ég var þarna á eigin forsendum og leið vel allan tímann. Öðru hvoru þurfti ég að taka "ofan" og heyrði þá undantekningarlaust lýjandi síbylju í loftinu, ísleskt sveitaballapopp eða Eurovision slagara. Mér leið eins og tjaldbúa í rigningu, horfði í kringum mig og sá að hér gat ég ekki þrifist lengi, setti svo hlífina yfir mig aftur.

Eflaust tekur þetta svolítið lengri tíma að ráfa svona um með tónlist á eyrunum. Maður er rólegri og lætur ekki umhverfið stressa sig. Virkar vel ef maður þarf ekki að hugsa of mikið og er með allt tilbúið á miða, í réttri röð. Það sem kom mér hins vegar á óvart var að litríkar vörurnar í hillunum og mannlífið í versluninni breyttist úr lýjandi áreiti í súrrealískt og skemmtilegt myndband. Mér fannst ég taka eftir ýmsum blæbrigðum í tónlistinni sem nutu sín sérstaklega í þessu nýja umhverfi.

laugardagur, september 02, 2006

Pæling: Klasaspengjur

Ég heyrði sjokkerandi umfjöllun í gær í útvarpinu um framferði Ísraelsmanna í stríðinu við Líbanon. Þeir gerðust sekir um að varpa svokölluðum "klasasprengjum" yfir borgir og bæi í suðurhluta Líbanon. Þessar sprengjur eru þess eðlis að þær dreifa minni sprengjum á stærð við handsprengjur yfir svæði á stærð við knattspyrnuvöll. Flestar springa þær þegar allur pakkinn lendir og dreifist, en ekki allar. Þær sem ekki hafa sprungið enn eru líklegar til að springa við "næstu" snertingu, sem oftar en ekki eru hendurnar á barni sem forvitnast um "leikfangið". Sprengjur af þessu tagi eru fordæmdar í íbúðabyggð og flokkast undir sams konar stríðsglæp og að dreifa jarðsprengjum.

Það sem kom helst við kaunin á mér er sú tölfræðilega staðreynd að Ísraelsher dreifði 90% af klasasprengjum sínum síðustu þrjá daga stríðsins þegar útséð var með að tími stríðsins var brátt á enda. Eins og ég hef áður talað um (í "Ómarktækri viljayfirlýsingu") þá fengu Ísraelar leyfi til að halda stríðsrekstri áfram í þrjá daga eftir að samið hafði verið um vopnahlé. Þetta var mjög grunsamlegt. Guðmundur Steingríms, pistlahöfundur með meiru, orðaði það hnyttilega í viðtali um daginn að þarna væri maður líklega að sjá hvernig stríð framtíðarinnar verði háð þar sem eins konar veiðileyfi ganga kaupum og sölum. Ein þjóð fær leyfi í visst langan tíma hjá annarri þjóð til að ráðast á þá þriðju. Þessi þriggja daga "vopnahlésfrestur" sem Ísraelar náðu að kría út var sem sagt vel nýttur, og það er að koma í ljós núna hvernig þeir nýttu þann tíma. Klasasprengjur eru þess eðlis að þær skaða svæðið sem þær lenda á löngu eftir að þær eru lentar. Talað er um að það taki eitt og hálft ár fyrir alþjóðlega sprengjusérfræðinga að kemba svæðið og hreinsa burt litlu "handsprengjurnar". Þangað til eiga hundruðir þúsundar Líbana ekki heimgengt - fyrir utan þá sem eiga ekki lengur hús til að venda í.

Það fylgdi sögunni að þessar klasasprengjur eru framleiddar í Bandaríkjunum (hvar annar staðar?).

föstudagur, september 01, 2006

Upplifun: Heimaprísund

Vigdís lenti í sérkennilegri prísund í gær. Ekki nóg með að hún sé hálf handlama eftir beinbrotið heldur bættist við að útidyrahurðin stóð á sér. Það var bara ekki með nokkru móti hægt að opna hana. Húnninn hafði rofnað úr tengslum við teininn sem þrýstir stimplinum inn í hurðarjárnið. Húnninn danglaði bara laflaus. Til að fá gesti í heimsókn, eða komast út úr húsi yfir höfuð, þurfti hún að opna sér leið gegnum þvottahúsið - sem er orðið frekar troðið af dóti (bölum, fataslá og fleiru).

Ég reyndi eitthvað að bisa við hurðina eftir að ég kom heim en það var til lítils. Um kvöldið kom leigusalinn og hafði hann úr mun fleiri verkfærum að moða en ég. Það tók samt drjúgan tíma að þvinga teininn úr hurðarjárninu en það tókst um síðir með hjálp örmjórra smjörhnífa og annarra þvingandi ráða. Eftir hálftíma basl spratt hurðin upp og húnninn fjarlægður með það sama. Eftir situr smekklásinn sem fyrir var.

Sem betur fer var það smekklásinn sem við notum að staðaldri til að læsa hurðinni. Húnninn var eiginlega bara til hægðarauka, þar til hann varð til trafala í gær.

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Upplifun: Ömurleg biðstofa

Biðin á slysavarðsstofunni situr eftir í manni. Hún var svo viðbjóðslega löng og leiðinleg! Við komum um tvöleytið. Ég skutlaði Vigdísi og ákvað að kíkja upp í vinnu á meðan (hafði bara skotist frá í hádeginu). Kom aftur um þrjúleytið. Þá var hún enn að bíða. Við biðum saman í um hálftíma og þá datt henni það snjallræði í hug að ég nýtti tímann betur og keypti inn á meðan í næstu Bónusverslun. Sem ég gerði. Kom aftur um fjögurleytið og þá var hún þar enn að bíða. Ég settist og beið með henni. Dottaði. Las gömul tímarit. Dottaði aftur. Sat eitthvað óþægilega og gekk um. Engar veitingar voru í boði neins staðar nema ömurlegir og rándýrir nammisjálfsalar. Settist aftur. Tímaritin voru úr sér gengin og helmingurinn af þeim voru gatslitin dönsk saumablöð í bland við eitthvert málgagn fatlaðra, sama tölublaðið í tíu eintökum. Fann hvernig mig verkjaði undan því að sitja svona lengi á grjótharðan píningarbekkinn (köld málmplata með baki). Lét mig þó hafa það. Klukkan var orðin tæplega sex þegar kom að Vigdísi. Loksins! Við vorum orðin sljó af þreytu, leiðindum, hreyfingarleysi, súrefnisleysi og næringarskorti. Ég beið hins vegar áfram á meðan höndin fékk viðeigandi meðferð. Á slaginu hálf sjö kom hún út með myndarlegar gifsumbúðir og við forðuðum okkur í snarhasti, hringdum heim (þar sem Sirrý "amma" var að passa) og keyptum okkur eitthvað að borða í skyndingu.

Heilbrigðiskerfið er ömurlegt. Ég hef heyrt um það hjá öðrum sem nýlega hafa þurft að bíða þarna að biðin sé að lágmarki þrír tímar. Þetta er regla frekar en undantekning. Ef maður ímyndar sér tímann sem fer í súginn hjá öllum þeim sem bíða þá hlýtur að reiknast út sem þjóðþrifaverk að víkka þennan flöskuháls örlítið og tvöfalda deildina. Það var nú ekki eins og þyrfti að undirbúa skurðstofu eða eitthvað þaðan af flóknara. Að minnsta kosti væri hægt að gera biðstofun pínulítið þægilegri og bjóða upp á kaffi, djús eða léttar veitingar í anda Blóðbankans og lesefni við hæfi. Ef ég lendi í því aftur að þurfa að bíða tímunum saman á þessari biðstofu þá tek ég með mér svefnpoka og dýnu. Ég segi bara: Gangi þeim vel að vísa mér út. Fínt að kalla til eins og eina fréttastofu og mata þá að tímabæru umfjöllunarefni.

Fréttnæmt: Lítið beinbrot

Þetta er nú meira ástandið! Vigdís fór upp á slysó í gær og fékk gifs utan um hægri upphandlegginn. Hún datt nefnilega um daginn og bar fyrir sig höndina með þeim afleiðingum að hana verkjaði dögum saman. Samt gat hún alveg hreyft höndina og bólga var óveruleg, þannig að við höfðum engar áhyggjur af þessu fyrst í stað. En þetta batnaði ekki með tímanum svo við kíktum til heimilislæknisins, reyndar í öðrum erindagjörðum, og bárum í framhjáhlaupi upp þessi eymsli. Hann sagði þá, eftir að hafa skoðað málið vandlega, að líklega væri lítið bein undir þumlinum, svokallað bátsbein, brotið eða brákað. Það kallar á gifs í nokkrar vikur, allt að átta vikum.

Nú er staðan því sú að ég þarf að gæta þess að hagræða ýmsu á heimilinu áður en ég fer að vinna til að Vigdís geti sinnt Signýju án þess að þurfa að beita veiku höndinni.

föstudagur, ágúst 25, 2006

Upplifun: Ferðalag austur að Kárahnjúkum

Ég fór í mjög eftirminnilegt ferðalag austur á Kárahnjúkasvæðið um síðustu helgi. Ég fór þangað akandi ásamt Jóni Má og fórum við af stað um kvöldmatarleytið á fimmtudaginn. Við gistum í góðu yfirlæti hjá tengdaforeldrum hans á leiðinni, nokkra kílómetra suður af Kirkjubæjarklaustri. Allt um kring voru gríðarlega fallegar sveitir, endalausar breiður af gervigígum, sem vert er að kanna síðar.

--------

Á öðrum degi ókum við sem leið lá austur á Egilsstaði og vorum komnir þangað um fjögurleytið, með tæknilegu súpustoppi í hádeginu á Höfn í Hornafirði. Á leiðinni heilluðu Lónsöræfin litrík og verða virkilega hafðar á bak við eyrað fyrir næstu óbyggðaferð. Fjallvegurinn um Öxi, sem styttir leiðina að Egilsstöðum um rúma 60 kílómetra, var einnig mjög spennandi yfirferðar. Því má bæta við að heiðríkja var alla leiðina, og reyndar alla helgina, og tóku Egilsstaðir því við okkur í sannkallaðri sunnudagsstemningu, þar sem menn sleikju rjómaís hver í kapp við annan. Helsta táknið um uppsveifuna fyrir austan, sem við urðum varir við, var Egilsstaðaútgáfa af Hamborgarabúllu Tómasar, sem jafnframt virtist vera eins konar pöbb. Að öðru leyti var ég hissa á því hvað bærinn var lítill og ræfilslegur, þ.e.a.s. stuttur bæjarmarkanna á milli. Við ókum í gegn á innan við mínútu og þurftum að keyra til baka til að ná að drepa niður fæti í bænum.

Um kvöldmatarleytið vorum við komnir upp að virkjun. Þangað er malbikað alla leið. Þetta er bara eins og að keyra yfir Hellisheiðina, leið sem áður var ófær flestum bílum. Ég man eftir að hafa skrölt þetta þegar við Vigís fórum í niðdimmri þoku á leið heim frá Færeyjum, fyrir um þremur árum. Núna var allt opið, vegurinn breiður og veðrið eins og best verður á kosið. Eina markmiðið okkar Jóns þennan daginn var að koma okkur fyrir. Það var hins vegar eins og gestaþraut. Skiltin eru að sumu leyti misvísandi og villandi. Um tíma vorum við á leiðinni í átt að Möðrudal, en áttuðum okkur áður en út í óefni var komið, fundum þá næsta afleggjara í átt til Laugavalladals. Það reyndist fjallabaksleið mikil og torfær. Leiðin var svo undin þá 12 kílómetra sem við ókum að okkur fannst við hafa farið eina 30-40 kílómetra, akandi í rúman klukkutíma. Hrikalegt stórgrýti út um allt og hæðir upp og niður þannig að vart var farandi nema fetið, á fjórhjóladrifnum jeppa. Aftur héldum við að við værum á leið út í einhverjar ógöngur og þurftum að gaumgæfa kortið reglulega til að trúa því að værum enn staddir á svæðinu. Síðan kom myndarleg beygja yfir hæð og við blasti Laugavalladalur. Græn tún, kamar og heitur lækur sem bunar niður þriggja metra fall og myndar prýðilega sturtu fyrir lúna ferðalanga. Draumatjalstæði. Þarna var gott að dvelja yfir nótt, enda ákváðum við að hafa þarna bækistöð fyrir næstu nótt líka. Það sem var ekki síður mikilvægt var að handan við dalinn gat að líta greiðfæran malarveg upp á kambinn, vegur sem var ekki á kortinu, og tengdi okkur á tuttugu mínútum við stíflustæðið hinum megin og náttúruna þar fyrir handan.

--------

Á þriðja degi vaknaði maður lemstraður, að vanda, eftir mishæðóttan svefn, en heit lækjarbunan lagaði "morgunsárið" snarlega, enda fellur hún með sannkölluðum nuddkrafti. Fyrsta verkefni dagsins var að keyra suður með Jöklu og virða fyrir okkur Töfrafoss. Sá slóði sem við fylgdum var eiginlega ekkert skárri en fjallabaksleiðin að tjaldstæðinu, en í þetta skiptið vorum við orðnir öllu vanir. Fossinn var fyrirhafnarinnar virði, virðulegur og breiður. Þetta er gruggugur jökulárfoss í anda Dettifoss, bara aðeins nettari og snyrtilegri. Allt umhverfið var vel gróið og lækjarsprænur með rauðleitum útfellingum seytluðu úr gilbarminum hér og þar. Við lögðum bílnum á stæðinu við fossinn og gengum niður eftir gilinu (eða gljúfrinu öllu heldur) og sáum ýmsar gerðir af flúðum og skorningum. Kringilsáin, eins og hún heitir, er gjörsamlega óyfirstíganleg og rennur nokkru neðar saman við Jöklu, sem er enn stærri og meiri um sig. Saman renna þær í átt að Kárahnjúkum þar sem rennsli þeirra verður hamið nú í vetur. Þar sem árnar mætast er ævintýralegur kláfur sem hægt er að nota til að ferja sig yfir á landskikann á milli ánna, umræddan Kringilsárrana. Raninn er burðarsvæði hreindýra og einnig helsta varplendi heiðagæsa. Grónustu svæði hans munu fara á kaf þegar stíflan kemst í gagnið og því óvíst hvort hann muni yfir höfuð nýtast lengur sem afdrep þessara táknrænu útvarða íslensks dýralífs norðan Vatnajökuls. Töfrafoss mun líka hverfa og við Jón fylgdum ráðleggum mætra manna um að skoða hann aftur, hinum megin frá, þar sem hann blasir betur við. Fórum svo sömu leið til baka eftir grasi vaxinni "eyðimörk" í átt að bílnum.

Á leiðinni upp á tjaldstæði vorum við orðnir þægilega dasaðir en ákváðum að nýta frábært veðrið og kíkja á gljúfrin hlémegin við stífluna. Þau koma ekki til með að raskast að ráði en þorna þó upp að mestu og verða jafnvel göngufær hugdjörfum mönnum (með hjálma). Gljúfrin eru það þverhnípt og djúp að þau hafa lengstum gengið undir nafninu "Dimmugljúfur" en heita líka "Hafrahvammagljúfur". Þetta er staðurinn sem Ómar Ragnarsson smaug í gegnum á flugvélinni sinni og undirstrikaði þar með smæð vélarinnar mikilfengleika staðarins. Við Jón tókum helling af myndum, bæði af gljúfrunum og af kynjamyndum í klettaveggnum. Einnig vakti athygli mína jarðlög sem halla örlítið og hverfa á bak við árfarveginn. Þau valda skemmtilegri sjónhverfingu þannig að manni finnst að vatnið renni upp á við ef maður miðar við villandi jarðlagalínuna sem hækkar á móti straumstefnunni.

Kvöldið á tjalstæðinu var nýtt annars staðar, eftir fátæklegan pastarétt. Við fórum upp í vinnuþorp og áttum líflegt kaffistofuspjall við vinkonu Margrétar (hans Jóns) sem vinnur á svæðinu við jarðlagarannsóknir. Reyndar var þetta ekki fyrsta heimsókn okkar í þorpið. Um morguninn fengum við að taka bensín, undir eftirliti hjálplegs starfsmanns, og kíktum einnig á kaffihús svæðisins á milli þess sem við sáum Töfrafoss og kíktum á Dimmugljúfur. Það var virkilega gaman að upplifa stemninguna í búðunum og finna hvernig afþreyingu, veitingum og allri annarri aðstöðu verkamanna er háttað. Ég velti því mikið fyrir mér hvort þetta væri ekki afbragðs verkefni fyrir mannfræðing að planta sér þarna niður og vinna upp úr viðtölum einhvers konar etnografíska greiningu á stéttaskiptum samskiptum manna í þessu knappa og sérkennilega fjölþjóðasamfélagi.

--------

Á fjórða degi vaknaði maður aftur lemstraður og nýtti sér að sjálfsögðu fyrri reynslu og henti sér undir heitu bununa. Þann daginn var stefnan tekin heim til Reykjavíkur eftir hádegið. Fyrst ætluðum við okkur þó að skoða okkur aðeins meira um, fram til hádegis eða þar um bil. Rauðuflúðir var þar efst á lista. Sá staður er svo litríkur að ljósmyndir þaðan voru gagnrýndar af virkjunarsinnum sem "fótósjoppað" áróðursbragð þegar Ragnar Axels og fleiri birtu þær á sýningu fyrir nokkrum árum. Leiðin þangað var að hálfu leyti sú sama og í átt að Töfrafossi. Reyndar tókst okkur að villast og við fórum nánast aftur að fossinum, úr annarri átt, og þurftum að snúa við. Á þeirri leið áttuðum við okkur hins vegar á því hvað undirlendið, sem allt mun fara undir kaf, er vel gróið. Engin "eyðimörk", sem svo oft hefur verið haldið fram til réttlætingar á áldraumnum. Þetta er gróið berjaland frá árbökkum og lengst upp á heiði. En leið okkar lá sem sagt í átt að Tröllagili sem var furðu nálægt stíflustæðinu - ekki nema um korters akstur, ef maður fylgir réttum afleggjara. Vegurinn endar á útsýnishæð þaðan sem maður þarf að ganga nokkurn spöl, líklega um hálftíma, áður en gilið opnast með sérkennilegum fossi. Hann er hálfgerðar flúðir, en samt foss, þar sem hann rennur eins og rennibraut eftir um það bil sextíu gráðu halla eftir sléttu bergi og fær mann til þess að langa að baða sig, liggjandi á sléttum bergveggnum, eða lónandi um í hylnum undir. Gilið var svo hrífandi að Jón fékk sig ekki til að ganga lengra og vildi njóta þess að liggja í makindum á gilbarminum, enda prýðilegt útsýni til allra átta. Ég freistaðist hins vegar til þess að fylgja gilinu niður eftir þar til lækurinn seytlaði niður í Jöklu. Það var eins og að stíga inn í ævintýraland. Gljúfur Jöklu var mjög opið og bjart en með um fimm metra þvernhnípi ofan í mjög þröngar og kraftmikla iðu. Stuðlaberg og sendnir árbakkar voru hér og þar ásamt Rauðuflúðum, þar sem bergið er rauðleitt og glampar gegnum tært regnvatnið sem seytlar gegnum bergið af hæðunum allt í kring. Þetta var mikilfenglegt sjónarspil og í rauninni í fyrsta skipti sem ég fékk kökk í hálsinn yfir tilhugsuninni um að glata þessu undir aurugan lónsbotn. Ég lokað augunum og naut kraftsins um stund áður en ég hélt aftur af stað í átt að bílnum. Það var langur akstur framundan.

Við stöldruðum við hér og þar á leiðinni. Stoppuðum fyrst í Skriðuklaustri og þáðum þar hlaðborð. Við mælum eindregið með því við alla, enda staðurinn ein af menningargersemum þjóðarinnar, en í okkar tilfelli var það hrein nauðsyn að nærast vel áður en við héldum lengra. Þegar við vorum búnir að borða um það bil nægju okkar vorum við spurðir hvort við vildum ekki ábyggilega súpu líka? Það var verið að bera fram "næsta" hlaðborð og ég þáði fiskisúpu í eftirrétt, til að kóróna veislustundina. Veðrið var skaplegt alla leið heim og nutum við þess að hlusta á tónlist úr ipod-græjunni, sem tengd var við kassettutækið með þar til gerðri "snúruspólu" (Simple Minds, PJ Harvey, Patti Smith, Jethro Tull). Vegirnir nánast auðuir. Íslendingar virðast nefnilega hætta tiltölulega snögglega að ferðast strax eftir hverja verslunarmannahelgi og skiptir engu þó besta veður sumarsins geri vart við sig eftir þann tíma, eins og núna. Það var því eiginlega lyginni líkast að aka fram hjá sveitum landsins í svona góðu veðri sem spókuðu sig sællega og sýndu allar sínar bestu hliðar á meðan við vorum með veginn nánast út af fyrir okkur.

Fyrir utan bensínstopp hér og þar (Höfn og Selfoss) þá stöldruðum við sjaldan við. Gerðum þó ómótstæðilegt túristastopp á Bond-lóni, eins og það kallast í dag. Veðrið var bara þannig. Í fyrsta skipti sá ég að lónið er krökkt af selum sem leita sér að æti við mynni lónsins þar sem ólíkir straumar mætast. Fyrir ofan var gargandi krían sem steypti sér án afláts eftir smásíli. Í kringum kríuna sveimuðu nokkrir kjóar og skúmar, sem freistuðu þess að ná ætinu af kríunni. Reyndar skildist mér á Jóni að hann hafi sér skúm á sama stað í fyrra góma ein kríuna og fljúga með hana burt. Náttúran er miskunnarlaus.

Síðasta stopp ferðarinnar var á sama stað og þrem dögum fyrr, hjá tengdaforeldrum Jóns, suður af Kirkjubækjarklaustri, þar sem við borðuðum drjúgan kvöldmat og sögðum ferðasögur. Þar var, merkilegt nokk, fiskisúpa í matinn. Reyndar var hún af öðrum toga og rausnarlegri en sú sem ég borðaði í hádeginu, sneisafull af humri, enda stutt í Hornafjörðinn. Við fórum því af stað ákaflega vel mettir og afslappaðir fyrir síðasta hlutann. Klukkan var orðin hálf tíu og komið myrkur. Það var því bráðnauðsynlegt að vera í góðu jafnvægi síðasta spölinn. Dalalæðan dansaði í myrkrinu á meðan við hlustuðum á Joy Division. Það var vel við hæfi sem endapunktur á eftirminnilegri ferð.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Netið: Of löng bloggþögn

Vegna ýmiss konar anna og tæknilegra vandkvæða hef ég ekkert fært inn í bloggsíðuna dögum saman. Ég var meðal annars víðs fjarri tölvunni í fjóra daga um síðustu helgi, flakkandi um Kárahnjúka með Jóni Má (frá þeirri ferð segi ég betur í næstu færslu). Ferðin krafðist nokkurs undirbúnings og svo var ég ekki sérlega ginkeyptur fyrir því að kveikja á tölvunni yfir höfuð dagana fyrst eftir heimkomu. Að minnsta kosti ekki heima á kvöldin, enda vinnan komin á fullt á daginn. Við þetta bættist að tölvuaðstaðan sem ég get að jafnaði gengið að í skólanum brást mér. Það var búið að setja einhvers konar barnalás á allar bloggsíður í sumar. Þetta bitnaði auðvitað fyrst og fremst á mér þannig að ég sótti undir eins um undanþágu frá vefsíðulásnum hjá Menntasviði. Það tók hins vegar svolítinn tíma að ganga í gegn. Núna á allt hins vegar að vera komið á rétta kjöl aftur fyrir hefðbundið bloggflæði.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Daglegt líf: Vetrarstarf að hefjast

Nú er vetrarrútínan hafin á ný. Fyrsti vinnudagur var í gær og þessa vikuna erum við fyrst og fremst að ná áttum og undirbúa okkur. Fyrsti kennsludagur verður í næstu viku. Í byrjun október fer ég aftur í frí því ég á ennþá tvo og hálfan mánuð eftir af barneignarfríinu. Þá fer Vigdís hins vegar aftur að vinna.

Sumarið er búið að vera fljótt að líða. Við Vigdís fórum til Danmerkur í sumar (og ég til Noregs strax á eftir), fórum í sumarbústað í byrjun júlí og fylgdumst náið með HM í fótbolta. Fyrir utan nokkra tónleika seinni hluta sumars þá vorum við mest megnis heima í ró og spekt. Við hreiðruðum helst um okkur í garðinum heima þá fáu sólardaga sem gáfust í sumar.

laugardagur, ágúst 12, 2006

Pæling: Ómarktæk viljayfirlýsing

Furðuleg staða er komin upp í stríðinu milli Ísrael og Líbanon. Ríkisstjórn Líbanon er búin að fallast á vopnahlésályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og hafa, að mér skilst, þegar lagt niður vopn. Ísraelar eru meira hikandi. Þeir eru svo sem til í að hætta stríðinu líka, en ekki fyrr en eftir rúmlega tvo sólarhringa (kl. 7 á mánudagsmorgun). Þangað til ætla þeir að nýta tímann til að klára ætlunarverk sitt, sem var að ganga milli bols og höfuðs á Hizbollah-samtökunum. Hvers konar viljayfirlýsing er þetta? Þetta minnir svolítið á steggjarpartý eða gæsapartý sem fjölmörg verðandi hjón ganga sjálfviljug í gegnum áður en þau bindast hvoru öðru: "Já, ég samþykki þennan samning, en fyrst ætla ég á klámbúllu og láta ókunnuga dilla sér framan í mig!" Hvað er að marka slíkan samning?

Ég spyr sjálfan mig oft að því hvað á eiginlega sé hægt að gera við þessa bölvuðu "útvöldu" þjóð, sem leyfist allt í nafni Biblíunnar og skjóli Bandaríkjanna?

Upplifun: Gay Pride

Gay Pride dagurinn var í dag. Við Vigdís og Signý kíktum niður í bæ ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum og settumst á hlaðinn vegg þaðan sem við gátum séð gönguna liðast niður Laugarveg og inn Lækjargötu. Veðrið var skaplegt, engin sól en merkilega hlýtt þrátt fyrir það. Gangan kom um síðir og höfðum við beðið eflaust drjúgan hálftíma eftir henni. Hún var víst ekkert að flýta sér niður brekkuna. Þangað til hafði ég skemmt mér helst við það að taka myndir, ýmist af umhverfinu eða Signýju. Var svo sem ekkert spenntur því ég mundi eftir því hvað gangan var yfirgengilega löng, skrautleg og hávær í fyrra. Hún var hins vegar frekar hófstillt í ár, að mér fannst, og henni lauk fyrr en varði. Mér fannst það eiginlega til bóta, eins ófélagslega og það nú hljómar.

Áður en við fórum heim þótti tilvalið að koma sér fyrir á teppi á miðjum Austurvelli. Þar sá maður alls kyns vinahópa sem voru uppáklæddir á alla kanta án þess að skírskota sérstaklega til samkynhneigðar. Þetta minnti mig á útskriftarhópana sem sjást vandræðast um borgina við hver annarlok. Festival samkynhneigðra er ekki lengur óbeint gleðiefni annarra. Fólk virðist vera farið að smitast af gleðinni og beisla orkuna sér í hag. Það verður spennandi að sjá hvert þetta þróast. Svo verður líka áhugavert að sjá að ári hvað þeir kalla hátíðina sína því einn talsmanna samkynhneigðra stakk upp á nýyrðinu "hýrprýði". Það gerði hann á besta útsendingartíma sjónvarpsins stuttu fyrir hátíðina. Ég er að sjálfsögðu kampakátur með þetta skemmtilega orð og vonast innilega til að sjá orðið skjóta rótum að ári.

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Tölvan: Uppfærsla

Ég keypti mér hróðugur vinnsluminni fyrir tölvuna upp á 512 mb og nýt þess að sjá hana yngjast alla upp. Með tímanum var hún farin að hægja eitthvað á sér og átti til að taka sér fjallmyndarlegar pásur til að hugsa um það verk sem hún var með hverju sinni. Þetta er liðin tíð, hér með. Kannski maður fari að nenna að sýsla í myndasafninu aftur og setja nokkrar góðar myndir á netið.

sunnudagur, ágúst 06, 2006

Tónleikar: Innipúkinn

Ég keypti mér Innipúkamiða sem gildir í þrjá daga. Vigdís fer fyrir mína hönd í kvöld að sjá Ampop, Mugison og fleiri en ég var hins vegar var hins vegar á tónleikum í gær - og í fyrradag. Í gær voru það Throwing Muses. Sveitin var svo gríðarlega vel spilandi að þetta líktist helst loftárás. Ég saknaði pínulítið melódískustu laganna þeirra, sem þeim slepptu í gær af einhverjum sökum, en þetta var öflugt. Í fyrradag var það hins vegar Television sem ég fór að sjá. Þeir eru ein merkasta gítarrokksveit sögunnar og gáfu út ódauðlegt meistaraverk 1977 sem heitir "Marquee Moon". Sú plata er ótvírætt ein af lykilplötum rokksögunnar. Það var því ekki við efnið að sakast þó tónleikarnir stæðu ekki fyllilega undir væntingum. Söngvarinn var eitthvað lasinn og slappur og hljómsveitin var einhvern veginn ekki alveg nógu samstillt til að lögin nytu sín. Hápunktarnir voru þó frábærir og bauð upp á stríðsdans inn á milli.

Nú eru fleiri tónleikar framundan og reyndar svo mikið framboð að það er varla hægt að fylgjast með lengur. Ætli ég sleppi ekki Morrisey í næstu viku. Fer í staðinn ásamt Vigdísi á Nick Cave í september. Maður er orðinn vanur að þurfa að velja og hafna. Áður fyrr fór maður á allt sem kom til landsins. Núna sleppir maður sveitum eins og Belle og Sebastian án þess að blikna. Reyndar ekki alveg að marka því þeir fóru alveg fram hjá mér þar til uppselt var orðið á tónleikana. Dæmigert fyrir framboðið þessa dagana.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Fréttnæmt: Jafnvægi náð

Á þessum örfáu sumardögum, sem gægjast til okkar í byrjun ágúst, hefur Signý litla tekið sig til og náð að halda jafnvægi betur en áður í sitjandi stöðu. Hún er búin að vera mjög völt til hliðanna hingað til og ekki getað setið upprétt í meira en nokkrar sekúndur án stuðnings. Styrkurinn í bakinu hefur verið í lagi því henni finnst bara fínt að standa og svona, með aðstoð, en það er fyrst núna að hún finnur hvernig hún getur beitt sér til að halda jafnvægi sjálf. Það gerðist náttúrulega úti á túni, í blíðunni, þar sem hún hefur verið að spóka sig ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum.

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Tónleikar: Perlum varpað fyrir svín

Sögufrægu kvöldi lauk með eins konar flugeldasýningu í tónum og ljósadýrð er Sigurrós lauk tónleikum sínum laust upp úr miðnætti á sunnudaginn var. Þeir buðu Reykvíkingum og öðrum utanaðkomandi upp á ókeypis tónleika á Miklatúni. Þetta var þrælmagnað. Annars vegar var sérkennilegt að vera þarna staddur ásamt fimmtán þúsund öðrum túngestum í merkilegri kvöldblíðu (miðað við vætusaman aðdraganda). Þarna var fólk af alls kyns sauðahúsi, fjölskyldufólk og hippar, gelgjur og fyrirmenni. Hálfgerður sautjándi júni, nema hvað það sást varla vín á nokkrum manni. Allt fór fram með mikilli spekt. Hins vegar var magnað og eftirminnilegt hvað hljómsveitin náði að magnast upp á kröftugustu köflunum og keyra yfir skarann eins og herþota, með undursamlegri undirbylgju og yfirtónum. Gæsahúðin lét ekki á sér standa. Sérstaklega þegar leið á kvöldið og prógrammið gerðist áleitnara.

Það eina sem truflaði mig á þessum tónleikum voru gestirnir: það að vera staddur þarna með svo mörgum sem ekki áttu skilið að vera á staðnum. Voru bara til að sýna sig og sjá aðra, í eins konar grillstemningu, spjallandi um heima og geima, gegnum tónlistina. Svo voru aðrir, einkum unglingskrakkar, sem voru uppteknari af gemsanum sínum en tónleikunum og tóku ekki einu sinni eftir hápunktum tónleikanna þegar þeir brustu fram í öllu sínu veldi. Verst af öllu var þó að hlusta á digurbarkalegar athugasemdir frá þeim sem kunnu ekki að meta tónlistina, og vissu allt of vel af því. Það var hlegið að viðkvæmni í túlkun og brothættri falsettu. Steininn tók hins vegar úr í hápunkti þess lags sem ég held mest upp á: "Viðrar vel til loftárása". Rétt á undan kaflanum, þar sem hljómurinn brýst fram, er gerð kúnstpása, örstutt þögn, og í henni stóð Jónsi með bogann við enni sér og lokaði augunum, píndur á svipinn af innlifun. Þá kallaði einn tornæmi gesturinn "Ertu þá búinn að pissa!?" og vísaði í svip Jónsa í þögninni viðkvæmu, eins og hann hefði pissað á sig. Ég flutti mig úr stað til að verða ekki vitni að frekari hæðnisglósum úr þeim félagahópi.

Til að mála skarann ekki allt of svartan þá voru sannarlega inn á milli einlægir aðdáendur sem ýmist lágu þvers og kruss með lokuð augun eða héldust í hendur, föðmuðust. Sætast fannst mér að sjá eitt parið sem faldi sig saman undir peysu. Við Vigdís vorum sjálf svolítið til hliðar í litilli brekku undir trjágróðri og sáum glitta í sviðið, en höfðum það náðugt. Ég fór síðan inn á milli á smá flakk og skoðaði mig um, með myndavél í farteskinu. Tónleikarnir voru því virkilega magnaðir þrátt fyrir misjafnan skarann og þeir bötnuðu er á leið, eins og áður sagði, og var því ekki síst að þakka að hinir óþreyjufyllstu meðal áhorfendanna fóru að yfirgefa svæðið upp úr ellefu þegar helstu "slagararnir" voru að baki. Þá var veislan hins vegar fyrst að hefjast fyrir alvöru. Eftir tónleikana gat ég ekki annað en velt því fyrir mér hvað rausnarskapur Sigurrósar og óbilgjörn hugsjónavinna þeirra er mikið á skjön við þessa andlega löskuðu þjóð.