laugardagur, desember 25, 2004

Upplifun: Kaffi Hljómalind

Jólagjafainnkaupin gengu vel í ár og ég var nokkuð snemma á ferðinni. Það kom mér hins vegar óvænt í koll. Ég keypti nefnilega í síðustu viku nokkrar bækur í lítlu kaffihúsi sem heitir Bleika dúfan (þar sem Hljómalind var áður til húsa). Þetta er skemmtileg lítil bókabúlla og flytur greinilega inn sínar eigin bækur, enda er úrvalið þar nokkur sérstætt. Allt gott um þann stað að segja, nema hvað, nokkrum dögum síðar, tveim dögum fyrir jól, rölti ég þar fram hjá á ný og sá í búðarglugganum tilkynningu um rýmingarsölu, 40-60% afsláttur af öllum bókum fyrir jólin! Ég sem hafði kríað út fimm prósenta afslátt nokkrum dögum fyrr var að vonum svekktur, fór heim og hugsaði mitt rjúkandi ráð. Daginn eftir kom ég kærulaus til baka og þáði af þeim kaffibolla. Þetta var snemma á Þorláksmessu og ég vildi ekki vera með neitt uppistand en spurði hins vegar út í þennan skyndilega afslátt - og laumaði því að í leiðinni að ég væri í raun ekki alls kostar ánægður. Þá frétti ég að útsalan hafi komið til vegna eigendaskipta í millitíðinni. Þar kom skýringin. Hér var ekki við neinn að sakast. Hóað var í eigandann, sem var nokkrum skrefum undan og hann vatt sér áhugasamur að mér og spurði mig hvort ég væri fastakúnni, og sagði mér svo frá metnaðarfullum hugmyndum sínum. Þetta verður reyklaust bókakaffi áfram og mun leggja metnað sinn í að kaupa aðrar bækur en fást í stóru búðunum. Kaffihúsið mun líklega heita Kaffi Hljómalind og er það í fullu samráði við Kidda sem á það nafn. Hann mun vera sjálfur uppveðraður yfir hugmyndinni og er tilbúinn að vera innan handar og bjóða upp á lítilsháttar tónlistarsölu. Í einu horninu verður þeim anda hugguleg hlustunaraðstaða og opnað verður niður á neðri hæðina með hringstiga (þar sem fyrir er áhugaverð lítil plötubúð). Ég sé í hendi mér hvernig þetta gæti snarvirkað enda er menning hússins ofin úr nákvæmlega þessum þráðum (og Sirkus á næsta leyti). Formleg opnun hússins verður snemma í janúar (níunda, að mig minnir). Ætlunin er að staðið verði að lifandi tónlist á staðnum öðru hvoru og munu Mugison ásamt Hjálmum (eða er það Hjálmari?) ríða á vaðið við opnunina. Við þessar fregnir varð ég fljótt hæstánægður, settist niður og las fleiri bækur. Ég keypti nokkrar bækur í viðbót á þessu frábæra verði og hlakkaði til að koma aftur á næsta ári. Í tilefni af þeim afslætti sem ég fór á mis við í fyrra skiptið fékk ég kaffibollan ókeypis.

fimmtudagur, desember 23, 2004

Daglegt líf: Jólaerillinn

Hjá okkur Vigdísi er einfalt gjafafyrirkomulag. Við förum í bæinn saman og splæsum á okkur eitthvað sem okkur hefur lengi vantað. Þetta er ríkulega gjöfin. Til að opna lítinn pakka á aðfangadag bætum við einum litlum við. Hún er meiri leikur og má ekki kosta meira en fyrirframgefin upphæð. Saman höfum við því eytt jólaerlinum vítt um bæinn, keypt frjálslega á okkur sjálf og markvisst handa öllum öðrum í leiðinni, laus við pakkafeluleik okkar á milli. Auðvitað endar þetta alltaf með því að við borðum saman í bænum. Pizza Hut er í uppáhaldi. Þar fengum við okkur gómsætan bita, hún Supreme og ég Zorba, sem stendur sannarlega undir nafni, samsett úr pepperoni, rauðlauki, tómötum, papriku, sveppum og feta-osti. Þetta var sko mjúk lending.

sunnudagur, desember 19, 2004

Heimildamynd: Do they know its Christmas?

Ég sá um helgina frábæra heimildamynd í sjónvarpinu um tilurð lagsins "Do they Know it´s Christmas?". Þátturinn var settur saman í tilefni af því að tuttugu ár eru liðin frá útkomu smáskífunnar sögufrægu. Það var virkilega gaman að sjá hvernig lagið þróaðist úr bölsýnni Dylan-laglínu yfir í tindrandi jólalag með hjálp hljómborðsstefs upptökustjórans Midge Ure. Skondið að heyra hvernig Geldof vatt sér umbúðalaust að efninu þegar hann safnaði saman stjörnunum gegnum síma: "Phil, I need a famous drummer!". Drepfyndið að sjá allar helstu make-up hetjur níunda áratugarins safnast saman, nývaknaðar, með timburmenn, ófarðaðar, fyrir framan stúdíóið þennan sunnudagsmorgun með haug af ljósmyndurum í kring. Merkilegt að heyra umræðuna um tvíræða textabrotið "Tonight, thank God, it´s them instead of you" sem Bono vildi upphaflega ekki syngja, en gerði svo frábærlega að lokum. Flott að sjá hvernig lagið þróaðist á einum degi undir gríðarlegri tímapressu frá tiltölulega einföldu lagi yfir í sælukenndan hópsöng þar sem egóin runnu saman. Hugmynd sem varð að metsölulagi á innan við viku. Gaman til þess að vita að einhvers staðar í plötubunkum inni í geymslu á ég að eiga eintak af þessari merkilegu skífu.

laugardagur, desember 18, 2004

Netið: Ísland - Palestína

Nú er jólaerillinn framundan og margt í deiglunni. Nú þegar ég ég held áfram bloggskrifum mínum af sama krafti og tek ég í leiðinni nokkkur skref til baka og rek slóð okkar Vigdísar til fyrsta desember. Við Vigdís nutum þá saman jólahlaðborðs á Kaffi Reykjavík. Eftir drjúga stund og seðjandi máltíð röltum við fram hjá Gauknum. Þar var verið að setja upp tónleika í nafni frjálsrar Palestínu. Þetta fannst mér skemmtilegt í ljósi þess að ég er nýlega orðinn heitur talsmaður Palestínu. Á efnisskránni voru KK, Mugison og fleiri hljómsveitir sem ég kann ekki að nefna. Stemningin var afslöppuð og bar ekki keim af sterkum áróðri að öðru leyti en því að í anddyri voru til sölu varningur og áróðursbæklingar. Félagið Ísland Palestína er greinilega metnaðarfullt því bæklingarnir voru mjög efnismiklir og vandaðir. Um þetta vitnar heimasíða félagsins. Í beinum tengslum við þennan félagsskap eru ýmis önnur áhugaverð grasrótarsamtök og félagsskapur sem nauðsynlegt er að láta fylgja með þessari færslu (sjá neðar). Hvað tónleikunum hins vegar leið þá stóðu allir sig vel. KK sýndi snilld sína á gítarinn og Mugison fylgdi í kjölfarið og kom mér alveg í opna skjöldu. Þarf virkilega að tékka á honum.

Sjá neðangreindar síður: Annars vegar tenglanetið fólkið. Það tengir saman fólk sem vill standa að ýmsum aðgerðum og gjörningum í "flash-mob" stíl. Hins vegar Snarrót, vettvangur þar sem aktívistar geta komið saman, aflað sér fræðslu, skipulagt fundi, föndrað pólitísk skilaboð og ýmislegt fleira.

mánudagur, desember 13, 2004

Upplifun: Minning

Helginni var eytt fyrir norðan, á Sauðárkróki, þar sem við fylgdum Elvari Fannari Þorvaldssyni, systursyni Vigdísar, til grafar. Öll stórfjölskyldan var þar saman komin víða að af landinu. Við Vigdís gistum í huggulegu gistiheimili sem ber það skemmtilega nafn "Kotið" og sváfum þar í úrvals heilsudýnum. Það var þörf á góðum svefni eftir lýjandi akstur norður og átakamiklar tilfinningar framundan. Þetta voru sannarlega erfiðir dagar en þeir voru líka fallegir á sinn hátt. Veðrið var blítt með snjófláka á víð og dreif. Kirkjan bjó yfir huggandi nærveru í friðsömum sveitastíl. Athöfnin var einföld og látlaus enda sorgin nógu mikil fyrir. Sjálfur kirkjugarðurinn gnæfir yfir Sauðárkróki á myndrænasta stað bæjarins, nálægt fjöllunum, skýjunum og fjarri erli bæjarlífsins. Betri stað er vart hægt að hugsa sér að hvíla á.

fimmtudagur, desember 09, 2004

Pæling: Viðskiptahugsun

Í gærkvöldi settist ég niður með ís og heitri súkkulaðisósu ásamt Vigdísi og horfði á sjónvarpið. Í þættinum the L-Word skaut upp kollinum pæling sem líklega er flestum viðskiptafræðingum kunn, en sat lengi vel í mér. Ein sögupersónanna útlistaði hugmyndafræði sem ber að hafa í huga við kaup á allri vöru og þjónustu. Hún var sett fram sem þríhyrningur þar sem armarnir bera heitin "cheap", "fast" og "good". Allt eru þetta eftirsóknarverðir kostir vöru sem á að kaupa, en þeir fást nær aldrei allir samtímis. Varan getur hæglega verið ódýr og fengist strax, en þá er hún líklega léleg. Hún getur verið góð og fengist hratt, en þá er hún líkast til mjög dýr. Einnig getur hún einnig verið ódýr og góð en þá fæst hún ekki eftir pöntun. Varasamt er að reikna með að geta fengið góða hluti, á lágu verði, strax. Þá er best að staldra við og hugsa upp á nýtt. Það gera hins vegar fáir og fyrir vikið þrífast gróðabraskarar hver um annan þveran.

mánudagur, desember 06, 2004

Matur: Einföld og skilvirk pastamáltíð

Ég ákvað líka að vera góður við sjálfan mig í kvöld. Vigdís fór á kvöldvakt og í stað þess að híma í myrkrinu fór ég í leikfimi og eldaði mér góðan mat. Það er nauðsynlegt að næra líkamann og koma blóðrásinni af stað aftur, sérstaklega þegar þungar hugsanir sækja á mann. Ekki var úr miklu að moða en ég fann þó tortellini í skápnum og náði að búa til fína máltíð úr knöppum kosti. Tortellini-inu velti ég upp úr ólifuolíu og parmesan. Þá var maturinn strax vel ætur. Við þetta bætti ég nokkrum matarskeiðum af hreinum rjómaosti, saxaði nokkrar grænar ólifur og bætti grænu pestó-mauki við. Til að draga fram frísklegt bragð skar ég niður gúrku og bætti út í. Eðalmáltíð með pilsner.

Fréttnæmt: Harmleikur í fjölskyldunni

Heimilislífið er búið að vera í lamasessi hjá okkur Vigdísi síðan á laugardagsmorgun. Þá barst okkur sú átakanlega fregn að systursonur hennar fórst í eldsvoða á Sauðárkróki. Harminum er ekki hægt að lýsa með orðum. Ég hef reynt að vera innan handar eftir því sem hægt er við það að hóa fjölskyldumeðlimum saman, enda kemst ég líklegast næst því að vera í ökuhæfu ástandi. Jafnvel þegar maður nær að bægja tilhugsuninni frá þá er maður dofinn inn að beini. Þetta er ömurlegt.

föstudagur, desember 03, 2004

Tónlist: Bowie uppfærður

Lítill tími hefur undanfarið gefist til að skrifa. Á milli vinnutarna hef ég verið með allþétt prógram matarboða, jólahlaðborða og kórsöngs. Þegar tími hefur gefist til að setjast við tölvuna hef ég látið til leiðast að dæla tónlist inn í tölvuna mína í stað þess að setjast við skriftir. Eins og ég minntist á fyrir nokkrum vikum er tölvan (Makkinn) margfalt öflugri en sú gamla. Hún gleypir tugi gígabæta af tónlist (10-15 diskar komast í u.þ.b. 1 gígabæti) og það er algjörlega ný reynsla fyrir mig. Það sem hefur afvegaleitt mig hvað mest þessa dagana (þökk sé tölvunni) eru því sjóræningjaupptökur mínar með David Bowie. Nú eru þær komnar ein af annarri í tölvuna (líklega um 15 diskar af óobinberum upptökum).

Eins og mín er von og vísa hef ég leyft mér að skilgreina hvert lag sérstaklega. Þau eru ýmist "live"-upptaka (tónleikar frá öllum tímum), útvarpsupptaka (oftast BBC), "demo"-upptaka (lag í vinnslu), "version" eins og ég kalla það (sem er seinni tíma útfærsla af þekktu lagi, stundum af tónleikum), "take" (önnur upptaka en sú opinbera en í grunnatriðum eins), "single" (lag sem kom obinberlega út á smáskífu en ekki á plötu), "mix" (lag sem byggir á þekktum flutningi en hefur verið hljóðblandað á ný) og svo framvegis. Þessir flokkar gera það að verkum, ásamt ártali, stjörnugjöf og ýmiss konar huglægri flokkun, að hægt er að stilla upp "playlist" (afspilunarlista) af tiltekinni gerð. Við það öðlast þessar upptökur nýtt líf. Það er sérstök nautn að leyfa tónleikaupptökum að renna einum og sér, eða demóupptökum, eða bara uppáhalds upptökunum, og leyfa því svo að flæða inn á heimilið í einhverri röð, enda er þetta í eðli sínu flæði. Nú á ég bara eftir að eltast við hin og þessi aukalög af opinberu diskunum (sem eru nátttúrulega fyrrum "bútleggar") ásamt öllu því sem maður rekst á seinna. Öllum er velkomið að bæta við safnið, að sjálfsögðu.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Matur. Uppskrift: Bananabrauð

Ég var rétt í þessu að gæða mér á dýrðlegu bananabrauði með ískaldri mjólk. Brauðið er gamall kunningi úr bókinni "Af bestu lyst" og hefur reynst mér ótal oft vel enda er hráefnið alltaf til staðar (fer reyndar eftir banönunum) og er meinhollt. Hvet alla til að prófa:

1. Stappa um 4 banana og bæta stóru glasi af All-bran saman við og blanda vandlega saman. Láta þetta standa í nokkrar mínútur (til að mýkja upp kornið).

2. Í annarri skál þeytast lauslega saman matarolía (1 dl.), egg (2 stk.) og sykur (eftir smekk - bananarnir eru mjög sætir einir og sér. Uppskriftin segir 2 dl. og ég nota talsvert minna en það).

3. Hrærunum tveimur er blandað saman.

4. Blanda saman hveiti (5 dl.), lyftidufti (1,5 tsk.), salti (0,5 tsk.) og hnetum (1 dl - ég mæli með valhnetum). Þessu er blandað við deigið í liðunum að ofan.

5. Sett í smurt, aflangt kökuform. Hiti: 180 gráður C í um klukkutíma.

6. Muna að kæla brauðið áður en það er sneitt svo það verði fallegt og þétt. Borðist með vænum slurki af smjöri og glasfylli af mjólk. Jólasmákökur skemma ekki fyrir sem meðlæti. Svo má ekki gleyma heitu kakói með rjóma til hátíðabrigða.

laugardagur, nóvember 20, 2004

Í fréttum: Napurt kuldakastið

Veturinn sleppir nú loks þriggja daga frostkrumlu. Fyrir tveimur dögum náði kuldinn vel niður fyrir fimmtán stig víða í Reykjavík. Það er með því kaldara sem mælst hefur á höfuðborgarsvæðinu þó svo talsvert meiri kuldi þekkist inni til landsins (og fyrir norðan). Í gær og á miðvikudag var hins vegar "ekki nema" um tólf gráðu frost. Í dag liggur hitinn í dag líklega í kringum þægilegt frostmark. Það hefur ekki verið neinum bjóðandi að valsa um utandyra öðruvísi en dúðuðum í bak og fyrir í þessum marrandi kulda. Andadrátturinn líkist helst innvortis frostpinna. Sjálfur er ég svo heppinn að hafa ákveðið í síðustu viku, af innsæinu einu saman, að láta mér vaxa skegg. Gaman að geta nýtt líffræðilega möguleika sína til að bregðast við kulda. Lífvera í vetrarham.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Tónlist: The Fall. Tónleikar og lýsing

Ég var aftur að koma af tónleikum í Austurbæ í kvöld. Í þetta skiptið sá ég gömlu nýbylgjupönksveitina the Fall sem ég hélt mikið upp á fyrir um tíu til fimmtán árum. Tónleikarnir voru ágætir en samt ekkert í samanburði við Dúndurfréttir á mánudaginn var. Reyndar er ekki hægt að bera þetta tvennt saman því tónlist the Fall er mjög undarleg. Hún er geysilega þétt og hljómar svolítið eins og maður sé fastur inni á skemmtistað með þéttan hljóðmúr allt í kringum sig, fullt af áreitum og þungu bíti. Á köflum er hún einsleit en samt er heilmikið í gangi allan tímann. Það sem stelur athyglinni er hins vegar sérkennilega drafandi talrödd (sem helst minnir á fyllibyttu) og hún hnippir stöðugt í mann gegnum hávaðann. Tónlist the Fall getur því verið lýjandi á köflum en, eins og með skemmtistaðina, þá þarf ekkert sérstakt að "gerast" til að maður hangi yfir henni. Það er bara svo mikið líf í gangi að maður nýtur þess, hálf ráðvilltur, að hreiðra um sig í miðju kraðakinu.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Daglegt líf: Ruslherferð og vetrarstillur

Þegar heim kom eftir vinnu tókum við Vigdís okkur til og hreinsuðum út úr geymslunni og ruddum þaðan alls kyns gömlu skóladóti. Þetta var búið að stífla vistarverur okkar allt of lengi. Eftir drjúga fjögurra tíma törn var þetta allt skilmerkilega komið í sinn flokkaða haug, á leiðinni í endurvinnslu. Okkur var mikið létt. Ég stökk út í skokkgallanum og mætti tuttugu sentímetra nýföllnum snjó. Granaskjólið tekur sig sérlega vel út í kvöldmyrkrinu sveipað fjarlægu vetrarlandslagi sem og allur Vesturbærinn. Þetta var eins og að stíga aftur í tímann til annars og betra samfélags. Ég naut þess að skima milla garða eftir krökkum og fullorðnum að leik. Loftið var óvenju kyrrt og hreint og undirlagið dúnmjúkt.

Upplifun: Dúndurfréttir spila "Vegginn".

Í gær kom ég heim um eittleytið með lófana enn ylvolga eftir þungt lófatak í Austurbæ. Gat ekki sofið af innblæstri í rúman klukkutíma. Ég var að koma af "Veggnum", ásamt Vigdísi. Ég er auðvitað að tala um goðsagnakennda meistaraverkið sem Pink Floyd gáfu út 1979. Hljómsveitin Dúndurfréttir hélt upp á 25 ára afmæli plötunnar með tvöföldum tónleikum (klukkan átta og hálf ellefu) fyrir smekkfullum Austurbæ, og þvílíkur flutningur! Ég ætla ekki að reyna að lýsa upplifuninni öðruvísi en svo að mér fannst þeir ná að gæða tónlistina gjörsamlega nýju lífi á köflum. Gæsahúðin var viðvarandi allan seinni hluta tónleikanna - og það hef ég ekki upplifað árum saman.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Pæling: Nýyrðið "hryðjuverkamaður"

Ég heyrði skemmtilegt nýyrði í dag, eða öllu heldur útúrsnúning á mikið notuðu orði. Orðið "hryðjuverkamaður" hefur verið heimfært upp á ýmsa ofbeldismenn í fjarlægum heimshlutum en hingað til hef ég ekki heyrt það notað á neinn Íslending. Samt erum við óttalegir verkamenn að upplagi. Letin er áberandi þáttur hins íslenska verkamanns þar sem hann hímir á skóflunni, en hann getur samt stært sig af dugnaði sem brýst út í skorpum, eða svokölluðum "hryðjum". Ég vildi að ég hefði fattað þetta þegar ég var ungur drengur með skóflu undir kinn, bíðandi eftir átökunum.

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Fréttnæmt: Magasaga

Eins og sjá má hef ég varla minnst orði á mat undanfarna mánuði. Ástæðan er langvarandi magaverkir. Það byrjaði í raun fyrir um tveimur árum að maginn fór fyrst að trufla mig. Ég hafði ferðast um Tékkland og neytt afar germikillar fæðu, bæði hveitiklatta Knedlicky (sem fylgja öllu því sem Tékkar borða) og bjórsins illræmda. Heim kom ég með myndarlega vömb, - fyrstu ístru ævinnar. Hún olli mér engum þjáningum og minnkaði fljótt en hvarf samt aldrei alveg. Þó nokkru síðar, nánar tiltekið í vor, tók ég eftir því að þessi gamli kunningi fór að stækka á ný. Þegar vinir og vandamenn bentu furðu lostnir á bumbuna kenndi ég undir eins nautnalífinu heima um - sem einkenndist af sælkeramat við hvert tækifæri og lítilli hreyfingu. Mér varð líka hugsað til þess að nú sé maður orðinn rúmlega þrítugur og efnaskipti líkamans líklega eitthvað að breytast. Ég varð bara að passa mig örlítið meira en áður. Þegar leið á sumarið ágerðist ístran þar til ég veitti því eftirtekt að ég vaknaði ekki lengur svangur, eins og ég var vanur. Fann jafnvel ekki fyrir alvöru svengd dögum saman. Þrúgandi sumarhiti (eins og maður upplifði í sumar) dregur að vísu úr matarfíkn upp að vissu marki, en þetta var full mikið. Ég var orkulítill og hresstist lítið þó ég færi út að skokka. Með haustinu hélt þetta áfram þar til ég fann fyrir mæði við það eitt að ganga upp nokkurra hæða stiga. Þá varð ég smeykur: Gat ég verið að veikjast alvarlega af einhverjum vírus eða einhverju þaðan af verra? Þá skellti ég mér til læknis. Að sjálfsögðu snarlöguðust verstu einkennin fyrir læknisskoðun, en ég passaði upp á að mæta að minsta kosti með þrútinn magann :-). Hjá lækninum fékk ég grun minn staðfestan um að ég gæti hafa sýkst af einhverri ótilgreindri veiru. Ég fékk töflur við magakvillanum og þurfi að huga sérstaklega að mataræðinu. Svo sem engar stórfréttir. Ég einsetti mér hins vegar að fylgja þessu vel eftir. Nú fer ég varlega í grófmeti úr fæðukeðjunni eins og baunir og hnetur, borða mikið All-bran, borða vatnsríkan mat og svo framvegis. Mér líður mun betur. Á sama tíma er ég farinn að hreyfa mig meira og markvissar. Þetta skiptir allt máli.

laugardagur, nóvember 13, 2004

Lestur: Arabs and Israel

Sama dag og tilkynnt var um andlát Arafats lauk ég við náttborðslesninguna mína frá því í haust: Arabs and Israel for beginners eftir Ron David. Bókin er ótrúlega sjokkerandi og skilur mann eftir agndofa. Ef eitthvað er hæft í því sem fram kemur í henni (vitnað er í henni stöðugt í heimildir sem ég á eftir að kynna mér nánar) þá er saga Ísrael smánarblettur á mannkyninu. Þeir hafa fyrirgert allri samúð alþjóðasamfélagsins eftir hörmungarnar í seinni heimstyrjöldinni, svo hrottaleg er saga þeirra í miðausturlöndum. Ég hvet alla þá sem ég þekki til að kynna sér þessa bók eða aðrar sambærilegar. Muna bara að hafa hana annars staðar en á náttborðinu því það er frekar ónotalegt að láta hana stugga við sér rétt fyrir svefninn.

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Kvikmyndir: Handritið í aðalhlutverki

Á undaförnum árum hefur handritið verið mjög áberandi hluti bíómynda. Allir muna eftir við Pulp Fiction og öðrum handritslistaverkum sem komu í kjölfarið á þeirri byltingarkenndu mynd: the Sixth Sense, the Game, Fight Club, the Others, the Usual Suspects, Seven eða the Matrix. I öllum tilvikum kemur grunnhugmyndin að baki myndinni, eða handritið sem á henni er byggt, virkilega aftan að manni og fær mann til að velta vöngum lengi á eftir. Í þessum myndum liggur ekkert í augum uppi fyrr en undir lok myndar eða jafnvel eftir töluverðar vangaveltur eftir á. Þetta mætti kalla nýja kynslóð kvikmyndagerðar.

Ég velti þessu fyrir mér núna vegna þess að síðustu vikurnar hef ég óafvitandi nær eingöngu séð myndir sem falla undir þenna flokk mynda. Það byrjaði fyrir nokkrum vikum er við Vigdís tókum Gothika á vídeóspólu og stuttu seinna endurtókum við leikinn með the Butterfly Effect (snilldarpæling um tímaflakk). Í sjónavarpinu sáum við svo myndirnar Being John Malkovich og the Unbreakable. Snilldarmyndir, allar á sinn hátt. Í flestum tilvikum horfði ég á með hangandi hendi í upphafi og lét þær koma virkilega aftan að mér, með tilheyrandi heilabrotum og látum eftir á. Þá síðustu sá ég uppi í bústað núna um helgina og ég náði því varla hvað hún var á allan hátt óvenjuleg og vel heppnuð. Mæli með þeim öllum.

mánudagur, nóvember 08, 2004

Fréttnæmt: Bústaðaferð á Suðurlandi

Við Vigdís fórum aftur í sumarbústað núna um helgina. Í þetta skiptið héldum við okkur á Suðurlandi og leigðum glæsilegan nýjan bústað sjúkraliða í Kiðjabergi. Veðrið var hins vegar ekki upp á marga fiska, nema ef vera skyldi flugfiska, því rakinn í loftinu var svo mikill að umhverfið hvarf í þoku og rigningu. Það mældist 30 mm rigning á svæðinu og það þýðir, samkvæmt minni upplifun, stöðug rigning nær allan sólarhringinn. Fyrir vikið fór maður ekkert út úr húsi að ráði og kom hálf dasaður heim að þessu sinni.

föstudagur, nóvember 05, 2004

Pæling: Lifandi visindi fyrir skola

Mér datt í hug í morgun þegar ég blaðaði gegnum Lifandi vísindi, einu sinni sem oftar, að blaðið væri kjörið kennsluefni í grunn- og framhaldsskólum landsins. Það er myndrænna en gengur og gerist og tekst að gera vísindi mjög aðlaðandi á allan hátt. Mér datt í hug hvort það væri ekki sniðugt að fá útgefendur til að vinna markvisst með Námsgagnastofnun. Hægt væri að taka fyrir tilteknar greinar og einfaldlega búa til spurningar og svör út frá þeim. Þessu yrði safnað saman í aðgengilegu gagnasafni. Efni greinanna yrði auk þess tengt öðrum fáanlegum heimildum og ítarefni á íslensku (auk annarra skyldra greina í öðrum tölublöðum blaðsins). Það sem er sérstaklega áhugavert, út frá kennslufræðilegum sjónarhóli, er að nemandinn gæti með þessu móti tekið blað af handahófi og valið sér þá grein sem höfðar til hans/hennar. Kjörið sem frjáls verkefnavinna.

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Daglegt lif: Frí, vinna og kosningar.

Frá og með deginum í dag kemst ég í þriggja daga vetrarfrí (fram að helgi). Aftur tilheyrum við sérkennarar á Dalbrautinni minnihlutahópi kennara því á meðan aðrir kenna fáum við þetta ljúffenga frí. Það ætla ég svo sannarlega að nota til að vaka fram eftir í nótt og fylgjast með kosningunum. Svo vill einmitt til að Vigdís var að vinna á næturvakt síðustu nótt (og er á kvöldvakt á morgun) þannig að við gerum okkur drjúga sjónvarpsstund með einhverju góðgæti. Rétt áðan leitaði ég að Ben / Jerry ís úti í búð (sem ég kallaði hálf vandræðalega Tomma og Jenna ís) til að maula eitthvað verulega amerískt, en tímdi því ekki. 100 ml pakkning kostar rúmlega tvöhundruð kall! Það gerir rúmar 2000 krónur lítrinn, takk fyrir. Nei takk, það er að segja. Þegar heim kom beið mín svo kjörseðill mitt í þessu aðdraganda kosninganna í Bandaríkjunum sem ávarpaði mig svona: "Samþykkir þú miðlunartillögu ríkissáttasemjara?". Ósjálfrátt hugsa ég með mér að þar sem ég er nýbyrjaður í kennslunni þá sé ég mjög sáttur við launin (þau eru um 70% hækkun frá laununum á sambýlinu) og hef því engan áhuga á verkfalli sjálfur en þar sem ég er á undanþágu sem sérkennari er mér einnig sama þó ég haldi áfram í verkfalli því það bitnar ekki í sjálfu sér á mér. Ég hef því hvorki ástæðu til að vera með læti út af launum né verkfalli. En því er ekki að neita að miðlunartillaga er ekki nein framtíðarlausn. Nei eða já?

mánudagur, nóvember 01, 2004

Pæling: Skaðleg áhrif teiknimynda: Happy Tree Friends

Ég er með eina áleitna spurningu sem gaman væri að fá viðbrögð við. Í skólanum eru krakkarnir nýbúnir að uppgötva teiknimyndaseríu á netinu sem heitir Happy Tree Friends. Þetta er afar sæt sería sem endar alltaf með blóðbaði og viðbjóði. Minnir sérstaklega á Itchy og Scratchy úr Simpson þáttunum. Í þessari teiknimynd er safnað saman öllum hugsanlegum dauðdögum og pyntingum þannig að viðbjóðurinn er kjarni þáttanna. Ná krakkar að yfirfæra hörmungar saklausra nammikarla á lifandi dýr og fólk? Getur efni sem er mjög óraunverulegt á yfirborðinu haft áhrif á samband manns við raunveruleikann?

Til umhugsunar vísa ég á tvær síður á netinu, önnur með faglegri umfjöllun og hin með nokkrum sýnishornum.

Frettnæmt: Tölvuaðstaðan batnar til muna

Í síðustu færslu ýjaði ég að því að tölvuhornið heima væri um það bil að taka stakkaskiptum. Núna er breytingin að baki. Tölvan mín er orðin að Makka og ég er kominn með ADSL sítengi. Ég kann einstaklega vel við umskiptin. Það er greinilegt að Macintosh er hannað fyrir, og af, hönnuðum því allt er svo einstaklega vel útfært og hugsað. Lyklaborðið er til dæmis með takka sem stýrir geisladiskaskúffunni og músinni er ekki stungið í samband við tölvuna heldur er það gert gegnum lyklaborðið. Báðar þessar lausnir eru augljósar, eftir á að hyggja, en snilldarlegar engu að síður. Viðmót stýrikerfisins er líka langtum smekklegra en á PC. Allir rammar á skjánum eru rúnnaðir og mjúkir, lítill skuggi fellur af þeim (til að mýkja umhverfið en frekar) og allt er sett fram í dempuðum litum (en ekki neon-litum PC). Það er eins og gert sé sérstaklega ráð fyrir því að það sé manneskja (með lífrænt auga) sem noti tölvuna, nokkuð sem PC-tölvur virðast ekki taka með í reikninginn. Mér líður sérlega vel innan um svona smekklega hannaðan búnað, fyrir utan þá gleði sem er fólgin í því að hafa uppfært og stækkað tölvuna til muna, svona í leiðinni.

föstudagur, október 29, 2004

Í fréttum: John Peel er fallinn frá

Í vikunni féll frá áhrifamesti útvarpsmaður breta, John Peel. Hann hafði ómælanleg áhrif með útvarpsþáttum sínum á breska tónlistarflóru með því að grafa stöðugt upp áhugavert efni í þáttum sínum auk þess sem hann bauð ungum sveitum reglulega að spila beint í hljóðveri BBC. Í mörgum tilfellum náði hann að draga fram kjarna tónlistarinnar með þessum upptökum, sem síðar meir voru gefnar undir nafni hverrar sveitar með viðskeytinu "The Peel Sessions".

Sjálfur get ég ekki sagt að ég syrgi með bresku þjóðinni því ég náði aldrei að hlusta almennilega á þættina hans. Ég er í rauninni þeim mun fúlli yfir þeirri tilhugsun að einmitt í vikunni er ég að uppfæra tölvuna mína og netsamband meðal annars með það í huga að geta hlustað á útvarp hvaðanæva úr heiminum, sérstaklega John Peel. Þetta var upphlaðin fimmtán ára tilhlökkun sem héðan í frá verður ekki af - að minnsta kosti ekki í beinni.

Fyrir þá sem vilja forvitnast er hægt að lesa sig til um eitt og annað varðandi John Peel. Fyrst má nefna all ítarlegt yfirlit yfir þá geisladiska sem hann gaf út undir yfirskrift the Peel Sessions. Annars staðar má finna áhugaverðan lista yfir þær hljómsveitir og lög sem Peel kom á framfæri í þætti sínum. Formleg heimasíða hans hjá BBC er einnig á sínum stað auk þess sem minningargreinar og viðbrögð tónlistarmanna og velunnara við skyndilegt fráfall John Peel streyma inn til stöðvarinnar. Til marks um mikilvægi John Peel í bresku tónlistarlífi mun eitt tónleikatjaldið á Glastonburyhátíðinni muni hér eftir kallast the John Peel tent og er það vel við hæfi.

mánudagur, október 25, 2004

Fréttnæmt: Bústaðarferð á Arnarstapa

Ég kem sem endurnýjaður í vinnuna á mánudagsmorgni eftir afslappandi dvöl á Arnarstapa. Þar gistum við Vigdís í sumarbústað sem systir hennar leigði yfir helgina. Reyndar var mannmargt í húsinu, rúmlega hálf fjölskyldan hennar - með tilheyrandi partísveiflu, pottadvöl og viðhafnarmáltíð, en mér tókst inn á milli að leggja mig og hvílast rækilega. Ég lagði mig oft. Þess á milli fór ég í göngutúra, meðal annars upp á hrygg Arnarstapa að aftanverðu. Það vakti upp gamlar kenndir úr landvörslunni. Mig langar eindregið að leggja meiri rækt við náttúrupríl og fjallgöngur. Á heimleiðinni á sunnudaginn tókum við lífinu með ró og stoppuðum við hvert tækifæri a leið okkar um nesið ýmist vegna útsýnis eða kaffifreistinga. Svoleiðis á það að vera.

miðvikudagur, október 20, 2004

Matur: Hvítlauksbrauð með Coctail-sósu

Mamma og pabbi voru að fá sér nýjan og glæsilegan bíl, Honda Civic jeppa, og ákváðu að hitta okkur Vigdísi í bænum, bæði til að sýna okkur gripinn og bjóða okkur að borða á Ruby Tuesday. Skammturinn á Ruby er á ameríska vísu, vel útilátinn, þannig að diskurinn minnir á hlaðborð. Ég fékk mér myndarlega fiskisamloku með frönskum og hvítlauksbrauði en þau hin fengu sér grísarifjasteik. Hvítlauksbrauðið vakti mikla lukku. Ég fékk það borið fram með Coctail-sósu. Frekar ólíkleg samsetning til árangurs en bragðaðist merkilega vel. Eftir góða máltíð (og "Doggy bag" um hönd) renndum við öll einn hring á nýja bílnum áður en við fórum heim.

mánudagur, október 18, 2004

Upplifun: Fyrsti vetrardagurinn

Rétt fyrir helgi tók ég eftir því hvað stéttin var þéttskipuð laufi. Mér varð litið upp og sá að það var nánast ekkert eftir í trjánum og hugsaði með mér: “Nú er haustið að klárast”. Viti menn, núna á mánudagsmorgni hnykkti veðrið á þessum orðum mínum með fíngerðum snjó sem fauk um í nöprum næðingi. Mikið var þetta kuldalegur morgunn. Fyrsti vetrardagur skólaársins.

Fréttnæmt: Kattaofnæmi sýnir klærnar

Ég var í heimsókn hjá vini mínum í gær og varð viðþolslaus eftir um það bil hálftíma, byrjaði að hnerra og fann fyrir logandi kláða í augum - allur pakkinn. Varð nánast að flýja út. Hálftíma seinna voru óþægindin liðin hjá eins snögglega og þau gerðu vart við sig. Þetta hef ég upplifað áður á sama stað þannig að það er ljóslega eitthvað þarna inni sem espir þessi viðbrögð upp. Líklegasta orsökin er tveir litlir kettir sem trítla um í hægðum sínum. Ekki kannast ég við að hafa nokkurn tímann haft ofnæmi fyrir köttum (hef meira að segja haft kött á eigin heimili). Mér skilst að ofnæmi getur bæði komið og farið á fullorðinsárum. Einnig getur þetta verið bundið einstökum kattategundum. Ég vona það frekar.

föstudagur, október 15, 2004

Upplifun: Svefnleysiskafli

Í gær gerði ég ekkert nema að sofa. Kom heim eftir vinnu ásamt Vigdísi og við steinlágum fram að fréttum. Löguðum svo létta súpu, horfðum aðeins meira á sjónvarpið og svo klifraði ég aftur upp í, fyrir klukkan ellefu, á meðan hún vakti aðeins áfram. Af hverju þessi þreyta? Því olli tvöföld vinnutörn (skólinn og sambýlið), sem hjá mér kemur nokkra daga í senn á tveggja vikna fresti. Einnig kenni ég kæruleysi um því ég leyfði mér vaka fram eftir yfir bók á mánudaginn var einmitt þegar ég hefði átt að vinna mér inn góðan nætursvefn. Við þetta bættist að ég var búinn að bóka mig á tónleika (Dúndurfréttir - frábær hljómsveit) á miðvikudaginn eftir vinnu og komst ekki heim þann "daginn" fyrr en hálf tvö um nóttina.

Ef ég gæti ekki að mér í þessum törnum verð ég ónýtur í nokkra daga í senn. Hversdagurinn verður að ómarkvissu sleni þegar allur uppbyggilegur rythmi riðlast. Ég horfi því með löngunaraugum til áramóta því þá klára ég uppsagnarfrestinn á sambýlinu og get loksins farið að njóta þess að vinna bara á daginn. Það hef ég ekki upplifað árum saman.

miðvikudagur, október 13, 2004

Netið: Frumefnahetjur

Ég má til að benda á bráðsnjalla hugmynd sem birtist á heimasíðunni Chemcomics. Þar eru ýmsar hasarhetjur teiknimyndaheimsins flokkaðar eftir frumefnum! Yfirnáttúrulega hæfileika þeirra má semsagt rekja til þess hvernig þeir meðhöndla frumefnin og eftir því er þeim raðað í lotukerfið. Hugmyndin er snilld og útfærslan prýðileg.


sunnudagur, október 10, 2004

Tónlist: Hlustunarkvöld. Thin White Rope

Ein af uppáhaldshljómsveitum mínum, Thin White Rope, er ekki á hvers manns vörum. Ég sá hana á lokatónleikum þeirra 1992 en þá voru þeir búnir að starfa saman í tæpan áratug. Stíll þeirra einkennist af feedback-surgi og angurværum amerískum sveitahljóm þar sem tveir gítarleikarar, bassi og gítar tala saman líkt og snákar sem hringa sig utan um hvern annan. Ég bý náttúrulega á jaðri heimsins en á þessu skeri hef ég hingað til ekki vitað um neinn til að deila hrifningu minni með, sama hversu oft ég otaði bandinu að öðrum, - þar til fyrir rúmu ári síðan. Hendrix og Nick Cave aðdáandinn Einar vann næturvaktir á sambýlinu í Vættaborgum um tíma. Hann virtist heillast af Thin White Rope þegar ég lánaði honum tvo diska. Löngu síðar hitti ég hann fyrir tilviljun á kaffihúsi og lofaði ég honum þá að fá að heyra meira. Hugmyndin þróaðist hratt upp í hlustunarkvöld heima hjá mér ásamt sameiginlegum vinnufélaga okkar, Halldóri. Í gær komu þeir saman rétt fyrir miðnætti og kinkuðu íbyggnir kolli við að heyra tónlistina sem hefur svo lengi hrifið mig. Við þetta bættist, þegar á leið nóttina, tónlist á borð við sýrða Pink Floyd, gruggugan Hendrix, Stone Roses, Cream, Spiritualized og annað í þeim dúr, svolgrað niður með kaffi, pilsner og te (í þessari röð) - nánast fram í rautt morgunsárið.

laugardagur, október 09, 2004

Lestur. Uppgötvun: Grafískar sögur.

Vigdís vinnur næturvaktir þessa helgina. Ég húmi heima í rökkrinu og reyni að hafa það notalegt á meðan. Það er svolítið undarlegt að vera svona einn þegar maður hefur vanist að búa með einhverjum. Persónulega grípur mig þörf fyrir að gera eitthvað óvenjulegt, eitthvað sem myndi ekki höfða til Vigdísar, - eitthvað sem annars væri ófélagslegt, skulum við segja. Stundum vinn ég í tölvunni við einhver hugðarefni eða sest niður og sekk ofan í bók – eða hlusta á skrýtna tónlist. Í kvöld datt ég hins vegar inn á snilldarlega afþreyingu. Þar sem ég var of þreyttur til að gera nokkuð krefjandi, og nennti ekki að horfa á sjónvarpið, fór ég að gramsa í gömlum kössum með teiknimyndasögublöðum. Þarna voru Tarzan, Spider-man, Batman og allar þessar hetjur. Fyrst kímdi ég við að sjá gömlu blöðin og handlék þau gegnum nostalgíuna en varð brátt fyrir vonbrigðum, því mér fannst sögurnar sjálfar ekki sérlega áhugaverðar. Eftir þó nokkrar flettingar greip mig hins vegar svart/hvít skáldsaga sem heitir Sin City. Þetta er tímamótaverk sem gerði teiknimyndasögur að sannkölluðu listformi og er af mörgum talið einn af hápunktum svokallaðra myndrænna skáldsagna (e. graphic novels). Hana keypti ég fyrir ábyggilega um tíu árum og hef alla tíð heillast af myndræna þættinum. Ég hef hingað til handleikið hana eins og ódauðlegt málverk. Núna settist ég hins vegar niður í húminu, sötraði Pilsner og hlustaði á eldgamla Nick Cave plötu og annað í þeim dúr á meðan ég las. Ég fann hvernig grafíska sagnaformið sameinaði snilldarlega helstu kosti bóka og kvikmynda.

þriðjudagur, október 05, 2004

Upplifun: Veður. Hvasst haust.

Þetta er nú meira rokið. Það er búið að blása nær linnulaust í tvær til þrjár vikur. Í gær gusaðist særokið yfir Sæbrautina á meðan hrikti í bílum. Maður var hálf smeykur á leiðinni milli húsa. Mikil viðbrigði frá sumrinu sem var svo gott. Ætli hlýtt sumar geti af sér hvasst haust? Það er víst orka sólar sem knýr vindana áfram.

Fréttnæmt: Skólastarf hafið á ný

Ég byrjaði að kenna í gær. Skólinn minn er hluti af meðferðarúrræði Barna- og unglingageðdeildar (sem er í næsta húsi) og vorum við því einn fimm skóla sem fengu undanþágu frá verkfallinu. Satt að segja var ég ekki alveg tilbúinn. Þetta gerðist allt mjög hratt og ég hafði engin tök á að undirbúa mig og kom (líkt og aðrir kennarar skólans) svolítið "kaldur" til leiks. Dagurinn gekk frekar illa, eftir aðstæðum, enda eru nemendur skólans mjög erfiðir og ganga á lagið ef ramminn er ekki þeim mun skýrari.

fimmtudagur, september 30, 2004

Upplifun: Baráttuandi kennara

Ég fékk þau skilaboð frá Vigdísi í gær frá trúnaðarmanni kennara í Brúarskóla að mín væri vænst í Borgartúni í dag. Eins og sakleysið uppmálað (en þó ekki grunlaus) mætti ég á staðinn og sá þar kennaramúg saman kominn. Í dag ætluðu talsmenn kennara ætluðu að funda með samningamönnum sveitastjórna. Samstaða kennara fyrir utan fundarstaðinn virtist sterk og með nokkurra mínútna millibili kvað við klappkliður, eins og gerist yfirleitt fyrir stórtónleika þegar hljómsveitin er um það bil að stíga á svið. Þá var væntanlega einhver mættur á staðinn sem ég ekki kunni skil á, sem hvarf inn í fjöldann. Nokkru síðar birtist skrúðganga kennaranema eins og herfylking úr fjarlægum heimi haldandi á stórum yfirlýsingum og þar til gerðum baráttuflöggum. Aftur tók klappkliðurinn sig upp og var nú myndarlegri en áður. Þetta minnti mig hálft í hvoru á Reykjavíkurmaraþon og úrslitaorrustu úr Hringadróttinssögu. Skrítin svona múgstemning. Þegar maður situr heima við tölvuna er nauðsynlegt að geta sveiflað sér inn í fjöldann og klappað svolítið. Þetta svalar einhverju mikilvægu í félagsþörf manns. Ég hugsa að það sé samt hættulega auðvelt að gleyma sér í stemningunni og gleyma málstaðnum.

Fræðsluþáttur: Sjónvarpið. Leitin að upptökum Nílar.

Í gær heillaðist ég af fræðsluþætti um Nílarfljót. Þetta er þriggja þátta sería sem fjallar skipulega um fljótið frá þremur ólíkum hliðum. Fyrsti þáttur tók fyrir samfélag forn-Egypta og þær goðsögulegu skýringar sem Egyptar gáfu á tilurð fljótsins sem lífgjöf og blessun guðanna (sem meðal annars birtust í líki hinna ýmsu dýrategunda, sjá hér). Annar þáttur lýsti því hvernig vistkerfi Nílar vinnur sem heild samkvæmt skilningi nútímavísinda. Síðasti þátturinn fjallaði að lokum, í gærkvöldi, um leit landkönnuða að upptökum Nílar og hélt sú frásögn manni föngnum eins og maður væri þátttakandi í þessu mikla ævintýri.

Tónlist: Nýtt efni í safnið.

Vegna verkfalls er lýklegt að fjárhagurinn dragist verulega saman á næstu vikum. Kollegar mínir, sem fá greitt fyrirfram fyrir vinnu sína, fengu “núll” krónur í launaumslagi í gær. Svolítið sjokkerandi. Ég er reyndar svo heppinn að hafa enn vaktavinnuna á sambýlinu í handarjaðrinum og bæti nokkrum vöktum við mig á meðan verkfallið varir. Ég skrimti því auðveldlega.

Á fyrstu vikum septembermánaðar leiddi ég hugann hins vegar ekki að þessu ástandi sem nú hefur myndast. Tvöfalt launaumslag veitti mér þá svigrúm til að kaupa eitt og annað sem lengi þurft að geyma með mér. Meðal annars veitti ég mér þann munað í septemberbyrjun að kaupa geisladiska sem ég hafði haft í sigtinu mánuðum saman. Þeir eru til marks um djarfa byrjun vetrarins:

Robert Schumann: Strengjakvartettar 1 & 2. Zehetmair kvartettinn spilar. Þetta er rómaður verðlaunadiskur sem tímaritið Grammofon valdi sem albestu hljóðupptöku á síðasta ári. Þeir nálgast flutninginn á óvenjulegan hátt með því að kasta fyrir róða nótunum og spila lögin eftir minni. Fyrir vikið næst meira "grúv" í spilamennskuna, svo maður noti hugtak úr rokkheiminum.
Violent Femmes: Fyrsta plata þeirra, samnefnd sveitinni. Diskurinn sem ég keypti var tvöföld sérsútgáfa þar sem þeir sveitin spinnur meðal annars lög sín á ýmsum tónleikum. Það er vel við hæfi því Violent Femmes eru alveg frábært tónleikaband (enda mætti ég á tónleikana í sumar). Mig hefur lengi og mikið langað til að eiga þennan disk og ákvað loks að slá til um leið og ég frétti af þessari sérstöku viðhafnarútgáfu.
Fleetwood Mac: Tvær eftirminnilegar plötur, nýlega endurútgefnar: Rumours og Tusk. Eins og Violent Femmes þá geyma báðar útgáfurnar sneisafullan aukadisk af sérefni og demóupptökum. Fyrri platan kom upphaflega út 1977 og var gríðarlega vinsæl á sínum tíma (hefur selst í tæplega 20 milljónum eintaka). Hin fylgdi í kjölfarið, 1979, en var mikil stefnubreyting. Tusk var tilraunakennd þjóðlagatónlist sem aldrei náði viðlíka vinsældum og Rumours en varð hins vegar með tímanum að “underground” klassík. Tusk er ótrúlega heillandi plata. Margir líkja henni við hvíta albúm bítlanna. Sundurleit og ótrúlega óheft.

miðvikudagur, september 29, 2004

Upplifun: Óvænt áhrif verkfallsins

Nú er rúm vika liðin af verkfalli grunnskólakennara. Skammtímaáhrifin á nemendur eru margs konar. Til dæmis eru krakkarnir á vergangi á daginn (hanga heima eða þvælast um bæinn) og á kvöldin eru þau, ja, - frjáls! Ekkert heimanám. Aðhaldið sem námið og heimavinnan veitir þeim er ekki lengur til staðar sem tangarhald heima. Þau leita til félaga sinna og hanga einhvers staðar úti á kvöldin, í strætóbiðskýlum, í sjoppum eða í bænum. Ég rölti um Kringluna og tók sérstaklega eftir því hvað margir krakkar eru í slagtogi við mömmu sína að kaupa í matinn. Ef maður gægist má grilla í krakka bak við hin og þessi búðarborð. Fjölskyldurnar gera allt sem þær geta til að mæta auknu álagi. Svo bitnar þetta á mér í strætó, sem er þessa dagana óvenju þéttsetinn krökkum. Á kvöldin eru þau oft með skarkala og galsa, sem eðlilegt er. Svolítið hvimleitt þegar maður kemur þreyttur heim úr vinnu seint um kvöld og vill lesa sína bók í ró og næði.

föstudagur, september 24, 2004

Lestur: Uncommon Wisdom e. Fritjof Capra

Fyrir nokkru impraði ég á fyrirbæri sem ég kallað strætóbók. Bókin sem ég hafði meðferðis í sumar er nú komin upp í hillu og ný bók tekin við hlutverki hins stöðuga strætófylginautar. Ég var sem sé að klára bókina “Uncommon Wisdom” eftir Fritjof Capra. Höfundurinn er þekktastur fyrir metsölubókina “The Tao of Physics” þar sem hann leitaðist eftir að finna samræmi milli nýjustu uppgötvana í eðlisfræði og aldagamallar vitneskju austrænna trúarbragða. Bókin sem ég hef verið að lesa undanfarið er hins vegar sjálfsævisöguleg og fjallar um leit Fritjofs að efni í bókina frægu og the Turning Point sem kom út seinna. Hann leitar til fræðimanna á sem flestum sviðum og deilir með lesandanum ferli uppgötvunar stig af stigi. Bókin er afar vel skrifuð og er á alþýðlegu og skýru máli auk þess sem Fritjof leyfir sér að miðla af hversdagslegri upplifunum sínum í leiðinni. Bókin er því hálft í hvoru fræðilegs eðlis og ferðasaga hans sjálfs um fræðin (sem er í leiðinni ferð inn á við). Hann er naskur á mannleg samskipti og lýsir frægum vísindamönnum og félögum sínum afburða vel svo að þeir spretta sem miklar og eftirminnilegar persónur fram á blaðinu (enda ber bókin undirtitilinn “Conversations with Remarkable People”). Bókin er unun í alla staði svo ekki sé minnst á þann fræðilega innblástur sem hún veitir, sérstaklega sem samtímaheimild um vísindi og fræðimenn. Vegna hrifningar minnar hef ég bætt þessari bók við rafræna bókasafnið mitt þar sem glöggva má sig á ýmsum stuttlegum tilvitnunum.

Fréttnæmt: Spurning um spelti

Vísindavefurinn var að birta svar mitt við spurningunni "Hvað er spelti og hvert er næringarinnihald þess?". Finnst í næringarfræðiflokknum. Speltisbrauð er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana eftir að ég tók að mér þessi skrif fyrir nokkru síðan. Það er bragðgott og bráðnar í munni en er að mínu mati ekkert sérstaklega gott með neinu áleggi. Best með smjöri, eintómu.

þriðjudagur, september 21, 2004

Fréttnæmt: Verkfallið nýhafið

Undanfarnar vikur er ég búinn að vinna 170% vinnu, annars vegar í skólanum (á daginn) og hins vegar á sambýlinu (á kvöldin og um helgar). Ástæðan er sú að kennarastöðuna fékk ég svo seint upp í hendurnar að mér gafst ekki ráðrúm til að segja vaktavinnunni upp með fyrirvara. Nú er komið verkfall, eins og sniðið að þörfum mínum. Ég er skikkaður til að taka mér frí og þiggja verkfallsbætur á meðan ég vinn mína gömlu vinnu. Má ekki gera neitt. Hvorki fara burt (því verkfall gæti leyst skyndilega) né sniglast kringum skólann. Það þarf líka að vera hægt að ná í mig í verkfallsvörslu. Í gær var hringt í mig snemma morguns og ég fenginn til að skjótast upp í Klébergsskóla á Kjalarnesinu. Þar sniglaðist ég um með einum samkennara mínum. Næðingur á nesinu. Við sáum ekkert athugavert við starfsemina og þeir starfsmenn sem þar voru brostu til okkar skilningsríkir á meðan við fylltum út eyðublöð. Það er sérkennilegt að vera svona peð í skák annarra og vita varla hvað gerist næst. Þó þetta bitni í sjálfu sér ekki á mér þá vonar maður að verkfallið vari ekki lengi. Ein til tvær vikur má nýta sem hvíld (veturinn byrjaði hvort eð er tveimur vikum of snemma að mínu mati). Allt annað fer að verða skemmandi fyrir okkur leikmennina.

sunnudagur, september 19, 2004

Upplifun: Þjóðminjasafnið.

Rétt fyrir helgi rölti ég inn Þjóðminjasafnið á vegum Brúarskóla. Kennurum hvaðanæva að var þar kynnt dagskrá vetrarins. Eins og var fyrir viðgerð safnsins þá stendur til að bjóða grunnskólanemum í heimsókn í vetur og mun sú þjónusta stóraukast. Að formlegum fyrirlestri loknum bauðst okkur sem þarna vorum að skoða safnið í krók og kima. Ég hreifst. Ekki er þetta einasta fallegt og smekklegt safn með rúmt til veggja heldur er safnkosti komið til skila með hugvitsamlegum og eftirminnilegum hætti. Fjölbreytni í framsetningu er mikil, tölvuaðstaða er til fyrirmyndar og mikil áhersla er lögð á að gestir fái að handleika nákvæmar eftirmyndir af hlutunum. Safnið er það skemmtilegt að það teymir mann áfram, öld fram af öld.

Tónlist: Spólan í bílnum. Blue Aeroplanes.

Ég hef verið mjög heillaður undanfarna daga af hljómsveit sem heitir Blue Aeroplanes. Þetta er gömul uppáhaldshljómsveit sem ég hlustaði talsvert á fyrir um fimmtán árum. Þeir voru uppi á sama tíma og R.E.M. og spila að mörgu leyti svipaða tónlist, nema bara svolítið sérvitringslegri. Þeir höfðu áhrif á R.E.M. með sínu skrítna þjóðlagapoppi, og öfugt. En hvað um það, núna rúllar spóla með þeim hring eftir hring í bílnum sem ég keyri á í vinnuna á morgnana. Þetta er einmitt brakandi morguninnspýting því Blue Aeroplanes hafa innilega heimilislegan og afslappaðan hljóm fullan af látlausum en lifandi hugmyndum. Spólan geymir upptökur tveggja af elstu plötum sveitarinnar, Tolerance (’85) og Spitting Out Miracles (´87), sem ég satt að segja hlustaði aldrei almennilega á í gamla daga. Ég nýt þess að “endur”-uppgötva þær núna. Seinni platan er misjöfn bæði að stíl og gæðum en geymir eftirminnilega hápunkta. Hin er látlausari en vex ótrúlega með tímanum. Hún kemur lúmskt aftan að manni sem lítil vanmetin perla. Þetta hvetur mig til að leggjast eftir langt hlé yfir meistaraverk þeirra, Swagger (´89) og Beatsongs (´91).

fimmtudagur, september 16, 2004

Fréttnæmt: Bloggið kemst á réttan kjöl á ný

Undanfarinn mánuð eða svo hefur bloggið mitt verið í lamasessi. Það sem ég hef skrifað að undanförnu hefur með undarlegum hætti safnast upp á síðu sem aðeins ég hef aðgang að í stað þess að birtast öðrum. Opinbera síðan mín hefur verið frosin á meðan. Ég leitaði ráða víða, meðal annars til tæknimanna Islandia og þeirra hjá blogger.com en báðir aðilar gáfu málið frá sér með því að vísa hvor á annan. Ég þurfti að leita á endanum til Danmerkur til Kristjáns sem þangað er nýfluttur. Reyndar varð honum starsýnt á undarlegan vanda sem engin einföld lausn var á. Að því er virtist gat síðan mín ekki með nokkru móti birst á þeim stað sem henni var upphaflega ætlaður. Hins vegar var hægt að fara í kringum hlutina með því að fá blogger til að hýsa síðuna annars staðar. Kristján hefur oft reynst mér vel sem netráðunautur. Ég fagna lausn hans með mikilli tilhlökkun um að halda áfram að skrifa. Í leiðinni minni ég á að fyrri færslur, sem hafa safnast upp í kyrrþey frá 10. ágúst, birtast hér með fyrir neðan hverjum sem er til aflestrar.

Ath. þeir sem krækja: Vefslóð bloggsins hefur breyst. Aðkoman frá aðalsíðunni virkar hins vegar á sama hátt og áður.

þriðjudagur, september 07, 2004

Tónlist: Bunkinn. Lou Reed, Spirualized, "Passion".

Sem fyrr geng ég frá geisladiskastafla sem hrannast hefur upp að undanförnu. "Bunkinn" er jafnan tónlist sem ég hef sótt í reglulega og hefur efni hans bara ekki náð að rata ofan í skúffu aftur. Núna einkennist hann af Lou Reed og hans arfleifð. Ég hef verið að hlusta á nokkur af hans helstu meistaraverkum enda hélt hann tónleika í Höllinni í síðasta mánuði. Einnig greip mig fljótandi sýrurokk Spiritualized og tók ég sérstaklega eftir því hvað Ladies and Gentlemen er ótrúlega öflug plata. Hún nær því að vera bæði sveimandi og beitt. Á henni er verið að leika sér mikið með ískur, hávaða og glundroða og búa til úr því einhvers konar óútskýranlega fegurð. Það sem tók mig hins vegar heljartökum var Passion plata Gabriels. Þessi plata býr til algjörlega ný viðmið í tónlist hvað varðar tilfinningalega dýpt.


Mercury Rev: See you on the Other side
Peter Gabriel: Passion
Spiritualized: Lazer Guided Melodies
Spiritualized: Ladies and Gentlemen we Are Floating in Space
Lou Reed: Berlin
Lou Reed: Magic and Loss
Lou Reed: Ecstacy
Lou Reed: Transformer
Velvet Underground: Loaded

Upplifun: Vinnan. Þægilegt en erfitt

Nú er ég búinn að vinna í Brúarskóla við Dalbraut í nokkrar vikur. Starfið er mjög þægilegt, að mestu leyti, þ.e. góður starfsandi og ágæt aðstaða. Við byrjum ekki að vinna fyrr en hálf níu (maður mætir samt upp úr átta) og kennir fram að hádegi (eftir það er fundað um eitt og annað og næsti dagur undirbúinn). Nemendurnir eru ekki nema 2-3 talsins hverju sinni. Vinnan getur hins vegar verið afar lýjandi vegna þess að nemendurnir eru með þeim erfiðustu á landinu og koma til okkar beint af barnageðdeild (sem er í næsta húsi). Undantekningarlítið eiga þeir erfitt með einbeitingu (hafa svokallaðan "athyglisbrest") og eru gjarnan ofvirkir í þokkabót. Mikið er um þráhyggju hvers konar sem þróast stundum út í skapvonskuköst upp úr þurru. Frekjan og hortugheitin geta verið ansi mikil. Blessunarlega er krökkunum sjaldnast sjálfrátt og þau gleyma látunum fljótt og eru sem ljúflingar fljótt á eftir. Sveiflurnar reyna samt geysilega á þolinmæðina. Stundum finnst manni maður á þrotum með úrræði handa krökkunum. Enginn dagur er auðveldur.

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Kvikmyndir: Videó. Girl with the Pearl Earring & Henry Fool

Við Vigdís gerðum okkur huggulegt kvöld í rokinu í gær og tókum tvær vídeóspólur. Leigan í hverfinu býður nefnilega upp á fríspólu með hverri nýrri spólu. "Nýja" myndin var the Girl with the Pearl Earring. Hún er heillandi innsýn í Niðurlönd sautjándu aldar og það menningarsamfélag sem þar var að finna. Sagan er í raun atburðarásin að baki eins af frægustu málverkum Vermeer. Reyndar er söguþráðurinn ekki neitt ýkja merkilegur en framsetningin og kvikmyndatakan gera myndina að augnayndi.

Henry Fool er hin myndin, eftir Hal Hartley, frá 1997. Þetta er gömul uppáhaldsmynd. Frábær persónusköpun, makalaus húmor og snilldarhandrit. Samtölin og persónurnar sitja í manni lengi á eftir.

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Upplifun: Lokakvöld ólympíuleikanna

Það var gaman að horfa á hlauparana í maraþoninu í dag hlaupa frá sjálfri Maraþon til Aþenu, rétt eins og sendiboðinn gerði fyrir þúsundum ára (og hneig dauður niður á eftir). Hlýtur að hafa verið einstök upplifun fyrir hlauparana í dag. Ólympíuleikarnir eru loksins komnir heim. Gott og vel. En ætli flugeldasýningin verði ekki þá stórkostleg í Peking eftir fjögur ár! Þá eru flugeldarnir komnir heim.

sunnudagur, ágúst 22, 2004

Fréttnæmt: Viðburðarík vika

Þetta á eftir að verða eftirminnileg vika. Lou Reed hélt frábæra tónleika í Laugardalshöllinni, Ísland vann Ítalíu glæsilega á Laugardalsvellinum fyrir framan metfjölda áhorfenda og ríflega hundrað þúsund manns söfnuðust saman í miðbæ Reykjavíkur á Menningarnótt. Þessa vikuna byrjaði ég líka í nýrri vinnu, minni fyrstu dagvinnu í áraraðir. Ég vinn í gamla Dalbrautarskólanum (undir yfirstjórn Brúarskóla). Þetta er lítil og hugguleg kofaþyrping í Laugardalnum í mjög vernduðu umhverfi. Í næsta húsi er Barna- og unglingageðdeild. Þaðan koma nemendur okkar og sinnum við skólaskyldu þeirra frá hálf níu til hádegis. Síðan er fundað, tekið til og undirbúið fyrir næsta dag. Reiknað er með að vinnu ljúki fyrir klukkan fjögur að jafnaði en vinnutími er samt nokkuð sveigjanlegur. En þetta er dagvinna og það er mikil breyting fyrir sjóaðan vaktavinnumann að svissa yfir, eins og að fljúga á milli tímabelta. En það er þess virði því nú get farið að nýta kvöldin markvissar en undanfarin ár.

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Upplifun: Sest á rónabekk

Ég hitti Bjart rétt áðan og rölti með honum Austurstrætið. Ég keypti mér drykkjarjógúrt og við settumst á bekk sem oftast er skipaður rónum. Þetta vissum við reyndar en það kom okkur samt nokkuð í opna skjöldu að kona nokkur, sjúskuð mjög, með hlandblett um sig miðja, skyldi vinda sér að okkur með drafandi frasann "Betra er að gefa en þiggja". Hún var sem sé að sníkja sígarettu af okkur. Hjá okkur kom hún að sjálfsögðu að tómum kofanum. Þegar hún áttaði sig á því vildi hún sýna okkur framtönn sem hún var að brjóta úr sér. Þá sáum við skarðið í daufu brosinu. Hlandlyktin var á þessum tímapunkti orðin megn og við fundum okkur afsökun til að yfirgefa bekkinn.

Kvikmyndir: Vídeó. Gothika.

Í gær sáum við Vigdís Gothika. Ég hafði enga sérstaka trú á henni fyrirfram. Hún kom mér því mjög á óvart fyrir að vera áhugaverð allan tímann. Hún nær gæsahúðinni á köflum og bregður manni hæfilega þess á milli. Það sem er best við hana er þó handritið og lyftir það henni í úrvalsflokk hryllingsmynda. Minnir að sumu leyti á The Others og Nattevagten.

Fréttnæmt: Nýr sófi í stofuna

Við Vigdís fréttum af smekklegum, drapplituðum og gamaldags sófa sem var til sölu fyrir slikk. Þessi sófi er bólstraður og því afar notalegur að sitja í, ólíkt gamla garminum. Reyndar tók Greiðabílstjórinn sér það bessaleyfi að henda gamla sófanum í ruslgám bara af því að nytjagámurinn var fullur (í stað þess að fara í næsta útibú Sorpu). Þessu komst ég að eftir á og var afar pirraður yfir því. Reyndar tekur nýi sófinn sig vel út í stofunni og allar sjónvarpsstundir verða notalegri. Engu að síður situr meðferð gamla sófans í mér. Hann hefur fylgt mér lengi.

mánudagur, ágúst 16, 2004

Fréttnæmt: Kór öðlast nafn í skírnarmessu

Í gærmorgun mætti ég í skírnarmessu til að syngja með tvöföldum karlakvartett. Þetta er vanur sönghópur sem ég hef hóað saman á undaförnum misserum í samvinnu við Bjart Loga. Við ætlum okkur að bjóða upp á óvenjulega söngdagskrá þegar líður á veturinn ásamt því að skemmta okkur vel í samsöng jafn óðum. Við komum saman síðasta vor og æfðum í nokkur skipti. Tónlistin hljómaði fljótt mjög vel í hópnum og prógrammið var bæði áhugavert og spennandi en það var sama hvað við reyndum, við gátum ekki fundið nafn á hópinn. Nafnaleitin kraumaði undir í sumarfríinu og á þeim tíma hafa margar ágætar (en misalvarlegar) hugmyndir litið dagsins ljós:

Bjartur yfir Betlehem
Sönghópurinn org"andi"
Hinn Íslenski tvöfaldi söngkvartett.

En nafnlausir komum við hins vegar til leiks í gærmorgun og áttum í vændum okkar fyrsta opinbera söng. Vont var að geta ekki kynnt sig með nafni við þetta tilefni. En eitthvað var það nú við þessa skírnarmessu því á sama tíma og lítill drengur hlaut nafnið Ágúst Viðar fór prestur um víðan völl og talaði um "gull og græna skóga". Bjartur greip frasann á lofti og viðraði við okkur hina eftir messuna. Það var öllum ljóst í þessari skyndingu að frasinn er rausnarlegur og vísar einnig á mjög opinn hátt bæði til náttúru og menningar. Einnig býður hann upp á fjölmarga orðaleiki og útúrsnúninga, sem er mikill kostur. Gull og grænir skógar var því samþykkt einróma. Við hlutum skírn að messu lokinni.

föstudagur, ágúst 13, 2004

Matur: Uppskrift. Eggjaloka með tómötum, lauk og Camembert.

Í hitanum sem búinn er að vera undanfarið er ómögulegt að borða þungan mat. Það er líka sóun að eyða of miklum tíma í matseld þegar hægt er að spranga um úti við. Ein af uppáhaldsuppskrifum okkar Vigdísar, allt frá því við kynntumst fyrir um tveimur árum, er einmitt létt eggjaloka sem smellapassar inn í sumarið. Hún bragðaðist að venju vel í hitanum:

Annars vegar bakan sjálf:
1. Hræra saman 4 egg með graslauk (má sleppa), salti og pipar.
2. Hella á pönnu í tveimur skömmtum (þ.e. tvö egg á mann).
3. Þegar eggin líta út eins og falleg pönnukaka er hún tilbúin fyrir fyllinguna.

Hins vegar fylling:
1. Hita lauk (1 stk.) á pönnu þar til hann glærist.
2. Bæta skornum tómötum við (4 stk.) og malla smástund
3. Bæta Camambert osti við (hálft stykki). Nokkrar sekúndur.

Fylling er sett inn í eggjalokuna og henni lokað. Gott með ristuðu brauði og pilsner.


Upplifun: Strætóbók á sundlaugarbakka.

Strætóbók (sbr. nýlega færslu) er mjög teygjanlegt hugtak. Hún kemur að góðum notum á kaffihúsi jafnt sem sundlaugarbakka. Í blíðviðrinu undanfarið höfum við Vigdís sem sé nýtt okkur sundlaugarnar og aðferðafræðin hefur með tímanum tekið á sig suðrænan blæ (þ.e. handklæði + gosdrykkur + bók og sundlaugin aðeins nýtt til kælingar). Ég tók eftir því hvað fólk var frekt á sitt. Sundlaugarbekkirnir voru hernumdir af heilu fjölskyldunum í stað þess að samnýta færri bekki og leyfa fleiri að njóta. Fyrir vikið komust gestirnir almennt upp á lagið með að sveima um eins og hrægammar. Ég leit ofan í bókina mína á bakkanum og sá að orð búddíska hagfræðingsins Fritz Schumacher (Small is Beautiful) rímuðu vel við upplifunina:


"it does not require more than a simple act of insight to realise that infinite growth of material consumption in a finite world is an impossibility"

Ég saup á gosinu mína, hallaði mér í átt að sólinni og hlustaði á gjálfrið í vatninu. Þvílík sumarlok! Þegar við yfirgáfum sundlaugina sveimuðum við Vigdís í hitanum í átt til næstu ísbúðar. Mér varð að sjálfsögðu oft hugsað til þess hvað ég var heppinn að vera í fríi á svo sólríkum degi. "Work less and live better" sagði kallinn einhvers staðar í bókinni. Svo sannarlega hugsaði ég með mér. Það er málið.


Pæling: Áhrifamáttur kvikmyndanna

Þegar ég spilaði gömlu Lou Reed plöturnar mínar fyrir Vigdísi um daginn, yfir skrabblinu, tók ég eftir að hún þekkti Perfect Day betur en flest önnur lög. Þessu hef ég tekið eftir í umræðum mínum við aðra að undanförnu í hvert skipti sem Lou Reed hefur borið á góma. Það þekkja allir Perfect Day. Það sem er athyglisvert við þetta er að lagið var ekkert þekkt áður en það sló óvænt í gegn í Trainspotting fyrir tæpum tíu árum (1996) (sjá handrit myndarinnar). Ég fór að kanna þetta nánar og grunur minn var staðfestur: Lagið birtist ekki á einni einustu safnplötu Lou Reed framan af ferlinum (og safnplöturnar eru margar), ekki einu sinni á afskaplega ítarlegu 45 laga safni sem kom út 1993 (Between Thought and Expression). Núll og nix. Lagið var nánast ekki til. Árið 1996, í kjölfar myndarinnar, birtist Perfect Day hins vegar í fyrsta skipti á safnplötu og árið eftir er kemur út enn önnur safnplata. Hún heitir einfaldlega Perfect Day, hvorki meira né minna. Mér finnst þetta vera sláandi dæmi um allt að því óhuggulegan áhrifamátt kvimyndanna. Hvernig var þetta með Doors um árið?

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Tónlist: Uppgötvun: Lenny Kravitz.

Í gærkvöldi komum við Vigdís okkur vel fyrir kringum hringborðið í stofunni, spiluðum skrabbl og hlustuðum á Lou Reed fram eftir kvöldi: Transformer (´72), Berlin (´73) og Magic & Loss (´92) í tilefni af tónleikum hans eftir viku (sem við bæði ætlum á). Vigdís gjörsigraði mig í skrabblinu (aldrei þessu vant :-) og við tókum upp Yatzyið í kjölfarið. Í leiðinni skiptum við um tónlist og við tók safnplatameð Lenny Kravitz úr safninu hennar. Í gegnum tíðina hefur mér aldrei þótt Kravitz sérlega áhugaverður tónlistarmaður en það sló mig skyndilega hvað hann var þrátt fyrir allt merkilega góður á sínu sviði. Hann gerir það meistaralega að blanda saman gömlum tónlistarstefnum og slípa þær til í grípandi popplög. Mér skilst á Allmusic (sjá síðustu færslu) að þrjár fyrstu plöturnar hans séu afar traustar. Ég á eftir að hafa það á bak við eyrað (eða þannig).

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Netið: Alfræðibanki um tónlist. Allmusic.

Það er margt jákvætt um tölvur að segja, þrátt fyrir allt. Allir þekkja Amazon - sem er upplifun út af fyrir sig. Lengi vel fannst mér sá staður einn og sér réttlæta tilvist vefsins (sem annars er uppfullur af tilgangslausu rusli). Tónlistarsíður allmusic eru einnig slíkar síður. Þar er netið nýtt til að gera eitthvað einstakt sem aðeins tölvutæknin ræður við. Þetta er í raun tónlistarhandbók þar sem tengingar eru nýttar til hins ýtrasta til að skoða allar hugsanlegar tengingar á milli tónlistarmanna. Ég á ekki orð til að lýsa því hversu vel þetta gengur upp. Eftir nýlega uppfærslu (sjá síðustu færslu) eru síðurnar enn betri en áður, bæði gagnvirkari og myndrænni, með auknum fjölda af hljóðskrám auk þess sem þær flokka tónlist ótrúlega skemmtilega í þessari nýju útgáfu. Þvílíkur alfræðibanki!

Pæling: Tölvuheimur og fíkn

Tvær ástæður urðu þess öðru fremur valdandi að ég ákvað að uppfæra tölvuna mína. Í fyrsta lagi eignaðist ég nýverið prentara sem gerði ráð fyrir XP stýrikerfinu. Á meðan hann lá ónothæfur við hlið tölvunnar komst ég jafnframt að því að uppáhaldsvefsvæðið mitt hefði verið uppfært þannig að með gamla stýrikerfinu mínu hafði ég ekki lengur greiðan aðgang að því. Ég var svo sem sáttur við tölvuna mína eins og hún var en var orðinn þreyttur á að eiga erfitt með að taka á móti brengluðum viðhengjum og tölvupósti frá öðrum. Netheimurinn uppfærist reglulega og með því móti rýrnar notagildi tölvunnar minnar þannig að maður er nánast neyddur til þess að uppfæra reglulega. Það að kaupa tölvu er því bindandi fíkn. Eins og fíkillinn (sem reynir að birgja sig upp af efnum af ótta við að verða uppiskroppa) lifir tölvunotandin sífellt í ótta við að græjurnar hans verði úreltar. Ég fer ekki leynt með það að viðhorf mitt til tölvutækninnar er afar blendið. Helst vildi ég geta keypt tölvu og notið kosta hennar óskert í eins og tíu ár. Rétt eins og hljómflutningstækin mín, sem ég keypti fyrir fimmtán árum og standa enn fyrir sínu.

mánudagur, ágúst 09, 2004

Fréttnæmt: Tölvan uppfærð

Til er hugtak í félagsfræðinni sem útleggst sem "the new poor". Það á við um það bjargarleysi í tækniheiminum sem margir upplifa frá degi til dags yfir því þeir geta ekki með góðu móti skilið tækni nútímans (og verða fyrir vikið að treysta á aðra í hvívetna). Ég fell að mestu leyti undir þann flokk. Sem betur fer er Villi bróðir og vinur hans Guðmar mjög færir á þessu sviði og tilkippilegir þegar (neyðar-)kallið kemur. Í gær fékk ég þá í heimsókn í nokkra klukkutíma til að uppfæra tölvuna mína. Hún þurfti í raun að færa sig upp um stýrikerfi (frá 98 yfir í xp) en til þess að það gengi upp varð ég einnig að bæta vinnsluminnið og stækka harða diskinn (XP er hálfgert skrímsli og þarf fáránlega mikið pláss). Í leiðinni pantaði ég prufumánuð hjá Fjöltengi (sem boðið var upp á ókeypis). Græjurnar eru því klárar og puttarnir spenntir, tilbúnir að pikka og pikka...

Upplifun: Hitamistur í lok sumars

Ég fór út rétt áðan og tók eftir því að þrátt fyrir sólarleysi liggur hitamistur yfir borginni til tilheyrandi "útlandalykt". Samkvæmt veðurspánni á að vera heitt næstu dagana. Líklega síðustu "góðu" dagar sumarsins. Ég er heppinn því frá og með deginum í dag er ég í tveggja vikna sumarfríi frá Vættaborgum og er nýbúinn að vinna af mér rigningu síðustu tveggja vikna.

föstudagur, ágúst 06, 2004

Pæling: Strætóbókin

Menn þekkja vel hugtakið náttborðsbók. Með því að hafa bók á náttborðinu finnst oft í viku friðsöm náðarstund sem margir upplifa einungis á jólunum eða uppi í sumarbústað. Þetta er mikils virði. Ég á mér hins vegar strætóbók Hún er allt annars eðlis en náttborðsbókin. Hún má til dæmis ekki vera svo spennandi að hætta sé á að maður gleymi sér. Hún má heldur ekki krefjast svo mikillar einbeitingar að utanaðkomandi áreiti stuði mann (allt frá hristingi vagnsins yfir í tillitslausan umgang annarra farþega). Einnig verður bókin að geta notið sín í smáum afmældum skömmtum því strætólestur er bútalestur. Umfram allt þarf hún hins vegar að bjóða upp á vangaveltur því fátt er betra eftir mergjaða málsgrein en að líta upp drjúga stund og geta leyft nýju innihaldi hugans að reika um lifandi og síbreytilegt landslagið sem rennur hjá.

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Fréttnæmt: Jákvætt svar við starfsumsókn

Loksins almennilegar fréttir! Ég fékk jákvætt svar við um það bil mánaðargamalli starfsumsókn um núna rétt eftir helgi. Þetta er sérkennarastarf í Brúarskóla. Brúrarskóli er nýstofnsettur (aðeins tveggja ára gamall) og er hálfgerð skammtímavistun því þangað fara nemendur aðeins tímabundið (í sex vikur hver hópur). Þeir sem eiga erindi í skólann eru að jafnaði nemendur sem eiga erfitt með að fóta sig í öðrum skólum, finna sig ekki í bekkjarkerfinu eða heltast úr lestinni sökum tilfinningalegs eða sálræns vanda. Hlutverk "okkar" (núna get ég orðað þetta svona) er að koma faglegu fótunum undir nemendurna og styrkja sjálfstraustið áður en við sendum þau til baka. Við kennum þeim að sjálfsögðu öll hin helstu fög, jafnhliða hinni félagslegu endurnýjun, svo nemendurnir missi nú ekki úr á meðan. Í þessu starfi tvinnast því saman listilega eins konar aðhlynning og formleg kennsla. Ég verð að viðurkenna að ég gerði mér alltaf raunhæfar vonir um að fá þetta starf en það þarf líka að treysta á lukkuna. Eftir mánaðarbið get ég ekki sagt annað en að ég sé í dag dauðfeginn (og í leiðinni himinlifandi) yfir að vera búinn að finna lendingu fyrir veturinn. Ég byrja að vinna 16. ágúst og hlakka mikið til, enda lofar starfsandinn afar góðu við fyrstu kynni.

þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Kvikmyndir: Vídeó. The Whale Rider.

Í gær tókum við Vigdís spólu á leigu. Það var hin margrómaða mynd the Whale Rider. Við urðum satt að segja fyrir talsverðum vonbrigðum. Þetta er reyndar falleg og göfug saga en hún er afskaplega einföld, fyrirsjáanleg og illa sögð. Handritið er pirrandi á köflum. Leikurinn nær því að vera rétt mátulega góður. Töfrar myndarinnar voru eflaust til staðar á breiðu kvikmyndatjaldi en á ferköntuðum litlum sjónavarpsfleti skiluðu þeir sér ekki vel.

Netið: Uppfærsla. Nokkrar nýjar undirsíður

Ég var rétt í þessu að dæla nokkrum undirsíðum á Uppskriftasvæðið mitt. Þó þessi undirsíða hafi upphaflega verið helguð uppskriftum verður hún hálf rytjuleg á næstunni enda ætla ég að viðra þar ýmislegt annars konar efni áður en ég flokka það betur síðar.

sunnudagur, ágúst 01, 2004

Upplifun: Árið er 1986

Í dag eyddi ég eftirmiðdeginum með Birki frænda mínum á vappi um bæinn, Kolaportið og ýmsar verslanir. Hann er rúmlega tíu árum yngri en ég svo hann átti auðvelt með að draga mig inn í tölvuna sína þegar heim var komið. Þar rak ég augun í áramótaskaup frá 1986. Mér fannst ég sogast aftur í tímann til þess samfélags sem var að reisa Kringluna, tók á móti Reagan og Gorbatsjov, prufukeyrði Stöð tvö og varð fyrir árás spellvirkja í hvalbátahöfn. Spaugstofan (sem ekki var enn til formlega) stóð að þessu skaupi eins og árið á undan. Þau tvö standa enn hátt upp úr minningu annarra skaupa. Eins og kunnugt er hefur Spaugstofunni verið úthlutað skaupinu í ár og hugsa ég mér því verulega gott til áramótaglóðarinnar að þessu sinni. Ætli þeim takist að vekja upp sams konar stemningu og í hin tvö skiptin?

laugardagur, júlí 31, 2004

Tónlist: Coldplay Live 2003. DVD.

Rétt fyrir svefninn drógum við Vigdís fram DVD-disk sem ég hafði nýlega fengið að láni. Tónleikarnir voru flottir, vel spilaðir, myndatakan og hljóð til fyrirmyndar og klippingar vel til þess fallnar að draga mann nær upplifuninni á staðnum. Mæli með diskinum fyrir þá sem yfirleitt hlusta á þessa tónlist. Ágætis heimildarmynd um tónleikaferðalagið sjálft fylgdi með á diskunum. Með henni sá maður tónleikana í stærra samhengi. Annað aukaefni fannst mér hins vegar enn athyglisverðara. Boðið var upp á nokkur sérvalin lög af tónleikunum frá "öðru sjónarhorni". Það fannst mér frábær pæling. Eitt laganna var sýnt aftan frá. Annað var sýnt með fjórum samtímis "close-up" myndum af hljóðfæraleikurunum. Spáið í þetta: Hægt væri með þessari tækni að búa til hreina og klára "endurupplifun" þeirra sem voru á staðnum með því að bjóða þeim upp á að smella á þann stað í salnum þar sem þeir voru staðsettir.

Upplifun: Inversk stemning

Í matarboðinu í gærkvöldi náðist upp austurlensk stemning. Með pakistönsku matarlyktinni hljómaði indversk tónlist úr ýmsum áttum og myndaði seiðandi bakgrunn. Að mat loknum tók ég fram sérstök kóreysk teglös sem ég fékk að gjöf nýverið og voru þau vígð farsællega við þessar aðstæður. Hellt var upp á japanskt "leðurte" eins og ég kalla það (með þéttum og mögnuðum beiskum keim). Bragðið er ekki fyrir hvern sem er en virtist þó falla í ágætan farveg, enda var ekki laust við að það nánast svifi á mann eftir matinn. Eina sem ég hefði viljað bæta við var reykelsi sem oft logar hér í íbúðinni en kannski hefði því verið ofaukið. Jón og Margrét voru að minnsta kosti mjög sátt við matinn og borðuðum við öll af bestu lyst.

Matur: Uppskrift. Pakistanskur grænmetispottréttur

Í gær var mikill uppáhaldsréttur okkar Vigdísar á boðstólum er Jón Már og Margrét kíktu í kvöldmat. Pakistanskur matur er mjög skyldur indverskum mat þannig að matseldin er á kunnuglegum slóðum (indverskt grænmetisfæði fellur líklega undir sérsvið mitt í matargerð). Svona gerum við:

1. Laukur hitaður í olíu (2-3 msk. ólifuolía og 1 stór laukur, smátt skorinn). Laukurinn glæraður í um 1-2 mínútur.

2. Hvítlauk og engifer bætt út í (2 rif af hvítlauk og ein lófastór engiferrót, fersk, fínt söxuð). Mallar í 1-2 mínútur í viðbót.

3. Kryddað (1 msk karrí, 1 tsk. chilipipar, 1 tsk. salt, 1 tsk. cumminduft, 1 tsk. kóríanderduft, 1 tsk kardimommuduft). Mallar áfram í 2 mínútur.

4. Kókosmjólk (3 dl. eða ein dós) bætt úr í. Lok sett á pottinn. Látið malla í um 5 mínútur. Hræra öðru hvoru svo rétturinn brenni ekki við.

5. Grænmetinu bætt úr í (3 stk. gulrætur í þunnum sneiðum, 3 stk. smátt skornar kartöflur, 1/2 blómkálshöfuð í smáum bitum, 250g af "frosnum" (en þiðnuðum) grænum baunum). Hræra vel í um eina mínútu. Loka svo pottinum og sjóða í um 10 mínútur eða þar til grænmetið er orðið meyrt.

6. Lokahönd: Strá ferskum kóríanderlaufum yfir (ca. hálfu búnti).

Borið fram með hrísgrjónum, fersku grænmeti (tómötum, gúrkum), kotasælu ásamt Nan-brauði sem fæst í flestum matvörubúðum. Meðlætið skal óspart nota til að tempra matinn ef hann skyldi vera mjög bragðsterkur. Mælt er með vatni með þessum mat eða svalandi mjólkurdrykk á borð við hinn indverska Lassi.






föstudagur, júlí 30, 2004

Matur: Uppskrift. Fríkkað upp á kalda pastaklessu

Í vinnunni um daginn benti einn íbúanna svangur á kalt samanklesst pasta frá deginum áður. Hveitiklumpurinn var í fljótu bragði óárennilegur en eftir að ég skildi sundur nokkrar einingar af minni klumpum virtist mögulegt að búa til sæmilegt æti úr þessu. Fyrst stráði ég hvítlaukssalti yfir (ekta hvítlaukur hefði líka verið góður) og lét nokkrar skeiðar af rjómaosti yfir. Þetta fór inn i örbylgjuna. Heitt gumsið var því næst hægt að hræra í sundur og gera nokkuð girnilegt. Þá bættist köld kotasæla og smátt skornir bitar af agúrku. Þá vantaði ekkert nema salt og pipar. Ég lét það reyndar eiga sig því í eldhúsinu fundust cashew-hnetur (sem eru nokkuð saltar) og sáldraði yfir. Þar með var verkinu lokið og ég fann mig knúinn til þess að smakka áður enn skálin var étin með bestu lyst.

Fréttnæmt: Verslunarmannahelgin

Aftur kenni ég vinnutörn um nokkurra daga þögn. Nú er ég búinn að vinna samfellt í tæpar tvær vikur og fagna mjög þriggja daga hvíld, frá föstudegi til og með sunnudegi. Hvíld þessa helgina þýðir að ég held mig í Reykjavík og nýt þess að hlusta á regndropana hrökkva af harðgeru húsinu. Tjaldferð höfðar ekki til mín núna og allra síst innan um mannþröngina og lætin úti á landi.

Við Vigdís ætlum að hafa það notalegt, enda bæði í fríi þessa helgina. Bjóðum Jóni Má og Margréti kærustu hans í mat í kvöld. Við ætlum að bjóða upp á einn af uppáhaldsréttum okkar Vigdísar sem er Pakistanskur grænmetispottréttur. Daginn eftir er líklegt að Kristján og Stella (sem eru á leið til Danmerkur í miðjum ágúst) hafi eitthvað á prjónunum ásamt vinafólki okkar Einari og Sólveigu. Ekki er neitt ákveðið enn þá en ýmsar hugmyndir í gangi og fara þær að einhverju leyti eftir veðri.

Annars hef ég ekki verið alveg iðjulaus milli vinnutarna. Meðal annars að umstafla dóti hjá nýfluttri Beggu systur minni. Við ákváðum að allt dótið færi best í gegnsæjum plastkössum sem raðast saman hver ofan á annan með stærðfræðilegri nákvæmni. Mig langaði nánast að ráðast á geymsluna mína í kjölfarið því þetta kemur óhemju snyrtilega út í samanburði við brúnu pappakassana. Ég læt mér hins vegar nægja um sinn að setja upp litla snaga á kommóðuna sem geymir græjurnar mínar. Þeir eru ætlaðir heyrartólum sem ég á nokkur eintök af í ýmsum stærðum. Þetta á eftir að koma vel út.

mánudagur, júlí 26, 2004

Tónlist: Bunkinn. Come, Miles, Codeine, Radiohead...

Heima hjá mér eiga geisladiskarnir það til að safnast í bunka við græjurnar. Þetta á einkum við um þá diska sem kalla á frekari hlustun. Eftir nokkrar vikur sit ég því uppi með frágangsbunka. Þegar ég gaumgæfi hann rifjast tímabilið sem er að baki upp að einhverju leyti. Nú horfi ég á einn slíkan sem bakgrunn síðustu vikna:

Lhasa: The Living Road
Damien Rice: "O"
Come: Eleven: Eleven
Come: Don´t Ask, Don´t Tell
Miles Davis: In a Silent Way
John Coltrane: A Love Supreme
Codeine: Barely Real
Codeine: Frigid Stars
Calexico: The Black Light
Radiohead: Hail to the Thief
Radiohead: Amnesiac
Band of Holy Joy: Positively Spooked

Matur: Uppgötvun. Vanilluís út í jógúrtskálina.

Í morgun langaði mig ógeðslega mikið í vanilluís en þurfti samt helst að fá mér staðgóðan morgunmat. Lausnin var náttúrulega sú að blanda þessu tvennu saman. Með nokkrum skeiðum af vanilluís bragðast jógúrt ótrúlega vel. Þetta er svona svipað og með klaka út í gos. Ísinn kemur í báðum tilvikum með óvæntan ferskleika. Lykillinn er náttúrulega sá í þessu tilviki að vanilluís er hrein mjólkurafurð og mjög skyld jógúrtinu (bara miklu kaldari).

Upplifun: Tónlistarkvöld. Klassískir tenórar.

Á föstudagskvöldið var fór ég á svokallað "tónlistarkvöld" ásamt tveimur vinnufélögum. Þetta hefð sem hefur myndast meðal "strákanna" á vinnustaðnum, hálfgerður "karlaklúbbur" sem gengur út á að húsráðandinn hverju sinni renni tónlistarlegu þema í gegn á meðan við skröfum um eitt og annað í afslöppuðu tómi. Í þetta skiptið var Árni (sem er söngnemi með meiru) og Ásthildur kærastan hans gestgjafarnir. Árni leyfði okkur Halldóri (sem hefur gítarmenntun sem tónlistarlegan bakgrunn) að heyra í hinum og þessum klassísku tenórum. Við gæddum okkur á einkar myndarlegu hlaðborði veitinga ásamt eðal rauðvíni. Ásthildur hafði áður fyrr unnið sem þjónn og kom sú reynsla fagmannlega við sögu þar sem hún birtist öðru hvoru og skenkti í glösin en sinnti öðrum hlutum í næsta herbergi þess á milli. Það var frábært að opna eyrun fyrir frábærum söng Gigli, Pavarotti, Björling, Carreras og fleiri söngvurum, sérstaklega í þessu samhengi. Rauðvínið blandaðist söngnum sérstaklega vel (eins og það væru hreinir skyldleikar á milli) og þar sem íbúðin var staðsett á hjara veraldar (á Álftanesi) myndaðist eftirminnileg stemning.

Fréttnæmt: Annir og mubluskipti

Undanfarna daga hafa fá tækifæri gefist til skrifta. Ég hef verið að vinna mikið í Vættaborgum (sambýlinu) og bókað kvöldin í einhvern selskap þess á milli. Svo hafa ýmsar aðrar reddingar tekið tíma. Til dæmis skiptum við Vigdís út rúminu mínu fyrir rúmið hennnar (ég lánaði rúmið mitt í vinahús, því ég tímdi ekki að farga því, og við innheimtum hennar rúm þaðan sem það var í biðstöðu í móðurhúsi). Í leiðinni náðum við í massíf sólartjöld úr gamla svefnherberginu hennar sem búa til eftirsóknarvert myrkur inni í svefnherbergi. Nætursvefninn hefur dýpkað tilfinnanlega í kjölfarið. Einnig tók ég mig til um daginn og skipti tölvuborðinu mínu út (og lánaði Beggu systur minni) en setti þess í stað saman uppáhaldstölvuborðið mitt sem lengi hefur legið ónotað í geymslu. Það er öllu fyrirferðarmeira en hitt borðið, en kemur betur út en ég þorði að vona. Ég held mikið upp á þetta borð. Reyndar keypti ég það á sínum tíma vegna þess að ég heillaðist af hönnuninni og varð eiginlega að eignast það. En það er önnur saga.

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Upplifun: Myrkrið nálgast

Ég var á ferðinni á bílnum seint í gærkvöldi á fyrsta þungbúna kvöldinu í kjölfar sólríkra daga. Ég uppgötvaði skyndilega að allt í kring var þétt og mikið rökkur. Stefnuljósin skinu skært. Þetta var í raun hrífandi á sinn einfalda hátt. Það er ljóst að nú stefnir aftur í skammdegið, með viðkomu í hálfrökkri águstmánaðar. Sá mánuður á alltaf sterk ítök í mér.

Matur: Uppskrift. Túnfiskréttur á pönnu með Cashew-hnetum.

Um daginn bjó ég til geggjaðan rétt á pönnu. Túnfiskur er aðalhráefnið en blandast grjónum, Cashew-hnetum og grænmeti ásamt Soya-sósu. Sósan, hneturnar og túnfiskurinn blandast undravel saman.

1. Grænmeti hreinsað og skorið. 100-200g. strengjabaunir (endarnir skornir af), 2 rauðar paprikur og 4 vorlaukar (eða 1 blaðlaukur).
2. Matarolía (4 msk.) hituð á pönnu og ofangreint grænmeti látið malla (4-5 mín).
3. Túnfiski bætt við (3 dósir eða 400g fisks, án vökva).
4. Kryddað. Soyasósa (4 msk.), salt og pipar.
5. Cashew-hnetum dreft yfir (150-200 g.)

Þetta er borið fram með hrísgrjónum, soya-sósu í stauk og fínt að hafa ferskt grænmeti með (tómata eða kínakál í strimlum).

Uppskriftin segir að túnfiskurinn þurfi að vera í vatni (en ekki olíu) ef það skiptir nokkru máli í raun.

(Upprunalega uppskrift má finna í uppskrifamöppunni frá Vöku-Helgafelli "Nýir eftirlætisréttir" í sjávarréttaflokki)

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Upplifun: Fuglaskoðun í Elliðaárdal.

Ég skellti mér í fuglaskoðun eftir kvöldmatinn nokkuð óvænt. Jón Már vinur minn hringdi í mig og tók ég hugmynd hans fagnandi um kvöldrölt innan um trén, plönturnar og þá fáeinu fugla sem kynnu að láta sjá sig. Slíkt uppbrot í borgarlífinu er alltaf kærkomið. Ferðin var reyndar auglýst af Orkuveitunni og komu allmargir á staðinn. Líklega yfir 30 manns. Að einhverju leyti stuðlaði fjöldi skoðara að varfærni fuglanna í skóginum því ekki sáum við allt sem á stefnuskránni var að berja (með augunum). Svartþröstur lét á sér kræla á steini, Auðnutittlingar sveimuðu yfir með bylgjóttu fluglagi og Skúfendur sáust kafa hver í kapp við aðra þaðan sem við enduðum göngu okkar á stiflunni. Á leiðinni til baka reyndum við sérstaklega að koma auga á Glókoll, hinn nýja landnema, en aðeins heyrðist hvellt tístið í fjarska. Stofninn sveiflast víst með Sitka-lúsinni og var hann mjög útbreiddur í fyrrasumar í kjölfar faraldar lúsarinnar veturinn 2002-3. Í ár er víst mun minna af honum. En þarna er fuglinn samt svo ekki er um að villast. Ég mun að líkindum skima um eftir honum á ný í sumar, fetandi þá slóð sem við fórum í dag.

Fréttnæmt: Bíllinn kominn í lag.

Nú er skrjóðurinn farinn að skrölta á ný. Reyndar eru þetta öfugmæli því bíllinn er óhemju hljóðlátur eftir vel heppnaða viðgerð. Það vantaði víst aðeins þéttingu (á einhverjum stað sem ég kann ekki að nefna). Lítilræði miðað við þá ógn að þurfa að skipta um gírkassa. Er ég ók bílnum heim fannst mér undarlegt að heyra ekki skrölta í gírkassanum eða finna nart í stönginni. Hann líður áfram eins og fjöður á lofti. Þetta er frábær endurnýjun lífdaga hjá bíl sem virtist ætla að verða leiðinlegur og í leiðinni talsverður léttir.

mánudagur, júlí 19, 2004

Tónlist: Kaup. Tímamótadjass á tilboði.

Ég ráfaði í Hagkaup um helgina og þefaði uppi sérstakt tilboð á geisladiskum þar. Lengi hafa fínir diskar fengist þar á um þúsundkall en núna hriplak verðið niður í 699, 499 og jafnvel 299. Svo vildi til að þeir diskar sem ég hafði augastað á voru settir á þetta lægsta verð og naut ég góðs af því að hafa smekk á skjön við fjöldann (og var það ekki í fyrsta skipti). Þarna fann ég sem sé algjöra tímamótadiska í djassheiminum, Miles Davis (In a Silent Way) og John Coltrane (A Love Supreme). Ég hef lengi velt því fyrir mér hvernig þessir diskar hljóma enda heyrt mikið talað um þá í gegnum tíðina. Til að útvatna ekki innkaupin ákvað ég að standast aðrar freistingar, á annars góðum markaði.

föstudagur, júlí 16, 2004

Matur: Karrítómatsúpa með ferskjum

Í kvöld lagaði ég áhugaverða súpu, mjög sumarlega súpu. Hún samanstóð af lauk, hvítlauk, tómat (úr dós), ferskjum (úr dós) og rjóma ásamt rækjum, kryddað með karrí og súputeningi. Bragðið var ljómandi gott en þar sem súpan fór eitthvað skringilega í magann læt ég það vera að skrifa uppskriftina að þessu sinni. Ég ætla að hafa það til siðs hér í blogginu að útlista nákvæmlega einungis þær uppskriftir sem mig langar að halda upp á, og þar sem maginn hefur úrskurðarvaldið er ég ekki viss um þessi áhugaverða súpa eigi upp á pallborðið aftur. Flott súpa samt.

Pæling: Hjólandi leiðsögn um bæinn

Nýverið heyrði ég sagt í einum fjölmiðlinum að hann væri í heimsklassa þessi hjólastígur sem liggur frá miðbænum, meðfram Ægissíðu að Ylströndinni, gegnum Fossvogsdalinn og þaðan inn í Elliðaárdalinn. Eftir því sem ég sjálfur hjóla þessa leið oftar sannfærist ég betur um þessa skoðun. Lítið þarf að sækja á brattann alla leiðina auk þess sem friðsæl íbúðarhverfi og náttúran skiptast á um að umlykja mann. Í dag hjólaði ég hins vegar sem leið lá úr vinnunni (sem er í Grafarvoginum) gegnum Bryggjuhverfið og þaðan inn í Laugardalinn, með viðkomu í Geirsnefi, gegnum miðbæinn og heim (í Vesturbæinn). Á þessari heimleið minni áttaði ég mig á því að með þessu lokaði ég "hringnum" sem áður var getið. Þvílíkur hringur! Væri ekki tilvalið að kynna útlendingum þessa leið betur? Til dæmis með því að bjóða upp á leiðsagnartúra á hjóli. Stofnkostnaður yrði lítill sem enginn. Á skiltinu stæði: Steini the cycling guide. Og ef rignir eða blæs of mikið má bjóða upp á gönguferðir um miðbæinn í staðinn, mænandi á sögulegan arkítektúr eða eitthvað praktískara (the walking guide) eða bara strætóferðir með leiðsögn um allan bæinn og úthverfin með. Reyndar myndi vefjast fyrir ferðamönnum ef maður kallaði sig "the bus guide".

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Matur: Uppgötvun. Döðlur í grjónagrautinn!

Ég stóð sjálfan mig að því að hita grjónagraut í hádeginu án þess að hafa rúsínur tiltækar. Ég er mikið fyrir sætindi af þessu tagi og prófaði því að skera niður döðlur í svipaða bita, og viti menn, það var bara betra! Það er eins og bera saman hvítan sykur og púðursykur. Döðlurnar bráðna meira í munni og eru ekki eins væmnar og rúsínurnar. Kannski er hér komin lausnin fyrir þá sem ekki vilja rúsínur í grautinn sinn?

Fréttnæmt: Samgöngustíll sumarsins

Um daginn fór bíllinn sem ég hef afnot af að láta illa. Hann ýlfraði í gírkassanum við hverja gírskiptingu. Hann er því í "salti" um stund og bíður yfirhalningar á verkstæði. Að sjálfsögðu er þetta kærkomið tækifæri til að taka fram reiðhjólið mitt góða sem ég hef ferðast mikið á gegnum tíðina. Í leiðinni keypti ég mér rauða kortið. Það er nefnilega frábær ferðamáti að hjóla innanhverfis og vippa sér með hjólið upp í strætisvagn milli hverfa og hjóla svo beina leið á áfangastað innan næsta hverfis (frekar en að hringsóla með vagninum áfram). Í gær lét ég til skarar skríða og hjólaði niður í miðbæ, tók strætó niður í Hafnarfjörð og hjólaði þar innanbæjar. Leið eins og útlendingi, nýlentnum í framandi bæ. Virkilega eins og útlendingi, enda frjáls eins og vindurinn. "Vagn og hjól" hefðu Flugleiðir eflaust kallað það hér um árið. Hjá bíl-leiðum heitir það vagn og hjól. Kjörinn samgöngustíll í borgarlandslaginu.

Tónlist: Uppgötvun. Calexico: The Black Light

Ég tók mig til og hlustaði á disk sem ég hef átt í ein fjögur til fimm ár og aldrei gefið neinn séns hingað til því hann lætur svo lítið yfir sér. Tilefnið var tiltekt í safninum mínu því reglulega grisja ég og losa mig við diska. Ég var sem sé að spá í að losa mig við diskinn með "Alt.country"-sveitinni Calexico: The Black Light. Við nána hlustun heillaði hann mig hins vegar, sérstaklega þessa skýtna samsuða sem minnti mig helst á Morricone (spagettívestrarnir), Ry Cooder (slidegítarleikari sléttunnar) og Tindersticks í sígaunaklæðum. Gengur fullkomlega upp, full af áhugaverðum og lifandi blæbrigðum. Hlakka til að hlusta á hana aftur.

sunnudagur, júlí 11, 2004

Matur: Uppskrift. Rækjuréttur með hrísgrjónum.

Í kvöld löguðum við Vigdís huggulegan mat saman: Kryddrækjur með hrísgrjónum. Þetta er léttur smáréttur eða gott sem forréttur.

1. Laukur (1 stk.) og hvítlaukur (4 rif) saxað og mýkt á pönnu (2msk ólífuolía auk 2msk af smjöri)
2. Rækjum (500g) bætt við og látið malla í um mínútu.
3. Kryddað (1/2 tsk Cayenne, 1/2 tsk svartur pipar, 1/4 tsk salt og nokkrir dropar tabascosósa). Hita áfram í 1-2 mín.

Þetta er borið fram með soðnum hrísgrjónum (ofan á þeim) ásamt ristuðu og vel smurðu brauði ásamt vatni.

Matseldin tók okkur um 15 mínútur eftir að rækjurnar höfðu þiðnað. Reyndar minnkuðum við uppskriftina, keyptum rúm 300g af rækjum og miðuðum við það. Það var passlegt sem þægileg kvöldmáltið fyrir tvo. Ís með heitri súkkulaðibráð og ferskum jarðaberjum fylgdi í eftirrétt. Bætti upp lélega sjónvarpsdagskrá og vel það.

(Upprunalega uppskrift má finna í uppskrifamöppunni frá Vöku-Helgafelli "Nýir eftirlætisréttir" í sjávarréttaflokki)

Upplifun: Uppákoma á Vegamótum

Ég fór í bæinn í gær ásamt Vigdísi að hitta ýmsa gamla kunningja. Er við vorum búin að sitja dágóða stund á Vegamótum kom barþjónninn að okkur og bað um kertið sem stóð á borðinu í myndarlegums stjaka. Í stað þess að endurnýja kertið fjarlægði hann stjakann með öllu. Það var engu líkara en hann treysti ekki galsanum í hópnum kringum logann. Nokkru síðar kom annar þjónn og fjarlægði stóra mynd í ramma af veggnum fyrir ofan okkur. Ég leit á klukkuna (sem var um hálf tólf) og þurfti að fullvissa mig um að það væri ábyggilega laugardagur, að það væri ekki verið að loka. Þá sagði einhver að nú væri verið að breyta kaffihúsinu í skemmtistað! Þetta kannast ég ekki við að hafa upplifað á öðrum stöðum. Ætli fleiri kaffihús/skemmtistaðir gangi í gegnum svona andlitslyftingu á miðnætti?

laugardagur, júlí 10, 2004

Netið: Fréttavefur af bestu gerð

Til að hamra á hugmyndinni um efnisskiptar færslur mun ég færa inn öðru hvoru stuttlega umfjöllun um vefi sem vekja athygli mína og varðveita tenginguna með því móti. Eitt skemmtilegasta fréttablað sem ég fletti er Independent og er vefurinn þeirra mjög vel heppnaður. Efnisflokkarnir eru mjög skýrir og aðgengilegir. Fréttaflutningurinn blessunarlegar lausir við æsifréttamennsku. Þetta verður því fyrsta færslan í netflokknum: http://www.independent.co.uk/

Fréttnæmt: Uppfærsla. Breytingar á blogginu.

Bloggfærslurnar mínar koma til með að breytast á næstunni. Eins og sjá má hef ég ekki verið iðinn við að skrifa og mun það að líkindum breytast á næstunni. Einnig hefur útlitið tekið breytingum. Blátt hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Að lokum vil ég benda á þau nýmæli að í upphafi hverrar færslu tek ég fram þemað sem færslan fellur undir. Þegar fram í sækir ætla ég að flokka þessi þemu en fyrs um sinn mun þetta einungis nýtast sem snöggsoðin lýsing á innihaldi póstsins. Að mestu útskýrir þetta sig sjálft en fljótlega kemur nánari útskýring.

Steini